LANDNÁMABÓK  (Sturlubók)
FORMÁLI

Í aldarfarsbók þeirri, er Beda prestur heilagur gerði, er getið eylands þess er Thile heitir og á bókum er sagt, að liggi sex dægra sigling í norður frá Bretlandi; þar sagði hann eigi koma dag á vetur og eigi nótt á sumar, þá er dagur er sem lengstur. Til þess ætla vitrir menn það haft, að Ísland sé Thile kallað, að það er víða á landinu, er sól skín um nætur, þá er dagur er sem lengstur, en það er víða um daga, er sól sér eigi, þá er nótt er sem lengst. En Beda prestur andaðist sjö hundruð þrjátigi og fimm árum eftir holdgan dróttins vors, að því er ritað er, og meir en hundraði ára fyrr en Ísland byggðist af Norðmönnum.

En áður Ísland byggðist af Noregi, voru þar þeir menn, er Norðmenn kalla papa; þeir voru menn kristnir, og hyggja menn, að þeir hafi verið vestan um haf, því að fundust eftir þeim bækur írskar, bjöllur og baglar og enn fleiri hlutir, þeir er það mátti skilja, að þeir voru Vestmenn. Enn er og þess getið á bókum enskum, að í þann tíma var farið milli landanna.FYRSTI HLUTI


1. kafli

Þá er Ísland fannst og byggðist af Noregi, var Adríánus páfi í Róma og Jóhannes eftir hann, sá er hinn fimmti var með því nafni í postuligu sæti, en Hlöðver Hlöðversson keisari fyrir norðan fjall, en Leó og Alexander son hans yfir Miklagarði; þá var Haraldur hárfagri konungur yfir Noregi, en Eiríkur Eymundarson í Svíþjóð og Björn son hans, en Gormur hinn gamli að Danmörk, en Elfráður hinn ríki í Englandi og Játvarður son hans, en Kjarvalur að Dyflinni, Sigurður jarl hinn ríki í Orkneyjum.

Svo segja vitrir menn, að úr Noregi frá Staði sé sjö dægra sigling í vestur til Horns á Íslandi austanverðu, en frá Snæfellsnesi, þar er skemmst er, er fjögurra dægra haf í vestur til Grænlands. En svo er sagt, ef siglt er úr Björgyn rétt í vestur til Hvarfsins á Grænlandi, að þá mun siglt vera tylft fyrir sunnan Ísland. Frá Reykjanesi á sunnanverðu Íslandi er fimm dægra haf til Jölduhlaups á Írlandi (í suður; en frá Langanesi á norðanverðu Íslandi er) fjögurra dægra haf norður til Svalbarða í hafsbotn.

Svo er sagt, að menn skyldu fara úr Noregi til Færeyja; nefna sumir til Naddodd víking; en þá rak vestur í haf og fundu þar land mikið. Þeir gengu upp í Austfjörðum á fjall eitt hátt og sáust um víða, ef þeir sæju reyki eða nokkur líkindi til þess, að landið væri byggt, og sáu þeir það ekki.

Þeir fóru aftur um haustið til Færeyja; og er þeir sigldu af landinu, féll snær mikill á fjöll, og fyrir það kölluðu þeir landið Snæland. Þeir lofuðu mjög landið.

Þar heitir nú Reyðarfjall í Austfjörðum, er þeir höfðu að komið. Svo sagði Sæmundur prestur hinn fróði.

Maður hét Garðar Svavarsson, sænskur að ætt; hann fór að leita Snælands að tilvísan móður sinnar framsýnnar. Hann kom að landi fyrir austan Horn hið eystra; þar var þá höfn. Garðar sigldi umhverfis landið og vissi, að það var eyland. Hann var um veturinn norður í Húsavík á Skjálfanda og gerði þar hús.

Um vorið, er hann var búinn til hafs, sleit frá honum mann á báti, er hét Náttfari, og þræl og ambátt. Hann byggði þar síðan, er heitir Náttfaravík.

Garðar fór þá til Noregs og lofaði mjög landið. Hann var faðir Una, föður Hróars Tungugoða. Eftir það var landið kallað Garðarshólmur, og var þá skógur milli fjalls og fjöru.


2. kafli

Flóki Vilgerðarson hét maður; hann var víkingur mikill; hann fór að leita Garðarshólms og sigldi þar úr er heitir Flókavarði; þar mætist Hörðaland og Rogaland. Hann fór fyrst til Hjaltlands og lá þar í Flókavogi; þar týndist Geirhildur dóttir hans í Geirhildarvatni.

Með Flóka var á skipi bóndi sá, er Þórólfur hét, annar Herjólfur. Faxi hét suðureyskur maður, er þar var á skipi.

Flóki hafði hrafna þrjá með sér í haf, og er hann lét lausan hinn fyrsta, fló sá aftur um stafn; annar fló í loft upp og aftur til skips; hinn þriðji fló fram um stafn í þá átt, sem þeir fundu landið. Þeir komu austan að Horni og sigldu fyrir sunnan landið.

En er þeir sigldu vestur um Reykjanes og upp lauk firðinum, svo að þeir sáu Snæfellsnes, þá ræddi Faxi um: "Þetta mun vera mikið land, er vér höfum fundið; hér eru vatnföll stór".

Síðan er það kallaður Faxaóss.

Þeir Flóki sigldu vestur yfir Breiðafjörð og tóku þar land, sem heitir Vatnsfjörður við Barðaströnd. Þá var fjörðurinn fullur af veiðiskap, og gáðu þeir eigi fyrir veiðum að fá heyjanna, og dó allt kvikfé þeirra um veturinn. Vor var heldur kalt. Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum; því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið.

Þeir Flóki ætluðu brutt um sumarið og urðu búnir litlu fyrir vetur. Þeim beit eigi fyrir Reykjanes, og sleit frá þeim bátinn og þar á Herjólf; hann tók þar sem nú heitir Herjólfshöfn. Flóki var um veturinn í Borgarfirði, og fundu þeir Herjólf. Þeir sigldu um sumarið eftir til Noregs.

Og er menn spurðu af landinu, þá lét Flóki illa yfir, en Herjólfur sagði kost og löst af landinu, en Þórólfur kvað drjúpa smjör af hverju strái á landinu, því er þeir höfðu fundið; því var hann kallaður Þórólfur smjör.


3. kafli

Björnólfur hét maður, en annar Hróaldur; þeir voru synir Hrómundar Gripssonar; þeir fóru af Þelamörk fyrir víga sakir og staðfestust í Dalsfirði á Fjölum. Sonur Björnólfs var Örn, faðir þeirra Ingólfs og Helgu, en Hróalds son var Hróðmar, faðir Leifs.

Þeir Ingólfur og Leifur fóstbræður fóru í hernað með sonum Atla jarls hins mjóva af Gaulum, þeim Hásteini og Hersteini og Hólmsteini. Með þeim fóru öll skipti vel, og er þeir komu heim, mæltu þeir til samfara með sér annað sumar.

En um veturinn gerðu þeir fóstbræður veislu sonum jarlsins. Að þeirri veislu strengdi Hólmsteinn heit, að hann skyldi eiga Helgu Arnardóttur eða öngva konu ella. Um þessa heitstrenging fannst mönnum fátt, en Leifur roðnaði á að sjá, og varð fátt um með þeim Hólmsteini, er þeir skildu þar að boðinu.


4. kafli

Um vorið eftir bjuggust þeir fóstbræður að fara í hernað og ætluðu til móts við sonu Atla jarls. Þeir fundust við Hísargafl, og lögðu þeir Hólmsteinn bræður þegar til orustu við þá Leif. En er þeir höfðu barist um hríð, kom að þeim Ölmóður hinn gamli, son Hörða-Kára, frændi Leifs, og veitti þeim Ingólfi. Í þeirri orustu féll Hólmsteinn, en Hersteinn flýði.

Þá fóru þeir Leifur í hernað. En um veturinn eftir fór Hersteinn að þeim Leifi og vildi drepa þá, en þeir fengu njósn af för hans og gerðu mót honum. Varð þá enn orusta mikil, og féll þar Hersteinn. Eftir það dreif að þeim fóstbræðrum vinir þeirra úr Firðafylki. Voru þá menn sendir á fund Atla jarls og Hásteins að bjóða sættir, og sættust þeir að því, að þeir Leifur guldu eignir sínar þeim feðgum.

En þeir fóstbræður bjuggu skip mikið, er þeir áttu, og fóru að leita lands þess, er Hrafna-Flóki hafði fundið og þá var Ísland kallað. Þeir fundu landið og voru í Austfjörðum í Álftafirði hinum syðra. Þeim virðist landið betra suður en norður. Þeir voru einn vetur á landinu og fóru þá aftur til Noregs.


5. kafli

Eftir það varði Ingólfur fé þeirra til Íslandsferðar, en Leifur fór í hernað í vesturvíking.

Hann herjaði á Írland og fann þar jarðhús mikið. Þar gekk hann í, og var myrkt, þar til er lýsti af sverði því, er maður hélt á. Leifur drap þann mann og tók sverðið og mikið fé af honum; síðan var hann kallaður Hjörleifur.

Hjörleifur herjaði víða um Írland og fékk þar mikið fé; þar tók hann þræla tíu, er svo hétu: Dufþakur og Geirröður, Skjaldbjörn, Halldór og Drafdittur; eigi eru nefndir fleiri. En eftir það fór Hjörleifur til Noregs og fann þar Ingólf fóstbróður sinn. Hann hafði áður fengið Helgu Arnardóttur, systur Ingólfs.

Þenna vetur fékk Ingólfur að blóti miklu og leitaði sér heilla um forlög sín, en Hjörleifur vildi aldri blóta. Fréttin vísaði Ingólfi til Íslands.

Eftir það bjó sitt skip hvor þeirra mága til Íslandsferðar; hafði Hjörleifur herfang sitt á skipi, en Ingólfur félagsfé þeirra, og lögðu til hafs, er þeir voru búnir.


6. kafli

Sumar það, er þeir Ingólfur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi; þá var liðið frá upphafi þessa heims sex þúsundir vetra og sjö tigir og þrír vetur, en frá holdgan dróttins átta hundruð (ára) og sjö tigir og fjögur ár.

Þeir höfðu samflot, þar til er þeir sá Ísland; þá skildi með þeim.

Þá er Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndugissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land.

Ingólfur tók þar land er nú heitir Ingólfshöfði, en Hjörleif rak vestur fyrir land, og fékk hann vatnfátt. Þá tóku þrælarnir írsku það ráð að knoða saman mjöl og smjör og kölluðu það óþorstlátt; þeir nefndu það minnþak. En er það var tilbúið, kom regn mikið, og tóku þeir þá vatn á tjöldum. En er minnþakið tók að mygla, köstuðu þeir því fyrir borð, og rak það á land, þar sem nú heitir Minnþakseyr.

Hjörleifur tók land við Hjörleifshöfða, og var þar þá fjörður, og horfði botninn inn að höfðanum. Hjörleifur lét þar gera skála tvo, og er önnur tóftin átján faðma, en önnur nítján. Hjörleifur sat þar um veturinn.

En um vorið vildi hann sá; hann átti einn uxa, og lét hann þrælana draga arðurinn.

En er þeir Hjörleifur voru að skála, þá gerði Dufþakur það ráð, að þeir skyldu drepa uxann og segja, að skógarbjörn hefði drepið, en síðan skyldu þeir ráða á þá Hjörleif, ef þeir leituðu bjarnarins.

Eftir það sögðu þeir Hjörleifi þetta. Og er þeir fóru að leita bjarnarins og dreifðust í skóginn, þá settu þrælarnir að sérhverjum þeirra og myrtu þá alla jafnmarga sér. Þeir hljópu á brutt með konur þeirra og lausafé og bátinn. Þrælarnir fóru í eyjar þær, er þeir sáu í haf til útsuðurs, og bjuggust þar fyrir um hríð.

Vífill og Karli hétu þrælar Ingólfs. Þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna. En er þeir komu til Hjörleifshöfða, fundu þeir Hjörleif dauðan. Þá fóru þeir aftur og sögðu Ingólfi þau tíðendi; hann lét illa yfir drápi þeirra Hjörleifs.


7. kafli

Eftir það fór Ingólfur vestur til Hjörleifshöfða, og er hann sá Hjörleif dauðan, mælti hann: "Lítið lagðist hér fyrir góðan dreng, er þrælar skyldu að bana verða, og sé eg svo hverjum verða, ef eigi vill blóta." Ingólfur lét búa gröf þeirra Hjörleifs og sjá fyrir skipi þeirra og fjárhlut.

Ingólfur gekk þá upp á höfðann og sá eyjar liggja í útsuður til hafs; kom honum það í hug, að þeir mundu þangað hlaupið hafa, því að báturinn var horfinn; fóru þeir að leita þrælanna og fundu þá þar sem Eið heitir í eyjunum. Voru þeir þá að mat, er þeir Ingólfur komu að þeim. Þeir urðu felmtsfullir, og hljóp sinn veg hver. Ingólfur drap þá alla. Þar heitir Dufþaksskor, er hann lést. Fleiri hljópu þeir fyrir berg, þar sem við þá er kennt síðan. Vestmannaeyjar heita þar síðan, er þrælarnir voru drepnir, því að þeir voru Vestmenn.

Þeir Ingólfur höfðu með sér konur þeirra, er myrtir höfðu verið; fóru þeir þá aftur til Hjörleifshöfða; var Ingólfur þar vetur annan. En um sumarið eftir fór hann vestur með sjó. Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá.

Þau missari fundu þeir Vífill og Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði.


8. kafli

Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.

Þá mælti Karli: "Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta."

Hann hvarf á brutt og ambátt með honum.

Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.

Ingólfur lét gera skála á Skálafelli; þaðan sá hann reyki við Ölfusvatn og fann þar Karla.


9. kafli

Ingólfur var frægastur allra landnámsmanna, því að hann kom hér að óbyggðu landi og byggði fyrstur landið; gerðu það aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum.

Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla; þeirra son var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður alþingi var sett.

Son Þorsteins var Þorkell máni lögsögumaður, er einn heiðinna manna hefir best verið siðaður, að því er menn viti dæmi til. Hann lét sig bera í sólargeisla í banasótt sinni og fal sig á hendi þeim guði, er sólina hafði skapað; hafði hann og lifað svo hreinliga sem þeir kristnir menn, er best eru siðaðir. Son hans var Þormóður, er þá var allsherjargoði, er kristni kom á Ísland. Hans son var Hamall, faðir Más og Þormóðar og Torfa.


10. kafli

Björn buna hét hersir ágætur í Noregi, son Veðrar-Gríms hersis úr Sogni; móðir Gríms var Hervör, dóttir Þorgerðar Eylaugsdóttur hersis úr Sogni.

Frá Birni er nær allt stórmenni komið á Íslandi; hann átti Vélaugu. Þau áttu þrjá sonu; einn var Ketill flatnefur, annar Hrappur, þriðji Helgi; þeir voru ágætir menn, og er frá þeirra afkvæmi margt sagt í þessi bók.

Þórður skeggi hét maður; hann var sonur Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórður átti Vilborgu Ósvaldsdóttur; Helga hét dóttir þeirra; hana átti Ketilbjörn hinn gamli.

Þórður fór til Íslands og nam land með ráði Ingólfs í hans landnámi á milli Úlfarsár og Leiruvogs; hann bjó á Skeggjastöðum. Frá Þórði er margt stórmenni komið á Íslandi.


11. kafli

Hallur goðlauss hét maður; hann var son Helga goðlauss. Þeir feðgar vildu ekki blóta og trúðu á mátt sinn.

Hallur fór til Íslands og nam land með ráði Ingólfs frá Leiruvogi til Mógilsár. Son Halls var Helgi, er átti Þuríði Ketilbjarnardóttur; þeirra son var Þórður í Álfsnesi, er átti Guðnýju Hrafnkelsdóttur. Hallur bjó í Múla.

Haraldur hinn hárfagri herjaði vestur um haf, sem ritað er í sögu hans. Hann lagði undir sig allar Suðureyjar svo langt vestur, að engi hefir síðan lengra eignast.

En er hann fór vestan, slógust í eyjarnar víkingar og Skotar og Írar og herjuðu og rændu víða.

Og er það spurði Haraldur konungur, sendi hann vestur Ketil flatnef, son Bjarnar bunu, að vinna aftur eyjarnar. Ketill átti Yngvildi, dóttur Ketils veðurs hersis af Hringaríki; þeirra synir voru þeir Björn hinn austræni og Helgi bjóla. Auður hin djúpauðga og Þórunn hyrna voru dætur þeirra.

Ketill fór vestur, en setti eftir Björn son sinn; hann lagði undir sig allar Suðureyjar og gerðist höfðingi yfir, en galt öngva skatta konungi, sem ætlað var. Tók þá konungur undir sig eignir hans og rak á brutt Björn son hans.

Helgi bjóla, son Ketils flatnefs, fór til Íslands úr Suðureyjum. Hann var með Ingólfi hinn fyrsta vetur og nam með hans ráði Kjalarnes allt milli Mógilsár og Mýdalsár; hann bjó að Hofi. Hans son var Víga-Hrappur og Kollsveinn, faðir Eyvindar hjalta, föður Kollsveins, föður Þorgerðar, móður Þóru, móður Ögmundar, föður Jóns byskups hins helga.


12. kafli

Örlygur hét son Hrapps Bjarnarsonar bunu; hann var að fóstri með hinum (helga) Patreki byskupi í Suðureyjum. (Hann) fýstist að fara til Íslands og bað, að byskup sæi um með honum. Byskup lét hann hafa með sér kirkjuvið og járnklukku og plenárium og mold vígða, er hann skyldi leggja undir hornstafina. Byskup bað hann þar land nema, er hann sæi fjöll tvö af hafi, og byggja undir hinu syðra fjallinu, og skyldi dalur í hvorutveggja fjallinu; hann skyldi þar taka sér bústað og láta þar kirkju gera og eigna hinum helga Kolumba.

Með Örlygi var á skipi maður sá, er Kollur hét, fóstbróðir hans, annar Þórólfur spör, þriðji Þorbjörn tálkni og bróðir hans, Þorbjörn skúma; þeir voru synir Böðvars blöðruskalla.

Þeir Örlygur létu í haf og fengu útivist harða og vissu eigi, hvar þeir fóru; þá hét Örlygur á Patrek byskup til landtöku sér, að hann skyldi af hans nafni gefa örnefni, þar sem hann tæki land. Þeir voru þaðan frá litla hríð úti, áður þeir sáu land, og voru komnir vestur um landið. Þeir tóku þar, sem heitir Örlygshöfn, en fjörðinn inn frá kölluðu þeir Patreksfjörð. Þar voru þeir um vetur, en um vorið bjó Örlygur skip sitt; en hásetar hans námu þar sumir land, sem enn mun sagt verða.

Örlygur sigldi vestan fyrir Barð; en er hann kom suður um Snæfellsjökul á fjörðinn, sá hann fjöll tvö og dali í hvorutveggja. Þar kenndi hann land það, er honum var til vísað.

Hann hélt þá að hinu syðra fjallinu, og var það Kjalarnes, og hafði Helgi bræðrungur hans numið þar áður.

Örlygur var með Helga hinn fyrsta vetur, en um vorið nam hann land að ráði Helga frá Mógilsá til Ósvíf(ur)slækjar og bjó að Esjubergi. Hann lét þar gera kirkju, sem mælt var.

Örlygur átti margt barna; hans son var Valþjófur, faðir Valbrands, föður Torfa, annar Geirmundur, faðir Halldóru, móður Þorleifs, er Esjubergingar eru frá komnir. Þeir Örlygur frændur trúðu á Kolumba.

Dóttir Örlygs hins gamla var Vélaug, er átti Gunnlaugur ormstunga, sonur Hrómundar í Þverárhlíð; þeirra dóttir var Þuríður dylla, móðir Illuga hins svarta á Gilsbakka.


13. kafli

Svartkell hét maður katneskur; hann nam land fyrir innan Mýdalsá milli (og) Eilífsdalsár og bjó að Kiðjafelli fyrst en síðan á Eyri.

Hans son var Þorkell faðir Glúms, er svo baðst fyrir að krossi: "Gott ey gömlum mönnum, gott ey ærum mönnum." Hann var faðir Þórarins, föður Glúms.

Valþjófur, son Örlygs hins gamla frá Esjubergi, nam Kjós alla og bjó að Meðalfelli; frá honum eru Valþjóflingar komnir. Signý var dóttir hans, móðir Gnúps, föður Birnings, föður Gnúps, föður Eiríks Grænlendingabiskups.


14. kafli

Hvamm-Þórir nam land á milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi.

Þórir deildi við Ref hinn gamla um kú þá, er Brynja hét; við hana er dalurinn kenndur. Hún gekk þar úti með fjóra tigu nauta, og voru öll frá henni komin. Þeir Refur og Þórir börðust hjá Þórishólum; þar féll Þórir og átta menn hans.

Þorsteinn, son Sölmundar Þórólfssonar smjörs, nam land milli Botnsár og Fossár, Brynjudal allan. Hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs; þeirra son var Refur hinn gamli, er Bryndælir eru frá komnir.

Nú eru taldir þeir menn, er búið hafa í landnámi Ingólfs, vestur frá honum.

Maður hét Ávangur, írskur að kyni; hann byggði fyrst í Botni.

Þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip.

Hans son var Þorleifur, faðir Þuríðar, er átti Þormóður Þjóstarsson á Álftanesi og Iðunnar Molda-Gnúpsdóttur. Sonur Þormóðar var Börkur, faðir Þórðar, föður Auðunar í Brautarholti.

Kolgrímur hinn gamli, son Hrólfs hersis, nam land út frá Botnsá til Kalmansár og bjó á Ferstiklu.

Hann átti Gunnvöru, dóttur Hróðgeirs hins spaka. Þeirra börn voru þau Þórhalli, faðir Kolgríms, föður Steins, föður Kvists, er Kvistlingar eru frá komnir. Bergþóra var dóttir Kolgríms hins gamla, er átti Refur í Brynjudal.


15. kafli

Bræður tveir námu Akranes allt á milli Kalmansár og Aurriðaár; hét annar Þormóður; hann átti land fyrir sunnan Reyni og bjó að Hólmi. Hann var faðir Bersa og Þorlaugar, móður Tungu-Odds.

Ketill átti Akranes fyrir vestan og fyrir norðan Akrafell til Aurriðaár. Hans son var Jörundur hinn kristni, er bjó í Görðum; þar hét þá Jörundarholt. Jörundur var faðir Klepps, föður Einars, föður Narfa og Hávars, föður Þorgeirs.


16. kafli

Ásólfur hét maður. Hann var frændi Jörundar í Görðum; hann kom út austur í Ósum. Hann var kristinn vel og vildi ekki eiga við heiðna menn og eigi vildi hann þiggja mat að þeim.

Hann gerði sér skála undir EyjafjöIlum, þar sem nú heitir að Ásólfsskála hinum austasta; hann fann ekki menn. Þá var um forvitnast, hvað hann hafði til fæðslu, og sáu menn í skálanum á fiska marga. En er menn gengu til lækjar þess, er féll hjá skálanum, var hann fullur af fiskum, svo að slík undur þóttust menn eigi séð hafa. En er héraðsmenn urðu þessa varir, ráku þeir hann á brutt og vildu eigi, að hann nyti gæða þessa. Þá færði Ásólfur byggð sína til Miðskála og var þar. Þá hvarf á brutt veiði öll úr læknum, er menn skyldu til taka. En er komið var til Ásólfs, þá var vatnfall það fullt af fiskum, er féll hjá skála hans. Var hann þá enn brutt rekinn. Fór hann þá til hins vestasta Ásólfsskála, og fór enn allt á sömu leið. En er hann fór þaðan á brutt, fór hann á fund Jörundar frænda síns, og bauð hann Ásólfi að vera með sér; en hann lést ekki vilja vera hjá öðrum mönnum.

Þá lét Jörundur gera honum hús að Hólmi hinum innra og færði honum þangað fæðslu, og var hann þar, meðan hann lifði, og þar var hann grafinn. Stendur þar nú kirkja, sem leiði hans er, og er hann hinn helgasti maður kallaður.


17. kafli

Beigan hét maður, er land nam í landnámi Ketils frá Berjadalsá til Aurriðaár og bjó að Beigansstöðum.

Fiður hinn auðgi Halldórsson Högnasonar, hann nam land fyrir sunnan Laxá og til Kalmansár og bjó að Miðfelli; hans son var Þorgeir, faðir Jósteins, föður Þórunnar, móður Guðrúnar, móður Sæmundar, föður Brands byskups.

Hafnar-Ormur nam lönd um Melahverfi út til Aurriðaár og Laxár og inn til Andakílsár og bjó í Höfn; hans son var Þorgeir höggvinkinni, faðir Þórunnar, móður Þórunnar, móður Jósteins, föður Sigurðar, föður Bjarnhéðins.

Þorgeir höggvinkinni var hirðmaður Hákonar konungs Aðalsteinsfóstra; hann fékk á Fitjum kinnarsár og orð gott.

Bræður tveir bjuggu í landnámi þeirra Finns og Orms, Hróðgeir hinn spaki í Saurbæ, en Oddgeir að Leirá: en þeir Finnur og Ormur keyptu þá brutt, því að þeim þótti þar þrönglent.

Þeir Hróðgeir bræður námu síðan lönd í Flóa, Hraungerðingahrepp; bjó Hróðgeir í Hraungerði, en Oddgeir í Oddgeirshólum; hann átti dóttur Ketils gufu.


18. kafli

Úlfur hét maður, son Brunda-Bjálfa og Hallberu, dóttur Úlfs hins óarga úr Hrafnistu. Úlfur átti Salbjörgu, dóttur Berðlu-Kára; hann var kallaður Kveld-Úlfur. Þórólfur og Skalla-Grímur voru synir þeirra.

Haraldur konungur hárfagri lét drepa Þórólf norður í Álöst á Sandnesi af rógi Hildiríðarsona; það vildi Haraldur konungur eigi bæta.

Þá bjuggu þeir Grímur og Kveld-Úlfur kaupskip og ætluðu til Íslands, því að þeir höfðu þar spurt til Ingólfs vinar síns. Þeir lágu til hafs í Sólundum. Þar tóku þeir knörr þann, er Haraldur konungur lét taka fyrir Þórólfi, þá er menn hans voru nýkomnir af Englandi, og drápu þar Hallvarð harðfara og Sigtrygg snarfara, er því höfðu valdið. Þar drápu þeir og sonu Guttorms Sigurðarsonar hjartar, bræðrunga konungs, og alla skipshöfn þeirra nema tvo menn, er þeir létu segja konungi tíðendin. Þeir bjuggu hvorttveggja skipið til Íslands og þrjá tigu manna á hvoru; stýrði Kveld-Úlfur því, er þá var fengið.

Grímur hinn háleyski Þórisson, Gunnlaugssonar, Hrólfssonar, Ketilssonar kjölfara, var forráðamaður með Kveld-Úlfi á því skipi, er hann stýrði. Þeir vissust jafnan til í hafinu.

Og er mjög sóttist hafið, þá tók Kveld-Úlfur sótt. Hann bað þess, að kistu skyldi gera að líki hans, ef hann dæi, og bað svo segja Grími syni sínum, að hann tæki skammt þaðan bústað á Íslandi, er kista hans kæmi á land, ef þess yrði auðið. Eftir það andaðist Kveld-Úlfur, og var skotið fyrir borð kistu hans.

Þeir Grímur héldu suður um landið, því að þeir höfðu spurt, að Ingólfur byggði sunnan á landinu. Sigldu þeir vestur fyrir Reykjanes og stefndu þar inn á fjörðinn. Skildi þá með þeim, svo að hvorigir vissu til annarra. Sigldu þeir Grímur hinn háleyski allt inn á fjörðinn, þar til er þraut sker öll, og köstuðu þá akkerum sínum. En er flóð gerði, fluttust þeir upp í árós einn og leiddu þar upp skipið sem gekk; sú á heitir nú Gufá. Báru þeir þar á land föng sín.

En er þeir könnuðu landið, þá höfðu þeir skammt gengið út frá skipinu, áður þeir fundu kistu Kveld-Úlfs rekna í vík eina; þeir báru hana á það nes, er þar var, og hlóðu að grjóti.


19. kafli

Skalla-Grímur kom þar að landi, er nú heitir Knarrarnes á Mýrum. Síðan kannaði hann landið, og var þar mýrlendi mikið og skógar víðir, langt á milli fjalls og fjöru.

En er þeir fóru inn með firðinum, komu þeir á nes það, er þeir fundu álftir; það kölluðu þeir Álftanes.

Þeir léttu eigi fyrr en þeir fundu þá Grím hinn háleyska; sögðu þeir Grímur allt um ferðir sínar og svo, hver orð Kveld-Úlfur hafði sent Grími syni sínum. Skalla-Grímur gekk til að sjá, hvar kistan hafði á land komið; hugðist honum svo (að), að skammt þaðan mundi vera bólstaður góður.

Skalla-Grímur var þar um veturinn, sem hann kom af hafi, og kannaði þá allt hérað. Hann nam land utan frá Selalóni og hið efra til Borgarhrauns og suður allt til Hafnarfjalla, hérað allt svo vítt sem vatnföll deila til sjóvar. Hann reisti bæ hjá vík þeirri, er kista Kveld-Úlfs kom á land, og kallaði að Borg, og svo kallaði hann fjörðinn Borgarfjörð. Síðan skipaði hann héraðið sínum félögum, og þar námu margir menn síðan land með hans ráði.

Skalla-Grímur gaf land Grími hinum háleyska fyrir sunnan fjörð á milli Andakílsár og Grímsár; hann bjó á Hvanneyri. Úlfur hét son hans, faðir Hrólfs í Geitlandi.

Þorbjörn svarti hét maður; hann keypti land að Hafnar-Ormi inn frá Selaeyri og upp til Fossár; hann bjó á Skeljabrekku. Hans son var Þorvarður, er átti Þórunni dóttur Þorbjarnar úr Arnarholti; þeirra synir voru þeir Þórarinn blindi og Þorgils orraskáld, er var með Óláfi kvaran í Dyflinni.

Skorri, leysingi Ketils gufu, nam Skorradal fyrir ofan vatn og var þar drepinn.

Björn gullberi nam Reykjardal hinn syðra og bjó á Gullberastöðum. Hans son var Grímkell goði í Bláskógum; hann átti Signýju Valbrandsdóttur, Valþjófssonar; þeirra son var Hörður, er var fyrir Hólmsmönnum. Björn gullberi átti Ljótunni, systur Kolgríms hins gamla. Svarthöfði að Reyðarfelli var annar son þeirra; hann átti Þuríði Tungu-Oddsdóttur, þeirra dóttir Þórdís, er átti Guðlaugur hinn auðgi. Þjóstólfur var hinn þriðji son Bjarnar, fjórði Geirmundur.

Þorgeir meldún þá lönd öll að Birni fyrir ofan Grímsá; hann bjó í Tungufelli. Hann átti Geirbjörgu, dóttur Bálka úr Hrútafirði; þeirra son Véleifur hinn gamli.

Flóki, þræll Ketils gufu, nam Flókadal og var þar drepinn.


20. kafli

Óleifur hjalti hét maður göfugur; hann kom skipi sínu í Borgarfjörð og var hinn fyrsta vetur með Skalla-Grími. Hann nam land að ráði Skalla-Gríms milli Grímsár og Geirsár og bjó að Varmalæk. Hans synir voru þeir Ragi í Laugardal og Þórarinn lögsögumaður er átti Þórdísi, dóttur Óláfs feilans, þeirra dóttir Vigdís, er átti Steinn Þorfinnsson. Son Raga var Guðþormur, faðir Gunnvarar, móður Þórnýjar, móður Þorláks, föður Rúnólfs, föður Þorláks byskups.

Ketill blundur og Geir son hans komu til Íslands og voru með Skalla-Grími hinn fyrsta vetur; þá fékk Geir Þórunnar, dóttur Skalla-Gríms.

Um vorið eftir vísaði Grímur þeim til landa, og námu þeir upp frá Flókadalsá til Reykjadalsár og tungu þá alla upp til Rauðsgils og Flókadal allan fyrir ofan brekkur. Ketill bjó í Þrándarholti; við hann er kennt Blundsvatn, þar bjó hann síðan.

Geir hinn auðgi son hans bjó í Geirshlíð, en átti annað bú að Reykjum hinum efrum; hans synir voru þeir Þorgeir blundur og Blund-Ketill og Svarðkell á Eyri. Dóttir Geirs var Bergdís, er Gnúpur átti Flókason í Hrísum; þeirrar ættar var Þóroddur hrísablundur.

Önundur breiðskeggur var son Úlfars Úlfssonar Fitjumskeggja, Þórissonar hlammanda. Önundur nam tungu alla milli Hvítár og Reykjadalsár og bjó á Breiðabólstað: hann átti Geirlaugu, dóttur Þormóðar á Akranesi, systur Bersa; þeirra son var Tungu-Oddur, en Þórodda hét dóttir þeirra. Hennar fékk Torfi, son Valbrands Valþjófssonar, Örlygssonar frá Esjubergi, og fylgdi henni heiman hálfur Breiðabólstaður og Hálsaland með. Hann gaf Signýju systur sinni Signýjarstaði, og bjó hún þar.

Torfi drap Kroppsmenn tólf saman, og hann réð mest fyrir drápi Hólmsmanna, og hann var á Hellisfitjum og Illugi hinn svarti og Sturla goði, þá er þar voru drepnir átján Hellismenn, en Auðun Smiðkelsson brenndu þeir inni á Þorvarðsstöðum. Sonur Torfa var Þorkell að Skáney.

Tungu-Oddur átti Jórunni Helgadóttur; þeirra börn voru þau Þorvaldur, er réð brennu Blund-Ketils, og Þóroddur, er átti Jófríði Gunnarsdóttur, þeirra dóttir Húngerður, er átti Svertingur Hafur-Bjarnarson. Dóttir Tungu-Odds (var) Þuríður, er (átti Svarthöfði, og Jófríður, er) Þorfinnur Sel-Þórisson átti, og Hallgerður, er Hallbjörn átti, son Odds frá Kiðjabergi. Kjölvör var móðursystir Tungu-Odds, er bjó á Kjölvararstöðum, móðir Þorleifar, móður Þuríðar, móður þeirra Gunnhildar, er Koli átti, og Glúms, föður Þórarins, föður Glúms að Vatnlausu.


21. kafli

Rauður hét maður, er nam land (hið syðra) upp frá Rauðsgili til Gilja og bjó að Rauðsgili; hans synir voru þeir Úlfur á Úlfsstöðum og Auður á Auðsstöðum fyrir norðan á, er Hörður vó. Þar hefst (af) saga Harðar Grímkelssonar og Geirs.

Grímur hét maður, er nam land hið syðra upp frá Giljum til Grímsgils og bjó við Grímsgil; hans synir voru þeir Þorgils auga á Augastöðum og Hrani á Hranastöðum, faðir Gríms, er kallaður var Stafngrímur. Hann bjó á Stafngrímsstöðum; þar heitir nú á Sigmundarstöðum. Þar gagnvart fyrir norðan Hvítá við sjálfa ána er haugur hans; þar var hann veginn.

Þorkell kornamúli nam Ás hinn syðra upp frá Kollslæk til Deildargils og bjó í Ási. Hans son var Þorbergur kornamúli, er átti Álöfu elliðaskjöld, dóttur Ófeigs og Ásgerðar, systur Þorgeirs gollnis. Börn þeirra voru þau Eysteinn og Hafþóra, er átti Eiður Skeggjason, er síðan bjó í Ási. Þar dó Miðfjarðar-Skeggi, og er þar haugur hans fyrir neðan garð. Annar son Skeggja var Kollur, er bjó að Kollslæk. Synir Eiðs (voru) Eysteinn og Illugi.

Úlfur, son Gríms hins háleyska og Svanlaugar, dóttur Þormóðar af Akranesi, systur Bersa, hann nam land milli Hvítár og suðurjökla og bjó í Geitlandi.

Hans synir voru þeir Hrólfur hinn auðgi, faðir Halldóru, er átti Gissur hvíti, þeirra dóttir Vilborg, er átti Hjalti Skeggjason.

Annar son hans var Hróaldur, faðir Hrólfs hins yngra, er átti Þuríði Valþjófsdóttur, Örlygssonar hins gamla; þeirra börn voru þau Kjallakur að Lundi í Syðradal, faðir Kolls, föður Bergþórs. Annar var Sölvi í Geitlandi, faðir Þórðar í Reykjaholti, föður Sölva, föður Þórðar, föður Magnúss, föður Þórðar, föður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona.

Þriðji son Hrólfs var Illugi hinn rauði, er fyrst bjó í Hraunsási; hann átti þá Sigríði, dóttur Þórarins hins illa, systur Músa-Bölverks. Þann bústað gaf Illugi Bölverki, en Illugi fór þá að búa á Hofstöðum í Reykjadal, því að Geitlendingar áttu að halda upp hofi því að helmingi við Tungu-Odd. Síðarst bjó Illugi að Hólmi innra á Akranesi, því að hann keypti við Hólm-Starra bæði löndum og konum og fé öllu. Þá fékk Illugi Jórunnar, dóttur Þormóðar Þjóstarssonar af Álftanesi, en Sigríður hengdi sig í hofinu, því að hún vildi eigi mannakaupið.

Hrólfur hinn yngri gaf Þorlaugu gyðju dóttur sína Oddi Ýrarsyni. Því réðst Hrólfur vestur til Ballarár og bjó þar lengi síðan og var kallaður Hrólfur að Ballará.ANNAR HLUTI


22. kafli

Hér hefur upp landnám í Vestfirðingafjórðungi, er margt stórmenni hefir byggðan.

Maður hét Kalman, suðureyskur að ætt; hann fór til Íslands og kom í Hvalfjörð og sat við Kalmansá. Þar drukknuðu synir hans tveir á Hvalfirði. En síðan nam hann land fyrir vestan Hvítá á milli og Fljóta, Kalmanstungu alla, og svo allt austur undir jökla sem grös eru vaxin, og bjó í Kalmanstungu. Hann drukknaði í Hvítá, er hann hafði farið suður í hraun að hitta friðlu sína, og er haugur hans á Hvítárbakka fyrir sunnan. Hans son var Sturla goði, er bjó á Sturlustöðum uppi undir Tungufelli upp frá Skáldskelmisdal, en síðan bjó hann í Kalmanstungu.

Hans son var Bjarni, er deildi við Hrólf hinn yngra og sonu hans um Tunguna litlu; þá hét Bjarni að taka kristni; eftir það braut Hvítá út farveg þann, er nú fellur hún. Þá eignaðist Bjarni Tunguna litlu og ofan um Grindur og Sölmundarhöfða.

Kýlan hét bróðir Kalmans; hann bjó fyrir neðan Kollshamar. Hans son var Kári, er deildi við Karla Konálsson á Karlastöðum, leysingja Hrólfs úr Geitlandi, um oxa, og reyndist svo, að Karli átti. Síðan eggjaði Kári þræl sinn til að drepa Karla. Þrællinn lét sem ær væri og hljóp suður um hraun. Karli sat á þreskildi; þrællinn hjó hann banahögg. Síðan drap Kári þrælinn. Þjóðólfur, son Karla, drap Kýlan Kárason í Kýlanshólmum. Síðan brenndi Þjóðólfur Kára inni, þar sem nú heitir á Brennu.

Bjarni Sturluson tók skírn og bjó á Bjarnastöðum í Tungunni litlu og lét þar gera kirkju.

Þrándur nefja hét maður ágætur, faðir Þorsteins, er átti Lofthænu, dóttur Arinbjarnar hersis úr Fjörðum. Systir Lofthænu var Arnþrúður, er átti Þórir hersir Hróaldsson; var þeirra son Arinbjörn hersir. Móðir þeirra Arnþrúðar var Ástríður slækidrengur, dóttir Braga skálds og Lofthænu, dóttur Erps lútanda. Sonur Þorsteins og Lofthænu var Hrosskell, er átti Jóreiði Ölvisdóttur sonar Möttuls Finnakonungs; Hallkell hét son þeirra.

Hrosskell fór til Íslands og kom í Grunnafjörð; hann bjó fyrst á Akranesi; þá ömuðust þeir Ketill bræður við hann. Síðan nam hann Hvítársíðu milli Kjarrár og Fljóta; hann bjó á Hallkelsstöðum og Hallkell son hans eftir hann, og átti hann Þuríði dyllu, dóttur Gunnlaugs úr Þverárhlíð og Vélaugar Örlygsdóttur frá Esjubergi.

Hrosskell gaf land Þorvarði, föður Smiðkels, föður þeirra Þórarins og Auðunar, er réðu fyrir Hellismönnum; hann bjó á Þorvarðsstöðum og átti Fljótsdal allan upp með Fljótum.

Hrosskell gaf Þorgauti skipverja sínum land niðri í Síðu; hann bjó á Þorgautsstöðum; hans synir voru Gíslar tveir.

Börn þeirra Hallkels og Þuríðar voru þau Þórarinn og Finnvarður, Tindur og Illugi hinn svarti og Gríma, er átti Þorgils Arason. Þórarin vó Músa-Bölverkur, er hann bjó í Hraunsási; þá lét hann gera þar virki og veitti Hvítá í gegnum ásinn, en áður féll hún um Melrakkadal ofan. Illugi og Tindur sóttu Bölverk í virkið.


23. kafli

Ásbjörn hinn auðgi Harðarson keypti land fyrir sunnan Kjarrá, upp frá Sleggjulæk til Hnitbjarga; hann bjó á Ásbjarnarstöðum. Hann átti Þorbjörgu, dóttur Miðfjarðar-Skeggja; þeirra dóttir var Ingibjörg, er átti Illugi hinn svarti.

Örnólfur hét maður, er nam Örnólfsdal og Kjarradal fyrir norðan upp til Hnitbjarga.

Ketill blundur keypti land að Örnólfi, allt fyrir neðan Klif, og bjó í Örnólfsdal. Örnólfur gerði þá bú upp í Kjarradal, þar er nú heita Örnólfsstaðir. Fyrir ofan Klif heitir Kjarradalur, því að þar voru hrískjörr og smáskógar milli Kjarrár (og) Þverár, svo að þar mátti eigi byggja. Blund-Ketill var maður stórauðigur; hann lét ryðja víða í skógum og byggja.

Hrómundur hét bróðir Gríms hins háleyska, son Þóris Gunnlaugssonar, Hrólfssonar, Ketilssonar kjölfara. Hrómundur kom skipi sínu í Hvítá; hann nam Þverárdal og Þverárhlíð ofan til Hallarmúla og fram til Þverár; hann bjó á Hrómundarstöðum; þar er nú kallað að Karlsbrekku. Hans son var Gunnlaugur ormstunga, er bjó á Gunnlaugsstöðum fyrir sunnan Þverá. Hann átti Vélaugu, sem fyrr er ritað.

Högni hét skipveri Hrómundar; hann bjó á Högnastöðum; hans son var Helgi að Helgavatni faðir Arngríms goða, er var að Blund-Ketils brennu. Högni var bróðir Finns hins auðga.

Ísleifur og Ísröður, bræður tveir, námu land ofan frá Sleggjulæk milli Örnólfsdalsár og Hvítár, hið nyrðra ofan til Rauðalækjar, en hið syðra ofan til Hörðahóla. Ísleifur bjó á Ísleifsstöðum, en Ísröður á Ísröðarstöðum og átti land hið syðra með Hvítá; hann var faðir Þorbjarnar, föður Ljóts á Veggjum, er féll í Heiðarvígi.

Ásgeir hét skipveri Hrómundar, er bjó á Hamri upp frá Helgavatni. Hann átti Hildi stjörnu, dóttur Þorvalds Þorgrímssonar brækis; þeirra synir voru þeir Steinbjörn hinn sterki og hinn stórhöggvi og Þorvarður, faðir Mævu, er Hrifla átti, og Þorsteinn hinn þriðji, fjórði Helgi, faðir Þórðar, föður Skáld-Helga.


24. kafli

Arnbjörg hét kona; hún bjó að Arnbjargarlæk. Hennar synir voru þeir Eldgrímur, er bjó á hálsinn upp frá Arnbjargarlæk á Eldgrímsstöðum, og Þorgestur, er fékk banasár, þá er þeir Hrani börðust, þar sem nú heitir Hranafall.

Þórunn hét kona, er bjó í Þórunnarholti; hún átti land ofan til Víðilækjar og upp til móts við Þuríði spákonu, systur sína, er bjó í Gröf. Við hana er kenndur Þórunnarhylur í Þverá, og frá henni eru Hamarbyggjar komnir.

Þorbjörn, son Arnbjarnar Óleifssonar langháls, hann var bróðir Lýtings í Vopnafirði. Þorbjörn nam Stafaholtstungu milli Norðurár og Þverár; hann bjó í Arnarholti; hans son var Teitur í Stafaholti, faðir Einars.

Þorbjörn blesi nam land í Norðurárdal fyrir sunnan á upp frá Króki og Hellisdal allan og bjó á Blesastöðum. Hans son var Gísli að Melum í Hellisdal; við hann eru kennd Gíslavötn. Annar son Blesa var Þorfinnur á Þorfinnsstöðum, faðir Þorgerðar heiðarekkju, móður Þórðar erru, föður Þorgerðar, móður Helga að Lundi.

Geirmundur, son Gunnbjarnar gands, nam tunguna á milli Norðurár og Sandár og bjó í Tungu; hans son var Brúni, faðir Þorbjarnar að Steinum, er féll í Heiðarvígi.

Örn hinn gamli nam Sanddal og Mjóvadal og svo Norðurárdal ofan frá Króki til Arnarbælis og bjó á Háreksstöðum.

Rauða-Björn nam Bjarnardal og þá dali, er þar ganga af, og átti annað bú niður frá Mælifellsgili, en annað niðri í héraði, sem ritað er.

Karl nam Karlsdal upp frá Hreðuvatni og bjó undir Karlsfelli; hann átti land ofan til Jafnaskarðs til móts við Grím.

Grís og Grímur hétu leysingjar Skalla-Gríms; þeim gaf hann lönd uppi við fjöll, Grísi Grísartungu, en Grími Grímsdal.


25. kafli

Bersi goðlauss hét maður, son Bálka Blæingssonar úr Hrútafirði; hann nam Langavatnsdal allan og bjó þar. Hans systir var Geirbjörg, er átti Þorgeir í Tungufelli; þeirra son var Véleifur hinn gamli.

Bersi goðlauss fékk Þórdísar, dóttur Þórhadds úr Hítardal, og tók með henni Hólmslönd; þeirra son var Arngeir, faðir Bjarnar Hítdælakappa.

Sigmundur hét einn leysingi Skalla-Gríms; honum gaf hann land milli Gljúfurár og Norðurár. Hann bjó að Haugum, áður hann færði sig í Munaðarnes; við hann er kennt Sigmundarnes.

Rauða-Björn keypti land að Skalla-Grími milli Gljúfurár og Gufár; hann bjó að Rauða-Bjarnarstöðum upp frá Eskiholti. Hans son var Þorkell trefill í Skarði og Helgi í Hvammi og Gunnvaldur, faðir Þorkels, er átti Helgu, dóttur Þorgeirs á Víðimýri.

Þorbjörn krumur og Þórður beigaldi hétu bræður tveir; þeim gaf Skalla-Grímur lönd fyrir utan Gufá, og bjó Þorbjörn í Hólum, en Þórður á Beigalda.

Þóri þurs og Þorgeiri jarðlang og Þorbjörgu stöng, systur þeirra, gaf Skalla-Grímur land upp með Langá fyrir sunnan; bjó Þórir á Þursstöðum, en Þorgeir á Jarðlangsstöðum, Þorbjörg í Stangarholti.

Einn maður hét Án, sá er Grímur gaf land ofan með Langá, milli og Háfslækjar; hann bjó að Ánabrekku; hans son var Önundur sjóni, faðir Steinars og Döllu, móður Kormáks.

Þorfinnur hinn strangi hét merkismaður Þórólfs Skalla-Grímssonar. Honum gaf Skalla-Grímur dóttur sína og land fyrir utan Langá út til Leirulækjar og upp til fjalls; hann bjó að Fossi. Þeirra dóttir var Þórdís, móðir Bjarnar Hítdælakappa.

Yngvar hét maður, faðir Beru, er Skalla-Grímur átti; honum gaf Grímur land á milli Leirulækjar og Straumfjarðar; hann bjó á Álftanesi. Önnur dóttir hans var Þórdís, er átti Þorgeir lambi á Lambastöðum, faðir Þórðar, er þrælarnir Ketils gufu brenndu inni; son Þórðar var Lambi hinn sterki.

Steinólfur hét maður, er nam Hraundal hvorntveggja allt til Grjótár að leyfi Skalla-Gríms; hann var faðir Þorleifs, er Hraundælir eru frá komnir.

Þórhaddur, son Steins mjögsiglanda Vígbjóðssonar, Böðmóðssonar úr búlkarúmi, hann nam Hítardal til Grjótár hið syðra, en hið ytra til Kaldár og á milli Hítár og Kaldár til sjóvar; hans son var Þorgeir, faðir Hafþórs, föður Guðnýjar, móður Þorláks hins auðga. Þorgeirs synir voru þeir Grímur í Skarði og Þórarinn, Finnbogi, Eysteinn, Gestur, Torfi.

Þorgils knappi, leysingi Kolla Hróaldssonar, nam Knappadal; hans synir voru þeir Ingjaldur og Þórarinn að Ökrum, og eignaðist land á milli Hítár og Álftár og upp til móts við Steinólf.

Son Þórarins var Þrándur, er átti Steinunni, dóttur Hrúts á Kambsnesi; þeirra synir voru þeir Þórir og Skúmur, faðir Torfa, föður Tanna; hans son var Hrútur, er átti Kolfinnu, dóttur Illuga hins svarta. Nú eru þeir menn taldir, er lönd hafa byggt í landnámi Skalla-Gríms.


26. kafli

Grímur hét maður Ingjaldsson, Hróaldssonar úr Haddingjadal, bróðir Ása bersis. Hann fór til Íslands í landaleit og sigldi fyrir norðan landið. Hann var um veturinn í Grímsey á Steingrímsfirði. Bergdís hét kona hans, en Þórir son þeirra.

Grímur röri til fiska um haustið með húskarla sína, en sveinninn Þórir lá í stafni og var í selbelg, og dreginn að hálsinum. Grímur dró marmennil, og er hann kom upp, spurði Grímur: "Hvað spár þú oss um forlög vor, eða hvar skulum vér byggja á Íslandi?"

Marmennill svarar: "Ekki þarf eg að spá yður, en sveinninn, er liggur í selbelginum, hann skal þar byggja og land nema, er Skálm mer yður leggst undir klyfjum."

Ekki fengu þeir fleiri orð af honum. En síðar um veturinn röru þeir Grímur svo, að sveinninn var á landi; þá týndust þeir allir.

Þau Bergdís og Þórir fóru um vorið úr Grímsey og vestur yfir heiði til Breiðafjarðar; þá gekk Skálm fyrir og lagðist aldri. Annan vetur voru þau á Skálmarnesi í Breiðafirði, en um sumarið eftir snöru þau suður. Þá gekk enn Skálm fyrir, þar til er þau komu af heiðum suður til Borgarfjarðar, þar sem sandmelar tveir rauðir stóðu fyrir; þar lagðist Skálm niður undir klyfjum undir hinum ytra melnum. Þar nam Þórir land fyrir sunnan Gnúpá til Kaldár fyrir neðan Knappadal milli fjalls og fjöru. Hann bjó að Rauðamel hinum ytra. Hann var höfðingi mikill.

Þá var Þórir gamall og blindur, er hann kom út síð um kveld og sá, að maður röri utan í Kaldárós á járnnökkva, mikill og illiligur, og gekk þar upp til bæjar þess, er í Hripi hét, og gróf þar í stöðulshliði; en um nóttina kom þar upp jarðeldur, og brann þá Borgarhraun. Þar var bærinn, sem nú er borgin.

Son Sel-Þóris var Þorfinnur, er átti Jófríði, dóttur Tungu-Odds; þeirra synir voru þeir Þorkell og Þorgils, Steinn og Galti, Ormur og Þórormur og Þórir. Dóttir Þorfinns var (Þorbjörg), er átti Þorbrandur úr Álftafirði.

Þeir Sel-Þórir frændur hinir heiðnu dóu í Þórisbjörg.

Þeir Þorkell og Þorgils, synir Þorfinns, áttu báðir Unni, dóttur Álfs úr Dölum.

Skálm, mer Þóris, dó í Skálmarkeldu.


27. kafli

Þormóður og Þórður gnúpa, synir Odds hins rakka Þorviðarsonar, Freyviðarsonar, Álfssonar af Vörs, þeir bræður fóru til Íslands og námu land frá Gnúpá til Straumsfjarðarár; hafði Þórður Gnúpudal og bjó þar. Hans son var Skafti, faðir Hjörleifs goða og Finnu, er átti Refur hinn mikli, faðir Steinunnar móður Hofgarða-Refs.

Þormóður bjó á Rauðkollsstöðum; hann var kallaður Þormóður goði; hann átti Gerði, dóttur Kjallaks hins gamla. Þeirra son var Guðlaugur hinn auðgi; hann átti Þórdísi, dóttur Svarthöfða Bjarnarsonar gullbera og dóttur Þuríðar Tungu-Odds(dóttur), er þá bjó í Hörgsholti.

Guðlaugur hinn auðgi sá, að Rauðamelslönd voru betri en önnur lönd suður þar í sveit. Hann skoraði á Þorfinn til landa og bauð honum (hólm)göngu; þeir féllu báðir á hólmi, en Þuríður Tungu-Oddsdóttir græddi þá báða og sætti þá.

Guðlaugur nam síðan land frá Straumfjarðará til Furu milli fjalls og fjöru og bjó í Borgarholti; frá honum eru Straumfirðingar komnir. Hans son var Guðleifur, er skip átti annað, en annað Þórólfur, son Lofts hins gamla, þá er (þeir) börðust við Gyrð jarl Sigvaldason. Annar son Guðlaugs var Þorfinnur, faðir Guðlaugs, föður Þórdísar, móður Þórðar, föður Sturlu í Hvammi. Valgerður hét dóttir Guðlaugs hins auðga.

Voli hinn sterki hét hirðmaður Haralds konungs hins hárfagra; hann vó víg í véum og varð útlægur. Hann fór til Suðureyja og staðfestist þar, en synir hans þrír fóru til Íslands. Hlíf hestageldir var móðir þeirra. Hét einn Atli, annar Álfarinn, þriðji Auðun stoti; þeir fóru allir til Íslands. Atli Volason og Ásmundur son hans námu land frá Furu til Lýsu.

Ásmundur bjó í Langaholti að Þórutóftum; hann átti Langaholts-Þóru. Þá er Ásmundur eldist, bjó hann í Öxl, en Þóra bjó þá eftir og lét gera skála sinn um þvera þjóðbraut og lét þar jafnan standa borð, en hún sat úti á stóli og laðaði þar gesti, hvern er mat vildi eta.

Ásmundur var heygður í Ásmundarleiði og lagður í skip og þræll hans hjá honum. Vísu þessa heyrði maður kveðna í haugi hans, er hann gekk hjá:

Einn byggvik stöð stein,
stafnrúm Atals hrafni.
Esat of þegn á þiljum
þröng. Býk á mar ranga.
Rúm es böðvitrum betra,
brimdýri knák stýra,
lifa mun þat með lofðum
lengr, en illt of gengi.

Eftir það var leitað til haugsins, og var þrællinn tekinn úr skipinu.

Hrólfur hinn digri, son Eyvindar eikikróks, nam land frá Lýsu til Hraunhafnarár. Hans son var Helgi í Hofgörðum, faðir Finnboga og Bjarnar og Hrólfs. Björn var faðir Gests, föður Skáld-Refs.


28. kafli

Sölvi hét maður, er nam land milli Hellis og Hraunhafnar. Hann bjó í Brenningi, en síðar á Sölvahamri, því að hann þóttist þar vera gagnsamari.

Sigmundur, son Ketils þistils, þess er numið hafði Þistilsfjörð norður, hann átti Hildigunni. Sigmundur nam land á milli Hellishrauns og Beruvíkurhrauns; hann bjó að Laugarbrekku og er þar heygður. Hann átti þrjá sonu; einn var Einar, er síðan bjó að Laugarbrekku. Þeir feðgar seldu Lónland Einari, er síðan bjó þar; hann var kallaður Lón-Einar.

Eftir andlát Sigmundar fór Einar til Laugarbrekku með sjöunda mann og stefndi Hildigunni um fjölkynngi.

En Einar, son hennar, var eigi heima. Hann kom heim, þá er Lón-Einar var nýfarinn á braut. Hildigunnur sagði honum þessi tíðindi og færði honum kyrtil nýgörvan. Einar tók skjöld sinn og sverð og verkhest og reið eftir þeim; hann sprengdi hestinn á Þúfubjörgum, en gat farið þá hjá Mannafallsbrekku. Þar börðust þeir og féllu fjórir menn af Lón-Einari, en þrælar hans tveir runnu frá honum. Þeir nafnar sóttust lengi, áður sundur gekk bróklindi Lón-Einars, og er hann tók þar til, hjó nafni hans hann banahögg.

Þræll Laugarbrekku-Einars hét Hreiðar: hann hljóp eftir þeim og sá af Þúfubjörgum, hvar þrælar Lón-Einars fóru; hann rann eftir þeim og drap þá báða í Þrælavík. Fyrir það gaf Einar honum frelsi og land svo vítt sem hann fengi gert um þrjá daga. Það heitir Hreiðarsgerði, er hann bjó síðan.

Einar að Laugarbrekku átti Unni, dóttur Þóris, bróður Ásláks í Langadal. Hallveig var dóttir þeirra, er Þorbjörn Vífilsson átti.

Breiður hét annar son Sigmundar, bróðir (Einars); hann átti Gunnhildi, dóttur Ásláks úr Langadal. Þeirra son var Þormóður, er átti Helgu Önundardóttur, systur Skáld-Hrafns, þeirra dóttir Herþrúður, er Símon átti, þeirra dóttir Gunnhildur, er Þorgils átti, þeirra dóttir Valgerður, móðir Finnboga hins fróða Geirssonar.

Þorkell hét hinn þriðji son Sigmundar; hann átti Jóreiði, dóttur (Tinds) Hallkelssonar.

Laugarbrekku-Einar var heygður skammt frá Sigmundarhaugi, og er haugur hans ávallt grænn vetur og sumar. Þorkell hét son Lón-Einars; hann átti Grímu Hallkelsdóttur fyrr en Þorgils Arason; Finnvarður var son þeirra. Önnur dóttir Laugarbrekku-Einars var Arnóra, er átti Þorgeir Vífilsson; þeirra dóttir var Yngvildur, er átti Þorsteinn, son Snorra goða. Þar var Inguður, dóttir þeirra, er átti Ásbjörn Arnórsson.


29. kafli

Grímkell hét maður, son Úlfs kráku Hreiðarssonar, bróðir Gunnbjarnar, er Gunnbjarnarsker eru við kennd; hann nam land frá Beruvíkurhrauni til Neshrauns og út um Öndvertnes og bjó að Saxahvoli. Hann rak á brutt þaðan Saxa Álfarinsson Volasonar, og bjó hann síðan í Hrauni hjá Saxahvoli. Grímkell átti Þorgerði, dóttur Valþjófs hins gamla; þeirra son var Þórarinn korni. Hann var hamrammur mjög og liggur í Kornahaugi.

Þórarinn korni átti Jórunni, dóttur Einars í Stafaholti; þeirra dóttir var Járngerður, er átti Úlfur Uggason.

Klængur hét annar son Grímkels; hann átti Oddfríði, dóttur Helga af Hvanneyri. Son þeirra var Kolli, er átti Þuríði, dóttur Ásbrands frá Kambi. Þeirra son var Skeggi, faðir Þorkötlu, er átti Illugi, son Þorvalds Tindssonar, faðir Gils, er vó Gjafvald. Bárður hét annar son Kolla; hann átti Valgerði Viðarsdóttur. Vigdís var dóttir þeirra, er átti Þorbjörn hinn digri, þeirra dóttir Þórdís, er átti Þorbrandur að Ölfusvatni. Þórir var son þeirra og Bjarni á Breiðabólstað og Torfi, en dóttir Valgerður, er átti Rúnólfur byskupsson. Ásdís hét önnur dóttir Bárðar; hana átti fyrr Þorbjörn Þorvaldsson, bróðir Mána-Ljóts sammæðri, börn þeirra Þuríður, er átti Þorgrímur Oddsson, börn þeirra Geirmundur í Mávahlíð og fjórtán önnur. Ásdísi átti síðar Skúli Jörundarson; Valgerður að Mosfelli var dóttir þeirra.

Álfarinn Volason hafði fyrst numið nesið á milli Beruvíkurhrauns og Ennis. Hans synir voru þeir Höskuldur, er bjó að Höskuldsám, og Ingjaldur, er bjó á Ingjaldshvoli, en Goti að Gotalæk, en Hólmkell að Fossi við Hólmkelsá.

Óláfur belgur hét maður, er nam land fyrir innan Enni allt til Fróðár og bjó í Óláfsvík.


30. kafli

Ormur hinn mjóvi hét maður, er kom skipi sínu í Fróðárós og bjó á Brimilsvöllum um hríð. Hann rak á brutt Óláf belg og nam Víkina gömlu milli Ennis og Höfða og bjó þá að Fróðá. Hans son var Þorbjörn hinn digri; hann átti fyrr Þuríði, dóttur Ásbrands frá Kambi, og voru þeirra börn Ketill kappi, Hallsteinn og Gunnlaugur og Þorgerður, er átti Önundur sjóni. Þorbjörn átti síðar Þuríði, dóttur Barkar hins digra og Þórdísar Súrsdóttur.

Þorbjörn hinn digri stefndi Geirríði Bægifótsdóttur um fjölkynngi, eftir það er Gunnlaugur, son hans, dó af meini því, er hann tók, þá er hann fór að nema fróðleik að Geirríði. Hún var móðir Þórarins í Mávahlíð. Um þá sök var Arnkell goði kvaddur tólftarkvöð, og bar hann af, því að Þórarinn vann eið að stallahring og hratt svo málinu.

En eftir það hurfu Þorbirni stóðhross á fjalli. Það kenndi hann Þórarni og fór í Mávahlíð og setti duradóm. Þeir voru tólf, en þeir Þórarinn voru sjö fyrir: Álfgeir Suðureyingur og Nagli og Björn austmaður og húskarlar þrír. Þeir hleyptu upp dóminum og börðust þar í túninu. Auður, kona Þórarins, hét á konur að skilja þá. Einn maður féll af Þórarni, en tveir af Þorbirni. Þeir Þorbjörn fóru á brutt og bundu sár sín hjá stakkgarði upp með vogum. Hönd Auðar fannst í túni; því fór Þórarinn eftir þeim og fann þá hjá garðinum. Nagli hljóp grátandi um þá og í fjall upp. Þar vó Þórarinn Þorbjörn og særði Hallstein til ólífis. Fimm menn féllu þar af Þorbirni.

Þeir Arnkell og Vermundur veittu Þórarni og höfðu setu að Arnkels. Snorri goði mælti eftir Þorbjörn og sekti þá alla, er að vígum höfðu verið, á Þórsnesþingi. Eftir það brenndi hann skip þeirra Álfgeirs í Salteyrarósi. Arnkell keypti þeim skip í Dögurðarnesi og fylgdi þeim út um eyjar. Af þessu gerðist fjándskapur þeirra Arnkels og Snorra goða. Ketill kappi var þá utan; hann var faðir Hróðnýjar, er átti Þorsteinn, son Víga-Styrs.

Sigurður svínhöfði var kappi mikill; hann bjó á Kvernvogaströnd. Herjólfur son hans var þá átta vetra, er hann drap skógbjörn fyrir það, er hann hafði bitið geit fyrir honum; þar um (er) þetta kveðið:

Bersi brunninrazi
beit geit fyrir Herjólfi,
en Herjólfr hokinrazi
hefndi geitr á bersa.

Þá var Herjólfur tólf vetra, er hann hefndi föður síns; hann var hinn mesti afreksmaður.

Herjólfur fór til Íslands í elli sinni og nam land milli Búlandshöfða og Kirkjufjarðar. Hans son var Þorsteinn kolskeggur, faðir Þórólfs, föður Þórarins hins svarta Máhlíðings og Guðnýjar, er átti Vermundur hinn mjóvi; þeirra son Brandur hinn örvi.

Vestar, son Þórólfs blöðruskalla, átti Svönu Herröðardóttur; þeirra son var Ásgeir. Vestar fór til Íslands með föður sinn afgamlan og nam Eyrarlönd og Kirkjufjörð; hann bjó á öndurðri Eyri. Þeir Þórólfur feðgar eru heygðir að Skallanesi báðir.

Ásgeir Vestarsson átti Helgu Kjallaksdóttur; þeirra son var Þorlákur, hans son Steinþór og þeirra Þuríðar, dóttur Auðunar stota, og Þórður blígur, er átti Otkötlu Þorvaldsdóttur, Þormóðssonar goða; þriðji var Þormóður, er átti Þorgerði, dóttur Þorbrands úr Álftafirði, fjórði Bergþór, er féll á Vigrafirði; dóttir þeirra Helga, er átti Ásmundur Þorgestsson. Steinþór átti Þuríði, dóttur Þorgils Arasonar; Gunnlaugur var son þeirra, er átti Þuríði hina spöku, dóttur Snorra goða.


31. kafli

Kolur hét maður, er nam land utan frá Fjarðarhorni til Tröllaháls og út um Berserkseyri til Hraunsfjarðar. Hans son var Þórarinn og Þorgrímur; við þá er kennt Kolssonafell. Þeir feðgar bjuggu allir að Kolgröfum; frá þeim eru Kolgreflingar komnir.

Auðun stoti, son Vola hins sterka, nam Hraunsfjörð allan fyrir ofan Hraun, á milli Svínavatns og Tröllaháls; hann bjó í Hraunsfirði og var mikill fyrir sér og sterkur. Auðun átti Mýrúnu, dóttur Maddaðar Írakonungs.

Auðun sá um haust, að hestur apalgrár rann ofan frá Hjarðarvatni og til stóðhrossa hans; sá hafði undir stóðhestinn. Þá fór Auðun til og tók hinn grá hestinn og setti fyrir tveggja yxna sleða og ók saman alla töðu sína. Hesturinn var góður meðfarar um miðdegið; en er á leið, steig hann í völlinn til hófskeggja; en eftir sólarfall sleit hann allan reiðing og hljóp til vatnsins. Hann sást aldri síðan.

Son Auðunar var Steinn. Faðir Helgu, er átti Án í Hrauni; þeirra son var Már, faðir Guðríðar, móður Kjartans og Ánar í Kirkjufelli. Ásbjörn hét annar son Auðunar, þriðji Svarthöfði, en dóttir Þuríður, er Ásgeir átti á Eyri, þeirra son Þorlákur.


32. kafli

Björn hét son Ketils flatnefs og Yngvildar, dóttur Ketils veðurs hersis af Hringaríki. Björn sat eftir að eignum föður síns, þá er Ketill fór til Suðureyja. En er Ketill hélt sköttum fyrir Haraldi konungi hinum hárfagra, þá rak konungur Björn son hans af eignum sínum og tók undir sig. Þá fór Björn vestur um haf og vildi þar ekki staðfestast; því var hann kallaður Björn hinn austræni. Hann átti Gjaflaugu Kjallaksdóttur, systur Bjarnar hins sterka.

Björn hinn austræni fór til Íslands og nam land á milli Hraunsfjarðar og Stafár; hann bjó í Bjarnarhöfn á Borgarholti og hafði selför upp til Selja og átti rausnarbú. Hann dó í Bjarnarhöfn og er heygður við Borgarlæk, því að hann einn var óskírður barna Ketils flatnefs.

Son þeirra Bjarnar og Gjaflaugar var Kjallakur hinn gamli, er bjó í Bjarnarhöfn eftir föður sinn, og Óttar, faðir Bjarnar, föður Vigfúss í Drápuhlíð, er Snorri goði lét drepa. Annar son Óttars var Helgi; hann herjaði á Skotland og tók þar að herfangi Niðbjörgu, dóttur Bjólans konungs og Kaðlínar, dóttur Göngu-Hrólfs; hann fékk hennar; var son þeirra Ósvífur hinn spaki og Einar skálaglamm, er drukknaði á Einarsskeri í Selasundi, og kom skjöldur hans í Skjaldey, en feldur á Feldarhólm. Einar var faðir Þorgerðar, móður Herdísar, móður Steins skálds. Ósvífur átti Þórdísi, dóttur Þjóðólfs úr Höfn; þeirra börn voru þau Óspakur, faðir Úlfs stallara og Þórólfur. Torráður, Einar, Þorbjörn og Þorkell, þeir urðu sekir um víg Kjartans Óláfssonar, og Guðrún, móðir Gellis og Bolla og Þorleiks og Þórðar kattar. Vilgeir hét son Bjarnar hins austræna.

Kjallakur hinn gamli átti Ástríði, dóttur Hrólfs hersis og Öndóttar, systur Ölvis barnakarls; þeirra son var Þorgrímur goði. Hann átti (Þórhildi); voru synir þeirra Víga-Styr og Vermundur mjóvi og Brandur, faðir Þorleiks. Dætur Kjallaks hins gamla Gerður, er Þormóður goði átti, og Helga, er Ásgeir á Eyri átti.


33. kafli

Þórólfur son Örnólfs fiskreka bjó í Mostur; því var hann kallaður Mostrarskegg; hann var blótmaður mikill og trúði á Þór. Hann fór fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra til Íslands og sigldi fyrir sunnan land. En er hann kom vestur fyrir Breiðafjörð, þá skaut hann fyrir borð öndvegissúlum sínum; þar var skorinn á Þór. Hann mælti svo fyrir, að Þór skyldi þar á land koma, sem hann vildi, að Þórólfur byggði; hét hann því að helga Þór allt landnám sitt og kenna við hann.

Þórólfur sigldi inn á fjörðinn og gaf nafn firðinum og kallaði Breiðafjörð. Hann tók land fyrir sunnan fjörðinn, nær miðjum firðinum; þar fann hann Þór rekinn í nesi einu; það heitir nú Þórsnes. Þeir lendu þar inn frá í voginn, er Þórólfur kallaði Hofsvog; þar reisti hann bæ sinn og gerði þar hof mikið og helgaði Þór; þar heita nú Hofstaðir. Fjörðurinn var þá byggður lítt eða ekki.

Þórólfur nam land frá Stafá inn til Þórsár og kallaði það allt Þórsnes. Hann hafði svo mikinn átrúnað á fjall það, er stóð í nesinu, er hann kallaði Helgafell, að þangað skyldi engi maður óþveginn líta, og þar var svo mikil friðhelgi, að öngu skyldi granda í fjallinu, hvorki fé né mönnum, nema sjálft gengi á braut. Það var trúa þeirra Þórólfs frænda, að þeir dæi allir í fjallið.

Þar á nesinu, sem Þór kom á land. Hafði Þórólfur dóma alla, og þar var sett héraðsþing með ráði allra sveitarmanna. En er menn voru þar á þinginu, þá skyldi víst eigi hafa álfreka á landi, og var ætlað til þess sker það, er Dritsker heitir, því að þeir vildu eigi saurga svo helgan völl sem þar var.

En þá er Þórólfur var dauður, en Þorsteinn son hans var ungur, þá vildu þeir Þorgrímur Kjallaksson og Ásgeir mágur hans eigi ganga í skerið örna sinna. Það þoldu eigi Þórsnesingar, er þeir vildu saurga svo helgan völl. Því börðust þeir Þorsteinn þorskabítur og Þorgeir kengur við þá Þorgrím og Ásgeir þar á þinginu um skerið, og féllu þar nokkurir menn, en margir urðu sárir, áður þeir urðu skildir. Þórður gellir sætti þá; og með því að hvorigir vildu láta af sínu máli, þá var völlurinn óheilagur af heiftarblóði. Þá var það ráð tekið að færa brutt þaðan þingið og inn í nesið, þar sem nú er; var þar þá helgistaður mikill, og þar stendur enn Þórssteinn, er þeir brutu þá menn um, er þeir blótuðu, og þar hjá er sá dómhringur, er menn skyldu til blóts dæma. Þar setti og Þórður gellir fjórðungsþing með ráði allra fjórðungsmanna.

Son Þórólfs Mostrarskeggja var Hallsteinn Þorskafjarðargoði, faðir Þorsteins surts hins spaka. Ósk var móðir Þorsteins surts, dóttir Þorsteins rauðs. Annar son Þórólfs var Þorsteinn þorskabítur; hann átti Þóru, dóttur Óláfs feilans, systur Þórðar gellis. Þeirra son var Þorgrímur, faðir Snorra goða, og Börkur hinn digri, faðir Sáms, er Ásgeir vó.


34. kafli

Geirröður hét maður, er fór til Íslands, og með honum Finngeir son Þorsteins öndurs og Úlfar kappi: þeir fóru af Hálogalandi til Íslands. Geirröður nam land inn frá Þórsá til Langadalsár; hann bjó á Eyri. Geirröður gaf land Úlfari skipverja sínum tveim megin Úlfarsfells og fyrir innan fjall. Geirröður gaf Finngeiri lönd uppi um Álftafjörð; hann bjó þar, er nú heitir á Kársstöðum. Finngeir var faðir Þorfinns, föður Þorbrands í Álftafirði, er átti Þorbjörgu, dóttur Þorfinns Sel-Þórissonar.

Geirríður hét systir Geirröðar, er átt hafði Björn, son Bölverks blindingatrjónu; Þórólfur hét son þeirra.

Þau Geirríður fóru til Íslands eftir andlát Bjarnar og voru hinn fyrsta vetur á Eyri. Um vorið gaf Geirröður systur sinni bústað í Borgardal, en Þórólfur fór utan og lagðist í víking. Geirríður sparði ekki mat við menn og lét gera skála sinn um þjóðbraut þvera; hún sat á stóli og laðaði úti gesti, en borð stóð inni jafnan og matur á.

Þórólfur kom til Íslands eftir andlát Geirríðar; hann skoraði á Úlfar til landa og bauð honum hólmgöngu. Úlfar var þá gamall og barnlaus. Hann féll á hólmi, en Þórólfur varð sár á fæti og gekk haltur ávallt síðan; því var hann bægifótur kallaður. Þórólfur tók land eftir Úlfar, en sum Þorfinnur í Álftafirði; hann setti á leysingja sína, Úlfar og Örlyg.

Geirröður á Eyri var faðir Þorgeirs kengs, er bæinn færði úr eyrinni upp undir fjallið; hann var faðir Þórðar, föður Atla. Þórólfur bægifótur var faðir Arnkels goða og Geirríðar, er átti Þórólfur í Mávahlíð.

Synir Þorbrands í Álftafirði voru þeir Þorleifur kimbi og Þóroddur, Snorri, Þorfinnur, Illugi, Þormóður. Þeir deildu við Arnkel um arf leysingja sinna og voru að vígi hans með Snorra goða á Örlygsstöðum. Eftir það fór Þorleifur kimbi utan; þá laust Arnbjörn son Ásbrands úr Breiðavík hann með grautarþvöru; Kimbi brá á gaman. Þórður blígur brá honum því á Þórsnesþingi, þá er hann bað Helgu, systur hans; þá lét Kimbi ljósta Blíg með sandtorfu. Af því gerðust deilur þeirra Eyrbyggja og Þorbrandssona og Snorra goða; þeir börðust í Álftafirði og á Vigrafirði.

Þorbergur hét maður, er fór úr Íafirði til Íslands og nam Langadal hvorntveggja og bjó í hinum ytra. Hans son var Áslákur, er átti Arnleifu, dóttur Þórðar gellis: þeirra börn voru þau Illugi hinn rammi og Gunnhildur, er Breiður átti fyrr, en síðar Halldór á Hólmslátri.

Illugi hinn rammi átti Guðleifu, dóttur Ketils smiðjudrumbs; þeirra synir Eyjólfur og Eindriði, Kollur og Gellir, en dóttir Herþrúður, er Þorgrímur Vermundarson átti hins mjóva, og Friðgerður, er Oddur Draflason átti, og Guðríður, er Bergþór son Þormóðar Þorlákssonar átti fyrr, en síðar Jörundur í Skorradal, og Jódís, er átti Már, son Illuga Arasonar, og Arnleif, er átti Kollur, son Þórðar blígs. Frá Illuga eru Langdælir komnir.

Steinn mjögsiglandi Vígbjóðsson bróðir Þóris haustmyrkurs nam Skógarströnd til móts við Þorberg og inn til Laxár; hann bjó á Breiðabólstað. Hans son var Þórhaddur í Hítardal og Þorgestur, er átti Arnóru dóttur Þórðar gellis; synir þeirra Steinn lögsögumaður og Ásmundur og Hafliði og Þórhaddur.


35. kafli

Þorvaldur son Ásvalds Úlfssonar, Yxna-Þórissonar, og Eiríkur rauði son hans fóru af Jaðri fyrir víga sakir og námu land á Hornströndum og bjuggu að Dröngum; þar andaðist Þorvaldur.

Eiríkur fékk þá Þjóðhildar, dóttur Jörundar Atlasonar og Þorbjargar knarrarbringu, er þá átti Þorbjörn hinn haukdælski; réðst Eiríkur þá norðan og ruddi lönd í Haukadal; hann bjó á Eiríksstöðum hjá Vatnshorni.

Þá felldu þrælar Eiríks skriðu á bæ Valþjófs á Valþjófsstöðum, en Eyjólfur saur, frændi hans, drap þrælana hjá Skeiðsbrekkum upp frá Vatnshorni. Fyrir þá sök vó Eiríkur Eyjólf saur; hann vó og Hólmgöngu-Hrafn að Leikskálum. Geirsteinn og Oddur á Jörva, frændur Eyjólfs, mæltu eftir hann.

Þá var Eiríkur gör úr Haukadal. Hann nam þá Brokey og Öxney og bjó að Töðum í Suðurey hinn fyrsta vetur; þá léði hann Þorgesti setstokka. Síðan fór Eiríkur í Öxney og bjó á Eiríksstöðum; þá heimti hann setstokkana og náði eigi. Eiríkur sótti setstokkana á Breiðabólstað, en Þorgestur fór eftir honum; þeir börðust skammt frá garði að Dröngum. Þar féllu tveir synir Þorgests og nokkurir menn aðrir. Eftir það höfðu hvorirtveggju setu. Styr veitti Eiríki og Eyjólfur úr Svíney og synir Þorbrands úr Álftafirði og Þorbjörn Vífilsson, en Þorgesti veittu synir Þórðar gellis og Þorgeir úr Hítardal, Áslákur úr Langadal og Illugi son hans.

Þeir Eiríkur urðu sekir á Þórsnesþingi. Hann bjó skip í Eiríksvogi, en Eyjólfur leyndi honum í Dímunarvogi, meðan þeir Þorgestur leituðu hans um eyjar. Þeir Þorbjörn og Eyjólfur og Styr fylgdu Eiríki út um eyjar; hann sagði þeim, að hann ætlaði að leita lands þess, er Gunnbjörn son Úlfs kráku sá, er hann rak vestur um Ísland, þá er hann fann Gunnbjarnarsker; hann kvaðst aftur mundu leita til vina sinna, ef hann fyndi landið.

Eiríkur sigldi undan Snæfellsnesi, en hann kom utan að Miðjökli, þar sem Bláserkur heitir. Hann fór þaðan suður með landi að leita þess, ef þannig væri byggjanda. Hann var hinn fyrsta vetur í Eiríksey, nær miðri hinni vestri byggð. Um vorið eftir fór hann til Eiríksfjarðar og tók sér þar bústað; hann fór það sumar í hina vestri óbyggð og gaf víða örnefni. Hann var annan vetur í Eiríkshólmum við Hvarfsgnípu, en hið þriðja sumar fór hann allt norður til Snæfells og inn í Hrafnsfjörð; þá lést hann kominn fyrir botn Eiríksfjarðar. Hvarf hann þá aftur og var hinn þriðja vetur í Eiríksey fyrir mynni Eiríksfjarðar.

Eftir um sumarið fór hann til Íslands og kom í Breiðafjörð; hann var þann vetur á Hólmslátri með Ingólfi. Um vorið börðust þeir Þorgestur, og fékk Eiríkur þá ósigur; eftir það voru þeir sættir.

Það sumar fór Eiríkur að byggja land það, er hann hafði fundið og hann kallaði Grænland, því að hann lét það menn mjög mundu fýsa þangað, ef landið héti vel.

Svo segja fróðir menn, að það sumar fóru hálfur þriðji tugur skipa til Grænlands úr Breiðafirði og Borgarfirði, en fjórtán komust út; sum rak aftur, en sum týndust. Það var fimmtán vetrum fyrr en kristni var í lög tekin á Íslandi.

Herjólfur hét maður Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Ingólfs landnámamanns. Þeim Herjólfi gaf Ingólfur land á milli vogs og Reykjaness.

Herjólfur hinn yngri fór til Grænlands, þá er Eiríkur hinn rauði byggði landið. Með honum var á skipi suðureyskur maður kristinn, sá er orti Hafgerðingadrápu; þar er þetta stef í:

Mínar biðk at munka reyni
meinalausan farar beina.
Heiðis haldi hárar foldar
hallar dróttinn of mér stalli.

Herjólfur nam Herjólfsfjörð og bjó á Herjólfsnesi; hann var hinn göfgasti maður.

Eiríkur nam síðan Eiríksfjörð og bjó í Brattahlíð, en Leifur son hans eftir hann. Þessir menn námu land á Grænlandi, er þá fóru út með Eiríki: Herjólfur Herjólfsfjörð; hann bjó á Herjólfsnesi, Ketill Ketilsfjörð, Hrafn Hrafnsfjörð, Sölvi Sölvadal, Helgi Þorbrandsson Álftafjörð, Þorbjörn glóra Siglufjörð, Einar Einarsfjörð, Hafgrímur Hafgrímsfjörð og Vatnahverfi, Arnlaugur Arnlaugsfjörð, en sumir fóru til Vestribyggðar.

Maður hét Þorkell farserkur, systrungur Eiríks rauða; (hann) fór til Grænlands með Eiríki og nam Hvalseyjarfjörð og víðast milli Eiríksfjarðar og Einarsfjarðar og bjó í Hvalseyjarfirði; frá honum eru Hvalseyjarfirðingar komnir. Hann var mjög rammaukinn. Hann lagðist eftir geldingi gömlum út í Hvalsey og flutti utan á baki sér, þá er hann vildi fagna Eiríki (frænda) sínum, en ekki var sæfært skip heima; það er löng hálf vika.

Þorkell var dysjaður í túni í Hvalseyjarfirði og hefir jafnan gengið þar um hýbýli.


36. kafli

Ingólfur hinn sterki nam land inn frá Laxá til Skraumuhlaupsár og bjó á Hólmslátri; hans bróðir var Þorvaldur, faðir Þorleifs, er þar bjó síðan.

Óleifur hinn hvíti hét herkonungur; hann var son Ingjalds konungs Helgasonar, Óláfssonar, Guðröðarsonar, Hálfdanarsonar hvítbeins Upplendingakonungs. Óleifur hinn hvíti herjaði í vesturvíking og vann Dyflinni á Írlandi og Dyflinnarskíri og gerðist þar konungur yfir; hann fékk Auðar hinnar djúpauðgu dóttur Ketils flatnefs; Þorsteinn rauður hét son þeirra. Óleifur féll á Írlandi í orustu, en Auður og Þorsteinn fóru þá í Suðureyjar. Þar fékk Þorsteinn Þuríðar dóttur Eyvindar austmanns, systur Helga hins magra; þau áttu mörg börn. Óláfur feilan hét son þeirra, en dætur Gróa og Álöf, Ósk og Þórhildur, Þorgerður og Vigdís.

Þorsteinn gerðist herkonungur; hann réðst til félags með Sigurði (jarli) hinum ríka, syni Eysteins glumru. Þeir unnu Katanes og Suðurland, Ros og Merrhæfi og meir en hálft Skotland. Gerðist Þorsteinn þar konungur yfir, áður Skotar sviku hann, og féll hann þar í orustu.

Auður var þá á Katanesi, er hún spurði fall Þorsteins. Hún lét þá gera knörr í skógi á laun, en er hann var búinn, hélt hún út í Orkneyjar; þar gifti hún Gró, dóttur Þorsteins rauðs; hún var móðir Grélaðar, er Þorfinnur hausakljúfur átti. Eftir það fór Auður að leita Íslands; hún hafði á skipi með sér tuttugu karla frjálsa.


37. kafli

Kollur hét maður Veðrar-Grímsson, Ásasonar hersis; hann hafði forráð með Auði og var virður mest af henni. Kollur átti Þorgerði, dóttur Þorsteins rauðs.

Erpur hét leysingi Auðar; hann var son Meldúns jarls af Skotlandi, þess er féll fyrir Sigurði jarli hinum ríka; móðir Erps var Myrgjol, dóttir Gljómals Írakonungs. Sigurður jarl tók þau að herfangi og þjáði. Myrgjol var ambátt konu jarls og þjónaði henni trúliga; hún var margkunnandi. Hún varðveitti barn drottningar óborið, meðan hún var í laugu. Síðan keypti Auður hana dýrt og hét henni frelsi, ef hún þjónaði svo Þuríði konu Þorsteins rauðs sem drottningu. Þau Myrgjol og Erpur son hennar fóru til Íslands með Auði.

Auður hélt fyrst til Færeyja og gaf þar Álöfu, dóttur Þorsteins rauðs; þaðan eru Götuskeggjar komnir. Síðan fór hún að leita Íslands. Hún kom á Vikrarskeið og braut þar. Fór hún þá á Kjalarnes til Helga bjólu bróður síns. Hann bauð henni þar með helming liðs síns, en henni þótti það varboðið, og kvað hún hann lengi mundu lítilmenni vera. Hún fór þá vestur í Breiðafjörð til Bjarnar bróður síns; hann gekk mót henni með húskarla sína og lést kunna veglyndi systur sinnar; bauð hann henni þar með alla sína menn, og þá hún það.

Eftir um vorið fór Auður í landaleit inn í Breiðafjörð og lagsmenn hennar; þau átu dögurð fyrir norðan Breiðafjörð, þar er nú heitir Dögurðarnes. Síðan fóru þau inn eyjasund; þau lendu við nes það, er Auður tapaði kambi sínum; það kallaði hún Kambsnes.

Auður nam öll Dalalönd í innanverðum firðinum frá Dögurðará til Skraumuhlaupsár. Hún bjó í Hvammi við Aurriðaárós; þar heita Auðartóftir. Hún hafði bænahald sitt á Krosshólum; þar lét hún reisa krossa, því að hún var skírð og vel trúuð. Þar höfðu frændur hennar síðan átrúnað mikinn á hólana. Var (þar) þá gör hörg, er blót tóku til; trúðu þeir því, að þeir dæi í hólana, og þar var Þórður gellir leiddur í, áður hann tók mannvirðing, sem segir í sögu hans.


38. kafli

Auður gaf land skipverjum sínum og leysingjum.

Ketill hét maður, er hún gaf land frá Skraumuhlaupsá til Hörðadalsár; hann bjó á Ketilsstöðum. Hann var faðir Vestliða og Einars, föður Kleppjárns og Þorbjarnar, er Styr vó, og Þórdísar móður Þorgests.

Hörður hét skipveri Auðar; honum gaf hún Hörðadal. Hans son var Ásbjörn, er átti Þorbjörgu dóttur Miðfjarðar-Skeggja, þeirra börn Hnaki, hann átti Þorgerði, dóttur Þorgeirs höggvinkinna, og Ingibjörg, er Illugi hinn svarti átti.

Vífill hét leysingi Auðar; hann spurði þess Auði, hví hún gaf honum öngvan bústað sem öðrum mönnum. Hún kvað það eigi skipta, kvað hann þar göfgan mundu þykja, sem hann væri. Honum gaf hún Vífilsdal; þar bjó hann og átti deilur við Hörð.

Son Vífils var Þorbjörn, faðir Guðríðar, er átti Þorsteinn, sonur Eiríks hins rauða, (en síðar Þorfinnur karlsefni; frá þeim eru) byskupar komnir: Björn, Þorlákur, Brandur.

Annar son Vífils var Þorgeir, er átti Arnóru dóttur Lón-Einars, þeirra dóttir Yngvildur, er átti Þorsteinn, son Snorra goða.

Hundi hét leysingi Auðar skoskur; honum gaf hún Hundadal; þar bjó hann lengi.

Sökkólfur hét leysingi Auðar; honum gaf hún Sökkólfsdal; hann bjó á Breiðabólstað, og er margt manna frá honum komið.

Erpi syni Meldúns jarls, er fyrr var getið, gaf Auður frelsi og Sauðafellslönd; frá honum eru Erplingar komnir.

Ormur hét son Erps, annar Gunnbjörn, faðir Arnóru, er átti Kolbeinn Þórðarson, þriðji Ásgeir, faðir Þórörnu, er átti Sumarliði Hrappsson; dóttir Erps var Halldís, er átti Álfur í Dölum; Dufnall var enn son Erps, faðir Þorkels, föður Hjalta, föður Beinis; Skati var enn son Erps, faðir Þórðar, föður Gísla, föður Þorgerðar.

Þorbjörn hét maður, er bjó að Vatni í Haukadal; hann átti..., og var þeirra dóttir Hallfríður, er átti Höskuldur í Laxárdal; þau áttu mörg börn. Bárður var son þeirra og Þorleikur, faðir Bolla, er átti Guðrúnu Ósvífursdóttur; þeirra synir voru þeir Þorleikur og Höskuldur, Surtur og Bolli, Herdís og Þorgerður dætur þeirra. Þórður Ingunnarson átti fyrr Guðrúnu, og voru þeirra börn Þórður köttur og Arnkatla. Þorkell Eyjólfsson átti Guðrúnu síðast, þeirra börn Gellir og Rjúpa. Bárður Höskuldsson var faðir Hallbjargar, er átti Hallur, son Víga-Styrs. Hallgerður snúinbrók var dóttir Höskulds og Þorgerður og Þuríður.


39. kafli

(Kollur nam Laxárdal allan og) allt til Haukadalsár; hann var kallaður Dala-Kollur; hann átti Þorgerði dóttur Þorsteins rauðs. Börn þeirra voru þau Höskuldur og Gróa, er átti Véleifur hinn gamli, og Þorkatla, er Þorgeir goði átti, Höskuldur átti Hallfríði, dóttur Þorbjarnar frá Vatni; Þorleikur var son þeirra; hann átti Þuríði, dóttur Arnbjarnar Sleitu-Bjarnarsonar; þeirra son var Bolli.

Höskuldur keypti Melkorku, dóttur Mýrkjartans Írakonungs; þeirra son var Óláfur pá og Helgi; dætur Höskulds Þuríður og Þorgerður og Hallgerður snúinbrók. Óláfur átti Þorgerði, dóttur Egils Skalla-Grímssonar, þeirra son Kjartan og Halldór, Steinþór og Þorbergur, dætur Óláfs Þuríður, Þorbjörg digra og Bergþóra. Kjartan átti Hrefnu dóttur Ásgeirs æðikolls, þeirra son Ásgeir og Skúmur.

Herjólfur son Eyvindar elds fékk síðar (Þorgerðar) dóttur Þorsteins rauðs; Hrútur var son þeirra. Honum galt Höskuldur í móðurarf sinn Kambsnessland milli Haukadalsár og hryggjar þess, er gengur úr fjalli ofan í sjó.

Hrútur bjó á Hrútsstöðum; hann átti Hallveigu dóttur Þorgríms úr Þykkvaskógi, systur Ármóðs hins gamla; þau áttu mörg börn. Þeirra son var Þórhallur, faðir Halldóru, móður Guðlaugs, föður Þórdísar, móður Þórðar, föður Sturlu í Hvammi. Grímur var og sonur Hrúts og Már, Eindriði og Steinn, Þorljótur og Jörundur, Þorkell, Steingrímur, Þorbergur, Atli, Arnór, Ívar, Kár, Kúgaldi, en dætur Bergþóra, Steinunn, Rjúpa, Finna, Ástríður.

Auður gaf dóttur Þorsteins rauðs, Þórhildi, Eysteini meinfret syni Álfs úr Ostu; þeirra son var Þórður, faðir Kolbeins, föður Þórðar skálds, og Álfur í Dölum. Hann átti Halldísi, dóttur Erps; þeirra son var Snorri, faðir Þorgils Höllusonar. Dætur Álfs í Dölum voru þær Þorgerður, er átti Ari Másson, og Þórelfur, er átti Hávar, son Einars Kleppssonar, þeirra son Þorgeir. Þórólfur refur var og son Eysteins, er féll á Þingnessþingi úr liði Þórðar gellis, þá er þeir Tungu-Oddur börðust. Hrappur hét hinn fjórði Eysteins son.

Auður gaf Ósk dóttur Þorsteins Hallsteini goða; þeirra son var Þorsteinn surtur. Vigdísi Þorsteinsdóttur gaf Auður Kampa-Grími, þeirra dóttir Arnbjörg, er Ásólfur flosi átti í Höfða, þeirra börn Oddur og Vigdís, er átti Þorgeir Kaðalsson.


40. kafli

Auður fæddi Óláf feilan son Þorsteins rauðs; hann fékk Álfdísar hinnar barreysku, dóttur Konáls Steinmóðssonar, Ölvissonar barnakarls. Sonur Konáls var Steinmóður, faðir Halldóru, er átti Eilífur son Ketils hins einhenda. Þeirra börn Þórður gellir og Þóra, móðir Þorgríms, föður Snorra goða; hún var og móðir Barkar hins digra og Más Hallvarðssonar. Ingjaldur og Grani voru synir Óláfs feilans. Vigdís hét dóttir Óláfs feilans.... Helga hét hin þriðja dóttir Óláfs; hana átti Gunnar Hlífarson, þeirra dóttir Jófríður, er Þóroddur Tungu-Oddsson átti, en síðar Þorsteinn Egilsson; Þórunn var önnur dóttir Gunnars, er Hersteinn Blund-Ketilsson átti; Rauður og Höggvandill voru synir Gunnars. Þórdís hét hin fjórða dóttir Óláfs feilans; hana átti Þórarinn Ragabróðir; þeirra dóttir var Vigdís, er Steinn Þorfinnsson átti að Rauðamel.

Auður var vegskona mikil. Þá er hún var ellimóð, bauð hún til sín frændum sínum og mágum og bjó dýrliga veislu; en er þrjár nætur hafði veislan staðið, þá valdi hún gjafir vinum sínum og réð þeim heilræði; sagði hún, að þá skyldi standa veislan enn þrjár nætur; hún kvað það vera skyldu erfi sitt. Þá nótt eftir andaðist hún og var grafin í flæðarmáli, sem hún hafði fyrir sagt, því að hún vildi eigi liggja í óvígðri moldu, er hún var skírð. Eftir það spilltist trúa frænda hennar.

Kjallakur hét maður, son Bjarnar hins sterka, bróður Gjaflaugar, er átti Björn hinn austræni; hann fór til Íslands og nam land frá Dögurðará til Klofninga og bjó á Kjallaksstöðum. Hans son var Helgi hrogn og Þorgrímur þöngull undir Felli, Eilífur prúði, Ásbjörn vöðvi á Orrastöðum, Björn hvalmagi í Túngarði, Þorsteinn þynning, Gissur glaði í Skoravík, Þorbjörn skröfuður á Ketilsstöðum, Æsa í Svíney, móðir Eyjólfs og Tin-Forna.

Ljótólfur hét maður; honum gaf Kjallakur bústað á Ljótólfsstöðum inn frá Kaldakinn; hans synir voru Þorsteinn og Björn og Hrafsi; hann var risaættar að móðerni. Ljótólfur var járnsmiður. Þeir réðust út í Fellsskóga á Ljótólfsstaði. Vífill var vin þeirra, er bjó á Vífilstóftum. Þórunn að Þórunnartóftum var móðir Oddmars og fóstra Kjallaks, sonar Bjarnar hvalmaga.

Álöf, dóttir Þorgríms undir Felli, tók ærsl; það kenndu menn Hrafsa, en hann tók Oddmar hjá hvílu hennar, og sagði hann sig valda. Þá gaf Þorgrímur honum Deildarey. Hrafsi kvaðst mundu höggva Oddmar á Birni áður hann bætti fyrir hann. Eigi vildi Kjallakur láta eyna. Hrafsi tók fé þeirra úr torfnausti. Kjallakssynir fóru eftir og náðu eigi. Eftir það stukku þeir Eilífur og Hrafsi í eyna. (Ör kom í þarminn Eilífs ígrás, og hamaðist hann. Björn hvalmagi vó) Björn Ljótólfsson að leik. Þeir Ljótólfur keyptu að Oddmari, að hann kæmi Birni í færi. Kjallakur ungi rann eftir honum. Eigi varð hann sóttur, áður þeir tóku sveininn. Kjallak vógu þeir á Kjallakshóli. Eftir það sóttu Kjallakssynir Ljótólf og Þorstein í jarðhús í Fellsskógum, og fann Eilífur annan munna; gekk hann á bak þeim og vó þá báða. Hrafsi gekk inn á Orrastöðum að boði; hann var í kvenfötum. Kjallakur sat á palli með skjöld. Hrafsi hjó hann Ásbjörn banahögg og gekk út um vegg. Þórður Vífilsson sagði Hrafsa, að yxni hans lægi í keldu; hann bar skjöld hans. Hrafsi fleygði honum fyrir kleif, er hann sá Kjallakssonu. Eigi gátu þeir (sótt) hann, áður þeir felldu viðu að honum. Eilífur sat hjá, er þeir (sóttu) hann.

Hjörleifur Hörðakonungur átti Æsu hina ljósu; þeirra son var Ótryggur, faðir Óblauðs, föður Högna hins hvíta, föður Úlfs hins skjálga. Annar son Hjörleifs var Hálfur, er réð Hálfsrekkum; hans móðir var Hildur en mjóva, dóttir Högna (í) Njarðey. Hálfur konungur var faðir Hjörs konungs, þess er hefndi föður síns með Sölva Högnasyni.

Hjör herjaði á Bjarmaland; hann tók þar að herfangi Ljúfvinu dóttur Bjarmakonungs. Hún var eftir á Rogalandi, þá er Hjör konungur fór í hernað; þá ól hún sonu tvo; hét annar Geirmundur, en annar Hámundur; þeir voru svartir mjög. Þá ól og ambátt hennar son; sá hét Leifur, son Loðhattar þræls. Leifur var hvítur; því skipti drottning sveinum við ambáttina og eignaði sér Leif. En er konungur kom heim, var hann illa við Leif og kvað hann vera smámannligan.

Næst er konungur fór í víking, bauð drottning heim Braga skáldi og bað hann skynja um sveinana; þá voru þeir þrevetrir. Hún byrgði sveinana í stofu hjá Braga, en fal sig í pallinum. Bragi kvað þetta:

Tveir eru inni,
trúi ek báðum vel,
Hámundr ok Geirmundr,
Hjörvi bornir,
en Leifr þriði
Loðhattarson.
Fæðat þú þann, kona.
Fáir munu verri.

Hann laust sprotanum á pall þann, er drottning var í. Þá er konungur kom heim, sagði drottning honum þetta og sýndi honum sveinana; hann lést eigi slík heljarskinn séð hafa. Því voru þeir svo síðan kallaðir báðir bræður.

Geirmundur heljarskinn var herkonungur; hann herjaði í vesturvíking, en átti ríki á Rogalandi. En er hann kom aftur, þá er hann hafði lengi í bruttu verið, þá hafði Haraldur konungur barist í Hafursfirði við Eirík Hörðakonung og Súlka konung af Rogalandi og Kjötva hinn auðga og fengið sigur. Hann hafði þá lagt undir sig allt Rogaland og tekið þar marga menn af óðulum sínum. Sá þá Geirmundur öngvan annan sinn kost en ráðast brutt, því að hann fékk þar öngvar sæmdir.

Hann tók þá það ráð að leita Íslands. Til ferðar réðust með honum þeir Úlfur hinn skjálgi frændi hans og Steinólfur hinn lági, son Hrólfs hersis af Ögðum og Öndóttar, systur Ölvis barnakarls.

Þeir Geirmundur höfðu samflot. Og stýrði sínu skipi hver þeirra. Þeir tóku Breiðafjörð og lágu við Elliðaey; þá spurðu þeir, að fjörðurinn var byggður hið syðra, en lítt eða ekki hið vestra. Geirmundur hélt inn að Meðalfellsströnd og nam land frá Fábeinsá til Klofasteina; hann lagði í Geirmundarvog, en var hinn fyrsta vetur í Búðardal. Steinólfur nam land inn frá Klofasteinum, en Úlfur fyrir vestan fjörð, sem enn mun sagt verða.

Geirmundi þótti landnám sitt of lítið, er hann hafði rausnarbú og fjölmennt, svo að hann hafði átta tigu frelsingja; hann bjó á Geirmundarstöðum undir Skarði.

Maður hét Þrándur mjóbeinn; hann fór til Íslands með Geirmundi heljarskinni; hann var ættaður af Ögðum. Þrándur nam eyjar fyrir vestan Bjarneyjaflóa og bjó í Flatey; hann átti dóttur Gils skeiðarnefs; þeirra son var Hergils hnapprass, er bjó í Hergilsey. Dóttir Hergils var Þorkatla, er átti Már á Reykjahólum. Hergils átti Þórörnu, dóttur Ketils ilbreiðs; Ingjaldur var son þeirra, er bjó í Hergilsey og veitti Gisla Súrssyni. Fyrir það gerði Börkur hinn digri af honum eyjarnar, en hann keypti Hlíð í Þorskafirði. Son hans var Þórarinn, er átti Þorgerði, dóttur Glúms (Geirasonar); þeirra son var (Helgu-)Steinar. Þórarinn var með Kjartani í Svínadal, þá er hann féll.

Þá bjó Þrándur mjóbeinn í Flatey, er Oddur skrauti og Þórir son hans komu út. Þeir námu land í Þorskafirði; bjó Oddur í Skógum, en Þórir fór utan og var í hernaði; hann fékk gull mikið á Finnmörk. Með honum voru synir Halls af Hofstöðum. En er þeir komu til Íslands, kallaði Hallur til gullsins, og urðu þar um deilur miklar; af því gerðist Þorskfirðinga saga. Gull-Þórir bjó á Þórisstöðum; hann átti Ingibjörgu, dóttur Gils skeiðarnefs, og var þeirra son Guðmundur. Þórir var hið mesta afarmenni.

Geirmundur fór vestur á Strandir og nam þar land frá Rytagnúp vestan til Horns og þaðan austur til Straumness. Þar gerði hann fjögur bú, eitt í Aðalvík, það varðveitti ármaður hans; annað í Kjaransvík, það varðveitti Kjaran þræll hans; þriðja á almenningum hinum vestrum, það varðveitti Björn þræll hans, er sekur varð um sauðatöku eftir dag Geirmundar; af hans sektarfé urðu almenningar: fjórða í Barðsvík, það varðveitti Atli þræll hans, og hafði hann fjórtán þræla undir sér.

En er Geirmundur fór meðal búa sinna, hafði hann jafnan átta tigu manna. Hann var vellauðigur að lausafé og hafði of kvikfjár. Svo segja menn, að svín hans gengi á Svínanesi, en sauðir á Hjarðarnesi, en hann hafði selför í Bitru. Sumir segja, að hann hafi og bú átt í Selárdal á Geirmundarstöðum í Steingrímsfirði.

Það segja vitrir menn, að hann hafi göfgastur verið allra landnámsmanna á Íslandi. Lítt átti hann hér deilur við menn; hann kom heldur gamall út. Þeir Kjallakur deildu um land það, er var á meðal Klofninga og Fábeinsár, og börðust á ekrunum fyrir utan Klofninga; þar vildu hvorirtveggju sá; þar veitti Geirmundi betur. Þeir Björn hinn austræni og Vestar af Eyri sættu þá; þá lendi Vestar í Vestarsnesi, er hann fór til fundarins.

Geirmundur fal fé sitt mikið í Andarkeldu undir Skarði. Hann átti Herríði Gautsdóttur, Gautrekssonar; Ýr var dóttir þeirra. Síðan átti hann Þorkötlu dóttur Ófeigs Þórólfssonar; þeirra börn Geirríður og...

Geirmundur andaðist á Geirmundarstöðum, og er hann lagður í skip þar út í skóginum frá garði.


42. kafli

Steinólfur hinn lági son Hrólfs hersis af Ögðum nam land inn frá Klofasteinum til Grjótvallarmúla og bjó í Fagradal á Steinólfshjalla. Hann gekk þar inn á fjallið og sá fyrir innan dal mikinn og vaxinn allan viði. Hann sá eitt rjóður í dal þeim; þar lét hann bæ gera og kallaði Saurbæ, því að þar var mýrlent mjög, og svo kallaði hann allan dalinn. Það heitir nú Torfnes, er bærinn var gör.

Steinólfur átti Eirnýju Þiðrandadóttur. Þorsteinn búandi var son þeirra, en Arndís hin auðga var dóttir þeirra, móðir Þórðar, föður Þorgerðar, er Oddur átti; þeirra son var Hrafn Hlymreksfari, er átti Vigdísi dóttur Þórarins fylsennis; þeirra son var Snörtur, faðir Jódísar, er átti Eyjólfur Hallbjarnarson, þeirra dóttir Halla, er átti Atli Tannason, þeirra dóttir Yngvildur, er átti Snorri Húnbogason.

Steinólfi hurfu svín þrjú; þau fundust tveim vetrum síðar í Svínadal, og voru þau þá þrír tigir svína.

Steinólfur nam og Steinólfsdal í Króksfirði.

Sléttu-Björn hét maður; hann átti Þuríði dóttur Steinólfs hins lága; hann nam með ráði Steinólfs hinn vestra dal í Saurbæ; hann bjó á Sléttu-Bjarnarstöðum upp frá Þverfelli. Hans son var Þjóðrekur, er átti Arngerði, dóttur Þorbjarnar Skjalda-Bjarnarsonar; þeirra son var Víga-Sturla, er bæinn reisti á Staðarhóli, og Knöttur faðir Ásgeirs og Þorbjörn og Þjóðrekur, er borgin er við kennd á Kollafjarðarheiði.

Þjóðreki Sléttu-Bjarnarsyni þótti of þrönglent í Saurbæ; því réðst hann til Ísafjarðar; þar gerðist saga þeirra Þorbjarnar og Hávarðar hins halta.

Óláfur belgur, er Ormur hinn mjóvi rak á brutt úr Óláfsvík, nam Belgsdal og bjó á Belgsstöðum, áður þeir Þjóðrekur ráku hann á brutt; síðan nam hann inn frá Grjótvallarmúla og bjó í Óláfsdal. Hans son var Þorvaldur, sá er sauðatöku sök seldi á hendur Þórarni gjallanda Ögmundi Völu-Steinssyni; fyrir það vó hann Ögmund á Þorskafjarðarþingi.

Gils skeiðarnef nam Gilsfjörð milli Óláfsdals og Króksfjarðarmúla; hann bjó á Kleifum. Hans son var Heðinn, faðir Halldórs Garpsdalsgoða, föður Þorvalds í Garpsdal, er átti Guðrúnu Ósvífursdóttur.


43. kafli

Þórarinn krókur nam Króksfjörð til Hafrafells frá Króksfjarðarnesi. Hann deildi um Steinólfsdal við Steinólf hinn lága og röri eftir honum með tíunda mann, er hann fór úr seli með sjöunda mann. Þeir börðust við Fagradalsárós á eyrinni; þá komu menn til frá húsi að hjálpa Steinólfi. Þar féll Þórarinn krókur og þeir fjórir, en sjö menn af Steinólfi; þar eru kuml þeirra.

Ketill ilbreiður nam Berufjörð, son Þorbjarnar tálkna. Hans dóttir var Þórarna, er átti Hergils hnapprass son Þrándar mjóbeins; Ingjaldur hét son þeirra; hann var faðir Þórarins, er átti Þorgerði dóttur Glúms Geirasonar; þeirra son var Helgu-Steinar. Þrándur mjóbeinn átti dóttur Gils skeiðarnefs; þeirra dóttir var Þórarna, er átti Hrólfur son Helga hins magra. Þorbjörg knarrarbringa var önnur dóttir Gils skeiðarnefs. Herfiður hét son hans, er bjó í Króksfirði.

Úlfur hinn skjálgi son Högna hins hvíta nam Reykjanes allt milli Þorskafjarðar og Hafrafells; hann átti Björgu dóttur Eyvindar austmanns, systur Helga hins magra. Þeirra son var Atli (hinn) rauði, er átti Þorbjörgu systur Steinólfs (hins) lága. Þeirra son var Már á Hólum; hann átti Þorkötlu dóttur Hergils hnapprass; þeirra son var Ari.

Hann varð sæhafi til Hvítramannalands; það kalla sumir Írland hið mikla; það liggur vestur í haf nær Vínlandi hinu góða; það er kallað sex dægra sigling vestur frá Írlandi. Þaðan náði Ari eigi á brutt að fara og var þar skírður. Þessa sögu sagði fyrst Hrafn Hlymreksfari, er lengi hafði verið í Hlymreki á Írlandi.

Svo kvað Þorkell Gellisson segja íslenska menn, þá er heyrt höfðu frá segja Þorfinn (jarl) í Orkneyjum, að Ari hefði kenndur verið á Hvítramannalandi og náði eigi brutt að fara, en var þar vel virður.

Ari átti Þorgerði dóttur Álfs úr Dölum; þeirra son var Þorgils og Guðleifur og Illugi; það er Reyknesingaætt.

Jörundur hét son Úlfs hins skjálga; hann átti Þorbjörgu knarrarbringu. Þeirra dóttir var Þjóðhildur, er átti Eiríkur rauði, þeirra son Leifur hinn heppni á Grænlandi. Jörundur hét son Atla hins rauða; hann átti Þórdísi dóttur Þorgeirs suðu; þeirra dóttir var Otkatla, er átti Þorgils Kollsson. Jörundur var og faðir Snorra.


44. kafli

Hallsteinn son Þórólfs Mostrarskeggs nam Þorskafjörð og bjó á Hallsteinsnesi; hann blótaði þar til þess, að Þór sendi honum öndvegissúlur. Eftir það kom tré á land hans, það er var sextigi og þriggja álna og tveggja faðma digurt; það var haft til öndvegissúlna, og eru þar af görvar öndvegissúlur nær á hverjum bæ um þverfjörðuna. Þar heitir nú Grenitrésnes, er tréið kom á land.

Hallsteinn hafði herjað á Skotland og tók þar þræla þá, er hann hafði út; þá sendi hann til saltgörðar í Svefneyjar; þar höfðu þeir Hallsteins þræla hag fram.

Hallsteinn átti Ósku dóttur Þorsteins (rauðs). Þeirra son var Þorsteinn (surtur), er fann sumarauka. Þorsteinn surtur átti. .. Þeirra son var Þórarinn, en dóttir Þórdís, er átti Þorkell trefill, og Ósk, er átti Steinn mjögsiglandi; Þorsteinn hvíti hét son þeirra. Sámur hét son Þorsteins surts óskilgetinn; hann deildi um arf Þorsteins við Trefil, því að hann vildi halda í hendur börnum Þórarins.

Þorbjörn loki hét maður, son Böðmóðs úr skut; hann fór til Íslands og nam Djúpafjörð og Grónes til Gufufjarðar. Hans son var Þorgils á Þorgilsstöðum í Djúpafirði, faðir Kolls, er átti Þuríði Þórisdóttur, Hallaðarsonar jarls, Rögnvaldssonar Mærajarls. Þorgils var son þeirra; hann átti Otkötlu, dóttur Jörundar Atlasonar hins rauða; þeirra son var Jörundur; hann átti Hallveigu dóttur Odda Yrarsonar og Ketils gufu. Snorri var Jörundarson; hann átti Ásnýju, dóttur Víga-Sturlu. Þeirra son var Gils, er átti Þórdísi Guðlaugsdóttur og dóttur Þorkötlu Halldórsdóttur, Snorrasonar goða, en son Gils var Þórður; hann átti Vigdísi Svertingsdóttur. Þeirra son var Sturla í Hvammi.


45. kafli

Ketill gufa hét maður Örlygsson, Böðvarssonar, Vígsterkssonar; Örlygur átti Signýju Óblauðsdóttur, systur Högna hins hvíta.

Ketill son þeirra kom út síð landnámatíðar; hann hafði verið í vesturvíking og haft (úr) vesturvíking þræla írska; hét einn Þormóður, annar Flóki, þriðji Kóri, fjórði Svartur og Skorrar tveir.

Ketill tók Rosmhvalanes; sat hann hinn fyrsta vetur að Gufuskálum, en um vorið fór hann inn á Nes og sat á Gufunesi annan vetur.

Þá hljópu þeir Skorri hinn eldri og Flóki frá honum með konur tvær og fé mikið; þeir voru á laun í Skorraholti, en þeir voru drepnir í Flókadal og Skorradal.

Ketill fékk öngvan bústað á Nesjum, og fór hann inn í Borgarfjörð og sat hinn þriðja vetur að Gufuskálum við Gufá. Snemma um vorið fór hann vestur í Breiðafjörð að leita sér landa; þar var hann á Geirmundarstöðum og bað Ýrar dóttur Geirmundar og gat; vísaði hann þá Katli til landa fyrir vestan fjörð.

En meðan Ketill var vestur, þá hljópu þrælar hans á braut og komu fram um nótt á Lambastöðum; þar bjó þá Þórður son Þorgeirs lamba og Þórdísar Yngvarsdóttur, (móður)systur Egils Skalla-Grímssonar. Þrælarnir báru eld að húsum og brenndu Þórð inni og hjón hans öll; þeir brutu þar upp görvibúr og tóku vöru mikla og lausafé; síðan ráku þeir heim hross og klyfjuðu; þeir snöru á leið til Álftaness. Lambi hinn (sterki) son Þórðar kom af þingi um morgininn, þá er þeir voru farnir á braut; hann fór eftir þeim, og drífa þá menn til af bæjum. En er þrælarnir sá það, hljóp sinn veg hver þeirra. Þeir tóku Kóra í Kóranesi, en sumir gengu á sund; Svart tóku þeir í Svartsskeri, en Skorra í Skorrey fyrir Mýrum, en Þormóð út í Þormóðsskeri; það er vika undan landi.

En er Ketill gufa kom aftur, þá fór hann vestur fyrir Mýrar og var hinn fjórða vetur á Snæfellsnesi að Gufuskálum; hann nam síðan Gufufjörð og Skálanes til Kollafjarðar. Þau Ketill og Ýr áttu tvo sonu; var Þórhallur annar, faðir Hallvarar, er átti Börkur son Þormóðar Þjóstarssonar; annar var Oddi, er átti Þorlaugu Hrólfsdóttur frá Ballará og Þuríðar dóttur Valþjófs Örlygssonar frá Esjubergi.


46. kafli

Kolli Hróaldsson nam Kollafjörð og Kvígandanes og Kvígandafjörð; hann seldi ýmsum mönnum landnám sitt.

Knjúkur hét son Þórólfs sparrar, er út kom með Örlygi; hann var kallaður Nesja-Knjúkur. Hann nam nes öll til Barðastrandar frá Kvígandafirði og bjó... Annar son Knjúks var Einar, faðir Steinólfs, föður Salgerðar, móður Bárðar svarta. Þóra hét dóttir Knjúks, er átti Þorvaldur son Þórðar Víkingssonar. Þeirra son var Mýra-Knjúkur, faðir Þorgauts, föður Steinólfs, föður Höllu, móður Steinunnar, móður Hrafns á Eyri.

Knjúkur átti Eyju dóttur Ingjalds Helgasonar magra; þeirra son var Eyjólfur faðir Þorgríms Kötlusonar. Glúmur átti fyrr Kötlu, og var þeirra dóttir Þorbjörg kolbrún, er Þormóður orti um. Steingrímur hét son Þorgríms, faðir Yngvildar, er átti Úlfheðinn á Víðimýri.

Geirsteinn kjálki nam Kjálkafjörð og Hjarðarnes með ráði Knjúks. Hans son var Þorgils, er átti Þóru, dóttur Vestars af Eyri. Þeirra son var Steinn hinn danski; hann átti Hallgerði Örnólfsdóttur, Ármóðssonar hins rauða. Örnólfur átti Vigdísi dóttur... Vigdís hét dóttir Steins hins danska og Hallgerðar, er átti Illugi Steinbjarnarson. Þeirra dóttir var Þórunn, móðir Þorgeirs langhöfða.

Geirleifur son Eiríks Högnasonar hins hvíta nam Barðaströnd milli Vatnsfjarðar og Berghlíða; hann var faðir þeirra Oddleifs og Helga skarfs.

Oddleifur var faðir Gests hins spaka og Þorsteins og Æsu, er átti Þorgils son Gríms úr Grímsnesi. Þeirra synir voru þeir Jörundur í Miðengi og Þórarinn að Búrfelli. Gestur átti.... voru þeirra börn Þórður og Halla, er Snorri Dala-Álfsson átti. Þorgils var son þeirra. Önnur dóttir Gests var Þórey, er Þorgils átti. Þórarinn var son þeirra, faðir Jódísar, móður Illuga, föður Birnu, móður Illuga og Arnórs og Eyvindar.

Helgi skarfur var faðir Þorbjargar kötlu, er átti Þorsteinn Sölmundarson, þeirra synir Refur í Brynjudal og Þórður, faðir Illuga, föður Hróðnýjar, er Þorgrímur sviði átti. Þórdís hét önnur dóttir Helga skarfs, er átti Þorsteinn Ásbjarnarson úr Kirkjubæ austari. Þeirra son var Surtur, faðir Sighvats lögsögumanns.

Geirleifur átti Jóru Helgadóttur. Þorfinnur hét hinn þriðji son Geirleifs; hann átti Guðrúnu Ásólfsdóttur. Ásmundur hét son þeirra; hann átti Hallkötlu, dóttur Bjarnar Mássonar, Ásmundarsonar. Hlenni hét son þeirra; hann átti Ægileifu dóttur Þorsteins Kröflusonar. Þorfiður var son þeirra, faðir Þorgeirs langhöfða. Þorsteinn Oddleifsson var faðir Ísgerðar, er átti Bölverkur, son Eyjólfs hins grá, þeirra son Gellir lögsögumaður. Véný var enn dóttir Þorsteins, móðir Þórðar krákunefs; þaðan eru Krákneflingar komnir.


47. kafli

Ármóður hinn rauði Þorbjarnarson, fóstbróðir Geirleifs, nam Rauðasand; hans synir voru þeir Örnólfur og Þorbjörn, faðir Hrólfs hins rauðsenska.

Þórólfur spör kom út með Örlygi og nam Patreksfjörð fyrir vestan og víkur fyrir vestan Barð nema Kollsvík; þar bjó Kollur fóstbróðir Örlygs. Þórólfur nam og Keflavík fyrir sunnan Barð og bjó að Hvallátrum. Þeir Nesja-Knjúkur og Ingólfur hinn sterki og Geirþjófur voru synir Þórólfs sparrar. Þórarna var dóttir Ingólfs, er Þorsteinn Öddleifsson (átti).

Þorbjörn tálkni og Þorbjörn skúma, synir Böðvars blöðruskalla, komu út með Örlygi; þeir námu Patreksfjörð hálfan og Tálknafjörð allan til Kópaness.

Ketill ilbreiður, son Þorbjarnar tálkna, nam dali alla frá Kópanesi til Dufansdals; hann gaf Þórörnu dóttur sína Hergilsi hnapprass; réðst hann þá suður í Breiðafjörð og nam Berufjörð hjá Reykjanesi.

Örn hét maður ágætur; hann var frændi Geirmundar heljarskinns; hann fór af Rogalandi fyrir ofríki Haralds konungs. Hann nam land í Arnarfirði svo vítt sem hann vildi; hann sat um veturinn á Tjaldanesi, því að þar gekk eigi sól af um skammdegi.

Ánn rauðfeldur, son Gríms loðinkinna úr Hrafnistu og son Helgu dóttur Ánar bogsveigis, varð missáttur við Harald konung hinn hárfagra og fór því úr landi í vesturvíking; hann herjaði á Írland og fékk þar Grélaðar dóttur Bjartmars jarls. Þau fóru til Íslands og komu í Arnarfjörð vetri síðar en Örn. Ánn var hinn fyrsta vetur í Dufansdal; þar þótti Grélöðu illa ilmað úr jörðu.

Örn spurði til Hámundar heljarskinns frænda síns norður í Eyjafirði, og fýstist hann þangað; því seldi hann Áni rauðfeld lönd öll milli Langaness og Stapa. Ánn gerði bú á Eyri; þar þótti Grélöðu hunangsilmur úr grasi.

Dufann var leysingi Ánar; hann bjó eftir í Dufansdal.

Bjartmar var son Ánar, faðir Végesta tveggja og Helga, föður Þuríðar arnkötlu, er átti Hergils; þeirra dóttir var Þuríður arnkatla, er átti Helgi Eyþjófsson. Þórhildur var dóttir Bjartmars, er átti Vésteinn Végeirsson. Vésteinn og Auður voru börn þeirra. Hjallkár var leysingi Ánar; hans son var Björn þræll Bjartmars. Hann gaf Birni frelsi. Þá græddi hann fé, en Végestur vandaði um og lagði hann spjóti í gegnum, en Björn laust hann með grefi til bana.

Geirþjófur Valþjófsson nam land í Arnarfirði, Fossfjörð, Reykjarfjörð, Trostansfjörð, Geirþjófsfjörð, og bjó í Geirþjófsfirði; hann átti Valgerði, dóttur Úlfs hins skjálga. Þeirra son var Högni; hann átti Auði, dóttur Óláfs jafnakolls og Þóru Gunnsteinsdóttur. Atli var son þeirra; hann átti Þuríði Þorleifsdóttur, Eyvindarsonar knés og Þuríðar rymgyltu. Þorleifur átti Gró dóttur Þórólfs brækis. Höskuldur var son Atla, faðir (Atla, föður) Bárðar hins svarta.


48. kafli

Eiríkur hét maður, er nam Dýrafjörð og Sléttanes til Stapa og til Háls hins ytra í Dýrafirði. Hann var faðir Þorkels, föður Þórðar, föður Þorkels, föður Steinólfs, föður Þórðar, föður Þorleifar, móður Þorgerðar, móður Þóru, móður Guðmundar gríss. Þorleif var móðir Línu, móður Cecilíu, móður Bárðar og Þorgerðar, er átti Björn hinn enski. Þeirra börn voru þau Arnis ábóti og Þóra, er átti Ámundi Þorgeirsson.

Vésteinn son Végeirs, bróðir Vébjarnar Sygnakappa, nam land milli Hálsa í Dýrafirði og bjó í Haukadal; hann átti Þórhildi Bjartmarsdóttur, þeirra börn Vésteinn og Auður.

Þorbjörn súr kom út að albyggðu landi; honum gaf Vésteinn hálfan Haukadal. Hans synir voru þeir Gísli og Þorkell og Ari, en dóttir Þórdís, er Þorgrímur átti, þeirra son Snorri goði. Síðan átti Þórdísi Börkur hinn digri, þeirra dóttir Þuríður, er átti Þorbjörn digri, en síðar Þóroddur skattkaupandi. Þeirra son var Kjartan að Fróðá.

Dýri hét maður ágætur; hann fór af Sunnmæri til Íslands að ráði Rögnvalds jarls, en fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra. Dýri nam Dýrafjörð og bjó að Hálsum. Hans son var Hrafn á Ketilseyri, faðir Þuríðar, er átti Vésteinn Vésteinsson, þeirra synir Bergur og Helgi.

Þórður hét maður Víkingsson eða son Haralds konungs hárfagra; (hann) fór til Íslands og nam land milli Þúfu á Hjallanesi og Jarðfallsgils; hann bjó í Alviðru. Þórður átti Þjóðhildi dóttur Eyvindar austmanns, systur Helga hins magra.

Þorkell Alviðrukappi og hinn auðgi var son þeirra; hann átti.... Þórður hét son þeirra, annar Eyjólfur: faðir Gísla, er átti Hallgerði Vermundardóttur hins mjóva. Þeirra son var Brandur, faðir Guðmundar prests í Hjarðarholti: en dóttir Þóra, er átti Brandur Þórhaddsson, þeirra dóttir Steinvör, móðir Rannveigar, móður Sæhildar, er Gissur átti. Helgi hét annar son Eyjólfs; hans börn voru þau Óláfur og Guðleif, er Fjarska-Fiður átti.

Þorvaldur hvíti hét annar son Þórðar Víkingssonar; hann átti Þóru dóttur Nesja-Knjúks. Þeirra son var Mýra-Knjúkur, faðir Þorgauts, föður Steinólfs, er átti Herdísi Tindsdóttur. Þeirra börn voru þau Þorkell á Mýrum og Halla, er átti Þórður Oddleifsson. Annar son Þorvalds hvíta var Þórður örvöndur, er átti Ásdísi Þorgrímsdóttur Harðrefssonar. Móðir Ásdísar var Rannveig, dóttir Grjótgarðs Hlaðajarls. Ásdís var móðir Úlfs stallara, en systir Ljóts hins spaka og Halldísar, er Þorbjörn Þjóðreksson átti. Dóttir þeirra Þórðar örvandar var Otkatla, er átti Sturla Þjóðreksson, þeirra son Þórður, er átti Hallberu dóttur Snorra goða, þeirra dóttir Þuríður, er átti Hafliði Másson. Snorri var son Þórðar Sturlusonar, er átti Oddbjörgu, dóttur Gríms Loðmundarsonar. Þeirra börn voru þau Flugu-Grímur og Hallbera, er Mág-Snorri átti. Dætur Sturlu voru sex. Ein var Ásný, er Snorri Jörundarson átti, þeirra dóttir Þórdís, móðir Höskulds læknis. Son þeirra Snorra og Ásnýjar var Gils, faðir Þórðar, föður Sturlu í Hvammi.


49. kafli

Ingjaldur Brúnason nam Ingjaldssand milli Hjallaness og Ófæru; hann var faðir Harðrefs, föður Þorgríms, föður þeirra Ljóts hins spaka, sem áður var ritað.

Ljótur hinn spaki bjó að Ingjaldssandi, son Þorgríms Harðrefssonar, en móðir hans var Rannveig, dóttir Grjótgarðs jarls. Þorgrímur gagar var son Ljóts. Halldísi systur Ljóts átti Þorbjörn Þjóðreksson, en Ásdísi, aðra systur Ljóts, nam Óspakur Ósvífursson; um þá sök sótti Ljótur Óspak til sektar. Úlfur hét son þeirra; þann fæddi Ljótur.

Grímur kögur bjó á Brekku; hans synir voru þeir Sigurður og Þorkell, litlir menn og smáir. Þórarinn hét fósturson Ljóts. Ljótur kaupir slátur að Grími til tuttugu hundraða og galt læk, er féll meðal landa þeirra; sá hét Ósómi. Grímur veitti hann á eng sína og gróf land Ljóts, en hann gaf sök á því, og var fátt með þeim.

Ljótur tók við austmanni í Vaðli; sá lagði hug á Ásdísi.

Gestur Oddleifsson sótti haustboð til Ljóts; þá kom þar Egill Völu-Steinsson og bað Gest, að hann legði ráð til, að föður hans bættist helstríð, er hann bar um Ögmund, son sinn. Gestur orti upphaf að Ögmundardrápu. Ljótur spurði Gest, hvað manna Þorgrímur gagar mundi verða. Gestur kvað Þórarin fóstra hans, frægra mundu verða og bað Þórarin við sjá, að eigi vefðist hár það um höfuð honum, er lá á tungu hans. Óvirðing þótti Ljóti þetta og spurði um morguninn, hvað fyrir Þorgrími lægi. Gestur kvað Úlf systurson hans mundu frægra verða.

Þá varð Ljótur reiður og reið þó á leið með Gesti og spurði: "Hvað mun mér að bana verða?"

Gestur kvaðst eigi sjá örlög hans, en bað hann vera vel við nábúa sína.

Ljótur spurði: "Munu jarðlýsnar, synir Gríms kögurs, verða mér að bana?"

"Sárt bítur soltin lús," kvað Gestur.

"Hvar mun það verða?" kvað Ljótur.

"Héðra nær," kvað Gestur.

Austmaður reiddi Gest á heiði upp og studdi Gest á baki, er hestur rasaði undir honum.

Þá mælti Gestur: "Happ sótti þig nú, en brátt mun annað; gættu, að þér verði það eigi að óhappi."

Austmaðurinn fann grafsilfur, er hann fór heim. Og tók af tuttugu penninga og ætlaði, að hann mundi feta til síðar; en er hann leitaði, fann hann eigi; en Ljótur fékk tekið hann, er hann var að grefti, og gerði af honum þrjú hundruð fyrir hvern penning.

Það haust var veginn Þorbjörn Þjóðreksson.

Um vorið sat Ljótur að þrælum sínum á hæð einni; hann var í kápu, og var höttrinn lerkaður um hálsinn og ein ermur á. Þeir Kögurssynir hljópu á hæðina og hjöggu til hans báðir senn; eftir það snaraði Þorkell höttinn að höfði honum. Ljótur bað þá láta gott í búsifjum sínum, og hröpuðu þeir af hæðinni á götu þá, er Gestur hafði riðið; þar dó Ljótur. Þeir Grímssynir fóru til Hávarðar halta. Eyjólfur grái veitti þeim öllum og Steingrímur son hans.


50. kafli

Önundur Víkingsson, bróðir Þórðar í Alviðru, nam Önundar(fjörð allan) og bjó á Eyri.

Hallvarður súgandi var í orustu móti Haraldi konungi í Hafursfirði; hann fór af þeim ófriði til Íslands og nam Súgandafjörð og Skálavík til Stiga og bjó þar.

Þuríður sundafyllir og Völu-Steinn son hennar fór af Hálogalandi til Íslands og nam Bolungarvík, og bjuggu í Vatnsnesi. Hún var því kölluð sundafyllir, að hún seiddi til þess í hallæri á Hálogalandi, að hvert sund var fullt af fiskum. Hún setti og Kvíarmið á Ísafjarðardjúpi og tók til á kollótta af hverjum bónda í Ísafirði. Synir Völu-Steins voru þeir Ögmundur og Egill.

Helgi hét son Hrólfs úr Gnúpufelli; hann var getinn austur og upplenskur að móðurætt. Helgi fór til Íslands að vitja frænda sinna; hann kom í Eyjafjörð, og var þar þá albyggt. Eftir það vildi hann utan og varð afturreka í Súgandafjörð. Hann var um veturinn með Hallvarði, en um vorið fór hann að leita sér bústaðar. Hann fann fjörð einn og hitti þar skutil í flæðarmáli; það kallaði hann Skutilsfjörð; þar byggði hann síðan.

Hans son var Þorsteinn ógæfa; hann fór utan og vó hirðmann Hákonar jarls Grjótgarðssonar, en Eyvindur ráðgjafi jarlsins sendi Þorstein til handa Vébirni Sygnatrausta. Hann tók við honum, en Védís systir hans latti þess. Fyrir það seldi Vébjörn eignir sínar og fór til Íslands, er hann treystist eigi að halda manninn.

Þórólfur brækir nam sunnan Skutilsfjörð og Skálavík og bjó þar.

Eyvindur kné fór af Ögðum til Íslands og Þuríður rúmgylta kona hans; þau námu Álftafjörð og Seyðisfjörð og bjuggu þar. Þeirra son var Þorleifur, er fyrr var getið, og Valbrandur faðir Hallgríms og Gunnars og Bjargeyjar, er átti Hávarður halti. Þeirra son var Óláfur.

Geir hét maður ágætur í Sogni; hann var kallaður Végeir, því að hann var blótmaður mikill; hann átti mörg börn. Vébjörn Sygnakappi var elstur sona hans og Vésteinn, Véþormur, Vémundur, Végestur og Véþorn, en Védís dóttir. Eftir andlát Végeirs varð Vébjörn ósáttur við Hákon jarl, sem fyrr var getið; því fóru þau systkin til Íslands. Þau höfðu útivist harða og langa.

Þau tóku um haustið Hlöðuvík fyrir vestan Horn; þá gekk Vébjörn að blóti miklu; hann kvað Hákon þann dag blóta þeim til óþurftar. En er hann var að blótinu, eggjuðu bræður hans hann til brautfarar, og gáði hann eigi blótsins, og létu þeir út. Þeir brutu þann dag skip sitt undir hömrum miklum í illviðri; þar komust þau nauðuglega upp, og gekk Vébjörn fyrir; það er nú kölluð Sygnakleif.

En um veturinn tók við þeim öllum Atli í Fljóti, þræll Geirmundar heljarskinns. En er Geirmundur vissi úrlausn Atla, þá gaf hann honum frelsi og bú það, er hann varðveitti; hann varð síðan mikilmenni.

Vébjörn nam um vorið eftir land milli Skötufjarðar og Hestfjarðar, svo vítt sem hann gengi um á dag og því meir, sem hann kallaði Folafót.

Vébjörn var vígamaður mikill, og er saga mikil frá honum. Hann gaf Védísi Grímólfi í Unaðsdal; þeir urðu missáttir, og vó Vébjörn hann hjá Grímólfsvötnum. Fyrir það var Vébjörn veginn á fjórðungsþingi á Þórsnesi og þrír menn aðrir.

Gunnsteinn og Halldór hétu synir Gunnbjarnar Úlfssonar kráku, er Gunnbjarnarsker eru við kennd; þeir námu Skötufjörð og Laugardal og Ögurvík til Mjóvafjarðar. Bersi var son Halldórs, faðir Þormóðar Kolbrúnarskálds. Þar í Laugardal bjó síðan Þorbjörn Þjóðreksson, er vó Óláf, son Hávarðar halta og Bjargeyjar Valbrandsdóttur; þar af gerðist saga Ísfirðinga og víg Þorbjarnar.


51. kafli

Snæbjörn son Eyvindar austmanns, bróðir Helga magra, nam land milli Mjóvafjarðar og Langadalsár og bjó í Vatnsfirði. Hans son var Hólmsteinn faðir Snæbjarnar galta. Móðir Snæbjarnar var Kjalvör, og voru þeir Tungu-Oddur systrasynir. Snæbjörn var fóstraður í Þingnesi með Þóroddi.

Hallbjörn son Odds frá Kiðjabergi Hallkelssonar, bróður Ketilbjarnar hins gamla, fékk Hallgerðar, dóttur Tungu-Odds. Þau voru með Oddi hinn fyrsta vetur; þar var Snæbjörn galti. Óástúðligt var með þeim hjónum.

Hallbjörn bjó för sína um vorið að fardögum; en er hann var að búnaði, fór Oddur frá húsi til laugar í Reykjaholt; þar voru sauðahús hans; vildi hann eigi vera við, er Hallbjörn færi, því að hann grunaði, hvort Hallgerður mundi fara vilja með honum. Oddur hafði jafnan bætt um með þeim.

Þá er Hallbjörn hafði lagt á hesta þeirra, gekk hann til dyngju, og sat Hallgerður á palli og kembdi sér; hárið féll um alla hana og niður á gólfið; hún hefir kvenna best verið hærð á Íslandi með Hallgerði snúinbrók. Hallbjörn bað hana upp standa og fara; hún sat og þagði; þá tók hann til hennar, og lyftist hún ekki. Þrisvar fór svo. Hallbjörn nam staðar fyrir henni og kvað:

Ölkarma lætr, arma
eik firrumk þat, leika
Lofn fyr lesnis stafni
línbundin mik sínum.
Bíða munk of brúði,
böl gervir mig fölvan,
snertumk harmr í hjarta
hrót, aldrigi bótir.

Eftir það snaraði hann hárið um hönd sér og vildi kippa henni af pallinum, en hún sat og veikst ekki. Eftir það brá hann sverði og hjó af henni höfuðið, gekk þá út og reið í brutt. Þeir voru þrír saman og höfðu tvö klyfjahross.

Fátt var manna heima, og var þegar sent að segja Oddi. Snæbjörn var á Kjalvararstöðum, og sendi Oddur honum mann, bað hann sjá fyrir reiðinni, en hvergi kveðst hann fara mundu.

Snæbjörn reið eftir þeim með tólfta mann, og er þeir Hallbjörn sá eftirreiðina, báðu förunautar hans hann undan ríða, en hann vildi það eigi. Þeir Snæbjörn komu eftir þeim við hæðir þær, er nú heita Hallbjarnarvörður; þeir Hallbjörn fóru á hæðina og vörðust þaðan. Þar féllu þrír menn af Snæbirni og báðir förunautar Hallbjarnar. Snæbjörn hjó þá fót af Hallbirni í ristarlið; þá hnekkti hann á hina syðri hæðina og vó þar tvo menn af Snæbirni, og þar féll Hallbjörn. Því eru þrjár vörður á þeirri hæðinni, en fimm á hinni. Síðan fór Snæbjörn aftur.

Snæbjörn átti skip í Grímsárósi; það keypti hálft Hrólfur hinn rauðsenski. Þeir voru tólf hvorir. Með Snæbirni voru þeir Þorkell og Sumarliði, synir Þorgeirs rauðs, Einarssonar Stafhyltings. Snæbjörn tók við Þóroddi úr Þingnesi fóstra sínum og konu hans, en Hrólfur tók við Styrbirni, er þetta kvað eftir draum sinn:

Bana sé ek okkarn
bekkja tveggja,
allt ömurligt
útnorðr í haf,
frost ok kulða,
feikn hvers konar.
Veit ek af slíku
Snæbjörn veginn.

Þeir fóru að leita Gunnbjarnarskerja og fundu land. Eigi vildi Snæbjörn kanna láta um nótt. Styrbjörn fór af skipi og fann fésjóð í kumli og leyndi; Snæbjörn laust hann með öxi; þá féll sjóðrinn niður. Þeir gerðu skála, og lagði hann í fönn. Þorkell son Rauðs fann, að vatn var á forki, er stóð út í skálaglugg; það var um gói. Þá grófu þeir sig út. Snæbjörn gerði að skipi, en þau Þóroddur voru að skála af hans hendi, en þeir Styrbjörn af Hrólfs hendi; aðrir fóru að veiðum. Styrbjörn vó Þórodd, en Hrólfur og þeir báðir Snæbjörn. Rauðssynir svörðu eiða og allir aðrir til lífs sér.

Þeir tóku Hálogaland og fóru þaðan til Íslands í Vaðil. Þorkell trefill gat sem farið hafði fyrir Rauðssonum. Hrólfur gerði virki á Strandarheiði. Trefill sendi Sveinung til höfuðs honum; fór hann fyrst á Mýri til Hermundar, þá til Óláfs að Dröngum, þá til Gests í Haga; hann sendi hann til Hrólfs, vinar síns. Sveinungur vó Hrólf og Styrbjörn; þá fór hann í Haga. Gestur skipti við hann sverði og öxi og fékk honum hesta tvo hnökkótta og lét mann ríða um Vaðil allt í Kollafjörð og lét Þorbjörn hinn sterka heimta hestana. Þorbjörn vó hann á Sveinungseyri, því að sverðið brotnaði undir hjöltunum.

Því hældist Trefill við Gest, þá er saman var jafnað viti þeirra, að hann hefði því komið á Gest, að hann sendi sjálfur mann til höfuðs vinum sínum.


52. kafli

Óláfur jafnakollur nam land frá Langadalsá til Sandeyrarár og bjó í Unaðsdal; hann átti Þóru Gunnsteinsdóttur. Þeirra son var Grímólfur, er átti Védísi systur Vébjarnar.

Þórólfur fasthaldi hét maður ágætur í Sogni; hann varð ósáttur við Hákon jarl Grjótgarðsson og fór til Íslands með ráði Haralds konungs. Hann nam land frá Sandeyrará til Gýgjarsporsár í Hrafnsfirði; hann bjó að Snæfjöllum. Hans son var Ófeigur, er átti Otkötlu.

Örlygur son Böðvars Vígsterkssonar fór til Íslands fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra; hann var hinn fyrsta vetur með Geirmundi heljarskinn, en um vorið gaf Geirmundur honum bú í Aðalvík og lönd þau, sem þar lágu til. Örlygur átti Signýju dóttur Óblauðs, systur Högna hins hvíta; þeirra son var Ketill gufa, er átti Ýri Geirmundardóttur.

Nú taka til landnám Geirmundar, sem fyrr er ritað, allt til Straumness fyrir austan Horn.

Örlygur eignaðist Sléttu og Jökulsfjörðu.

Hella-Björn son Herfinns og Höllu var víkingur mikill; hann var jafnan óvinur Haralds konungs. Hann fór til Íslands og kom í Bjarnarfjörð með alskjölduðu skipi; síðan var hann Skjalda-Björn kallaður. Hann nam land frá Straumnesi til Dranga, og í Skjalda-Bjarnarvík bjó hann, en átti annað bú á Bjarnarnesi; þar sér miklar skálatóftir hans. Son hans var Þorbjörn, faðir Arngerðar, er átti Þjóðrekur Sléttu-Bjarnarson, þeirra synir Þorbjörn og Sturla og Þjóðrekur.

Geirólfur hét maður, er braut skip sitt við Geirólfsgnúp; hann bjó þar síðan undir gnúpinum að ráði Bjarnar.

Þorvaldur Ásvaldsson, Úlfssonar, Yxna-Þórissonar, nam Drangaland og Drangavík til Enginess og bjó að Dröngum alla ævi. Hans son var Eiríkur rauði, er byggði Grænland, sem fyrr segir.

Herröður hvítaský var göfugur maður; hann var drepinn af ráðum Haralds konungs, en synir hans þrír fóru til Íslands og námu land á Ströndum: Eyvindur Eyvindarfjörð, Ófeigur Ófeigsfjörð, Ingólfur Ingólfsfjörð; þeir bjuggu þar síðan.

Eiríkur snara hét maður, er land nam frá Ingólfsfirði til Veiðilausu og bjó í Trékyllisvík; hann átti Álöfu dóttur Ingólfs úr Ingólfsfirði. Þeirra son var Flosi, er bjó í Vík, þá er austmenn brutu þar skip sitt og gerðu úr hrænum skip það, er þeir kölluðu Trékylli; á því fór Flosi utan og varð afturreka í Öxarfjörð. Þaðan af gerðist saga Böðmóðs gerpis og Grímólfs.


53. kafli

Önundur tréfótur son Ófeigs burlufótar, Ívarssonar beytils, Önundur var í móti Haraldi konungi í Hafursfirði og lét þar fót sinn. Eftir það fór hann til Íslands og nam land frá Kleifum til Ófæru, Kaldbaksvík, Kolbeinsvík, Byrgisvík, og bjó í Kaldbak til elli. Hann var bróðir Guðbjargar, móður Guðbrands kúlu, föður Ástu, móður Óláfs konungs. Önundur átti fjóra sonu; einn hét Grettir, annar Þorgeir flöskubak, þriðji Ásgeir æðikollur, faðir Kálfs og Hrefnu, er Kjartan átti, og Þuríðar, er Þorkell kuggi átti, en síðar Steinþór Óláfsson; hinn fjórði var Þorgrímur hærukollur, faðir Ásmundar, föður Grettis hins sterka.

Björn hét maður, er nam Bjarnarfjörð; hann átti Ljúfu; þeirra son var Svanur, er bjó á Svanshóli.

Steingrímur nam Steingrímsfjörð allan og bjó í Tröllatungu. Hans son var Þórir, faðir Halldórs, föður Þorvalds aurgoða, föður Bitru-Odda, föður Steindórs, föður Odds, föður Há-Snorra, föður Odds munks og Þórólfs og Þórarins rosta.

Kolli hét maður, er nam Kollafjörð og Skriðinsenni og bjó undir Felli, meðan hann lifði.

Þorbjörn bitra hét maður; hann var víkingur og illmenni. Hann fór til Íslands með skuldalið sitt; hann nam fjörð þann, er nú heitir Bitra, og bjó þar.

Nokkuru síðar braut Guðlaugur bróðir Gils skeiðarnefs skip sitt þar út við höfða þann, er nú heitir Guðlaugshöfði. Guðlaugur komst á land og kona hans og dóttir, en aðrir menn týndust. Þá kom til Þorbjörn bitra og myrti þau bæði, en tók meyna og fæddi upp. En er þessa varð var Gils skeiðarnef, fór hann til og hefndi bróður síns; hann drap Þorbjörn bitru og enn fleiri menn.

Við Guðlaug er kennd Guðlaugsvík.

Bálki hét maður Blæingsson, Sótasonar af Sótanesi; hann var á mót Haraldi konungi í Hafursfirði. Eftir það fór hann til Íslands og nam Hrútafjörð allan; hann bjó á Bálkastöðum hvorumtveggjum, en síðast í Bæ og dó þar.

Hans son var Bersi goðlauss, er fyrst bjó á Bersastöðum í Hrútafirði, en síðan nam hann Langavatnsdal og átti þar annað bú, áður hann fékk Þórdísar, dóttur Þórhadds úr Hítardal, og tók með Hólmsland. Þeirra son var Arngeir, faðir Bjarnar Hítdælakappa. Geirbjörg var dóttir Bálka, móðir Véleifs hins gamla.

Arndís hin auðga, dóttir Steinólfs hins lága, nam síðan land í Hrútafirði út frá Borðeyri; hún bjó í Bæ. Hennar son var Þórður, er bjó fyrr í Múla í Saurbæ.


54. kafli

Þröstur og Grenjuður synir Hermundar hokins námu land í Hrútafirði inn frá Borðeyri og bjuggu að Melum. Frá Grenjaði var kominn Hesta-Gellir prestur, en Ormur frá Þresti. Son Þrastar var og Þorkell á Kerseyri, faðir Guðrúnar, er átti Þorbjörn þyna, son Hrómundar halta; þeir bjuggu að Fagrabrekku. Þorleifur Hrómundarfóstri var son þeirra. Hásteinn hét enn son Hrómundar; þeir voru allir um eitt ráð. Þórir hét son Þorkels Þrastarsonar; hann bjó að Melum; Helga hét dóttir hans.

Í þann tíma kom Sleitu-Helgi út á Borðeyri og Jörundur bróðir hans; þeir voru víkingar tólf frjálsir og sveinar umfram; þeir fóru allir til Mela. Þá fékk Helgi Helgu Þórisdóttur.

Þeim Hrómundi hurfu stóðhross; það kenndu þeir Helga, og stefndi Miðfjarðar-Skeggi þeim um stuld til alþingis. En þeir Hrómundur skyldu gæta héraðs og höfðu virki gott á Brekku. Austmenn bjuggu skip sitt.

Einn morgin kom hrafn á ljóra á Brekku og gall hátt; þá kvað Hrómundur:

Út heyrik svan sveita
sára þorns, es mornar,
bráð vekr borginmóða,
bláfjallaðan gjalla.
Svá gól fyrr, þás feigir
folknárungar váru,
Gunnar haukr, es gaukar
Gauts bragða spá sögðu.

Þorbjörn kvað:

Hlakkar hagli stokkinn,
hræs es kemr at sævi,
móðr krefr morginbráðar,
már valkastar báru.
Svá gól endr þás unda
eiðs af fornum meiði
hræva gaukr, es haukar
hildinga mjöð vildu.

Í þenna tíma komu austmenn í virkið, því að verkmenn höfðu eigi aftur látið. Þeir bræður gengu út, en konur sögðu Hrómund of gamlan en Þorleif of ungan að ganga út; hann var fimmtán vetra. Þá kvað Hrómundur:

Vasat mér í dag dauði,
draugr flatvallar bauga,
búumsk við Ilmar jalmi
áðr, né gær of ráðinn.
Rækik lítt, þótt leiki
litvöndr Heðins fitjar,
oss vas áðr of markaðr
aldr, við rauða skjöldu.

Austmenn féllu sex í virkinu, en aðrir sex stukku brutt.

Þá er Þorbjörn vildi lúka aftur virkinu, var hann skotinn í gegnum með atgeiri; Þorbjörn tók atgeirinn úr sárinu og setti milli herða Jörundi, svo að út kom í brjóstið. Helgi kastaði honum á bak sér og rann svo. Fallinn var Hrómundur, en Þorleifur sár til ólífis. Hásteinn rann eftir þeim, þar til er Helgi kastaði af sér Jörundi dauðum; þá hvarf hann aftur. Konur spurðu tíðenda; Hásteinn kvað:

Hér hafa sex, þeirs sævask
sútlaust, bana úti
svipnjörðungar, sverðum,
sárteins á brústeinum.
Hygg, at halfir liggi
heftendr laga eftir.
Eggskeindar létk undir
óbíðingum svíða.

Konur spurðu, hve margir þeir væri; Hásteinn kvað:

Barka fúr með fleiri
fetla stígs at vígi.
Fyrir várum þar fjórir
frændr ofstopa vændir.
En tolf af glað Gylfa
gunnþings hvatir runnu,
köld ruðum vápn, þeirs vildu
várs fundar til skunda.

Konur spurðu, hve margir fallnir væri af víkingum; Hásteinn kvað:

Sjau hafa sækitívar
Svölnis garðs til jarðar,
blóð fell varmt á virða
valdögg, nösum höggvit.
Munat fúrviðir fleiri
Fjölnis þings en hingat
út um Ekkils brautir
Jalks mærar skæ færa.

Hér megu hælibvörvar
hljóms daltangar skjóma
dýrs, hvat drýgðu fjórir
dagverks séa merki.
En ek, hyrbrigðir, hugða,
hrafn sleit af ná beitu,
Gunnar ræfrs, at gæfim
griðbítum frið lítinn.

Unnum auðimönnum,
ák þunnan hjör, Gunnar,
drógumsk vér at vígi,
verkdreyruga serki.
Höfðu herðilofðar
hildar borðs und skildi,
þvarr hangrvölum hanga
hungr, vésæritungur.

Harðr vas gnýr, þás gerðum
grjótvarps lotu snarpa.
Gengu sverðs at söngvi
sundr gráklæði Þundar,
áðr á hæl til hvílðar,
hlutu þeir bana fleiri,
hjaldrs kom hríð á skjöldu,
hækings viðir æki.

Heyri svan, þars sára
sigrstalls viðir falla,
benskári drekkr báru
blóðfalls, of ná gjalla.
Þar fekk örn, en erni
eru greipr hræum sveipðar,
sylg, es Sleitu-Helgi
sekðauðigr felt rauðu.

Báru upp af ára
allþakkliga blakki
ýtar oss at móti
almþingssamir hjalma,
en á braut þeir báru
beiðendr goðum leiðir
hlíða herðimeiðar
hauðrmens skarar rauðar.

Þeir Helgi létu út hinn sama dag og týndust allir á Helgaskeri fyrir Skriðinsenni. Þorleifur varð græddur og bjó að Brekku. Hásteinn fór utan og féll á Orminum langa.

Nú eru rituð landnám flest í Vestfirðingafjórðungi, eftir því sem fróðir menn hafa sagt. Má það nú heyra, að þann fjórðung hefir margt stórmenni byggt, og frá þeim eru margar göfugar ættir komnar, sem nú mátti heyra.

Þessir landnámsmenn eru göfgastir í Vestfirðingafjórðungi: Hrosskell, Skalla-Grímur, Sel-Þórir, Björn hinn austræni, Þórólfur Mostrarskegg, Auður djúpauðga, Geirmundur heljarskinn, Úlfur skjálgi, Þórður Víkingsson, þótt langfeður haldist stærra í sumum ættum. En þá er bændur voru taldir á Íslandi, þá voru níu hundruð bónda í þessum fjórðungi.ÞRIÐJI HLUTI


Nú hefur upp landnám í Norðlendingafjórðungi, er fjölbyggðastur hefir verið af öllu Íslandi og stærstar sögur hafa görst bæði að fornu og nýju, sem enn mun ritað verða og raun ber á.


55. kafli

Eysteinn meinfretur son Álfs úr Ostu nam Hrútafjarðarströnd hina eystri næst eftir Bálka og bjó þar nokkura vetur, áður hann fékk Þórhildar dóttur Þorsteins rauðs; þá réðst hann norðan í Dali og bjó þar. Þeirra synir voru þeir Álfur í Dölum, Þórður og Þórólfur refur og Hrappur.

Þóroddur hét maður, er land nam í Hrútafirði og bjó á Þóroddsstöðum; hans son var Arnór hýnefur, er átti Gerði dóttur Böðvars úr Böðvarshólum. Þeirra synir voru þeir Þorbjörn, er Grettir vó, (og) Þóroddur drápustúfur, faðir Valgerðar, er átti Skeggi skammhöndungur Gamlason Þórðarsonar, Eyjólfssonar, Eyjarssonar, Þórólfssonar fasthalda frá Snæfjöllum. Son Skeggja skammhöndungs var Gamli, faðir Álfdísar móður Odds munks.

Skútaðar-Skeggi hét maður ágætur í Noregi; hans son var Björn, er kallaður var Skinna-Björn, því að hann var Hólmgarðsfari; og er honum leiddust kaupferðir, fór hann til Íslands og nam Miðfjörð og Línakradal. Hans son var Miðfjarðar-Skeggi; hann var garpur mikill og farmaður.

Hann herjaði í Austurveg og lá í Danmörk við Sjóland, er hann fór austan; þar gekk hann upp og braust í haug Hrólfs kraka og tók þar úr Sköfnung, sverð Hrólfs konungs, og öxi Hjalta og mikið fé annað, en hann náði eigi Laufa.

Skeggi bjó á Reykjum í Miðfirði og átti... Þeirra börn voru þau Eiður, er átti Hafþóru, dóttur Þorbergs kornamúla og Álöfar elliðaskjaldar, systur Þorgeirs gollnis; þau áttu mörg börn. Annar son Skeggja var Kollur, faðir Halldórs, föður þeirra Þórdísar, er Skáld-Helgi átti, og Þorkötlu. Dætur Skeggja voru þær Hróðný, er átti Þórður gellir, og Þorbjörg, er átti Ásbjörn hinn auðgi Harðarson. Þeirra dóttir var Ingibjörg, er átti Illugi hinn svarti, þeirra synir Gunnlaugur ormstunga, Hermundur og Ketill.

Haraldur hringur hét maður ættstór; hann kom skipi sínu í Vesturhóp og sat hinn fyrsta vetur þar nær, sem hann hafði lent og nú heita Hringsstaðir. Hann nam Vatnsnes allt utan til Ambáttarár fyrir vestan, en fyrir austan inn til Þverár og þar yfir um þvert til Bjargaóss og allt þeim megin bjarga út til sjóvar, og (bjó) að Hólum. Son hans var Þorbrandur, faðir Ásbrands, föður Sölva hins prúða á Ægissíðu og Þorgeirs, er bjó að Hólum; hans dóttir var Ástríður, er átti Arnmóður Heðinsson: Heðinn var son þeirra. Önnur dóttir Þorgeirs var Þorgerður, er átti Þorgrímur, son Péturs frá Ósi.

Sóti hét maður, er nam Vesturhóp og bjó undir Sótafelli.

Hunda-Steinar hét jarl á Englandi; hann átti Álöfu, dóttur Ragnars loðbrókar. Þeirra börn voru þau Björn, faðir Auðunar skökuls, og Eiríkur, faðir Sigurðar bjóðaskalla, og Ísgerður, er átti Þórir jarl á Vermalandi.

Auðun skökull fór til Íslands og nam Víðidal og bjó á Auðunarstöðum. Með (honum) kom út Þorgils gjallandi félagi hans, faðir Þórarins goða. Auðun skökull var faðir Þóru mosháls, móður Úlfhildar, móður Ástu, móður Óláfs konungs hins helga. Son Auðunar skökuls var Ásgeir að Ásgeirsá; hann átti Jórunni, dóttur Ingimundar hins gamla. Þeirra börn voru þau Þorvaldur, faðir Döllu, móður Gissurar byskups, og Auðun, faðir Ásgeirs, föður Auðunar, föður Egils, er átti Úlfheiði, dóttur Eyjólfs Guðmundarsonar, og var þeirra son Eyjólfur, er veginn var á alþingi, faðir Orms, kapalíns Þorláks byskups. Annar son Auðunar skökuls var Eysteinn, faðir Þorsteins, föður Helga, föður Þórorms, föður Odds, föður Hallbjarnar, föður Sighvats prests. Dóttir Ásgeirs að Ásgeirsá var Þorbjörg bekkjarbót.

Ormur hét maður, er nam Ormsdal og bjó þar. Hann var faðir Odds, föður Þórodds, föður Helga, föður Harra, föður Jóru, móður Þórdísar, móður Tanna föður Skafta.


56. kafli

Ketill raumur hét hersir ágætur í Raumsdal í Noregi; hann var son Orms skeljamola, Hross-Bjarnarsonar, Raumssonar, Jötun-Bjarnarsonar norðan úr Noregi. Ketill átti Mjöll, dóttur Ánar bogsveigis. Þorsteinn hét son þeirra; hann vó á skóginum til Upplanda af áeggjun föður síns Jökul, son Ingimundar jarls af Gautlandi. Jökull gaf honum líf. Síðan fékk Þorsteinn Þórdísar systur hans. Þeirra son var Ingimundur hinn gamli; hann var fæddur í Hefni með Þóri, föður Gríms og Hrómundar.

Heiður völva spáði þeim öllum að byggja á því landi, er þá var ófundið vestur í haf, en Ingimundur kveðst við því skyldu gera. Völvan sagði hann það eigi mundu mega og sagði það til jartegna, að þá mundi horfinn hlutur úr pússi hans og mundi þá finnast, er hann græfi fyrir öndvegissúlum sínum á landinu.

Ingimundur var víkingur mikill og herjaði í vesturvíking jafnan. Sæmundur hét félagi hans suðureyskur. Þeir komu úr hernaði þann tíma, er Haraldur konungur gekk til lands og lagði til orustu í Hafursfirði við þá Þóri haklang. Ingimundur vildi veita konungi, en Sæmundur eigi, og skildi þar félag þeirra. Eftir orustuna gifti konungur Ingimundi Vigdísi, dóttur Þóris jarls þegjanda; þau Jörundur háls voru frillubörn hans.

Ingimundur undi hvergi; því fýsti Haraldur konungur hann að leita forlaga sinna til Íslands. Ingimundur lést það eigi ætlað hafa, en þó sendi hann þá Finna tvo í hamförum til Íslands eftir hlut sínum. Það var Freyr og gör af silfri. Finnar komu aftur og höfðu fundið hlutinn og nát eigi; vísuðu þeir Ingimundi til í dal einum milli holta tveggja og sögðu Ingimundi allt landsleg, hve háttað var þar er hann skyldi byggja.

Eftir það byrjar Ingimundur för sína til Íslands og með honum Jörundur háls mágur hans og Eyvindur sörkvir og Ásmundur og Hvati, vinir hans, og þrælar hans, Friðmundur, Böðvar, Þórir refskegg, Úlfkell. Þeir tóku (Grímsárós) fyrir sunnan land og voru allir um veturinn á Hvanneyri með Grími fóstbróður Ingimundar. En um vorið fóru þeir norður um heiðar; þeir komu í fjörð þann, er þeir fundu hrúta tvo; það kölluðu þeir Hrútafjörð; síðan fóru þeir norður um héruð og gáfu víða örnefni. Hann var um vetur í Víðidal í Ingimundarholti. Þeir sá þaðan fjöll snælaus í landsuður og fóru þann veg um vorið; þar kenndi Ingimundur lönd þau, er honum var til vísað. Þórdís, dóttir hans, var alin í Þórdísarholti.

Ingimundur nam Vatnsdal allan upp frá Helgavatni og Urðarvatni fyrir austan. Hann bjó að Hofi og fann hlut sinn, þá er hann gróf fyrir öndvegissúlum sínum. Þorsteinn var son þeirra Vigdísar og Jökull og Þórir hafursþjó og Högni; Smiður hét ambáttar son og Ingimundar, en dætur Jórunn og Þórdís.


57. kafli

Jörundur (háls) nam út frá Urðarvatni til Mógilslækjar og bjó á Grund undir Jörundarfelli; hans son var Már á Másstöðum.

Hvati nam út frá Mógilslæk til Giljár og bjó á Hvatastöðum.

Ásmundur nam út frá Helgavatni um Þingeyrasveit og bjó undir Gnúpi.

Friðmundur nam Forsæludal.

Eyvindur sörkvir nam Blöndudal; hans son var Hermundur og Hrómundur hinn halti.

Ingimundur fann beru og húna tvo hvíta á Húnavatni. Eftir það fór hann utan og gaf Haraldi konungi dýrin; ekki höfðu menn í Noregi áður séð hvítabjörnu. Þá gaf Haraldur konungur Ingimundi skip með viðarfarmi, og sigldi hann tveim skipum fyrir norðan land fyrstur manna fyrir Skaga og hélt upp í Húnavatn; þar er Stígandahróf hjá Þingeyrum.

Eftir það var Hrafn austmaður með Ingimundi; hann hafði sverð gott; það bar hann í hof; því tók Ingimundur af honum sverðið.

Hallormur og Þórormur bræður komu út og voru með Ingimundi; þá fékk Hallormur Þórdísar dóttur hans, og fylgdu henni Kárnsárlönd. Þeirra son var Þorgrímur Kárnsárgoði. Þórormur bjó í Þórormstungu.

Ingimundi hurfu svín tíu og fundust annað haust í Svínadal, og var þá hundrað svína. Göltur hét Beigaður; hann hljóp á Svínavatn og svam, þar til er af gengu klaufirnar; hann sprakk á Beigaðarhóli.


58. kafli

Hrolleifur hinn mikli og Ljót móðir hans komu út í Borgarfjörð; þau fóru norður um sveitir og fengu hvergi ráðstafa, áður þau komu í Skagafjörð til Sæmundar. Hrolleifur var son Arnalds, bróður Sæmundar; því vísaði hann þeim norður á Höfðaströnd til Þórðar, en hann fékk honum land í Hrolleifsdal; bjó hann þar.

Hrolleifur fífldi Hróðnýju, dóttur Una úr Unadal. Oddur Unason sat fyrir honum og vó Ljót, systrung hans, en særði hann á fæti, því að kyrtil hans bitu eigi járn. Hrolleifur vó Odd og tvo menn aðra, en tveir komust undan; fyrir það gerði Höfða-Þórður hann héraðssekan svo vítt sem vatnföll deildu til sjóvar í Skagafirði.

Þá sendi Sæmundur Hrolleif til Ingimundar hins gamla. Ingimundur setti hann niður í Oddsás gegnt Hofi. Hann átti veiði í Vatnsdalsá við Ingimund, og skyldi hann ganga úr á fyrir Hofsmönnum, en hann vildi eigi úr ganga fyrir sonum Ingimundar, og börðust þeir um ána; þá var sagt Ingimundi. Hann var þá blindur og lét smalasvein leiða hestinn undir sér á ána milli þeirra. Hrolleifur skaut spjóti í gegnum hann. Þeir fóru þá heim. Ingimundur sendi sveininn að segja Hrolleifi, en hann var dauður í öndvegi, þá er synir hans komu heim. Hrolleifur sagði móður sinni; hún kvað þá reyna mundu, hvort meira mætti gifta Ingimundarsona eða kunnusta hennar, og bað hann fyrst á braut fara.

Þorsteinn skyldi reyna eftir Hrolleifi og hafa kostgrip af arfi. Eigi settust Ingimundarsynir í hásæti föður síns.

Þeir fóru norður til Geirmundar, og gaf Þorsteinn honum sex tigu silfrs til, að hann skyti Hrolleifi á braut. Þeir röktu spor hans norðan um hálsa til Vatnsdals. Þorsteinn sendi húskarl sinn í Ás á njósn; hann kvað tólf vísur, áður til dura var gengið, og sá fatahrúgu á bröndum, og kom undan rautt klæði. Þorsteinn kvað þar verið hafa Hrolleif, "og mun Ljót hafa blótað til langlífis honum." Þeir fóru í Ás, og vildi Þorsteinn sitja yfir durum og náði eigi fyrir Jökli, því að hann vildi þar vera. Maður gekk út og sást um; þá leiddi annar Hrolleif eftir sér. Jökull brást við og felldi ofan skíðahlaða, en gat kastað kefli til bræðra sinna. Eftir það rann hann á Hrolleif, og ultu þeir ofan fyrir brekkuna, og varð Jökull efri. Þá kom Þorsteinn að, og neyttu þeir þá vopna. Þá var Ljót út komin og gekk öfug; hún hafði höfuðið millum fóta sér, en klæðin á baki sér. Jökull hjó höfuð af Hrolleifi og rak í andlit Ljótu. Þá kvaðst hún of sein orðið hafa, "nú mundi um snúast jörðin fyrir sjónum mínum, en þér munduð allir ærst hafa."

Eftir það kaus Þorsteinn Hofsland, en Jökull hafði sverðit og bjó í Tungu. Þórir hafði goðorð og bjó að Undunfelli og gekk berserksgang. Högni hafði Stíganda og var farmaður. Smiður bjó á Smiðsstöðum. Þorsteinn átti Þuríði gyðju, dóttur Sölmundar í Ásbjarnarnesi. Þeirra son var Ingólfur hinn fagri og Guðbrandur.

Jökull var son Bárðar Jökulssonar, er Óláfur konungur hinn helgi lét drepa. Það sagði Jökull stigamaður, að lengi mundu glapvíg haldast í ætt þeirri. (Þorgrímur Kárnsárgoði var faðir Þorkels kröflu).


59. kafli

Eyvindur auðkúla hét maður; hann nam allan Svínadal og bjó á Auðkúlustöðum, en Þorgils gjallandi bjó að Svínavatni, er út kom með Auðuni skökli. Hans synir voru þeir Digur-Ormur, er vógu Skarpheðin Véfröðarson.

Þorbjörn kólka hét maður. Hann nam Kólkumýrar og bjó þar, meðan hann lifði.

Eyvindur sörkvir nam Blöndudal, sem fyrr er ritað. Hans son var Hrómundur hinn halti, er vó Högna Ingimundarson, þá er þeir Már og Ingimundarsynir börðust um Deildarhjalla; því var hann gör úr Norðlendingafjórðungi. Hans synir voru þeir Hásteinn og Þorbjörn, er börðust við Sleitu-Helga í Hrútafirði. Annar son Eyvindar var Hermundur, faðir Hildar, er átti Ávaldi Ingjaldsson. Þeirra börn voru þau Kolfinna, er átti Grís Sæmingsson, og Brandur, er vó Galta Óttarsson á Húnavatnsþingi fyrir níð Hallfreðar.

Ævar hét maður son Ketils helluflaga og Þuríðar, dóttur Haralds konungs gullskeggs úr Sogni. Ævar átti...; þeirra son var Véfröður. Synir Ævars laungetnir voru þeir Karli og Þorbjörn strúgur og Þórður mikill. Ævar fór til Íslands úr víkingu og synir hans aðrir en Véfröður; með honum fór út Gunnsteinn frændi hans og Auðólfur og Gautur, en Véfröður var eftir í víkingu.

Ævar kom skipi sínu í Blönduós; þá voru numin lönd fyrir vestan Blöndu. Ævar fór upp með Blöndu að leita sér landnáms, en er hann kom þar sem heita Móbergsbrekkur, setti hann þar niður stöng háva og kveðst þar taka Véfröði syni sínum bústað. Síðan nam hann Langadal allan upp þaðan og svo þar fyrir norðan háls; þar skipti hann löndum með skipverjum sínum. Ævar bjó í Ævarsskarði.

Véfröður kom út síðar í Gönguskarðsárósi og gekk norðan til föður síns, og kenndi faðir hans hann eigi. Þeir glímdu, svo að upp gengu stokkar allir í húsinu, áður Véfröður sagði til sín. Hann gerði bú að Móbergi, sem ætlað var, en Þorbjörn strúgur á Strúgsstöðum, en Gunnsteinn á Gunnsteinsstöðum, Karli á Karlastöðum, Þórður á Mikilsstöðum, Auðólfur á Auðólfsstöðum.

Gautur byggði Gautsdal; hann var einhendur. Þeir Eyvindur sörkvir fóru sér sjálfir og vildu eigi lifa Ingimund hinn gamla. Haukur bjó þar sem nú heita Hauksgrafir.

Véfröður átti Gunnhildi dóttur Eiríks úr Guðdölum, systur Hólmgöngu-Starra. Þeirra synir voru þeir Úlfheðinn, er þeir Þjóstólfur vógu við Grindalæk, og Skarpheðinn, er þeir Digur-Ormur vógu í Vatnsskarði, og Húnröður, faðir Más, föður Hafliða.

Holti hét maður, er nam Langadal ofan frá Móbergi og bjó á Holtastöðum; hann var faðir Ísröðar, föður Ísleifs, föður Þorvalds, föður Þórarins hins spaka. Dóttir Þorvalds var Þórdís, er átti Halldór son Snorra goða. Þeirra dætur voru þær Þorkatla, er átti Guðlaugur Þorfinnsson í Straumsfirði; þaðan eru Sturlungar komnir og Oddaverjar. Önnur var Guðrún, er átti Kjartan Ásgeirsson úr Vatnsfirði, þeirra börn Þorvaldur og Ingiríður, er Guðlaugur prestur átti.

Hólmgöngu-Máni hét maður, er nam Skagaströnd fyrir vestan inn til Fossár, en fyrir austan til Mánaþúfu og bjó í Mánavík. Hans dóttur átti Þorbrandur í Dölum, faðir Mána, föður Kálfs skálds.


60. kafli

Eilífur örn hét maður, son Atla Skíðasonar hins gamla, Bárðarsonar í Ál. Son Eilífs arnar var Koðrán að Giljá og Þjóðólfur goði að Hofi á Skagaströnd og Eysteinn, faðir Þorvalds tinteins og Þorsteins heiðmennings og Arnar í Fljótum. Eilífur nam land inn frá Mánaþúfu til Gönguskarðsár og Laxárdal og bjó þar.

Eilífur átti Þorlaugu dóttur Sæmundar úr Hlíð; þeirra synir voru þeir Sölmundur, faðir Guðmundar, föður þeirra Víga-Barða og bræðra hans. Annar var Atli hinn rammi, er átti Herdísi, dóttur Þórðar frá Höfða. Þeirra börn voru þau Þorlaug, er átti Guðmundur hinn ríki, og Þórarinn, er átti Höllu, dóttur Jörundar háls. Son þeirra var Styrbjörn, er átti Yngvildi, dóttur Steinröðar Heðinssonar frá Heðinshöfða, þeirra dóttir Arndís, er átti Hamall Þormóðarson, Þorkelssonar mána.

Sæmundur hinn suðureyski, félagi Ingimundar hins gamla, sem ritað er, hann kom skipi sínu í Gönguskarðsárós. Sæmundur nam Sæmundarhlíð alla til Vatnsskarðs, fyrir ofan Sæmundarlæk, og bjó á Sæmundarstöðum; hans son var Geirmundur, er þar bjó síðar. Dóttir Sæmundar var Reginleif, er átti Þóroddur hjálmur, þeirra dóttir Hallbera, móðir Guðmundar hins ríka, föður Eyjólfs, föður Þóreyjar, móður Sæmundar hins fróða. Arnaldur hét annar son Sæmundar, faðir Rjúpu, er átti Þorgeir, son Þórðar frá Höfða; þeirra son var Halldór frá Hofi.

Skefill hét maður, er skipi sínu kom í Gönguskarðsárós á hinni sömu viku og Sæmundur. En meðan Sæmundur fór eldi um landnám sitt, þá nam Skefill land allt fyrir utan Sauðá; það tók hann af landnámi Sæmundar að ólofi hans, og lét Sæmundur það svo búið vera.

Úlfljótur hét maður; hann nam Langaholt allt fyrir neðan Sæmundarlæk.

Þorkell vingnir, son Skíða hins gamla, hann nam land um Vatnsskarð allt og Svartárdal. Hans son var Arnmóður skjálgi, faðir Galta, föður Þorgeirs, föður Styrmis, föður Halls, föður Kolfinnu.

Álfgeir hét maður, er nam um Álfgeirsvöllu og upp til Mælifellsár og bjó á Álfgeirsvöllum.

Þorviður hét maður, sá er land nam upp frá Mælifellsá til Giljár.

Hrosskell hét maður, er nam Svartárdal allan og Ýrarfellslönd öll með ráði Eiríks; hann nam ofan til Gilhaga og bjó að Ýrarfelli. Hann átti þræl þann, er Roðrekur hét; hann sendi hann upp eftir Mælifellsdal í landaleitan suður á fjöll. Hann kom til gils þess, er verður suður frá Mælifelli og nú heitir Roðreksgil; þar setti hann niður staf nýbirktan, er (þeir) kölluðu Landkönnuð, og eftir það snýr hann aftur.


61. kafli

Eiríkur hét maður ágætur; hann fór af Noregi til Íslands; hann var son Hróalds Geirmundarsonar, Eiríkssonar örðigskeggja. Eiríkur nam land frá Gilá um Goðdali alla og ofan til Norðurár; hann bjó að Hofi í Goðdölum. Eiríkur átti Þuríði, dóttur Þórðar skeggja, systur Helgu, er Ketilbjörn átti hinn gamli að Mosfelli. Börn þeirra Eiríks voru þau Þorkell og Hróaldur, Þorgeir og Hólmgöngu-Starri og Gunnhildur. Þorgeir Eiríksson átti Yngvildi Þorgeirsdóttur, þeirra dóttir Rannveig, er átti Bjarni Brodd-Helgason. Gunnhildi Eiríksdóttur átti Véfröður Ævarsson.

Vékell hinn hamrammi hét maður, er land nam ofan frá Gilá til Mælifellsár og bjó að Mælifelli.

Hann spurði til ferða Roðreks. Þá fór hann litlu síðar suður á fjöll í landaleitan. Hann kom til hauga þeirra, er nú heita Vékelshaugar; hann skaut milli hauganna og hvarf þaðan aftur.

En er þetta spurði Eiríkur í Goðdölum, sendi hann þræl sinn suður á fjöll, er hét Rönguður; fór hann enn í landaleitan. Hann kom suður til Blöndukvísla og fór þá upp með á þeirri, er fellur fyrir vestan Hvinverjadal og vestur á hraunið milli Reykjavalla og Kjalar og kom þar á manns spor og skildi, að þau lágu sunnan að. Hann hlóð þar vörðu þá, er nú heitir Rangaðarvarða.

Þaðan fór hann aftur, og gaf Eiríkur honum frelsi fyrir ferð sína, og þaðan af tókust ferðir um fjallið milli Sunnlendinga fjórðungs og Norðlendinga.

Kráku-Hreiðar hét maður, en Ófeigur lafskegg faðir hans, son Yxna-Þóris. Þeir feðgar bjuggu skip sitt til Íslands, en er þeir komu í landsýn, gekk Hreiðar til siglu og sagðist eigi mundu kasta öndvegissúlum fyrir borð, kveðst það þykja ómerkiligt að gera ráð sitt eftir því, kveðst heldur mundu heita á Þór, að hann vísaði honum til landa, og kveðst þar mundu berjast til landa, ef áður væri numið. En hann kom í Skagafjörð og sigldi upp á Borgarsand til brots. Hávarður hegri kom til hans og bauð honum til sín, og þar var hann um veturinn í Hegranesi.

Um vorið spurði Hávarður, hvað hann vildi ráða sinna, en hann kveðst ætla að berjast við Sæmund til landa. En Hávarður latti þess og kvað það illa gefist hafa, bað hann fara á fund Eiríks í Guðdölum og taka ráð af honum, "því (að) hann er vitrastur maður í héraði þessu". Hreiðar gerði svo.

En er hann (fann) Eirík, latti hann þessa ófriðar og kvað það óhent, að menn deildi, meðan svo væri mannfátt á landi, kveðst heldur vilja gefa honum tunguna alla niður frá Skálamýri, kvað þangað Þór hafa vísað honum og þar stafn á horft, þá er hann sigldi upp á Borgarsand, kvað honum ærið það landnám og hans sonum.

Þenna kost þekkist Hreiðar og bjó á Steinsstöðum; hann kaus að deyja í Mælifell. Son hans var Ófeigur þunnskeggur, faðir Bjarnar, föður Tungu-Steins.


62. kafli

Önundur vís hét maður, er land nam upp frá Merkigili, hinn eystra dal allt fyrir austan.

En þá er Eiríkur vildi til fara að nema dalinn allan allt fyrir vestan, þá felldi Önundur blótspán til, að hann skyldi verða vís, hvern tíma Eiríkur mundi til fara að nema dalinn, og varð þá Önundur skjótari og skaut yfir ána með tunduröru og helgaði sér svo landið fyrir vestan og bjó milli á.

Kári hét maður, er nam land á milli Norðurár og Merkigils og bjó í Flatatungu; hann var kallaður Tungu-Kári; frá honum eru Silfurstæðingar komnir.

Þorbrandur örrek nam upp frá Bólstaðará Silfrastaðahlíð alla og Norðurárdal allan fyrir norðan og bjó á Þorbrandsstöðum og lét þar gera eldhús svo mikið, að allir þeir menn, er þeim megin fóru, skyldu þar bera klyfjar í gegnum og vera öllum matur heimill. Við hann er kennd Örreksheiður upp frá Hökustöðum. Hann var hinn göfgasti maður og hinn kynstærsti.

Maður hét Hjálmólfur, er land nam (ofan) um Blönduhlíð. Hans son var Þorgrímur kuggi, faðir Odds í Axlarhaga, föður Sela-Kálfs; þaðan eru Axlhegingar komnir.

Þórir dúfunef var leysingi Yxna-Þóris; hann kom skipi sínu í Gönguskarðsárós; þá var byggt hérað allt fyrir vestan. Hann fór norður yfir Jökulsá að Landbroti og nam land á milli Glóðafeykisár og Djúpár og bjó á Flugumýri.

Í þann tíma kom út skip í Kolbeinsárósi, hlaðið kvikfé, en þeim hvarf í Brimnesskógum unghryssi eitt; en Þórir dúfunef keypti vonina og fann síðan. Það var allra hrossa skjótast og var kölluð Fluga.

Örn hét maður; hann fór landshorna í millum og var fjölkunnigur. Hann sat fyrir Þóri í Hvinverjadal, er hann skyldi fara suður um Kjöl, og veðjaði við Þóri, hvors þeirra hross mundi skjótara, því að hann hafði allgóðan hest, og lagði hvor þeirra við hundrað silfurs. Þeir riðu báðir suður um Kjöl, þar til er þeir komu á skeið það, er síðan er kallað Dúfunefsskeið. En eigi varð minni skjótleiksmunur hrossa en Þórir kom í móti Erni á miðju skeiði. Örn undi svo illa við félát sitt, að hann vildi eigi lifa og fór upp undir fjallið, er nú heitir Arnarfell, og týndi sér þar sjálfur, en Fluga stóð þar eftir, því að hún var mjög móð.

En er Þórir fór af þingi, fann hann hest föxóttan og grán hjá Flugu; við þeim hafði hún fengið. Undir þeim var alinn Eiðfaxi, er utan var færður og varð sjö manna bani við Mjörs á einum degi, og lést hann þar sjálfur. Fluga týndist í feni á Flugumýri.

Kollsveinn hinn rammi hét maður, er nam land á milli Þverár og Gljúfrár og bjó á Kollsveinsstöðum upp frá Þverá; hann hafði blót á Hofstöðum.


63. kafli

Gunnólfur hét maður, er nam land milli Þverár og Glóðafeykisár og bjó í Hvammi.

Gormur hét hersir ágætur í Svíþjóð; hann átti Þóru, dóttur Eiríks konungs að Uppsölum. Þorgils hét son þeirra; hann átti Elínu, dóttur Burisláfs konungs úr Görðum austan og Ingigerðar, systur Dagstyggs risakonungs. Synir þeirra voru þeir Hergrímur og Herfinnur, er átti Höllu, dóttur Heðins og Arndísar Heðinsdóttur. Gróa hét dóttir Herfinns og Höllu; hana átti Hróar, þeirra son Sleitu-Björn, er land nam fyrst á milli Grjótár og Deildarár, áður þeir Hjalti og Kolbeinn komu út; hann bjó á Sleitu-Bjarnarstöðum; hann átti... Þeirra börn voru Örnólfur, er átti Þorljótu, dóttur Hjalta Skálpssonar, og Arnbjörn, er átti Þorlaugu Þórðardóttur frá Höfða, og Arnoddur; hann átti Þórnýju, dóttur Sigmundar Þorkelssonar, er Glúmur vó, Arnfríður hét dóttir Sleitu-Bjarnar, er Spak-Böðvar átti, son Öndótts.

Öndóttur kom út í Kolbeinsárósi og kaupir land að Sleitu-Birni ofan frá Hálsgróf hinum eystra megin og út til Kolbeinsáróss, (en) hinum vestra megin ofan frá læk þeim, er verður út frá Nautabúi, og inn til Gljúfrár, og bjó í Viðvík.

Sigmundur á Vestfold átti Ingibjörgu dóttur Rauðs ruggu í Naumudal, systur Þorsteins svarfaðar. Þeirra son var Kolbeinn; hann fór til Íslands og nam land á milli Grjótár og Deildarár, Kolbeinsdal og Hjaltadal.


64. kafli

Hjalti son Þórðar skálps kom til Íslands og nam Hjaltadal að ráði Kolbeins og bjó að Hofi; hans synir voru þeir Þorvaldur og Þórður, ágætir menn.

Það hefir erfi verið ágætast á Íslandi, er þeir erfðu föður sinn, og voru þar tólf hundruð boðsmanna, og voru allir virðingamenn með gjöfum brutt leiddir.

Að (því) erfi færði Oddur Breiðfirðingur drápu þá, er hann hafði ort um Hjalta. Áður hafði Glúmur Geirason stefnt Oddi til Þorskafjarðarþings; þá fóru Hjaltasynir norðan skipi til Steingrímsfjarðar og gengu norðan um heiðina, þar sem nú er kölluð Hjaltdælalaut. En er þeir gengu á þingið, voru þeir svo vel búnir, að menn hugðu, að Æsir væri (þar) komnir. Þar um er þetta kveðið:

Manngi hugði manna
morðkannaðra annat,
ísarns meiðr, en Æsir
almærir þar færi,
þás á Þorskafjarðar
þing með ennitinglum
holtvartaris Hjalta
harðfengs synir gengu.

Frá Hjaltasonum er mikil ætt komin og göfug.

Þórður hét maður ágætur hann var son Bjarnar byrðusmjörs, Hróaldssonar hryggs, Bjarnarsonar járnsíðu, Ragnarssonar loðbrókar. Þórður fór til Íslands og nam Höfðaströnd í Skagafirði á milli Unadalsár og Hrolleifsdalsár og bjó að Höfða.

Þórður átti Þorgerði dóttur Þóris hímu og Friðgerðar, dóttur Kjarvals Írakonungs; þau áttu nítján börn.

Björn var son þeirra; hann átti Þuríði, dóttur Refs frá Barði, og voru þeirra börn Arnór kerlingarnef og Þórdís, móðir Orms, föður Þórdísar, móður Bótólfs, föður Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona.

Þorgeir hét annar son Þórðar; hann átti Rjúpu dóttur Arnalds Sæmundarsonar, þeirra son Halldór að Hofi.

Snorri var hinn þriðji; hann átti Þórhildi rjúpu, dóttur Þórðar gellis; þeirra son var Þórður hesthöfði.

Þorvaldur holbarki var hinn fjórði; hann kom um haust eitt á Þorvarðsstaði til Smiðkels og dvaldist þar um hríð. Þá fór hann upp til hellisins Surts og færði þar drápu þá, er hann hafði ort um jötuninn í hellinum. Síðan fékk hann dóttur Smiðkels, og þeirra dóttir var Jórunn, móðir Þorbrands í Skarfsnesi.

Bárður var hinn fimmti son Þórðar; hann átti Þórörnu dóttur Þórodds hjálms; þeirra son var Daði skáld. Söxólfur var hinn sétti son Þórðar, sjöundi Þorgrímur, átti Hróar, níundi Knör, tíundi Þormóður skalli, ellefti Steinn.

Dóttir Þórðar var Þorlaug, er átti Arnbjörn Sleitu-Bjarnarson, þeirra dóttir Guðlaug, er átti Þorleikur Höskuldsson, þeirra son Bolli.

Herdís var önnur dóttir Þórðar; hana átti Atli hinn rammi. Þorgríma skeiðarkinn var en þriðja, fjórða Arnbjörg, fimmta Arnleif, sétta Ásgerður, sjöunda Þuríður, átta Friðgerður í Hvammi.

Hrolleifur hinn mikli byggði Hrolleifsdal, sem ritað er áður. Þórður gerði hann norðan fyrir víg Odds Unasonar; þá fór hann í Vatnsdal.


65. kafli

Friðleifur hét maður, gauskur að föðurkyni, en Bryngerður hét móðir hans, og var hún flæmsk. Friðleifur nam Sléttahlíð alla og Friðleifsdal milli Friðleifsdalsár og Stafár og bjó í Holti. Hans son var Þjóðar, faðir Ara og Bryngerðar, móður Tungu-Steins.

Flóki son Vilgerðar Hörða-Káradóttur fór til Íslands og nam Flókadal milli Flókadalsár og Reykjarhóls; hann bjó á Mói. Flóki átti Gró, systur Þórðar frá Höfða. Þeirra son var Oddleifur stafur, er bjó á Stafshóli og deildi við Hjaltasonu. Dóttir Flóka var Þjóðgerður, móðir Koðráns, föður Þjóðgerðar, móður Koðráns, föður Kárs í Vatnsdal.

Þórður knappur hét maður sygnskur, son Bjarnar að Haugi, annar hét Nafar-Helgi; þeir fóru samskipa til Íslands og komu við Haganes. Þórður nam land upp frá Stíflu til Tunguár og bjó á Knappsstöðum; hann átti Æsu dóttur Ljótólfs goða. Þeirra son var Hafur, er átti Þuríði, dóttur Þorkels úr Guðdölum; þeirra son var Þórarinn, faðir Ófeigs.

Nafar-Helgi nam land fyrir austan upp frá Haganesi til Flókadalsár fyrir neðan Barð og upp til Tunguár og bjó á Grindli; hann átti Gró hina (snar)skyggnu. Þeirra börn voru þau Þórólfur og Arnór, er barðist við Friðleif á Stafshóli, og Þorgerður, er átti Geirmundur Sæmundarson, og Úlfhildur, er átti Arnór Skefilsson í Gönguskarði. Þeirra son var Þorgeir ofláti, er vó Blót-Má að Móbergi: Þórunn blákinn var ein.

Bárður suðureyingur nam land upp frá Stíflu til Mjóvadalsár; hans son var Hallur Mjódælingur, faðir Þuríðar, er átti Arnór kerlingarnef.

Brúni hinn hvíti hét maður ágætur, son Háreks Upplendingajarls; hann fór til Íslands af fýsi sinni og nam land á milli Mjóvadalsár og Úlfsdala; hann bjó á Brúnastöðum. Hann átti Arnóru, dóttur Þorgeirs hins óða, Ljótólfssonar goða; þeirra synir voru þeir Ketill og Úlfheðinn og Þórður, er Barðverjar eru frá komnir.

Úlfur víkingur og Óláfur bekkur fóru samskipa til Íslands. Úlfur nam Úlfsdali og bjó þar. Óláfur bekkur var son Karls úr Bjarkey af Hálogalandi; hann vó Þóri hinn svarta og varð fyrir það útlægur.

Óláfur nam alla dali fyrir vestan og Óláfsfjörð sunnan til móts við Þormóð og bjó að Kvíabekki. Hans synir voru þeir Steinmóður, faðir Bjarnar, og Grímólfur og Arnoddur, faðir Vilborgar, móður Karls hins rauða.

Þormóður hinn rammi hét maður; hann vó Gyrð, móðurföður Skjálgs á Jaðri, og varð fyrir það landflótti og fór til Íslands. Hann kom skipi sínu í Siglufjörð og sigldi inn að Þormóðseyri og kallaði af því Siglufjörð; hann nam Siglufjörð allan á milli Úlfsdala (og Hvanndala) og bjó á Siglunesi. Hann deildi um Hvanndali við Óláf bekk og varð sextán manna bani, áður þeir sættust, en þá skyldi sitt sumar hvor hafa.

Þormóður var son Haralds víkings, en hann átti Arngerði, systur Skíða úr Skíðadal. Þeirra synir voru þeir Arngeir hinn hvassi og Narfi, faðir Þrándar, föður Hríseyjar-Narfa, og Alrekur, er barðist í Sléttahlíð við Knör Þórðarson.

Gunnólfur hinn gamli, son Þorbjarnar þjóta úr Sogni, hann vó Végeir, föður Vébjarnar Sygnakappa, og fór síðan til Íslands; hann nam Óláfsfjörð fyrir austan upp til Reykjaár og út til Vomúla og bjó á Gunnólfsá. Hann átti Gró, dóttur Þorvarðs frá Urðum; þeirra synir voru þeir Steinólfur, Þórir og Þorgrímur.


66. kafli

Björn hét maður ágætur á Gautlandi; hann var son Hrólfs frá Ám; hann átti Hlíf, dóttur Hrólfs Ingjaldssonar, Fróðasonar konungs. Eyvindur hét son þeirra.

Björn varð ósáttur um jörð við Sigfast, mág Sölvars Gautakonungs, og brenndi Björn hann inni með þremur tigum manna. Síðan fór Björn til Noregs með tólfta mann, og tók við honum Grímur hersir son Kolbjarnar sneypis, og var (hann) með honum einn vetur. Þá vildi Grímur drepa Björn til fjár; því fór Björn til Öndótts kráku, er bjó í Hvinisfirði á Ögðum, og tók hann við honum. Björn var á sumrum í vesturvíking, en á vetrum með Öndótti, þar til er Hlíf kona hans andaðist á Gautlandi.

Þá kom Eyvindur son hans austan og tók við herskipum föður síns, en Björn fékk Helgu, systur Öndótts kráku, og var þeirra son Þrándur. Eyvindur fór þá í vesturvíking og hafði útgerðir fyrir Írlandi. Hann fékk Raförtu, dóttur Kjarvals Írakonungs, og staðfestist þar; því var hann kallaður Eyvindur austmaður.

Þau Raförta áttu son þann, er Helgi hét; hann seldu þau til fósturs í Suðureyjar. En er þau komu þar út tveim vetrum síðar, þá var hann sveltur, svo að þau kenndu hann eigi; þau höfðu hann bruttu með sér og kölluðu hann Helga hinn magra; hann var fæddur á Írlandi. En er hann var roskinn, gerðist hann virðingamaður mikill; hann fékk þá Þórunnar hyrnu, dóttur Ketils flatnefs, og áttu þau mörg börn. Hrólfur og Ingjaldur hétu synir þeirra.

Helgi hinn magri fór til Íslands með konu sína og börn; þar var og með honum Hámundur heljarskinn mágur hans, er átti Ingunni dóttur Helga. Helgi var blandinn mjög í trú; hann trúði á Krist, en hét á Þór til sjófara og harðræða.

Þá er Helgi sá Ísland, gekk hann til frétta við Þór, hvar land skyldi taka, en fréttin vísaði honum norður um landið. Þá spurði Hrólfur son hans, hvort Helgi mundi halda í Dumbshaf, ef Þór vísaði honum þangað, því að skipverjum þótti mál úr hafi, er áliðið var mjög sumarið.

Helgi tók land fyrir utan Hrísey, en fyrir innan Svarfaðardal; hann var hinn fyrsta vetur á Hámundarstöðum. Þeir fengu vetur mikinn.

Um vorið gekk Helgi upp á Sólarfjöll; þá sá hann, að svartara var miklu að sjá inn til fjarðarins, er þeir kölluðu Eyjafjörð af eyjum þeim, er þar lágu úti fyrir. Eftir það bar Helgi á skip sitt allt það, er hann átti, en Hámundur bjó eftir. Helgi lendi þá við Galtarhamar; þar skaut hann á land svínum tveimur, og hét gölturinn Sölvi. Þau fundust þremur vetrum síðar í Sölvadal; voru þá saman sjö tigir svína.

Helgi kannaði um sumarið hérað allt og nam allan Eyjafjörð milli Sigluness og Reynisness og gerði eld mikinn við hvern vatnsós og helgaði sér svo allt hérað. Hann sat þann vetur að Bíldsá, en um vorið færði Helgi bú sitt í Kristsnes og bjó þar, meðan hann lifði.

Í búfærslunni varð Þórunn léttari í Þórunnareyju í Eyjafjarðará; þar fæddi hún Þorbjörgu hólmasól. Helgi trúði á Krist og kenndi því við hann bústað sinn.

Eftir þetta tóku menn að byggja í landnámi Helga að hans ráði.


67. kafli

Maður hét Þorsteinn svarfaður son Rauðs ruggu í Naumudal; hann átti Hildi dóttur Þráins svartaþurs. Þorsteinn fór til Íslands og nam Svarfaðardal að ráði Helga. Börn hans voru þau Karl hinn rauði, er bjó að Karlsá, og Guðrún, er átti Hafþór víkingur. Þeirra börn voru þau Klaufi og Gróa, er átti Grís gleðill.

Atli illingur hét maður; hann drap Hafþór, en setti Karl í járn; þá kom Klaufi á óvart og drap Atla, en tók Karl úr járni. Klaufi átti Yngvildi rauðkinn dóttur Ásgeirs rauðfeldar, systur þeirra Óláfs völubrjóts og Þorleifs. Fyrir þeim hjó hann jafnabelg, er þeir tóku í landi hans. Þá kvað Þorleifur þetta:

Belg hjó fyrir mér
Böggvir snöggvan,
en fyrir Áleifi
ál ok verju.
Svá skal verða,
ef vér lifum,
við böl búinn
Böggvir höggvinn.

Þar af gerðist Svarfdæla saga.

Karl hét maður, er nam Strönd alla út frá Upsum til Mígandi.

Hámundur heljarskinn son Hjörs konungs miðlaði lönd við Örn frænda sinn, þá er hann kom vestan, þann er numið hafði Arnarfjörð, og bjó hann í Arnarnesi. Hans dóttir var Iðunn, er átti Ásgeir rauðfeldur. Son Arnar var Narfi, er Narfasker eru við kennd; hann átti Úlfheiði dóttur Ingjalds úr Gnúpufelli. Þeirra synir voru þeir Ásbrandur, faðir Hellu-Narfa, og Eyjólfur, faðir Þorvalds í Haga, og Helgi, faðir Gríms á Kálfskinni.

Galmur hét maður, er nam Galmansströnd á milli Þorvaldsdalsár og Reistarár. Hans son var Þorvaldur, faðir Orms, föður Barna-Þórodds, föður Þórunnar, móður Dýrfinnu, móður Þorsteins smiðs Skeggjasonar. Þorvaldi gaf Hámundur land milli Reistarár og Hörgár, en hann hafði áður búið í Þorvaldsdal.

Geirleifur hét maður; hann nam Hörgárdal upp til Myrkár; hann var Hrappsson og bjó í Haganum forna. Hans son var Björn hinn auðgi, er Auðbrekkumenn eru frá komnir.


68. kafli

Maður hét Þórður slítandi; hann nam Hörgárdal upp frá Myrká og ofan til Dranga öðrum megin. Hans son var Örnólfur, er átti Yngvildi allrasystur. Þeirra synir voru þeir Þórður og Þorvarður í Kristnesi og Steingrímur að Kroppi. Þórður slítandi gaf Skólm, frænda sínum, af landnámi sínu. Hans son var Þórálfur hinn sterki, er bjó að Myrká.

Þórir þursasprengir hét maður; hann var fæddur í Ömð á Hálogalandi og varð missáttur við Hákon jarl Grjótgarðsson og fór af því til Íslands; hann nam Öxnadal allan og bjó að Vatnsá. Hans son var Steinröður hinn rammi, er mörgum manni vann bót, þeim er aðrar meinvættir gerðu mein. Geirhildur hét fjölkunnig kona og meinsöm. Það sá ófreskir menn, að Steinröður kom að henni óvarri, en hún brá sér í nautsbelgs líki vatnsfulls. Steinröður var járnsmiður; hann hafði járngadd mikinn í hendi. Um fund þeirra er þetta kveðið:

Fork lætr æ sem orkar
atglamrandi hamra
á glotkylli gjalla
Geirhildar hví meira.
Járnstafr skapar ærna,
eru sollin rif trolli,
hár á Hjaltaeyri
hríð kerlingar síðu.

Dóttir Steinröðar var Þorljót, er átti Þorvarður í Kristnesi.

Auðólfur hét maður; hann fór af Jaðri til Íslands og nam Öxnadal niður frá Þverá til Bægisár og bjó að hinni syðri Bægisá; hann átti Þórhildi, dóttur Helga hins magra. Þeirra dóttir var Yngvildur, er átti Þóroddur hjálmur, faðir Arnljóts, föður Halldórs.

Eysteinn son Rauðúlfs Öxna-Þórissonar nam land niður frá Bægisá til Kræklingahlíðar og bjó að Lóni. Hans son var Gunnsteinn, er átti Hlíf, dóttur Heðins úr Mjölu. Þeirra börn voru þau Halldóra, er Víga-Glúmur átti, og Þorgrímur og Grímur eyrarleggur.

Eyvindur hani hét maður göfugur; hann kom út síð landnámatíðar; hann átti skip við Þorgrím Hlífarson. Hann var frændi Öndóttssona; þeir gáfu honum land, og bjó hann í Hanatúni og var kallaður Túnhani. Þar er nú kallað Marbæli. Hann átti Þórnýju, dóttur Stórólfs Öxna-Þórissonar. Hans son var Snorri Hlíðmannagoði.


69. kafli

Öndóttur kráka, er fyrr var getið, gerðist ríkur maður. En er Björn mágur (hans) andaðist, þá kallaði Grímur hersir konungi allan arf hans, er hann var útlendur, en synir hans voru fyrir vestan haf. Öndóttur hélt fénu til handa Þrándi, systursyni sínum.

En er Þrándur frá andlát föður síns, þá sigldi hann úr Suðureyjum svo mikla sigling, að fyrir það var hann kallaður Þrándur mjögsiglandi. En er hann hafði við erfð tekið, þá fór hann til Íslands og nam fyrir sunnan land, sem enn mun sagt verða.

En fyrir þá sök vó Grímur Öndótt, er hann náði eigi fénu í konungs trausti. En á hinni sömu nótt bar Signý kona Öndótts á skip allt lausafé sitt og fór með sonu þeirra, Ásgrím og Ásmund, til Sighvats föður síns, en sendi sonu sína til Heðins fóstra síns í Sóknadal. En þeir undu þar eigi og vildu fara til móður sinnar og komu að jólum til Ingjalds tryggva í Hvini. Hann tók við þeim af áeggjun Gyðu, konu sinnar.

Um sumarið eftir gerði Grímur hersir veislu Auðuni jarli Haralds konungs. En þá nótt, er ölhita var að Gríms, brenndu Öndóttssynir hann inni og tóku síðan bát Ingjalds fóstra síns og röru á braut. Auðun kom til veislu, sem ætlað var, og missti þar vinar í stað. Þá komu Öndóttssynir þar snemma um morguninn að svefnbúri því, er Auðun lá í, og skutu stokki á hurð. Ásmundur varðveitti húskarla jarls tvo, en Ásgrímur setti spjótsodd fyrir brjóst jarli og bað hann reiða föðurgjöld. Hann seldi fram þrjá gullhringa og guðvefjarskikkju; Ásgrímur gaf jarli nafn og kallaði Auðun geit.

Síðan fóru þeir í Súrnadal til Eiríks ölfúss, lends manns, og tók hann við þeim. Þar bjó Hallsteinn hestur, annar lendur maður, og höfðu þeir jóladrykkju saman, og veitti Eiríkur fyrr vel og trúliga, en Hallsteinn veitti síðar óvingjarnliga. Hann laust Eirík með dýrshorni; fór Eiríkur þá heim, en Hallsteinn sat eftir með húskarla sína. Þá gekk Ásgrímur inn einn og veitti Hallsteini mikið sár, en þeir þóttust veita Ásgrími bana. En hann komst út og til skógar, og græddi kona hann í jarðhúsi, svo að hann varð heill.

Það sumar fór Ásmundur til Íslands og hugði Ásgrím bróður sinn dauðan. Helgi hinn magri gaf Ásmundi Kræklingahlíð, og bjó (hann) að Glerá hinni syðri.

En þá er Ásgrímur varð heill, gaf Eiríkur honum langskip, og herjaði hann vestur um haf, en Hallsteinn dó úr sárum. En er Ásgrímur kom úr hernaði, gifti Eiríkur honum Geirhildi dóttur sína. Þá fór Ásgrímur til Íslands; hann bjó að Glerá hinni nyrðri.

Haraldur konungur sendi Þorgeir hinn hvinverska til Íslands að drepa Ásgrím. Hann var of vetur á Kili í Hvinverjadal og kom öngu fram um hefndina.

Son Ásgríms var Elliða-Grímur, faðir Ásgríms og Sigfúss, föður Þorgerðar, móður Gríms, föður Svertings, föður Vigdísar, móður Sturlu í Hvammi.


70. kafli

Helgi hinn magri gaf Hámundi mági sínum land milli Merkigils og Skjálgdalsár, og bjó hann á Espihóli hinum syðra. Hans son var Þórir, er þar bjó síðan; hann átti Þórdísi Kaðalsdóttur. Þeirra son var Þórarinn á Espihóli hinum nyrðra og Þorvaldur krókur á Grund, en Þorgrímur í Möðrufelli var eigi hennar son; Vigdís var dóttir þeirra.

Helgi gaf Þóru dóttur sína Gunnari syni Úlfljóts, er lög hafði út, og land upp frá Skjálgdalsá til Háls; hann bjó í Djúpadal. Þeirra börn voru þau Þorsteinn, Ketill og Steinmóður, en dætur Yngvildur og Þorlaug.

Helgi gaf Auðuni rotin, syni Þórólfs smjörs, Þorsteinssonar skrofa, Gríms sonar kambans, Helgu dóttur sína, og land upp frá Hálsi til Villingadals; hann bjó í Saurbæ. Þeirra börn voru þau Einar, faðir Eyjólfs Valgerðarsonar, og Vigdís, móðir Halla hins hvíta, föður Orms, föður Gellis, föður Orms, föður Halla, föður Þorgeirs, föður Þorvarðs og Ara, föður Guðmundar byskups.

Hámundur heljarskinn fékk Helgu Helgadóttur eftir andlát Ingunnar, systur hennar, og var þeirra dóttir Yngvildur, er kölluð var allrasystir, er Örnólfur átti.

Helgi gaf Hrólfi syni sínum öll lönd fyrir austan Eyjafjarðará frá Arnarhvoli upp, og hann bjó í Gnúpufelli og reisti þar hof mikið; hann átti Þórörnu dóttur Þrándar mjóbeins. Þeirra börn voru þau Hafliði hinn örvi og Valþjófur, Viðar, Grani og Böðvar, Ingjaldur og Eyvindur, en dóttir Guðlaug, er Þorkell hinn svarti átti. Valþjófur var faðir Helga, föður Þóris, föður Arnórs, föður Þuríðar, móður Þórdísar, móður Vigdísar, móður Sturlu í Hvammi.

Helgi hinn magri gaf Ingjaldi syni sínum land út frá Arnarhvoli til Þverár hinnar ytri; hann bjó að Þverá hinni efri og reisti þar hof mikið. Hann átti Salgerði Steinólfsdóttur, þeirra son Eyjólfur, faðir Víga-Glúms, og Steinólfur, faðir Þórarins illa og Arnórs hins góða Rauðæings. Víga-Glúmur var faðir Más, föður Þorkötlu, móður Þórðar, föður Sturlu.

Helgi gaf Hlíf dóttur sína Þorgeiri syni Þórðar bjálka og land út frá Þverá til Varðgjár. Þau bjuggu að Fiskilæk, börn þeirra Þórður og Helga.

Skagi Skoftason hét maður ágætur á Mæri; hann varð ósáttur við Eystein glumru og fór af því til Íslands. Hann nam að ráði Helga Eyjafjarðarströnd hina eystri út frá Varðgjá til Fnjóskadalsár og bjó í Sigluvík. Hans son var Þorbjörn, faðir Heðins hins milda, er Svalbarð lét gera sextán vetrum fyrir kristni; hann átti Ragnheiði, dóttur Eyjólfs Valgerðarsonar.


71. kafli

Þórir snepill hét maður son Ketils brimils; hann bjóst til Íslandsfarar. Gautur hét skipveri hans.

En er þeir lágu til hafs, komu að þeim víkingar og vildu ræna þá, en Gautur laust stafnbúann þeirra með hjálmunveli, og lögðu víkingar við það frá. Síðan var hann kallaður Hjálmun-Gautur.

Þeir Þórir fóru til Íslands og komu skipi sínu í Skjálfandafljótsós. Þórir nam Kaldakinn á milli Skuggabjarga og Ljósavatnsskarðs; hann nam þar eigi yndi og fór á braut; þá kvað hann þetta:

Hér liggr, kjóla keyrir,
Kaldakinn of aldr,
en vit förum heilir,
Hjölmun-Gautr, á braut.

Þórir nam síðan Fnjóskadal allan til Ódeilu og bjó að Lundi; hann blótaði lundinn. Hans sonur var Ormur töskubak, faðir Hlenna hins gamla, og Þorkell svarti í Hleiðrargarði. Hann átti Guðlaugu Hrólfsdóttur, þeirra synir Öngull hinn svarti og Hrafn, faðir Þórðar að Stokkahlöðum, og Guðríður, er átti Þorgeir goði að Ljósavatni.

Þengill mjögsiglandi fór af Hálogalandi til Íslands; hann nam land að ráði Helga út frá Hnjóská til Grenivíkur; hann bjó í Höfða. Hans synir voru þeir Vémundur faðir Ásólfs í Höfða og Hallsteinn, er þetta kvað, þá er hann sigldi af hafi og frá andlát föður síns:

Drúpir Höfði,
dauðr es Þengill,
hlæja hlíðir
við Hallsteini.

Þormóður hét maður, er nam Grenivík og Hvallátur og Strönd alla út til Þorgeirsfjarðar. Hans son var Snörtur, er Snertlingar eru frá komnir.

Þorgeir hét maður, er nam Þorgeirsfjörð og Hvalvatnsfjörð.

Loðinn öngull hét maður; hann var fæddur í Öngley á Hálogalandi. Hann fór fyrir ofríki Hákonar jarls Grjótgarðssonar til Íslands og dó í hafi; en Eyvindur son hans nam Flateyjardal upp til Gunnsteina og blótaði þá. Þar liggur Ódeila á milli og landnáms Þóris snepils.

Ásbjörn dettiás var son Eyvindar, faðir Finnboga hins ramma.


72. kafli

Bárður son Heyjangurs-Bjarnar kom skipi sínu í Skjálfandafljótsós og nam Bárðardal allan upp frá Kálfborgará og Eyjardalsá og bjó að Lundarbrekku um hríð.

Þá markaði hann að veðrum, að landviðri voru betri en hafviðri, og ætlaði af því betri lönd fyrir sunnan heiði. Hann sendi sonu sína suður um gói; þá fundu þeir góibeytla og annan gróður. En annað vor eftir þá gerði Bárður kjálka hverju kykvendi, því er gengt var, og lét hvað draga sitt fóður og fjárhlut; hann fór Vonarskarð, þar er síðan heitir Bárðargata. Hann nam síðan Fljótshverfi og bjó að Gnúpum; þá var hann kallaður Gnúpa-Bárður.

Hann átti mörg börn. Hans son var Sigmundur, faðir Þorsteins, er átti Æsu, dóttur Hrólfs rauðskeggs. Þeirra dóttir var Þórunn, er átti Þorkell leifur, og var þeirra son Þorgeir goði að Ljósavatni.

Annar son Bárðar var Þorsteinn, faðir Þóris, er var á Fitjum með Hákoni konungi og skar rauf á oxahúð og hafði þá hlíf; því var hann leðurháls kallaður. Hann átti Fjörleifu Eyvindardóttur. Þeirra synir voru þeir Hávarður í Fellsmúla, Herjólfur að Mývatni, Ketill í Húsavík, Vémundur kögur, er átti Halldóru, dóttur Þorkels svarta, og Áskell og Háls; hann bjó á Helgastöðum.

Þorfiður máni hét maður, son Áskels torfa; hann nam land fyrir neðan Eyjardalsá til Landanmóts og sumt um Ljósavatnsskarð og bjó að Öxará.

Þórir son Gríms gráfeldarmúla af Rogalandi nam um Ljósavatnsskarð. Hans son var Þorkell leifur hinn hávi faðir Þorgeirs goða.

Þorgeir átti fyrst Guðríði dóttur Þorkels svarta, þeirra synir Þorkell hákur og Höskuldur, Tjörvi, Kolgrímur, Þorsteinn og Þorvarður, en dóttir Sigríður. Síðan átti hann Álfgerði dóttur Arngeirs hins austræna. Þorgeir átti og Þorkötlu, dóttur Dala-Kolls. Synir hans og þeirra kvenna voru þeir Þorgrímur, Þorgils, Óttar. Þessir voru laungetnir: Þorgrímur og Finni hinn draumspaki; hans móðir hét Lekný, útlend.

Heðinn og Höskuldur, synir Þorsteins þurs, fóru til Íslands og námu fyrir innan Tunguheiði. Heðinn bjó að Heðinshöfða og átti Guðrúnu. Þeirra dóttir var Arnríður, er Ketill Fjörleifarson átti. Guðrún var dóttir þeirra, er Hrólfur átti. Höskuldur nam lönd öll fyrir austan Laxá og bjó í Skörðum; við hann er kennt Höskuldsvatn, því að hann drukknaði þar. Í þeirra landnámi er Húsavík, er Garðar hafði vetursetu. Son Höskulds var Hróaldur, er átti Ægileifu, dóttur Hrólfs Helgasonar.


73. kafli

Vestmaður og Úlfur fóstbræður fóru einu skipi til Íslands; þeir námu Reykjadal allan fyrir vestan Laxá upp til Vestmannsvatns. Vestmaður átti Guðlaugu. Úlfur bjó undir Skrattafelli. Hann átti..., þeirra son Geirólfur, er átti Vigdísi Konálsdóttur síðar en Þorgrímur, þeirra son Hallur.

Þorsteinn höfði hét maður; hann var hersir á Hörðalandi; hans synir voru þeir Eyvindur og Ketill hörski. Eyvindur fýstist til Íslands eftir andlát föður síns, en Ketill bað hann nema báðum þeim land, ef honum sýndist síðar að fara. Eyvindur kom í Húsavík skipi sínu og nam Reykjadal upp frá Vestmannsvatni; hann bjó að Helgastöðum og er þar heygður.

Náttfari, er með Garðari hafði út farið, eignaði sér áður Reykjadal og hafði merkt á viðum, en Eyvindur rak hann á braut og lét hann hafa Náttfaravík.

Ketill fór út að orðsendingu Eyvindar; hann bjó á Einarsstöðum; hans son var Konáll Þorsteinn, faðir Einars, er þar bjó síðan.

Sonur Eyvindar (var) Áskell goði, er átti dóttur Grenjaðar; þeirra synir Þorsteinn og Víga-Skúta. Dóttir Eyvindar var Fjörleif.

Konáll átti Oddnýju Einarsdóttur, systur Eyjólfs Valgerðarsonar. Þeirra börn voru þau Einar, er átti sex sonu og dóttur Þóreyju, er átti Steinólfur Másson, og önnur Eydís, er Þorsteinn goði átti úr Ásbjarnarvík. Þórður Konálsson var faðir Sokka á Breiðamýri, föður Konáls. Dóttir Konáls var Vigdís, er átti Þorgrímur, son Þorbjarnar skaga, og var þeirra son Þorleifur Geirólfsstjúpur.

Grenjaður hét maður Hrappsson, bróðir Geirleifs; hann nam Þegjandadal og Kraunaheiði, Þorgerðarfell og Laxárdal neðan. Hann átti Þorgerði dóttur Helga hests. Þeirra son var Þorgils vomúli, faðir Önundar, föður Hallberu, móður Halldóru, móður Þorgerðar, móður Halls ábóta og Hallberu, er átti Hreinn Styrmisson.

Böðólfur hét maður, son Gríms Grímólfssonar af Ögðum, bróðir Böðmóðs; hann átti Þórunni dóttur Þórólfs hins fróða; þeirra son var Skeggi.

Þau fóru öll til Íslands og brutu skip sitt við Tjörnes og voru að Auðólfsstöðum hinn fyrsta vetur. Hann nam Tjörnes allt á milli Tunguár og Óss. Böðólfur átti síðar Þorbjörgu hólmasól dóttur Magur-Helga. Þeirra dóttir var Þorgerður, er átti Ásmundur Öndóttsson.

Skeggi Böðólfsson nam Kelduhverfi upp til Kelduness og bjó í Miklagarði; hann átti Helgu dóttur Þorgeirs að Fiskilæk.

Þeirra son var Þórir farmaður. Hann lét gera knörr í Sogni; þann vígði Sigurður byskup. Af þeim knerri eru brandar veðurspáir fyrir durum í Miklagarði. Um Þóri orti Grettir þetta:

Ríðkat rækimeiðum
randar hóts á móti.
Sköpuð es þessum þegni
þraut. Ferk einn á brautu.
Vilkat Viðris balkar
vinnendr snara finna.
Ek mun þér eigi þykkja
ærr. Leitak mér færis.

Hnekkik frá, þars flokkar
fara Þóris mjök stórir.
Esa mér í þys þeira
þerfiligt at hverfa.
Forðumk frægra virða
fund. Ák veg til lundar.
Verðk Heimdallar hirða
hjör. Björgum svá fjörvi.


74. kafli

Máni hét maður; hann var fæddur í Ömð á Hálogalandi; hann fór til Íslands og braut við Tjörnes og bjó að Máná nokkura vetur.

Síðan rak Böðólfur hann á braut þaðan, og nam hann þá fyrir neðan Kálfborgará, milli Fljóts og Rauðaskriðu, og bjó að Mánafelli.

Hans son var Ketill, er átti Valdísi Þorbrandsdóttur, er keypti Rauðaskriðulönd að Mána. Hans dóttir var Dalla, systir Þorgeirs Galtasonar; hana átti Þorvaldur Hjaltason.

Ljótur óþveginn hét maður, er nam Kelduhverfi upp frá Keldunesi. Hans son var Grís faðir Galta í Ási; hann var vitur maður og vígamaður mikill.

Önundur nam (og) Kelduhverfi frá Keldunesi og bjó í Ási; hann var son Blæings Sótasonar, bróðir Bálka í Hrútafirði. Dóttir Önundar var Þorbjörg, er átti Hallgils Þorbrandsson úr Rauðaskriðu.

Þorsteinn son Sigmundar Gnúpa-Bárðarsonar bjó fyrst að Mývatni. Hans son var Þorgrímur, faðir Arnórs í Reykjahlíð, er átti Þorkötlu, dóttur Böðvars Hrólfssonar úr Gnúpufelli. Böðvar var son þeirra.

Þorkell hinn hávi kom ungur til Íslands og bjó fyrst að Grænavatni, er gengur af Mývatni. Sigmundur hét son hans; hann átti Vigdísi, dóttur Þóris af Espihóli; hann vó Glúmur á akrinum. Dóttir Þorkels var Arndís, er átti Vigfúss bróðir Víga-Glúms. Þorkell gat son í elli sinni; sá hét Dagur. Hann var faðir Þórarins, er átti Yngvildi, dóttur Halls á Síðu, síðar en Eyjólfur hinn halti.

Geiri hét maður norrænn, er fyrstur bjó fyrir sunnan Mývatn á Geirastöðum; hans son var Glúmur og Þorkell.

Þeir feðgar börðust við Þorberg höggvinkinna og felldu Þorstein son hans. Fyrir þau víg voru þeir görvir norðan úr sveitum.

Geiri sat um vetur á Geirastöðum við Húnavatn. Síðan fóru þeir í Breiðafjörð og bjuggu í Geiradal í Króksfirði. Glúmur fékk Ingunnar, dóttur Þórólfs Véleifssonar. Þeirra börn voru þau Þórður, er átti Guðrúnu Ósvífursdóttur, og Þorgerður, er átti Þórarinn Ingjaldsson, þeirra son Helgu-Steinar.

Torf-Einar jarl gat dóttur í æsku; sú hét Þórdís; hana fæddi Rögnvaldur jarl og gifti hana Þorgeiri klaufa. Þeirra son var Einar; hann fór til Orkneyja að finna frændur sína; þeir vildu eigi taka við frændsemi hans.

Þá kaupir Einar í skipi með bræðrum tveimur, Vestmanni og Vémundi; þeir fóru til Íslands og sigldu fyrir norðan landið og vestur um Sléttu í fjörðinn. Þeir settu öxi í Reistargnúp og kölluðu því Öxarfjörð; þeir settu örn upp fyrir vestan og kölluðu þar Arnarþúfu; en í þriðja stað settu þeir kross; þar nefndu þeir Krossás. Svo helguðu þeir sér allan Öxarfjörð.

Börn Einars voru þau Eyjólfur, er Galti Gríssson vó, og Ljót, móðir Hróa hins skarpa, er hefndi Eyjólfs og vó Galta. Synir Glíru-Halla, Brandur og Bergur, voru dóttursynir Ljótar; þeir féllu í Böðvarsdal.

Reistur son Bjarneyja-Ketils og Hildar, systur Ketils þistils, faðir Arnsteins goða, hann nam land á milli Reistargnúps og Rauðagnúps og bjó í Leirhöfn.

Arngeir hét maður, er nam Sléttu alla milli Hávararlóns og Sveinungsvíkur; hans börn voru þau Þorgils og Oddur og Þuríður, er Steinólfur í Þjórsárdal átti.

Þeir Arngeir og Þorgils gengu heiman í fjúki að leita fjár og komu eigi heim. Oddur fór að leita þeirra og fann þá báða örenda, og hafði hvítabjörn drepið þá og lá þá á pasti, er hann kom að. Oddur drap björninn og færði heim, og segja menn, að hann æti allan, og kallaðist þá hefna föður síns, er hann drap björninn, en þá bróður síns, er hann át hann.

Oddur var síðan illur og ódæll við að eiga; hann var hamrammur svo mjög, að hann gekk heiman úr Hraunhöfn um kveldið, en kom um morguninn eftir í Þjórsárdal til liðs við systur sína, er Þjórsdælir vildu berja grjóti í hel.

Sveinungur nam Sveinungsvík, en Kolli Kollavík, og bjó þar hvor, sem við er kennt síðan.

Ketill þistill nam Þistilsfjörð milli Hundsness og Sauðaness. Hans son var Sigmundur, faðir Laugarbrekku-Einars.

Nú eru rituð landnám í Norðlendingafjórðungi, og eru þessir þar ágætastir landnámsmenn: Auðun skökull, Ingimundur, Ævar, Sæmundur, Eiríkur í Goðdölum, Höfða-Þórður, Helgi hinn magri, Eyvindur Þorsteinsson höfða. En þar voru tólf hundruð bónda, þá er talið var.FJÓRÐI HLUTI


Þessir menn hafa land numið í Austfirðingafjórðungi, er nú munu upp taldir, og fer hvað af hendi norðan til fjórðungamóts frá Langanesi á Sólheimasand, og er það sögn manna, að þessi fjórðungur hafi fyrst albyggður orðið.


75. kafli

Gunnólfur kroppa hét maður, son Þóris hauknefs hersis; hann nam Gunnólfsvík og Gunnólfsfell og Langanes allt fyrir utan Helkunduheiði og bjó í Fagravík. Hans son var Skúli herkja, faðir Geirlaugar.

Finni hét maður, er nam Finnafjörð og Miðfjörð. Hans son var Þórarinn, faðir Sigurðar, föður Glíru-Halla.

Hróðgeir hinn hvíti Hrappsson nam Sandvík fyrir norðan Digranes allt til Miðfjarðar og bjó á Skeggjastöðum. Hans dóttir var Ingibjörg, er átti Þorsteinn hinn hvíti.

Alrekur var bróðir Hróðgeirs, er út kom með honum; hann var faðir Ljótólfs goða í Svarfaðardal.

Eyvindur vopni og Refur hinn rauði, synir Þorsteins þjokkubeins, bjuggust til Íslands af Strind úr Þrándheimi, því að þeir urðu missáttir við Harald konung, og hafði sitt skip hvor þeirra. Refur varð afturreka, og lét konungur drepa hann, en Eyvindur kom í Vopnafjörð og nam fjörðinn allan frá Vestradalsá og bjó í Krossavík hinni iðri; hans son var Þorbjörn.

Steinbjörn körtur hét son Refs hins rauða; hann fór til Íslands og kom í Vopnafjörð. Eyvindur föðurbróðir hans gaf honum land allt milli Vopnafjarðarár og Vestradalsár; hann bjó að Hofi. Hans synir voru þeir Þormóður stikublígur, er bjó í Sunnudal, annar Refur á Refsstöðum, þriðji Egill á Egilsstöðum, faðir Þórarins og Þrastar og Hallbjarnar og Hallfríðar, er átti Þorkell Geitisson.

Hróaldur bjóla var fóstbróðir Eyvindar vopna; hann nam land fyrir vestan Vestradalsá, dalinn hálfan og Selárdal allan út til Digraness; hann bjó á Torfastöðum. Hans son var Ísröður, faðir Gunnhildar, er átti Oddi, son Ásólfs í Höfða.

Ölvir hinn hvíti hét maður, son Ósvalds Öxna-Þórissonar; hann var lendur maður og bjó í Álmdölum. Hann varð ósáttur við Hákon jarl Grjótgarðsson og fór á Yrjar og dó þar, en Þorsteinn hinn hvíti son hans fór til Íslands og kom skipi sínu í Vopnafjörð eftir landnám. Hann keypti land að Eyvindi vopna og bjó á Tóftavelli fyrir utan Síreksstaði nokkura vetur, áður hann komst að Hofslöndum með því móti, að hann heimti leigufé sitt að Steinbirni kört, en hann hafði ekki til að gjalda nema landið. Þar bjó Þorsteinn sex tigu vetra síðan og var vitur maður og góðráður; hann átti Ingibjörgu, dóttur Hróðgeirs hins hvíta. Þeirra börn voru þau Þorgils og Þórður, Önundur, Þorbjörg og Þóra.

Þorgils átti Ásvöru, dóttur Þóris Graut-Atlasonar. Þeirra son var Brodd-Helgi; hann átti fyrr Höllu Lýtingsdóttur, Arnbjarnarsonar. Þeirra son var Víga-Bjarni; hann átti Rannveigu, dóttur Eiríks úr Goðdölum. Þeirra son var Skegg-Broddi, en dóttir Yngvildur, er átti Þorsteinn Hallsson, Skegg-Broddi átti Guðrúnu, dóttur Þórarins sælings og Halldóru Einarsdóttur, þeirra börn Þórir og Bjarni húslangur. Þórir átti Steinunni, dóttur Þorgríms hins háva; þeirra dóttir var Guðrún, er átti Flosi Kolbeinsson. Þeirra son var Bjarni, faðir Bjarna, er átti Höllu Jörundardóttur. Þeirra börn voru þau Flosi prestur og Torfi prestur, Einar brúður og Guðrún, er Þórður Sturluson átti, og Guðrún, er Einar Bergþórsson átti, og Helga, móðir Sigríðar Sighvatsdóttur.


76. kafli

Þorsteinn torfi og Lýtingur bræður fóru til Íslands. Lýtingur nam Vopnafjarðarströnd alla hina eystri, Böðvarsdal og Fagradal, og bjó í Krossavík; frá honum eru Vopnfirðingar komnir.

Þorfiður hét maður, er fyrst bjó á Skeggjastöðum að ráði Þórðar hálma. Hans son var Þorsteinn fagri, er vó Einar, son Þóris Graut-Atlasonar, og bræður hans tveir, Þorkell og Heðinn, er vógu Þorgils, föður Brodd-Helga.

Þorsteinn torfi nam Hlíð alla utan frá Ósfjöllum og upp til Hvannár og bjó á Fossvelli. Hans son var Þorvaldur, faðir Þorgeirs, föður Hallgeirs, föður Hrapps á Fossvelli.

Hákon hét maður, er nam Jökulsdal allan fyrir vestan Jökulsá og fyrir ofan Teigará og bjó á Hákonarstöðum. Hans dóttir var Þorbjörg, er áttu synir Brynjólfs hins gamla, Gunnbjörn og Hallgrímur.

Teigur lá ónuminn millum Þorsteins torfa og Hákonar; þann lögðu þeir til hofs, og heitir sá nú Hofsteigur.

Skjöldólfur Vémundarson, bróðir Berðlu-Kára, nam Jökulsdal fyrir austan Jökulsá upp frá Knefilsdalsá og bjó á Skjöldólfsstöðum. Hans börn voru þau Þorsteinn, er átti Fastnýju Brynjólfsdóttur, og Sigríður, móðir Bersa Össurarsonar.

Þórður hét maður, son Þórólfs hálma, bróðir Helga bunhauss; hann nam Tungulönd öll á milli Lagarfljóts og Jökulsár fyrir utan Rangá. Hans son var Þórólfur hálmi, er átti Guðríði Brynjólfsdóttur. Þeirra son var Þórður þvari, faðir Þórodds, föður Brands, föður Steinunnar, móður Rannveigar, móður Sæhildar, er Gissur átti.

Össur slagakollur nam land milli Ormsár og Rangár; hann átti Guðnýju Brynjólfsdóttur; þeirra son var Ásmundur, faðir Marðar.

Ketill og Graut-Atli, synir Þóris þiðranda, fóru úr Veradal til Íslands og námu land í Fljótsdal, fyrr en Brynjólfur kom út. Ketill nam Lagarfljótsstrandir báðar fyrir vestan Fljót á milli Hengifossár og Ormsár.

Ketill fór utan og var með Véþormi syni Vémundar hins gamla; þá keypti hann að Véþormi Arneiði, dóttur Ásbjarnar jarls skerjablesa, er Hólmfastur son Véþorms hafði hertekið, þá er þeir Grímur systurson Véþorms drápu Ásbjörn jarl. Ketill keypti Arneiði dóttur Ásbjarnar tveim hlutum dýrra en Véþormur mat hana í fyrstu.

En er kaupið var orðið, þá gerði Ketill brúðkaup til Arneiðar. Eftir það fann hún grafsilfur mikið undir viðarrótum. Þá bauð Ketill að flytja hana til frænda sinna, en hún kaus þá honum að fylgja.

Þau fóru út og bjuggu á Arneiðarstöðum; þeirra son var Þiðrandi faðir Ketils í Njarðvík.


77. kafli

Graut-Atli nam hina eystri strönd Lagarfljóts allt á milli Giljár og Vallaness fyrir vestan Öxnalæk. Hans synir voru þeir Þorbjörn og Þórir, er átti Ásvöru Brynjólfsdóttur.

Þorgeir Vestarsson hét maður göfugur; hann átti þrjá sonu; var einn Brynjólfur hinn gamli, annar Ævar hinn gamli, þriðji Herjólfur. Þeir fóru allir til Íslands á sínu skipi hver þeirra.

Brynjólfur kom skipi sínu í Eskifjörð og nam land fyrir ofan fjall, Fljótsdal allan fyrir ofan Hengifossá fyrir vestan, en fyrir ofan Gilsá fyrir austan, Skriðudal allan, og svo Völluna út til Eyvindarár og tók mikið af landnámi Una Garðarssonar og byggði þar frændum sínum og mágum. Hann átti þá tíu börn, en síðan fékk hann Helgu, er átt hafði Herjólfur bróðir hans, og áttu þau þrjú börn. Þeirra son var Össur, faðir Bersa, föður Hólmsteins, föður Órækju, föður Hólmsteins, föður Helgu, móður Hólmsteins, föður Hallgerðar, móður Þorbjargar, er átti Loftur byskupsson.

Ævar hinn gamli bróðir Brynjólfs kom út í Reyðarfirði og fór upp um fjall; honum gaf Brynjólfur Skriðudal allan fyrir ofan Gilsá; hann bjó á Arnaldsstöðum; hann átti tvo sonu og dætur þrjár.

Ásröður hét maður, er fékk Ásvarar Herjólfsdóttur, bróðurdóttur Brynjólfs og stjúpdóttur; henni fylgdu heiman öll lönd milli Gilsár og Eyvindarár; þau bjuggu á Ketilsstöðum. Þeirra son var Þorvaldur holbarki, faðir Þorbergs, föður Hafljóts, föður Þórhadds skálar. Dóttir Holbarka var Þórunn, er átti Þorbjörn Graut-Atlason, önnur Ástríður, móðir Ásbjarnar loðinhöfða, föður Þórarins í Seyðarfirði, föður Ásbjarnar, föður Kolskeggs hins fróða og Ingileifar, móður Halls, föður Finns lögsögumanns.

Hrafnkell hét maður Hrafnsson; hann kom út síð landnámatíðar. Hann var hinn fyrsta vetur í Breiðdal. En um vorið fór hann upp um fjall.

Hann áði í Skriðudal og sofnaði; þá dreymdi hann, að maður kom að honum og bað hann upp standa og fara braut sem skjótast; hann vaknaði og fór brutt. En er hann var skammt kominn, þá hljóp ofan fjallið allt, og varð undir göltur og griðungur, er hann átti.

Síðan nam Hrafnkell Hrafnkelsdal og bjó á Steinröðarstöðum. Hans son var Ásbjörn, faðir Helga, og Þórir, faðir Hrafnkels goða, föður Sveinbjarnar.


78. kafli

Uni son Garðars, er fyrst fann Ísland, fór til Íslands með ráði Haralds konungs hárfagra og ætlaði að leggja undir sig landið, en síðan hafði konungur heitið honum að gera hann jarl sinn.

Uni tók land, þar sem nú heitir Unaós, og húsaði þar; hann nam sér land til eignar fyrir sunnan Lagarfljót, allt hérað til Unalækjar.

En er landsmenn vissu ætlan hans, tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir, og mátti hann eigi þar haldast. Uni fór í Álftafjörð hinn syðra; hann náði þar eigi að staðfestast.

Þá fór hann austan með tólfta mann og kom að vetri til Leiðólfs kappa í Skógahverfi; hann tók við þeim. Uni þýddist Þórunni dóttur Leiðólfs, og var hún með barni um vorið. Þá vildi Uni hlaupast á braut með sína menn, en Leiðólfur reið eftir honum, og fundust þeir hjá Flangastöðum og börðust þar, því að Uni vildi eigi aftur fara með Leiðólfi; þar féllu nokkurir menn af Una, en hann fór aftur nauðigur, því að Leiðólfur vildi, að hann fengi konunnar og staðfestist og tæki arf eftir hann.

Nokkuru síðar hljóp Uni á braut, þá er Leiðólfur var eigi heima, en Leiðólfur reið eftir honum, þá er hann vissi, og fundust þeir hjá Kálfagröfum; var hann þá svo reiður, að hann drap Una og förunauta hans alla.

Sonur Una og Þórunnar var Hróar Tungugoði; hann tók arf Leiðólfs allan og var hið mesta afarmenni. Hann átti dóttur Hámundar, systur Gunnars frá Hlíðarenda; þeirra son var Hámundur hinn halti, er var hinn mesti vígamaður.

Tjörvi hinn háðsami og Gunnar voru (systur)synir Hróars. Tjörvi bað Ástríðar manvitsbrekku Móðólfsdóttur, en bræður hennar, Ketill og Hrólfur, synjuðu honum konunnar, en þeir gáfu hana Þóri Ketilssyni. Þá dró Tjörvi líkneski þeirra á kamarsvegg, og hvert kveld, er þeir Hróar gengu til kamars, þá hrækti hann í andlit líkneski Þóris, en kyssti hennar líkneski, áður Hróar skóf af. Eftir það skar Tjörvi þau á knífsskefti sínu og kvað þetta:

Vér höfum þar sem Þóri,
þat vas sett við glettu,
auðar unga brúði
áðr á vegg of fáða.
Nú hefk, rastkarns, ristna
réðk mart við Syn bjarta,
hauka, skofts, á hefti
Hlín ölbækis mínu.

Hér af gerðust víg þeirra Hróars og systursona hans.

Þorkell fullspakur hét maður, er nam Njarðvík alla og bjó þar. Hans dóttir var Þjóðhildur, er átti Ævar hinn gamli, og var þeirra dóttir Yngvildur, móðir Ketils í Njarðvík Þiðrandasonar.

Veturliði hét maður, son Arnbjarnar Óláfssonar langháls, bróðir þeirra Lýtings, Þorsteins torfa og Þorbjarnar í Arnarholti. Óláfur langháls var son Bjarnar reyðarsíðu. Veturliði nam Borgarfjörð og bjó þar.

Þórir lína hét maður, er nam Breiðavík og bjó þar; hans synir voru þeir Sveinungur og Gunnsteinn.

Nú hefir Kolskeggur fyrir sagt héðan frá um landnám.


79 kafli

Þorsteinn kleggi nam fyrstur Húsavík og bjó þar; hans son var Án, er Húsvíkingar eru frá komnir.

Loðmundur hinn gamli hét maður, en annar Bjólfur, fóstbróðir hans; þeir fóru til Íslands af Vörs af Þulunesi. Loðmundur var rammaukinn mjög og fjölkunnigur. Hann skaut fyrir borð öndvegissúlum sínum í hafi og kvaðst þar byggja skyldu, sem þær ræki á land. En þeir fóstbræður tóku Austfjörðu, og nam (Loðmundur) Loðmundarfjörð og bjó þar þenna vetur.

Þá frá hann til öndvegissúlna sinna fyrir sunnan land. Eftir það bar hann á skip öll föng sín, en er segl var dregið, lagðist hann niður og bað öngvan mann vera svo djarfan, að hann nefndi. En er hann hafði skamma hríð legið, varð gnýr mikill; þá sá menn, að skriða mikil hljóp á bæ þann, er Loðmundur hafði búið á.

Eftir það settist hann upp og tók til orða: "Það er álag mitt, að það skip skal aldri heilt af hafi koma, er hér siglir út."

Hann hélt síðan suður fyrir Horn og vestur með landi allt fyrir Hjörleifshöfða og lendi nokkuru vestar; hann nam þar land, sem súlurnar höfðu komið, og á milli Hafursár og Fúlalækjar; það heitir nú Jökulsá á Sólheimasandi. Hann bjó í Loðmundarhvammi og kallaði þar Sólheima.

Þá er Loðmundur var gamall, bjó Þrasi í Skógum; hann var og fjölkunnigur.

Það var eitt sinn, að Þrasi sá um morgun vatnahlaup mikið; hann veitti vatnið með fjölkynngi austur fyrir Sólheima, en þræll Loðmundar sá, og kvað (falla) sjó norðan um landið að þeim. Loðmundur var þá blindur. Hann bað þrælinn færa sér í dælikeri það, er hann kallaði sjó.

Og er hann kom aftur, sagði Loðmundur: "Ekki þyki mér þetta sjór." Síðan bað hann þrælinn fylgja sér til vatnsins, "og stikk stafsbroddi mínum í vatnið."

Hringur var í stafnum, og hélt Loðmundur tveim höndum um stafinn, en beit í hringinn. Þá tóku vötnin að falla vestur aftur fyrir Skóga.

Síðan veitti hvor þeirra vötnin frá sér, þar til er þeir fundust við gljúfur nokkur. Þá sættust þeir á það, að áin skyldi þar falla, sem skemmst væri til sjóvar. Sú er nú kölluð Jökulsá og skilur landsfjórðunga.


80. kafli

Bjólfur fóstbróðir Loðmundar nam Seyðisfjörð allan og bjó þar alla ævi; hann gaf Helgu dóttur sína Áni hinum ramma, og fylgdi henni heiman öll in nyrðri strönd Seyðisfjarðar til Vestdalsár. Ísólfur hét sonur Bjólfs, er þar bjó síðan og Seyðfirðingar eru frá komnir.

Eyvindur hét maður, er út kom með Brynjólfi og færði síðan byggð sína í Mjóvafjörð og bjó þar. Hans son var Hrafn, er seldi Mjóvafjarðarland Þorkatli klöku, er (þar) bjó síðan; frá honum er Klökuætt komin.

Egill hinn rauði hét maður, er nam Norðurfjörð og bjó á Nesi út; hans son var Óláfur, er Nesmenn eru frá komnir.

Freysteinn hinn fagri hét maður; hann nam Sandvík og bjó á Barðsnesi, Viðfjörð og Hellisfjörð. Frá honum eru Sandvíkingar og Viðfirðingar og Hellisfirðingar komnir.

Þórir hinn hávi og Krumur, þeir fóru af Vörs til Íslands, og þá er þeir tóku land, nam Þórir Krossavík á milli Gerpis og Reyðarfjarðar; þaðan eru Krossvíkingar komnir.

En Krumur nam land á Hafranesi og til Þernuness og allt hið ytra, bæði Skrúðey og aðrar úteyjar og þrjú lönd öðrum megin gegnt Þernunesi; þaðan eru Krymlingar komnir.

Ævar var fyrst í Reyðarfirði, áður hann fór upp um fjall, en Brynjólfur í Eskifirði, áður hann fór upp að byggja Fljótsdal, sem áður var ritað.

Vémundur hét maður, er nam Fáskrúðsfjörð allan og bjó þar alla ævi; hans son var Ölmóður, er Ölmæðlingar eru frá komnir.

Þórhaddur hinn gamli var hofgoði í Þrándheimi á Mæri(na). Hann fýstist til Íslands og tók áður ofan hofið og hafði með sér hofsmoldina og súlurnar; en hann kom í Stöðvarfjörð og lagði Mærina-helgi á allan fjörðinn og lét öngu tortíma þar nema kvikfé heimilu. Hann bjó þar alla ævi, og eru frá honum Stöðfirðingar komnir.


81. kafli

Hjalti hét maður, er nam Kleifarlönd og allan Breiðdal þar upp frá; hans son var Kolgrímur, er margt er manna frá komið.

Herjólfur hét maður, er nam land allt út til Hvalsnesskriðna; hans son var Vopni, er Væpnlingar eru frá komnir.

Herjólfur bróðir Brynjólfs nam Heydalalönd fyrir neðan Tinnudalsá og út til Ormsár; hans son var Össur, er Breiðdælir eru frá komnir.

Skjöldólfur hét maður, er nam Streiti allt fyrir utan Gnúp og inn öðrum megin til Óss og til Skjöldólfsness hjá Fagradalsá í Breiðdali. Hans son var Háleygur, er þar bjó síðan; frá honum er Háleygjaætt komin.

Þjóðrekur hét maður; hann nam fyrst Breiðdal allan, en hann stökk braut þaðan fyrir Brynjólfi og ofan í Berufjörð og nam alla hina nyrðri strönd Berufjarðar og fyrir sunnan um Búlandsnes og inn til Rauðaskriðna öðrum megin og bjó þrjá vetur þar, er nú heitir Skáli. Síðan keypti Björn hinn hávi jarðir að honum, og eru frá honum Berufirðingar komnir.

Björn sviðinhorni hét maður, er nam Álftafjörð hinn nyrðra inn frá Rauðaskriðum og Sviðinhornadal.

Þorsteinn trumbubein hét frændi Böðvars hins hvíta og fór með honum til Íslands; hann nam land fyrir utan Leiruvog til Hvalsnesskriðna. Hans son var Kollur hinn grái, faðir Þorsteins, föður Þorgríms í Borgarhöfn, föður Steinunnar, er átti Gissur byskup.

Böðvar hinn hvíti var son Þorleifs miðlungs, Böðvarssonar snæþrimu, Þorleifssonar hvalaskúfs, Ánssonar, Arnarsonar hyrnu konungs, Þórissonar konungs, Svína-Böðvarssonar, Kaunssonar konungs, Sölgasonar konungs, Hrólfssonar úr Bergi, og Brand-Önundur frændi hans fóru af Vörs til Íslands og komu í Álftafjörð hinn syðra. Böðvar nam land inn frá Leiruvogi, dali þá alla, er þar liggja, og út öðrum megin til Múla og bjó að Hofi; hann reisti þar hof mikið.

Sonur Böðvars var Þorsteinn, er átti Þórdísi dóttur Össurar keiliselgs Hrollaugssonar. Þeirra son var Síðu-Hallur; hann átti Jóreiði Þiðrandadóttur, og er þaðan mikil ætt komin. Son þeirra var Þorsteinn, faðir Ámunda, föður Guðrúnar, móður Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona.

Brand-Önundur nam land fyrir norðan Múla, Kambsdal og Melrakkanes og inn til Hamarsár, og er margt manna frá honum komið.

Þórður skeggi son Hrapps Bjarnarsonar bunu, hann átti Vilborgu Ósvaldsdóttur og Úlfrúnar Játmundardóttur. Þórður fór til Íslands og nam land í Lóni fyrir norðan Jökulsá milli og Lónsheiðar og bjó í Bæ tíu vetur eða lengur; þá frá hann til öndvegissúlna sinna fyrir neðan heiði í Leiruvogi; þá réðst hann vestur þannig og bjó á Skeggjastöðum, sem fyrr er ritað. Hann seldi þá Lónlönd Úlfljóti, er lög flutti út hingað. Dóttir Þórðar var Helga, er Ketilbjörn hinn gamli átti að Mosfelli.


82. kafli

Þorsteinn leggur son Bjarnar blátannar fór úr Suðureyjum til Íslands og nam lönd öll fyrir norðan Horn til Jökulsár í Lóni og bjó í Böðvarsholti þrjá vetur, en seldi síðan löndin og fór aftur í Suðureyjar.

Rögnvaldur jarl á Mæri, son Eysteins glumru Ívarssonar Upplendingajarls, Hálfdanarsonar hins gamla; Rögnvaldur átti Ragnhildi, dóttur Hrólfs nefju. Þeirra son var Ívar, er féll í Suðureyjum með Haraldi konungi hinum hárfagra. Annar var Göngu-Hrólfur, er vann Norðmandi; frá honum eru Rúðujarlar komnir og Englakonungar. Þriðji var Þórir jarl þegjandi, er átti Álöfu árbót, dóttur Haralds konungs hárfagra, og var þeirra dóttir Bergljót, móðir Hákonar jarls hins ríka.

Rögnvaldur jarl átti friðlusonu þrjá; hét einn Hrollaugur, annar Einar, þriðji Hallaður; sá veltist úr jarlsdómi í Orkneyjum.

Og er Rögnvaldur jarl frá það, þá kallaði hann saman sonu sína og spurði, hver þeirra þá vildi til eyjanna. En Þórir bað hann sjá fyrir um sína för. Jarlinn kvað honum vel fara, en kvað hann þar skyldu ríki taka eftir sinn dag.

Þá gekk Hrólfur fram og bauð sig til farar. Rögnvaldur kvað honum vel hent fyrir sakir afls og hreysti, en kveðst ætla, að meiri ofsi væri í skapi hans en hann mætti þegar að löndum setjast.

Þá gekk Hrollaugur fram og spurði, ef hann vildi, að hann færi. Rögnvaldur kvað hann ekki mundu jarl verða. "Hefir þú það skap, er engi styrjöld fylgir; munu vegir þinir liggja til Íslands; muntu þar göfugur þykja á því landi og verða kynsæll, en engi eru hér forlög þín."

Þá gekk Einar fram og mælti: "Láttu mig fara til Orkneyja; eg mun þér því heita, er þér mun best þykja, að eg mun aldri aftur koma þér í augsýn."

Jarlinn svarar: "Vel þyki mér, að þú farir brutt, en lítils er mér von að þér, því að móðurætt þín er öll þrælborin."

Eftir það fór Einar vestur og lagði undir sig eyjarnar, sem segir í sögu hans.

Hrollaugur fór þá til Haralds konungs og var með honum um hríð, því að þeir feðgar komu eigi skapi saman eftir þetta.


83. kafli

Hrollaugur fór til Íslands með ráði Haralds konungs og hafði með sér konu sína og sonu. Hann kom austur að Horni og skaut þar fyrir borð öndvegissúlum sínum, og bar þær á land í Hornafirði, en hann rak undan og vestur fyrir land; fékk hann þá útivist harða og vatnfátt. Þeir tóku land vestur í Leiruvogi á Nesjum; var hann þar hinn fyrsta vetur. Þá frá hann til öndugissúlna sinna og fór austur þann veg; var hann annan vetur undir Ingólfsfelli.

Síðan fór hann austur í Hornafjörð og nam land austan frá Horni til Kvíár og bjó fyrst undir Skarðsbrekku í Hornafirði, en síðan á Breiðabólstað í Fellshverfi. Þá hafði (hann) lógað þeim löndum, er norður voru frá Borgarhöfn, en hann átti til dauðadags þau lönd, er suður voru frá Heggsgerðismúla.

Hrollaugur var höfðingi mikill og hélt vingan við Harald konung, en fór aldri utan. Haraldur konungur sendi Hrollaugi sverð og ölhorn og gullhring, þann er vó fimm aura; sverð það átti síðar Kolur, son Síðu-Halls, en Kolskeggur hinn fróði hafði séð hornið.

Hrollaugur var faðir Össurar keiliselgs, er átti Gró dóttur Þórðar illuga. Dóttir þeirra var Þórdís móðir Halls á Síðu. Annar son Hrollaugs var Hróaldur, faðir Óttars hvalróar, föður Guðlaugar, móður Þorgerðar, móður Járngerðar, móður Valgerðar, móður Böðvars, föður Guðnýjar, móður Sturlusona. Önundur var hinn þriðji son Hrollaugs.

Hallur á Síðu átti Jóreiði Þiðrandadóttur. Þeirra son var Þorsteinn, faðir Magnúss, föður Einars, föður Magnúss byskups. Annar son Halls var Egill, faðir Þorgerðar, móður Jóns byskups hins helga. Þorvarður Hallsson var faðir Þórdísar, móður Jórunnar, móður Halls prests, föður Gissurar, föður Magnúss byskups. Yngvildur Hallsdóttir var móðir Þóreyjar, móður Sæmundar prests hins fróða. Þorsteinn Hallsson var faðir Gyðríðar, móður Jóreiðar, móður Ara prests hins fróða. Þorgerður Hallsdóttir var móðir Yngvildar, móður Ljóts, föður Járngerðar, móður Valgerðar, móður Böðvars, föður Guðnýjar, móður Sturlusona.


84. kafli

Ketill hét maður, er Hrollaugur seldi Hornafjarðarströnd (utan frá Horni) og inn til Hamra; hann bjó að Meðalfelli; frá honum eru Hornfirðingar komnir.

Auðun hinn rauði keypti land að Hrollaugi utan frá Hömrum og út öðrum megin til Viðborðs; hann bjó í Hofsfelli og reisti þar hof mikið; frá honum eru Hofsfellingar komnir.

Þorsteinn hinn skjálgi keypti land að Hrollaugi allt frá Viðborði suður um Mýrar og til Heinabergsár. Hans son var Vestmar, er Mýramenn eru frá komnir.

Úlfur hinn vörski keypti land að Hrollaugi suður frá Heinabergsá til Heggsgerðismúla og bjó að Skálafelli.

Þórður illugi son Eyvindar eikikróks braut skip sitt á Breiðársandi; honum gaf Hrollaugur land milli Jökulsár og Kvíár, og bjó hann undir Felli við Breiðá. Hans synir voru þeir Örn hinn sterki, er deildi við Þórdísi jarlsdóttur, systur Hrollaugs, og Eyvindur smiður. Dætur hans voru þær Gróa, er Össur átti, og Þórdís, móðir Þorbjargar, móður Þórdísar, móður Þórðar illuga, er vó Víga-Skútu.

Ásbjörn hét maður, son Heyjangurs-Bjarnar hersis úr Sogni; hann var son Helga Helgasonar, Bjarnarsonar bunu. Ásbjörn fór til Íslands og dó í hafi, en Þorgerður, kona hans, og synir þeirra komu út og námu allt Ingólfshöfðahverfi á milli Kvíár og Jökulsár, og bjó hún að Sandfelli og Guðlaugur, son þeirra Ásbjarnar, eftir hana; frá honum eru Sandfellingar komnir. Annar son þeirra var Þorgils, er Hnappfellingar eru frá komnir. Þriðji var Össur, faðir Þórðar Freysgoða, er margt manna er frá komið.

Helgi hét maður, annar son Heyjangurs-Bjarnar; hann fór til Íslands og bjó að Rauðalæk. Hans son var Hildir, er Rauðlækingar eru frá komnir.

Bárður var hinn þriðji son Heyjangurs-Bjarnar, er fyrr er getið; hann nam fyrst Bárðardal norður, en síðan fór hann suður um Vonarskarð Bárðargötu og nam Fljótshverfi allt og bjó að Gnúpum; þá var hann kallaður Gnúpa-Bárður. Hans synir voru þeir Þorsteinn og Sigmundur, þriðji Egill, fjórði Gísli, fimmti Nefsteinn, sétti Þorbjörn krumur, sjöundi Hjör, átti Þorgrímur, níundi Björn, faðir Geira að Lundum, föður Þorkels læknis, föður Geira, föður Þorkels kanoka, vinar Þorláks byskups hins helga; hann setti regúlastað í Þykkvabæ.


85. kafli

Eyvindur karpi nam land milli Almannafljóts og Geirlandsár og bjó að Fossi fyrir vestan Móðólfsgnúp. Hans synir voru þeir Móðólfur, faðir þeirra Hrólfs og Ketils og Ástríðar manvitsbrekku; annar var Önundur, faðir Þraslaugar, móður Tyrfings og Halldórs, föður Tyrfings, föður Teits.

Maður hét Ketill hinn fíflski, son Jórunnar manvitsbrekku, dóttur Ketils flatnefs; hann fór af Suðureyjum til Íslands; (hann) var kristinn; hann nam land milli Geirlandsár og Fjarðarár fyrir ofan Nýkoma.

Ketill bjó í Kirkjubæ; þar höfðu áður setið papar, og eigi máttu þar heiðnir menn búa.

Ketill var faðir Ásbjarnar, föður Þorsteins, föður Surts, föður Sighvats lögsögumanns, föður Kolbeins. Hildur hét dóttir Ásbjarnar, móðir Þóris, föður Hildar, er Skarpheðinn átti. Þorbjörg hét dóttir Ketils hins fíflska; hana átti Voli son Loðmundar hins gamla.

Böðmóður hét maður, er land nam milli Drífandi og Fjarðarár og upp til Böðmóðshorns; hann bjó í Böðmóðstungu. Hans son var Óleifur, er Óleifsborg er við kennd; hann bjó í Holti. Hans son var Vestar, faðir Helga, föður Gró, er Glæðir átti.

Eysteinn hinn digri fór af Sunnmæri til Íslands; hann nam land fyrir austan Geirlandsá til móts við Ketil hinn fíflska og bjó í Geirlandi. Hans son var Þorsteinn frá Keldugnúpi.

Eysteinn son Hrana Hildissonar parraks fór úr Noregi til Íslands; hann kaupir lönd að Eysteini digra, þau er hann hafði numið, og kvað vera meðallönd; hann bjó að Skarði. Hans börn voru þau Hildir og Þorljót, er átti Þorsteinn að Keldugnúpi.

Hildir vildi færa bú sitt í Kirkjubæ eftir Ketil og hugði, að þar mundi heiðinn maður mega búa. En er hann kom nær að túngarði, varð hann bráðdauður; þar liggur hann í Hildishaugi.

Vilbaldur hét maður, bróðir Áskels hnokkans; hann fór af Írlandi til Íslands og hafði skip það, er hann kallaði Kúða, og kom í Kúðafljótsós; hann nam Tunguland á milli Skaftár og Hólmsár og bjó á Búlandi. Hans börn voru þau Bjólan, faðir Þorsteins, og Ölvir muður og Bjollok, er átti Áslákur aurgoði.

Leiðólfur kappi hét maður; hann nam land fyrir austan Skaftá til Drífandi og bjó að Á fyrir austan Skaftá út frá Skál, en annað bú átti hann á Leiðólfsstöðum undir Leiðólfsfelli, og var þar þá margt byggða. Leiðólfur var faðir Þórunnar, móður Hróars Tungugoða. Hróar átti Arngunni Hámundardóttur, systur Gunnars frá Hlíðarenda. Þeirra börn voru þau Hámundur halti og Ormhildur. Vébrandur hét son Hróars og ambáttar. Hróar tók Þórunni brún, dóttur Þorgils úr Hvammi í Mýdal; Þorfinnur hét son þeirra.

Hróar bjó fyrst í Ásum; síðan tók hann Lómagnúpslönd af Eysteini, syni Þorsteins tittlings og Auðar Eyvindardóttur, systur þeirra Móðólfs og Branda. Þraslaug var dóttir Þorsteins tittlings, er átti Þórður Freysgoði.

Önundur töskubak, frændi Þorsteinsbarna, skoraði Hróari á hólm á Skaftafellsþingi og féll að fótum Hróari. Þorsteinn Upplendingur tók Þórunni brún og flutti utan. Hróar fór og utan. Þá drap hann Þröst berserk á hólmi, er nauðga vildi eiga Sigríði, konu hans, en þeir Þorsteinn sættust.

Móðólfssynir voru að vígi Hróars og Þórir mágur þeirra, Brandi frá Gnúpum og Steinólfur búi hans. Hámundur hefndi þeirra Hróars.


86. kafli

Ísólfur hét maður; hann kom út síð landnámatíðar og skoraði á Vilbald til landa eða hólmgöngu, en Vilbaldur vildi eigi berjast og fór brutt af Búlandi; hann átti þá land milli Hólmsár og Kúðafljóts. En Ísólfur fór á Búland og átti land milli Kúðafljóts og Skaftár. Hans son var Hrani á Hranastöðum, en dóttir Björg, er átti Önundur son Eyvindar karpa. Þraslaug var dóttir þeirra, er átti Þórarinn, son Ölvis í Höfða.

Hrafn hafnarlykill var víkingur mikill; hann fór til Íslands og nam land milli Hólmsár og Eyjarár og bjó í Dynskógum; hann vissi fyrir eldsuppkomu og færði bú sitt í Lágey. Hans son var Áslákur aurgoði, er Lágeyingar eru frá komnir.

Maður hét Hrólfur höggvandi; hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur; þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir. Vémundur kvað þetta, er hann var í smiðju:

Ek bar einn
af ellifu
bana orð.
Blástu meir!

Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á.

Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar.

En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.

Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðigur; síðan var hann Hafur-Björn kallaður. Það sá ófreskir menn, að landvættir allar fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.

Hafur-Björn átti (Jórunni, stjúpdóttur Gnúps bróður síns). Þeirra son var Svertingur, er átti Húngerði, dóttur Þórodds Tungu-Oddssonar og Jófríðar Gunnarsdóttur, þeirra dóttir Þorbjörg móðir Sveinbjarnar, föður Bótólfs, föður Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona. Gnúpur Molda-Gnúpsson átti Arnbjörgu Ráðormsdóttur, sem fyrr er ritað. Iðunn var dóttir Molda-Gnúps, er átti Þjóstar á Álftanesi. Þormóður var son þeirra.


87. kafli

Eysteinn hét maður, son Þorsteins drangakarls; hann fór til Íslands af Hálogalandi og braut skip sitt, en meiddist sjálfur í viðum. Hann byggði Fagradal, en kerlingu eina rak af skipinu í Kerlingarfjörð; þar er nú Höfðársandur.

Ölvir son Eysteins nam land fyrir austan Grímsá; þar hafði engi maður þorað að nema fyrir landvættum, síðan Hjörleifur var drepinn; Ölvir bjó í Höfða. Hans son var Þórarinn í Höfða, bróðir sammæðri Halldórs Örnólfssonar, er Mörður órækja vó undir Hömrum, og Arnórs, er þeir Flosi og Kolbeinn, synir Þórðar Freysgoða, vógu á Skaftafellsþingi.

Sigmundur kleykir son Önundar bílds nam land milli Grímsár og Kerlingarár, er þá féll fyrir vestan Höfða.

Frá Sigmundi eru þrír byskupar komnir, Þorlákur og Páll og Brandur.

Björn hét maður, auðigur og ofláti mikill; hann fór til Íslands af Valdresi og nam land milli Kerlingarár og Hafursár og bjó að Reyni. Hann átti illt við Loðmund hinn gamla.

Frá Reyni-Birni er hinn helgi Þorlákur byskup kominn.

Loðmundur hinn gamli nam land milli Hafursár og Fúlalækjar, sem fyrr er ritað. Það er þá hét Fúlalækur er nú kölluð Jökulsá á Sólheimasandi, er skilur landsfjórðunga.

Loðmundur hinn gamli á Sólheimum átti sex sonu eða fleiri. Voli hét son hans, faðir Sigmundar, er átti Oddlaugu, dóttur Eyvindar hins eyverska. Sumarliði hét annar son Loðmundar, faðir Þorsteins holmunns í Mörk, föður Þóru, móður Steins, föður (Þóru, móður) Surts hins hvíta Skaftastjúps; hann var Sumarliðason. Skafti lög(sögu)maður átti Þóru síðar en Sumarliði; það segir í Ölfusingakyni. Vémundur hét hinn þriðji son Loðmundar, faðir Þorkötlu, er átti Þorsteinn vífill. Þeirra dóttir var Arnkatla, móðir Hróa og Þórdísar, er átti Steinn Brandsson. Þeirra dóttir var Þóra, er átti... Ari hét hinn fjórði, Hróaldur hét hinn fimmti, Ófeigur hét hinn sétti son Loðmundar, laungetinn; hann átti Þraslaugu, dóttur Eyvindar eyverska, systur Oddlaugar; frá þeim öllum er margt manna komið.

Nú eru rituð landnám í Austfirðingafjórðungi, eftir því sem vitrir menn og fróðir hafa sagt. Hefir í þeim fjórðungi margt stórmenni verið síðan, og þar hafa margar stórar sögur görst.

En þessir hafa þar stærstir landnámsmenn verið: Þorsteinn hvíti, Brynjólfur hinn gamli, Graut-Atli og Ketill Þiðrandasynir, Hrafnkell goði, Böðvar hinn hvíti, Hrollaugur son Rögnvalds jarls, Össur son Ásbjarnar Heyjangurs-Bjarnarsonar, er Freysgyðlingar eru frá komnir, Ketill hinn fíflski, Leiðólfur kappi.FIMMTI HLUTI


Hér hefjast upp landnám í Sunnlendingafjórðungi, er með mestum blóma er alls Íslands fyrir landskosta sakir og höfðingja þeirra, er þar hafa byggt, bæði lærðir og ólærðir.


88. kafli

Þrasi hét maður, son Þórólfs hornabrjóts; hann fór af Hörðalandi til Íslands og nam land milli Kaldaklofsár og Jökulsár; hann bjó í Skógum hinum eystrum. Hann var rammaukinn mjög og átti deilur við Loðmund hinn gamla, sem áður er ritað. Sonur Þrasa var Geirmundur, faðir Þorbjarnar, föður Brands í Skógum.

Hrafn hinn heimski hét maður, son Valgarðs Vémundarsonar orðlokars, Þórólfssonar voganefs, Hrærekssonar slöngvandbauga, Haraldssonar hilditannar Danakonungs. Hann fór úr Þrándheimi til Íslands og nam land milli Kaldaklofsár og Lambafellsár; hann bjó að Rauðafelli hinu eystra og var hið mesta göfugmenni. Hans börn voru þau Jörundur goði og Helgi bláfauskur og Freygerður.


89. kafli

Ásgeir kneif hét maður, son Óleifs hvíta Skæringssonar Þórólfssonar; móðir hans var Þórhildur dóttir Þorsteins haugabrjóts. Ásgeir fór til Íslands og nam land milli Lambafellsár og Seljalandsár og bjó þar, er nú heitir að Auðnum. Hans son var Jörundur og Þorkell, faðir Ögmundar, föður Jóns byskups hins helga. Dóttir Ásgeirs var Helga, móðir Þórunnar, móður Þorláks, föður Þórhalls, föður Þorláks byskups hins helga.

Þorgeir hinn hörski son Bárðar blönduhorns fór úr Viggju úr Þrándheimi til Íslands; hann keypti land að Ásgeiri kneif milli Lambafellsár og Írár og bjó í Holti. Fám vetrum síðar fékk hann Ásgerðar dóttur Asks hins ómálga, og voru þeirra synir Þorgrímur hinn mikli og Holta-Þórir, faðir Þorleifs kráks og Skorar-Geirs.

Ófeigur hét ágætur maður í Raumsdælafylki; hann átti Ásgerði dóttur Asks hins ómálga.

Ófeigur varð missáttur við Harald konung hárfagra og bjóst af því til Íslandsferðar. En er hann var búinn, sendi Haraldur konungur menn til hans, og var tekinn af lífi, en Ásgerður fór út með börn þeirra og með henni Þórólfur bróðir hennar laungetinn.

Ásgerður nam land milli Seljalandsmúla og Markarfljóts og Langanes allt upp til Jöldusteins og bjó norðan í Katanesi. Börn Ófeigs og Ásgerðar voru Þorgeir gollnir og Þorsteinn flöskuskegg, Þorbjörn kyrri og Álöf elliðaskjöldur, er átti Þorbergur kornamúli, þeirra börn Eysteinn og Hafþóra, er Eiður Skeggjason átti. Þorgerður var og Ófeigs dóttir, er átti Fiður Otkelsson.

Þórólfur bróðir Ásgerðar nam land að ráði hennar fyrir vestan Fljót milli Deildará tveggja og bjó í Þórólfsfelli. Hann fæddi þar Þorgeir gollni, son Ásgerðar, er þar bjó síðan. Hans son var Njáll, er inni var brenndur.

Ásbjörn Reyrketilsson og Steinfiður bróðir hans námu land fyrir ofan Krossá fyrir austan Fljót. Steinfiður bjó á Steinfinnsstöðum, og er ekki manna frá honum komið. Ásbjörn helgaði landnám sitt Þór og kallaði Þórsmörk. Hans son var Ketill hinn auðgi, er átti Þuríði Gollnisdóttur; þeirra börn voru þau Helgi og Ásgerður.


90. kafli

Ketill hængur hét ágætur maður í Naumdælafylki, son Þorkels Naumdælajarls og Hrafnhildar dóttur Ketils hængs úr Hrafnistu. Ketill bjó þá í Naumudal, er Haraldur konungur hárfagri sendi þá Hallvarð harðfara og Sigtrygg snarfara til Þórólfs Kveld-Úlfssonar, frænda Ketils. Þá dró Ketill lið saman og ætlaði að veita Þórólfi, en Haraldur konungur fór hið efra um Eldueið og fékk skip í Naumdælafylki og fór svo norður í Álöst á Sandnes og tók þar af lífi Þórólf Kveld-Úlfsson, fór þá norðan hið ytra og fann þá marga menn, er til liðs ætluðu við þá Þórólf; hnekkti konungur þeim þá. En litlu síðar fór Ketill hængur norður í Torgar og brenndi inni Hárek og Hrærek Hildiríðarsonu, er Þórólf höfðu rægðan dauðarógi; en eftir það réð Ketill til Íslandsferðar með Ingunni konu sína og sonu þeirra. Hann kom skipi sínu í Rangárós og var hinn fyrsta vetur að Hrafntóftum.

Ketill nam öll lönd á milli Þjórsár og Markarfljóts; þar námu síðan margir göfgir menn með ráði Hængs. Ketill eignaði sér einkum land milli Rangár og Hróarslækjar, allt fyrir neðan Reyðarvatn, og bjó að Hofi.

Þá er Ketill hafði fært flest föng sín til Hofs, varð Ingunn léttari og fæddi þar Hrafn, er fyrst sagði lög upp á Íslandi; því heitir þar að Hrafntóftum.

Hængur hafði (og) undir sig lönd öll fyrir austan Rangá hina eystri og Vatnsfell til lækjar þess, er fellur fyrir utan Breiðabólstað og fyrir ofan Þverá, allt nema Dufþaksholt og Mýrina; það gaf hann þeim manni, er Dufþakur hét; hann var hamrammur mjög.

Helgi hét annar son Hængs; hann átti Valdísi Jólgeirsdóttur. Þeirra dóttir var Helga, er átti Oddbjörn askasmiður; við hann er kennt Oddbjarnarleiði. Börn þeirra Oddbjarnar og Helgu voru þau Hróaldur, Kolbeinn, Kolfinna og Ásvör.

Stórólfur var hinn þriðji son Hængs. Hans börn voru þau Ormur hinn sterki og Otkell og Hrafnhildur, er átti Gunnar Baugsson; þeirra son var Hámundur faðir Gunnars að Hlíðarenda.

Vestar hét hinn fjórði son Hængs; hann átti Móeiði; þeirra dóttir var Ásný, er átti Ófeigur grettir. Þeirra börn voru þau Ásmundur skegglaus, Ásbjörn, Aldís móðir Valla-Brands og Ásvör móðir Helga hins svarta; Æsa hét ein.

Herjólfur hét hinn fimmti son Hængs, faðir Sumarliða, föður Veturliða skálds; þeir bjuggu í Sumarliðabæ; þar heitir nú undir Brekkum. Veturliða vógu þeir Þangbrandur prestur og Guðleifur Arason af Reykjahólum um níð.

Sæbjörn goði var son Hrafns Hængssonar, er átti Unni dóttur Sigmundar; þeirra son var Arngeir.

Sighvatur rauði hét maður göfugur á Hálogalandi; hann átti Rannveigu, dóttur Eyvindar lamba og Sigríðar, er átt hafði Þórólfur Kveld-Úlfsson; Rannveig var systir Finns hins skjálga.

Sighvatur fór til Íslands að fýsn sinni og nam land að ráði Hængs í hans landnámi fyrir vestan Markarfljót, Einhyrningsmörk fyrir ofan Deildará, og bjó í Bólstað, hans son Sigmundur, faðir Marðar gígju, og Sigfús í Hlíð og Lambi á Lambastöðum og Rannveig, er átti Hámundur Gunnarsson, og Þorgerður, er átti Önundur bíldur í Flóa. Annar son Sighvats var Bárekur, faðir Þórðar, föður Steina.

Jörundur goði, son Hrafns hins heimska, byggði fyrir vestan Fljót, þar er nú heitir á Svertingsstöðum; hann reisti þar hof mikið.

Bjór lá ónuminn fyrir austan Fljót milli Krossár og Jöldusteins; það land fór Jörundur eldi og lagði til hofs.

Jörundur átti... Þeirra son var Valgarður goði, faðir Marðar, og Úlfur aurgoði, er Oddaverjar eru frá komnir og Sturlungar. Margt stórmenni er frá Jörundi komið á Íslandi.

Þorkell bundinfóti nam land að ráði Hængs umhverfis Þríhyrning og bjó þar undir fjallinu; hann var hamrammur mjög. Börn Þorkels voru þau Börkur blátannarskegg, faðir Starkaðar undir Þríhyrningi, og Þórný, er átti Ormur hinn sterki, og Dagrún, móðir Bersa.


91. kafli

Baugur hét maður, fóstbróðir Hængs; hann fór til Íslands og var hinn fyrsta vetur á Baugsstöðum, en annan með Hængi. Hann nam Fljótshlíð alla að ráði Hængs ofan um Breiðabólstað til móts við Hæng og bjó að Hlíðarenda; hans son var Gunnar í Gunnarsholti og Eyvindur að Eyvindarmúla, þriðji Steinn hinn snjalli og (Hildur dóttir), er átti Örn í Vælugerði.

Þeir Steinn hinn snjalli og Sigmundur, son Sighvats rauða, áttu för utan af Eyrum og komu til Sandhólaferju allir senn, Sigmundur og förunautar Steins, og vildu hvorir fyrr fara yfir ána. Þeir Sigmundur stökuðu húskörlum Steins og ráku þá frá skipinu; þá kom Steinn að og hjó þegar Sigmund banahögg. Um víg þetta urðu Baugssynir allir sekir úr Hlíðinni; fór Gunnar í Gunnarsholt, en Eyvindur undir Fjöll austur í Eyvindarhóla, en Snjallsteinn í Snjallsteinshöfða.

Það líkaði illa (Þorgerði) dóttur Sigmundar, er föðurbani hennar fór út þannig, og eggjaði Önund bónda sinn að hefna Sigmundar. Önundur fór með þrjá tigu manna í Snjallshöfða og bar þar eld að húsum. Snjallsteinn gekk út og gafst upp; þeir leiddu hann í höfðann og vógu hann þar.

Eftir víg það mælti Gunnar; hann átti þá Hrafnhildi Stórólfsdóttur, systur Orms hins sterka; Hámundur var son þeirra. Þeir voru báðir afreksmenn að afli og vænleik. Önundur varð sekur um víg Snjallsteins; hann sat með fjölmenni tvo vetur. Örn í Vælugerði, mágur Gunnars, hélt njósnum til Önundar.

Eftir jól hinn þriðja vetur fór Gunnar með þrjá tigu manna að Önundi að tilvísan Arnar. Önundur fór frá leik með tólfta mann til hrossa sinna. Þeir fundust í Orustudal; þar féll Önundur með fjórða mann, en einn af Gunnari. Gunnar var í blárri kápu; hann reið upp eftir Holtum til Þjórsár, og skammt frá ánni féll hann af baki og var þá örendur af sárum.

Þá er synir Önundar óxu upp, Sigmundur kleykir og Eilífur auðgi, sóttu þeir Mörð gígju að eftirmáli, frænda sinn. Mörður kvað það óhægt um sekjan mann; þeir kváðu sér við Örn verst líka, er þeim sat næst. Mörður lagði það til, að þeir skyldu fá Erni skóggangssök og koma honum svo úr héraði.

Önundarsynir tóku beitingamál á hendur Erni, og varð hann svo sekur, að Örn skyldi falla óheilagur fyrir Önundarsonum hvervetna nema í Vælugerði og í örskotshelgi við landeign sína. Önundarsynir sátu jafnan um hann, en hann gætti sín vel. Svo fengu þeir færi á Erni, að hann rak naut úr landi sínu; þá vógu þeir Örn, og hugðu menn, að hann mundi óheilagur fallið hafa.

Þorleifur gneisti, bróðir Arnar, keypti að Þormóði Þjóstarssyni, að hann helgaði Örn; Þormóður var þá kominn út á Eyrum. Hann skaut þá skot svo langt af handboga, að fall Arnar varð í örskotshelgi hans. Þá mæltu þeir Hámundur Gunnarsson og Þorleifur eftir Örn, en Mörður veitti þeim bræðrum; þeir guldu eigi fé, en skyldu vera héraðssekir úr Flóa.

Þá bað Mörður til handa Eilífi Þorkötlu Ketilbjarnardóttur, og fylgdu henni heiman Höfðalönd, og bjó Eilífur þar; en til handa Sigmundi bað hann Arngunnar, dóttur Þorsteins drangakarls, og réðst hann austur í sveit; þá gifti Mörður og Rannveigu systur sína Hámundi Gunnarssyni, og réðst hann þá aftur í Hlíðina, og var þeirra son Gunnar að Hlíðarenda.

Hildir og Hallgeir og Ljót, systir þeirra, voru kynjuð af Vesturlöndum; þau fóru til Íslands og námu land milli Fljóts og Rangár, Eyjasveit alla upp til Þverár. Hildir bjó í Hildisey; hann var faðir Móeiðar. Hallgeir bjó í Hallgeirsey; hans dóttir var Mábil, er átti Helgi Hængsson, en Ljót bjó á Ljótarstöðum.


92. kafli

Dufþakur í Dufþaksholti var leysingi þeirra bræðra; hann var hamrammur mjög, og svo var Stórólfur Hængsson; hann bjó þá að Hvoli. Þá skildi á um beitingar.

Það sá ófreskur maður um kveld nær dagsetri, að björn mikill gekk frá Hvoli, en griðungur frá Dufþaksholti, og fundust á Stórólfsvelli og gengust að reiðir, og mátti björninn meira. Um morguninn var það séð, að dalur var þar eftir, er þeir höfðu fundist, sem um væri snúið jörðinni, og heitir þar nú Öldugróf. Báðir voru þeir meiddir.

Ormur ánauðgi, son Bárðar Bárekssonar, bróðir Hallgríms sviðbálka, byggði fyrst Vestmannaeyjar, en áður var þar veiðistöð og lítil veturseta eða engi. Hans dóttir var Halldóra, er átti Eilífur Valla-Brandsson.

Eilífur og Björn bræður fóru úr Sogni til Íslands. Eilífur nam Odda hinn litla upp til Reyðarvatns og Víkingslækjar; hann átti Helgu dóttur Önundar bílds. Þeirra son var Eilífur ungi, er átti Oddnýju, dóttur Odds hins mjóva; þeirra dóttir var Þuríður, er átti Þorgeir í Odda; þeirra dóttir var Helga.

Björn bjó í Svínhaga og nam land upp með Rangá; hans börn voru þau Þorsteinn, faðir Gríms holtaskalla, og Hallveig, móðir Þórunnar, móður Guðrúnar, móður Sæmundar, föður Brands byskups.

Kolli hét maður, son Óttars ballar; hann nam land fyrir austan Reyðarvatn og Stotalæk fyrir vestan Rangá og Tröllaskóg og bjó að Sandgili.

Hans son var Egill, er sat fyrir Gunnari Hámundarsyni (hjá Knafahólum) og féll þar sjálfur og austmenn tveir með honum og Ari húskarl hans, en Hjörtur bróðir Gunnars af hans liði.

Hrólfur rauðskeggur hét maður; hann nam Hólmslönd öll milli Fiskár og Rangár og bjó að Fossi. Hans börn voru þau Þorsteinn rauðnefur, er þar bjó síðan, og Þóra móðir Þorkels mána, og Ása, móðir Þórunnar, móður Þorgeirs að Ljósavatni, og Helga, móðir Odds frá Mjósyndi. Dóttir Odds var Ásborg, er átti Þorsteinn goði, faðir Bjarna hins spaka, föður Skeggja, föður Markúss lögsögumanns.

Þorsteinn rauðnefur var blótmaður mikill; hann blótaði fossinn, og skyldi bera leifar allar á fossinn. Hann var og framsýnn mjög.

Þorsteinn lét telja sauði sína úr rétt tuttugu hundruð, en þá hljóp alla réttina þaðan af. Því var sauðurinn svo margur, að hann sá á haustum, hverir feigir voru, og lét þá skera.

En hið síðasta haust, er hann lifði, þá mælti hann í sauðarétt: "Skeri þér nú sauði þá, er þér vilið; feigur em eg nú eða allur sauðurinn elligar, nema bæði sé." En þá nótt, er hann andaðist, rak sauðinn allan í fossinn.


93. kafli

Úlfur gyldir hét hersir ríkur á Þelamörk; hann bjó á Fíflavöllum; hans son var Ásgrímur, er þar bjó síðan.

Haraldur konungur hárfagri sendi Þórorm frænda sinn úr Þrumu að heimta skatt af Ásgrími, en hann galt eigi. Þá sendi hann Þórorm annað sinn til höfuðs honum, og drap hann þá Ásgrím.

Þá var Þorsteinn son Ásgríms í víkingu, en Þorgeir, annar son hans, var tíu vetra. Nokkuru síðar kom Þorsteinn úr hernaði og lagði til Þrumu og brenndi Þórorm inni og hjú hans öll, en hjó búið og rænti öllu lausafé. Eftir það fór hann til Íslands og Þorgeir bróðir hans og Þórunn móðursystir þeirra; hún nam Þórunnarhálsa alla.

Þorgeir keypti Oddalönd að Hrafni Hængssyni og Strandir báðar og Vatnadal og allt milli Rangár og Hróarslækjar; hann bjó fyrst í Odda og fékk þá Þóríðar Eilífsdóttur.

Þorsteinn nam land að ráði Flosa, er numið hafði áður Rangárvöllu, fyrir ofan Víkingslæk til móts við Svínhaga-Björn (og) bjó í Skarðinu eystra.

Um hans daga kom skip út í Rangárós; þar var á sótt mikil, en menn vildu eigi hjálpa þeim. Þá fór Þorsteinn til þeirra og færði þá þangað, er nú heita Tjaldastaðir, og gerði þeim þar tjald og þjónaði þeim sjálfur, meðan þeir lifðu, en þeir dó allir. En sá, er lengst lifði, gróf niður fé mikið, og hefir það ekki fundist síðan. Af þessum atburðum varð Þorsteinn tjaldstæðingur kallaður; hans synir voru þeir Gunnar og Skeggi.


94. kafli

Flosi hét maður, son Þorbjarnar hins gaulverska; hann drap þrjá sýslumenn Haralds konungs hárfagra og fór eftir það til Íslands; hann nam land fyrir austan Rangá, alla Rangárvöllu hina eystri. Hans dóttir var Ásný, móðir Þuríðar, er Valla-Brandur átti; son Valla-Brands var Flosi, faðir Kolbeins, föður Guðrúnar, er Sæmundur fróði átti.

Ketill hinn einhendi hét maður, son Auðunar þunnkárs; hann nam Rangárvöllu alla hina ytri fyrir ofan Lækjarbotna og fyrir austan Þjórsá og bjó að Á; hann átti Ásleifu Þorgilsdóttur. Þeirra son var Auðun, faðir Brynjólfs, föður Bergþórs, föður Þorláks, föður Þórhalls, föður Þorláks byskups hins helga.

Ketill aurriði, bræðrungur Ketils einhenda, nam land hið ytra með Þjórsá og bjó á Völlum hinum ytrum. Hans son var Helgi hrogn, er átti Helgu, dóttur Hrólfs rauðskeggs. Þeirra son var Oddur mjóvi, faðir Ásborgar, er átti Þorsteinn goði, og Oddnýjar, er Eilífur ungi átti.

Ormur auðgi, son Úlfs hvassa, nam land með Rangá að ráði Ketils einhenda og bjó í Húsagarði og Áskell son hans eftir hann, en hans son reisti fyrst bæ á Völlum; frá honum eru Vallverjar komnir.

Þorsteinn lunan hét maður norrænn og farmaður mikill; honum var það spáð, að hann mundi á því landi deyja, er þá var eigi byggt. Þorsteinn fór til Íslands í elli sinni með Þorgilsi syni sínum; þeir námu hinn efra hlut Þjórsárholta og bjuggu í Lunansholti, og þar var Þorsteinn heygður. Dóttir Þorgils var Ásleif, er átti Ketill einhendi. Synir þeirra voru þeir Auðun, er áður var nefndur, (og) Eilífur, faðir Þorgeirs, föður Skeggja, föður Hjalta í Þjórsárdal; hann var faðir Jórunnar, móður Guðrúnar, móður Einars, föður Magnúss byskups.

Gunnsteinn berserkjabani, son Bölverks blindingatrjónu drap tvo berserki, og hafði annar þeirra áður drepið Grjótgarð jarl í Sölva fyrir innan Agðanes. Gunnsteinn var síðan skotinn með öru finnskri úr skógi á skipi sínu norður í Hefni. Son Gunnsteins var Þorgeir, er átti Þórunni hina auðgu, dóttur Ketils einhenda; þeirra dóttir var Þórdís en mikla.


95. kafli

Ráðormur og Jólgeir bræður komu vestan um haf til Íslands; þeir námu land milli Þjórsár og Rangár.

Ráðormur eignaðist land fyrir austan Rauðalæk og bjó í Vétleifsholti. Hans dóttir var Arnbjörg, er átti Svertingur Hrolleifsson. Þeirra börn voru þau Grímur lögsögumaður og Jórunn. Síðar átti Arnbjörgu Gnúpur Molda-Gnúpsson, og voru þeirra börn Hallsteinn á Hjalla og Rannveig, móðir Skafta lög(sögu)manns, og Geirný, móðir Skáld-Hrafns.

Jólgeir eignaðist land fyrir utan Rauðalæk og til Steinslækjar; hann bjó á Jólgeirsstöðum.

Áskell hnokkan, son Dufþaks Dufníalssonar, Kjarvalssonar Írakonungs, hann nam (land) milli Steinslækjar og Þjórsár og bjó í Áskelshöfða. Hans son var Ásmundur, faðir Ásgauts, föður Skeggja, föður Þorvalds, föður Þorlaugar, móður Þorgerðar, móður Jóns byskups hins helga.

Þorkell bjálfi, fóstbróðir Ráðorms, eignaðist lönd öll milli Rangár og Þjórsár og bjó í Háfi; hann átti Þórunni eyversku. Þeirra dóttir var Þórdís, móðir Skeggja, föður Þorvalds í Ási. Þaðan hafði Hjalti mágur hans reiðskjóta til alþingis og þeir tólf, þá er hann var út kominn með kristni, en engi treystist annar fyrir ofríki Rúnólfs Úlfssonar, er sektan hafði Hjalta um goðgá.

Nú eru ritaðir þeir menn, er lönd hafa numið í landnámi Ketils hængs.

Loftur son Orms Fróða(sonar) kom af Gaulum til Íslands ungur að aldri og nam fyrir utan Þjórsá milli Rauðár og Þjórsár og upp til Skúfslækjar og Breiðamýri hina eystri upp til Súluholts og bjó í Gaulverjabæ og Oddný móðir harms, dóttir Þorbjarnar gaulverska.

Loftur fór utan hið þriðja hvert sumar fyrir hönd þeirra Flosa beggja, móðurbróður síns, að blóta að hofi því, er Þorbjörn móðurfaðir hans hafði varðveitt. Frá Lofti er margt stórmenni komið, Þorlákur hinn helgi, Páll og Brandur.

Þorviður son Úlfars, bróðir Hildar, fór af Vörs til Íslands, en Loftur frændi hans gaf honum land á Breiðamýri, og bjó hann í Vörsabæ. Hans börn voru þau Hrafn og Hallveig, er átti Össur hinn hvíti, þeirra son Þorgrímur kampi.

Þórarinn hét maður, sonur Þorkels úr Alviðru Hallbjarnarsonar Hörðakappa; hann kom skipi sínu í Þjórsárós og hafði þjórshöfuð á stafni, og er þar áin við kennd. Þórarinn nam land fyrir ofan Skúfslæk til Rauðár með Þjórsá. Hans dóttir var Heimlaug, er Loftur gekk að eiga sextögur.


96. kafli

Haraldur gullskeggur hét konungur í Sogni; hann átti Sölvöru dóttur Hundólfs jarls, systur Atla jarls hins mjóva. Þeirra dætur voru þær Þóra, er átti Hálfdan svarti Upplendingakonungur, og Þuríður, er átti Ketill helluflagi. Haraldur ungi var son þeirra Hálfdanar og Þóru; honum gaf Haraldur gullskeggur nafn sitt og ríki. Haraldur konungur andaðist fyrstur þeirra, en þá Þóra, en Haraldur ungi síðast. Þá bar ríkið undir Hálfdan konung, en hann setti yfir það Atla jarl hinn mjóva. Síðan fékk Hálfdan konungur Ragnhildar, dóttur Sigurðar hjartar, og var þeirra son Haraldur hárfagri.

Þá er Haraldur konungur gekk til ríkis í Noregi og hann mægðist við Hákon jarl Grjótgarðsson, fékk hann Sygnafylki Hákoni jarli mági sínum, er Haraldur konungur fór í Vík austur. En Atli jarl vildi eigi af láta ríkinu, áður hann fyndi Harald konung. Jarlarnir þreyttu þetta með kappi og drógust að her. Þeir fundust á Fjölum í Stafanessvagi og börðust; þar féll Hákon jarl, en Atli varð sár og fluttur í Atley; hann dó þar úr sárum.

Eftir það hélt Hásteinn (son hans) ríkinu, þar til er Haraldur konungur og Sigurður jarl drógu her að honum. Hásteinn stökk þá undan og brá til Íslandsferðar. Hann átti Þóru Ölvisdóttur; Ölvir og Atli voru synir þeirra.

Hásteinn skaut setstokkum fyrir borð í hafi að fornum sið; þeir komu á Stálfjöru fyrir Stokkseyri, en Hásteinn kom í Hásteinssund fyrir austan Stokkseyri og braut þar.

Hásteinn nam land milli Rauðár og Ölfusár upp til Fyllarlækjar og Breiðamýri alla upp að Holtum og bjó á Stjörnusteinum og svo Ölvir son hans eftir hann; þar heita nú Ölvisstaðir. Ölvir hafði landnám allt fyrir utan Grímsá, Stokkseyri og Ásgautsstaði, en Atli átti allt milli Grímsár og Rauðár; hann bjó í Traðarholti. Ölvir andaðist barnlaus; Atli tók eftir hann lönd og lausafé; hans leysingi var Brattur í Brattsholti og Leiðólfur á Leiðólfsstöðum.

Atli var faðir Þórðar dofna, föður Þorgils örrabeinsstjúps.

Hallsteinn hét maður, er fór úr Sogni til Íslands, mágur Hásteins; honum gaf hann ytra hlut Eyrarbakka; hann bjó á Framnesi. Hans son var Þorsteinn, faðir Arngríms, er veginn var að fauskagrefti, hans son Þorbjörn á Framnesi.

Þórir son Ása hersis Ingjaldssonar, Hróaldssonar, fór til Íslands og nam Kallnesingahrepp allan upp frá Fyllarlæk og bjó að Selfossi. Hans son var Tyrfingur, faðir Þuríðar, móður Tyrfings, föður Þorbjarnar prests og Hámundar prests í Goðdölum.

Hróðgeir hinn spaki og Oddgeir bróðir hans, er þeir Fiður hinn auðgi og Hafnar-Ormur keyptu brutt úr landnámi sínu, námu Hraungerðingahrepp, og bjó Oddgeir í Oddgeirshólum. Hans son var Þorsteinn öxnabroddur, faðir Hróðgeirs, föður Ögurs í Kambakistu. En dóttir Hróðgeirs hins spaka var Gunnvör, er átti Kolgrímur hinn gamli; þaðan eru Kvistlingar komnir.

Önundur bíldur, er fyrr var getið, nam land fyrir austan Hróarslæk og bjó í Önundarholti; frá honum er margt stórmenni komið, sem fyrr er ritað.


97. kafli

Össur hvíti hét maður, son Þorleifs úr Sogni. Össur vó víg í véum á Upplöndum, þá er hann var í brúðför með Sigurði hrísa; fyrir það varð hann landflótti til Íslands og nam fyrst öll Holtalönd milli Þjórsár og Hraunslækjar; þá var hann sautján vetra, er hann vó vígið. Hann fékk Hallveigar Þorviðardóttur. Þeirra son var Þorgrímur kampi, faðir Össurar, föður Þorbjarnar, föður Þórarins, föður Gríms Tófusonar.

Össur bjó í Kampaholti; hans leysingi var Böðvar, er bjó í Böðvarstóftum við Víðiskóg. Honum gaf Össur hlut í skóginum og skildi sér eftir hann barnlausan. Örn úr Vælugerði, er fyrr er getið, stefndi Böðvari um sauðatöku. Því handsalaði Böðvar Atla Hásteinssyni fé sitt, en hann ónýtti mál fyrir Erni. Össur andaðist, þá er Þorgrímur var ungur; þá tók Hrafn Þorviðarson við fjárvarðveislu Þorgríms.

Eftir andlát Böðvars taldi Hrafn til Víðiskógs og bannaði Atla, en Atli þóttist eiga. Þeir Atli fjórir fóru eftir viði; Leiðólfur var með honum. Smalamaður sagði Hrafni það, en hann reið eftir honum við átta mann; þeir fundust í Orustudal og börðust þar. Húskarlar Hrafns féllu tveir; hann varð sár. Einn féll af Atla, en (hann) varð sár banasárum og reið heim. Önundur bíldur skildi þá og bauð Atla til sín.

Þórður dofni, son Atla, var þá níu vetra. En þá er hann var fimmtán vetra, reið Hrafn í Einarshöfn til skips; hann var í blárri kápu og reið heim um nótt. Þórður sat einn fyrir honum hjá Haugavaði skammt frá Traðarholti og vó hann þar með spjóti. Þar er Hrafnshaugur fyrir austan götuna, en fyrir vestan Hásteinshaugur og Atlahaugur og Ölvis. Vígin féllust í faðma.

Þórður hófst af þessu; hann fékk þá Þórunnar, dóttur Ásgeirs austmannaskelfis, er drap skipshöfn austmanna í Grímsárósi fyrir rán, það er hann var ræntur austur.

Þórður hafði þá tvo vetur og tuttugu, er hann keypti skip í Knarrarsundi og vildi heimta arf sinn; þá fal hann fé mikið; því vildi Þórunn eigi fara og tók þá með löndum. Þorgils son Þórðar var þá tvævetur. Skip Þórðar hvarf.

Vetri síðar kom Þorgrímur örrabeinn til ráða með Þórunni, son Þormóðar og Þuríðar Ketilbjarnardóttur; hann fékk Þórunnar, og var þeirra son Hæringur.

Óláfur tvennumbrúni hét maður; hann fór af Lófót til Íslands; hann nam Skeið öll milli Þjórsár (og Hvítár og) til Sandlækjar; hann var hamrammur mjög. Óláfur bjó á Óláfsvöllum; hann liggur í Brúnahaugi undir Vörðufelli.

Óláfur átti Áshildi, og var þeirra son Helgi trausti og Þórir drífa, faðir Þorkels gullkárs, föður Orms, föður Helgu móður Odds Hallvarðssonar. Vaði var hinn þriðji son Óláfs, faðir Gerðar.

Þorgrímur (örrabeinn) lagði hug á Áshildi, þá er Óláfur var dauður, en Helgi vandaði um; hann sat fyrir Þorgrími við gatnamót fyrir neðan Áshildarmýri. Helgi bað hann láta af komum. Þorgrímur lést eigi hafa barna skap. Þeir börðust; þar féll Þorgrímur. Áshildur spurði, hvar Helgi hefði verið; hann kvað vísu:

Vask, þars fell til Fyllar,
fram sótti vinr dróttar,
Örrabeinn, en unnar
ítrtungur hátt sungu.
Ásmóðar gafk Óðni
arfa þróttar djarfan.
Guldum galga valdi
Gauts tafn, en ná hrafni.

Áshildur kvað hann hafa höggvið sér höfuðsbana. Helgi tók sér far í Einarshöfn.

Hæringur son Þorgríms var þá sextán vetra, er hann reið í Höfða að finna Teit Gissurarson með þriðja mann. Þeir Teitur riðu fimmtán að banna Helga far. Þeir fundust í Merkurhrauni upp frá Mörk við Helgahvol; þeir Helgi voru þrír saman, komnir af Eyrum. Þar féll Helgi og maður með honum og einn af þeim Teiti; í faðma féllust víg þau.

Sonur Helga var Sigurður hinn landverski og Skefill hinn haukdælski, faðir Helga dýrs, er barðist við Sigurð, son Ljóts löngubaks, í Öxarárhólma á alþingi. Um það orti Helgi þetta:

Band's á hægri hendi,
hlautk sár af Tý báru,
lýg ek eigi þat, leygjar,
linnvengis Bil, minni.

Hrafn var annar son Skefils, faðir Gríms, föður Ásgeirs, föður Helga.


98. kafli

Þrándur mjögsiglandi Bjarnarson, bróðir Eyvindar austmanns, er fyrr er getið, hann var í Hafursfirði mót Haraldi konungi og varð síðan landflótti og kom til Íslands síð landnámatíðar; hann nam land milli Þjórsár og Laxár og upp til Kálfár og til Sandlækjar; hann bjó í Þrándarholti. Hans dóttir var Helga, er Þormóður skafti átti.

Ölvir barnakarl hét maður ágætur í Noregi; hann var víkingur mikill. Hann lét eigi henda börn á spjótaoddum, sem þá var víkingum títt; því var hann barnakarl kallaður. Hans synir voru þeir Steinólfur, faðir Unu, er átti Þorbjörn laxakarl, og Einar, faðir Ófeigs grettis og Óleifs breiðs, föður Þormóðar skafta. Steinmóður var hinn þriðji son Ölvis barnakarls, faðir Konáls, föður Álfdísar hinnar barreysku, er Óleifur feilan átti. Son Konáls var Steinmóður faðir Halldóru, er átti Eilífur, son Ketils einhenda.

Þeir frændur, Ófeigur grettir og Þormóður skafti, fóru til Íslands og voru hinn fyrsta vetur með Þorbirni laxakarli mági sínum. En um vorið gaf hann þeim Gnúpverjahrepp, Ófeigi hinn ytra hlut milli Þverár og Kálfár, og bjó (hann) á Ófeigsstöðum hjá Steinsholti, en Þormóði gaf hann hinn eystra hlut, og bjó hann í Skaftaholti.

Dætur Þormóðar voru þær Þórvör, móðir Þórodds goða, föður Lög-Skafta, og Þórvé, móðir Þorsteins goða, föður Bjarna hins spaka. Ófeigur féll fyrir Þorbirni jarlakappa í Grettisgeil hjá Hæli.

Dóttir Ófeigs var Aldís, móðir Valla-Brands.

Þorbjörn laxakarl nam Þjórsárdal allan og Gnúpverjahrepp allan ofan til Kálfár og bjó hinn fyrsta vetur að Miðhúsum. Hann hafði þrjár vetursetur, áður hann kom í Haga; þar bjó hann til dauðadags. Hans synir voru þeir Otkell í Þjórsárdal og Þorkell trandill og Þorgils, faðir Otkötlu, móður Þorkötlu, móður Þorvalds, föður Döllu, móður Gissurar byskups.

Þorbjörn jarlakappi hét maður norrænn að kyni; hann fór úr Orkneyjum til Íslands. Hann keypti land í Hrunamannahrepp að Mávi Naddoddssyni, allt fyrir neðan Selslæk á milli Laxár og bjó að Hólum. Hans synir voru þeir Sölmundur, faðir Sviðu-Kára, og Þormóður, faðir Finnu, er átti Þórormur í Karlafirði. Þeirra dóttir var Álfgerður, móðir Gests, föður Valgerðar, móður Þorleifs beiskalda.

Bröndólfur og Már Naddoddssynir og Jórunnar, dóttur Ölvis barnakarls, komu til Íslands snemma landsbyggðar; þeir námu Hrunamannahrepp, svo vítt sem vötn deila.

Bröndólfur bjó að Berghyl. Hans synir voru þeir Þorleifur, faðir Bröndólfs, föður Þorkels skotakolls, föður Þórarins, föður Halls í Haukadal og Þorláks, föður Rúnólfs, föður Þorláks byskups.

Már bjó á Másstöðum. Hans son var Beinir, faðir Kolgrímu, móður Skeggja, föður Hjalta.

Þorbrandur, son Þorbjarnar hins óarga, og Ásbrandur son hans komu til Íslands síð landnámatíðar, og vísaði Ketilbjörn þeim til landnáms fyrir ofan múla þann, er fram gengur hjá Stakksá, og til Kaldakvíslar, og bjuggu í Haukadal.

Þeim þóttu þau lönd of lítil, er tungan eystri var þá byggð; þá jóku þeir landnám sitt og námu hinn efra hlut Hrunamannahrepps sjónhending úr Múla í Ingjaldsgnúp fyrir ofan Gyldarhaga. Börn Ásbrands voru Vébrandur og Arngerður.

Eyfröður hinn gamli nam tunguna eystri milli Kaldakvíslar og Hvítár og bjó í Tungu; með honum kom út Drumb-Oddur, er bjó á Drumb-Oddsstöðum.


99. kafli

Ketilbjörn hét maður ágætur í Naumudal; hann var Ketilsson og Æsu, dóttur Hákonar jarls Grjótgarðssonar; hann átti Helgu, dóttur Þórðar skeggja.

Ketilbjörn fór til Íslands, þá er landið var víða byggt með sjá; hann hafði skip það, er Elliði hét; hann kom í Elliðaárós fyrir neðan heiði. Hann var hinn fyrsta vetur með Þórði skeggja, mági sínum.

Um vorið fór hann upp um heiði að leita sér landskosta. Þeir höfðu náttból og gerðu sér skála; þar heitir nú Skálabrekka. En er þeir fóru þaðan, komu þeir að á þeirri, er þeir kölluðu Öxará; þeir týndu þar (í) öxi sinni. Þeir áttu dvöl undir fjallsmúla þeim, er þeir nefndu Reyðarmúla; þar lágu þeim eftir áreyðar þær, er þeir tóku í ánni.

Ketilbjörn nam Grímsnes allt upp frá Höskuldslæk og Laugardal allan og alla Byskupstungu upp til Stakksár og bjó að Mosfelli. Börn þeirra voru þau Teitur og Þormóður, Þorleifur, Ketill, Þorkatla, Oddleif, Þorgerður, Þuríður. Skæringur hét einn son Ketilbjarnar, laungetinn.

Ketilbjörn var svo auðigur að lausafé, að hann bauð sonum sínum að slá þvertré af silfri í hofið, það er þeir létu gera; þeir vildu það eigi. Þá ók hann silfrið upp á fjallið á tveimur yxnum og Haki þræll hans og Bót ambátt hans; þau fálu féið, svo að eigi finnst. Síðan drap hann Haka í Hakaskarði, en Bót í Bótarskarði.

Teitur átti Álöfu, dóttur Böðvars af Vörs Víkinga-Kárasonar. Þeirra son var Gissur hvíti, faðir Ísleifs byskups, föður Gissurar byskups. Annar son Teits var Ketilbjörn, faðir Kolls, föður Þorkels, föður Kolls Víkverjabyskups. Margt stórmenni er frá Ketilbirni komið.

Ásgeir hét maður Úlfsson; honum gaf Ketilbjörn Þorgerði dóttur sína og lét henni heiman fylgja Hlíðarlönd öll fyrir ofan Hagagarð; hann bjó í Hlíð hinni ytri. Þeirra son var Geir goði og Þorgeir faðir Bárðar að Mosfelli.

Eilífur auðgi, son Önundar bílds, fékk Þorkötlu Ketilbjarnardóttur, og fylgdu (henni) heiman Höfðalönd; þar bjuggu þau. Þeirra son var Þórir faðir Þórarins sælings.

Véþormur, son Vémundar hins gamla, var hersir ríkur; hann stökk fyrir Haraldi konungi austur á Jamtaland og ruddi þar merkur til byggðar.

Hólmfastur hét son hans, en Grímur hét systurson hans. Þeir voru í vesturvíking og drápu í Suðureyjum Ásbjörn jarl skerjablesa og tóku þar að herfangi Álöfu konu hans og Arneiði dóttur hans, og hlaut Hólmfastur hana og seldi hana í hendur föður sínum og lét vera ambátt. Grímur fékk Álöfar, dóttur Þórðar vaggagða, er jarl hafði átta.

Grímur fór til Íslands og nam Grímsnes allt upp til Svínavatns og bjó í Öndurðunesi fjóra vetur, en síðan að Búrfelli. Hans son var Þorgils, er Æsu, systur Gests, átti. Þeirra synir voru þeir Þórarinn að Búrfelli og Jörundur í Miðengi.

Hallkell, bróðir Ketilbjarnar sammæddur, kom til Íslands og var með Ketilbirni hinn fyrsta vetur. Ketilbjörn bauð að gefa honum land. Hallkatli þótti lítilmannligt að þiggja land og skoraði á Grím til landa eða hólmgöngu. Grímur gekk á hólm við Hallkel undir Hallkelshólum og féll þar, en Hallkell bjó þar síðan.

Hans synir voru þeir Otkell, er Gunnar Hámundarson vó, og Oddur að Kiðjabergi, faðir Hallbjarnar, er veginn var við Hallbjarnarvörður, og Hallkels, föður Hallvarðs, föður Þorsteins, er Einar Hjaltlendingur vó. Son Hallkels Oddssonar var Bjarni, faðir Halls, föður Orms, föður Bárðar, föður Valgerðar, móður Halldóru, er Magnús byskup Gissurarson átti.

Nú er komið að landnámi Ingólfs. En þeir menn, er nú eru taldir, hafa byggt í hans landnámi.


100. kafli

Þorgrímur bíldur, bróðir Önundar bílds, nam lönd öll fyrir ofan Þverá og bjó að Bíldsfelli. Hans leysingi var Steinröður, son Melpatrix af Írlandi; hann eignaðist öll Vatnslönd og bjó á Steinröðarstöðum.

Steinröður var manna vænstur. Hans son var Þormóður, faðir Kárs, föður Þormóðar, föður Brands, föður Þóris, er átti Helgu Jónsdóttur.

Ormur hinn gamli, son Eyvindar jarls, Arnmóðssonar jarls, Nereiðssonar jarls hins gamla; Ormur nam land fyrir austan Varmá til Þverár og um Ingólfsfell allt og bjó í Hvammi. Hans son var Darri, faðir Arnar.

Eyvindur jarl var með Kjötva auðga mót Haraldi konungi í Hafrsfirði.

Álfur hinn egski stökk fyrir Haraldi konungi af Ögðum úr Noregi; hann fór til Íslands og kom skipi sínu í ós þann, er við hann er kenndur og Álfsóss heitir; hann nam lönd öll fyrir utan Varmá og bjó að Gnúpum.

Þorgrímur Grímólfsson var bróðurson Álfs; hann fór út með honum og tók arf eftir hann, því að Álfur átti ekki barn. Sonur Þorgríms var Eyvindur, faðir Þórodds goða og Össurar, er átti Beru, dóttur Egils Skalla-Grímssonar. Móðir Þorgríms var Kormlöð, dóttir Kjarvals Írakonungs.


101. kafli

Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík, en Heggur son hans bjó að Vogi. Böðmóður, annar son hans, var faðir Þórarins, föður Súganda, föður Þorvarðar, föður Þórhildar, móður Sigurðar Þorgrímssonar.

Molda-Gnúpssynir byggðu Grindavík, sem fyrr er ritað.

Steinuður hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands og var með Ingólfi hinn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum.

Eyvindur hét maður, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hún land milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns. Hans son var Egill, faðir Þórarins, föður Sigmundar, föður Þórörnu, móður Þorbjarnar í Krýsuvík.

Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns. Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. Hans son var Egill, faðir (Össurar, föður) Þórarins, föður Óláfs, föður Sveinbjarnar, föður Ásmundar, föður Sveinbjarnar, föður Styrkárs.


102. kafli

Nú er yfir farið um landnám þau, er vér höfum heyrt, að verið hafi á Íslandi, en þessir landnámsmenn hafa göfgastir verið í Sunnlendingafjórðungi: Hrafn hinn heimski, Ketill hængur, Sighvatur rauði, Hásteinn Atlason, Ketilbjörn hinn gamli, Ingólfur, Örlygur gamli, Helgi bjóla, Kolgrímur hinn gamli, Björn gullberi, Önundur breiðskeggur.

Svo segja fróðir menn, að landið yrði albyggt á sex tigum vetra, svo að eigi hefir síðan orðið fjölbyggðra; þá lifðu enn margir landnámsmenn og synir þeirra.

Þá er landið hafði sex tigu vetra byggt verið, voru þessir höfðingjar mestir á landinu: í Sunnlendingafjórðungi Mörður gígja, Jörundur goði, Geir goði, Þorsteinn Ingólfsson, Tungu-Oddur, en í Vestfirðingafjórðungi Egill Skalla-Grímsson, Þorgrímur Kjallaksson, Þórður gellir, en norður Miðfjarðar-Skeggi, Þorsteinn Ingimundarson, Guðdælir, Hjaltasynir, Eyjólfur Valgerðarson, Áskell goði, en í Austfirðingafjórðungi Þorsteinn hvíti, Hrafnkell goði, Þorsteinn faðir Síðu-Halls, Þórður Freysgoði. Hrafn Hængsson hafði þá lögsögu.

Svo segja vitrir menn, að nokkurir landnámsmenn hafi skírðir verið, þeir er byggt hafa Ísland, flestir þeir, er komu vestan um haf. Er til þess nefndur Helgi magri og Örlygur hinn gamli, Helgi bjóla, Jörundur kristni, Auður djúpauðga, Ketill hinn fíflski og enn fleiri menn, er komu vestan um haf, og heldu þeir sumir vel kristni til dauðadags. En það gekk óvíða í ættir, því að synir þeirra sumra reistu hof og blótuðu, en land var alheiðið nær hundraði vetra.


(Textinn að mestu frá Eiríki Rögnvaldssyni prófessor við Háskóla Íslands)


Netútgáfan - desember 1998