SAGA  INGA  KONUNGS  OG  BRÆÐRA   HANS
1. Upphaf Inga konungs

Ingiríður drottning og með henni lendir menn og hirð sú er Haraldur konungur hafði haft réðu það að hleypiskip var gert og sent norður til Þrándheims að segja fall Haralds konungs og það með að Þrændir skyldu taka til konungs son Haralds konungs, Sigurð er þá var norður þar og Sáða-Gyrður Bárðarson fóstraði, en Ingiríður drottning fór þegar austur í Vík. Ingi hét sonur þeirra Haralds konungs er var að fóstri þar í Víkinni með Ámunda Gyrðarsyni Lög-Bersasonar. En er þau komu í víkina var stefnt Borgarþing. Þar var Ingi til konungs tekinn. Þá var hann á annan vetur. Að því ráði hurfu Ámundi og Þjóstólfur Álason og margir aðrir stórir höfðingjar.

En er þau tíðindi komu norður til Þrándheims að Haraldur konungur var af lífi tekinn þá var þar til konungs tekinn Sigurður sonur Haralds konungs og hurfu að því ráði Óttar birtingur og Pétur Sauða-Úlfsson og þeir bræður Guttormur af Reini Ásólfsson og Óttar balli og fjöldi annarra höfðingja. Og snerist undir þá bræður nálega allur lýður og allra helst fyrir þess sakar að faðir þeirra var kallaður heilagur og var þeim svo land svarið að undir engan mann annan skyldi ganga meðan nokkur þeirra lifði sona Haralds konungs.


2. Frá Sigurði slembidjákn

Sigurður slembidjákn sótti norður um Stað og þá er hann kom á Norð-Mæri voru allt komin fyrir honum bréf og jartegnir ráðamanna þeirra, er snúist höfðu undir hlýðni við sonu Haralds konungs og fékk hann þar enga viðurtöku eða uppreist. En með því að hann var sjálfur liðfár þá réðu þeir það að stefna inn í Þrándheim því að hann hafði áður gert orð fyrir sér inn þannug til vina sinna og til vina Magnúss konungs er blindaður hafði verið. En er hann kom til Kaupangs reri hann upp í ána Nið og komu festum á land í konungsgarði og urðu þá undan að leita því að lýður allur stóð í móti. Þeir lögðu síðan til Hólms og tóku þar út úr klaustranum Magnús Sigurðarson af nauðgum munkunum. Hann hafði tekið áður munksvígslu. Sú er fleiri manna sögn að Magnús færi að sjálfs sín vilja þótt þetta væri gert til bótar um hans mál og vænti af þessu sér liðsafla og svo gerðist og gafst. Og var þetta þegar eftir jól. Fóru þeir Sigurður út eftir firðinum.

Síðan sótti eftir þeim Björn Egilsson, Gunnar af Gimsum, Halldór Sigurðarson, Áslákur Hákonarson og þeir bræður, Benedikt og Eiríkur, og hirð sú er verið hafði fyrr með Magnúsi konungi og fjöldi annarra manna. Þeir fóru með flokkinn suður fyrir Mæri og allt fyrir Raumsdalsmynni. Þeir skiptu þar liði sínu og fór Sigurður slembidjákn vestur um haf þegar um veturinn en Magnús fór til Upplanda og vænti sér þar mikils liðs sem hann fékk. Var hann þar um veturinn og um sumarið allt á Upplöndum og hafði þá mikið lið.

En Ingi konungur fór með liði sínu og hittust þeir þar sem heitir í Mynni. Varð þar mikil orusta og hafði Magnús konungur meira lið.

Svo er sagt að Þjóstólfur Álason hafði Inga konung í kiltingu sér meðan orusta var og gekk undir merki og kom Þjóstólfur í mikla nauð af erfiði og atsókn og er það mál manna að þá hafi Ingi fengið vanheilindi það er hann hafði allan aldur síðan og knýtti hrygginn en annar fóturinn var skemmri en annar og svo afllítill að hann var illa gengur meðan hann lifði.

Þá sneri mannfallinu á hendur Magnúss konungs mönnum og féllu þessir í öndurðri fylking: Halldór Sigurðarson og Björn Egilsson, Gunnar af Gimsum og mikill hluti liðs Magnúss áður hann vildi flýja eða undan ríða.

Svo segir Kolli.

Unnuð austr fyr Mynni
oddhríð en brá síðan,
hilmir, fékkstu und hjálmi
hrafns verðar, lið sverðum.

Og enn þetta:

Fyrr lá hans en harri
hringmildr fara vildi
verðung öll á velli,
vígfimr konungr himni.

Magnús flýði þaðan austur á Gautland og þaðan til Danmerkur.

Í þenna tíma var Karl jarl Sónason í Gautlandi. Hann var ríkur og ágjarn. Magnús blindi og hans menn sögðu svo, hvar sem þeir komu fyrir höfðingja, að Noregur mundi liggja laus fyrir ef nokkurir stórir höfðingjar vildu til sækja er engi var konungur yfir landinu og lendra manna forráð var þar yfir ríkinu. En þeir lendir menn, er fyrst voru til forráða teknir, þá var nú hver ósáttur við annan fyrir öfundar sakir. En með því að Karl jarl var ágjarn til ríkis og áhlýðinn um fyrirtölur þá safnar hann liði og ríður austan í Víkina og gekk mart fólk undir hann fyrir hræðslu sakir.

En er þetta spyrja þeir Þjóstólfur Álason og Ámundi þá fóru þeir í móti með því liði er til fékkst og höfðu með sér Inga konung. Þeir hittu Karl jarl og her Gauta austur á Krókaskógi og áttu þar aðra orustu og fékk Ingi konungur sigur. Þar féll Munán Ögmundarson móðurbróðir Karls jarls. Ögmundur faðir Munáns var sonur Orms jarls Eilífssonar og Sigríðar dóttur Finns jarls Árnasonar. Ástríður Ögmundardóttir var móðir Karls jarls. Mart féll á Krókaskógi en jarl flýði austur af skóginum. Ingi konungur rak þá allt austur úr ríki sínu og varð þeirra för hin herfilegsta.

Svo segir Kolli:

Lýsa mun eg hve ljósa,
laut hrafn í ben Gauta,
örn fylldit sig sjaldan,
sárísa rauð vísi.
Goldið varð, þeim er gerðu,
glaumherðöndum sverða,
raun er að ríki þínu,
róg, á Krókaskógi.


3. Ferð Eiríks konungs í Noreg

Magnús blindi sótti þá til Danmerkur á fund Eiríks eimuna og fékk hann þar góðar viðtekjur. Bauð hann Eiríki að fylgja honum í Noreg ef Eiríkur vildi leggja undir sig landið og fara með Danaher í Noreg og segir, ef hann kemur með styrk hers, að engi maður í Noregi mun þora að skjóta spjóti í móti honum. En konungur skipaðist við og bauð út leiðangri.

Hann fór með sex hundruð skipa norður í Noreg og var Magnús blindi og hans menn í þessi ferð með Danakonungi. En er þeir komu í Víkina þá fóru þeir til hófs nokkurs með spekt og friði austan fjarðar.

En er þeir komu liðinu til Túnsbergs var þar fyrir safnaður mikill lendra manna Inga konungs. Vatn-Ormur Dagsson bróðir Gregoríusar réð mest fyrir þeim. Þá máttu Danir eigi á land komast og eigi vatn sér taka. Var mart manna drepið af þeim.

Þá lögðu þeir inn eftir firði til Óslóar og var þar fyrir Þjóstólfur Álason. Svo er sagt að þeir vildu láta bera skrín Hallvarðs hins helga úr býnum um aftaninn og gengu svo margir undir sem við máttu komast og fengu þeir eigi lengra borið en utar á kirkjugólfið. En um morguninn er þeir sáu að herinn fór utan að Höfuðey þá báru fjórir menn skrínið upp úr býnum en Þjóstólfur og allt býjarfólkið fylgdi skríninu.


4. Bær brenndur í Ósló

Eiríkur konungur og hans menn sóttu upp í býinn en sumir runnu eftir þeim Þjóstólfi. Þjóstólfur skaut broddi að þeim manni er Áskell hét, hann var stafnbúi Eiríks konungs, og laust undir kverkina svo að yddi út hnakkann og þóttist Þjóstólfur eigi hafa skotið betra skot því að ekki var bert á honum nema það eitt. Skrín hins helga Hallvarðs var flutt upp á Raumaríki og var þar þrjá mánuði. Þjóstólfur fór um Raumaríki og safnaði hann liði um nóttina og kom ofan til býjarins um morguninn.

Eiríkur konungur lét leggja eld í Hallvarðskirkju og víða um býinn og brenndi allt upp með hringum. Því næst kom Þjóstólfur ofan með lið mikið en Eiríkur konungur lagði í brott skipaliði sínu og máttu þeir hvergi á land koma fyrir norðan fjörðinn fyrir safnaði lendra manna en hvar sem þeir leituðu til landgöngu þá lágu eftir fimm eða sex eða fleiri.

Ingi konungur lá í Hornborusundum með liði miklu. En er Eiríkur konungur spurði það þá snýst hann aftur suður til Danmerkur. Ingi konungur fór eftir þeim og henti af þeim allt það er þeir máttu. Og er það mál manna að eigi hafi verri ferð farin verið í annars konungs veldi með miklu liði og líkaði Eiríki konungi illa við Magnús og hans menn og þóttu þeir hafa mjög spottað sig er hann hafði komið í þessa ferð, lést ekki síðan skyldu vera þeirra vinur slíkur sem áður.


5. Frá Sigurði slembidjákn

Sigurður slembidjákn kom það sumar vestan um haf til Noregs. En er hann spurði ófarar Magnúss frænda síns þóttist hann vita að þá mundi hann eiga lítið traust í Noregi. Sigldi hann þá allt útleiði suður með landi og kom fram í Danmörk. Hann hélt í Eyrarsund. En suður fyrir Erri hitti hann Vindasnekkjur nokkurar og lagði til bardaga við þá og fékk sigur, hrauð þar átta snekkjur og drap þar mart manna en hengdi suma. Hann átti og orustu við Mön við Vindur og hafði sigur.

Þá hélt hann sunnan og lagði upp í Elfi í eystri kvísl og vann þar þrjú skip af liði þeirra Þóris hvínantorða og Ólafs sonar Haralds kesju systursonar síns. Móðir Ólafs var Ragnhildur dóttir Magnúss konungs berfætts. Hann elti Ólaf á land. Þórir var í Konungahellu og hafði safnað fyrir. Sigurður hélt þannug og skutust þeir á og féllu menn af hvorumtveggjum og mart varð sárt. Þeir Sigurður fengu eigi uppgöngurnar. Þar féll Úlfhéðinn Söxólfsson, norðlenskur maður, stafnbúi Sigurðar.

Sigurður lagði í brott og hélt norður í Víkina og rændi víða. Hann lá í Portyrju á Lungarðssíðu og sætti þar skipum er fóru í Víkina eða úr og rændi. Túnsbergsmenn gerðu lið að honum og komu á óvart svo að þeir Sigurður voru á landi og skiptu fengi sínu. Kom sumt lið ofan að þeim en þeir lögðu skipum um þvera höfnina fyrir utan þá. Sigurður hljóp á skip sitt og reri út að þeim en skip Vatn-Orms var þar næst og lét hann síga á hömlu. En Sigurður reri út hjá þeim og komst undan einu skipi en mart féll af liði hans.

Því var þetta ort:

Varð eigi vel við styrju Vatn-Ormr í Portyrju.


6. Dráp Benteins

Sigurður slembidjákn sigldi síðan suður til Danmerkur og týndist maður af skipi hans sá er hét Kolbeinn Þorljótsson úr Bataldri. Hann var á eftirbáti er bundinn var við skipið en þeir sigldu mikinn. Sigurður braut skipið er þeir komu suður og var hann um veturinn í Álaborg.

En um sumarið eftir þá fóru þeir Magnús sunnan sjö skipum og komu á Lista á óvart um nótt og lögðu skipum sínum að landi. Þar var fyrir Benteinn Kolbeinsson hirðmaður Inga konungs og hinn hraustasti maður. Þeir Sigurður gengu þar upp í elding nætur og komu á óvart og tóku hús á þeim og vildu leggja eld í býinn en Benteinn komst út í búr nokkuð með herklæðum og vel búinn að vopnum og stóð fyrir innan dyrin við brugðið sverð og hafði skjöld fyrir sér og hjálm á höfði, var þá búinn til varnar. Dyrnar voru heldur lágar. Sigurður spurði hví þeir gengju eigi inn. Þeir svöruðu að engi var einn fús til. En þá er þeir ræddu þetta tíðast hljóp Sigurður inn í húsið um hann. Benteinn hjó eftir honum og missti. Síðan snerist Sigurður að honum og skiptust þeir fám höggum við áður Sigurður drap hann og bar höfuð hans út í hendi sér. Tóku þeir fé allt það er var í býnum, fóru síðan til skipa sinna.

En er Ingi konungur og hans vinir spyrja dráp Benteins og þeir Kolbeinssynir, Sigurður og Gyrður, bræður Benteins, þá gerði konungur lið að þeim Sigurði og fór sjálfur og tók skip undan Hákoni pungeltu Pálssyni og dóttursyni Ásláks Erlingssonar af Sóla, systrungi Hákonar maga. Ingi elti Hákon á land upp og tók hvert fat þeirra. Þeir flýðu í Fjörðu inn undan Sigurður storkur, sonur Eindriða í Gautdali, og Eiríkur hæll bróðir hans og Andrés kelduskítur, sonur Gríms úr Visti, en Sigurður og Magnús og Þorleifur skjappa sigldu norður hið ytra fimm skipum á Hálogaland. Var Magnús um veturinn í Bjarkey með Víðkunni Jónssyni.

En Sigurður hjó stafna af skipi sínu og hjó á raufar og sökkti niður í Ægisfirði innanverðum en Sigurður sat um veturinn í Tjaldasundum í Hinn þar sem heitir Gljúfrafjörður. Í innanverðum firðinum er hellir í bjarginu. Þar sátu þeir Sigurður um veturinn meir en tuttugu menn og settu fyrir hellisdyrnar svo að eigi mátti sjá dyrnar úr fjöru. Þeir fengu Sigurði vistir um veturinn Þorleifur skjappa og Einar sonur Ögmundar af Sandi og Guðrúnar Einarsdóttur Arasonar af Reykjahólum.

Þann vetur er sagt að Sigurður léti Finna gera sér skútur tvær inn í fjörðum og voru sini bundnar og engi saumur í en viðjar fyrir kné og reru tólf menn á borð hvorri. Sigurður var með Finnum þá er þeir gerðu skúturnar og höfðu Finnar þar mungát og gerðu honum þar veislu.

Síðan kvað Sigurður þetta:

Gott var í gamma,
er vér glaðir drukkum
og glaðr grams son
gekk meðal bekkja.
Vara þar gamans vant
að gamansdrykkju.
Þegn gladdi þegn
þar lands sem hvar.

Skútur þær voru svo skjótar að ekki skip tók þær á vatni svo sem kveðið er:

Fátt eitt fylgir
furu háleyskri.
Svipar með segli
sinbundið skip.

En um vorið fóru þeir Sigurður og Magnús norðan með skútur þær tvær er Finnar höfðu gert. En er þeir komu í Voga drápu þeir Svein prest og sonu hans tvo.


7. Hernaður Sigurðar slembidjákns

Sigurður hélt þá suður í Víkar og tók þar Vilhjálm skinnara, hann var lendur maður Sigurðar konungs, annan Þóralda keft og drápu þá báða. Þá fór Sigurður suður með landi og hitti þar Styrkár glæsirófu suður við Byrðu þá er hann fór sunnan úr Kaupangi og drápu hann. En er Sigurður kom suður til Valsness þá hitti hann Svína-Grím og lét höggva af honum hina hægri hönd. Þá fór hann suður á Mæri fyrir utan Þrándheimsmynni og tók þar Héðin harðmaga og Kálf kringluauga og lét hann Héðin undan ganga en þeir drápu Kálf.

Sigurður konungur og Sáða-Gyrður fóstri hans spurðu til fara Sigurðar og hvað hann hafðist að. Þá sendu þeir menn að leita hans. Fengu þeir þá til forráða Jón köðu son Kálfs hins ranga, bróður Ívars biskups, og annan Jón prest smyril. Þeir skipuðu Hreininn er var tvö rúm og tuttugu og allra skipa skjótast. Þeir fóru að leita Sigurðar og fundu hann eigi og fóru aftur við lítinn orðstír því að menn segja svo að þeir sæju þá og þyrðu eigi að leggja að þeim.

Sigurður fór suður á Hörðaland og kom í Herðlu. Þar átti bú Einar sonur Laxa-Páls og var hann farinn inn í Hamarsfjörð til gagndagaþings. Þeir tóku fé allt er heima var og langskip hálf þrítugt er Einar átti og son hans fjögurra vetra gamlan er lá hjá verkmanni hans. Vildu sumir drepa sveininn en sumir hafa brott með sér.

Verkmaðurinn sagði þeim: "Ekki mun yður happ að drepa svein þenna og engi tilslægja er yður að hafa hann í brott. Þetta er minn sonur en eigi Einars."

Og af hans orðum létu þeir eftir sveininn en þeir fóru brott. En er Einar kom heim þá gaf hann verkmanninum fé til tveggja aura gulls og þakkaði honum sitt tiltæki og lést skyldu vera vinur hans jafnan síðan.

Svo segir Eiríkur Oddsson er fyrsta sinn reit þessa frásögn að hann heyrði í Björgyn segja frá þessum atburðum Einar Pálsson.

Sigurður fór þá suður með landi og allt í Vík austur og hitti Finn Sauða-Úlfsson austur á Kvildum er hann fór heimta landskyldir Inga konungs og létu hengja hann. Þeir fóru síðan suður til Danmerkur.


8. Bréfsending Inga konungs

Víkverjar og Björgynjarmenn mæltu að það var ósómi er Sigurður konungur og vinir hans sátu kyrrir norður í Kaupangi þótt föðurbanar hans færu þjóðleið fyrir utan Þrándheimsmynni en Ingi konungur og hans lið sat í Vík austur við háskann og varði landið og hafði átt margar orustur.

Þá sendi Ingi konungur bréf norður til Kaupangs. Þar stóðu þessi orð á:

Ingi konungur, sonur Haralds konungs, sendir kveðju Sigurði konungi bróður sínum og Sáða-Gyrði, Ögmundi svipti, Óttari birtingi og öllum lendum mönnum, hirðmönnum og húskörlum og allri alþýðu, sælum og veslum, ungum og gömlum, guðs og sína. Öllum mönnum eru kunnug vandræði þau er við höfum og svo æska, að þú heitir fimm vetra gamall en eg þrevetur. Megum við ekki að færast nema það er við njótum vina okkarra og góðra manna. Nú þykjumst eg og mínir vinir vera nær staddir vandkvæði og nauðsyn beggja okkarra en þú eða þínir vinir. Nú gerðu svo vel að þú far til fundar míns sem fyrst og fjölmennastur og verum báðir saman hvað sem í gerist. Nú er sá okkar mestur vinur er til þess heldur að við séum æ sem sáttastir og jafnast haldnir í öllum hlutum. En með því að þú afrækist og vilt eigi fara að nauðsynlegri orðsending minni enn, sem fyrr hefir þú gert, skaltu við því búast að eg mun fara á hendur þér með lið. Skipti þá guð með okkur því að eigi megum vér hafa lengur svo búið að sitja með svo miklum kostnaði og fjölmenni sem hér þarf fyrir ófriðar sakir en þú tekur hálfar allar landskyldir og aðrar tekjur í Noregi. Lif í guðs friði.
Þá svarar Óttar birtingur og stóð upp á þinginu og mælti:


9. Tala Óttars birtings

"Það er mál Sigurðar konungs að mæla til Inga konungs bróður síns að guð þakki honum góða kveðju og svo starf og torveldi er þú hefir og þínir vinir í ríki þessu að beggja okkarra nauðsyn. En þótt sumt þyki heldur örðigt í orðum Inga konungs til Sigurðar konungs bróður síns þá hefir hann mikið til máls síns í marga staði. Nú vil eg lýsa yfir mínu skapi og heyra hvort þar fylgi vilji Sigurðar konungs eða annarra ríkismanna að þú, Sigurður konungur, búist og það lið er þér vill fylgja, að verja land þitt og far sem fjölmennastur á fund Inga konungs bróður þíns sem fyrst máttu og styrki hvor ykkar annan í öllum farsællegum hlutum en almáttigur guð báða ykkur. Nú viljum vér heyra orð þín konungur."

Pétur, sonur Sauða-Úlfs bar Sigurð konung á þingið er síðan var kallaður Pétur byrðarsveinn.

Þá mælti konungur: "Vita það allir menn, ef eg skal ráða, að eg vil fara á fund Inga konungs bróður míns sem fyrst má eg."

En þar talaði annar að öðrum og hóf sinnsig hver en lauk í sama stað sínu máli sem svarað hafði Óttar birtingur. Og var þá það ráðið að stefna liði saman og fara austur í land. Síðan fór Sigurður konungur austur í Vík og hitti þar Inga konung bróður sinn.


10. Orusta við Hólm hinn grá

Sama haust komu þeir Sigurður slembidjákn og Magnús blindi sunnan úr Danmörk með þrjá tigu skipa, bæði Dana lið og Norðmanna. Það var nær veturnóttum. En er þetta spyrja konungar og þeirra lið fara þeir austur í móti.

Þeir hittust í Hvölum við Hólm hinn grá. Það var hinn næsta dag eftir Marteinsmessu. Þá var sunnudagur. Ingi og Sigurður konungur höfðu tuttugu skip og öll stór. Var þar orusta mikil en eftir hina fyrstu hríð flýðu Danir með átján skipum heim suður. Þá hruðust skip þeirra Sigurðar og Magnúss.

En er mjög var hroðið skip Magnúss, en hann hvíldi í hvílu sinni, Hreiðar Grjótgarðsson er lengi hafði fylgt honum og verið hirðmaður hans, hann tók Magnús konung í fang sér og vildi hlaupa á skip annað. Þá var Hreiðar skotinn spjóti milli herðanna og þar í gegnum en svo segja menn að þar fengi Magnús konungur bana af því sama spjóti og féll Hreiðar á bak aftur á þiljurnar en Magnús á hann ofan. En það mælir hver maður að hann þætti vel og prúðlega hafa fylgt sínum lánardrottni. Gott er hverjum er slíkan orðróm getur.

Þar féll Loðinn saupruður af Línustöðum á skipi Magnúss konungs og Bersi Þormóðarson stafnbúi Sigurðar slembidjákns og Ívar Kolbeinsson og Hallvarður fægir fyrirrúmsmaður Sigurðar slembidjákns. Sá Ívar gekk inn að Haraldi konungi og vann fyrstur á honum. Þá féll mikill hluti liðs þeirra Magnúss, því að Inga menn létu ekki undan ganga það er þeir máttu ná, þótt eg nefni fá menn til. Þeir drápu í einum hólma meir en sex tigu manna. Þar voru tveir íslenskir menn drepnir: Sigurður prestur sonur Bergþórs Mássonar, og annar Klemet sonur Ara Einarssonar.

Ívar skrauthanki, sonur Kálfs hins ranga, er síðan var biskup í Þrándheimi norður, hann var faðir Eiríks erkibiskups. Ívar hafði ávallt fylgt Magnúsi, hann komst á skip Jóns köðu bróður síns, en Jón átti Cecilíu dóttur Gyrðar Bárðarsonar. Og voru þeir í liði Inga konungs og Sigurðar og þeir komust á skip Jóns, annar Arnbjörn ambi er síðan átti dóttur Þorsteins í Auðsholti, þriðji var Ívar dynta Starason. Hann var bróðir Helga Starasonar en þrænskur að móðurkyni, hinn vænsti maður. En er liðsmenn urðu varir við að þeir voru þar þá gripu þeir til vopna sinna og gengu að þeim Jóni en þeir bjuggust við og var við sjálft að þar mundi alþýða berjast. En það varð að sætt með þeim að Jón leysti undan Ívar bróður sinn og Arnbjörn og festi fé fyrir þá en það fé var honum gefið síðan. En Ívar dynta var leiddur á land upp og höggvinn því að þeir Sigurður og Gyrður Kolbeinssynir vildu eigi taka fé fyrir hann því að þeir kenndu honum að hann hefði verið að vígi Benteins bróður þeirra.

Það sagði Ívar biskup að það hefði svo yfir hann gengið að honum hafði verst þótt er Ívar var leiddur á land upp undir öxi og hvarf áður til þeirra og bað þá heila hittast. Svo sagði Guðríður Birgisdóttir, systir Jóns erkibiskups, Eiríki Oddssyni en hún lést Ívar biskup heyra það mæla.


11. Sigurður slembidjákn handtekinn

Þrándur gjaldkeri hét maður er stýrði skipi í Inga liði. En þá var svo komið að Inga menn reru á smábátum að þeim mönnum er á sundi voru og drápu hvern er þeir náðu. Sigurður slembidjákn hljóp á kaf af skipi sínu þá er hroðið var og steypti brynjunni af sér í kafi, svam síðan og hafði skjöld yfir sér. En menn nokkurir af skipi Þrándar tóku á sundi mann einn og vildu drepa hann en sá bað sig undan og lést mundu segja þeim hvar Sigurður slembir var en þeir vildu það. En skildir og spjót og menn dauðir og klæði flutu víða hjá skipunum.

"Sjá munuð þér," segir hann, "hvar flýtur einn rauður skjöldur. Þar er hann undir."

Síðan reru þeir þannug og tóku hann og fluttu til skips Þrándar en Þrándur gerði orð Þjóstólfi og Óttari og Ámunda.

Sigurður slembir hafði haft á sér eldsvirki og var fnjóskurinn í valhnotarskurn innan og steypt um utan vaxi. Því er þess getið að það þótti hugkvæmlegt að búa svo um að aldrei vættist.

Því hafði hann skjöld yfir sér er hann svam að þá vissi engi hvort sá skjöldur var eða annar er margir flutu á sænum. Svo sögðu þeir að aldrei mundu þeir hitta hann ef eigi væri þeim sagt til hans. Þá er Þrándur kom til lands með hann þá var sagt liðsmönnum að hann var tekinn. Þá sló ópi á herinn af fagnaðinum.

En er Sigurður heyrði það þá mælti hann: "Margur vondur maður mun hér verða feginn af höfði mínu í dag."

Þá gekk Þjóstólfur Álason til þar er hann sat og strauk af höfði honum silkihúfu hlöðum búna.

Þá mælti Þjóstólfur: "Hví varstu svo djarfur, þrælssonurinn, að þú þorðir að kallast sonur Magnúss konungs?"

Hann svaraði: "Eigi þarftu jafna föður mínum við þræl því að lítils var þinn faðir verður hjá mínum föður."

Hallur sonur Þorgeirs læknis Steinssonar var hirðmaður Inga konungs og var viðstaddur þessi tíðindi. Hann sagði Eiríki Oddssyni fyrir en hann reit þessa frásögn. Eiríkur reit bók þá er kölluð er Hryggjarstykki. Í þeirri bók er sagt frá Haraldi gilla og tveimur sonum hans og frá Magnúsi blinda og frá Sigurði slembi allt til dauða þeirra. Eiríkur var vitur maður og var í þenna tíma löngum í Noregi. Suma frásögn reit hann eftir fyrirsögn Hákonar maga, lends manns þeirra Haraldssona. Hákon og synir hans voru í öllum þessum deilum og ráðagerðum. Enn nefnir Eiríkur fleiri menn er honum sögðu frá þessum tíðindum, vitrir og sannreyndir, og voru nær svo að þeir heyrðu eða sáu atburðina, en sumt reit hann eftir sjálfs sín sýn eða heyrn.


12. Píning Sigurðar slembidjákns

Hallur segir svo að höfðingjar vildu drepa hann láta þegar en þeir menn er grimmastir voru og þóttust eiga að reka harma sinna á honum réðu píslum hans og voru til þess nefndir þeir bræður Benteins, Sigurður og Gyrður Kolbeinssynir, og Pétur byrðarsveinn vildi hefna Finns bróður síns en höfðingjar og flest fólk annað gekk frá. Þeir brutu fótleggi hans í sundur með öxarhömrum og handleggi. Þá flettu þeir hann af klæðum og ætluðu flá hann kvikan og klufu svörð í höfði honum. Það máttu þeir eigi gera fyrir blóðrás. Þá tóku þeir svarðsvipur og börðu hann lengi svo að vandlega var öll húðin af svo sem flegin væri. En síðan tóku þeir og skutu stokki á hrygginn svo að sundur gekk. Þá drógu þeir hann til trés og hengdu og hjuggu síðan af höfuðið og drógu brott líkama hans og reyrðu í hreysi nokkuð.

Það er allra manna mál, vina hans og óvina, að engi maður í Noregi hafi verið betur að sér ger um alla hluti en Sigurður í þeirra manna minnum er þá voru uppi en ógæfumaður var hann um suma hluti.

Svo sagði Hallur að hann mælti fátt og svaraði fá þótt menn ortu orða á hann. En það segir Hallur að hann brást aldrei við heldur en þeir lystu á stokk eða á stein. En það lét hann fylgja að það mátti vera um góðan dreng, þann er vel væri að þrek búinn, að svo mætti standast píningar að því, að maður héldi munni sínum eða brygði sér lítt við, en það sagði hann að aldrei brá hann máli sínu og jafnléttmæltur sem þá að hann væri á ölbekk inni, hvorki mælti hann hærra né lægra eða skjálfhendra en sem vandi hans var til. Mælti hann allt til þess er hann andaðist og söng þriðjung úr psalterio [saltara] og lést honum það þykja umfram eljan og styrk annarra manna.

En prestur sá er þar hafði kirkju skammt frá lét lík Sigurðar færa þannug til kirkju. Sá prestur var vinur þeirra Haraldssona. En er þetta spurðist þá köstuðu þeir reiði á hann og létu aftur flytja líkið sem áður hafði verið og varð þó prestur fé fyrir gjalda. En vinir Sigurðar fóru síðan eftir líkinu úr Danmörk sunnan með skip og færðu til Álaborgar og grófu að Maríukirkju þar í býnum. Svo sagði Eiríki Ketill prófastur er varðveitti Maríukirkju að Sigurður væri þar grafinn.

Þjóstólfur Álason lét færa lík Magnúss konungs til Óslóar og grafa að Hallvarðskirkju hjá Sigurði konungi föður hans. Loðin saupruð færðu þeir til Túnsbergs en allt annað lið grófu þeir þar.


13. Eysteinn Haraldsson kom í Noreg

Sigurður og Ingi höfðu ráðið Noregi sex vetur. Það vor kom Eysteinn vestan af Skotlandi. Hann var sonur Haralds gilla. Árni sturla og Þorleifur Brynjólfsson og Kolbeinn hrúga, þeir höfðu farið vestur um haf eftir Eysteini og fylgdu honum í land og héldu þegar norður til Þrándheims og tóku Þrændir við honum og var hann til konungs tekinn á Eyraþingi um gagndaga svo að hann skyldi hafa þriðjung Noregs við bræður sína. Sigurður og Ingi voru þá austur í landi. Fóru þá menn í milli þeirra konunganna og sættu þá svo að Eysteinn skyldi hafa þriðjung ríkis. Engi voru skírsli ger Eysteini til faðernis nema því var trúað er Haraldur konungur hafði til sagt.

Bjaðök hét móðir Eysteins konungs og kom hún í Noreg með honum.


14. Dráp Óttars birtings

Magnús hét hinn fjórði sonur Haralds konungs. Hann fóstraði Kyrpinga-Ormur. Hann var og til konungs tekinn og hafði sinn hluta af landi. Magnús var veill á fótum og lifði litla hríð og varð sóttdauður.

Hans getur Einar Skúlason:

Auð gefr Eysteinn lýðum.
Eykr hjaldr Sigurðr skjaldar.
Lætr Ingi slög syngva.
Semr Magnús frið bragna.
Fjöldýrs, hafa fjórir,
fólktjald, komið aldrei,
rýðr bragnings kyn blóði,
bræðr und sól en æðri.

Eftir fall Haralds konungs gilla var Ingiríður drottning gift Óttari birtingi. Hann var lendur maður og höfðingi mikill, þrænskur að ætt. Hann var mikill styrktarmaður Inga konungs meðan hann var í barnæsku. Sigurður konungur var ekki mikill vinur hans og þótti hann allt hallur undir Inga konung mág sinn.

Óttar birtingur var drepinn norður í Kaupangi í einvígi um kveld er hann skyldi ganga til aftansöngs. En er hann heyrði hvininn af högginu þá brá hann upp hendi sinni og skikkju í móti og hugði að kastað væri snjákekki að honum sem títt er ungum sveinum. Hann féll við höggið. En Álfur hroði sonur hans kom þá gangandi í kirkjugarðinn. Hann sá fall föður síns og svo að maður sá er vegið hafði hljóp austur um kirkjuna. Álfur hljóp eftir honum og drap hann við sönghúshornið og mæltu menn að honum hefði vel gefið hefndina og þótti hann miklu meiri maður en áður.


15. Upphaf Eysteins konungs Haraldssonar

Eysteinn konungur Haraldsson var þá inn í Þrándheimi er hann spurði fall Óttars og stefndi til sín bóndaliði. Hann fór út til bæjar og varð allfjölmennur. En frændur Óttars og aðrir vinir kenndu ráðin mest Sigurði konungi en hann var þá í Kaupangi og voru bændur mjög geystir á hendur honum. En hann bauð fyrir sig skírslur og festi járnburð að svo skyldi sanna mál hans og varð það að sætt. Fór Sigurður konungur eftir það suður í land og urðu þessar skírslur aldregi af höndum greiddar.


16. Upphaf Orms konungsbróður

Ingiríður drottning gat son við Ívari sneis. Sá hét Ormur er síðan var kallaður konungsbróðir. Hann var hinn fríðasti sýnum og gerðist mikill höfðingi sem enn mun síðar getið verða. Ingiríður drottning var gift Árna á Stoðreimi. Hann var síðan kallaður konungsmágur. Voru þeirra börn Ingi, Nikulás, Filippus í Herðlu og Margrét er átti Björn bukkur en síðan Símon Kárason.


17. Útferð Erlings og Rögnvalds jarls

Erlingur hét sonur Kyrpinga-Orms og Ragnhildar dóttur Sveinka Steinarssonar. Kyrpinga-Ormur var sonur Sveins Sveinssonar Erlendssonar úr Gerði. Móðir Orms var Ragna dóttir Orms jarls Eilífssonar og Ingibjargar dóttur Finns jarls Árnasonar. Móðir Orms jarls var Ragnhildur dóttir Hákonar jarls hins ríka. Erlingur var vitur maður og var vinur mikill Inga konungs og með hans ráði fékk Erlingur Kristínar dóttur þeirra Sigurðar konungs og Málmfríðar drottningar. Erlingur átti bú á Stuðlu á Sunn-Hörðalandi.

Erlingur fór úr landi og með honum Eindriði ungi og enn fleiri lendir menn og höfðu frítt lið. Þeir bjuggust til Jórsalaferðar og fóru vestur um haf til Orkneyja. Þaðan fór Rögnvaldur jarl er kali var kallaður og Vilhjálmur biskup. Þeir höfðu alls af Orkneyjum fimmtán langskip og sigldu til Suðureyja og þaðan vestur til Vallands og þá leið síðan er farið hafði Sigurður konungur Jórsalafari út til Nörvasunda og herjuðu víða út um Spán heiðna. Litlu síðar en þeir sigldu um sundin skildist brott Eindriði ungi og þeir er honum fylgdu með sex skipum og fóru síðan sér hvorir.

En Rögnvaldur og Erlingur skakki hittu á drómund einn í hafi og lögðu til níu skipum og börðust við þá. En að lyktum lögðu þeir snekkjurnar undir drómundinn. Báru þá heiðnir menn ofan á þá bæði vopn og grjót og grýtur fullar af vellanda biki og viðsmjörvi. Erlingur lá sínu skipi næst þeim og bar fyrir utan það skipið vopnaburðinn heiðinna manna. Þá hjuggu þeir Erlingur raufar á drómundinum, sumar í kafi niðri, sumar uppi á borðunum svo að þeir fóru þar inn.

Svo segir Þorbjörn Skakkaskáld í Erlingsdrápu:

Hjuggu öxareggjum
ugglaust hvatir glugga,
því var nennt, á nýju
Norðmenn í kaf borði.
Eyðendr sáu yðrar
arnar hungrs á járnum
vogfylvingi vélar.
Vígskörð ofan börðuð.

Auðun rauði hét sá maður, stafnbúi Erlings, er fyrst gekk upp á drómundinn. Þeir unnu drómundinn og drápu þar ógrynni manna, tóku þar ófa mikið fé og unnu þar fagran sigur.

Rögnvaldur jarl og Erlingur skakki komu í þeirri ferð til Jórsalalands og út til árinnar Jórdanar, sneru þá aftur fyrst til Miklagarðs, létu þar eftir skip sín, fóru utan landveg og héldu heilu öllu þar til er þeir komu í Noreg og var þeirra ferð allmjög lofuð.

Þótti Erlingur nú miklum meiri maður en áður, hvorttveggja af ferð sinni og kvonfangi sínu. Var hann og spekingur að viti, auðigur og ættstór, snjallmæltur og var mest hallur að allri vináttu til Inga þeirra bræðra.


18. Fæddur Hákon

Sigurður konungur reið að veislum í Vík austur með hirð sína og reið um bý þann er ríkur maður átti er Símon hét. En er konungur reið gegnum býinn þá heyrði í hús nokkuð kveðandi svo fagra að honum fannst um mikið og reið til hússins og sá þar inn að þar stóð kona ein við kvern og kvað við forkunnarfagurt er hún mól. Konungur sté af hestinum og gekk inn til konunnar og lagðist með henni. En er hann fór í brott þá vissi Símon bóndi hvað erindi konungur hafði þannug. En hún hét Þóra og var verkakona Símonar bónda. Síðan lét Símon varðveita kost hennar.

En eftir það ól sú kona barn og var sá sveinn nefndur Hákon og kallaður sonur Sigurðar konungs. Fæddist Hákon þar upp með Símoni Þorbergssyni og Gunnhildi konu hans. Fæddust þar og upp synir þeirra Símonar, Önundur og Andrés, og unnust þeir Hákon mikið svo að þá skildi ekki nema hel.


19. Frá Eysteini og Hísingsbúum

Eysteinn konungur Haraldsson var staddur austur í Vík nær landsenda. Hann var ósáttur við bændur, Reni og Hísingsbúa. Gerðu þeir safnað að honum en hann hélt við þá orustu og hafði sigur. Þar heitir Leikberg er þeir börðust. Hann brenndi og mjög víða í Hísing. Síðan gengu bændur til handa og guldu gjöld stór en konungur tók gísla af þeim.

Svo segir Einar Skúlason:

Víkverjum galt,
varð þannug hallt,
gerræði gramr,
gjöfmildr og framr.
Flest fólk var hrætt,
áðr fengi sætt,
en gísla tók
sá er gjöldin jók.

Vann siklingr sótt
við snarpa drótt,
leyfð er lýðum bær,
Leikbergi nær.
Renir flýðu ríkt
og reiddu slíkt,
öld festi auð,
sem öðlingr bauð.


20. Herferð Eysteins konungs Haraldssonar

Litlu síðar byrjaði Eysteinn konungur ferð sína úr landi vestur um haf og sigldi til Kataness. Hann spurði til Haralds jarls Maddaðarsonar í Þórsá. Hann lagði til með þrjár smáskútur og komu á þá óvara en jarl hafði haft þrítugt skip og á átta tigu manna. En er þeir voru óbúnir við, þá fengu þeir Eysteinn konungur þegar uppgöngu á skipið og tóku höndum jarl og höfðu með sér á skip. Hann leysti sig út með þremur mörkum gulls og skildust þeir að svo búnu.

Svo segir Einar Skúlason:

Voru, Sogns, með, sára,
syni Maddaðar staddir,
mágrennir fékkst, manna,
máttigr, tigir átta.
Þrem skútum tók þreytir
þann jarl drasils hranna.
Hraustr gaf hræskúfs nistir
höfuð sitt frömum jöfri.

Eysteinn konungur sigldi þaðan suður fyrir austan Skotland og lagði til kaupstaðar þess á Skotlandi er heitir Apardjón og drap þar mart manna og rændi staðinn.

Svo segir Einar Skúlason:

Frétt hefi eg að féll,
fólk brustu svell,
jöfur eyddi frið,
Apardjónar lið.

Aðra orustu átti hann suður við Hjartapoll við riddaralið og kom þeim á flótta. Hruðu þeir skip nokkur þar.

Svo segir Einar:

Beit buðlungs hjör,
blóð féll á dör,
hirð fylgdist holl
við Hjartapoll.
Hugin gladdi heit,
hruðust Engla beit,
óx vitnis vín,
valbasta Rín.

Þá hélt hann enn suður á England og átti þriðju orustu við Hvítabý og fékk sigur en brenndi býinn.

Svo segir Einar:

Jók hilmir hjaldr,
þar var hjörva galdr,
hjóst hildar ský,
við Hvítabý.
Ríkt lék við rönn,
rauðst ylgjar tönn,
fékkst fyrðum harmr,
fyriskógar garmr.

Eftir það herjaði hann víða um England. Þá var Stefnir konungur á Englandi. Því næst átti Eysteinn konungur orustu við Skarpasker við riddara nokkura.

Svo segir Einar:

Drap döglingr gegn,
dreif strengjar regn,
við Skörpusker
skjaldkænan her.

Þar næst barðist hann í Pílavík og fékk sigur.

Svo segir Einar:

Rauð siklingr sverð,
sleit gyldis ferð
prútt Parta lík,
í Pílavík.
Vann vísi allt,
fyr vestan salt
brandr gall í brún,
brennt Langatún.

Þeir brenndu þar Langatún, mikið þorp, og segja menn að sá býr hafi litla uppreist fengið síðan. Eftir það fór Eysteinn konungur brott af Englandi og um haustið aftur í Noreg og ræddu menn um þessa ferð allmisjafnt.


21. Frá Haraldssonum

Friður góður var í Noregi öndurða daga sona Haralds konungs og var þeirra samþykki til nokkurrar hlítar meðan hið forna ráðuneyti þeirra lifði en þeir Ingi og Sigurður voru bernskir. Höfðu þeir þá eina hirð báðir en Eysteinn einn sér. Var hann maður fullroskinn að aldri. En er andað var fósturneyti þeirra Inga og Sigurðar: Sáða-Gyrður Bárðarson, Ámundi Gyrðarson, Þjóstólfur Álason, Óttar birtingur, Ögmundur sviptir og Ögmundur dengir, bróðir Erlings skakka. Lítils þótti vert um Erling meðan Ögmundur lifði. Síðan skildu þeir hirð sína Ingi og Sigurður.

Og réð þá til fulltings við Inga konung Gregoríus sonur Dags Eilífssonar og Ragnhildar dóttur Skofta Ögmundarsonar. Gregoríus hafði auð fjár og var sjálfur hinn mesti skörungur. Gerðist hann forstjóri fyrir landráðum með Inga konungi en konungur veitti honum að taka af sinni eign slíkt er hann vildi.

Sigurður konungur gerðist ofstopamaður mikill og óeirinn um alla hluti þegar er hann óx upp, og svo þeir Eysteinn báðir, og var það nokkuru nær sanni er Eysteinn var en hann var allra fégjarnastur og sínkastur. Sigurður konungur gerðist maður mikill og sterkur, vasklegur maður sýnum, jarpur á hár, munnljótur og vel að öðrum andlitssköpum. Allra manna var hann snjallastur og gervastur í máli.

Þess getur Einar Skúlason:

Snilld ber, snarpra elda
sárflóðs þess er rýðr blóði,
gefið hefir guð sjálfr jöfri
gagn, Sigurðar magni.
Svo es ef Rauma ræsir
reiðorðr tölur greiðir,
rausn vinnr gramr, sem gumnar,
glaðmæltr, þegi aðrir.


22. Frá Inga konungi og Eysteini

Eysteinn konungur var svartur maður og dökklitaður, heldur hár meðalmaður, vitur maður og skynsamur en það dró mest ríki undan honum er hann var sínkur og fégjarn. Hann átti Rögnu dóttur Nikuláss mása.

Ingi konungur var manna fegurstur í andliti. Hann hafði gult hár og heldur þunnt og hrökk mjög. Lítill var hans uppvöxtur og treglega mátti hann ganga einn samt, svo var visinn annar fóturinn, en knýttur var hann á herðum og á bringu. Hann var blíðmæltur og dæll vinum sínum, ör af fé og lét mjög höfðingja ráða með sér landráðum, vinsæll við alþýðu og dró það allt saman mjög undir hann ríki og fjölmenni.

Brígiða hét dóttir Haralds konungs gilla. Hún var gift fyrst Inga Hallsteinssyni Svíakonungi en síðan Karli jarli Sónasyni en þá Magnúsi Svíakonungi. Þeir Ingi konungur Haraldsson voru sammæðra. Síðast átti hana Birgir jarl brosa. Þau áttu fjóra sonu, einn Filippus jarl, annar Knútur jarl, þriðji Fólki, fjórði Magnús. Dætur þeirra: Ingigerður er átti Sörkvir konungur, þeirra sonur Jón konungur, önnur Kristín, þriðja Margrét. María hét önnur dóttir Haralds gilla. Hana átti Símon skálpur sonur Hallkels húks. Nikulás hét sonur þeirra. Margrét hét hin þriðja dóttir Haralds gilla. Hana átti Jón Hallkelsson bróðir Símonar.

Nú gerðist mart þess í með þeim bræðrum er til sundurþykkis var en eg mun þó hins eins geta er mér þykir mestum tíðindum sætt hafa.


23. Nikulás kardínáli kom til lands

Nikulás kardínáli af Rúmaborg kom í Noreg á dögum þeirra Haraldssona og hafði páfinn hann sent í Noreg. En kardínálinn hafði reiði á þeim Sigurði og Eysteini og urðu þeir að ganga til sættar við hann en hann var afar vel sáttur við Inga og kallaði hann son sinn. En er þeir voru allir sáttir við hann veitti hann þeim að vígja Jón Birgisson til erkibiskups í Þrándheimi og fékk honum klæði það er pallíum heitir og mælti svo að erkibiskupsstóll skyldi vera í Niðarósi að Kristskirkju þar er Ólafur konungur hinn helgi hvílir en áður höfðu ljóðbiskupar einir verið í Noregi. Kardínálinn kom því við að engi maður skyldi með vopnum fara í kaupstöðum að ósekju nema tólf menn þeir er fylgd áttu með konungi. Hann bætti að mörgu siðu manna í Noregi meðan hann var þar í landi. Eigi hefir sá maður komið í Noreg útlendur er allir menn mætu jafnmikils eða jafnmiklu mætti ráða við alþýðu sem hann. Hann fór suður síðan með miklar vingjafir og lést ávallt mundu vera hinn mesti vinur Norðmanna.

En er hann kom suður til Rúmaborgar þá andaðist bráðlega páfinn, sá er áður var, en allur Rúmaborgarlýður vildi taka Nikulás til páfa. Þá var hann vígður til páfa með nafni Adríanusar. Svo segja þeir menn er um hans daga komu til Rúmaborgar að aldrei átti hann svo skylt erindi við aðra menn að eigi mælti hann við Norðmenn fyrst ávallt er þeir vildu hafa mál hans. Hann var eigi lengi páfi, og er hann kallaður heilagur.


24. Jartegnir Ólafs konungs

Á dögum þeirra sona Haralds gilla varð atburður að maður er Halldór nefndur, er varð fyrir Vindum og tóku þeir hann og veittu honum meiðslur, skáru kverkurnar og drógu þar út tunguna og skáru af í tungurótunum. Síðan sótti hann til hins helga Ólafs konungs, renndi hugnum fastlega til þess helga manns og bað mjög grátandi Ólaf konung ljá sér máls og heilsu. Því næst fékk hann mál og miskunn af þessum góða konungi og gerðist þegar hans þjónustumaður um alla sína lífdaga og varð dýrlegur maður og trúfastur.

Þessi jartegn varð hálfum mánaði fyrir Ólafsmessu hina síðari á þeim degi er Nikulás kardínáli varð landfastur.


25. Jartegnir Ólafs konungs við Ríkarð prest

Bræður tveir voru á Upplöndum, kynstórir menn og fjáðir vel, synir Guttorms grábarðs, Einar og Andrés móðurbræður Sigurðar konungs Haraldssonar, áttu þar óðal og eignir allar. Systur áttu þeir fríða heldur að yfirsýn en eigi þó til forsjála við vondra manna orði sem síðan reyndist. Hafði hún blíðlæti mikið við prest einn enskan er Ríkarður hét er þar var heimilisvistum með bræðrum hennar og gerði hún honum mart í vild og oft mikið gagn fyrir sakir góðvilja. Það bar eigi betur að en um konu þá fór og flaug ferlegt orð. Síðan er það var á málreið komið þá hugðu það allir menn á hendur prestinum og svo bræður hennar þegar þeir urðu þess varir, þá létu þeir hann líklegstan til fyrir alþýðu í þeirri miklu blíðu er þeirra varð á meðal. Varð þeim síðan mikill ófarnaður sem eigi var örvænt er þeir þögðu um leyndri vél og létu ekki á sér finna.

En um dag nokkurn kölluðu þeir prestinn til sín, hann varði einskis af þeim nema góðs eins, teygðu hann heiman með sér og kváðust fara skyldu í annað hérað að sýsla þar nokkuð, það er þeir þurftu, og báðu hann fylgja sér, höfðu með sér heimamann sinn er vissi þessi ráð með þeim. Fóru þeir á skipi eftir vatni því er Rönd heitir og fram með vatnsströndinni og lentu við nes það er Skiptisandur heitir. Þeir gengu þar á land upp og léku stund nokkura. Þá fóru þeir í nokkurn leyndan stað. Þá báðu þeir verkmanninn ljósta hann öxarhamarshögg. Hann sló prest svo að hann lá í svíma.

En er hann vitkaðist mælti hann: "Hví skal nú svo hart við mig leika?"

Þeir svöruðu: "Þótt engi segi þér þá skaltu nú finna hvað þú hefir gert," báru síðan sakir á hendur honum.

Hann synjaði og mælti, bað guð skipta milli þeirra og hinn helga Ólaf konung. Síðan brutu þeir sundur fótlegg hans. Þá drógu þeir hann milli sín til skógar og bundu hendur hans á bak aftur. Síðan lögðu þeir strengi að höfði honum og þilju undir herðar og höfuðið og settu í sneril og sneru að strenginn. Þá tók Einar hæl og setti á augað presti og þjónn hans stóð yfir og laust á með öxi og hleypti út auganu svo að þegar stökk niður á kampinn.

En þá setti hann hælinn á annað augað og mælti við þjóninn: "Ljóstu mun kyrrara."

Hann gerði svo. Þá skaust hællinn af augasteininum og sleit frá honum hvarminn. Síðan tók Einar hvarminn með hendi sinni og hélt af upp og sá að augasteinninn var þar. Þá setti hann hælinn við kinnina út en þjónninn laust þá og sprakk augasteinninn á kinnarbeinið niður þar er það var hæst. Síðan opnuðu þeir munn hans og tóku tunguna og drógu út og skáru af en síðan leystu þeir hendur hans og höfuð. Þegar er hann vitkaðist þá varð honum það fyrir að hann lagði augasteinana upp við brýnnar í stað sinn og hélt hann þar að báðum höndum sem hann mátti.

En þá báru þeir hann til skips og fóru til bæjar þess er heitir á Sæheimruð og lentu þar. Þeir sendu mann til bæjarins að segja að prestur lá þar að skipi á ströndu. Meðan sá maður var upp farinn er sendur var þá spurðu þeir ef prestur mætti mæla en hann blaðraði tungunni og vildi við leita að mæla.

Þá mælti Einar við bróður sinn: "Ef hann réttist við og grær fyrir tungustúfinn þá kemur mér það í hug að hann muni mæla."

Síðan klýptu þeir tungustúfinn með töng og toguðu og skáru tvisvar þaðan frá og í tungurótunum hið þriðja sinn og létu hann þar liggja hálfdauðan.

Húsfreyja þar á bænum var fátæk en þó fór hún þegar og dóttir hennar með henni og báru hann heim til húss í möttlum sínum. Síðan fóru þær eftir presti en er hann kom þangað þá batt hann sár hans öll og leituðu honum hæginda slíkra sem þau máttu. Hann lá þá, hinn sári prestur, aumlega búinn, vilnaðist jafnan guðs miskunnar og tortryggði það aldrei, bað guð mállaus með hugrenningum og sútfullu hjarta, því öllu traustara er hann var sjúkari, og renndi huginum til þess milda konungs, Ólafs hins helga guðs dýrlings, og hafði hann áður heyrt mart sagt frá hans dýrðarverkum og trúði því öllu hvatara á hann af öllu hjarta til allrar hjálpar í sínum nauðum. En er hann lá þar lami, að öllu megni numinn, þá grét hann sárlega og stundi, bað með sáru brjósti þann dýrling, Ólaf konung, duga sér. En eftir miðja nótt þá sofnaði prestur hinn sári.

Þá þóttist hann sjá mann göfuglegan koma til sín og mæla við sig: "Illa ertu nú leikinn Ríkarður félagi. Sé eg að eigi er nú mátturinn mikill."

Hann þóttist sanna það.

Þá mælti sá við hann: "Miskunnar ertu þurfi."

Prestur segir: "Eg þyrfti miskunnar guðs almáttigs og hins helga Ólafs konungs."

Hann segir: "Þú skalt hafa og."

Því næst tók hann tungustúfinn og heimti svo hart að prestinum varð sárt við. Því næst strauk hann hendi sinni um augu honum og um bein, svo um aðra limi er sárir voru. Þá spurði presturinn hver þar væri.

Hann leit við honum og mælti: "Ólafur er hér norðan úr Þrándheimi."

En síðan hvarf hann í brott en prestur vaknaði alheill og þegar tók hann að mæla: "Sæll em eg," sagði hann, "guði þökk og hinum helga Ólafi konungi. Hann hefir græddan mig."

En svo hörmulega sem hann var áður leikinn, svo bráðar bætur fékk hann allrar þeirrar óhamingju og svo þótti honum sem hann hefði hvorki orðið sár né sjúkur, tungan heil, augun bæði í lag komin, beinbrotin gróin og öll önnur sár gróin eða verklaus, fengið hina bestu heilsu. En til jarteina var að augu hans höfðu verið út stungin, þá greri ör hvítt á hvarmi hvorumtveggja til þess að sjá mætti dýrð þess hins göfga konungs að þeim manni er svo var aumlega búinn.


26. Ingi konungur og Sigurður konungur áttu þing í Hólmi

Eysteinn og Sigurður höfðu verið ósáttir fyrir þá sök að Sigurður konungur hafði vegið hirðmann Eysteins konungs, Harald hinn víkverska er hús átti í Björgyn, og annan Jón prest taparð, son Bjarna Sigurðarsonar. Fyrir þá sök lögðu þeir með sér sættarstefnu um veturinn á Upplöndum. Þeir sátu lengi tveir á máli en það kom upp úr hjali þeirra að þeir skyldu hittast í Björgyn allir bræður eftir um sumarið. Það fylgdi því máli að þeir vildu að Ingi konungur hefði bú tvö eða þrjú og svo mikil önnur auðæfi að hann hefði þrjá tigu manna með sér og lést þykja hann eigi hafa heilsu til að vera konungur.

Ingi og Gregoríus spurðu þessi tíðindi og fóru til Björgynjar og fjölmenntu mjög. Sigurður kom litlu síðar og hafði hann lið sýnu minna. Þá höfðu þeir Ingi og Sigurður verið nítján vetur konungar yfir Noregi. Eysteinn var seinni austan úr Víkinni en þeir norðan.

Þá lét Ingi konungur blása til þings í Hólm og koma þeir þar Sigurður og Ingi konungur og fjölmenni mikið. Gregoríus hafði tvö skip og vel níu tigu manna er hann fékk allar vistir. Hann hélt betur húskarla sína en aðrir menn lendir því að hann drakk aldrei svo í skytningum að eigi drykkju húskarlar hans allir með honum. Hann gekk með hjálm gullroðinn á þingið og allt hans lið var hjálmað. Ingi konungur stóð upp og sagði mönnum frá hvað hann hafði spurt, hvernug bræður hans vildu við hann skipa og bað sér liðs en alþýða manna gerði góðan róm að máli hans og létust honum vilja fylgja.


27. Frá Gregoríusi Dagssyni

Þá stóð Sigurður konungur upp og talar, segir það ósatt er Ingi kenndi þeim, kvað Gregoríus slíkt upp setja og kvað eigi skyldu langt til að sá fundur þeirra skyldi verða ef hann mætti ráða að hann mundi steypa hjálminum þeim hinum gullroðna og lauk svo sínu máli að hann kvað þá eigi lengi ganga báða. Gregoríus svarar, kvaðst það ætla að hann þyrfti lítt að fýsast þess og lést við því búinn.

Fám dögum síðar var veginn húskarl Gregoríusar úti á stræti og vó húskarl Sigurðar konungs. Þá vildi Gregoríus ganga að þeim Sigurði konungi en Ingi konungur latti og mart annarra manna.

En er Ingiríður móðir Inga konungs gekk frá aftansöng þá kom hún að þar er veginn var Sigurður skrúðhyrna. Hann var hirðmaður Inga konungs og var gamall og hafði mörgum konungum á höndum verið. En þeir höfðu vegið hann menn Sigurðar konungs, Hallvarður Gunnarsson og Sigurður sonur Eysteins trafala, og kenndu menn ráðin Sigurði konungi. Þá gekk hún þegar til Inga konungs og sagði honum, kvað hann lengi mundu lítinn konung ef hann vildi ekki að færast þótt hirðmenn hans væru drepnir, annar að öðrum svo sem svín. Konungur reiddist við átölur hennar.

Og er þau hnipptust við kom Gregoríus inn gangandi, hjálmaður og brynjaður, bað konung eigi reiðast, kvað hana satt mæla: "En eg em hér kominn til liðs við þig ef þú vilt veita Sigurði konungi atgöngu og er hér meir en hundrað manna úti í garðinum, húskarla minna, hjálmaðir og brynjaðir, og munum vér þaðan að þeim sækja er öðrum þykir verst."

En flestir löttu og kváðu Sigurð mundu vilja bæta óhapp sitt.

En er Gregoríus sá að letjast mundi mælti hann við Inga konung: "Svo bleðja þeir af þér, drápu minn húskarl fyrir skömmu en nú hirðmann þinn en þeir munu vilja veiða mig eða annan lendan mann, þann er þeim þykir þér mest afnám í vera, er þeir sjá að þú færist ekki að en taka þig af konungdóminum eftir það er vinir þínir eru drepnir. Nú hverngan veg sem aðrir lendir menn þínir vilja, þá vil eg eigi bíða nauthöggsins og skulum við Sigurður kaupa saman þessa nótt að því kaupi sem þá má verða. En það er bæði að þú ert illa að tekinn fyrir vanheilsu sakir enda ætla eg lítinn viljann að halda vini þína. En eg em nú albúinn að ganga til fundar við Sigurð héðan því að hér er merki mitt úti."

Ingi konungur stóð upp og kallaði til klæða sinna, bað hvern mann búast er honum vildi fylgja og kvað ekki tjá að letja sig, lést lengi hafa undan ært, lét þá verða sverfa til stáls með þeim.


28. Fall Sigurðar konungs

Sigurður konungur drakk í garði Sigríðar sætu og bjóst við og ætlaði að ekki mundi af atgöngunni verða. Síðan gengu þeir að garðinum, Ingi konungur ofan frá smiðabúðum, Árni konungsmágur utan frá Sandbrú, Áslákur Erlendsson úr garði sínum en Gregoríus af strætinu og þótti þaðan verst. Þeir Sigurður skutu mjög úr loftgluggum og brutu ofna og báru grjótið á þá. Þeir Gregoríus brutu upp garðshliðið og féll þar Einar sonur Laxa-Páls í hliðinu af liði Sigurðar konungs og Hallvarður Gunnarsson. Hann var skotinn í loftið inn og harmaði hann engi maður. Þeir hjuggu húsin og gekk lið Sigurðar af hendi honum til griða. Þá gekk Sigurður á loft eitt og vildi beiða sér hljóðs en hann hafði gullroðinn skjöld og kenndu menn hann og vildu eigi hlýða honum. Menn skutu að honum svo sem í drífu sæi og mátti hann eigi þar vera. En þá er liðið var gengið af hendi honum og menn hjuggu húsin mjög, þá gekk hann út og Þórður húsfreyja með honum hirðmaður hans, víkverskur maður, og vildu þannug sem Ingi konungur var fyrir og kallaði Sigurður á Inga bróður sinn að hann skyldi selja honum grið. En þeir voru þegar höggnir báðir. Féll Þórður húsfreyja með orðlofi miklu.

Þar féll mart manna, þótt eg nefni fátt, af liði Sigurðar og svo af Inga liði en fjórir menn af Gregoríusar liði og svo þeir er með hvorigum voru og urðu þeir fyrir skotum á bryggjum niðri eða á skipum úti. Þeir börðust fjórtán nóttum fyrir Jónsmessu baptista en það er föstudagur. Sigurður konungur var jarðaður að Kristskirkju hinni fornu í Hólmi út. Ingi konungur gaf Gregoríusi skip það er Sigurður konungur hafði átt.

En tveim nóttum eða þremur síðar kom Eysteinn konungur austan með þrjá tigu skipa og hafði þar Hákon bróðurson sinn í ferð með sér og fór eigi til Björgynjar og dvaldist í Flóruvogum en menn fóru í meðal og vildu sætta þá.

En Gregoríus vildi að þeir legðu út að þeim og kvað eigi síðar betra, kvaðst hann mundu vera höfðingi að því "en þú, konungur, far eigi. Er nú eigi vant liðs til."

En margir löttu og tókst af því eigi ferðin. Eysteinn konungur fór austur í Víkina en Ingi konungur norður í Þrándheim og voru þeir þá sáttir að kalla og hittust eigi sjálfir.


29. Frá Gregoríusi Dagssyni

Gregoríus Dagsson fór austur litlu síðar en Eysteinn konungur og var uppi á Höfundi á Bratsbergi að búi sínu. Eysteinn konungur var inn í Ósló og lét draga skip sín meir en tvær vikur sjávar að ísi því að íslög voru mikil inn í Víkinni. Hann fór upp á Höfund og vildi taka Gregoríus en hann varð var við og fór undan upp á Þelamörk með níu tigu manna og þar norður um fjall og kom ofan í Harðangri og fór síðan í Eðni til Stuðlu.

Þar átti Erlingur skakki bú en hann var farinn norður til Björgynjar en Kristín kona hans, dóttir Sigurðar konungs, var heima og bauð Gregoríusi slíkt er hann vildi hafa þaðan. Fékk Gregoríus þar góðar viðtökur. Hann hafði langskip þaðan er Erlingur átti og allt það er hann þurfti. Gregoríus þakkaði henni vel og lét henni hafa orðið stórmannlega sem von var að. Þeir fóru síðan til Björgynjar og fundu Erling og þótti honum hún vel hafa gert.


30. Sætt Inga konungs og Eysteins konungs

Síðan fór Gregoríus Dagsson norður til Kaupangs og kom þar fyrir jól. Ingi konungur varð hinn fegnasti honum og bað hann hafa slíkt allt af sinni eign sem hann vildi.

Eysteinn konungur brenndi bæ Gregoríusar og hjó búið. En naust þau, er Eysteinn konungur hinn eldri hafði gera látið norður í Kaupangi er mestar gersemar voru, þá voru brennd um veturinn og skip góð með er Ingi konungur átti og var það verk hið óvinsælsta en ráðin voru kennd Eysteini konungi og Filippusi Gyrðarsyni, fóstbróður Sigurðar konungs.

Um sumarið eftir fór Ingi norðan og gerðist hinn fjölmennasti en Eysteinn konungur austan og safnaði hann sér og liði. Þeir hittust í Seleyjum fyrir norðan Líðandisnes og var Ingi konungur miklu fjölmennari. Var við sjálft að þeir mundu berjast. Þeir sættust og varð það að sætt að Eysteinn skyldi festa að gjalda hálfan fimmta tug marka gulls. Skyldi Ingi konungur hafa þrjá tigu marka fyrir það er Eysteinn hafði ráðið skipabrunanum og svo naustanna en þá skyldi Filippus vera útlagur og svo þeir allir er að brennunni höfðu verið þar er skipin voru brennd. Þeir menn skyldu og vera útlagir er sannir voru að áverkum við Sigurð konung því að Eysteinn konungur kenndi það Inga konungi að hann héldi þá menn. En Gregoríus skyldi hafa fimmtán merkur fyrir það er Eysteinn konungur brenndi upp fyrir honum. Eysteini konungi líkaði illa og þótti nauðungarsætt vera. Ingi konungur fór austur í Vík frá stefnunni en Eysteinn norður í Þrándheim.

Síðan var Ingi konungur í Víkinni en Eysteinn konungur norður og hittust þeir ekki. En þau ein fóru orð í milli er ekki voru til sætta og svo lét hvortveggi drepa vini annars og varð ekki af fégjaldinu af Eysteins hendi. Kenndi og hvor öðrum að ekki héldi það er mælt var. Ingi konungur og þeir Gregoríus spöndu mjög lið undan Eysteini konungi, Bárð standala Brynjólfsson og Símon skálp son Hallkels húks og mart annað lendra manna, Halldór Brynjólfsson og Jón Hallkelsson.


31. Frá Inga konungi og Eysteini

Þá er liðnir voru tveir vetur frá falli Sigurðar konungs drógu konungar her saman, Ingi austan úr landi og fékk hann átta tigu skipa en Eysteinn konungur norðan og fékk hálfan fimmta tug skipa. Þá hafði hann dreka hinn mikla er Eysteinn konungur Magnússon hafði látið gera og höfðu þeir allfrítt lið og mikið. Ingi konungur lá skipum sínum suður við Mostur en Eysteinn konungur litlu norðar, í Græningasundi.

Eysteinn sendi suður til Inga Áslák unga Jónsson og Árna sturlu Sæbjarnarson. Þeir höfðu eitt skip. En er Inga menn kenndu þá lögðu þeir að þeim og drápu mart manna af þeim, tóku skipið og allt það er á var og hvert fat þeirra. En Áslákur og Árni og nokkurir menn með þeim komust á land upp og fóru til fundar við Eystein konung og sögðu honum hvernug Ingi konungur hefði fagnað þeim.

Eysteinn konungur hafði þá húsþing og segir mönnum hvern ófrið þeir Ingi vildu gera og bað liðsmenn að þeir skyldu honum fylgja "og höfum vér lið svo mikið og gott að eg vil hvergi undan flýja ef þér viljið fylgja mér."

En engi varð rómur að máli hans. Hallkell húkur var þar en synir hans báðir með Inga, Símon og Jón.

Hallkell svaraði svo að mjög margir heyrðu: "Fylgi gullkistur þínar þér nú og verji land þitt."


32. Dráp Eysteins konungs

Um nóttina eftir reru þeir í brott mörgum skipum á laun, sumir til lags við Inga konung, sumir til Björgynjar, sumir í fjörðu inn. En að morgni er lýst var þá var konungur tíu skipum einum eftir. Þá lét hann þar eftir dreka hinn mikla því að hann var þungur undir árum og fleiri skipin og hjuggu drekann mjög og svo hjuggu þeir niður mungát sitt og allt, það er þeir máttu eigi með sér hafa, spilltu þeir. Eysteinn konungur gekk á skip Eindriða Jónssonar mörnefs og fóru þeir norður og inn í Sogn og þaðan hið efra austur til Víkur.

Ingi konungur tók skipin og fór austur hið ytra í Víkina. En fyrir austan Fold þá var þar Eysteinn og hafði nær tólf hundruðum manna. Þá sáu þeir skipalið Inga konungs og þóttust eigi lið við hafa og hljópu á skóg undan. Þá flýði á sinn veg hvað svo að konungur var við annan mann. Þeir Ingi urðu varir við farar Eysteins og svo það að hann var fámennur. Þeir fóru að leita hans. Símon skálpur hitti hann er hann gekk undan hrísrunni einum að þeim.

Símon heilsaði honum: "Heill lávarður," segir hann.

Konungur segir: "Eigi veit eg nema þú þykist nú minn lávarður," segir hann.

"Er nú sem gerist," segir Símon.

Konungur bað að hann skyldi honum undan skjóta, kvað honum það byrja "því að lengi hefir með okkur vel verið þótt nú sé annan veg."

Símon kvað þá ekki mundu af því verða. Konungur bað að hann skyldi hlýða messu áður og það var. Síðan lagðist hann niður á grúfu og breiddi hendur frá sér út og bað sig höggva í kross á milli herðanna, kvað þá skyldu reyna hvort hann mundi þola járn eða eigi sem þeir höfðu sagt lagsmenn Inga. Símon mælti við þann er höggva skyldi, bað hann til ráða, kvað konung helsti lengi hafa kropið þar um lyng. Hann var þá höggvinn og þótti verða við prúðlega.

Lík hans var flutt til Foss en fyrir sunnan kirkju undir brekkunni var lík hans náttsætt. Eysteinn konungur var jarðaður að Fosskirkju og er leg hans á miðju kirkjugólfi og breiddur yfir kögur og kalla menn hann helgan. Þar sem hann var höggvinn og blóð hans kom á jörð spratt upp brunnur en annar þar undir brekkunni sem lík hans var náttsætt. Af hvorutveggja því vatni þykjast margir menn bót hafa fengið. Það er sögn Víkverja að margar jarteinir yrðu að leiði Eysteins konungs áður óvinir hans steyptu á leiðið hundssoði.

Símon skálpur var hið mesta óþokkaður af verki þessu og var það alþýðu mál. En sumir segja þá er Eysteinn konungur var handtekinn að Símon sendi mann til fundar við Inga konung en konungur bað Eystein eigi koma í augsýn sér. Svo hefir Sverrir konungur rita látið.

En þannug segir Einar Skúlason:

Mun, sá er morði vandist
margillr og sveik stilli,
síð af slíkum ráðum
Símon skálpr of hjálpast.
Netútgáfan - janúar 2000