MAGNÚSS  SAGA  BERFÆTTS
1. Upphaf Magnúss konungs berfætts

Magnús sonur Ólafs konungs var þegar til konungs tekinn í Víkinni eftir andlát Ólafs konungs yfir allan Noreg.

En er Upplendingar spurðu andlát Ólafs konungs þá tóku þeir til konungs Hákon Þórisfóstra, bræðrung Magnúss. Síðan fóru þeir Hákon og Þórir norður til Þrándheims. En er þeir komu til Niðaróss þá stefndu þeir Eyraþing og á því þingi beiðir Hákon sér konungsnafns og var honum það veitt, að bændur tóku hann til konungs yfir hálft land svo sem haft hafði Magnús konungur faðir hans. Hákon tók af við Þrændi landauragjald og gaf þeim margar aðrar réttarbætur. Hann tók af og við þá jólagjafir. Snerust þá og allir Þrændir til vináttu við Hákon konung. Þá tók Hákon konungur sér hirð, fór síðan aftur til Upplanda. Hann veitti Upplendingum réttarbætur allar slíkar sem Þrændum. Voru þeir og fullkomnir vinir hans.

Þá var þetta kveðið í Þrándheimi:

Ungr kom Hákon hingað,
hann er bestr alinn manna,
frægðar mildr, á foldu,
fór með Steigar-Þóri.
Syni Ólafs bauð síðan
sjálfr um Noreg hálfan
mildr, en Magnús vildi
málsnjallr hafa allan.


2. Dauði Hákonar

Magnús konungur fór um haustið norður til Kaupangs. En er hann kom þar þá fór hann í konungsgarð og var þar að herberginu og dvaldist þar öndverðan vetur. Hann hélt sjö langskipum í vök þíðri fyrir konungsgarði í Nið.

En er Hákon konungur spurði að Magnús konungur var kominn í Þrándheim þá fór hann austan um Dofrafjall og svo til Þrándheims og til Kaupangs og tók hann sér herbergi í Skúlagarði ofan frá Klemenskirkju. Þar var hinn forni konungsgarður.

Magnúsi konungi líkaði illa stórgjafar þær er Hákon konungur hafði gefið bóndum til vinsælda sér. Þótti Magnúsi sín eign gefin engum mun síður og ýfðist hugur hans mjög við það og þóttist mishaldinn af við frænda sinn, er hann skyldi svo miklu minni tekjur hafa en faðir hans hafði haft eða foreldri, og kenndi Þóri ráðin um. Hákon konungur og Þórir urðu þessa varir og var uggur á hver tiltæki Magnús mundi hafa. Þótti þeim það helst grunsamlegt er Magnús hafði á floti langskip tjölduð og búin.

Um vorið nálega kyndilmessu þá lagði Magnús konungur brott á náttarþeli og lögðu út tjölduðum skipum og ljós undir og hélt út til Hefringar, bjó þar um nótt og gerðu þar elda stóra á landi uppi. Þá hugði Hákon konungur og lið það er í býnum var að það væri gert til svika. Hann lét blása liðinu út og sótti allur Kaupangslýður til og voru í safnaði um nóttina. En um morguninn er lýsa tók og Magnús konungur sá allsherjarlið á Eyrunum þá hélt hann út úr firðinum og svo suður í Gulaþingslög.

Hákon konungur byrjaði þá ferð sína og ætlaði austur í Vík og átti áður mót í býnum, talaði þá og bað menn vináttu og hét sinni vináttu öllum. Hann kvað sér skugga vera um vilja frænda síns Magnúss konungs. Hákon konungur sat á hesti og var farbúinn. Allir menn hétu honum vingan með góðum vilja og fylgd ef þyrfti og fylgdi honum lýður allur út undir Steinbjörg. Hákon konungur fór upp til Dofrafjalls. En er hann fór yfir fjallið reið hann um dag eftir rjúpu nokkurri er fló undan honum. Þá varð hann sjúkur og fékk banasótt og andaðist þar á fjallinu og var lík hans norður flutt og kom hálfum mánuði síðar til Kaupangs en hann hafði brott farið. Gekk þá allur bæjarlýður og flestur grátandi móti líki konungs því að allir menn unnu honum hugástum. Lík Hákonar konungs var niður sett í Kristskirkju.

Hákon konungur varð maður vel hálfþrítugur að aldri. Hann hefir höfðingja verið einn ástsælastur í Noregi af allri alþýðu. Hann hafði farið norður til Bjarmalands og átti þar orustu og fékk sigur.


3. Hernaður í Hallandi

Magnús konungur hélt um veturinn austur í Vík en er voraði hélt hann suður til Hallands og herjaði þar víða. Þá brenndi hann þar Viskardal og fleiri héruð. Fékk hann þar fé mikið og fór síðan aftur í ríki sitt.

Svo segir Björn hinn krepphendi í Magnússdrápu:

Vítt lét Vörsa drottinn,
varð skjótt rekinn flótti,
hús sveið Hörða ræsir,
Hallands, farið brandi.
Brenndi buðlungr Þrænda,
blés kastar hel fasta,
vakti viskdælsk ekkja,
víðs mörg héruð síðan.

Hér getur þess að Magnús konungur gerði hið mesta hervirki á Hallandi.


4. Frá Steigar-Þóri

Sveinn er maður nefndur sonur Haralds flettis, danskur maður að kyni. Hann var hinn mesti víkingur og mikill bardagamaður og hinn hraustasti, ættstór maður í sínu landi. Hann hafði verið með Hákoni konungi. En eftir fráfall Hákonar trúði Steigar-Þórir illa því að hann mundi komast í sætt eða í vináttu við Magnús konung, ef ríki hans gengi yfir land, fyrir sakir tilverka og mótgöngu þeirrar er Þórir hafði áður haft við Magnús konung.

Síðan höfðu þeir Þórir og Sveinn ráð það er síðan varð framkvæmt að þeir reistu flokk við styrk og fjölmenni Þóris. En fyrir því að Þórir var þá gamall maður og þungfær þá tók Sveinn við stjórn flokksins og höfðingjanafni.

Að þessu ráði hurfu fleiri höfðingjar. Þeirra var æðstur Egill sonur Ásláks af Forlandi. Egill var lendur maður. Hann átti Ingibjörgu dóttur Ögmundar Þorbergssonar, systur Skofta í Giska. Skjálgur hét maður, ríkur og auðigur, er enn kom til flokksins.

Þess getur Þorkell hamarskáld í Magnússdrápu:

Vítt dró sínar sveitir
saman stórhugaðr Þórir,
heldr vorut þau höldum
hagleg ráð, með Agli.
Snörp frá eg á því, er urpu,
endr Skjálgs vinum, lendir
menn við morðhauks brynni,
mein, um afl sér steini.

Þeir Þórir hófu flokkinn á Upplöndum og komu ofan í Raumsdal og Sunn-Mæri og öfluðu sér þar skipa, héldu síðan norður til Þrándheims.


5. Frá Þóri og hans aðgerðum

Sigurður ullstrengur hét lendur maður, sonur Loðins Viggjarskalla. Hann safnaði liði með örvarskurð þá er hann spurði til flokks þeirra Þóris og stefndi öllu liði því er hann fékk til Viggju. En Sveinn og Þórir héldu þannug liði sínu og börðust við þá Sigurð og fengu sigur og veittu mikið mannspell en Sigurður flýði og fór á fund Magnúss konungs. En þeir Þórir fóru til Kaupangs og dvöldust þar um hríð í firðinum og kom þar mart manna til þeirra.

Magnús konungur spurði þessi tíðindi og stefndi þegar liði saman og hélt síðan norður til Þrándheims. En er hann kom í fjörðinn og þeir Þórir spurðu það, þeir lágu þá við Hefring og voru búnir að halda út úr firðinum, þá reru þeir á Vagnvíkaströnd og gengu þar af skipum og komu norður í Þexdali í Seljuhverfi og var Þórir borinn í börum um fjallið. Síðan réðu þeir til skipa og fóru norður á Hálogaland. En Magnús konungur fór eftir þeim þá er hann var búinn úr Þrándheimi. Þeir Þórir fóru allt norður í Bjarkey og flýði Jón undan og Víðkunnur sonur hans. Þeir Þórir rændu þar lausafé öllu en brenndu bæinn og langskip gott er Víðkunnur átti.

Þá mælti Þórir er snekkjan brann og skipið hallaðist: "Meir á stjórn Víðkunnur."

Þá var þetta ort:

Breðr í Bjarkey miðri
ból það er eg veit gólast.
Tér eigi þarft af Þóri,
þýtr vandar böl, standa.
Jón mun eigi frýja
elds né ráns er kveldar.
Svíðr bjartr logi breiðan
bý. Leggr reyk til skýja.


6. Dauði Þóris og Egils

Þeir Jón og Víðkunnur fóru dag og nótt til þess er þeir fundu Magnús konung. Þeir Sveinn og Þórir héldu og norðan sínu liði og rændu víða um Hálogaland. En er þeir lágu á firði þeim er Harmur heitir þá sáu þeir sigling Magnúss konungs og þóttust þeir Þórir eigi hafa lið til að berjast og reru undan og flýðu. Reri Þórir og Egill til Hesjutúna en Sveinn reri út til hafs en sumt lið þeirra reri inn í fjörðinn. Magnús konungur hélt eftir þeim Þóri. En er skipin renndust að í lendingunni þá var Þórir í fyrirrúmi á sínu skipi.

Þá kallaði Sigurður ullstrengur á hann: "Ertu heill Þórir?"

Þórir svarar: "Heill að höndum en hrumur að fótum."

Þá flýði lið þeirra Þóris allt á land upp en Þórir varð handtekinn. Egill varð og handtekinn því að hann vildi eigi renna frá konu sinni. Magnús konungur lét flytja þá báða í Vambarhólm. En er Þórir var upp leiddur reikaði hann á fótum.

Þá mælti Víðkunnur: "Meir á bakborða Þórir."

Síðan var Þórir leiddur til gálga.

Þá mælti hann:

Vorum félagar fjórir
forðum, einn við stýri.

Og er hann gekk að gálganum mælti hann: "Ill eru ill ráð."

Síðan var hann hengdur og þá er upp reið gálgatréið var Þórir svo höfugur að sundur slitnaði hálsinn og féll búkurinn til jarðar. Þórir var allra manna mestur, bæði hár og digur. Egill var og til gálga leiddur.

En er konungsþrælar skyldu hengja hann þá mælti Egill: "Eigi skuluð þér mig fyrir því hengja að eigi væri hver yðvar maklegri að hanga," svo sem kveðið var:

Orð frá eg Agli verða,
unnar dags, á munni,
Sól, við siklings þræla
satt, einarðar latta.
Hvern þeirra kvað hærra,
hjaldrbliks, en sig miklu,
beið of mikið eyðir
angr, maklegri að hanga.

Magnús konungur sat hjá er þeir voru hengdir og var svo reiður að engi var hans manna svo djarfur að þyrði að biðja þeim friðar.

Þá mælti konungur er Egill sparn gálgann: "Illa koma þér góðir frændur í þörf."

Í því sýndist að konungur vildi hafa verið beðinn að Egill hefði lifað.

Svo segir Björn hinn krepphendi:

Snarr rauð Sygna harri
sverð á upphlaupsferðum.
Vítt nam vargr að slíta
varma bráð á Harmi.
Fráttu hve fylkir mátti,
fór svo að hengdr var Þórir,
för var gunnar gervis
greið, drottinssvik leiða.


7. Frá refsingum við Þrændi

Magnús konungur hélt síðan suður til Þrándheims, veitti þar stórar refsingar þeim mönnum er sannir voru að landráðum við hann. Drap hann suma en brenndi fyrir sumum.

Svo segir Björn krepphendi:

Hrafngreddir vann hrædda
hlífar styggr, í byggðum,
þrænska drótt, er þótti
þeim markar böl sveima.
Hygg eg að hersa tveggja
her-Baldr lyki aldri
sinn. Jór vara sváru
svangr. Fló örn til hanga.

Sveinn Haraldsson flýði fyrst til hafs út og svo til Danmerkur og var þar til þess er hann kom sér í sætt við Eystein konung Magnússon. Hann tók Svein í sætt og gerði hann skutilsvein sinn og hafði hann í kærleik og virðingu.

Magnús konungur hafði þá ríki einn saman. Hann friðaði vel fyrir landi sínu og eyddi öllum víkingum og útilegumönnum. Hann var maður röskur og herskár og starfsamur og líkari í öllu Haraldi konungi föðurföður sínum í skaplýsku heldur en föður sínum.


8. Hernaður Magnúss konungs í Suðureyjum

Magnús konungur byrjaði ferð sína úr landi og hafði með sér lið mikið og frítt og góðan skipakost. Hélt hann liði því vestur um haf og fyrst til Orkneyja. Hann tók höndum jarlana Pál og Erlend og sendi þá báða austur í Noreg en setti eftir Sigurð son sinn til höfðingja yfir eyjunum og fékk honum ráðuneyti. Magnús konungur hélt liði sínu til Suðureyja. En er hann kom þar tók hann þegar að herja og brenna byggðina en drap mannfólkið og rændu allt þar er þeir fóru. En landslýður flýði undan víðs vegar en sumir inn í Skotlandsfjörðu en sumir suður í Saltíri eða út til Írlands. Sumir fengu grið og veittu handgöngu.

Svo segir Björn krepphendi:

Lék um Ljóðhús fíkjum
limsorg nær himni.
Vítt var ferð á flótta
fús. Gaus eldr úr húsum.
Ör skjöldungr fór eldi
Ívist. Bændr misstu,
róggeisla vann ræsir
rauðan, lífs og auðar.

Hungrþverrir lét herjað
hríðar gagls á Skíði.
Tönn rauð Tyrvist innan
teitr vargr í ben marga.
Grætti Grenlands drottinn,
gekk hátt Skota stökkvir,
þjóð rann mýlsk til mæði,
meyjar suðr í eyjum.


9. Frá Lögmanni, syni Guðröðar konungs

Magnús konungur kom liði sínu í Eyna helgu og gaf þar grið og frið mönnum öllum og allra manna varnaði. Það segja menn að hann vildi upp lúka Kólumkillakirkju hinni litlu. Og gekk konungur eigi inn og lauk þegar aftur hurðina í lás og mælti að engi skyldi svo djarfur verða síðan að inn skyldi ganga í kirkju þá og hefir síðan svo gert verið.

Þá lagði Magnús konungur liðinu suður til Ílar, herjaði þar og brenndi. En er hann hafði unnið það land þá byrjar hann ferðina suður fyrir Saltíri, herjaði þá á bæði borð á Írland og Skotland, fór svo allt herskildi suður til Manar og herjaði þar sem í öðrum stöðum.

Svo segir Björn krepphendi:

Vítt bar snjallr á slétta
Sandey konungr randir.
Rauk um Íl þá er jóku
allvalds menn á brennur.
Satíri laut sunnar
seggja kind und eggjar.
Sigrgæðir réð síðan
snjallr Manverja falli.

Lögmaður hét sonur Guðröðar Suðureyjakonungs. Lögmaður var settur til landvarnar í Norðureyjum. En er Magnús konungur kom til Suðureyja með her sinn þá flýði Lögmaður undan herinum og var í eyjunum en að lyktum tóku menn Magnúss konungs hann með skipsögn sína þá er hann vildi flýja til Írlands. Lét konungur hann í járn setja og hafa á gæslu.

Svo segir Björn krepphendi:

Hætt vann hvert það er átti
hvarf Guðröðar arfi.
Lönd vann lofðungr Þrænda
Lögmanni þar bannað.
Nýtr fékk nesjum utar
naðrbings tapað finginn
Egða gramr, þar er umdu,
ungr, véttrima tungur.


10. Fall Huga jarls

Síðan hélt Magnús konungur liðinu til Bretlands. En er hann kom í Öngulseyjarsund þá kom þar mót honum her af Bretlandi og réðu jarlar tveir fyrir, Hugi prúði og Hugi digri, og lögðu þegar til orustu. Varð þar harður bardagi. Magnús konungur skaut af boga en Hugi prúði var albrynjaður svo að ekki var bert á honum nema augun ein. Magnús konungur skaut öru að honum og annar háleyskur maður er stóð hjá konungi. Skutu þeir báðir senn. Kom önnur örin í nefbjörg hjálmsins og lagðist hún fyrir út af annan veg en annað skotið kom í auga jarlinum og flaug aftur í gegnum höfuðið og er það konunginum kennt. Féll þar Hugi jarl en síðan flýðu Bretar og höfðu látið lið mikið.

Svo segir Björn krepphendi:

Lífspelli réð laufa
lundr í Öngulssundi,
broddr fló, þar er slög snuddu,
snúðigt, Hugans prúða.

Og enn var þetta kveðið:

Dundi broddr á brynju.
Bragningr skaut af magni.
Sveigði allvaldr Egða
álm. Stökk blóð á hjálma.
Strengs fló hagl í hringa,
hné ferð, en lét verða
Hörða gramr í harðri
hjarlsókn banað jarli.

Magnús konungur fékk sigur í þeirri orustu. Þá eignaðist hann Öngulsey svo sem hinir fyrri konungar höfðu lengst suður eignast ríki, þeir er í Noregi höfðu verið. Öngulsey er þriðjungur Bretlands.

Eftir orustu þessa snýr Magnús konungur aftur liði sínu og hélt fyrst til Skotlands. Þá fóru menn milli þeirra Melkólms Skotakonungs og gerðu þeir sætt milli sín. Skyldi Magnús konungur eignast eyjar allar þær er liggja fyrir vestan Skotland, allar þær er stjórnföstu skipi mætti fara milli og meginlands. En er Magnús konungur kom sunnan til Saltíris þá lét hann draga skútu um Saltíriseið og leggja stýri í lag. Konungur sjálfur settist í lyfting og hélt um hjálmunvöl og eignaðist svo landið það er þá lá á bakborða. Saltíri er mikið land og betra en hin besta ey í Suðureyjum, nema Mön. Eið mjótt er í milli og meginlands á Skotlandi. Þar eru oft dregin langskip yfir.


11. Dauði Orkneyjajarla

Magnús konungur var um veturinn í Suðureyjum. Þá fóru menn hans um alla Skotlandsfjörðu fyrir innan eyjar allar, bæði byggðar og óbyggðar, og eignuðu Noregskonungi eylönd öll. Magnús konungur fékk til handa syni sínum Sigurði Bjaðminju, dóttur Mýrjartaks konungs Þjálbasonar Írakonungs. Hann réð fyrir Kunnöktum. Eftir um sumarið fór Magnús konungur liði sínu austur í Noreg. Erlendur jarl varð sóttdauður í Niðarósi og er þar jarðaður en Páll í Björgyn.

Skofti Ögmundarson Þorbergssonar var lendur maður ágætur. Hann bjó í Giska á Sunn-Mæri. Hann átti Guðrúnu dóttur Þórðar Fólasonar. Börn þeirra voru Ögmundur, Finnur, Þórður, Þóra er átti Ásólfur Skúlason. Synir Skofta voru hinir mannvænstu menn í æsku.


12. Deila Magnúss konungs og Inga konungs

Steinkell Svíakonungur andaðist nær falli Haraldanna. Hákon hét sá konungur er næst var í Svíþjóðu eftir Steinkel konung. Síðan var Ingi konungur sonur Steinkels, góður konungur og ríkur, allra manna mestur og sterkastur. Hann var þá konungur í Svíþjóð er Magnús var í Noregi.

Magnús konungur taldi það hafa verið landaskipti að fornu að Gautelfur hefði skilt ríki Svíakonungs og Noregskonungs en síðan Væni til Vermalands. Taldist Magnús konungur eiga alla þá byggð er fyrir vestan Væni var. Það er Sunndalur og Norðdalur, Véar og Varðynjar og allar Markir er þar liggja til. En það hafði þá langa hríð legið undir Svíakonungs veldi og til Vestra-Gautlands að skyldum en Markamenn vildu vera undir Svíakonungs veldi sem fyrr.

Magnús konungur reið úr Víkinni og upp á Gautland og hafði lið mikið og frítt. En er hann kom í markbyggðina herjaði hann og brenndi, fór svo um allar byggðir. Gekk fólk undir hann og svörðu honum löndin. En er hann kom upp til vatnsins Vænis leið á haustið. Þá fóru þeir út í Kvaldinsey og gerðu þar borg af torfi og viðum og grófu díki um. En er það virki var gert þá var þar flutt í vistir og önnur föng, þau er þyrfti. Konungur setti þar í þrjú hundruð manna og voru þeir höfðingjar fyrir Finnur Skoftason og Sigurður ullstrengur og höfðu hið fríðasta lið en konungur sneri þá út í Víkina.


13. Frá Norðmönnum

En er Svíakonungur spurði þetta þá bauð hann liði saman og fóru þau orð um að hann mundi ofan ríða en það frestaðist.

Þá kváðu Norðmenn þetta:

Alllengi dvelr Ingi
ofanreið hinn þjóbreiði.

En er ísa lagði á vatnið Væni þá reið Ingi konungur ofan og hafði nær þrjá tigu hundraða manna. Hann sendi orð Norðmönnum þeim er í borginni sátu, bað þá fara í brott með fangi því er þeir höfðu og aftur í Noreg. En er sendimenn báru konungsorð þá svarar Sigurður ullstrengur, sagði að Ingi mundi öðru við koma en vísa þeim brott sem hjörð í haga og kvað hann nær áður mundu ganga verða. Sendimenn báru aftur þau orð til konungs. Síðan fór Ingi konungur út í eyna með allan herinn. Þá sendi hann annað sinni menn til Norðmanna og bað þá í brott fara og hafa vopn sín, klæði og hesta en láta eftir ránfé allt. Þeir neittu þessu.

En síðan veittu þeir atgöngu og skutust á. Þá lét konungur bera til grjót og viðu og fylla díkið. Þá lét hann taka akkeri og drengja við ása langa og bera það upp á timburvegginn. Gengu þar til margir menn og drógu sundur vegginn. Þá voru gervar eisur stórar og skotið logandi bröndum að þeim. Þá báðu Norðmenn griða en konungur bað þá út ganga vopnlausa og yfirhafnarlausa en er þeir gengu út þá var hver þeirra sleginn límahögg. Fóru þeir brott við svo búið og heim aftur í Noreg en Markamenn allir snerust þá aftur undir Inga konung. Þeir Sigurður og hans félagar sóttu á fund Magnúss konungs og segja honum sínar ófarar.


14. Orusta á Foxerni

Þegar um vorið er ísa leysti fór Magnús konungur með liði miklu austur til Elfar og hélt upp eftir hinni eystri kvísl og herjaði allt veldi Svíakonungs. En er hann kom upp á Foxerni þá gengu þeir upp á land frá skipum. En er þeir komu yfir á eina, þá er þar verður, þá kom móti þeim her Gauta og varð þar orusta og voru Norðmenn bornir ofurliði og komu á flótta og var drepið mart við foss einn. Magnús konungur flýði en Gautar fylgdu þeim og drápu slíkt er þeir máttu.

Magnús konungur var auðkenndur, manna mestur. Hann hafði rauðan hjúp yfir brynju, hárið silkibleikt og féll á herðar niður. Ögmundur Skoftason reið á aðra hlið konungi. Hann var og manna mestur og fríðastur.

Hann mælti: "Gef mér hjúpinn konungur."

Konungur svarar: "Hvað skal þér hjúpurinn?"

"Eg vil hafa," sagði hann, "gefið hefir þú mér stærrum."

Þar var svo háttað að vellir sléttir voru víða og sáust þeir þá ávallt Gautar og Norðmenn. Þá voru enn kleifar og skógarkjörr og fal þá sýn. Þá fékk konungur Ögmundi hjúpinn og fór hann í. Síðan riðu þeir fram á völluna. Þá sneri Ögmundur þvers í brott og hans menn en er Gautar sáu það þá hugðu þeir það konung vera og riðu þannug allir eftir. Reið þá konungur leið sína til skips en Ögmundur dró nauðulega undan og kom þó heill til skips. Hélt Magnús konungur síðan ofan eftir ánni og svo norður í Víkina.


15. Konungastefna í Elfinni

Annað sumar eftir var lögð konungastefna við Konungahellu í Elfi og kom þar Magnús Noregskonungur og Ingi Svíakonungur, Eiríkur Sveinsson Danakonungur, og var sú stefna bundin með griðum. En er þingið var sett þá gengu konungar fram á völlinn frá öðrum mönnum og töluðust við litla hríð, gengu þá aftur til liðs síns og var þá ger sættin. Skyldi hver þeirra hafa það ríki sem áður höfðu haft feður þeirra en hver þeirra konunga bæta við sína landsmenn rán og mannskaða en hver þeirra síðan jafna við annan. Magnús konungur skyldi fá Margrétar dóttur Inga konungs. Hún var síðan kölluð friðkolla.

Það var mál manna að eigi hefði séð höfðinglegri menn en þeir voru allir. Ingi konungur var einna mestur og þrekulegastur og þótti hann öldurmannlegastur en Magnús konungur þótti skörulegastur og hvatlegastur en Eiríkur konungur var einna fegurstur. En allir voru þeir fríðir, stórir menn og göfuglegir og orðsnjallir.

Og skildust að svo búnu.


16. Kvonfang Magnúss konungs

Magnús konungur fékk Margrétar drottningar. Var hún send austan af Svíþjóð til Noregs og var henni fengið veglegt föruneyti. En Magnús konungur átti áður nokkur börn þau er nefnd eru. Eysteinn hét sonur hans og var hans móðerni lítið. Annar hét Sigurður og var hann vetri yngri. Þóra hét móðir hans. Ólafur hét hinn þriðji og var hann miklu yngstur. Móðir hans var Sigríður dóttir Saxa í Vík, göfugs manns í Þrándheimi. Hún var frilla konungs.

Svo segja menn að þá er Magnús konungur kom úr vesturvíking að hann hafði mjög þá siðu og klæðabúnað sem títt var í Vesturlöndum og margir hans menn. Gengu þeir berleggjaðir um stræti og höfðu kyrtla stutta og svo yfirhafnir. Þá kölluðu menn hann Magnús berfætt eða berbein. Sumir kölluðu hann Magnús háva en sumir Styrjaldar-Magnús. Hann var manna hæstur.

Mark var gert til um hæð hans á Maríukirkju í Kaupangi, þeirri er Haraldur konungur hafði gera látið. Þar á norðurdurum voru klappaðir á steinvegginum krossar þrír, einn Haralds hæð, annar Ólafs hæð, þriðji Magnúss hæð, og það markað hvar þeim var hægst kyssa á, ofast Haralds kross en lægst Magnúss kross en Ólafs mark jafnnær báðum.


17. Ósætt Magnúss konungs og Skofta

Skofti Ögmundarson varð missáttur við Magnús konung og deildu þeir um dánararf nokkurn. Skofti hélt en konungur kallaði til með svo mikilli freku að það var við voða sjálfan. Voru þá að áttar margar stefnur og lagði Skofti það ráð til að þeir feðgar skyldu aldrei allir senn vera á konungs valdi, sagði að meðan mundi hlýða.

Þá er Skofti var fyrir konungi flutti hann það fram að skyld frændsemi var milli þeirra konungs og það með að Skofti hafði verið jafnan kær vinur konungs og aldrei brugðist þeirra vinátta, sagði svo að menn mættu það skilja að hann var svo viti borinn "að eg mun," segir hann, "eigi það mál halda í deilu við þig konungur ef eg mæli rangt. Og því bregður mér til foreldris míns að eg haldi réttu máli fyrir hverjum manni og geri eg þar engi mannamun að."

Konungur var hinn sami og mýktist ekki hans skap við slíkar ræður. Fór Skofti heim.


18. Ferð Finns Skoftasonar

Síðan fór Finnur á konungs fund og talaði við hann og bað konung þess að hann skyldi láta þá feðga ná réttindum af þessu máli. Konungur svaraði styggt og stutt.

Þá mælti Finnur: "Til annars hugði eg af yður konungur en þér munduð gera mig lögræning þá er eg settist í Kvaldinsey er fáir vildu aðrir vinir yðrir og sögðu sem satt var að þeir voru fram seldir er þar sátu og til dauða dæmdir ef Ingi konungur hefði eigi lýst við oss meira höfðingskap en þú hafðir fyrir oss séð og mun þó mörgum sýnast sem vér bærum þaðan svívirðing ef það væri nokkurs vert."

Konungur skipaðist ekki við slíkar ræður og fór Finnur heim.


19. Ferð Ögmundar Skoftasonar

Þá fór Ögmundur Skoftason á fund konungs. En er hann kom fyrir konunginn bar hann upp erindi sín og bað konung gera þeim rétt feðgum. Konungur sagði að það var rétt er hann mælti og þeir væru firna djarfir.

Þá mælti Ögmundur: "Koma muntu konungur þessu áleiðis, að gera oss rangt, fyrir sakir ríkis þíns. Mun það hér sannast sem mælt er að flestir launa illu eða engu er lífið er gefið. Það skal og fylgja mínu máli að aldrei síðan skal eg koma í þína þjónustu og engi vor feðga ef eg ræð."

Fór Ögmundur síðan heim og sáust þeir aldregi og Magnús konungur síðan.


20. Ferð Skofta úr landi

Skofti Ögmundarson byrjar ferð sína um vorið eftir af landi í brott. Hann hafði fimm langskip og öll vel búin. Til þeirrar ferðar réðust með honum synir hans, Ögmundur og Finnur og Þórður. Urðu þeir heldur síðbúnir, sigldu um haustið til Flæmingjalands og voru þar um veturinn. Snemma um vorið sigldu þeir vestur til Vallands og um sumarið sigldu þeir út um Nörvasund og um haustið til Rúmaborgar. Þar andaðist Skofti. Allir önduðust þeir feðgar í þeirri ferð. Þórður lifði lengst þeirra feðga. Hann andaðist í Sikiley. Það er sögn manna að Skofti hafi fyrst siglt Nörvasund Norðmanna og varð sú ferð hin frægsta.


21. Jartegnir

Sá atburður gerðist í Kaupangi þar sem Ólafur konungur hvílir að eldur kom í hús í bænum og brann víða. Þá var borið út úr kirkjunni skrín Ólafs konungs og sett á mót eldinum. Síðan hljóp að maður einn hvatvís og óvitur og barði skrínið og heitaðist við þann helga mann, sagði svo að allt mundi þá upp brenna nema hann byrgi þeim með bænum sínum, bæði kirkjan og önnur hús. Nú lét almáttigur guð við berast bruna kirkjunnar en þeim óvitra manni sendi hann augnaverk þegar eftir um nóttina og lá hann þar allt til þess er hinn heilagi Ólafur konungur bað honum miskunnar við almáttigan guð og bættist honum í þeirri sömu kirkju.


22. Jartegnir Ólafs konungs

Sá atburður varð enn í Kaupangi að kona ein var færð þangað til staðarins þar sem Ólafur konungur hvílir. Hún var svo armsköpuð að hún var kroppnuð öll saman svo að báðir fætur lágu bjúgir við þjóin uppi. Og er hún var iðulega á bænum og hafði heitið á hann grátandi þá bætti hann henni þá miklu vanheilsu að fætur og leggir og aðrir limir réttust úr hlykkjum og þjónaði síðan hver liður og limur réttri skepnu. Mátti hún áður eigi krjúpa þangað en þaðan gekk hún heil og fegin til sinna heimkynna.


23. Hernaður á Írlandi

Magnús konungur byrjar ferð sína af landi og hafði her mikinn. Þá hafði hann verið konungur í Noregi níu vetur. Þá fór hann vestur um haf og hafði hið fríðasta lið er til var í Noregi. Honum fylgdu allir ríkismenn er voru í landinu, Sigurður Hranason, Víðkunnur Jónsson, Dagur Eilífsson, Serkur úr Sogni, Eyvindur ölbogi stallari konungs, Úlfur Hranason bróðir Sigurðar og margir aðrir ríkismenn. Fór konungur með þessu liði öllu vestur til Orkneyja og hafði þaðan með sér sonu Erlends jarls, Magnús og Erling.

Þá sigldi hann til Suðureyja og er hann lá við Skotland þá hljóp Magnús Erlendsson um nótt af skipi konungs og lagðist til lands, fór síðan upp í skóg og kom fram í hirð Skotakonungs.

Magnús konungur hélt liðinu til Írlands og herjaði þar. Þá kom Mýrjartak konungur til liðs við hann og unnu þeir mikið af landinu, Dyflinn og Dyflinnarskíri, og var Magnús konungur um veturinn uppi á Kunnöktum með Mýrjartak konungi en setti menn sína til landsgæslu þar er hann hafði unnið. En er voraði fóru konungarnir með her sinn vestur á Úlastír og áttu þar orustur margar og unnu landið og höfðu unnið mestan hluta af Úlastír. Þá fór Mýrjartak heim á Kunnaktir.


24. Uppganga Magnúss konungs

Magnús konungur bjó þá skip sín og ætlaði austur til Noregs. Hann setti menn sína til gæslu í Dyflinni. Hann lá við Úlastír öllu liði sínu og voru seglbúnir. Þeir þóttust þurfa strandhöggva og sendi Magnús konungur sína menn til Mýrjartaks konungs að hann skyldi senda honum strandhögg, og kvað á dag að koma skyldi, hinn næsta fyrir Barthólómeusmessu ef sendimenn væru heilir. En messudagsaftaninn voru þeir eigi komnir.

En messudaginn þá er sól rann upp gekk Magnús konungur á land með mestum hluta liðs síns og gekk upp frá skipum, vildi leita eftir mönnum sínum og strandhöggvi. Veður var vindlaust og sólskin. Leiðin lá yfir mýrar og fen og voru þar höggnar yfir klappir en kjarrskógar við tveggja vegna. Þá er þeir sóttu fram varð fyrir þeim leiti mjög hátt. Þaðan sáu þeir víða. Þeir sáu jóreyk mikinn upp á landið, ræddu þá milli sín hvort það mundi vera her Íra en sumir sögðu að þar mundu vera menn þeirra með strandhöggvi. Námu þeir þar stað.

Þá mælti Eyvindur ölbogi: "Konungur," segir hann, "hverja ætlan hefir þú á ferð þessi? Óvarlega þykir mönnum þú fara. Veistu að Írar eru sviksamir. Ætla nú ráð nokkuð fyrir liði yðru."

Þá mælti konungur: "Fylkjum nú liði voru og verum við búnir ef þetta eru svik."

Var þá fylkt. Gekk konungur og Eyvindur fyrir fylkingunni. Hafði Magnús konungur hjálm á höfði og rauðan skjöld og lagt á með gulli leó, gyrður sverði því er Leggbítur var kallað, tannhjaltað og gulli vafiður meðalkaflinn, hið besta vopn. Hann hafði kesju í hendi. Hann hafði silkihjúp rauðan yfir skyrtu og skorið fyrir og á bak leó með gulu silki. Og var það mál manna að eigi hefði séð skörulegra mann eða vasklegra. Eyvindur hafði og silkihjúp rauðan og með sama hætti sem konungur. Var hann og mikill maður og fríður og hinn hermannlegsti.


25. Fall Magnúss konungs

En er jóreykurinn nálgaðist þá kenndu þeir sína menn og fóru þeir með strandhöggvi miklu er Írakonungur hafði sent þeim og hélt hann öll sín orð við Magnús konung. Síðan sneru þeir út til skipanna og var þá um miðdegisskeið. En er þeir komu út á mýrarnar fórst þeim seint um fenin.

Þá þusti her Íra fram úr hverju skógarnefi og réðu þegar til bardaga en Norðmenn fóru dreift og féllu brátt margir.

Þá mælti Eyvindur: "Konungur," segir hann, "óheppilega fer lið vort. Tökum nú skjótt gott ráð."

Konungur mælti: "Blási herblástur öllu liðinu undir merkin en það lið sem hér er skjóti á skjaldborg og förum síðan undan á hæli út yfir mýrarnar. Síðan mun ekki saka er vér komum á sléttlendið."

Írar skutu djarflega en þó féllu þeir allþykkt en æ kom maður í manns stað. En er konungur var kominn að neðsta díki, þar var torfæra mikil og fástaðar yfir fært. Féllu þar Norðmenn mjög.

Þá kallar konungur Þorgrím skinnhúfu, lendan mann sinn, hann var upplenskur, og bað hann fara yfir díkið með sína sveit "en vér munum verja meðan," segir hann, "svo að yður skal eigi saka. Farið síðan á hólma þann er þar verður og skjótið á þá meðan vér förum yfir díkið. Eruð þér bogmenn góðir."

En er þeir Þorgrímur komu yfir díkið köstuðu þeir skjöldunum á bak sér og runnu til skipa ofan.

En er konungur sá það mælti hann: "Ódrengilega skilstu við þinn konung. Óvitur var eg þá er eg gerði þig lendan mann en eg gerði útlaga Sigurð hund. Aldrei mundi hann svo fara."

Magnús konungur fékk sár, var lagður kesju í gegnum bæði lærin fyrir ofan kné.

Hann greip skaftið milli fóta sér og braut úr keflið og mælti: "Svo brjótum vér hvern sperrilegginn sveinar."

Magnús konungur var höggvinn á hálsinn með spörðu og var það hans banasár. Þá flýðu þeir er eftir voru.

Víðkunnur Jónsson bar til skipa sverðið Leggbít og merki konungs. Þeir runnu síðast, annar Sigurður Hranason, þriðji Dagur Eilífsson. Þar féllu með Magnúsi konungi Eyvindur ölbogi, Úlfur Hranason og margir aðrir ríkismenn. Mart féll Norðmanna en þó miklu fleira af Írum.

En þeir Norðmenn er undan komust fóru þegar brott um haustið. Erlingur sonur Erlends jarls féll á Írlandi með Magnúsi konungi. En er það lið er flúið hafði af Írlandi kom til Orkneyja og Sigurður spurði fall Magnúss konungs föður síns þá réðst hann þegar til ferðar með þeim og fóru þeir um haustið austur til Noregs.


26. Frá Magnúsi konungi og Víðkunn Jónssyni

Magnús konungur var yfir Noregi tíu vetur og var á hans dögum friður góður innanlands en menn höfðu mjög starfsamt og kostnaðarsamt af leiðöngrum. Var Magnús konungur hinn vinsælsti við sína menn en bóndum þótti hann harður.

Það herma menn frá orðum hans, þá er vinir hans mæltu að hann fór oft óvarlega er hann herjaði utanlands, hann sagði svo: "Til frægðar skal konung hafa en ekki til langlífis."

Magnús konungur var nær þrítugur að aldri þá er hann féll. Víðkunnur drap þann mann í orustu er banamaður var Magnúss konungs. Þá flýði Víðkunnur og hafði fengið þrjú sár. Og af þessum sökum tóku synir Magnúss konungs hann í hinn mesta kærleik.
Netútgáfan - nóvember 1999