HÁLFDANAR  SAGA  SVARTA
1. kafli

Hálfdan var þá veturgamall er faðir hans féll. Ása móðir hans fór þegar með hann vestur á Agðir og settist þar til ríkis á Ögðum þeim er átt hafði Haraldur faðir hennar. Hálfdan óx þar upp. Var hann brátt mikill og sterkur og svartur á hár. Var hann kallaður Hálfdan svarti. Hann var nítján vetra er hann tók konungdóm á Ögðum. Fór hann þá þegar inn á Vestfold og skipti ríki við Ólaf bróður sinn svo sem fyrr er ritað.

Sama haust fór hann með her á Vingulmörk á hendur Gandálfi konungi og áttu þeir margar orustur og höfðu ýmsir sigur. En að lyktum sættust þeir og skyldi Hálfdan hafa Vingulmörk hálfa sem áður hafði haft Guðröður faðir hans.

Eftir það fór Hálfdan konungur upp á Raumaríki og lagði undir sig. Það spurði Sigtryggur konungur son Eysteins konungs. Hann hafði þá aðsetu á Heiðmörk og hafði áður lagið undir sig Raumaríki. Fór þá Sigtryggur konungur í móti Hálfdani konungi og varð þar orusta mikil og hafði Hálfdan sigur. En er flóttinn brast var Sigtryggur konungur lostinn öru undir vinstri hönd og féll hann þar. Síðan lagði Hálfdan undir sig allt Raumaríki.

Eysteinn hét annar son Eysteins konungs, bróðir Sigtryggs. Hann var konungur á Heiðmörk. En er Hálfdan konungur kom út á Vestfold þá fór Eysteinn konungur með her sinn út á Raumaríki og lagði þar þá víða undir sig.


2. kafli

Hálfdan svarti spurði að ófriður var á Raumaríki. Dró hann þá her saman og fór á Raumaríki á hendur Eysteini konungi og áttu þeir orustu. Hafði Hálfdan sigur en Eysteinn flýði upp á Heiðmörk. Hálfdan konungur fór þá með her sinn á Heiðmörk eftir honum og áttu þeir þar aðra orustu og hafði Hálfdan sigur en Eysteinn flýði norður í Dala á fund Guðbrands hersis. Hann efldist þaðan að liði, fór síðan út á Heiðmörk. Hann hitti Hálfdan svarta í ey hinni miklu er liggur í Mjörs og áttu þeir þar orustu og féll mart manna af hvorumtveggjum og hafði Hálfdan konungur sigur. Þar féll Guttormur son Guðbrands hersis er mannvænstur þótti vera á Upplöndum. Þá flýði Eysteinn konungur enn norður í Dala.

Þá sendi hann Hallvarð skálk frænda sinn á fund Hálfdanar konungs að leita um sættir en fyrir sakir frændsemi gaf Hálfdan konungur upp Eysteini konungi hálfa Heiðmörk svo sem þeir frændur höfðu fyrr átt. En Hálfdan konungur lagði undir sig Þótn og þar sem Land heitir og Haðaland því að hann herjaði víða. Var hann þá og allríkur konungur.


3. kafli

Hálfdan svarti fékk Ragnhildar dóttur Haralds gullskeggs. Hann var konungur í Sogni. Þau áttu son er Haraldur konungur gaf nafn sitt og fæddist sá sveinn upp í Sogni með Haraldi konungi. En er Haraldur konungur var örvasi að aldri þá átti hann engan son og gaf hann Haraldi dóttursyni sínum ríki sitt og lét hann taka til konungs. Litlu síðar andaðist Haraldur gullskeggur. Þann sama vetur andaðist Ragnhildur dóttir hans en eftir um vorið varð sóttdauður Haraldur konungur ungi í Sogni. Þá var hann tíu vetra gamall.

Þegar er Hálfdan svarti spurði andlát hans þá byrjar hann ferð sína með miklu liði og fer norður til Sogns. Var þar vel við honum tekið. Taldi hann þar til ríkis og arfs eftir son sinn og var þar engi mótstaða. Lagði hann undir sig það ríki. Þá kom til hans Atli jarl hinn mjóvi af Gaulum. Hann var vin Hálfdanar konungs. Setti konungur hann yfir Sygnafylki að dæma þar landslög og heimta skatta til handa konungi. Fór þá konungur til Upplanda í ríki sitt.


4. kafli

Hálfdan konungur fór um haustið út á Vingulmörk.

Það var á einni nótt þar sem Hálfdan konungur var á veislu að um miðnætti kom til hans maður sá er hestvörð hélt og sagði honum að her var kominn nær bænum.

Konungur stóð upp þegar og bað hirðmenn sína vopna sig. Síðan gengur hann út í garðinn og fylkti. Því næst komu þar Gandálfssynir, Hýsingur og Helsingur, með lið mikið og tókst þegar orusta. En fyrir því að Hálfdan konungur var ofurliði borinn flýði hann til skógar og lét mart manna. Þar féll Ölvir hinn spaki fósturfaðir Hálfdanar konungs.

Eftir það dreif lið til konungs. Fór hann þá að leita Gandálfssona og hittust á Eiði við Eyja og berjast. Þar féll Hýsingur og Helsingur en Haki bróðir þeirra kom á flótta. Eftir það lagði Hálfdan konungur undir sig alla Vingulmörk en Haki flýði í Álfheima.


5. kafli

Sigurður hjörtur er nefndur konungur á Hringaríki. Hann var meiri og sterkari en hver annarra. Hann var og manna fríðastur sýnum. Faðir hans var Helgi hinn hvassi en móðir hans var Áslaug dóttir Sigurðar orms í auga Ragnarssonar loðbrókar. Svo er sagt að Sigurður var þá tólf vetra gamall er hann drap Hildibrand berserk í einvígi og þá tólf saman. Mörg vann hann þrekvirki og er löng saga frá honum. Sigurður átti tvö börn. Ragnhildur hét dóttir hans. Hún var allra kvenna skörulegust. Var hún þá á tvítugsaldri. Guttormur hét bróðir hennar. Hann var á ungmennisaldri. En það er sagt frá atferð Sigurðar að hann reið einn saman út á eyðimerkur. Hann veiddi stór dýr og mannskæð. Hann lagði á það kapp mikið jafnan.

Það var einn dag að Sigurður reið einn saman út á merkur sem vandi hans var til. Og er hann var langa hríð riðinn kom hann fram í rjóður nokkuð í nándir Haðalandi. Þá kom þar móti honum Haki berserkur með þrjá tigu manna. Féll þar Sigurður hjörtur en tólf menn af Haka en sjálfur hann lét hönd sína og hafði þrjú sár önnur. Eftir það reið Haki við menn sína til bús Sigurðar og tók í braut Ragnhildi dóttur hans og Guttorm bróður hennar og mikið fé og marga dýrgripi og hafði heim á Haðaland. Þar átti hann bú stór. Þá lét hann efna til veislu og ætlaði að gera brúðlaup til Ragnhildar en það dvaldist fyrir að sár hans höfðust illa.

Haki Haðaberserkur lá í sárum um haustið og öndverðan vetur. En um jól var Hálfdan konungur á veislu á Heiðmörk. Hann hafði spurt öll þessi tíðindi.

Það var einn morgun snemma er konungur var klæddur, kallaði til sín Hárek gand, sagði að hann skyldi fara yfir á Haðaland "og fær mér Ragnhildi dóttur Sigurðar hjartar."

Hárekur bjóst og hafði hundrað manna, stillti svo ferðinni að þeir komu yfir vötnin í óttu til bæjar Haka, tóku dyr allar á skála þeim er húskarlar sváfu í. Síðan gengu þeir til svefnbúrs þess er Haki svaf í og brutu upp, tóku í brott Ragnhildi og Guttorm bróður hennar og allt fé það sem þar var en þeir brenndu skálann og alla menn þá er inni voru. Þeir tjölduðu vagn einn allveglegan og settu þar í Ragnhildi og bróður hennar og fóru til íssins. En Haki stóð upp og gekk eftir þeim um hríð. En er hann kom að vatnsísinum þá sneri hann niður hjöltum á sverðinu en lagðist á blóðrefilinn svo að sverðið stóð í gegnum hann. Fékk hann þar bana og er hann heygður á vatnsbakkanum.

Hálfdan konungur sá að þeir fóru um vatnsísinn því að hann var allra manna skyggnstur. Hann sá vagn tjaldaðan og þóttist vita að erindi þeirra Háreks mundi orðið það sem hann vildi. Lét hann þá setja borð sitt og senda menn víða um byggðina og bauð til sín mörgum mönnum og var þar þann dag veisla mikil og prýðilega ger. Og að þeirri veislu fékk Hálfdan konungur Ragnhildar og var hún síðan rík drottning.

Móðir Ragnhildar var Þórný dóttir Klakk-Haralds konungs af Jótlandi, systir Þyri Danmarkarbótar er átti Gormur hinn gamli Danakonungur er þá réð Danaveldi í þann tíma.


6. kafli

Ragnhildi drottning dreymdi drauma stóra en hún var spök að viti.

Sá var einn draumur er hana dreymdi að hún þóttist vera stödd í grasgarði sínum og þóttist taka þorn einn úr serk sér. En er hún hélt á honum þá óx hann svo að það varð teinn mikill svo að annar endir tók í jörð og varð brátt rótfastur en annar endir tók hátt í loft upp. Og því næst sýndist henni tréið svo mikið að hún fékk varla séð yfir upp. Það var og furðu digurt. Hinn neðsti hlutur trésins var rauður sem blóð en leggurinn upp fagurgrænn en limarnar hvítar sem snjár. Þá voru kvistir á trénu margir og stórir, sumir ofar en sumir neðar. Limar trésins voru svo miklar að henni þóttu dreifast um allan Noreg og enn miklu víðara.


7. kafli

Hálfdan konung dreymdi aldrei. Honum þótti það undarlegt og bar fyrir þann mann er nefndur er Þorleifur spaki og leitaði ráða hvað er að því mætti gera. Þorleifur sagði hvað hann gerði ef hann forvitnaði nokkurn hlut, að hann færi í svínabæli að sofa og brást honum þá eigi draumur.

Konungur gerði það og birtist honum draumur þessi. Honum sýndist sem hann væri allra manna best hærður og var hár hans allt í lokkum, sumir síðir svo að tók til jarðar, sumir í miðjan legg, sumir á kné, sumir í mjöðm eða miðja síðu, sumir eigi lengra en á háls en sumir ekki meir en sprottnir upp úr hausi sem knýflar. En á lokkum hans var hvers kyns litur. En einn lokkur sigraði alla við fegurð og með ljósleik og mikilleik.

Þenna draum sagði hann Þorleifi spaka en Þorleifur þýddi svo að mikill afspringur mundi koma af honum og mundu hans ættmenn löndum ráða með miklum veg og þó eigi allir með jafnri frægð, en einn mundi sá af hans ætt koma er öllum mundi meiri og frægari. Og hyggja menn það að sá lokkur jarteini hinn helga Ólaf konung.


8. kafli

Hálfdan konungur var viskumaður mikill og sanninda og jafnaðar og setti lög og gætti sjálfur og þrýsti öllum til að gæta og að eigi mætti ofsi steypa lögunum. Gerði hann sjálfur saktal og skipaði hann bótum hverjum eftir sínum burð og metnaði.

Ragnhildur drottning ól son og var sá sveinn vatni ausinn og kallaður Haraldur. Hann var brátt mikill og hinn fríðasti. Óx hann þar upp og gerðist þegar íþróttamaður snemma og vel viti borinn. Móðir hans unni honum mikið en faðir hans minna.


9. kafli

Hálfdan konungur tók jólaveislu á Haðalandi. Þar varð þá undarlegur atburður jólaaftan er menn voru til borða gengnir og var það allmikið fjölmenni, að þar hvarf vist öll af borðum og allt mungát. Sat konungur hryggur eftir en hver annarra sótti sitt heimili. En til þess að konungur mætti vís verða hvað þessum atburð olli þá lét hann taka Finn einn er margfróður var og vildi neyða hann til sannrar sögu og píndi hann og fékk þó eigi af honum. Finnurinn hét þannug mjög til hjálpar er Haraldur var sonur hans og Haraldur bað honum eirðar og fékk eigi, og hleypti Haraldur honum þó í brott að óvilja konungs og fylgdi honum sjálfur. Þeir komu þar farandi er höfðingi einn hélt veislu mikla og var þeim að sýn þar vel fagnað.

Og er þeir höfðu þar verið til vors þá var það einn dag að höfðinginn mælti til Haralds: "Furðu mikið torrek lætur faðir þinn sér að er eg tók vist nokkura frá honum í vetur en eg mun þér það launa með feginsögu. Faðir þinn er nú dauður og skaltu heim fara. Muntu þá fá ríki það allt er hann hefir átt og þar með skaltu eignast allan Noreg."


10. kafli

Hálfdan svarti ók frá veislu á Haðalandi og bar svo til leið hans að hann ók um vatnið Rönd. Það var um vor. Þá voru sólbráð mikil. En er þeir óku um Rykinsvík, þar höfðu verið um veturinn nautabrunnar en er mykrin hafði fallið á ísinn þá hafði þar grafið um í sólbráðinu. En er konungur ók þar um þá brast niður ísinn og týndist þar Hálfdan konungur og lið mikið með honum. Þá var hann fertugur að aldri.

Hann hafði verið allra konunga ársælstur. Svo mikið gerðu menn sér um hann að þá er það spurðist að hann var dauður og lík hans var flutt á Hringaríki og var þar til graftar ætlað þá fóru ríkismenn af Raumaríki og af Vestfold og Heiðmörk og beiddust allir að hafa líkið með sér og heygja í sínu fylki og þótti það vera árvænt, þeim er næðu. En þeir sættust svo, að líkinu var skipt í fjóra staði og var höfuðið lagt í haug að Steini á Hringaríki en hverjir fluttu heim sinn hluta og heygðu og eru það allt kallaðir Hálfdanarhaugar.
Netútgáfan - ágúst 1999