VETRARBLÓTIР Á  GAULUM


eftir Þorgils gjallanda

Um kvöldið var drukkinn tvímenningur. Og hlaut Ölvir að sitja hjá dóttur jarlsins.

Bæði stóðu í fegursta blóma æskunnar; hann mikill vexti og hermannlegur, gleðimaður og allra manna málsnjallastur, dökku augun lýstu bæði eldfjöri og gáfum. Og hún björt eins og vordagur, íturvaxin og göfugleg, en köld á svip og stórmannleg. Björt og köld sem jökulfell; en þeim kulda yfirborðsins skyldi enginn trúa; jökulsvell hið ytra og vellandi eldur hið innra. Það er ekkert náttúru afbrigði.

Hún var metnaðarleg í sætinu, þótti ekki sessunauturinn ókunni jafnborinn sér að ættgöfgi og vildi láta hann lúta jarlstigninni og þeirri fegurð, sem hún vissi, að hún bar yfir allar aðrar.

Ölvir sá um leið og hún settist, hvað stórlátan sessunaut hann hafði hlotið.

Að sigra, sauð jafnskjótt í skapi unga víkingsins.

Hann tók til að segja hernaðarsögu þeirra frændanna um sumarið; lýsti orustunum svo að hver maður þóttist sjá allt, finna og þreifa á. Frægð Þórólfs og Eyvindar og hermanna þeirra, sín gat hann raunar að engu; hafinu, storminum, skipunum, dró það æði tryllt og rjúkandi með fám dráttum og aldrei að svipta hljómaði gegnum brimorgið svo frjálst og hermannlegt, að allir störðu undrandi á skáldið, sem efnið hafði tekið svo hann mundi ekkert annað.

Um leið og hann tók við horninu mættust augu þeirra.

Hún varð að líta niður jarlsdóttirin og setti dreyrrauða við.

Og svo þegar Ölvir hafði yfir drápuna um Hálfdan svarta, sem fáir kunnu svo með að fara sem hann, þá fann hann og vissi, að augu jarlsdótturinnar, full með aðdáun og unaði, hvíldu títt og þrátt á honum.

Þegar mærin gekk til rekkju um kvöldið fann hún að á einum dagsparti hafði hún lært að meta mannfríðindi yfir allt annað, yfir ættgöfgi og tignarnafn. Að hún hafði engan séð jafn göfugan og fagran og hugljúfan eins og hersissoninn frá Berðlu, hann Ölvi hnúfu.

Svo djarfur, svipheiður, vitur og málsnjallur að leyndustu draumar hjarta hennar virtust hafa fengið fegurðar- og unaðsþrána uppfyllta. Titrandi óró sauð í blóði hennar og undarlega mjúksár unaður vafði allan heiminn í töfrablæju fegurðarinnar. En eitt gat hún glögglega ákveðið - að þessum manni snerist allur hugur hennar - að hún varð að njóta æskulífsins og kynnast honum betur. Hvaða áhrif fegurð hennar hefði haft? Hún vissi það ekki, en vonaði - vonaði og dreymdi.

Drykkjan gat ekki slökkt tilfinningarnar, sem brutust um í hjarta Ölvis, ekki glaumurinn eða glaðværðin, þegar konurnar gengu burtu varð höllin dauf og dimm, ölið bragðlaust og gleðin heimska.

*

Haustsólin rann til viðar og helgaði hauður og haf sælli ró og unaðslegri eldlegri geisladýrð.

Síðasta erindi kvæðisins titraði á vörum æskumannsins og það var algleymis unaður yfir þeim tveim einum saman.

Það varð þögn - svo mættust augu þeirra; bæði fundu, hvað hér var mjótt milli ljóss og myrkurs, lífs og dauða.

Hann lagði handlegginn yfir mittið á henni og hvíslaði:

"Gætirðu gleymt að þú ert jarlsdóttir og orðið kona víkingsins - kona mín?"

"Ég. - Ég get það," og hún hneig að brjósti hans.

Brennandi koss, og sólarroðinn vígði þau saman til lifandi lífs.

*

Dyngjan var læst og inni þar sat kona á stóli og starði beint fram, augun voru þurr og glampandi, henni var varnað táranna. Hún vissi, hvað það þýddi, ef faðir hennar neitaði. Hann svo drambsamur og ríkilátur mundi aldrei sveigjast, aldrei segja annað: Það var forlagadómur, er hann kvað upp yfir þeim tveimur.

Hún sá hvítföla andlitið unnustans, síðasta tillit hinna talandi augna; sá höndina grípa um meðalkafla sverðsins og líkt og steinstirðna þar; heyrði hann segja síðast orða: "Tign - Og ef ég nú vinn þá frægð og tign, sem lifir mörgum öldum eftir að Atli jarl er gleymdur? Ég skal vinna tign þrátt fyrir, að þú synjar mér konunnar og það með háðung."

Sá bottför þeirra bræðra, fann lífið deyja - æskulíf þeirra beggja sveipast myrkri og frosti.

Þá vildi hún ekki gefa tárunum rúm að renna, ekki bera sig að eins og hernuma ambátt - og nú - nú í einverunni gat hún ekki grátið. - Hvað fegin hún vildi nú geta grátið.

*

Eyvindur fékk fátt orða af bróður sínum á heimleiðinni, og ekki annað en það að þeir skyldu um vorið eftir með fulltingi Þórólfs frænda þeirra drepa Atla jarl og taka brott Solveigu að bræðrum hennar nauðgum. En það var þvert á móti skapi Eyvindar, að brjóta svo landslög og frið. Hann þekkti ákafa bróður síns og örlyndi, ætlaði að fyrnast mundi yfir, er frá liði.

"Ger þú annað, bróðir, yrk heldur og mun þá yfir fyrnast; veit ég þú kannt, þó að þú látir hljótt um."

"Ekki er nú vænlegt um það, og svo sem ég er örgeðja, var mér þó ekki að skapi að slíkt yrði heyrin kunnugt, en þó er ekki örvænt að ég megi freista."

Sumarið eftir fóru þeir í víking Þórólfur og Eyvindur lambi, en Ölvir vildi ekki fara, fyrst þeir þverneituðu herferð hans og heimsókn í Gaulir.

Mansöngsvísur hans til Solveigar hinnar fögru urðu afhald allra ungra elskenda, hann sjálfur varð skjótt þjóðfrægt skáld, en gleði og æskufjör kom ekki fram, nema í ljóðum hans. Vonbrigði og svipull og stuttur ástadraumur hafði breytt lífi hans, en tigninni gleymdi hann ekki, konungsskáldið náði tigninni með íþrótt sinni, en mót forlögum gat hann ekki barist og sigrað, konuna fékk hann aldrei.

En hvert erindi var kveðið fyrst og femst fyrir hana, knúið úr djúpi hjarta hans fyrir hana, sprottið af ást og endurnært af harmsfullri þrá.

Og margir dáðust að kviðlingum hans og unnu þeim, en enginn eins og hún; jarlsdóttirin, sem ávallt þráði og þreyði; hún sem ekki hafði vængina til að fljúga, ekki önnur vopn til að kefja sorgina en endurminninguna; að lifa í henni var eina fróin, og það starf lífsins að bera harm í hljóði, láta á engu bera, leyna helgidómi hjartans fyrir öllum. Vera fögur og ríkilát meðan lífið vannst.
Netútgáfan - janúar 2000