ÓLAFS  SAGA  TRYGGVASONAR
1. Hér hefur upp sögu Ólafs konungs Tryggvasonar

Ástríður hét kona sú er átt hafði Tryggvi konungur Ólafsson. Hún var dóttir Eiríks bjóðaskalla er bjó á Oprustöðum, ríks manns. En eftir fall Tryggva þá flýði Ástríður á brott og fór á launungu með lausafé það er hún mátti með sér hafa. Henni fylgdi fósturfaðir hennar sá er Þórólfur lúsarskegg hét. Hann skildist aldrei við hana en aðrir trúnaðarmenn hennar fóru á njósn, hvað spurðist af óvinum hennar eða hvar þeir fóru. Ástríður gekk með barni Tryggva konungs. Hún lét flytja sig út í vatn eitt og leyndist þar í hólma nokkurum og fáir menn með henni. Þar fæddi hún barn. Það var sveinn. En er hann var vatni ausinn þá var hann kallaður Ólafur eftir föðurföður sínum.

Þar leyndist hún um sumarið en er nótt myrkti og dag tók að skemma en veður að kólna þá byrjaði Ástríður ferð sína og Þórólfur með henni og fátt manna, fóru það eina með byggðum er þau leyndust um nætur og fundu enga menn. Þau komu fram einn dag að kveldi til Eiríks á Oprustöðum, föður Ástríðar. Þau fóru leynilega. Sendi Ástríður menn til bæjarins að segja Eiríki en hann lét fylgja þeim í eina skemmu og setja þeim borð við hinum bestum föngum.

En er þau Ástríður höfðu þar dvalist litla hríð þá fór brott föruneyti hennar en hún var eftir og tvær þjónustukonur með henni og sonur hennar Ólafur, Þórólfur lúsarskegg og Þorgísl sonur hans, sex vetra gamall. Þau voru þar um veturinn.


2. Frá Gunnhildarsonum

Haraldur gráfeldur og Guðröður bróðir hans fóru eftir dráp Tryggva konungs til búa þeirra er hann hafði átt en þá var Ástríður í brottu og spurðu þeir ekki til hennar. Sá pati kom fyrir þá að hún mundi vera með barni Tryggva konungs. Fóru þeir um haustið norður í land svo sem fyrr er ritið.

En er þeir fundu Gunnhildi móður sína sögðu þeir alla atburði um þessi tíðindi er þá höfðu gerst í för þeirra. Hún spurði að vendilega þar sem var Ástríður. Þeir segja slíkan kvitt þar af sem þeir höfðu heyrt. En fyrir þá sök að það haust hið sama áttu Gunnhildarsynir deilu við Hákon jarl og svo um veturinn eftir, sem fyrr er ritið, varð þá engi eftirleitan höfð um Ástríði og son hennar á þeim vetri.


3. Ferð Ástríðar

Eftir um vorið sendi Gunnhildur njósnarmenn til Upplanda og allt í Víkina að njósna um það hvað um hag Ástríðar mundi vera. En er sendimenn koma aftur þá kunnu þeir það helst að segja Gunnhildi að Ástríður mundi vera við föður sínum Eiríki, segja og þess meiri von að hún muni þar upp fæða son þeirra Tryggva konungs.

Þá gerir Gunnhildur þegar sendimenn og býr þá vel að vopnum og hestum og hafa þeir þrjá tigu manna og var þar til forráða ríkur maður, vinur Gunnhildar, er Hákon er nefndur. Hún bað þá fara á Oprustaði til Eiríks og hafa þaðan son Tryggva konungs og færa henni. Þá fara sendimenn alla leið sína.

En er þeir áttu skammt til Oprustaða þá verða varir við ferð þeirra vinir Eiríks og báru honum njósn um ferð sendimanna að kveldi dags.

En þegar um nóttina bjó Eiríkur brottferð Ástríðar, fékk henni góða leiðtoga og sendi hana austur til Svíþjóðar á fund Hákonar hins gamla, vinar síns, ríks manns. Fóru þau í brott er mikið lifði nætur.

Þau komu að kveldi dags í hérað er Skaun heitir og sáu þar bæ mikinn og fóru þannug til og báðu sér næturvistar. Þau duldust og höfðu vond klæði. Sá bóndi er nefndur Björn eiturkveisa, auðigur maður og illur þegn. Hann rak þau í brott.

Fóru þau um kveldið í annað þorp skammt þaðan er hét í Viskum. Þorsteinn hét þar bóndi sá er þau herbergði og veitti þeim góðan forbeina um nóttina. Sváfu þau í góðum umbúnaði.


4. Frá sendimönnum

Hákon og þeir sendimenn Gunnhildar komu á Oprustaði snemma um morgun og spyrja að Ástríði og syni hennar. Eiríkur segir að hún er ekki þar. Þeir Hákon rannsökuðu bæinn og dvöldust lengi um daginn og fá nokkura njósn um ferð Ástríðar, ríða þá sömu leið og koma síð um kveldið til Bjarnar eiturkveisu í Skaun, taka þar gisting. Þá spyr Hákon Björn ef hann kynni honum nokkuð segja til Ástríðar.

Hann segir að þar komu menn um daginn og báðu gistingar "en eg rak þau brott og munu þau vera herbergð hér nokkur í þorpinu."

Verkmaður Þorsteins fór um kveldið úr skógi og kom til Bjarnar því að það var á leið hans. Varð hann var við að þar voru gestir og svo hvert erindi þeirra var. Hann segir Þorsteini bónda.

En er lifði þriðjungur nætur vakti Þorsteinn upp gesti sína og bað þau brott fara, mælti stygglega. En er þau voru komin á veg út úr garðinum þá segir Þorsteinn þeim að sendimenn Gunnhildar voru að Bjarnar og fóru þeirra að leita. Þau báðu hann hjálpar nokkurrar. Hann fékk þeim leiðtoga og vist nokkura. Fylgdi sá þeim fram á skóginn þar sem var vatn nokkuð og hólmi einn í, reyri vaxinn. Þau máttu vaða í hólminn út. Þar fálu þau sig í reyrinum.

Snemma dags reið Hákon frá Bjarnar í byggðina og hvar sem hann kom spurði hann eftir Ástríði. En er hann kom til Þorsteins þá spyr hann ef þau séu þar komin. Hann segir að þar voru menn nokkurir og fóru móti degi austur á skóginn. Hákon bað Þorstein fara með þeim er honum var leið kunnig eða leyni. Þorsteinn fór með þeim en er hann kom í skóginn vísaði hann þeim þvert frá því sem Ástríður var. Fóru þeir þann dag allan að leita og fundu þau eigi, fara aftur síðan og segja Gunnhildi sitt erindi.

Ástríður og hennar föruneyti fóru leið sína og komu fram í Svíþjóð til Hákonar gamla. Dvaldist Ástríður þar og sonur hennar Ólafur langa hríð í góðum fagnaði.


5. Sendiferð Hákonar

Gunnhildur konungamóðir spyr að Ástríður og Ólafur sonur hennar eru í Svíaveldi. Þá sendi hún enn Hákon og gott föruneyti með honum austur til Eiríks Svíakonungs með góðar gjafar og vináttumál. Var þar við sendimönnum vel tekið. Voru þeir þar í góðu yfirlæti.

Síðan ber Hákon upp fyrir konungi erindi sín, segir að Gunnhildur hafði til þess orð send að konungur skyldi styrkt fá hann svo að hann hafi með sér Ólaf Tryggvason til Noregs, "vill Gunnhildur fóstra hann."

Konungur fær honum menn og ríða þeir á fund Hákonar gamla. Býður Hákon Ólafi að fara við sér með vinsamlegum orðum mörgum. Hákon gamli svarar vel og segir að móðir hans skal ráða ferð hans en Ástríður vill fyrir engan mun að sveinninn fari. Fara sendimenn í brott og segja svo búið Eiríki konungi.

Síðan búast sendimenn að fara heim, biðja enn konung að fá sér styrk nokkurn að hafa sveininn brott hvort sem Hákon gamli vill eða eigi. Fær konungur þeim enn sveit manna. Koma sendimenn til Hákonar gamla og krefja þá að sveinninn fari við þeim. En er því var seint tekið þá hafa þeir fram mikilmæli og heita afarkostum og láta reiðulega. Þá hleypur fram þræll einn er Bursti er nefndur og vill ljósta Hákon og komast þeir nauðulega í brott óbarðir af þrælinum, fara síðan heim til Noregs og segja sína ferð Gunnhildi og svo að þeir hafa séð Ólaf Tryggvason.


6. Frá Sigurði Eiríkssyni

Sigurður hét bróðir Ástríðar, sonur Eiríks bjóðaskalla. Hann hafði þá lengi verið af landi brott og verið austur í Garðaríki með Valdimar konungi. Hafði Sigurður þar metnað mikinn. Fýstist Ástríður að fara þannug til Sigurðar bróður síns. Fékk Hákon gamli henni gott föruneyti og öll góð föng. Fór hún með kaupmönnum nokkurum. Þá hafði hún verið tvo vetur með Hákoni gamla. Ólafur var þá þrevetur.

En er þau héldu austur í hafið þá komu að þeim víkingar. Það voru Eistur. Hertóku þeir bæði menn og fé en drápu suma en sumum skiptu þeir með sér til ánauðar. Þar skildist Ólafur við móður sína og tók við honum Klerkón, eistneskur maður, og þeim Þórólfi og Þorgísli.

Klerkóni þótti Þórólfur gamall til þræls, þótti og ekki forverk í honum og drap hann en hafði sveinana með sér og seldi þeim manni er Klerkur hét og tók fyrir hafur einn vel góðan. Hinn þriðji maður keypti Ólaf og gaf fyrir vesl gott eða slagning. Sá hét Réas en kona hans hét Rékon en sonur þeirra Rékoni. Þar var Ólafur lengi og vel haldinn og unni búandi honum mikið. Ólafur var sex vetur á Eistlandi í þessari útlegð.


7. Frelstur Ólafur af Eistlandi

Sigurður Eiríksson kom til Eistlands í sendiferð Valdimars konungs af Hólmgarði og skyldi hann heimta þar í landi skatta konungs. Fór Sigurður ríkulega með marga menn og mikið fé. Hann sá á torgi svein fríðan mjög og skildi að sá mundi þar útlendur og spyr hann að nafni og ætt sinni.

Hann nefndi sig Ólaf en Tryggva Ólafsson föður sinn en móður sína Ástríði dóttur Eiríks bjóðaskalla. Þá kannaðist Sigurður við að sveinninn var systurson hans. Þá spurði Sigurður sveininn hví hann væri þar kominn. Ólafur sagði honum alla atburði um sitt mál. Sigurður bað hann fylgja sér til Réas búanda. En er hann kom þar þá keypti hann sveinana báða, Ólaf og Þorgísl, og hafði með sér til Hólmgarðs og lét ekki uppvíst um ætt Ólafs en hélt hann vel.


8. Dráp Klerkóns

Ólafur Tryggvason var staddur einn dag á torgi. Var þar fjölmenni mikið. Þar kenndi hann Klerkón er drepið hafði fóstra hans, Þórólf lúsarskegg. Ólafur hafði litla öxi í hendi og setti í höfuð Klerkóni svo að stóð í heila niðri, tók þegar á hlaup heim til herbergis og sagði Sigurði frænda sínum en Sigurður kom Ólafi þegar í herbergi drottningar og segir henni tíðindi. Hún hét Allógía. Sigurður bað hana hjálpa sveininum. Hún svaraði og leit á sveininn, segir að eigi má drepa svo fríðan svein, bað kalla menn til sín með alvæpni.

Í Hólmgarði var svo mikil friðhelgi að það voru lög að drepa skyldi hvern er mann drap ódæmdan. Þeystist allur lýður eftir sið þeirra og lögum og leitaði eftir sveininum hvar hann var kominn. Þá var sagt að hann var í garði drottningar og þar her manns alvopnaður. Var þá sagt konungi. Gekk hann þá til með sínu liði og vildi eigi að þeir berðust. Kom hann þá griðum á og því næst sættum. Dæmdi konungur bætur en drottning hélt upp gjöldum. Síðan var Ólafur með drottningu og var hún allkær til hans.

Það voru lög í Garðaríki að þar skyldu ekki vera konungbornir menn nema að konungs ráði. Þá segir Sigurður drottningu hverrar ættar Ólafur var og fyrir hverja sök hann var þar kominn, að hann mátti ekki vera heima í sínu landi fyrir ófriði, bað hana þetta ræða við konung. Hún gerði svo, bað konung hjálpa við konungssyni þessum, svo harðlega sem hann var leikinn, og komu svo fortölur hennar að konungur játti henni þessu, tók þá Ólaf í sitt vald og hélt hann veglega svo sem konungssyni byrjaði að vera haldinn.

Ólafur var níu vetra er hann kom í Garðaríki en dvaldist þar með Valdimar konungi aðra níu vetur. Ólafur var allra manna fríðastur og mestur, sterkastur og umfram alla menn að íþróttum, þá er frá er sagt af Norðmönnum.


9. Frá Hákoni jarli

Hákon jarl Sigurðarson var með Haraldi Gormssyni Danakonungi um veturinn eftir er hann hafði flúið Noreg fyrir Gunnhildarsonum.

Hákon hafði svo stórar áhyggjur um veturinn að hann lagðist í rekkju og hafði andvökur miklar, át og drakk það einu er hann mátti halda við styrk sinn. Þá sendi hann menn sína leynilega norður í Þrándheim til vina sinna og lagði ráð fyrir þá að þeir skyldu drepa Erling konung er þeir mættu við komast, sagði að hann mundi aftur hverfa til ríkis síns þá er sumraði. Þann vetur drápu Þrændir Erling sem fyrr er ritað.

Með Hákoni og Gull-Haraldi var kær vinátta. Bar Haraldur fyrir Hákon ráðagerðir sínar. Sagði Haraldur að hann vildi þá setjast að landi og vera eigi lengur á herskipum. Spurði hann Hákon hvað hann hygði, hvort Haraldur konungur mundi vilja skipta ríki við hann ef hann krefði.

"Það hygg eg," segir Hákon, "að Danakonungur muni engra varna þér réttinda en þó veistu þá gerr þetta mál ef þú ræðir fyrir konungi. Vænti eg að þú fáir eigi ríkið ef þú krefur eigi."

Brátt eftir þessa ræðu talaði Gull-Haraldur við Harald konung svo að nær voru margir ríkismenn, beggja vinir. Krafði þá Gull-Haraldur Harald konung að hann skipti ríki við hann í helminga svo sem burðir hans voru til og ætt þar í Danaveldi.

Við þetta ákall varð Haraldur konungur reiður mjög, sagði að engi maður krefði þess Gorm konung, föður hans, að hann skyldi gerast hálfkonungur yfir Danaveldi, eigi heldur hans föður Hörða-Knút eða Sigurð orm í auga eða Ragnar loðbrók, gerði sig þá svo reiðan og óðan að ekki mátti við hann mæla.


10. Frá Gull-Haraldi

Gull-Haraldur undi þá miklu verr en áður. Hann hafði þá ekki ríki heldur en fyrr en reiði konungs. Kom hann þá til Hákonar, vinar síns, og kærði sín vandræði fyrir honum og bað hann heillaráða ef til væru, þau er hann mætti ríki ná, sagði að hann hafði það helst hugsað að sækja ríki með styrk og vopnum.

Hákon bað hann það fyrir engum manni mæla svo að spyrðist, "liggur þar líf yðart við. Hugsa þetta með sjálfum þér til hvers þú munt fær verða. Þarf til slíkra stórræða að maður sé djarfur og öruggur, spara hvorki til góða hluti né illa, að þá megi fram ganga það er upp er tekið. En hitt er ófært að hefja upp stór ráð og leggja niður síðan með ósæmd."

Gull-Haraldur svarar: "Svo skal eg þetta upp taka tilkallið að eigi skal eg mínar hendur til spara að drepa konung sjálfan, ef eg kem í færi, með því er hann vill synja mér þess ríkis er eg á að hafa að réttu."

Skilja þeir þá ræðu sína.

Haraldur konungur gekk þá til fundar við Hákon og taka þeir tal sitt. Segir konungur jarli hvert ákall Gull-Haraldur hefir haft við hann til ríkis og svör þau er hann veitti, segir svo að hann vill fyrir engan mun minnka ríki sitt "en ef Gull-Haraldur vill nokkuð halda á þessu tilkalli þá er mér lítið fyrir að láta drepa hann því að eg trúi honum illa ef hann vill eigi af þessu láta."

Jarl svarar: "Það hygg eg að Haraldur hafi svo fremi þetta upp kveðið að hann muni eigi þetta láta niður falla. Er mér þess von ef hann reisir ófrið hér í landi að honum verði gott til liðs og mest fyrir sakir vinsælda föður hans. En það er yður hin mesta ófæra að drepa frænda yðarn því að allir munu hann kalla saklausan að svo búnu. Eigi vil eg og það mitt ráð kalla að þú gerir þig minna konung en faðir þinn var, Gormur. Jók hann og mjög sitt ríki en minnkaði í engan stað."

Þá segir konungur: "Hvert er þá þitt ráð Hákon? Skal eg eigi miðla ríki og ráða eigi af hendi mér þenna ugg?"

"Við skulum finnast nokkurum dögum síðar," segir Hákon jarl, "vil eg hugsa áður þetta vandamál og veita þá nokkurn úrskurð."

Gekk þá konungur í brott og allir hans menn.


11. Ráðagerð Haralds honungs og Hákonar jarls

Hákon jarl hafði nú af nýju hinar mestu áhyggjur og ráðagerðir og lét fá menn vera í húsinu hjá sér.

Fám dögum síðar kom Haraldur konungur til jarls og taka þeir þá tal. Spyr konungur ef jarl hafi hugsað þá ræðu er þeir komu á fyrra dags.

"Þar hefi eg," segir jarl, "vakað um dag og nótt síðan og finnst mér það helst ráð að þú hafir og stýrir ríki því öllu er faðir þinn átti og þú tókst eftir hann en fá Haraldi frænda þínum í hendur annað konungsríki, það er hann megi sæmdarmaður af verða."

"Hvert er það ríki," segir konungur, "er eg má heimillega fá Haraldi ef eg hefi óskert Danaveldi?"

Jarl segir: "Það er Noregur. Konungar þeir, er þar eru, eru illir öllu landsfólki. Vill hver maður þeim illt sem vert er."

Konungur segir: "Noregur er land mikið og hart fólk og er illt að sækja við útlendan her. Gafst oss svo þá er Hákon varði landið. Létum vér lið mikið en varð engi sigur unninn. Er Haraldur Eiríksson fóstursonur minn og knésetningur."

Þá segir jarl: "Löngu vissi eg það að þér höfðuð oft veittan styrk Gunnhildarsonum en þeir hafa yður þó engu launað nema illu. Vér skulum komast miklu léttlegar að Noregi en berjast til með allan Danaher. Sendu boð Haraldi fóstursyni þínum. Bjóð honum að taka af þér land og lén það sem þeir höfðu fyrr hér í Danmörk. Stefn honum á þinn fund. Nú má Gull-Haraldur þá litla stund afla ríkis í Noregi af Haraldi konungi gráfeld."

Konungur segir að þetta mun kallað illt verk að svíkja fósturson sinn.

"Það munu Danir kalla," segir jarl, "að betra er það skipti að drepa víking norrænan heldur en bróðurson sinn danskan."

Tala þeir nú hér um langa hríð þar til er þetta semst með þeim.


12. Sendiboð Haralds Gormssonar til Noregs

Gull-Haraldur kom enn til tals við Hákon.

Segir jarl honum að hann hefir nú fylgt hans málum svo að meiri von er að nú muni konungsríki liggja laust fyrir honum í Noregi. "Skulum við þá," segir hann, "halda félagsskap okkrum. Mun eg þá mega veita þér mikið traust í Noregi. Hafðu fyrst það ríki. Haraldur konungur er nú gamall mjög en hann á þann einn son er hann ann lítið og frillusonur er."

Talar jarl þetta fyrir Gull-Haraldi þar til er hann lætur sér þetta vel líka.

Síðan tala þeir oftlega allir, konungur og jarl og Gull-Haraldur.

Síðan sendi Danakonungur menn sína norður í Noreg á fund Haralds gráfelds. Var sú ferð búin allveglega. Fengu þeir þar góðar viðtökur og fundu Harald konung. Segja þeir þau tíðindi að Hákon jarl er í Danmörk og liggur banvænn og nær örviti og þau önnur tíðindi að Haraldur Danakonungur bauð til sín Haraldi gráfeld, fóstursyni sínum, og taka þar af sér veislur, svo sem þeir bræður höfðu fyrr haft þar í Danmörk, og bað Harald koma til sín og finna sig á Jótlandi.

Haraldur gráfeldur bar þetta mál fyrir Gunnhildi og aðra vini sína. Lögðu menn þar allmisjafnt til. Sumum þótti þessi för ekki trúleg, svo sem þar var mönnum fyrir skipað. Hinir voru fleiri er fýstu að fara skyldi því að þá var svo mikill sultur í Noregi að konungar fengu varlega fætt lið sitt. Þá fékk fjörðurinn það nafn er konungar sátu oftast að hann hét Harðangur.

Árferð var í Danmörk til nokkurrar hlítar. Hugðust menn þaðan mundu föng fá ef Haraldur konungur fengi þar lén og yfirsókn. Var það ráðið áður sendimenn fóru í brott að Haraldur konungur mundi koma til Danmerkur um sumarið á fund Danakonungs og taka af honum þenna kost sem bauð Haraldur konungur.


13. Svikræði Haralds konungs og Hákonar jarls við Gull-Harald

Haraldur gráfeldur fór um sumarið til Danmerkur og hafði þrjú langskip. Þar stýrði einu Arinbjörn hersir úr Fjörðum. Haraldur konungur sigldi út úr Víkinni og til Limafjarðar og lagðist þar að Hálsi. Var honum sagt að Danakonungur mundi þar koma brátt.

En er þetta frá Gull-Haraldur þá heldur hann þannug með níu skipum. Hann hafði áður búið lið það að fara í víking. Hákon jarl hafði þá og búið sitt lið og ætlaði og í víking. Hafði hann tólf skip og öll stór.

En er Gull-Haraldur var brott farinn þá segir Hákon jarl konungi: "Nú veit eg eigi nema vér róum leiðangurinn og gjöldum leiðvítið. Nú mun Gull-Haraldur drepa Harald gráfeld. Síðan mun hann taka konungdóm í Noregi. Ætlar þú hann þér þá tryggvan ef þú færð honum svo mikinn styrk? En hann mælti það í vetur fyrir mér að hann mundi drepa þig ef hann kæmist í færi. Nú mun eg vinna Noreg undir þig og drepa Gull-Harald ef þú vilt því heita mér að eg skuli auðveldlega sættast við yður fyrir það. Vil eg þá gerast yðar jarl og binda það svardögum og vinna Noreg undir yður með yðrum styrk, halda síðan landinu undir yðar ríki og gjalda yður skatta, og ertu þá meiri konungur en þinn faðir ef þú ræður tveim þjóðlöndum."

Þetta semst með þeim konungi og jarli. Fer þá Hákon með liði sínu að leita Gull-Haralds.


14. Fall Haralds konungs gráfelds að Hálsi

Gull-Haraldur kom til Háls í Limafirði. Bauð hann þegar Haraldi gráfeld til orustu. En þótt Haraldur hefði lið minna þá gekk hann þegar á land og bjóst til orustu, fylkti liði sínu. En áður fylkingar gengu saman þá eggjar Haraldur gráfeldur hart lið sitt og bað þá bregða sverðum, hljóp þegar fram í öndverða fylking og hjó til beggja handa.

Svo segir Glúmur Geirason í Gráfeldardrápu:

Mælti mætra hjalta
málm-Óðinn sá, blóði,
þróttar orð, er þorði
þjóðum völl að rjóða.
Víðlendr um bað vinda
verðung Haraldr sverðum,
frægt þótti það flotnum
fylkis orð, að morði.

Þar féll Haraldur gráfeldur. Svo segir Glúmur Geirason:

Varð á víðu borði
viggjum hollr að liggja
gætir Glamma sóta
garðs Eylima fjarðar.
Sendir féll á sandi
sævar báls að Hálsi.
Olli jöfra spjalli
orðheppinn því morði.

Þar féll flest lið Haralds konungs með honum. Þar féll Arinbjörn hersir.

Þá var liðið frá falli Hákonar Aðalsteinsfóstra fimmtán vetur en frá falli Sigurðar Hlaðajarls þrettán vetur.

Svo segir Ari prestur Þorgilsson að Hákon jarl væri þrettán vetur yfir föðurleifð sinni í Þrándheimi áður Haraldur gráfeldur féll en sex vetur hina síðustu er Haraldur gráfeldur lifði segir Ari að Gunnhildarsynir og Hákon börðust og stukku ýmsir úr landi.


15. Dauði Gull-Haralds

Hákon jarl og Gull-Haraldur fundust litlu síðar en Haraldur gráfeldur féll. Leggur þá Hákon jarl til orustu við Gull-Harald. Fær Hákon þar sigur en Haraldur var handtekinn og lét Hákon hann festa á gálga. Síðan fór Hákon jarl á fund Danakonungs og sættist við hann auðveldlega um dráp Gull-Haralds frænda hans.

Síðan býr Haraldur konungur her út um allt sitt ríki og fór með sex hundruð skipa. Þar var þá með honum Hákon jarl og Haraldur grenski sonur Guðröðar konungs og mart annarra ríkismanna, þeirra er flúið höfðu óðul sín fyrir Gunnhildarsonum úr Noregi. Hélt Danakonungur her sínum sunnan í Víkina og gekk landsfólk allt undir hann.

En er hann kom til Túnsbergs þá dreif til hans mikið fjölmenni. Og fékk Haraldur konungur lið það allt í hendur Hákoni jarli er til hans hafði komið í Noregi og gaf honum til forráða Rogaland og Hörðaland, Sogn, Firðafylki, Sunn-Mæri og Raumsdal og Norð-Mæri.

Þessi sjö fylki gaf Haraldur konungur Hákoni jarli til forráða með þvílíkum formála sem Haraldur hinn hárfagri gaf sonum sínum, nema það skildi að Hákon skyldi eignast þar og svo í Þrándheimi öll konungsbú og landskyldir. Hann skyldi og hafa konungsfé sem hann þyrfti ef her væri í landi.

Haraldur konungur gaf Haraldi grenska Vingulmörk, Vestfold og Agðir til Líðandisness og konungsnafn og lét hann þar hafa ríki með öllu slíku sem að fornu höfðu haft frændur hans og Haraldur hinn hárfagri gaf sonum sínum. Haraldur grenski var þá átján vetra og varð síðan frægur maður.

Fer þá Haraldur Danakonungur heim með allan Danaher.


16. Ferð Gunnhildarsona úr landi

Hákon jarl fór með liði sínu norður með landi.

En er Gunnhildur og synir hennar spurðu þessi tíðindi þá safna þau her og varð þeim illt til liðs. Tóku þau enn hið sama ráð sem fyrr, sigla vestur um haf með það lið er þeim vildi fylgja, fara fyrst til Orkneyja og dvöldust þar um hríð. Þar voru áður jarlar synir Þorfinns hausakljúfs, Hlöðvir og Arnfinnur, Ljótur og Skúli. Hákon jarl lagði þá land allt undir sig og sat þann vetur í Þrándheimi.

Þess getur Einar skálaglamm í Velleklu:

Sjö fylkjum kom silkis,
snúnaðr var það, brúna
geymir grundar síma
grandvar und sig, landi.

Hákon jarl, er hann fór sunnan með landi um sumarið og landsfólk gekk undir hann, þá bauð hann það um ríki sitt allt að menn skyldu halda upp hofum og blótum og var svo gert.

Svo segir í Velleklu:

Öll lét senn hinn svinni
sönn Einriða mönnum
herjum kunn um herjuð
hofs lönd og vé banda,
áðr veg jötna vitni
valfalls, um sjá allan,
þeim stýra goð, geira
garðs Hlórriði farði.

Og herþarfir hverfa,
Hlakkar móts, til blóta,
rauðbríkar fremst rækir
ríkr, ásmegir, slíku.
Nú grær jörð sem áðan.
Aftr geirbrúar hafta
auðrýrir lætr áru
óhryggja vé byggja.

Nú liggr allt und jarli,
ímunborðs, fyr norðan,
veðrgæðis stendr víða,
Vík, Hákonar ríki.

Hinn fyrsta vetur er Hákon réð fyrir landi þá gekk síld upp um allt land og áður um haustið hafði korn vaxið hvar sem sáið hafði verið. En um vorið öfluðu menn sér frækorna svo að flestir bændur söru jarðir sínar og varð það brátt árvænt.


17. Orusta

Ragnfröður konungur sonur Gunnhildar og Guðröður, annar sonur Gunnhildar, þeir tveir voru þá á lífi sona Eiríks og Gunnhildar.

Svo segir Glúmur Geirason í Gráfeldardrápu:

Fellumk hálf, þá er hilmis
hjördrífa brá lífi,
réðat oss til auðar,
auðvon, Haralds dauði.
En eg veit að hefir heitið
hans bróðir mér góðu,
sjá getr þar til sælu
seggfjöld, hvaðartveggi.

Ragnfröður byrjaði ferð sína um vorið þá er hann hafði einn vetur verið í Orkneyjum. Hélt hann þá vestan til Noregs og hafði frítt lið og skip stór. En er hann kom í Noreg þá spurði hann að Hákon jarl var í Þrándheimi. Hélt Ragnfröður þá norður um Stað og herjaði um Sunn-Mæri en sumt fólk gekk undir hann sem oft verður þá er herflokkar ganga yfir land að þeir er fyrir eru leita sér hjálpar hver þannug sem vænst þykir.

Hákon jarl spyr þessi tíðindi, að ófriður var suður um Mæri. Réð jarl þá til skipa og lét skera upp herör, býst sem hvatlegast og hélt út eftir firði. Varð honum gott til liðs.

Varð fundur þeirra Ragnfröðar og Hákonar jarls á Sunn-Mæri norðarlega. Hélt Hákon þegar til orustu. Hann hafði lið meira og skip smærri. Orusta varð hörð og veitti Hákoni þyngra. Þeir börðust um stafna sem þar var siður til. Straumur var í sundinu og hóf öll skipin saman inn að landinu. Jarl lét og hamla að landi þar er honum þótti best til uppgöngu. En er skipin kenndu niður þá gekk jarl og allt lið hans af skipunum og drógu upp svo að óvinir þeirra skyldu eigi mega út draga. Síðan fylkti jarl á vellinum og eggjaði Ragnfröð til uppgöngu. Þeir Ragnfröður lögðu utan að og skutust á langa hríð. Vildi Ragnfröður ekki á land ganga og skildust að svo búnu.

Hélt Ragnfröður sínu liði suður um Stað því að hann óttaðist landher ef drifi til Hákonar jarls. En jarl lagði fyrir því eigi oftar til orustu að honum þótti borðamunur of mikill. Fór hann þá um haustið norður til Þrándheims og var þar um veturinn en Ragnfröður konungur hafði þá allt fyrir sunnan Stað, Firðafylki, Sogn, Hörðaland, Rogaland. Hafði hann fjölmenni mikið um veturinn. Og er voraði bauð hann leiðangri út og fékk lið mikið. Fór hann þá um öll þau fylki að afla sér liðs og skipa og annarra fanga, þeirra er hann þurfti.


18. Orusta í Sogni

Hákon jarl bauð liði út þá er voraði, allt norðan úr landi. Hann hafði mikið lið af Hálogalandi og Naumudali, svo allt frá Byrðu til Staðs hafði hann lið af öllum sjálöndum. Honum dróst her um öll Þrændalög, svo um Raumsdal. Svo er að kveðið að hann hafði her af fjórum fólklöndum. Honum fylgdu sjö jarlar og höfðu þeir allir saman ógrynni liðs.

Svo segir í Velleklu:

Hitt var meir, að Mæra
morðfíkinn lét norðan
fólkverjandi fyrva
för til Sogns um görva.
Ýtti Freyr af fjórum
fólklöndum, sá branda
Ullr stóð á því, allri
yrþjóð Héðins byrjar.

Og til móts á Meita
mjúkhurðum fram þurðu
með svörgæli Sörva
sjö landrekar randa.
Glumdi allr, þá er Ullar
eggþings Héðins veggjar,
gnótt flaut nás fyr nesjum,
Nóregr, saman fóru.

Hákon jarl hélt liði þessu öllu suður um Stað. Þá spurði hann að Ragnfröður konungur með her sinn væri farinn inn í Sogn, sneri þá þannug sínu liði og varð þar fundur þeirra Ragnfröðar. Lagði jarl skipum sínum að landi og haslaði völl Ragnfröði konungi og tók orustustað.

Svo segir í Velleklu:

Varð fyr Vinda myrði
víðfrægt, en gramr síðan
gerðist mest að morði,
mannfall við styr annan.
Hlym-Narfi bað hverfa
hlífar flagðs og lagði
Jálks við öndurt fylki
öndur förf að landi.

Þar varð allmikil orusta. Hafði Hákon jarl lið miklu meira og fékk sigur. Þetta var á Þinganesi þar er mætist Sogn og Hörðaland. Ragnfröður konungur flýði til skipa sinna en þar féll af liði hans þrjú hundruð manna.

Svo segir í Velleklu:

Ströng varð gunnr, áðr gunnar
gammi nás und hramma
þröngvimeiðr um þryngvi
þrimr hundruðum lunda.
Knátti hafs að höfðum,
hagnaðr var það, bragna
fólkeflandi fylkir
fangsæll þaðan ganga.

Eftir orustu þessa flýði Ragnfröður konungur úr Noregi en Hákon jarl friðaði land og lét fara aftur norður her þann hinn mikla er honum hafði fylgt um sumarið en hann dvaldist þar um haustið og um veturinn.


19. Kvonfang Hákonar jarls

Hákon jarl gekk að eiga konu þá er hét Þóra, dóttir Skaga Skoftasonar, ríks manns. Þóra var allra kvinna fríðust. Þeirra synir voru Sveinn og Hemingur. Bergljót hét dóttir þeirra er síðan átti Einar þambarskelfir.

Hákon jarl var kvinnamaður mikill og átti mörg börn. Ragnhildur hét dóttir hans. Hana gifti hann Skofta Skagasyni bróður Þóru. Jarl unni Þóru svo mikið að hann gerði sér svo miklu kærri en aðra menn frændur Þóru og var þó Skofti mágur hans mest metinn af öllum frændum hennar. Jarl veitti honum stórar veislur á Mæri. En hvert sinn er þeir voru í leiðangri þá skyldi Skofti leggja skip sitt næst skipi jarls en engum skyldi það hlýða að leggja skip milli skipa þeirra.


20. Fall Tíðinda-Skofta

Það var á einu sumri er Hákon jarl hafði leiðangur úti, þá stýrði þar skipi með honum Þorleifur spaki. Eiríkur var og þar í fór. Var hann þá tíu vetra eða ellefu. En er þeir lögðu til hafnar á kveldum þá lét Eiríkur sér ekki líka annað en þeir legðu til lægis næst skipi jarls. En er þeir komu suður á Mæri þá kom þar Skofti mágur jarls með langskip vel skipað.

En er þeir róa að flotanum þá kallar Skofti að Þorleifur skuli rýma höfnina fyrir honum og leggja úr læginu. Eiríkur svarar skjótt, bað Skofta leggja í annað lægi.

Þetta heyrði Hákon jarl, að Eiríkur sonur hans þóttist nú svo ríkur að hann vill ekki vægja fyrir Skofta. Kallar jarl þegar, bað þá leggja úr læginu, segir að þeim mundi annar vera verri, segir að þeir mundu vera barðir. En er Þorleifur heyrði þetta hét hann á menn sína og bað leggja skipið úr tengslum og var svo gert. Lagði þá Skofti í lægið, það sem hann var vanur að hafa, næst skipi jarls.

Skofti skyldi segja tíðindi öll jarli þá er þeir voru báðir samt en jarl sagði Skofta tíðindi ef hann spurði fyrr. Hann var kallaður Tíðinda-Skofti.

Um veturinn eftir var Eiríkur með Þorleifi fóstra sínum en um vorið snemma fékk Eiríkur sér sveit manna. Þorleifur gaf honum skútu, fimmtánsessu með öllum reiða, tjöldum og vistum. Hélt Eiríkur þá út eftir firði og síðan suður á Mæri. Tíðinda-Skofti fór með fimmtánsessu skipaða millum búa sinna en Eiríkur leggur til móts við hann og til bardaga. Þar féll Skofti en Eiríkur gaf grið þeim mönnum er þá stóðu upp.

Svo segir Eyjólfur dáðaskáld í Bandadrápu:

Meita fór að móti
mjög síð um dag skíði
ungr með jöfnu gengi
útvers frömum hersi,
þá er riðloga reiðir
randvallar lét falla,
úlfteitir gaf átu
oft blóðvölum, Skofta.

Hoddsveigir lét hníga
harða ríkr, þá er barðist,
logreifis brástu lífi,
landmann Kíars, handa.
Stálægir nam stíga
stafns fletbálkar hrafna
af dynbeiði dauðum.
Dregr land að mun banda.

Síðan sigldi Eiríkur suður með landi og kom fram í Danmörk, fór þá á fund Haralds konungs Gormssonar og var þar með honum um veturinn. En eftir um vorið sendi Danakonungur Eirík norður í Noreg og gaf honum jarldóm og þar með Vingulmörk og Raumaríki til yfirsóknar með þeim hætti sem fyrr höfðu þar haft skattkonungar.

Svo segir Eyjólfur dáðaskáld:

Fólkstýrir var fára,
finnst öl knarrar linna,
suðr að sævar naðri,
setbergs, gamall vetra,
áðr að Yggjar brúði
élhvetjanda setja
Hildar hjálmi faldinn
hoddmildingar vildu.

Eiríkur jarl var síðan höfðingi mikill.


21. Ferð Ólafs úr Görðum

Ólafur Tryggvason var þessar hríðir allar í Garðaríki og hafði þar hið mesta yfirlát af Valdimar konungi og kærleik af drottningu. Valdimar konungur setti hann höfðingja yfir herlið það er hann sendi til að verja land sitt. Átti Ólafur þar nokkurar orustur og varð herstjórnin vel í hendi. Hélt hann þá sjálfur sveit mikla hermanna með sínum kostnaði, þeim er konungur veitti honum. Ólafur var ör maður við sína menn. Varð hann af því vinsæll. En varð það sem oftlega kann verða þar er útlendir menn hefjast til ríkis eða til svo mikillar frægðar að það verði umfram innlenska menn, að margir öfunduðu það hversu kær hann var konungi og eigi síður drottningu.

Mæltu menn það fyrir konungi að hann skyldi varast að gera Ólaf eigi of stóran "fyrir því að slíkur maður er þér hættastur ef hann vill sig til þess ljá að gera yður mein eða yðru ríki er svo er búinn að atgervi og vinsæld. Vitum vér og eigi hvað þau drottning tala jafnan."

Það var siður mikill hinna ríku konunga að drottning skyldi eiga hálfa hirðina og halda með sínum kostnaði og hafa þar til skatta og skyldir svo sem þyrfti. Var þar og svo með Valdimar konungi að drottning hafði eigi minni hirð en konungur og kepptust þau mjög um ágætismenn. Vildi hvorttveggja til sín hafa. Nú gerðist svo að konungur festi trúnað á slíkar ræður sem mælt var fyrir honum og gerðist hann nokkuð fár og styggur til Ólafs.

En er Ólafur fann það þá segir hann drottningu og það með að hann fýstist að fara í Norðurlönd og segir að frændur hans hafa þar fyrr ríki haft og honum þykir líkast að þar muni þroski hans mestur verða. Drottning biður hann vel fara, segir að hann muni þar göfugur þykja sem hann væri.

Síðan býr Ólafur ferð sína og gekk á skip og hélt svo út í hafið í Eystrasalt. En er hann sigldi austan þá kom hann við Borgundarhólm og veitti þar upprás og herjaði en landsmenn sóttu ofan og héldu orustu við hann og fékk Ólafur sigur og herfang mikið.


22. Kvonfang Ólafs konungs Tryggvasonar

Ólafur lá við Borgundarhólm og fengu þar veður hvasst og storm sjávar og mega þeir þar eigi við festast og sigla þaðan suður undir Vindland og fá þar höfn góða, fara þar allt með friði og dvöldust þar um hríð.

Búrisláfur hét konungur í Vindlandi. Hans dætur voru þær Geira, Gunnhildur og Ástríður. Geira konungsdóttir hafði þar vald og ríki sem þeir Ólafur komu að landi. Dixin er sá maður nefndur er mest forráð hafði með Geiru drottningu.

En er þau höfðu spurt að þar voru við land komnir ókunnir menn, þeir er tígulega létu yfir sér og þeir fóru þar með friði, þá fór Dixin á fund þeirra með orðsending drottningar, Geiru, þá að hún vill bjóða þeim mönnum til veturvistar er þar voru komnir því að þá var mjög liðið á sumarið en veðrátta hörð og stormar miklir.

En er Dixin kom þar þá varð hann brátt þess var að þar réð fyrir ágætur maður, bæði að ætt og ásýnum. Dixin segir þeim að drottning bauð þeim til sín með vináttuboði. Ólafur þekktist það boð og fór um veturinn til Geiru drottningar og sýndist hvort þeirra öðru afar vel svo að Ólafur hefir uppi orð sín og biður Geiru drottningar. Og verður það að ráði gert að Ólafur fær Geiru drottningar þann vetur. Gerðist hann þar þá forráðamaður þess ríkis með henni.

Hallfreður vandræðaskáld getur þess í drápu þeirri er hann orti um Ólaf konung:

Hilmir lét að hólmi
hræskóð roðin blóði,
hvað um dyldi þess höldar,
hörð og austr í Görðum.


23. Hákon jarl hélt sköttum Danakonungs

Hákon jarl réð fyrir Noregi og galt engan skatt fyrir þá sök að Danakonungur veitti honum skatta alla, þá er konungur átti í Noregi, til starfs og kostnaðar er jarl hafði til að verja landið fyrir Gunnhildarsonum.


24. Útboð Haralds konungs

Ótta keisari var þá í Saxlandi. Hann sendi boð Haraldi Danakonungi að hann skyldi taka skírn og trú rétta og það landsfólk er hann stýrði en að öðrum kosti sagði keisari að hann mundi fara með her á hendur honum. Þá lét Danakonungur búa landvarnir sínar, lét þá vel upp halda Danavirki og búa herskip sín.

Þá sendi konungur boð í Noreg Hákoni jarli að hann skyldi koma til hans snemma um vorið með allan her þann sem hann fengi. Bauð Hákon jarl her út um vorið af öllu ríki sínu og varð hann allfjölmennur og hélt hann liði því til Danmerkur og fór til fundar við Danakonung. Tók konungur allsæmilega við honum. Margir aðrir höfðingjar voru þá með Danakonungi, þeir er honum veittu lið. Hafði hann þá allmikið lið.


25. Orustur Ólafs konungs Tryggvasonar

Ólafur Tryggvason hafði verið um veturinn í Vindlandi sem fyrr er ritað. Hann fór um veturinn til þeirra héraða þar á Vindlandi er legið höfðu undir Geiru drottningu og höfðu þá undan horfið allri hlýðni og skattgjöfum þannug. Þar herjar Ólafur og drap marga menn, brenndi fyrir sumum, tók fé mikið og lagði undir sig þau ríki, fór síðan aftur til borgar sinnar.

Snemma um vorið bjó Ólafur skip sín og sigldi síðan í haf. Hann sigldi undir Skáni, veitti þar uppgöngu en landsmenn söfnuðust saman og héldu orustu og hafði Ólafur sigur og fékk herfang mikið. Síðan sigldi hann austur til Gotlands. Þar tók hann kaupskip er Jamtur áttu. Þeir veittu vörn mikla og lauk svo að Ólafur hrauð skipið og drap mart manna en tók fé allt. Þriðju orustu átti hann á Gotlandi. Hafði Ólafur þar sigur og fékk mikið herfang.

Svo segir Hallfreður vandræðaskáld:

Endr lét Jamta kindir
allvaldr í styr falla,
vandist hann, og Vinda
végrimmr, á það snimma.
Hættr var hersa drottinn
hjördjarfr Gota fjörvi.
Gullskerði frá eg gerðu
geirþey á Skáneyju.


26. Orusta við Danavirki

Ótta keisari dró saman her mikinn. Hann hafði lið af Saxlandi og Frakklandi, Fríslandi og af Vindlandi fylgdi honum Búrisláfur konungur með mikinn her og í liði var með honum Ólafur Tryggvason mágur hans. Keisari hafði riddaraher mikinn og miklu meira fótgönguher. Hann hafði og af Holtsetalandi mikinn her.

Haraldur Danakonungur sendi Hákon jarl með Norðmannaher þann sem honum fylgdi suður til Danavirkis að verja þar landið.

Svo segir í Velleklu:

Hitt var auk, er eykir
aurborðs á vit norðan
und sigrrunni svinnum
sunnr Danmarkar runnu,
og hólmfjöturs hjálmi
Hörða valdr um faldinn,
Dofra, danskra jöfra,
dróttinn, fund um sótti.

Og við frost að freista
fémildr konungr vildi
myrk- Hlóðynjar -markar
morðálfs þess er kom norðan,
þá er valserkjar virki
veðrhirði bað stirðan
fyr hlym-Njörðum hurða
Hagbarða gramr varða.

Ótta keisari kom með her sinn sunnan til Danavirkis en Hákon jarl varði með sínu liði borgarveggina. Danavirki er svo háttað að firðir tveir ganga í landið sínum megin landsins hvor en milli fjarðarbotna höfðu Danir gert borgarvegg mikinn af grjóti og torfi og viðum og grafið díki breitt og djúpt fyrir utan en kastalar fyrir borgarhliðum. Þá varð orusta mikil.

Þess getur í Velleklu:

Varat í gegn, þótt gerði
garð-Rögnir styr harðan,
gengilegt að ganga,
geirrásar, her þeira,
þá er með Frísa fylki
fór gunn-Viður sunnan
kvaddi vígs, og Vinda
vogs blakkriði, Frakka.

Hákon jarl setti fylkingar yfir öll borgarhlið en hitt var þó meiri hlutur liðs er hann lét fara allt með borgarveggjunum og verja þar sem helst var að sótt. Féll þar mart af keisarans liði en þeir fengu ekki unnið að borginni. Snýr þá keisari í brott og leitaði þar ekki lengur til.

Svo segir í Velleklu:

Þrymr varð logs, þar er lögðu
leikmiðjungar, Þriðja,
arngreddir varð, odda,
andvígr, saman randir.
Sundfaxa kom Söxum
sæki-Þróttr á flótta.
Þar er svo að gramr með gumnum
garð yrþjóðum varði.

Eftir þessa orustu fór Hákon jarl aftur til skipa sinna og ætlaði þá að sigla norður aftur í Noreg en honum gaf eigi byr. Lá hann þá út í Limafirði.


27. Skírður Haraldur konungur Gormsson og Hákon jarl

Ótta keisari snýr þá her sínum til Slés. Dregur hann þar að sér skipaher, flytur þar liðið yfir fjörðinn á Jótland. En er það spyr Haraldur Danakonungur þá fer hann í móti með sinn her. Og verður þar orusta mikil og að lyktum fær keisari sigur en Danakonungur flýði undan til Limafjarðar og fór út í Mársey. Fóru þá menn milli þeirra konungs og var komið griðum á og stefnulagi. Fundust þeir Ótta keisari og Danakonungur í Mársey. En þá boðaði Poppó, biskup heilagur, trú fyrir Haraldi konungi og hann bar glóanda járn í hendi sér og sýndi Haraldi konungi hönd sína óbrunna. Síðan lét Haraldur konungur skírast með allan Danaher.

Haraldur konungur hafði áður orð send Hákoni jarli þá er konungur sat í Mársey að jarl skyldi koma til liðveislu við hann. Var jarl þá kominn til eyjarinnar er konungur hafði skírast látið. Sendir þá konungur orð að jarl skyldi koma til fundar við hann.

En er þeir hittast þá nauðgar konungur jarli til að láta skírast. Var þá Hákon jarl skírður og þeir menn allir er þar fylgdu honum. Fékk þá konungur í hendur honum presta og aðra lærða menn og segir að jarl skal láta skíra allt lið í Noregi. Skildust þeir þá. Fer Hákon jarl út til hafs og bíður þar byrjar.

En er veður það kemur er honum þótti sem hann mundi í haf bera þá skaut hann á land upp öllum lærðum mönnum en hann sigldi þá út á haf en veður gekk til útsuðurs og vesturs. Siglir jarl þá austur í gegnum Eyrarsund. Herjar hann þá á hvorttveggja land. Síðan siglir hann austur fyrir Skáneyjarsíðu og herjaði þar og hvar sem hann kom við land.

En er hann kom austur fyrir Gautasker þá lagði hann að landi. Gerði hann þá blót mikið. Þá komu þar fljúgandi hrafnar tveir og gullu hátt. Þá þykist jarl vita að Óðinn hefir þegið blótið og þá mun jarl hafa dagráð til að berjast. Þá brennir jarl skip sín öll og gengur á land upp með liði sínu öllu og fór allt herskildi.

Þá kom að móti honum Óttar jarl. Hann réð fyrir Gautlandi. Áttu þeir saman orustu mikla. Fær þar Hákon jarl sigur en Óttar jarl féll og mikill hluti liðs með honum. Hákon jarl fer um Gautland hvorttveggja og allt með herskildi til þess er hann kemur í Noreg, fer síðan landveg allt norður í Þrándheim.

Frá þessu segir í Velleklu:

Flótta gekk til fréttar
felli-Njörðr á velli.
Draugr gat dólga Ságu
dagráð Héðins váða.
Og haldboði hildar
hrægamma sá ramma.
Týr vildi sá týna
teinlautar fjör Gauta.

Háði jarl, þar er áðan
engi mann und ranni,
hyrjar þing, að herja,
hjörlautar, kom Sörla.
Bara maðr lyngs en lengra
loftvarðaðar barða,
allt vann gramr um gengið
Gautland, frá sjá randir.

Valföllum hlóð völlu,
varð ragna konr gagni,
hríðar ás, að hrósa,
hlaut Óðinn val, Fróða.
Hver sé if, nema jöfra
ættrýri goð stýra?
Rammaukin kveð eg ríki
rögn Hákonar magna.


28. Heimferð Óttu keisara

Ótta keisari fór aftur í Saxland í ríki sitt. Skildust þeir Danakonungur með vináttu. Svo segja menn að Ótta keisari gerði guðsifjar við Svein, son Haralds konungs, og gaf honum nafn sitt og var hann svo skírður að hann hét Ótta Sveinn.

Haraldur Danakonungur hélt vel kristni til dauðadags. Búrisláfur konungur fór þá til Vindlands og með honum Ólafur mágur hans.

Þessar orustu getur Hallfreður vandræðaskáld í Ólafsdrápu:

Böðserkjar hjó birki
barklaust í Danmörku
hleypimeiðr fyr Heiða
hlunnviggja bý sunnan.


29. Ferð Ólafs konungs af Vindlandi

Ólafur Tryggvason var þrjá vetur á Vindlandi áður Geira kona hans tók sótt þá er hana leiddi til bana. Ólafi þótti það svo mikill skaði að hann festi ekki yndi á Vindlandi síðan. Réð hann sér þá til herskipa og fór enn í hernað, herjaði fyrst um Frísland og þar næst um Saxland og allt í Flæmingjaland.

Svo segir Hallfreður vandræðaskáld:

Tíðhöggvið lét tyggi,
Tryggva sonr, fyr styggvan
Leiknar hest á lesti,
ljótvaxinn, hræ Saxa.
Vinhróðigr gaf víða
vísi margra Frísa
blökku brúnt að drekka
blóð kveldriðu stóði.

Rógs brá rekka lægir
ríkr Valkera líki.
Herstefnir lét hröfnum
hold Flæmingja goldið.


30. Hernaður Ólafs konungs

Síðan hélt Ólafur Tryggvason til Englands og herjaði víða um landið. Hann sigldi allt norður til Norðimbralands og herjaði þar. Þaðan hélt hann norður til Skotlands og herjaði þar víða. Þaðan sigldi hann til Suðureyja og átti þar nokkurar orustur. Síðan hélt hann suður til Manar og barðist þar. Hann herjaði og víða um Írland. Þá hélt hann til Bretlands og herjaði víða það land og svo þar er kallað er Kumraland. Þaðan sigldi hann vestur til Vallands og herjaði þar. Þá sigldi hann vestan og ætlaði til Englands. Þá kom hann í eyjar þær er Syllingar heita vestur í hafið frá Englandi.

Svo segir Hallfreður vandræðaskáld:

Gerðist ungr við Engla
ofvægr konungr bægja.
Naddskúrar réð nærir
Norðimbra sá morði.
Eyddi úlfa greddir
ógnblíðr Skotum víða,
gerði seims, með sverði,
sverðleik í Mön skerðir.

Ýdrógar lét ægir
eyverskan her deyja,
Týr var tjörva dýrra
tírar gjarn, og Íra.
Barði breskrar jarðar
byggjendr og hjó tyggi,
gráðr þvarr geira hríðar
gjóði, kumrskar þjóðir.

Ólafur Tryggvason var fjóra vetur í hernaði síðan er hann fór af Vindlandi, til þess er hann kom í Syllingar.


31. Skírðist Ólafur konungur í Syllingum

Ólafur Tryggvason, þá er hann lá í Syllingum, spurði hann að þar í eyjunni var spámaður nokkur, sá er sagði fyrir óorðna hluti, og þótti mörgum mönnum það mjög eftir ganga. Gerðist Ólafi forvitni á að reyna spádóm manns þess. Hann sendi þann af mönnum sínum er fríðastur var og mestur og bjó hann sem veglegast og bað hann segja að hann væri konungur því að Ólafur var þá frægur orðinn af því um öll lönd, að hann var fríðari og göfuglegri og meiri en allir menn aðrir. En síðan er hann fór úr Garðaríki hafði hann eigi meira af nafni sínu en kallaði sig Óla og kvaðst vera gerskur.

En er sendimaður kom til spámannsins og sagðist vera konungur þá fékk hann þessi andsvör: "Ekki ertu konungur en það er ráð mitt að þú sért trúr konungi þínum."

Ekki sagði hann fleira þessum manni. Fór sendimaður aftur og segir Ólafi og fýsti Ólaf þess að meir að finna þenna mann er hann heyrði slík andsvör hans og tók nú ifa af honum að hann væri eigi spámaður. Fór þá Ólafur á hans fund og átti tal við hann og spurði eftir hvað spámaður segði Ólafi fyrir hvernug honum mundi ganga til ríkis eða annarrar hamingju.

Einsetumaðurinn svaraði með helgum spádómi: "Þú munt verða ágætur konungur og ágæt verk vinna. Þú munt mörgum mönnum til trúar koma og skírnar. Muntu bæði þér hjálpa í því og mörgum öðrum. Og til þess að þú efist eigi um þessi mín andsvör þá máttu það til marks hafa: Þú munt við skip þín svikum mæta og flokkum og mun á bardaga rætast og muntu týna nokkuru liði og sjálfur sár fá og muntu af því sári banvænn vera og á skildi til skips borinn. En af þessu sári muntu heill verða innan sjö nátta og brátt við skírn taka."

Síðan fór Ólafur ofan til skipa sinna og þá mætti hann þar ófriðarmönnum þeim er hann vildu drepa og lið hans og fóru þeirra viðskipti svo sem einsetumaður hafði sagt honum, að Ólafur var sár borinn á skip út og svo að hann var heill á sjö nóttum. Þóttist þá Ólafur vita að þessi maður mundi honum sanna hluti sagt hafa og það að hann var sannur spámaður, hvaðan af sem hann hefði þann spádóm.

Fór þá Ólafur annað sinn að finna þenna mann, talaði þá mart við hann, spurði þá vendilega hvaðan honum kom sú speki er hann sagði fyrir óorðna hluti. Einsetumaður segir að sjálfur guð kristinna manna lét hann vita allt það er hann forvitnaðist og segir þá Ólafi mörg stórmerki guðs. Og af þeim fortölum játti Ólafur að taka skírn og svo var að Ólafur var skírður þar og allt föruneyti hans. Dvaldist hann þar mjög lengi og nam rétta trú og hafði þaðan með sér presta og aðra lærða menn.


32. Ólafur fékk Gyðu

Ólafur sigldi úr Syllingum um haustið til Englands, lá þar í höfn einni, fór þá með friði því að England var kristið og hann var og kristinn. En þar fór um landið þingboð nokkuð og allir menn skyldu til þings koma.

En er þing var sett þá kom þar drottning ein er Gyða er nefnd, systir Ólafs kvarans er konungur var á Írlandi í Dyflinni. Hún hafði gift verið á Englandi jarli einum ríkum. Var sá þá andaður en hún hélt eftir ríkinu. En sá maður var í ríki hennar er nefndur er Alvini, kappi mikill og hólmgöngumaður. Hann hafði beðið hennar en hún svaraði svo að hún vildi kjör af hafa hvern hún vildi eiga af þeim mönnum er í hennar ríki voru og var fyrir þá sök þings kvatt að Gyða skyldi sér mann kjósa. Var þar kominn Alvini og búinn með hinum bestum klæðum og margir aðrir voru þar vel búnir.

Ólafur var þar kominn og hafði vosklæði sín og loðkápu ysta. Stóð hann með sína sveit út í frá öðrum mönnum. Gyða gekk og leit sér á hvern mann, þann er henni þótti nokkuð mannsmót að. En er hún kom þar sem Ólafur stóð og sá upp í andlit honum og spyr hver maður hann er.

Hann nefndi sig Óla. "Eg em útlendur maður hér," segir hann.

Gyða mælti: "Viltu eiga mig, þá vil eg kjósa þig."

"Eigi vil eg neita því," segir hann.

Hann spurði hvert nafn þessarar konu var, ætt eða öðli.

"Eg em," segir hún, "konungsdóttir af Írlandi. Var eg gift hingað til lands jarli þeim er hér réð ríki. Nú síðan er hann andaðist þá hefi eg stýrt ríkinu. Menn hafa beðið mín og engi sá er eg vildi giftast. En eg heiti Gyða."

Hún var ung kona og fríð. Tala þau síðan þetta mál og semja það sín á milli. Festir Ólafur sér Gyðu.

Alvina líkar nú ákaflega illa. En það var siður á Englandi ef tveir menn kepptust um einn hlut að þar skyldi vera til hólmganga. Býður Alvini Ólafi Tryggvasyni til hólmgöngu um þetta mál. Þeir leggja með sér stefnulag til bardaga og skulu vera tólf hvorir.

En er þeir finnast mælir Ólafur svo við sína menn að þeir geri svo sem hann gerir. Hann hafði mikla öxi. En er Alvini vildi höggva sverði til hans þá laust hann sverðið úr höndum honum og annað högg sjálfan hann svo að Alvini féll. Síðan batt Ólafur hann fast. Fóru svo allir menn Alvina að þeir voru barðir og bundnir og leiddir svo heim til herbergja Ólafs. Síðan bað hann Alvina fara úr landi brott og koma eigi aftur en Ólafur tók allar eigur hans. Ólafur fékk þá Gyðu og dvaldist á Englandi en stundum á Írlandi.

Þá er Ólafur var á Írlandi var hann staddur í herferð nokkurri og fóru þeir með skipum. Og þá er þeir þurftu strandhöggva þá ganga menn á land og reka ofan fjölda búsmala. Þá kom þar eftir einn bóndi og bað Ólaf gefa sér kýr þær er hann átti.

Ólafur bað hann hafa kýr sínar ef hann mætti kenna "og dvel ekki ferð vora."

Bóndi hafði þar mikinn hjarðhund. Hann vísaði hundinum í nautaflokkana og voru þar rekin mörg hundruð nauta. Hundurinn hljóp um alla nautaflokkana og rak brott jafnmörg naut sem bóndi sagði að hann ætti og voru þau öll á einn veg mörkuð. Þóttust þeir þá vita að hundurinn mundi rétt kennt hafa. Þeim þótti hundur sá furðu vitur.

Þá spurði Ólafur ef bóndi vildi gefa honum hundinn.

"Gjarna," segir bóndi.

Ólafur gaf honum þegar í stað gullhring og hét honum vináttu sinni. Sá hundur hét Vígi og var allra hunda bestur. Átti Ólafur hann lengi síðan.


33. Frá Haraldi Gormssyni

Haraldur Gormsson Danakonungur spurði að Hákon jarl hafði kastað kristni en herjað land Danakonungs víða. Þá bauð Haraldur Danakonungur her út og fór síðan í Noreg. Og er hann kom í það ríki er Hákon jarl hafði til forráða þá herjar hann þar og eyddi land allt og kom liðinu í eyjar þær er Sólundir heita. Fimm einir bæir stóðu óbrenndir í Sogni í Læradal en fólk allt flýði á fjöll og markir með það allt er komast mátti.

Þá ætlaði Danakonungur að sigla liði því til Íslands og hefna níðs þess er allir Íslendingar höfðu hann níddan. Það var í lögum haft á Íslandi að yrkja skyldi um Danakonung níðvísu fyrir nef hvert er á var landinu en sú var sök til að skip það er íslenskir menn áttu braut í Danmörk en Danir tóku upp fé allt og kölluðu vogrek og réð fyrir bryti konungs er Birgir hét. Var níð ort um þá báða.

Þetta er í níðinu:

Þá er sparn á mó mörnis
morðkunnr Haraldr sunnan
varð þá Vinda myrðir
vax eitt, í ham faxa,
en bergsalar Birgir
böndum rækr í landi,
það sá öld, í jöldu
óríkr fyrir líki.

Haraldur konungur bauð kunngum manni að fara í hamförum til Íslands og freista hvað hann kynni segja honum. Sá fór í hvalslíki. En er hann kom til landsins fór hann vestur fyrir norðan landið. Hann sá að fjöll öll og hólar voru fullir af landvættum, sumt stórt en sumt smátt. En er hann kom fyrir Vopnafjörð þá fór hann inn á fjörðinn og ætlaði á land að ganga. Þá fór ofan eftir dalnum dreki mikill og fylgdu honum margir ormar, pöddur og eðlur og blésu eitri á hann. En hann lagðist í brott og vestur fyrir land, allt fyrir Eyjafjörð. Fór hann inn eftir þeim firði. Þar fór móti honum fugl svo mikill að vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna og fjöldi annarra fugla, bæði stórir og smáir. Braut fór hann þaðan og vestur um landið og svo suður á Breiðafjörð og stefndi þar inn á fjörð. Þar fór móti honum griðungur mikill og óð á sæinn út og tók að gella ógurlega. Fjöldi landvætta fylgdi honum. Brott fór hann þaðan og suður um Reykjanes og vildi ganga upp á Víkarsskeiði. Þar kom í móti honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi og bar höfuðið hærra en fjöllin og margir aðrir jötnar með honum.

Þaðan fór hann austur með endlöngu landi. "Var þá ekki nema sandar og öræfi og brim mikið fyrir utan en haf svo mikið millum landanna," segir hann, "að ekki er þar fært langskipum."

Þá var Brodd-Helgi í Vopnafirði, Eyjólfur Valgerðarson í Eyjafirði, Þórður gellir í Breiðafirði, Þóroddur goði í Ölfusi.

Síðan sneri Danakonungur liði sínu suður með landi, fór síðan til Danmerkur en Hákon jarl lét byggja land allt en galt enga skatta síðan Danakonungi.


34. Fall Haralds Gormssonar

Sveinn sonur Haralds konungs, sá er síðan var kallaður tjúguskegg, beiddist ríkis af Haraldi konungi föður sínum. En þá var enn sem fyrr að Haraldur konungur vildi ekki tvískipta Danaveldi og vill ekki ríki fá honum. Þá aflar Sveinn sér herskipa og segir að hann vill fara í víking.

En er lið hans kom allt saman, og þá var kominn til liðs við hann af Jómsvíkingum Pálna-Tóki, þá hélt Sveinn til Sjálands og inn í Ísafjörð. Þá var þar fyrir með skipum sínum Haraldur konungur faðir hans og bjuggust að fara í leiðangur. Sveinn lagði til orustu við hann. Varð þar bardagi mikill. Dreif þá lið til Haralds konungs svo að Sveinn varð ofurliði borinn og flýði hann. Þar fékk Haraldur konungur sár þau er hann leiddu til bana. Síðan var Sveinn tekinn til konungs í Danmörk.

Þá var Sigvaldi jarl yfir Jómsborg á Vindlandi. Hann var sonur Strút-Haralds konungs er ráðið hafði fyrir Skáney. Bræður Sigvalda voru þeir Hemingur og Þorkell hinn hávi. Þá var og höfðingi yfir Jómsvíkingum Búi digri af Borgundarhólmi og Sigurður bróðir hans. Þar var og Vagn sonur þeirra Áka og Þórgunnu, systursonur þeirra Búa.

Sigvaldi jarl hafði höndum tekið Svein konung og flutt hann til Vindlands í Jómsborg og nauðgaði hann til sætta við Búrisláf Vindakonung og til þess að Sigvaldi jarl skyldi gera sætt milli þeirra, Sigvaldi jarl átti þá Ástríði dóttur Búrisláfs konungs, og að öðrum kosti segir jarl að hann mundi fá Svein konung í hendur Vindum. En konungur vissi það að þeir mundu kvelja hann til bana. Játti hann fyrir því sættargerð jarls. Jarl dæmdi það að Sveinn konungur skyldi fá Gunnhildar dóttur Búrisláfs konungs en Búrisláfur konungur skyldi fá Þyri Haraldsdóttur systur Sveins konungs en hvortveggi þeirra skyldi halda ríkinu og skyldi vera friður milli landa. Fór þá Sveinn konungur heim í Danmörk með Gunnhildi konu sína. Þeirra synir voru þeir Haraldur og Knútur hinn ríki.

Í þann tíma heituðust Danir mjög að fara með her í Noreg á hendur Hákoni jarli.


35. Heitstrenging Jómsvíkinga

Sveinn konungur gerði mannboð ríkt og stefndi til sín öllum höfðingjum þeim er voru í ríki hans. Hann skyldi erfa Harald föður sinn. Þá hafði og andast litlu áður Strút-Haraldur á Skáneyju og Véseti í Borgundarhólmi, faðir þeirra Búa digra.

Sendi konungur þá orð þeim Jómsvíkingum að Sigvaldi jarl og Búi og bræður þeirra skyldu þar koma og erfa feður sína að þeirri veislu er konungur gerði. Jómsvíkingar fóru til veislunnar með öllu liði sínu því er fræknast var. Þeir höfðu fjóra tigu skipa af Vindlandi en tuttugu skip af Skáney. Þar kom saman allmikið fjölmenni.

Fyrsta dag að veislunni áður Sveinn konungur stigi í hásæti föður síns þá drakk hann minni hans og strengdi heit áður þrír vetur væru liðnir að hann skyldi kominn með her sinn til Englands og drepa Aðalráð konung eða reka hann úr landi. Það minni skyldu allir drekka, þeir er að erfinu voru.

Þá var skenkt höfðingjum Jómsvíkinga hin stærstu horn af hinum sterkasta drykk er þar var. En er það minni var af drukkið þá skyldu drekka Krists minni allir menn og var Jómsvíkingum borið æ fullast og sterkastur drykkur. Hið þriðja var Mikjáls minni og drukku það allir.

En eftir það drakk Sigvaldi jarl minni föður síns og strengdi heit síðan að áður þrír vetur væru liðnir skyldi hann vera kominn í Noreg og drepa Hákon jarl eða reka hann úr landi. Síðan strengdi heit Þorkell hávi bróðir hans að hann skyldi fylgja Sigvalda til Noregs og flýja eigi úr orustu svo að Sigvaldi berðist þá eftir. Þá strengdi heit Búi digri að hann mundi fara til Noregs með þeim og flýja eigi úr orustu fyrir Hákoni jarli. Þá strengdi heit Sigurður bróðir hans að hann mundi fara til Noregs og flýja eigi meðan meiri hlutur Jómsvíkinga berðist. Þá strengdi heit Vagn Ákason að hann skyldi fara með þeim til Noregs og koma eigi aftur fyrr en hann hefði drepið Þorkel leiru og gengið í rekkju hjá Ingibjörgu dóttur hans. Margir höfðingjar aðrir strengdu heit ýmissa hluta. Drukku menn þann dag erfið.

En eftir um morguninn þá er Jómsvíkingar voru ódrukknir þóttust þeir hafa fullmælt og hafa málstefnur sínar og ráða ráðum hvernug þeir skulu til stilla um ferðina, ráða það af að búast þá sem skyndilegast, búa þá skip sín og herlið. Varð það allfrægt víða um lönd.


36. Eiríkur jarl dró lið að sér

Eiríkur jarl Hákonarson spyr þessi tíðindi. Hann var þá á Raumaríki. Dró hann þegar lið að sér og fer til Upplanda og svo norður um fjall til Þrándheims á fund Hákonar jarls föður síns.

Þess getur Þórður Kolbeinsson í Eiríksdrápu:

Og sannlega sunnan,
sáust vítt búendr ítrir
stríð, um stála meiða
stórhersögur fóru.
Súðlöngum frá Sveiða
sunnr af dregnum hlunni
vangs á vatn um þrungið
viggmeiðr Dana skeiðum.


37. Herboð Eiríks jarls

Hákon jarl og Eiríkur jarl láta skera upp herör um öll Þrændalög, senda boð á Mæri hvoratveggju og í Raumsdal, svo norður í Naumudal og á Hálogaland, stefna út öllum almenning að liði og skipum.

Svo segir í Eiríksdrápu:

Mjök lét margar snekkjur,
mærðar örr, sem knörru,
óðr vex skálds, og skeiðar
skjaldhlynr á brim dynja,
þá er ólítinn utan
élherðir fór gerða,
mörg var lind fyr landi,
lönd síns föður röndu.

Hákon jarl hélt þegar suður á Mæri á njósn og í liðsafnað en Eiríkur jarl dró saman herinn og flutti norðan.


38. Ferð Jómsvíkinga í Noreg

Jómsvíkingar héldu liði sínu til Limafjarðar og sigldu þaðan út á hafið og höfðu sex tigu skipa og koma að Ögðum, halda þegar liðinu norður á Rogaland, taka þá að herja þegar er þeir koma í ríki Hákonar jarls og fara svo norður með landi og allt herskildi.

Geirmundur er sá maður nefndur er fór með hleypiskútu eina og nokkurir menn með honum. Hann kom fram norður á Mæri og fann þar Hákon jarl, gekk inn fyrir borð og sagði jarli tíðindi, að her var suður í landi kominn af Danmörku. Jarl spurði ef hann vissi sannindi á því. Geirmundur brá upp hendinni annarri og var þar af höggvinn hreifinn, segir að þar voru jartegnir að her var í landinu. Síðan spyr jarl innilega að um her þenna.

Geirmundur segir að þar voru Jómsvíkingar og höfðu drepið marga menn og víða rænt: "Fara þeir þó," segir hann, "skjótt og ákaflega. Vænti eg að eigi muni áður langt líða en þeir muni hér niður koma."

Síðan reri jarl alla fjörðu inn með öðru landi en út með öðru, fór dag og nótt og hafði njósn hið efra um Eið, svo suður í Fjörðu, svo og norður þar er Eiríkur fór með herinn.

Þess getur í Eiríksdrápu:

Setti jarl sá er atti
ógnfróðr á lög stóði
hrefnis háva stafna
hót Sigvalda að móti.
Margr skalf hlumr, en hvergi
huggendr bana uggðu,
þeir er gátu sjá slíta,
sárgams, blöðum ára.

Fór Eiríkur jarl með herinn norðan sem snúðulegast.


39. Frá Jómsvíkingum

Sigvaldi jarl hélt liði sínu norður um Stað, lagði fyrst til Hereyja. Landsmenn, þótt víkingar fyndu, þá sögðu þeir aldrei satt til hvað jarlar höfðust að. Víkingar herjuðu hvar sem þeir fóru. Þeir lögðu utan að Höð, runnu þar upp og herjuðu, færðu til skipa bæði man og bú en drápu karla þá er vígt var að. En er þeir fóru ofan til skipa þá kom til þeirra gamall bóndi einn en þar fór nær sveit Búa.

Bóndinn mælti: "Þér farið óhermannlega, rekið til strandar kýr og kálfa. Væri yður meiri veiður að taka björninn er nú er nær kominn á bjarnbásinn."

"Hvað segir karl?" segja þeir. "Kanntu nokkuð segja oss til Hákonar jarls?"

Bóndi segir: "Hann reri í gær inn í Hörundarfjörð. Hafði jarl eitt skip eða tvö, eigi voru fleiri en þrjú, og hafði ekki til yðar spurt."

Þeir Búi taka þegar á hlaup til skipanna og láta laust allt herfangið.

Búi mælti: "Njótum vér nú er vér höfum fengið njósn og verum næstir sigrinum."

En er þeir koma á skipin róa þeir þegar út. Kallaði Sigvaldi jarl á þá og spurði tíðinda. Þeir segja að Hákon jarl var þar inn í fjörðinn. Síðan leysir jarl flotann og róa fyrir norðan eyna Höð og svo inn um eyna.


40. Upphaf Jómsvíkingaorustu

Hákon jarl og Eiríkur jarl sonur hans lágu í Hallkelsvík. Var þar saman kominn her þeirra allur. Höfðu þeir hálft annað hundrað skipa og höfðu þá spurt að Jómsvíkingar höfðu lagt utan að Höð. Reru þá jarlar sunnan að leita þeirra en er þeir koma þar sem heitir Hjörungavogur þá finnast þeir. Skipa þá hvorirtveggju sínu liði til atlögu. Var í miðju liði merki Sigvalda jarls. Þar skipaði Hákon jarl til atlögu. Hafði Sigvaldi jarl tuttugu skip en Hákon sex tigu. Í liði Hákonar jarls voru höfðingjar Þórir hjörtur af Hálogalandi, annar Styrkár af Gimsum. Í annan fylkingararm var Búi digri og Sigurður bróðir hans með tuttugu skipum. Þar lagði í móti Eiríkur jarl Hákonarson sex tigum skipa og með honum þessir höfðingjar: Guðbrandur hvíti af Upplöndum og Þorkell leira, víkverskur maður. Í annan fylkingararm lagði fram Vagn Ákason með tuttugu skipum en þar í mót Sveinn Hákonarson og með honum Skeggi af Yrjum af Upphaugi og Rögnvaldur úr Ærvík af Staði með sex tigu skipa.

Svo segir í Eiríksdrápu:

Enn í gegn að gunni
glæheims skriðu mævar,
renndi langt með landi
leiðangr, Dana skeiðar,
þær er jarl und árum
ærins gulls á Mæri,
barms rak vigg und vörmum
valkesti, hrauð flestar.

Eyvindur skáldaspillir segir og svo í Háleygjatali:

Þar var minnstr
meinvinnöndum
Yngvifreys
öndverðan dag
fagnafundr,
er flota þeystu
jarðráðendr
að eyðendum
þá er sverðálfr
sunnan kníði
lagar stóð
að liði þeirra.

Síðan lögðu þeir saman flotann og tókst þar hin grimmasta orusta og féll mart af hvorumtveggjum og miklu fleira af Hákonar liði því að Jómsvíkingar börðust bæði hraustlega og djarflega og snarplega og skutu gegnum skjölduna. Og svo mikill vopnaburður var að Hákoni jarli að brynja hans var slitin til ónýts svo að hann kastaði af sér.

Þess getur Tindur Hallkelsson:

Varða gims sem gerði
Gerðr bjúglimum herða,
gnýr óx Fjölnis fúra,
farleg sæing jarli,
þá er hringfám Hanga
hrynserk, viðum brynju
hruðust riðmarar Róða
rastar, varð að kasta.

Þars í sundr á sandi
Sörla blés fyr jarli,
þess hefir seggja sessi,
serk hringofinn, merki.


41. Flótti Sigvalda jarls

Jómsvíkingar höfðu skip stærri og borðmeiri en hvorirtveggju sóttu hið djarfasta. Vagn Ákason lagði svo hart fram að skipi Sveins Hákonarsonar að Sveinn lét á hömlu síga og hélt við flótta. Þá lagði þannug til Eiríkur jarl og fram í fylking móti Vagni. Þá lét Vagn undan síga og lágu skipin sem í fyrstu höfðu legið. Þá réð Eiríkur aftur til liðs síns og höfðu þá hans menn undan hamlað en Búi hafði þá höggvið tengslin og ætlaði að reka flóttann. Þá lagði Eiríkur jarl síbyrt við skip Búa og varð þá höggorusta hin snarpasta og lögðu þá tvö eða þrjú Eiríks skip að Búa skipi einu.

Þá gerði illviðri og él svo mikið að haglkorn eitt vó eyri. Þá hjó Sigvaldi tengslin og sneri undan skipi sínu og vildi flýja. Vagn Ákason kallaði á hann, bað hann eigi flýja. Sigvaldi jarl gaf ekki gaum að hvað hann sagði. Þá skaut Vagn spjóti að honum og laust þann er við stýrið sat. Sigvaldi jarl reri í brott með hálfan fjórða tug skipa en eftir lá hálfur þriðji tugur. Þá lagði Hákon jarl sitt skip á annað borð Búa. Var þá Búa mönnum skammt högga í millum.

Vigfús Víga-Glúmsson tók upp nefsteðja er lá á þiljunum er maður hafði áður hnoðið við hugró á sverði sínu. Vigfús var allsterkur maður. Hann kastaði steðjanum tveim höndum og færði í höfuð Ásláki hólmskalla svo að geirinn stóð í heila niðri. Áslák höfðu ekki áður vopn bitið en hann hafði höggvið til beggja handa. Hann var fóstri Búa og stafnbúi en annar var Hávarður höggvandi. Hann var hinn sterkasti maður og allfrækn.

Í þessari atsókn gengu upp Eiríks menn á skip Búa og aftur að lyftingunni að Búa. Þá hjó Þorsteinn miðlangur til Búa um þvert ennið og í sundur nefbjörgina. Varð það allmikið sár. Búi hjó til Þorsteins utan á síðuna svo að í sundur tók manninn í miðju.

Þá tók Búi upp kistur tvær fullar gulls og kallar hátt: "Fyrir borð allir Búa liðar."

Steyptist Búi þá utanborðs með kisturnar og margir hans menn hljópu þá fyrir borð en sumir féllu á skipinu því að eigi var gott griða að biðja. Var þá hroðið allt skip Búa með stöfnum og síðan hvert að öðru. Síðan lagði Eiríkur jarl að skipi Vagns og var þar allhörð viðurtaka en að lyktum var hroðið skip þeirra en Vagn handtekinn og þeir þrír tigir og fluttir á land upp bundnir.

Þá gekk til Þorkell leira og segir svo: "Þess strengdir þú heit Vagn að drepa mig en mér þykir hitt nú líkara að eg drepi þig."

Þeir Vagn sátu á einni lág allir saman. Þorkell hafði mikla öxi. Hann hjó þann er utast sat á láginni. Þeir Vagn voru svo bundnir að einn strengur var snúinn að fótum allra þeirra en lausar voru hendur þeirra.

Þá mælti einn þeirra: "Dálk hefi eg í hendi og mun eg stinga í jörðina ef eg veit nokkuð þá er höfuðið er af mér."

Höfuð var af þeim höggvið og féll niður dálkur úr hendi honum.

Þá sat maður fríður og hærður vel.

Hann sveipti hárinu fram yfir höfuð sér og rétti fram hálsinn og mælti: "Gerið eigi hárið í blóði."

Einn maður tók hárið í hönd sér og hélt fast. Þorkell reiddi að öxina. Víkingurinn kippti höfðinu fast. Lét sá eftir er hárinu hélt. Reið öxin ofan á báðar hendur honum og tók af svo að öxin nam í jörðu stað.

Þá kom að Eiríkur jarl og spurði: "Hver er þessi maður hinn fríði?"

"Sigurð kalla mig," segir hann, "og em eg kenningarsonur Búa. Eigi eru enn allir Jómsvíkingar dauðir."

Eiríkur segir: "Þú munt vera að sönnu sannur sonur Búa. Viltu hafa grið?"

"Það skiptir hver býður," segir Sigurður.

"Sá býður," segir jarl, "er vald hefir til, Eiríkur jarl."

"Vil eg þá," segir hann.

Var hann þá tekinn úr strenginum.

Þá mælti Þorkell leira: "Viltu jarl þessa menn alla láta grið hafa. Þá skal aldregi með lífi fara Vagn Ákason," hleypur þá fram með reidda öxina en víkingur, Skarði, reiddi sig til falls í strenginum og féll fyrir fætur Þorkatli. Þorkell féll flatur um hann. Þá greip Vagn öxina. Hann reiddi upp og hjó Þorkel með banahögg.

Þá mælti jarl: "Vagn, viltu hafa grið?"

"Vil eg," segir hann, "ef vér höfum allir."

"Leysi þá úr strenginum," segir jarl.

Og svo var gert. Átján voru drepnir en tólf þágu grið.


42. Dráp Gissurar af Valdresi

Hákon jarl og margir menn með honum sátu á tré einu. Þá brast strengur á skipi Búa en ör sú kom á Gissur af Valdresi, lendan mann. Hann sat næst jarli og búinn allveglega. Síðan gengu menn á skipið út og fundu þeir Hávarð höggvanda og stóð á knjám við borðið út því að fætur voru af honum höggnir. Hann hafði boga í hendi.

En er þeir komu á skipið út þá spurði Hávarður: "Hver féll af láginni?"

Þeir sögðu að sá hét Gissur.

"Þá varð minna happið en eg vildi," segir hann.

"Ærið var óhappið," segja þeir, "en eigi skaltu vinna fleiri" og drepa hann.

Síðan var valurinn kannaður og borið fé til hlutskiptis. Hálfur þriðji tugur skipa var hroðinn af Jómsvíkingum.

Svo segir Tindur:

Vann á Vinda sinni
verðbjóðr hugins ferðar,
beit sólgagar seilar,
sverðseggja spor, leggi,
áðr hjörmeiðir hrjóða,
hætting var það, mætti
leiðar, langra skeiða,
liðs, hálfan tug þriðja.

Síðan skilja þeir her þenna. Fer Hákon jarl til Þrándheims og líkaði stórilla er Eiríkur hafði grið gefið Vagni Ákasyni.

Það er sögn manna að Hákon jarl hafi í þessari orustu blótið til sigurs sér Erlingi syni sínum og síðan gerði élið og þá sneri mannfallinu á hendur Jómsvíkingum.

Eiríkur jarl fór þá til Upplanda og svo austur í ríki sitt og fór Vagn Ákason með honum. Þá gifti Eiríkur Vagni Ingibjörgu dóttur Þorkels leiru og gaf honum langskip gott með öllum reiða og fékk honum skipan til. Skildust þeir hinir kærstu vinir. Fór þá Vagn heim suður til Danmerkur og varð síðan ágætur maður og er mart stórmenni frá honum komið.


43. Dauði Haralds grenska

Haraldur grenski var konungur á Vestfold sem fyrr er ritið. Hann fékk Ástu dóttur Guðbrands kúlu.

Eitt sumar þá er Haraldur grenski fór í Austurveg í hernað að fá sér fjár þá kom hann í Svíþjóð. Þá var þar konungur Ólafur sænski. Hann var sonur Eiríks konungs hins sigursæla og Sigríðar dóttur Sköglar-Tósta. Var Sigríður þá ekkja og átti mörg bú og stór í Svíþjóð. En er hún spurði að þar var kominn við land skammt í brott Haraldur grenski fóstbróðir hennar þá sendi hún menn til hans og bauð honum til veislu.

Hann lagðist þá ferð eigi undir höfuð og fór með mikla sveit manna. Þar var allgóður fagnaður. Sat konungur og drottning í hásæti og drukku bæði samt um kveldið og var veitt allkappsamlega öllum mönnum hans. Um kveldið er konungur fór til hvílu þá var þar sæng tjölduð pellum og búin dýrlegum klæðum. Í því herbergi var fátt manna. En er konungur var afklæddur og kominn í hvílu þá kom þar drottning til hans og skenkti honum sjálf og lokkaði hann mjög til að drekka og var hin blíðasta. Konungur var allmjög drukkinn og bæði þau. Þá sofnaði hann en drottning gekk þá og til svefns. Sigríður var hin vitrasta kona og forspá um marga hluti.

Eftir um morguninn var veisla hin kappsamlegsta. En þar varð sem jafnan verður þar er menn verða allmjög drukknir að hinn næsta dag eftir varast flestir menn við drykkinn. En drottning var kát og töluðu þau sín á milli. Sagði hún svo að hún virti eigi minna eignir þær og ríki er hún átti í Svíþjóð en konungdóm hans í Noregi og eignir. Við þessar ræður varð konungur óglaður og fannst fátt um allt og bjóst í brott og var allhugsjúkur en drottning var hin glaðasta og leiddi hann í brott með stórgjöfum. Fór þá Haraldur um haustið aftur til Noregs, var heima um veturinn og heldur ókátur.

Eftir um sumarið fór hann í Austurveg með liði sínu og hélt þá til Svíþjóðar og sendi orð Sigríði drottningu, þau að hann vill finna hana. Hún reið ofan á fund hans og talast þau við. Hann vekur brátt það mál ef Sigríður vildi giftast honum. Hún segir að það var honum hégómamál og hann er áður svo vel kvongaður að honum er fullræði í.

Haraldur segir að Ásta er góð kona og göfug "en ekki er hún svo stórborin sem eg em."

Sigríður segir: "Vera kann það að þú sért ættstærri en hún. Hitt mundi eg ætla að með henni mundi vera nú beggja ykkur hamingja."

Litlu skiptust þau fleirum orðum við áður drottning reið í brott. Haraldi konungi var þá heldur skapþungt. Hann bjóst að ríða upp á land og enn á fund Sigríðar drottningar. Margir hans menn löttu hann þess en eigi að síður fór hann með mikla sveit manna og kom til þess bæjar er drottning réð fyrir.

Hið sama kveld kom þar annar konungur. Sá hét Vissavaldur austan úr Garðaríki. Sá fór að biðja hennar. Þeim var skipað konungunum í eina stofu mikla og forna og öllu liði þeirra. Eftir því var allur búnaður stofunnar. En drykk skorti þar eigi um kveldið svo áfenginn að allir voru fulldrukknir og höfuðverðir og útverðir sofnuðu.

Þá lét Sigríður drottning um nóttina veita þeim atgöngu bæði með eldi og vopnum. Brann þar stofan og þeir menn sem inni voru en þeir voru drepnir er út komust. Sigríður sagði það að svo skyldi hún leiða smákonungum að fara af öðrum löndum til þess að biðja hennar. Síðan var hún kölluð Sigríður hin stórráða.

Þann vetur áður var Jómsvíkingaorusta.


44. Fæddur Ólafur konungur

Hrani hafði verið eftir að skipum, þá er Haraldur hafði gengið á land upp, með því liði er eftir var til forráða. En er þeir spurðu það að Haraldur var af lífi tekinn þá fóru þeir í brott sem tíðast og aftur til Noregs og sögðu þessi tíðindi.

Hrani fór á fund Ástu og segir henni atburð um för þeirra og svo hverra erinda Haraldur fór á fund Sigríðar drottningar. Ásta fór þegar til Upplanda til föður síns, er hún hafði spurt þessi tíðindi, og tók hann vel við henni en bæði þau voru mjög reið um þá ráðaætlan er verið hafði í Svíþjóð og það er Haraldur hafði henni ætlað einlæti.

Ásta Guðbrandsdóttir ól sveinbarn þá um sumarið. Sá sveinn var nefndur Ólafur er hann var vatni ausinn. Hrani jós hann vatni. Var sá sveinn þar upp fæddur fyrst með Guðbrandi og Ástu móður sinni.


45. Frá Hákoni jarli

Hákon jarl réð Noregi allt hið ytra með sjá og hafði hann til forráða sextán fylki. En síðan er Haraldur hinn hárfagri hafði svo skipað að jarl skyldi vera í hverju fylki þá hélst það lengi síðan. Hafði Hákon jarl sextán jarla undir sér.

Svo segir í Velleklu:

Hvar viti öld und einum,
jarðbyggvi, svo liggja,
það skuli her um hugsa,
hjarl sextán jarla?
Þess ríðr fúrs með fjórum
fólkleikr Héðins reikar
logskundaðar lindar
lofkenndr himins endum.

Meðan Hákon jarl réð fyrir Noregi þá var góð árferð í landi og góður friður innanlands með bóndum. Jarl var vinsæll við búendur lengsta hríð ævi sinnar. En er á leið þá gerðist það mjög að um jarl að hann var ósiðugur um kvennafar. Gerðist þar svo mikið að, að jarl lét taka ríkra manna dætur og flytja heim til sín og lá hjá viku eða tvær, sendi heim síðan og fékk hann af því óþokka mikinn af frændum kvinnanna og tóku bændur að kurra illa svo sem Þrændir eru vanir, allt það er þeim er í móti skapi.


46. Ferð Þóris klökku

Hákon jarl fær nokkurn pata af því að maður mun sá vera fyrir vestan haf er Áli nefndist og halda þeir hann þar fyrir konung en jarl grunaði af frásögn nokkurra manna að vera mundi nokkur af konungaætt norrænni. Honum var sagt að Áli kallaðist gerskur að ætt en jarl hafði það spurt að Tryggvi Ólafsson hafði átt son þann er farið hafði austur í Garðaríki og þar upp fæðst með Valdimar konungi og hét sá Ólafur. Hafði jarl og mjög að spurningum leitt um þann mann og grunaði að sá hinn sami mundi nú vera kominn þar í Vesturlöndum.

Maður er nefndur Þórir klakka, vinur mikill Hákonar jarls, og var löngum í víking en stundum í kaupferðum og var víða kunnigt fyrir. Þenna mann sendi Hákon jarl vestur um haf, bað hann fara kaupferð til Dyflinnar, sem þá var mörgum títt, og skynja það hver maður Áli þessi væri. En ef hann spyr það til sanns að þar væri Ólafur Tryggvason eða nokkur annar af konungsætt norrænni þá skyldi Þórir koma við hann svikræðum nokkurum ef hann mætti.


47. Ólafur Tryggvason kom í Noreg

Síðan fór Þórir vestur til Írlands til Dyflinnar og spurði þar til Ála. Var hann þar með Ólafi konungi kvaran mági sínum. Síðan kom Þórir sér í tal við Ála. Þórir var maður orðspakur. En er þeir höfðu mjög lengi talað þá tók Áli að spyrja af Noregi, fyrst frá Upplendingakonungum og hverjir þeir voru þá á lífi eða hvað ríki þeir höfðu. Hann spurði og um Hákon jarl, hver vinsæld hans var í landinu.

Þórir segir: "Jarl er svo ríkur maður að engi þorir annað að mæla en hann vill en það veldur að hvergi er í annan stað til að ganga. En þér satt til að segja þá veit eg margra göfugra manna skaplyndi og svo alþýðunnar, að þess væru fúsastir og búnastir að nokkur konungur kæmi þar til ríkis af ætt Haralds hins hárfagra. En vér sjáum nú engan þann til og mest fyrir þá sök að það er nú reynt að illa dugir að berjast við Hákon jarl."

En er þeir töluðu þetta oft þá lætur Ólafur í ljós fyrir Þóri nafn sitt og ætt og spyr hann ráðs hvað hann hyggi ef Ólafur fer til Noregs, hvort hann ætlar að bændur muni vilja taka við honum að konungi. Þórir eggjaði hann ákaflega þessar ferðar og lofaði hann mjög og atgervi hans. Tók Ólafur þá að fýsast mjög að fara til ættleifðar sinnar.

Siglir Ólafur þá vestan með fimm skipum, fyrst til Suðureyja. Þórir var þar í för með honum. Síðan sigldi hann til Orkneyja. Sigurður jarl Hlöðvisson lá þá í Rögnvaldsey í Ásmundarvogi með eitt langskip og ætlaði að fara yfir á Katanes. Þá sigldi Ólafur sínu liði vestan að eyjunum og lagði þar til hafnar því að Péttlandsfjörður var eigi fær. En er konungur vissi að jarl lá þar fyrir þá lét hann jarl kalla til tals við sig.

En er jarl kom til tals við konung þá höfðu þeir fátt talað áður konungur segir að jarl skyldi skírast láta og allt landsfólk hans en að öðrum kosti skyldi hann þá deyja þegar í stað en konungur kveðst mundu fara með eld og usla yfir eyjarnar og eyða land það nema fólkið kristnaðist.

En svo sem jarl var þá við kominn þá kaus hann þann af að taka skírn. Var hann þá skírður og allt það fólk er þar var með honum. Síðan svarði jarl konungi eiða og gerðist hans maður, fékk honum son sinn til gíslingar, er hét Hvelpur eða Hundi, og hafði Ólafur hann til Noregs með sér.

Sigldi Ólafur þá austur í haf og sigldi af hafi utan að Morstur, gekk þar fyrst á land í Noregi og lét hann messu þar syngja í landtjaldi. En síðan var í þeim sama stað kirkja ger.

Þórir klakka segir konungi að það eina var honum ráð að gera ekki bert um hver hann var og láta enga njósn fara fyrir sér og fara sem ákaflegast á fund jarls og láta hann óbúinn við verða. Ólafur konungur gerir svo að hann fer norður náttfari og dagfari svo sem leiði gaf og gerði ekki landsfólkið vart við ferð sína hver þar fór. En er hann kom norður til Agðaness þá spurði hann að Hákon jarl er inn í firðinum og það með að hann var ósáttur við bændur. En er Þórir heyrði þetta sagt þá var mjög annan veg en hann hugði því að eftir Jómsvíkingaorustu voru allir menn í Noregi fullkomnir vinir Hákonar jarls fyrir sigur þann er hann hafði fengið og frelsað land allt af ófriði. En nú var illa að borið að höfðingi mikill er kominn í landið en bændur voru ósáttir við jarlinn.


48. Flótti Hákonar jarls

Hákon jarl var á veislu í Gaulardal að Meðalhúsum en skip hans lágu út við Viggju. Ormur lyrgja er maður nefndur, ríkur bóndi. Hann bjó á Býnesi. Hann átti konu þá er Guðrún er nefnd, dóttir Bergþórs af Lundum. Hún var kölluð Lundasól. Hún var kvinna fríðust.

Jarl sendi þræla sína til Orms þeirra erinda að hafa Guðrúnu konu Orms til jarls. Þrælar báru upp erindi sín. Ormur bað þá fyrst fara til náttverðar. En áður þrælar höfðu matast þá voru komnir til Orms margir menn úr byggðinni er hann hafði orð sent. Lét Ormur þá engan kost að Guðrún færi með þrælunum. Guðrún mælti, bað þræla svo segja jarli að hún mundi eigi til hans koma nema hann sendi eftir henni Þóru af Rimul. Hún var húsfreyja rík og ein af unnustum jarls. Þrælarnir segja að þeir skulu þar svo koma öðru sinni að bóndi og húsfreyja munu þessa iðrast skammbragðs og heitast þrælarnir mjög og fara brott síðan.

En Ormur lét fara herör fjögurra vegna um byggðina og lét það boði fylgja að allir skyldu með vopnum fara að Hákoni jarli og drepa hann, og sendi til Halldórs á Skerðingssteðju en Halldór lét þegar fara herör. Litlu áður hafði jarl tekið konu manns þess er Brynjólfur hét og var það verk allmjög óþokkað og var þá við sjálft að her mundi upp hlaupa. Eftir örboði hljóp upp múgi manns og sótti til Meðalhúsa.

En jarl fékk njósn og fór af bænum með lið sitt og í dal djúpan, þann er nú er kallaður Jarlsdalur síðan, og leyndust þeir þar. Eftir um daginn hafði jarl njósn allt af bóndaherinum. Bændur tóku vegu alla og ætluðu helst að jarl mundi hafa farið til skipa sinna en fyrir skipunum réð þá Erlendur sonur hans, hinn mannvænsti maður.

En er náttaði dreifði jarl liðinu og bað fara markleiði út til Orkadals: "Engi maður mun yður mein gera ef eg em hvergi í nánd. Gerið orð Erlendi að hann fari út eftir firðinum og hittumst við á Mæri. Eg mun vel fá leynt mér fyrir bóndum."

Fór jarl þá og þræll hans með honum er Karkur er nefndur. Ís var á Gaul og hratt jarl þar í hesti sínum og þar lét hann eftir möttul sinn en þeir fóru í helli þann er síðan er kallaður Jarlshellir. Þá sofnuðu þeir. En er Karkur vaknaði þá segir hann draum sinn að maður svartur og illilegur fór hjá hellinum og hræddist hann það að hann mundi inn ganga en sá maður sagði honum að Ulli var dauður. Jarl segir að Erlendur mundi drepinn. Enn sofnar Þormóður karkur öðru sinni og lætur illa í svefni. En er hann vaknar segir hann draum sinn að hann sá þá hinn sama mann fara ofan aftur og bað þá segja jarli að þá voru lokin sund öll. Karkur segir jarli drauminn. Hann grunaði að slíkt mundi vera fyrir skammlífi hans.

Síðan stóð hann upp og gengu þeir á bæinn Rimul. Þá sendi jarl Kark á fund Þóru, bað hana koma leynilega til sín. Hún gerði svo og fagnar vel jarli. Jarl bað hana fela sig um nokkurra nátta sakir þar til er bændur ryfu safnaðinn.

"Hér mun þín leitað," segir hún, "um bæ minn, bæði úti og inni, því að það vita margir að eg mun gjarna hjálpa þér, allt það er eg má. Einn staður er sá á mínum bæ er eg mundi eigi kunna að leita slíks manns. Það er svínabæli nokkuð."

Þau komu þannug til.

Mælti jarl: "Hér skulum vér um búast. Lífsins skal nú fyrst gæta."

Þá gróf þrællinn þar gröf mikla og bar í brott moldina. Síðan lagði hann þar viðu yfir. Þóra segir jarli þau tíðindi að Ólafur Tryggvason var kominn utan í fjörðinn og hafði hann drepið Erlend son hans. Síðan gekk jarl í gröfina og báðir þeir Karkur en Þóra gerði yfir með viðum og sópaði yfir moldu og myki og rak þar yfir svínin. Svínabæli það var undir steini einum miklum.


49. Dauði Erlends

Ólafur Tryggvason hélt utan í fjörðinn með fimm langskipum en þar reri innan í móti Erlendur sonur Hákons jarls með þremur skipum. En er skipin nálguðust þá grunaði þá Erlend að ófriður mundi vera og snúa að landi. En er Ólafur sá langskipin eftir firðinum fara og róa í móti sér þá hugði hann þar mundu fara Hákon jarl og bað róa eftir þeim sem ákafast. En er þeir Erlendur voru mjög komnir að landi reru þeir á grunn og hljópu þegar fyrir borð og leituðu til lands. Þá renndu að skip Ólafs. Ólafur sá hvar lagðist maður fríður forkunnlega. Ólafur greip hjálmunvölinn og kastar að þeim manni og kom höggið í höfuð Erlendi syni jarls svo að hausinn brotnaði til heila. Lét Erlendur þar líf sitt. Þeir Ólafur drápu þar mart manna en sumt kom á flótta, sumt tóku þeir og gáfu grið og höfðu af tíðindasögn. Var þá Ólafi sagt að bændur höfðu rekið Hákon jarl og hann var forflótti fyrir þeim og dreift var öllum flokki hans.

Síðan koma bændur á fund Ólafs og verða hvorir öðrum fegnir og taka þegar samlag sitt. Taka bændur hann til konungs yfir sig og taka allir eitt ráð, að leita eftir Hákoni jarli, og fara upp í Gaulardal og þykir það líkast að jarl muni vera á Rimul ef hann er nokkuð á bæjum því að Þóra var þar kærstur vinur hans í þeim dal. Fara þeir þannug og leita jarls úti og inni og finna hann eigi.

Og þá átti Ólafur húsþing úti í garðinum. Hann stóð upp á stein þann hinn mikla er þar stóð hjá svínabælinu. Þá talaði Ólafur og varð það í ræðu hans að hann mundi þann mann gæða bæði fé og virðing er Hákoni jarli yrði að skaða. Þessa ræðu heyrðu jarl og Karkur. Þeir höfðu ljós hjá sér.

Jarl mælti: "Hví ertu svo bleikur en stundum svartur sem jörð. Er eigi það að þú viljir svíkja mig?"

"Eigi," segir Karkur.

"Við vorum fæddir á einni nótt," segir jarl, "skammt mun og verða milli dauða okkars."

Þá fór Ólafur konungur á brott er kveldaði. En er náttaði þá hélt jarl vöku yfir sér en Karkur sofnaði og lét illilega. Þá vakti jarl hann og spurði hvað hann dreymdi.

Hann segir: "Eg var nú á Hlöðum og lagði Ólafur Tryggvason gullmen á háls mér."

Jarl svarar: "Þar mun Ólafur láta hring blóðrauðan um háls þér ef þú finnur hann. Vara þú þig svo. En af mér muntu gott hljóta svo sem fyrr hefir verið og svík mig eigi."

Síðan vöktu þeir báðir svo sem hvor vekti yfir öðrum. En í móti degi sofnaði jarl og brátt lét hann illa og svo mikið varð að því að jarl skaut undir sig hælunum og hnakkanum svo sem hann mundi vilja upp rísa og lét hátt og ógurlega. En Karkur varð hræddur og felmsfullur og greip kníf mikinn af linda sér og skaut gegnum barka jarli og skar út úr. Það var bani Hákonar jarls.

Síðan sneið Karkur höfuð af jarli og hljóp í brott og kom eftir um daginn inn á Hlaðir og færði höfuð jarls Ólafi konungi. Hann segir og þá þessa atburði um ferðir þeirra Hákonar jarls sem nú er áður ritið. Síðan lét Ólafur konungur leiða hann í brott og höggva höfuð af.


50. Grýting höfuðs Hákonar jarls

Þá fór Ólafur konungur og fjöldi bónda með honum út til Niðarhólms og hafði með sér höfuð Hákonar jarls og Karks. Sá hólmur var þá hafður til þess að drepa þar þjófa og illmenni og stóð þar gálgi og lét hann þar til bera höfuð Hákonar jarls og Karks. Gekk þá til allur herinn og æpti upp og grýtti þar að og mæltu að þar skyldi níðingur fara með öðrum níðingum. Síðan láta þeir fara upp í Gaulardal og taka þar búkinn og drógu í brott og brenndu. Varð hér svo mikill máttur að fjandskap þessum er Þrændir gerðu til Hákonar jarls að engi maður mátti nefna hann annan veg en jarl hinn illa. Var þetta kall haft lengi síðan.

En hitt er satt að segja frá Hákoni jarli að hann hafði marga hluti til þess að vera höfðingi, fyrst kynkvíslir stórar, þar með speki og kænleik að fara með ríkdóminum, röskleik í orustum og þar með hamingjuna að vega sigurinn og drepa fjandmennina.

Svo segir Þorleifur Rauðfeldarson:

Hákon, vitum hvergi,
hafist hefir runnr af gunni,
fremra jarl und ferli,
fólk-Ránar, þér mána.
Þú hefir öðlinga Óðni,
etr hrafn af ná getnum,
vera máttu af því, vísi,
víðlendr, níu senda.

Manna örvastur var Hákon jarl en hina mestu óhamingju bar slíkur höfðingi til dánardægurs síns. En það bar mest til, er svo varð, að þá var sú tíð komin að fyrirdæmast skyldi blótskapurinn og blótmennirnir en í stað kom heilög trúa og réttir siðir.


51. Ólafur Tryggvason tók konungdóm yfir Noregi

Ólafur Tryggvason var til konungs tekinn í Þrándheimi á allsherjarþingi um land allt svo sem haft hafði Haraldur hinn hárfagri. Hljóp þá upp múgur og margmenni og vildi eigi annað heyra en Ólafur Tryggvason skyldi konungur vera. Fór Ólafur þá um land allt og lagði undir sig. Snerust til hlýðni við hann allir menn í Noregi, jafnt þeir höfðingjar á Upplöndum eða í Víkinni er áður höfðu land haldið af Danakonungi, þá gerðust þeir menn Ólafs konungs og héldu land af honum. Fór hann svo yfir land hinn fyrsta vetur og eftir um sumarið.

Eiríkur jarl Hákonarson og Sveinn bróðir hans og aðrir frændur þeirra og vinir flýðu landið og sóttu austur í Svíaveldi til Ólafs konungs hins sænska og fengu þar góðar viðtökur.

Svo segir Þórður Kolbeinsson:

Meinremmir, brá, manna
margs fýsa sköp, varga,
ljóða litlu síðar
læ Hákonar ævi.
En til lands þess er lindar
láðstafr vegið hafði
hraustr, þá er her fór vestan,
hygg eg komu son Tryggva.

Hafði sér við særi,
slíks var von að honum,
auðs en upp um kvæði
Eiríkr í hug meira.
Sótti reiðr að ráðum,
rann engi því manna,
þrályndi gafst Þrændum,
þrænskr jarl konung sænskan.


52. Kvonfang Loðins

Loðinn er maður nefndur, víkverskur, auðigur og ættaður vel. Hann var oftlega í kaupferðum en stundum í hernaði.

Það var eitt sumar að Loðinn fór kaupferð í Austurveg. Átti hann einn skip það og hafði mikinn kaupeyri. Hann hélt til Eistlands og var þar í kaupstefnu um sumarið. En þá er markaðurinn stóð þá var þangað fluttur margs konar kaupskapur. Þar kom man mart falt. Þar sá Loðinn konu nokkura er seld hafði verið mansali. Og er hann leit á konuna þá kenndi hann að þar var Ástríður Eiríksdóttir er átt hafði Tryggvi konungur og var þá ólík því sem fyrr er hann sá hana. Hún var þá föl og grunnleit og illa klædd. Hann gekk til hennar og spurði hvað ráðs hennar var.

Hún segir: "Þungt er frá því að segja. Eg em seld mansali en hingað höfð til sölu."

Síðan könnuðust þau við og vissi Ástríður skyn á honum. Bað hún síðan ef hann vildi kaupa hana og hafa heim með sér til frænda sinna.

"Eg mun gera þér kost á um það," segir hann, "eg mun flytja þig til Noregs ef þú vilt giftast mér."

En með því að Ástríður var þá nauðulega við komin og það annað að hún vissi að Loðinn var maður stórættaður, vaskur og auðigur, þá heitir hún honum þessu til útlausnar sér. Síðan keypti Loðinn Ástríði og hafði heim með sér til Noregs og fékk hennar þar með frænda ráði.

Þeirra börn voru þau Þorkell nefja og Ingiríður, Ingigerður. Dætur Ástríðar og Tryggva konungs voru þær Ingibjörg og Ástríður. Synir Eiríks bjóðaskalla voru þeir Sigurður, Karlshöfuð, Jósteinn og Þorkell dyrðill og voru allir göfgir menn og auðgir og áttu bú austur í landi. Bræður tveir bjuggu í Vík austur. Hét annar Þorgeir en annar Hyrningur. Þeir fengu dætra Loðins og Ástríðar.


53. Ólafur konungur kristnaði Víkina

Haraldur Gormsson Danakonungur, þá er hann hafði við kristni tekið, þá sendi hann boð um allt ríki sitt að allir menn skyldu skírast láta og snúast til réttrar trúar. Hann fylgdi sjálfur því boði og veitti þar styrk og refsing að þar er eigi gengi við ella. Hann sendi tvo jarla í Noreg með lið mikið er svo hétu ... Þeir skyldu boða kristni í Noregi. Það gekk við í Víkinni þar er ríki Haralds konungs stóð yfir og skírðist þá mart landsfólk.

En eftir dauða Haralds þá fór brátt Sveinn tjúguskegg sonur hans í hernað, bæði í Saxland og Frísland og að lyktum til Englands. En menn þeir í Noregi, er við kristni höfðu tekið, þá hurfu þeir aftur til blóta svo sem fyrr og menn gerðu norður í landi.

En er Ólafur Tryggvason var konungur orðinn í Noregi þá dvaldist hann lengi um sumarið í Víkinni. Komu þar margir til hans frændur hans en sumir mágar en margir höfðu verið miklir vinir föður hans og var honum þar fagnað með allmiklum kærleik.

Þá kallar Ólafur til tals við sig móðurbræður sína, Loðin stjúpföður sinn, mága sína Þorgeir og Hyrning, bar síðan fyrir þá með hinum mesta alhuga það mál að þeir skyldu sjálfir undir taka með honum og fylgja síðan með öllum krafti, að hann vill kristniboð upp hefja um allt ríki sitt, segir að hann skal því áleiðis koma að kristna allt í Noregi eða deyja að öðrum kosti: "Eg skal gera yður alla mikla menn og ríka því að eg trúi yður best fyrir sakir frændsemi eða annarra tengda."

Allir þeir játuðu þessu að gera hvað sem hann bauð og fylgja honum til þess alls er hann vildi og allir þeir menn er þeirra ráðum vilja fylgja. Gerði Ólafur konungur þegar bert fyrir alþýðu að hann vill bjóða kristni öllum mönnum í ríki sínu. Tóku þeir þegar fyrstir undir að játa þessu boði er áður höfðu undirgengið. Voru þeir og ríkastir af þeim mönnum er þá voru viðstaddir og gerðu allir aðrir að þeirra dæmum. Voru þá skírðir menn allir austur um Víkina.

Fór þá konungur norður í Víkina og bauð öllum mönnum að taka við kristni en þeim er í móti mæltu veitti hann stórar refsingar, drap suma, suma lét hann hamla, suma rak hann af landi á brott. Kom þá svo að um það ríki allt, er fyrr hafði stýrt Tryggvi konungur faðir hans, og svo það, er átt hafði Haraldur grenski frændi hans, gekk það fólk allt undir kristniboð það er Ólafur boðaði og varð það sumar og eftir um veturinn alkristið um Víkina.


54. Frá Hörðum

Ólafur konungur fór snemma um vorið út í Víkina og hafði lið mikið, fór þá norður á Agðir. En hvar sem hann átti þing við bændur þá boðaði hann öllum mönnum að skírast og gengu menn undir kristni því að engi fékkst uppreist af bóndum móti konungi og var fólkið skírt hvar sem hann fór.

Menn þeir voru á Hörðalandi margir og göfgir er komnir voru af ætt Hörða-Kára. Hann átti fjóra sonu. Einn var Þorleifur spaki. Annar Ögmundur, faðir Þórólfs skjálgs, föður Erlings af Sóla. Þriðji var Þórður, faðir Klypps hersis er drap Sigurð slefu Gunnhildarson. Fjórði Ölmóður, faðir Áskels, föður Ásláks Fitjaskalla. Þessi áttbogi var þá mestur og göfgastur á Hörðalandi.

En er þeir frændur spurðu til vandkvæðis þessa, að konungur fór austan með landi og hafði lið mikið og braut forn lög á mönnum en allir sættu refsingum og afarkostum, þeir er í móti mæltu, þeir frændur gerðu stefnulag milli sín og skulu gera ráð fyrir sér því að þeir vita að konungur mun brátt koma á fund þeirra. Og semst það með þeim að þeir skulu koma allir fjölmennt til Gulaþings og stefna þar fund við Ólaf konung Tryggvason.


55. Kristnað Rogaland

Ólafur konungur stefndi þing þegar hann kom á Rogaland. En er búendum kom þingboð þá safnast þeir fjölmennt saman með alvæpni. En er þeir koma saman taka þeir tal og ráðagerð og ætla til þess þrjá menn, þá er málsnjallastir voru í þeirra flokki, að svara Ólafi konungi á þinginu og tala móti honum og það með að þeir vilja eigi ganga undir ólög þótt konungur bjóði þeim.

En er bændur koma til þings og þing var sett þá stóð Ólafur konungur upp og talaði fyrst blíðlega til bónda. Fannst það þó í hans máli að hann vill að þeir taki við kristni, bað þá til þess fögrum orðum en að lyktum lét hann það fylgja við þá er í móti mæltu og eigi vildu undirganga boð hans að þeir mundu sæta af honum reiði og refsingum og hörðum afarkostum hvar sem hann mætti við komast.

En er konungur lauk máli sínu þá stóð upp sá af bóndum er einna var snjallastur og fyrst var til þess tekinn að svara skyldi Ólafi konungi. En er hann vildi til máls taka þá setur að honum hósta og þröngva svo mikinn að hann fékk engu orði upp komið og sest hann niður. Þá stendur upp annar bóndi og vill sá eigi fallast láta andsvörin þótt hinum fyrra hefði eigi vel til tekist. En er sá hefur upp mál sitt þá var hann svo stamur að hann fékk engu orði upp komið. Tóku þá allir að hlæja er á heyrðu. Settist þá bóndi niður. Þá stóð upp hinn þriðji og vill tala í móti Ólafi konungi. En er sá tók til máls var hann svo hás og rámur að engi maður heyrði það er hann talaði og settist hann niður.

Þá varð engi til af bóndum að mæla í móti konungi. En er bændur fengu engi til andsvara við konung þá varð engi uppreist þeirra til mótstöðu við konung. Kom þá svo að allir játtu því er konungur bauð. Var þá skírt þingfólk það allt áður konungur skildist þar við.


56. Kvonbæn Erlings Skjálgssonar

Ólafur konungur stefndi liði sínu til Gulaþings því að bændur hafa honum þau orð send að þeir vilja þar svara máli hans. En er þar koma hvorirtveggju til þings þá vill konungur fyrst eiga tal sitt við landshöfðingja. En er þeir koma á stefnu allir saman þá ber konungur upp sín erindi og býður þeim að taka við skírn eftir boði hans.

Þá segir Ölmóður hinn gamli: "Rætt höfum vér frændur um mál þetta vor í millum og munum vér allir hverfa að einu ráði. Með því konungur að þú ætlar að pynda oss frændur til slíkra hluta, að brjóta lög vor og brjóta oss undir þig með nokkurri nauðung, þá munum vér í móti standa með öllu afli og fái þeir sigur er auðið verður. En ef þú vilt konungur leggja nokkura farsællega hluti til vor frænda þá máttu það gera svo vel að vér munum allir hverfa til þín með fullkominni þjónustu."

Konungur segir: "Hvers viljið þér mig beiða til þess að sætt vor verði sem best?"

Þá segir Ölmóður: "Það er hið fyrsta ef þú vilt gifta Ástríði systur þína Erlingi Skjálgssyni frænda vorum er vér köllum nú mannvænstan allra ungra manna í Noregi."

Ólafur konungur segir að honum þykir líklegt að það gjaforð muni vera gott, segir að Erlingur er ættaður vel og maður hinn líklegsti sýnum en þó segir hann að Ástríður á svör þessa máls.

Síðan ræddi konungur þetta við systur sína.

"Lítt nýt eg nú þess," segir hún, "að eg em konungsdóttir og konungssystir ef mig skal gifta ótignum manni. Mun eg enn heldur bíða nokkura vetur annars gjaforðs."

Og skildu þau ræðuna að sinni.


57. Kristnað Hörðaland

Ólafur konungur lét taka hauk er Ástríður átti og lét plokka af fjaðrar allar og sendi henni síðan.

Þá mælti Ástríður: "Reiður er bróðir minn nú."

Síðan stóð hún upp og gekk til konungs. Hann fagnaði henni vel. Þá mælti Ástríður, segir að hún vill að konungur sjái fyrir hennar ráði slíkt sem hann vill.

"Það hugði eg," segir konungur, "að eg mundi fá vald til að gera þann tiginn mann sem eg vil hér í landi."

Lét konungur þá kalla til tals Ölmóð og Erling og alla þá frændur. Var þá talað bónorð þetta. Lauk svo að Ástríður var föstnuð Erlingi. Síðan lét konungur setja þingið og bauð búendum kristni. Var þá Ölmóður og Erlingur forgangsmaður að flytja þetta konungsmál og þar með allir frændur þeirra. Bar þá engi maður traust til að mæla í móti. Var þá skírt það allt fólk og kristnað.


58. Brullaup Erlings Skjálgssonar

Erlingur Skjálgsson gerði um sumarið brullaup sitt og var þar allmikið fjölmenni. Þar var Ólafur konungur. Þá bauð konungur að gefa Erlingi jarldóm.

Erlingur segir svo: "Hersar hafa verið frændur mínir. Vil eg ekki hafa nafn hærra en þeir. Hitt vil eg þiggja konungur af yður að þér látið mig vera mestan með því nafni hér í landi."

Konungur játti honum það. Og að skilnaði þeirra veitti Ólafur konungur Erlingi mági sínum norðan frá Sognsæ og austur til Líðandisness með þvílíkum hætti sem Haraldur hinn hárfagri hafði veitt sonum sínum og fyrr er ritið.


59. Kristnaðir Firðir í Noregi og Raumdælir

Þetta sama haust stefndi Ólafur konungur fjögurra fylkna þing norður á Staði á Dragseiði. Þar skyldu koma Sygnir og Firðir, Sunn-Mærir og Raumdælir. Fór Ólafur konungur þannug með allmikið fjölmenni er hann hafði haft austan úr landi og svo það lið er þá hafði komið til hans á Rogalandi og Hörðalandi. En er Ólafur konungur kom þar til þings þá boðaði hann þar kristni sem í öðrum stöðum. En fyrir því að konungur hafði þar styrk mikinn fjölmennis og óttuðust þeir það. En að lyktum þess máls þá bauð konungur þeim tvo kosti, annaðhvort að þeir tækju kristni og létu skírast eða að öðrum kosti að þeir skyldu halda við hann orustu. En er bændur sáu eigi föng til að berjast við konung þá var hitt ráð upp tekið að allt fólk kristnaðist.

En Ólafur konungur fer þá með liði sínu á Norð-Mæri og kristnar hann það fylki. Síðan siglir hann inn á Hlaðir og lætur brjóta ofan hofið og taka allt fé og allt skraut úr hofinu og af goðinu. Hann tók gullhring mikinn úr hofshurðinni er Hákon jarl hafði látið gera. Síðan lét Ólafur konungur brenna hofið. En er bændur verða þessa varir þá láta þeir fara herör um öll fylki og stefna her út og ætla að konungi. Ólafur konungur hélt þá liði sínu út eftir firði og stefnir síðan norður með landi og ætlar að fara norður á Hálogaland og kristna þar.

En er hann kom norður í Bjarnaura þá spyr hann það af Hálogalandi að þeir hafa þar her úti og ætla að verja land fyrir konungi. Eru þeir þar höfðingjar fyrir liði Hárekur úr Þjóttu og Þórir hjörtur úr Vogum, Eyvindur kinnrifa. En er Ólafur konungur spyr þetta þá snýr hann leið sinni og siglir suður með landi. En er hann kom suður um Stað þá fór hann allt tómlegar og kom þó öndverðan vetur austur allt í Víkina.


60. Bónorð Ólafs konungs

Sigríður drottning í Svíþjóð er kölluð var hin stórráða sat að búum sínum. Þann vetur fara menn milli Ólafs konungs og Sigríðar drottningar og hóf Ólafur konungur þar upp bónorð sitt við Sigríði drottningu en hún tók því líklega og var það mál fest með einkamálum. Þá sendi Ólafur konungur Sigríði drottningu gullhring þann hinn mikla er hann hafði tekið úr hofshurðinni á Hlöðum og þótti það höfuðgersemi. Stefnulag skyldi vera til þessa mála eftir um vorið í Elfinni við landamæri.

En er hringur þessi er Ólafur konungur hafði sent Sigríði drottningu var svo mjög lofaður af öllum mönnum þá voru með drottningu smiðar hennar, bræður tveir. En er þeir höfðu hringinn með höndum og handvéttu og mæla einmæli milli sín þá lét drottning kalla þá til sín og spyr hvað þeir spottuðu að hringinum. Þeir dylja þess. Hún segir að þeir skulu fyrir hvern mun láta hana vita hvað þeir hafa að fundið. Þeir segja að fals sé í hringinum. Síðan lét hún brjóta í sundur hringinn og fannst þar eir í innan. Þá varð drottning reið og segir að Ólafur mundi falsa hana að fleira en þessu einu.

Þenna sama vetur fór Ólafur konungur upp á Hringaríki og kristnaði þar.

Ásta Guðbrandsdóttir giftist brátt eftir fall Haralds grenska þeim manni er nefndur er Sigurður sýr. Hann var konungur á Hringaríki. Sigurður var sonur Hálfdanar en hann var sonur Sigurðar hrísa Haraldssonar hins hárfagra. Þá var þar með Ástu Ólafur sonur þeirra Haralds grenska. Hann fæddist upp í æsku með Sigurði sýr stjúpföður sínum. En er Ólafur konungur Tryggvason kom á Hringaríki að boða kristni þá lét skírast Sigurður sýr og Ásta kona hans og Ólafur sonur hennar og gerði Ólafur Tryggvason guðsifjar við Ólaf Haraldsson. Þá var hann þrevetur.

Fór Ólafur konungur þá enn út í Víkina og var þar um veturinn. Þann var hann hinn þriðja vetur konungur yfir Noregi.


61. Tal þeirra Ólafs konungs og Sigríðar stórráðu

Snemma um vorið fór Ólafur konungur austur til Konungahellu til stefnu móti Sigríði drottningu. En er þau fundust þá töluðu þau það mál er rætt hafði verið um veturinn, að þau mundu gera samgang sinn, og fór það mál allt líklega. Þá mælti Ólafur konungur að Sigríður skyldi taka skírn og rétta trú.

Hún segir svo: "Ekki mun eg ganga af trú þeirri er eg hefi fyrr haft og frændur mínir fyrir mér. Mun eg og ekki að því telja þótt þú trúir á þann guð er þér líkar."

Þá varð Ólafur konungur reiður mjög og mælti bráðlega: "Hví mun eg vilja eiga þig hundheiðna?" og laust í andlit henni með glófa sínum er hann hélt á.

Stóð hann upp síðan og bæði þau.

Þá mælti Sigríður: "Þetta mætti verða vel þinn bani."

Síðan skildu þau. Fór konungur norður í Víkina en drottning austur í Svíaveldi.


62. Seiðmannabrenna

Ólafur konungur fór þá til Túnsbergs og átti þar þá enn þing og talaði á þinginu að þeir menn allir er kunnir og sannir yrðu að því að færu með galdra og gerningar eða seiðmenn, þá skyldu allir fara af landi á brott. Síðan lét konungur rannsaka eftir þeim mönnum um þær byggðir er þar voru í námunda og boða þeim öllum til sín. En er þeir komu þar þá var einn maður af þeim er nefndur er Eyvindur kelda. Hann var sonarsonur Rögnvalds réttilbeina sonar Haralds hárfagra. Eyvindur var seiðmaður og allmjög fjölkunnigur.

Ólafur konungur lét skipa þessum mönnum öllum í eina stofu og lét þar vel um búast, lét gera þeim þar veislu og fá þeim sterkan drykk. Og þá er þeir voru drukknir lét Ólafur leggja eld í stofuna og brann stofa sú og allt það fólk er þar var inni nema Eyvindur kelda komst út um ljórann og svo í brott. En er hann var langt í brott kominn fann hann menn þá á leið sinni er fara ætluðu til konungs og bað þá svo segja konungi að Eyvindur kelda var brott kominn úr eldinum og hann mun aldrei síðan koma á vald Ólafs konungs, en hann mun allt fara á sömu leið sem fyrr gerði hann um alla kunnustu sína. En er þessir menn komu á fund Ólafs konungs þá segja þeir slíkt frá Eyvindi sem hann hafði þeim boðið. Konungur lætur illa yfir er Eyvindur var eigi dauður.


63. Dráp Eyvindar keldu

Ólafur konungur fór er voraði út eftir Víkinni og tók veislur að stórbúum sínum og sendi boð allt um Víkina að hann vill lið hafa úti um sumarið og fara norður í land. Síðan fór hann norður á Agðir. Og er á leið langaföstu þá sótti hann norður á Rogaland og kom páskaaftan í Körmt á Ögvaldsnes. Var þar búin fyrir honum páskaveisla. Hann hafði nær þrjú hundruð manna.

Þá sömu nótt kom þar við eyna Eyvindur kelda. Hann hafði langskip alskipað. Voru það allt seiðmenn og annað fjölkynngisfólk. Eyvindur gekk upp af skipi og sveit hans og mögnuðu fjölkynngi sína. Gerði Eyvindur þeim huliðshjálm og þokumyrkur svo mikið að konungur og lið hans skyldi eigi mega sjá þá. En er þeir komu mjög svo til bæjarins á Ögvaldsnesi þá gerðist ljós dagur. Varð þá mjög annan veg en Eyvindur hafði ætlað. Þá kom mjörkvi sá er hann hafði gert með fjölkynngi yfir hann og hans föruneyti svo að þeir sáu eigi heldur augum en hnakka og fóru allt í hring og kring. En varðmenn konungs sáu þá hvar þeir fóru og vissu eigi hvað lið það var. Var þá sagt konungi. Stóð hann þá upp og allt liðið og klæddist. En er konungur sá hvar þeir Eyvindur fóru bað hann sína menn vopna sig og ganga til og vita hvað mönnum það væri. En er konungsmenn kenndu þar Eyvind þá tóku þeir hann höndum og alla þá og leiddu þá til konungs. Segir þá Eyvindur allan atburð um sína ferð.

Síðan lét konungur taka þá alla og flytja í flæðisker og binda þá þar. Lét Eyvindur svo líf sitt og allir þeir. Er það síðan kallað Skrattasker.


64. Frá Ólafi konungi og vélum Óðins

Svo er sagt þá er Ólafur konungur var á veislunni á Ögvaldsnesi að þar kom eitt kveld maður gamall og orðspakur mjög, hafði hött síðan. Hann var einsýnn. Kunni sá maður segja af öllum löndum. Hann kom sér í tal við konung. Þótti konungi gaman mikið að ræðum hans og spurði hann margra hluta en gesturinn fékk úrlausn til allra spurninga og sat konungur lengi um kveldið. Þá spyr konungur ef hann vissi hver Ögvaldur hefði verið er nesið og bærinn var við kenndur.

Gesturinn segir að Ögvaldur var konungur og hermaður mikill og blét kú eina mest og hafði hann hana með sér hvargi er hann fór og þótti honum það heilnæmlegt að drekka jafnan mjólk hennar: "Ögvaldur konungur barðist við konung þann er Varinn hét. Í þeirri orustu féll Ögvaldur konungur. Var hann þá hér heygður skammt frá bænum og settir upp bautasteinar þeir er hér standa enn. En í annan stað skammt héðan var heygð kýrin."

Slíka hluti sagði hann og marga aðra frá konungum eða öðrum fornum tíðindum. En er lengi var setið um nóttina þá minnti biskup konung á að mál væri að ganga að sofa. Gerði konungur þá svo. En er hann var afklæddur og hafði í rekkju lagst þá settist gesturinn á fótskörina og talaði enn lengi við konung. Þótti konungi orðs vant er annað var mælt. Þá mælti biskup til konungs, segir að mál væri að sofa. Gerði konungur þá svo en gesturinn gekk út. Litlu síðar vaknaði konungur og spurði þá eftir gestinum og bað hann kalla til sín en gestur fannst þá hvergi.

Eftir um morguninn lét konungur kalla til sín steikara og þann er drykkinn varðveitti og spyr ef nokkur ókunnur maður hefði komið til þeirra. Þeir segja að þá er þeir skyldu matbúa kom þar maður nokkur og sagði að furðu ill slátur suðu þeir til konungsborðs. Síðan fékk hann þeim tvær nautsíður digrar og feitar og suðu þeir þær með öðru slátri. Þá segir konungur að þá vist alla skyldi ónýta, segir að þetta mundi engi maður verið hafa og þar mundi verið hafa Óðinn sá er heiðnir menn höfðu lengi á trúað, sagði að Óðinn skyldi þá engu áleiðis koma að svíkja þá.


65. Þing í Þrándheimi

Ólafur konungur dró saman lið mikið austan úr landi um sumarið og hélt liði því norður til Þrándheims og lagði fyrst inn til Niðaróss. Síðan lét hann fara þingboð um allan fjörðinn og stefndi átta fylkna þing á Frostu en bændur sneru þingboðinu í herör og stefndu saman þegn og þræl um allan Þrándheim. En er konungur kom til þings þá var kominn bóndamúgurinn með alvæpni. En er þing var sett þá talaði konungur fyrir lýðnum og bauð þeim að taka við kristni.

En er hann hafði litla hríð talað þá kölluðu bændur og báðu hann þegja, segja að ella mundu þeir veita honum atgöngu og reka hann í brott. "Gerðum vér svo," sögðu þeir, "við Hákon Aðalsteinsfóstra þá er hann bauð oss þvílík boð og virðum vér þig eigi meira en hann."

En er Ólafur konungur sá æði búendanna og það með að þeir höfðu her svo mikinn að eigi mátti við standa, þá veik hann ræðunni og sneri til samþykkis við bændur, segir svo: "Eg vil að vér gerum sætt vora svo sem vér höfum áður lagt með oss. Vil eg fara þar til er þér hafið hið mesta blót yðar og sjá þar siðu yðra. Tökum þá ráð vort um siðu, hverja vér viljum hafa, og samþykkjum þá það allir."

En er konungur talaði linlega til bónda þá mýktust hugir þeirra og fór síðan allt talið líklega og sáttgjarnlega og var það ráðið að lyktum að vera skyldi miðsumarsblót inni á Mærini og skyldu þar til koma allir höfðingjar og ríkir bændur svo sem siður var til. Þar skyldi og koma Ólafur konungur.


66. Frá Járn-Skeggja

Skeggi er nefndur ríkur bóndi. Hann var kallaður Járn-skeggi. Hann bjó á Upphaugi á Yrjum. Skeggi talaði fyrst á þinginu móti Ólafi konungi og var mest fyrir bóndum að mæla í móti kristninni. Þeir slitu þinginu með þessum hætti. Fóru þá bændur heim en konungur á Hlaðir.


67. Veisla á Hlöðum

Ólafur konungur lá skipum sínum í Nið og hafði þrjá tigu skipa og frítt lið og mikið en sjálfur konungur var oftlega á Hlöðum með hirðsveit sína. En er mjög leið að því er blótið skyldi vera inn á Mærini þá gerði Ólafur konungur veislu mikla á Hlöðum, sendi boð inn á Strind og upp í Gaulardal og út í Orkadal og bauð til sín höfðingjum og öðrum stórbóndum. En er veisla var búin og boðsmenn höfðu til sótt þá var þar hið fyrsta kveld veisla fögur og veitt allkappsamlega. Voru menn mjög drukknir. En eftir um nóttina sváfu þá allir menn í ró þar. Um morguninn eftir er konungur var klæddur lét hann syngja sér tíðir og er messu var lokið þá lét konungur blása til húsþings. Gengu þá allir menn hans af skipum og fóru til þings.

En er þing var sett stóð konungur upp og talaði og mælti svo: "Vér áttum þing inn á Frostu. Bauð eg þá búendum að þeir skyldu láta skírast en þeir buðu mér þar í mót að eg skyldi hverfa til blóta með þeim svo sem gert hafði Hákon konungur Aðalsteinsfóstri. Kom það ásamt með oss að vér skyldum finnast inn á Mærini og gera þar blót mikið. En ef eg skal til blóta hverfa með yður þá vil eg gera láta hið mesta blót, það sem títt er, og blóta mönnum. Vil eg eigi til þess velja þræla eða illmenni. Skal til þess velja að fá goðunum hina ágætustu menn. Nefni eg til þess Orm lygru af Meðalhúsum, Styrkár af Gimsum, Kár af Grýtingi, Ásbjörn, Þorberg af Örnesi, Orm af Lyxu, Halldór af Skerðingsteðju" og þar með nefnir hann aðra fimm þá er ágætastir voru, segir svo að hann vill þessum blóta til árs og friðar og lét þegar veita þeim atgöngu.

En er bændur sáu að þeir höfðu eigi liðskost við konungi þá biðja þeir sér griða og bjóða allt ráð sitt á vald konungs. Semst það á milli þeirra að allir bændur, þeir er þar voru komnir, létu skírast og veittu konungi svardaga til þess að halda rétta trú en leggja niður blótskap allan. Hafði konungur þá menn þessa alla í boði sínu, allt þar til er þeir fengu sonu sína eða bræður eða aðra náfrændur í gísling til konungs.


68. Frá þingi

Ólafur konungur fór með öllu liði sínu inn í Þrándheim. En er hann kom inn á Mærini þá voru þar komnir allir höfðingjar Þrænda, þeir er þá stóðu mest í móti kristninni, og höfðu þar með sér alla stórbændur þá er fyrr höfðu haldið upp blótum í þeim stað. Var þar þá fjölmennt og eftir því sem fyrr hafði verið á Frostuþingi. Lét þá konungur krefja þings og gengu hvorirtveggju með alvæpni til þings. En er þing var sett þá talaði konungur og bauð mönnum kristni.

Járn-Skeggi svaraði máli konungs af hendi bónda. Segir hann að bændur vildu enn sem fyrr að konungur bryti ekki lög á þeim. "Viljum vér konungur," segir hann, "að þú blótir sem hér hafa gert aðrir konungar fyrir þér."

Að hans ræðu gerðu bændur mikinn róm og segja að þeir vildu allt vera láta sem Skeggi mælti. Þá segir konungur að hann vill fara í hofið og sjá siðu þeirra er þeir blóta. Búendum líkar það vel. Fara til hofsins hvorirtveggju.


69. Kristnaður Þrándheimur

Ólafur konungur gengur nú í hofið og fáir menn með honum og nokkurir af bóndum. En er konungur kom þar sem goðin voru þá sat þar Þór og var mest tignaður af öllum goðum, búinn með gulli og silfri. Ólafur konungur hóf upp refði gullbúið er hann hafði í hendi og laust Þór svo að hann féll af stallinum. Síðan hljópu að konungsmenn og skýfðu ofan öllum goðum af stöllunum. En meðan konungur var inni í hofinu þá var drepinn Járn-Skeggi úti fyrir hofsdurunum og gerðu það konungsmenn.

En er konungur kom til liðsins þá bauð hann bóndum tvo kosti, annan þann að þeir skyldu þá allir við kristni taka en að öðrum kosti halda við hann bardaga. En eftir lát Skeggja varð engi forgangsmaður að í bónda liði að reisa merki í móti Ólafi konungi. Varð hinn kostur upp tekinn að ganga til konungs og hlýða því er hann bauð. Þá lét Ólafur konungur skíra fólk allt það er þar var og tók gíslar af bóndum til þess að þeir skyldu halda kristni sína.

Síðan lét Ólafur konungur fara menn sína um öll fylki í Þrándheimi. Mælti þá engi maður í móti kristninni. Var þá skírt allt fólk í Þrændalögum.


70. Bæjargerð

Ólafur konungur fór liði sínu út til Niðaróss. Þá lét hann reisa þar hús á Niðarbakka og skipaði svo að þar skyldi vera kaupstaður, gaf mönnum þar tóftir til að gera sér þar hús en hann lét gera konungsgarð upp frá Skipakrók. Lét hann þannug flytja um haustið öll föng þau er þurfti til vetursetu og hafði hann þar allmikið fjölmenni.


71. Kvonfang Ólafs konungs

Ólafur konungur gerði stefnulag frændum Járn-Skeggja og bauð þeim bætur en þar voru til svara margir göfgir menn. Járn-Skeggi átti dóttur er Guðrún er nefnd. Kom það að lyktum í sáttmál þeirra að Ólafur konungur skyldi fá Guðrúnar.

En er brullaupsstefna sú kom þá gengu þau í eina rekkju, Ólafur konungur og Guðrún. En hina fyrstu nótt er þau lágu bæði samt þegar konungur var sofnaður þá brá hún knífi og vill leggja á honum. En er konungur varð þessa var tók hann knífinn frá henni og stóð upp úr hvílunni og gekk til manna sinna og segir hvað orðið hafði. Tók Guðrún þá og klæði sín og allir þeir menn er henni höfðu þannug fylgt. Fóru þau í brott leið sína og kom Guðrún ekki síðan í sama rekkju Ólafi konungi.


72. Ger Traninn

Þetta sama haust lét Ólafur konungur reisa langskip mikið á eyrunum við Nið. Það var snekkja. Hafði hann þar til smiði marga. En öndverðan vetur var skipið algert. Það var þrítugt að rúmatali, stafnhátt og ekki mikið í sér. Það skip kallaði konungur Tranann.

Eftir dráp Járn-Skeggja var lík hans flutt út á Yrjar og liggur hann í Skeggjahaugi á Austurátt.


73. Þangbrandur fór til Íslands

Þá er Ólafur konungur Tryggvason hafði verið tvo vetur konungur að Noregi var með honum saxneskur prestur, sá er nefndur er Þangbrandur. Hann var ofstopamaður mikill og vígamaður en klerkur góður og maður vaskur. En fyrir sakir óspektar hans þá vildi konungur eigi hann með sér hafa og fékk honum sendiferð þá að hann skyldi fara til Íslands og kristna landið.

Var honum kaupskip fengið og er frá hans ferð það að segja að hann kom til Íslands í Austfjörðu í Álftafjörð hinn syðra og var eftir um veturinn með Halli á Síðu. Þangbrandur boðaði kristni á Íslandi og af hans orðum lét Hallur skírast og hjón hans öll og margir aðrir höfðingjar en miklu fleiri voru hinir er í móti mæltu. Þorvaldur veili og Veturliði skáld ortu níð um Þangbrand en hann drap þá báða. Þangbrandur dvaldist tvo vetur á Íslandi og varð þriggja manna bani áður hann fór í brott.


74. Frá Hauki og Sigurði

Sigurður er maður nefndur, annar Haukur. Þeir voru háleyskir og höfðust mjög í kaupferðum. Þeir höfðu farið eitt sumar vestur til Englands. En er þeir komu aftur til Noregs þá sigldu þeir norður með landi en á Norð-Mæri urðu þeir fyrir liði Ólafs konungs. En er konungi var sagt að þar voru komnir nokkurir menn háleyskir og voru heiðnir þá lét konungur kalla stýrimenn til sín.

Hann spyr þá ef þeir vildu skírast láta en þeir kveða þar nei við. Síðan talaði konungur fyrir þeim á marga vega og stoðaði það ekki. Þá hét hann þeim dauða eða meiðslum. Þeir skipuðust ekki við það. Þá lét hann setja þá í járn og hafði þá með sér nokkura hríð og voru þeir í fjötrum haldnir. Konungur talaði oftlega fyrir þeim og týði það ekki.

Og á einni nótt hurfu þeir í brott svo að engi maður spurði til þeirra eða vissi með hverjum hætti þeir komust í brott. En um haustið komu þeir fram norður með Háreki í Þjóttu. Tók hann vel við þeim og voru þeir þar um veturinn með honum í góðu yfirlæti.


75. Frá Háreki í Þjóttu

Það var um vorið einn góðan veðurdag að Hárekur var heima og fátt manna á bænum. Þótti honum dauflegt. Sigurður mælti við hann ef hann vill að þeir rói nokkuð og skemmti sér. Það líkar Háreki vel. Ganga síðan til strandar og draga fram sexæring einn. Tók Sigurður úr naustinu segl og reiða er fylgdi skipinu svo sem þeir voru oft vanir að fara, að hafa segl er þeir fóru að skemmta sér. Hárekur gekk á skip og lagði stýri í lag. Þeir Sigurður bræður fóru með alvæpni svo sem þeir voru vanir jafnan heima að ganga með búanda. Þeir voru báðir manna sterkastir. En áður þeir gengju út á skipið köstuðu þeir út smjörlaupum nokkurum og brauðkassi og báru milli sín mikla mungátsbyttu á skipið. Síðan reru þeir frá landi. En er þeir voru skammt komnir frá eyjunni þá færa þeir bræður segl upp en Hárekur stýrði. Bar þá brátt frá eyjunni. Þá ganga þeir bræður aftur þar til er Hárekur sat.

Sigurður mælti til Háreks bónda: "Nú skaltu kjósa hér um kosti nokkura. Sá er hinn fyrsti að láta okkur bræður fyrir ferð vorri ráða og stefnu. Hinn er annar að láta okkur binda þig. Sá er hinn þriðji að við munum drepa þig."

Hárekur sá þá hvernug komið var hans máli. Hann var andvígur ekki betur en öðrum þeirra bræðra ef þeir væru jafnbúnir. Kaus hann því þann af er honum þótti nokkuru vildastur að láta þá ráða fyrir ferðinni. Batt hann það svardögum við þá og seldi þeim trú sína til þess. Síðan gekk Sigurður til stjórnar og stefndi suður með landi. Gæta þeir bræður þess að þeir skyldu hvergi menn finna en byri gaf sem best. Létta þeir ferðinni eigi fyrr en þeir koma suður í Þrándheim og inn til Niðaróss og finna þar Ólaf konung.

Síðan lét Ólafur konungur kalla Hárek á tal við sig og bauð honum að skírast. Hárekur mælti í móti. Þetta tala þeir konungur og Hárekur marga daga, stundum fyrir mörgum mönnum en stundum í einmæli og kemur hér ekki ásamt.

En að lyktum segir konungur Háreki: "Nú skaltu fara heim og vil eg ekki granda þér. Fyrst heldur það til að frændsemi er mikil milli okkar og það annað að þú munt kalla að eg hafi með svikum fengið þig. En vit það til sanns að eg ætla mér í sumar að koma norður þannug og vitja yðar Háleygjanna. Skuluð þér þá vita hvort eg kann refsa þeim er neita kristninni."

Hárekur lét vel yfir því að hann kæmi sem fyrst þaðan í brott. Ólafur konungur fékk Háreki skútu góða, reru á borð tíu menn eða tólf, lét það skip búa sem best að öllum föngum. Konungur fékk Háreki þrjá tigu manna, vaskra drengja og vel búinna.


76. Dauði Eyvindar kinnrifu

Hárekur úr Þjóttu fer þegar í brott úr bænum sem fyrst mátti hann en Haukur og Sigurður voru með konungi og létu skírast báðir. Hárekur fór leið sína þar til er hann kom heim í Þjóttu. Hann sendi orð Eyvindi kinnrifu, vin sínum, og bað svo segja honum að Hárekur úr Þjóttu hafði fundið Ólaf konung og hafði eigi kúgast látið til þess að taka við kristni. Hitt annað bað hann segja honum að Ólafur konungur ætlar um sumarið að fara með her á hendur þeim. Segir Hárekur að þeir munu þar verða varhuga við að gjalda, bað Eyvind koma sem fyrst á sinn fund.

En er þessi erindi voru borin Eyvindi þá sér hann að yfrin nauðsyn mun til vera að gera þar fyrir það ráð að þeir verði eigi upptækir fyrir konungi. Fer Eyvindur sem skyndilegast með léttiskútu og fáir menn á.

En er hann kom til Þjóttu fagnar Hárekur honum vel og þegar skjótt ganga þeir á tal, Hárekur og Eyvindur, annan veg frá bænum. En er þeir hafa litla hríð talað þá koma þar menn Ólafs konungs, þeir er Háreki höfðu norður fylgt, taka þá höndum Eyvind og leiða hann til skips með sér, fara síðan í brott með Eyvind. Létta þeir eigi fyrr sinni ferð en þeir koma til Þrándheims og finna Ólaf konung í Niðarósi. Var þá Eyvindur fluttur til tals við Ólaf konung.

Bauð konungur honum að taka skírn sem öðrum mönnum. Eyvindur kvað þar nei við. Konungur bað hann blíðum orðum að taka við kristni og segir honum marga skynsemi og svo biskup. Eyvindur skipaðist ekki við það. Þá bauð konungur honum gjafar og veislur stórar en Eyvindur neitti öllu því. Þá hét konungur honum meiðslum eða dauða. Ekki skipaðist Eyvindur við það. Síðan lét konungur bera inn munnlaug fulla af glóðum og setja á kvið Eyvindi og brast brátt kviðurinn sundur.

Þá mælti Eyvindur: "Taki af mér munnlaugina. Eg vil mæla orð nokkur áður eg dey."

Og var svo gert.

Þá spurði konungur: "Viltu nú Eyvindur trúa á Krist?"

"Nei," segir hann, "eg má enga skírn fá. Eg em einn andi, kviknaður í mannslíkam með fjölkynngi Finna en faðir minn og móðir fengu áður ekki barn átt."

Síðan dó Eyvindur og hafði verið hinn fjölkunngasti maður.


77. Kristnað Hálogaland

En um vorið eftir lét Ólafur konungur búa skip sín og lið. Þá hafði hann sjálfur Tranann. Hafði konungur þá mikið lið og frítt. En er hann var búinn hélt hann liðinu út eftir firði og síðan norður fyrir Byrðu og svo norður á Hálogaland. En hvar sem hann kom við land þá átti hann þing. Bauð hann þar öllu fólki að taka skírn og rétta trú. Bar þá engi maður traust til að mæla í móti og kristnaði hann þá land allt þar sem hann fór.

Ólafur konungur tók veislu í Þjóttu að Háreks. Þá var hann skírður og allt lið hans. Gaf Hárekur konungi góðar gjafar að skilnaði og gerðist hans maður og tók veislur af konungi og lends manns rétt.


78. Fall Þóris hjartar

Rauður hinn rammi er nefndur bóndi einn er bjó í firði þeim er Salpti heitir, í Goðey. Rauður var maður stórauðigur og hafði marga húskarla. Hann var ríkur maður. Fylgdi honum mikill fjöldi Finna þegar er hann þurfti. Rauður var blótmaður mikill og mjög fjölkunnigur. Hann var vin mikill þess manns er fyrr var nefndur, Þórir hjörtur. Voru þeir báðir höfðingjar miklir.

En er þeir spurðu að Ólafur konungur fór með her manns sunnan um Hálogaland þá safna þeir her að sér og bjóða skipum út og fá lið mikið. Rauður hafði dreka mikinn og gullbúin höfuð á. Var það skip þrítugt að rúmatali og mikið að því. Þórir hjörtur hafði og mikið skip. Þeir halda liði því suður í móti Ólafi konungi. En er þeir hittast þá leggja þeir til orustu við Ólaf konung. Varð þar mikill bardagi og gerðist brátt mannfall og sneri því í lið Háleygja og hruðust skip þeirra og því næst sló á þá felmt og ótta. Reri Rauður með dreka sinn út til hafs og því næst lét hann draga segl sitt. Rauður hafði jafnan byr hvert er hann vildi sigla og var það af fjölkynngi hans. Er það að segja skjótast af ferð Rauðs að hann sigldi heim í Goðey.

Þórir hjörtur flýði inn til lands og hljópu þar af skipum en Ólafur konungur fylgdi þeim. Hljópu þeir og af skipum og ráku þá og drápu. Varð konungur þá enn fremstur sem jafnan þá er slíkt skyldi þreyta. Hann sá hvar Þórir hjörtur hljóp. Hann var allra manna fóthvatastur. Konungur rann eftir honum og fylgdi honum Vígi hundur hans.

Þá mælti konungur: "Vígi, tak hjörtinn."

Vígi hljóp fram eftir Þóri og þegar upp á hann. Þórir nam stað við. Þá skaut konungur kesju að Þóri. Þórir lagði sverði til hundsins og veitti honum sár mikið en jafnskjótt fló kesja konungsins undir hönd Þóri svo að út stóð um aðra síðuna. Lét Þórir þar líf sitt en Vígi var borinn sár til skipa. Ólafur konungur gaf grið öllum mönnum þeim er báðu og kristni vildu taka.


79. Ferð Ólafs konungs til Goðeyja

Ólafur konungur hélt liði sínu norður með landi og kristnaði allt fólk þar sem hann fór. En er hann kom norður að Salpti ætlaði hann að fara inn í fjörðinn og finna Rauð en hregg veðurs og stakastormur lá innan eftir firðinum og lá konungur þar til viku og hélst hið sama hreggviðri innan eftir firði en hið ytra var blásandi byr að sigla norður með landi. Sigldi þá konungur allt norður í Ömd og gekk þar allt fólk undir kristni. Síðan snýr konungur ferð sinni aftur suður.

En er hann kom norðan að Salpti þá var hregg út eftir firði og sjádrif. Konungur lá þar nokkurar nætur og var veður hið sama. Þá talaði konungur við Sigurð biskup og spurði eftir ef hann kynni þar nokkuð ráð til leggja. Biskup segir að hann mundi freista ef guð vill sinn styrk til leggja að sigra þenna fjandakraft.


80. Frá Sigurði biskup

Sigurður biskup tók allan messuskrúða sinn og gekk fram í stafn á konungsskipi, lét tendra kerti og bar reykelsi, setti róðukross upp í stafninn, las þar guðspjall og margar bænir aðrar, stökkti vígðu vatni um allt skipið. Síðan bað hann taka af tjöldin og róa inn á fjörðinn. Konungur lét þá kalla til annarra skipa að allir skyldu róa eftir honum. En er róður var greiddur á Trönunni þá gekk hún inn á fjörðinn og kenndu þeir engan vind á sér er því skipi reru og svo stóð tóftin eftir í varrsímanum að þar var logn en svo laus sjárokan brott frá hvorntveggja veg að hvergi sá fjöllin fyrir. Reri þá hvert skip eftir öðru þar í logninu. Fóru þeir svo allan dag og eftir um nóttina, komu litlu fyrir dag í Goðeyjar. En er þeir komu fyrir bæ Rauðs þá flaut þar fyrir landi dreki hans sá hinn mikli.

Ólafur konungur gekk þegar upp til bæjar með liði sínu, veittu þar atgöngu lofti því er Rauður svaf í og brutu upp. Hljópu menn þar inn. Var þá Rauður handtekinn og bundinn en drepnir þeir menn aðrir, er þar voru inni, en sumir handteknir. Þá gengu konungsmenn að skála þeim er húskarlar Rauðs sváfu í. Voru þar sumir drepnir en sumir bundnir, sumir barðir.

Lét þá konungur leiða Rauð fyrir sig, bauð honum að láta skírast. "Mun eg þá," segir konungur, "ekki taka af þér eigu þína, vera heldur vin þinn ef þú kannt til gæta."

Rauður æpti á móti því, segir að aldrei skyldi hann á Krist trúa og guðlastaði mjög. Konungur varð þá reiður og sagði að Rauður skyldi hafa hinn versta dauða. Þá lét konungur taka hann og binda opinn á slá eina, lét setja kefli á millum tanna honum og lúka svo upp munninn. Þá lét konungur taka lyngorm einn og bera að munni honum en ormurinn vildi eigi í munninn og hrökktist frá í brott því að Rauður blés í móti honum. Þá lét konungur taka hvannnjólatrumbu og setja í munn Rauð, en sumir menn segja að konungur léti lúður sinn setja í munn honum, og lét þar í orminn, lét bera utan að slájárn glóanda. Hrökktist þá ormurinn í munn Rauð og síðan í hálsinn og skar út um síðuna. Lét Rauður þar líf sitt.

Ólafur konungur tók þar ófa mikið fé í gulli og silfri og öðru lausafé, í vopnum og margs konar dýrgripum. En menn alla, þá er fylgt höfðu Rauð, lét konungur skíra en þá er það vildu eigi lét hann drepa eða kvelja. Þá tók Ólafur konungur dreka er Rauður hafði átt og stýrði sjálfur því að það var skip miklu meira og fríðara en Traninn. Fram var á drekahöfuð en aftur krókur og fram af sem sporður og hvortveggi svírinn og allur stafninn var með gulli lagður. Það skip kallaði konungur Orminn því að þá er segl var á lofti skyldi það vera fyrir vængi drekans. Var þetta skip fríðast í öllum Noregi.

Eyjar þær er Rauður byggði heita Gylling og Hæring en allar saman heita þær Goðeyjar og Goðeyjarstraumur fyrir norðan, milli og meginlands. Ólafur konungur kristnaði fjörð þann allan, fer síðan leið sína suður með landi og varð í þeirri ferð mart það, er í frásögn er fært, er tröll og illar vættir glettust við menn hans og stundum við hann sjálfan. En vér viljum heldur rita um þá atburði er Ólafur konungur kristnaði Noreg eða önnur þau lönd er hann kom kristni á.

Ólafur konungur kom liði sínu það sama haust í Þrándheim og hélt til Niðaróss og bjó þar til vetursetu.

Það vil eg nú næst rita láta að segja frá íslenskum mönnum.


81. Frá Íslendingum

Þetta sama haust komu til Niðaróss utan af Íslandi Kjartan Ólafsson Höskuldssonar og dóttursonur Egils Skalla-Grímssonar er einn hefir kallaður verið mannvænstur maður þeirra er fæðst hafi á Íslandi. Þar var þá og Halldór sonur Guðmundar á Möðruvöllum og Kolbeinn sonur Þórðar Freysgoða bróðir Brennu-Flosa, fjórði Svertingur sonur Runólfs goða. Þessir voru allir heiðnir og margir aðrir, sumir ríkir en sumir óríkir. Þá komu og af Íslandi göfgir menn er kristni höfðu tekið af Þangbrandi, Gissur hvíti sonur Teits Ketilbjarnarsonar en móðir hans var Ólöf dóttir Böðvars hersis Víkinga-Kárasonar. Bróðir Böðvars var Sigurður faðir Eiríks bjóðaskalla, föður Ástríðar, móður Ólafs konungs. Hjalti hét einn íslenskur maður Skeggjason. Hann átti Vilborgu dóttur Gissurar hvíta. Hjalti var og kristinn og tók Ólafur konungur feginsamlega við þeim mágum, Gissuri og Hjalta, og voru þeir með honum.

En þeir íslenskir menn, er fyrir skipum réðu og heiðnir voru, þá leituðu þeir til brautsiglingar þegar konungur var í bænum því að þeim var sagt að konungur nauðgaði alla menn til kristni. En veður gekk í þrá þeim og rak þá aftur undir Niðarhólm. Þeir réðu þar fyrir skipum Þórarinn Nefjólfsson, Hallfreður skáld Óttarsson, Brandur hinn örvi, Þorleikur Brandsson.

Þetta var sagt Ólafi konungi að Íslendingar voru þar nokkurum skipum og heiðnir allir og vildu flýja fund konungs. Þá sendi konungur menn til þeirra og bannaði þeim braut að halda, bað þá leggja inn til bæjar og gerðu þeir svo og báru ekki af skipum sínum.


82. Skírðir Íslendingar

Þá kom Mikjálsmessa. Lét konungur þá halda mjög, lét syngja messu hátíðlega. Íslendingar gengu til og hlýddu söng fögrum og klukknahljóði. En er þeir komu til skipa sinna sagði hver þeirra hvernug líkað hafði aðferð kristinna manna. Kjartan lét vel yfir en flestir aðrir löstuðu. En það er sem mælt er að mörg eru konungs eyru. Var konungi þetta sagt.

Þá gerði hann þegar um daginn mann eftir Kjartani og bað hann koma til sín. Kjartan gekk til konungs með nokkura menn. Fagnaði konungur honum vel. Kjartan var allra manna mestur og fríðastur og vel orði farinn. En er þeir konungur höfðu fám orðum við skipst þá bauð konungur Kjartani að taka við kristni. Kjartan segir að hann vill því eigi níta ef hann skal þá hafa vináttu konungs. Konungur heitir honum vináttu sinni fullkominni og semja þeir konungur þetta sáttmál milli sín.

Annan dag eftir var Kjartan skírður og Bolli Þorleiksson frændi hans og allt föruneyti þeirra. Var Kjartan og Bolli í boði konungs meðan þeir voru í hvítavoðum og var konungur allkær til þeirra.


83. Skírður Hallfreður vandræðaskáld

Ólafur konungur gekk einn dag úti á stræti en menn nokkurir gengu í móti þeim og sá er fyrstur gekk fagnaði konungi. Konungur spurði þann mann að nafni. Sá nefndist Hallfreður.

Þá mælti konungur: "Ertu skáldið?"

Hann segir: "Kann eg yrkja."

Þá mælti konungur: "Þú munt vilja taka kristni og gerast síðan minn maður."

Hann segir: "Kostur skal á því vera, að eg mun skírast, ef þú konungur veitir mér sjálfur guðsifjar. Af engum manni öðrum vil eg það þiggja."

Konungur segir: "Eg vil það gera."

Var þá Hallfreður skírður og hélt konungur honum undir skírn.

Síðan spurði konungur Hallfreð: "Viltu nú gerast minn maður?"

Hallfreður segir: "Eg var fyrr hirðmaður Hákonar jarls. Nú vil eg ekki gerast þér handgenginn og engum öðrum höfðingjum nema þú heitir mér því að mig hendi enga þá hluti er þú rekir mig frá þér."

"Svo að einu er mér sagt," segir konungur, "frá þér Hallfreður að þú ert ekki svo vitur eða spakur að mér er örvænt að þú gerir þá hluti er eg vil fyrir engan mun við sæma."

"Dreptu mig þá," segir Hallfreður.

Konungur mælti: "Þú ert vandræðaskáld en minn maður skaltu nú vera."

Hallfreður svarar: "Hvað gefur þú konungur mér að nafnfesti ef eg skal heita vandræðaskáld?"

Konungur gaf honum sverð og fylgdi engi umgerð.

Konungur mælti: "Yrk nú vísu um sverðið og lát sverð vera í hverju vísuorði."

Hallfreður kvað:

Eitt er sverð, það er, sverða,
sverðauðgan mig gerði.
Fyrir svip-Njörðum sverða
sverðótt mun nú verða.
Muna vansverðað verða,
verðr em eg þriggja sverða,
jarðar leggs ef yrði
umgerð að því sverði.

Þá fékk konungur honum umgerð.

Af Hallfreðar kvæðum tökum vér vísindi og sannindi, það er þar er sagt frá Ólafi konungi Tryggvasyni.


84. Skírðir Íslendingar

Þetta sama haust kom Þangbrandur prestur af Íslandi til Ólafs konungs og segir sínar farar eigi sléttar, segir að Íslendingar höfðu gert níð um hann en sumir vildu drepa hann og lét enga von að það land mundi kristið verða. Ólafur konungur varð svo óður og reiður að hann lét blása öllum íslenskum mönnum saman, þeim er þar voru í bænum, og mælti síðan að alla skyldi drepa.

En Kjartan og Gissur og Hjalti og aðrir þeir er þá höfðu við kristni tekið gengu til konungs og mæltu: "Eigi muntu konungur vilja ganga á bak orðum þínum því að þú mælir svo að engi maður skal svo mikið hafa gert til reiði þinnar að eigi viltu það upp gefa þeim er skírast vilja og láta af heiðni. Nú vilja þessir allir íslenskir menn er hér eru nú skírast láta en vér munum finna bragð það til er kristni mun viðgangast á Íslandi. Eru hér margir ríkra manna synir af Íslandi og munu feður þeirra mikið liðsinni veita að þessu máli. En Þangbrandur fór þar sem hér með yður við ofstopa og manndráp og þoldu menn honum þar ekki slíkt."

Tók þá konungur að hlýða á slíkar ræður. Voru þá skírðir allir íslenskir menn þeir sem þar voru.


85. Frá íþróttum Ólafs konungs

Ólafur konungur var mestur íþróttamaður í Noregi, þeirra er menn hafa frá sagt, um alla hluti. Hverjum manni var hann sterkari og fimari og eru þar margar frásagnir ritaðar um það. Ein sú er hann gekk í Smalsarhorn og festi skjöld sinn í ofanvert bjargið og enn það er hann hjálp hirðmanni sínum, þeim er áður hafði klifið bjargið svo að hvorki mátti komast upp né ofan, en konungur gekk til hans og bar hann undir hendi sér ofan á jöfnu. Ólafur konungur gekk eftir árum útbyrðis er menn hans reru á Orminum og hann lék að þremur handsöxum svo að jafnan var eitt á lofti og henti æ meðalkaflann. Hann vó jafnt báðum höndum og skaut tveim spjótum senn.

Ólafur konungur var allra manna glaðastur og leikinn mjög, blíður og lítillátur, ákafamaður mikill um alla hluti, stórgjöfull, sundurgerðarmaður mikill, fyrir öllum mönnum um fræknleik í orustum, allra manna grimmastur þá er hann var reiður og kvaldi óvini sína mjög. Suma brenndi hann í eldi, suma lét hann ólma hunda rífa í sundur, suma lemja eða kasta fyrir hábjörg. Voru af þeim sökum vinir hans ástúðgir við hann en óvinir hans hræddust við hann. Var því mikil framkvæmd hans að sumir gerðu hans vilja með blíðu og vináttu en sumir fyrir hræðslu sakir.


86. Skírður Leifur Eiríksson

Leifur sonur Eiríks rauða, þess er fyrstur byggði Grænland, var þetta sumar kominn af Grænlandi til Noregs. Fór hann á fund Ólafs konungs og tók við kristni og var um veturinn með Ólafi konungi.


87. Fall Guðröðar konungs

Guðröður sonur Eiríks blóðöxar og Gunnhildar hafði verið í hernaði í Vesturlöndum síðan er hann flýði land fyrir Hákoni jarli. En á þessu sumri er nú var áður frá sagt þá er Ólafur konungur Tryggvason hafði fjóra vetur ráðið fyrir Noregi þá kom Guðröður til Noregs og hafði mörg herskip. Hann hafði þá siglt út af Englandi og er hann kom í landvon við Noreg þá stefndi hann suður með landinu þangað er honum var minni von Ólafs konungs. Siglir Guðröður suður til Víkurinnar. En þegar er hann kom til lands tók hann að herja og brjóta undir sig landsfólk en beiddi sér viðtöku.

En er landsmenn sáu að her mikill var kominn á hendur þeim þá leita menn sér griða og sætta og bjóða konungi að þingboð skuli fara yfir land og bjóða honum heldur viðtöku en þola her hans og voru þar lögð frest á meðan þingboð færi yfir. Krafði þá konungur vistagjalds meðan sú bíðandi skyldi vera. En bændur kjósa hinn kost heldur að búa konungi veislur þá stund alla er hann þurfti til þess og tók konungur þann kost að hann fór um land að veislum með sumt lið sitt en sumt gætti skipa hans.

En er þetta spyrja þeir bræður, Hyrningur og Þorgeir, mágar Ólafs konungs, þá safna þeir sér liði og ráða sér til skipa, fara síðan norður í Víkina og koma á einni nótt með liði sínu þar sem Guðröður konungur var á veislu, veita þar atgöngu með eldi og vopnum. Féll þar Guðröður konungur og flestallt lið hans en það er á skipunum hafði verið var sumt drepið en sumt komst undan og flýði víðs vegar. Voru þá dauðir allir synir Eiríks og Gunnhildar.


88. Ger Ormurinn langi

Þann vetur eftir er Ólafur konungur hafði komið af Hálogalandi lét hann reisa skip mikið inn undir Hlaðhömrum, það er meira var miklu en önnur þau skip er þá voru í landinu og eru enn þar bakkastokkar þeir svo að sjá má. Þorbergur skafhögg er nefndur sá maður er stafnasmiður var að skipinu en þar voru margir aðrir að, sumir að fella, sumir að telgja, sumir saum að slá, sumir til að flytja viðu. Voru þar allir hlutir vandaðir mjög til. Var skipið bæði langt og breitt og borðmikið og stórviðað.

En er þeir báru skipið borði þá átti Þorbergur nauðsynjaerindi að fara heim til bús síns og dvaldist þar mjög lengi. En er hann kom aftur þá var skipið fullborða. Fór konungur þegar um kveldið og Þorbergur með honum og sjá þá skipið, hvernug orðið sé, og mælti hver maður að aldrei hefði séð langskip jafnmikið eða jafnfrítt. Fer þá konungur aftur í bæinn.

En snemma eftir um morguninn fer konungur enn til skipsins og þeir Þorbergur. Voru þá smiðar þar áður komnir. Stóðu þeir allir og höfðust ekki að. Konungur spurði hví þeir færu svo. Þeir segja að spillt var skipinu og maður mundi gengið hafa frá framstafni til lyftingar og sett í borðið ofan hvert skýlihögg að öðru.

Gekk konungur þá til og sá að satt var, mælti þegar og svarði um að sá maður skyldi deyja ef konungur vissi hver fyrir öfundar sakir hefði spillt skipinu "en sá er mér kann það segja skal mikil gæði af mér hljóta."

Þá segir Þorbergur: "Eg mun kunna segja yður konungur hver þetta verk mun gert hafa."

"Mér er eigi þess að öðrum manni meiri von," segir konungur, "að þetta happ muni henda en að þér að verða þess vís og kunna mér segja."

"Segja mun eg þér konungur," segir hann, "hver gert hefir. Eg hefi gert."

Þá svarar konungur: "Þá skaltu bæta svo að jafnvel sé sem áður var. Þar skal líf þitt við liggja."

Síðan gekk Þorbergur til og telgdi borðið svo að öll gengu úr skýlihöggin. Konungur mælti þá og allir aðrir að skipið væri miklu fríðara á það borð er Þorbergur hafði skorið. Bað konungur hann þá svo gera á bæði borð og bað hann hafa mikla þökk fyrir. Var þá Þorbergur höfuðsmiður fyrir skipinu þar til er gert var.

Var það dreki og ger eftir því sem Ormur sá er konungur hafði haft af Hálogalandi en þetta skip var miklu meira og að öllum hlutum meir vandað. Það kallaði hann Orm hinn langa en hinn Orm hinn skamma. Á Orminum langa voru fjögur rúm og þrír tigir. Höfuðin og krókurinn var allt gullbúið. Svo voru há borðin sem á hafskipum. Það hefir skip verið best gert og með mestum kostnaði í Noregi.


89. Frá Eiríki jarli Hákonarsyni

Eiríkur jarl Hákonarson og bræður hans og margir aðrir göfgir frændur þeirra fóru af landi á brott eftir fall Hákonar jarls. Fór Eiríkur jarl austur í Svíþjóð á fund Ólafs Svíakonungs og fengu þeir þar góðar viðtökur. Veitti Ólafur konungur þar jarli friðland og veislur stórar svo að hann mátti þar vel halda sig í landi og lið sitt.

Þess getur Þórður Kolbeinsson:

Meinremmir, brá, manna
margs fýsa sköp, varga,
ljóða litlu síðar
læ Hákonar ævi.
En til lands þess er lindar
láðstafr vegið hafði
hraustr, þá er her fór vestan,
hygg eg komu son Tryggva.

Hafði sér við særi,
slíks var von að honum,
auðs en upp um kvæði
Eiríkr í hug meira.
Sótti reiðr að ráðum,
rann engi því manna,
þrályndi gafst Þrændum,
þrænskr jarl konung sænskan.

Lið mikið sótti af Noregi til Eiríks jarls það er landflótta varð fyrir Ólafi konungi Tryggvasyni. Tók Eiríkur jarl þá það ráð að hann réð sér til skipa og fór í hernað að fá sér fjár og liði sínu. Hann hélt fyrst til Gotlands og lá þar við lengi um sumarið og sætti kaupskipum er sigldu til landsins eða víkingum. Stundum gekk hann upp á landið og herjaði þar víða með sjánum.

Svo segir í Bandadrápu:

Mær vann miklu fleiri
málmhríð jöfur síðan,
eðr frágum það, aðra,
Eiríkr und sig geira,
þá er garðvala gerði
Gotlands vala strandir
Virfils vítt um herjað,
veðrmildr og semr hildi.

Síðan sigldi Eiríkur jarl suður til Vindlands og hitti hann fyrir Staurinum víkingaskip nokkur og lagði til orustu við þá. Þá fékk Eiríkur jarl sigur en drap víkingana.

Svo segir í Bandadrápu:

Stærir lét að Stauri
stafnviggs höfuð liggja,
gramr vélti svo, gumna,
gunnblíðr, og ræðr síðan.
Sleit að sverða móti
svörð víkinga hörðu
unda már fyr eyri,
jarl goðvörðu hjarli.


90. Hernaður Eiríks í Austurveg

Eiríkur jarl sigldi um haustið aftur til Svíþjóðar og var þar vetur annan. En að vori bjó jarl her sinn og sigldi síðan í Austurveg. En þá er hann kom í ríki Valdimars konungs tók hann að herja og drepa mannfólkið og brenna allt þar sem hann fór og eyddi landið. Hann kom til Aldeigjuborgar og settist þar um þar til er hann vann staðinn, drap þar mart fólk en braut og brenndi borgina alla og síðan fór hann víða herskildi um Garðaríki.

Svo segir í Bandadrápu:

Oddhríðar fór eyða,
óx hríð að það síðan,
logfágandi lægis
land Valdimars brandi.
Aldeigju braust, ægir,
oss numnast skil, gumna.
Sú varð hildr með höldum
hörð. Komst austr í Garða.

Eiríkur jarl var í þessum hernaði öllum samt fimm sumur. En er hann kom úr Garðaríki fór hann herskildi um alla Aðalsýslu og Eysýslu og þar tók hann fjórar víkingaskeiður af Dönum og drap allt af.

Svo segir í Bandadrápu:

Frá eg, hvar fleina sævar
fúrherðir styr gerði
endr í eyja sundi.
Eiríkr und sig geira.
Hrauð fúrgjafall fjórar
fólkmeiðr Dana skeiðar,
vér frágum það, vága,
veðrmildr og semr hildi.

Áttuð hjaldr, þar er höldar,
hlunnviggs, í bý runnu,
gæti-Njörðr, við Gauta,
gunnblíðr og ræðr síðan.
Herskildi fór hildar,
hann þverrði frið mönnum,
ás um allar Sýslur,
jarl goðvörðu hjarli.

Eiríkur jarl fór til Danmarkar þá er hann hafði einn vetur verið í Svíaveldi. Hann fór á fund Sveins tjúguskeggs Danakonungs og bað til handa sér Gyðu dóttur hans og var það að ráði gert. Fékk þá Eiríkur jarl Gyðu. Vetri síðar áttu þau son er Hákon hét. Eiríkur jarl var á vetrum í Danmörk en stundum í Svíaveldi en í hernaði á sumrum.


91. Kvonfang Sveins konungs

Sveinn Danakonungur tjúguskegg átti Gunnhildi dóttur Búrisláfs Vindakonungs. En í þenna tíma sem nú var áður frá sagt var þá það til tíðinda að Gunnhildur drottning tók sótt og andaðist.

En litlu síðar fékk Sveinn konungur Sigríðar hinnar stórráðu, dóttur Sköglar-Tósta, móður Ólafs hins sænska Svíakonungs. Tókst þar þá með tengdum konunga kærleikur og með öllum þeim Eiríki jarli Hákonarsyni.


92. Kvonfang Búrisláfs konungs

Búrisláfur Vindakonungur kærði mál það fyrir Sigvalda jarli mági sínum að sættargerð sú var rofin er Sigvaldi jarl hafði gert milli Sveins konungs og Búrisláfs konungs. Búrisláfur konungur skyldi fá Þyri Haraldsdóttur, systur Sveins konungs, en það ráð hafði ekki fram gengið því að Þyri setti þar þvert nei fyrir að hún mundi giftast vilja heiðnum manni og gömlum. Nú segir Búrisláfur konungur jarli að hann vilji heimta þann máldaga og bað jarl fara til Danmerkur og hafa Þyri drottningu til sín.

Sigvaldi jarl lagðist þá ferð eigi undir höfuð og fer á fund Sveins Danakonungs og ber þetta mál fyrir hann og kemur jarl svo fortölum sínum að Sveinn konungur fær í hendur honum Þyri systur sína og fylgdu henni konur nokkurar og fósturfaðir hennar er nefndur er Össur Agason, ríkur maður, og nokkurir menn aðrir. Kom það í einkamál með konungi og jarli að eignir þær í Vindlandi er átt hafði Gunnhildur drottning skyldi þá hafa Þyri til eiginorðs og þar með aðrar stórar eignir í tilgjöf sína.

Þyri grét sárlega og fór mjög nauðig. En er þau jarl komu í Vindland þá gerði Búrisláfur konungur brullaup sitt og fékk Þyri drottningar. En er hún var með heiðnum mönnum þá vildi hún hvorki þiggja mat né drykk af þeim og fór svo fram sjö nætur. En þá var það á einni nótt að Þyri drottning og Össur hljópust í brott í náttmyrkri og til skógar. Er það skjótast frá þeirra ferð að segja að þau koma fram í Danmörk og þorir Þyri þar fyrir engan mun að vera fyrir þá sök að hún veit ef Sveinn konungur spyr, bróðir hennar, til hennar þar, að hann mun skjótt senda hana aftur til Vindlands. Fara þau allt huldu höfði þar til er þau koma í Noreg. Létti Þyri ferðinni eigi fyrr en þau koma á fund Ólafs konungs.

Tók hann við þeim vel og voru þau þar í góðum fagnaði. Segir Þyri konungi allt um sín vandræði og biður hann hjálpráða, biður sér friðar í hans ríki. Þyri var kona orðsnjöll og virtust konungi vel ræður hennar. Sá hann að hún var fríð kona og kemur í hug að þetta muni vera gott kvonfang og víkur þannug ræðunni, spyr ef hún vill giftast honum.

En svo sem þá var hennar ráði komið þótti henni vandi mikill úr að ráða en í annan stað sá hún hversu farsællegt gjaforð þetta var, að giftast svo ágætum konungi, og bað hann ráða fyrir sér og sínu ráði. Og svo sem um þetta var talað þá fékk Ólafur konungur Þyri drottningar. Þetta brullaup var gert um haustið þá er konungur hafði komið norðan af Hálogalandi. Var Ólafur konungur og Þyri drottning í Niðarósi um veturinn.

En eftir um vorið þá kærði Þyri drottning oft fyrir Ólafi konungi og grét sárlega það er eignir hennar voru svo miklar í Vindlandi en hún hafði eigi fjárhlut þar í landi svo sem drottningu sæmdi. Stundum bað hún konung fögrum orðum að hann skyldi fá henni eign sína, segir að Búrisláfur konungur var svo mikill vin Ólafs konungs að þegar er þeir fyndust mundi konungur fá Ólafi konungi allt það er hann beiddist. En er þessar ræðu urðu varir vinir Ólafs konungs þá löttu allir konung þessarar farar.

Svo er sagt að það var einn dag snemma um vorið að konungur gekk eftir stræti en við torg gekk maður í móti honum með hvannir margar og undarlega stórar þann tíma vors. Konungur tók einn hvannnjóla mikinn í hönd sér og gekk heim til herbergis Þyri drottningar. Þyri sat inni í stofunni og grét er konungur kom inn.

Konungur mælti: "Sjá hér hvannnjóla mikinn er eg gef þér."

Hún laust við hendinni og mælti: "Stærrum gaf Haraldur Gormsson en miður æðraðist hann að fara af landi og sækja eign sína, en þú gerir nú, og reyndist það þá er hann fór hingað í Noreg og eyddi mestan hlut lands þessa en eignaðist allt að skyldum og sköttum, en þú þorir eigi að fara í gegnum Danaveldi fyrir Sveini konungi bróður mínum."

Ólafur konungur hljóp upp við er hún mælti þetta og mælti hátt og svarði við: "Aldrei skal eg hræddur fara fyrir Sveini konungi bróður þínum og ef okkrir fundir verða þá skal hann fyrirláta."


93. Útboð Ólafs konungs

Ólafur konungur stefndi þing í bænum litlu síðar. Hann gerði þá bert fyrir allri alþýðu að hann mun leiðangur hafa úti um sumarið fyrir landi og hann vill nefnd hafa úr hverju fylki bæði að skipum og liði, segir þá hversu mörg skip hann vill þaðan hafa úr firðinum. Síðan gerir hann orðsending bæði norður og suður með landi hið ytra og hið efra og lætur liði út bjóða. Ólafur konungur lætur þá setja fram Orminn langa og öll önnur skip sín, bæði stór og smá. Stýrði hann sjálfur Orminum langa.

Og þá er menn voru þar ráðnir til skipanar þá var þar svo mjög vandað lið og valið að engi maður skyldi vera á Orminum langa eldri en sextugur eða yngri en tvítugur en valdir mjög að afli og hreysti. Þar voru fyrst til skoraðir hirðmenn Ólafs konungs því að það var valið af innanlands mönnum og utanlands allt það er sterkast var og fræknast.


94 Manntal á Orminum

Úlfur rauði hét maður er bar merki Ólafs konungs og í stafni var á Orminum og annar Kolbjörn stallari, Þorsteinn oxafótur, Víkar af Tíundalandi bróðir Arnljóts gellina.

Þessir voru á rausninni í söxum: Vakur elfski Raumason, Bersi hinn sterki, Án skyti af Jamtalandi, Þrándur rammi af Þelamörk og Óþyrmir bróðir hans; þeir Háleygir: Þrándur skjálgi, Ögmundur sandi, Hlöðvir langi úr Saltvík, Hárekur hvassi; þeir innan úr Þrándheimi: Ketill hávi, Þorfinnur eisli, Hávarður og þeir bræður úr Orkadal.

Þessir voru í fyrirrúmi: Björn af Stuðlu, Þorgrímur úr Hvini Þjóðólfsson, Ásbjörn og Ormur, Þórður úr Njarðarlög, Þorsteinn hvíti af Oprustöðum, Arnór mærski, Hallsteinn og Haukur úr Fjörðum, Eyvindur snákur, Bergþór bestill, Hallkell af Fjölum, Ólafur drengur, Arnfinnur sygnski, Sigurður bíldur, Einar hörski og Finnur, Ketill rygski, Grjótgarður röskvi.

Þessir voru í krapparúmi: Einar þambarskelfir, hann þótti þeim eigi hlutgengur því að hann var átján vetra, Hallsteinn Hlífarson, Þórólfur, Ívar smetta, Ormur skógarnef.

Og margir aðrir menn mjög ágætir voru á Orminum þótt vér kunnum eigi nefna. Átta menn voru í hálfrými á Orminum og var valið einum manni og einum. Þrír tigir manna voru í fyrirrúmi. Það var mál manna að það mannval er á Orminum var bar eigi minna af öðrum mönnum um fríðleika og afl og fræknleik en Ormurinn af öðrum skipum.

Þorkell nefja bróðir konungs stýrði Orminum skamma. Þorkell dyrðill og Jósteinn móðurbræður konungs höfðu Tranann. Og var hvorttveggja það skip allvel skipað. Ellefu stórskip hafði Ólafur konungur úr Þrándheimi og umfram tvítugsessur og smærri skip.


95. Kristnað Ísland

En er Ólafur konungur hafði mjög búið lið sitt úr Niðarósi þá skipaði hann mönnum um öll Þrændalög í sýslur og ármenningar. Þá sendi hann til Íslands Gissur hvíta og Hjalta Skeggjason að boða kristni á Íslandi og fékk með þeim prest þann er Þormóður er nefndur og fleiri vígða menn en hafði eftir með sér í gísling fjóra íslenska menn, þá er honum þóttu ágætastir: Kjartan Ólafsson, Halldór Guðmundarson, Kolbein Þórðarson, Sverting Runólfsson.

Og er það sagt af ferð þeirra Gissurar og Hjalta að þeir komu til Íslands fyrir alþingi og fóru til þings og á því þingi var kristni í lög tekin á Íslandi og það sumar var skírt allt mannfólk.


96. Kristnað Grænland

Ólafur konungur sendi og það sama vor Leif Eiríksson til Grænlands að boða þar kristni og fór hann það sumar til Grænlands. Hann tók í hafi skipsögn þeirra manna er þá voru ófærir og lágu á skipsflaki og þá fann hann Vínland hið góða og kom um sumarið til Grænlands og hafði þannug með sér prest og kennimenn og fór til vistar í Brattahlíð til Eiríks föður síns. Menn kölluðu hann síðan Leif hinn heppna.

En Eiríkur faðir hans sagði að það var samskulda er Leifur hafði borgið skipsögn manna og það er hann hafði flutt skémanninn til Grænlands. Það var presturinn.


97. Ferð Ólafs konungs

Ólafur konungur fór með liði sínu suður með landi. Sóttu þá til fundar við hann vinir hans margir, ríkismenn þeir er til ferðar voru búnir með konungi. Var þar hinn fyrsti maður Erlingur Skjálgsson mágur hans og hafði hann skeið hina miklu. Hún var þrítug að rúmatali og var það skip allvel skipað. Þá komu og til konungs mágar hans, Hyrningur og Þorgeir, og stýrði hvortveggi miklu skipi. Margir aðrir ríkismenn fylgdu honum. Hann hafði sex tigu langskipa er hann fór úr landi og sigldi suður fyrir Danmörk gegnum Eyrarsund.

Og í þeirri ferð kom Ólafur konungur til Vindlands og gerði stefnulag við Búrisláf konung og fundust þeir konungar. Töluðu þeir þá um eignir þær er Ólafur konungur heimti og fóru allar ræður líklega milli konunga og var góður greiðskapur um þær heimtingar er Ólafur konungur þóttist þar eiga. Dvaldist Ólafur konungur þar lengi um sumarið, fann þar marga vini sína.


98. Frá Svíakonungi

Sveinn konungur tjúguskegg átti þá Sigríði hina stórráðu sem fyrr er ritið. Sigríður var hinn mesti óvin Ólafs konungs Tryggvasonar og fann það til saka að Ólafur konungur hafði slitið einkamálum við hana og lostið hana í andlit svo sem fyrr var ritið.

Hún eggjaði mjög Svein konung til að halda orustu við Ólaf konung Tryggvason og segir að það var ærin sök við Ólaf konung er hann hafði lagst hjá Þyri systur hans "að ólofi yðru og mundu ekki hinir fyrri frændur yðrir slíkt þola."

Hafði Sigríður drottning slíkar fortölur oftlega í munni og kom hún svo sínum fortölum að Sveinn konungur var fullkominn að gera það ráð.

Og snemma um vorið sendi Sveinn konungur menn austur í Svíþjóð á fund Ólafs Svíakonungs mágs síns og Eiríks jarls og lét segja þeim að Ólafur Noregskonungur hafði leiðangur úti og ætlaði að fara um sumarið til Vindlands. Fylgdi það orðsending að Svíakonungur og jarl skyldu her úti hafa og fara til móts við Svein konung, skyldu þeir þá allir saman leggja til orustu við Ólaf konung. En Svíakonungur og Eiríkur jarl voru þessarar ferðar albúnir og drógu þá saman skipaher mikinn af Svíaveldi, fóru því liði suður til Danmerkur og komu þar svo að Ólafur konungur Tryggvason hafði áður austur siglt.

Þess getur Halldór ókristni er hann orti um Eirík jarl:

Út bauð jöfra hneitir
élmóðr af Svíþjóðu,
suðr hélt gramr til gunnar,
gunnbliks liði miklu.
Hver vildi þá hölda,
hrægeitunga feitir,
már fékk á sjá sára
sylg, Eiríki fylgja.

Þeir Svíakonungur og Eiríkur jarl héldu til fundar við Danakonung og höfðu þá allir saman ógrynni hers.


99 Svikræði Sigvalda jarls

Sveinn konungur, þá er hann hafði sent eftir herinum, þá sendi hann Sigvalda jarl til Vindlands að njósna um ferð Ólafs konungs Tryggvasonar og gildra svo til að fundur þeirra Sveins konungs mætti verða og Ólafs konungs.

Fer þá Sigvaldi jarl leið sína og kom fram á Vindlandi, fór til Jómsborgar og síðan á fund Ólafs konungs Tryggvasonar. Voru þar mikil vináttumál þeirra á milli. Kom jarl sér í hinn mesta kærleik við konung. Ástríður kona jarls, dóttir Búrisláfs konungs, var mikill vin Ólafs konungs og var það mjög af hinum fyrrum tengdum er Ólafur konungur hafði átt Geiru systur hennar.

Sigvaldi jarl var maður vitur og ráðugur. En er hann kom sér í ráðagerð við Ólaf konung þá dvaldi hann mjög ferðina hans austan að sigla og fann til þess mjög ýmsa hluti en lið Ólafs konungs lét geysiilla og voru mennirnir mjög heimfúsir er þeir lágu albúnir en veður byrvæn.

Sigvaldi jarl fékk njósn leynilega af Danmörk að þá var austan kominn her Danakonungs og Eiríkur jarl hafði þá og búinn sinn her og þeir höfðingjarnir mundu þá koma austur undir Vindland og þeir höfðu ákveðið að þeir mundu bíða Ólafs konungs við ey þá er Svöld heitir, svo það að jarl skyldi svo til stilla að þeir mættu þar finna Ólaf konung.


100. Ferð Ólafs af Vindlandi

Þá kom pati nokkur til Vindlands að Sveinn Danakonungur hefði her úti og gerðist brátt sá kurr að Sveinn Danakonungur mundi vilja finna Ólaf konung.

En Sigvaldi jarl segir konungi: "Ekki er það ráð Sveins konungs að leggja til bardaga við þig með Danaher einn saman svo mikinn her sem þér hafið. En ef yður er nokkur grunur á því að ófriður muni fyrir þá skal eg fylgja yður með mínu liði og þótti það enn styrkur hvar sem Jómsvíkingar fylgdu höfðingjum. Mun eg fá þér ellefu skip vel skipuð."

Konungur játaði þessu. Var þá lítið veður og hagstætt. Lét konungur þá leysa flotann og blása til brottlögu. Drógu menn þá segl sín og gengu meira smáskipin öll og sigldu þeir undan á hafið út.

En jarl sigldi nær konungsskipinu og kallaði til þeirra, bað konung sigla eftir sér. "Mér er kunnast," segir hann, "hvar djúpast er um eyjasundin en þér munuð þess þurfa með þau hin stóru skip."

Sigldi þá jarl fyrir með sínum skipum. Hann hafði ellefu skip en konungur sigldi eftir honum með sínum stórskipum. Hafði hann og þar ellefu skip en allur annar herinn sigldi út á hafið. En er Sigvaldi jarl sigldi utan að Svöld þá reri í móti þeim skúta ein. Þeir segja jarli að her Danakonungs lá þar í höfninni fyrir þeim. Þá lét jarl hlaða seglunum og róa þeir inn undir eyna.

Halldór ókristni segir svo:

Óna fór og einum,
unnviggs, konungr sunnan,
sverð rauð mætr að morði
meiðr, sjö tugum skeiða,
þá er húnlagar hreina
hafði jarl um krafða,
sætt gekk seggja ættar
sundr, Skánunga fundar.

Hér segir að þeir Ólafur konungur og Sigvaldi jarl höfðu sjö tigu skipa og einu meir þá er þeir sigldu sunnan.


101. Frá tali konunganna

Sveinn Danakonungur og Ólafur Svíakonungur og Eiríkur jarl voru þar þá með allan her sinn. Þá var fagurt veður og bjart sólskin. Gengu þeir nú á hólminn allir höfðingjar og sveitir með þeim og sáu er skipin sigldu út á hafið mjög mörg saman og nú sjá þeir hvar siglir eitt mikið skip og glæsilegt.

Þá mæltu báðir konungarnir: "Þetta er mikið skip og ákafa fagurt. Þetta mun vera Ormur hinn langi."

Eiríkur jarl svarar og segir að ekki er þetta Ormur hinn langi. Og svo var sem hann sagði. Þetta skip átti Eindriði af Gimsum. Litlu síðar sáu þeir hvar annað skip sigldi miklu meira en hið fyrra.

Þá mælti Sveinn konungur: "Hræddur er Ólafur Tryggvason nú. Eigi þorir hann að sigla með höfuðin á skipi sínu."

Þá segir Eiríkur jarl: "Ekki er þetta konungsskip. Kenni eg þetta skip og seglið því að stafað er seglið. Þetta er Erlingur Skjálgsson. Látum sigla þá. Betra er oss skarð og missa í flota Ólafs konungs en þetta skip þar svo búið."

En stundu síðar sáu þeir og kenndu skip Sigvalda jarls og viku þau þannug að hólmanum. Þá sáu þeir hvar sigldu þrjú skip og var eitt mikið skip. Mælti þá Sveinn konungur, biður þá ganga til skipa sinna, segir að þá fer Ormur hinn langi.

Eiríkur jarl segir: "Mörg hafa þeir önnur stór skip og glæsileg en Orm hinn langa. Bíðum enn."

Þá mæltu mjög margir menn: "Eigi vill Eiríkur jarl nú berjast og hefna föður síns. Þetta er skömm mikil svo að spyrjast mun um öll lönd ef vér liggjum hér með jafnmiklu liði en Ólafur konungur sigli á hafið út hér hjá oss sjálfum."

En er þeir höfðu þetta talað um hríð þá sáu þeir hvar sigldu fjögur skip og eitt af þeim var dreki allmikill og mjög gullbúinn.

Þá stóð upp Sveinn konungur og mælti: "Hátt mun Ormurinn bera mig í kveld. Honum skal eg stýra."

Þá mæltu margir að Ormurinn var furðu mikið skip og frítt, rausn mikil að láta gera slíkt skip.

Þá mælti Eiríkur jarl svo að nokkurir menn heyrðu: "Þótt Ólafur konungur hefði ekki meira skip en þetta þá mundi Sveinn konungur það aldrei fá af honum með einn saman Danaher."

Dreif þá fólkið til skipanna og ráku af tjöldin. En er höfðingjar ræddu þetta milli sín sem nú er sagt þá sáu þeir hvar sigldu þrjú skip allmikil og hið fjórða síðast og var það Ormur hinn langi. En þau hin stóru skip, er áður höfðu siglt og þeir hugðu að Ormurinn væri, það var hið fyrra Traninn en hið síðara Ormur hinn skammi. En þá er þeir sáu Orminn langa kenndu allir, mælti þá engi í mót að þar mundi sigla Ólafur Tryggvason, gengu þá til skipanna og skipuðu til atlögunnar.

Voru það einkamál þeirra höfðingjanna, Sveins konungs og Ólafs konungs og Eiríks jarls, að sinn þriðjung Noregs skyldi eignast hver þeirra ef þeir felldu Ólaf konung Tryggvason en sá þeirra höfðingja er fyrst gengi á Orminn skyldi eignast allt það hlutskipti er þar fékkst og hver þeirra þau skip er sjálfur hryði.

Eiríkur jarl hafði barða einn geysimikinn er hann var vanur að hafa í víking. Þar var skegg á ofanverðu barðinu hvorutveggja en niður frá járnspöng þykk og svo breið sem barðið og tók allt í sjá ofan.


102. Frá liði Ólafs konungs

Þá er þeir Sigvaldi jarl reru inn undir hólmann þá sáu það þeir Þorkell dyrðill af Trananum og aðrir skipstjórnarmenn, þeir er með honum fóru, að jarl sneri sínum skipum undir hólmann. Þá hlóðu þeir og seglum og reru eftir honum og kölluðu til þeirra, spurðu hví þeir fóru svo.

Jarl segir að hann vill bíða Ólafs konungs "og er meiri von að ófriður sé fyrir oss."

Létu þeir þá fljóta skipin þar til er Þorkell nefja kom með Orminn skamma og þau þrjú skip er honum fylgdu og voru þeim sögð hin sömu tíðindi. Hlóðu þeir þá og sínum seglum og létu fljóta og biðu Ólafs konungs. En þá er konungurinn sigldi innan að hólmanum þá reri allur herinn út á sundið fyrir þá. En er þeir sáu það þá báðu þeir konunginn sigla leið sína en leggja eigi til orustu við svo mikinn her.

Konungur svarar hátt og stóð upp í lyftingunni: "Láti ofan seglið. Ekki skulu mínir menn hyggja á flótta. Eg hefi aldrei flúið í orustu. Ráði guð fyrir lífi mínu en aldrei mun eg á flótta leggja."

Var svo gert sem konungur mælti. Svo segir Hallfreður:

Geta skal máls þess, er mæla
menn að vopna sennu
dólga fangs við drengi
dáðöflgan gram kváðu.
Baða hertryggðar hyggja
hnekkir sína rekka,
þess lifa þjóðar sessa
þróttar orð, á flótta.


103. Lagt saman skipum Ólafs konungs

Ólafur konungur lét blása til samlögu öllum skipum sínum. Var konungsskip í miðju liði en þar á annað borð Ormur hinn skammi en annað borð Traninn. En þá er þeir tóku að tengja stafnana þá bundu þeir saman stafnana á Orminum langa og Orminum skamma. En er konungur sá það kallaði hann hátt, bað þá leggja fram betur hið mikla skipið og láta það eigi aftast vera allra skipa í herinum.

Þá svarar Úlfur hinn rauði: "Ef Orminn skal því lengra fram leggja sem hann er lengri en önnur skip þá mun ávinnt verða um söxin."

Konungur segir: "Eigi vissi eg að eg ætti stafnbúann bæði rauðan og ragan."

Úlfur segir: "Ver þú eigi meir baki lyftingina en eg mun verja stafninn."

Konungur hélt á boga og lagði ör á streng og sneri að Úlfi.

Úlfur mælti: "Skjót annan veg konungur, þannug sem meiri er þörfin. Þér vinn eg það er eg vinn."


104. Frá Ólafi konungi

Ólafur konungur stóð í lyftingu á Orminum. Bar hann hátt mjög. Hann hafði gylltan skjöld og gullroðinn hjálm. Hann var auðkenndur frá öðrum mönnum. Hann hafði rauðan kyrtil stuttan utan um brynju.

En er Ólafur konungur sá að riðluðust flokkarnir og upp voru sett merki fyrir höfðingjum þá spurði hann: "Hver er höfðingi fyrir liði því er gegnt oss er?"

Honum var sagt að þar var Sveinn konungur tjúguskegg með Danaher.

Konungur svarar: "Ekki hræðumst vér bleyður þær. Engi er hugur í Dönum. En hver höfðingi fylgir þeim merkjum er þar eru út í frá hægra veg?"

Honum var sagt að þar var Ólafur konungur með Svíaher.

Ólafur konungur segir: "Betra væri Svíum heima og sleikja um blótbolla sína en ganga á Orminn undir vopn yður. En hverjir eiga þau hin stóru skip er þar liggja út á bakborða Dönum?"

"Þar er," segja þeir, "Eiríkur jarl Hákonarson."

Þá svarar Ólafur konungur: "Hann mun þykjast eiga við oss skaplegan fund og oss er von snarprar orustu af því liði. Þeir eru Norðmenn sem vér erum."


105. Upphaf orustu

Síðan greiða konungar atróður. Lagði Sveinn konungur sitt skip móti Orminum langa en Ólafur konungur sænski lagði út frá og stakk stöfnum að ysta skipi Ólafs konungs Tryggvasonar en öðrum megin Eiríkur jarl. Tókst þar þá hörð orusta. Sigvaldi jarl lét skotta við sín skip og lagði ekki til orustu.

Svo segir Skúli Þorsteinsson, hann var þá með Eiríki jarli:

Fylgdi eg Frísa dólgi
fékk eg ungr, þar er spjör sungu,
nú finnr öld, að eg eldumst,
aldrbót, og Sigvalda,
þar er til móts við mæti
málmþings í dyn hjálma
suðr fyr Svöldrar mynni
sárlauk roðinn bárum.

Og enn segir hér frá þessum tíðindum Hallfreður:

Þar hykk víst til mjög misstu,
mörg kom drótt á flótta,
gram þann er gunni framdi,
gengis þrænskra drengja.
Næfr vó einn við jöfra
allvaldr tvo snjalla,
frægr er til slíks að segja
siðr, og jarl hinn þriðja.


106. Flótti Sveins konungs og Ólafs konungs

Þessi orusta var hin snarpasta og allmannskæð. Frambyggjar á Orminum langa og Orminum skamma og Trananum færðu akkeri og stafnljá í skip Sveins konungs en áttu vopnin að bera á þá niður undir fætur sér. Hruðu þeir öll þau skip er þeir fengu haldið en konungurinn Sveinn og það lið er undan komst flýði á önnur skip og því næst lögðu þeir frá úr skotmáli og fór þessi her svo sem gat Ólafur konungur Tryggvason.

Þá lagði þar að í staðinn Ólafur Svíakonungur og þegar er þeir komu nær stórskipum þá fór þeim sem hinum, að þeir létu lið mikið og sum skip sín og lögðu frá við svo búið.

En Eiríkur jarl síbyrti Barðanum við hið ysta skip Ólafs konungs og hrauð það og hjó þegar það úr tengslum en lagði þá að því er þar var næst og barðist til þess er það var hroðið. Tók þá liðið að hlaupa af hinum smærrum skipunum og upp á stórskipin en jarl hjó hvert úr tengslunum svo sem hroðið var. En Danir og Svíar lögðu þá í skotmál og öllum megin að skipum Ólafs konungs. En Eiríkur jarl lá ávallt síbyrt við skipin og átti höggorustu en svo sem menn féllu á skipum hans þá gengu aðrir upp í staðinn, Danir og Svíar.

Svo segir Halldór:

Gerðist snarpra sverða,
slitu drengir frið, lengi,
þar er gullin spjör gullu,
gangr um Orm hinn langa.
Dólgs kváðu fram fylgja
fráns leggbita hánum
sænska menn að sennu
sunnr og danska runna.

Þá var orusta hin snarpasta og féll þá mjög liðið og kom svo að lyktum að öll voru hroðin skip Ólafs konungs nema Ormurinn langi. Var þar þá allt lið á komið, það er vígt var hans manna. Þá lagði Eiríkur jarl Barðann að Orminum síbyrt og var þar höggorusta.

Svo segir Halldór:

Fjörð kom heldr í harða,
hnitu reyr saman dreyra,
tungl skárust þá tingla
tangar, Ormr hinn langi,
þá er borðmikinn Barða
brynflagðs reginn lagði,
jarl vann hjálms að hólmi
hríð, við Fáfnis síðu.


107. Frá Eiríki jarli

Eiríkur jarl var í fyrirrúmi á skipi sínu og var þar fylkt með skjaldborg. Var þá bæði þar höggorusta og spjótum lagt og kastað öllu því er til vopna var en sumir skutu bogaskoti eða handskoti. Var þá svo mikill vopnaburður á Orminn að varla mátti hlífum fyrir sig koma er svo þykkt flugu spjót og örvar því að öllum megin lögðu herskip að Orminum. En menn Ólafs konungs voru þá svo óðir að þeir hljópu upp á borðin til þess að ná með sverðshöggum að drepa fólkið en margir lögðu eigi svo undir Orminn að þeir vildu í höggorustu vera. En Ólafs menn gengu flestir út af borðunum og gáðu eigi annars en þeir berðust á sléttum velli og sukku niður með vopnum sínum. 

Svo segir Hallfreður:

Sukku niðr af naðri,
naddfárs í böð sárir,
baugs, gerðut við vægjast,
verkendr meginserkjar.
Vanr mun Ormr, þótt Ormi
alldýr konungr stýri,
hvars hann skríðr með lið lýða,
lengi slíkra drengja.


108. Frá Einari þambarskelfi

Einar þambarskelfir var á Orminum aftur í krapparúmi. Hann skaut af boga og var allra manna harðskeytastur. Einar skaut að Eiríki jarli og laust í stýrishnakkann fyrir ofan höfuð jarli og gekk allt upp á reyrböndin. Jarl leit til og spurði ef þeir vissu hver þar skaut en jafnskjótt kom önnur ör svo nær jarli að flaug milli síðunnar og handarinnar og svo aftur í höfðafjölina að langt stóð út broddurinn.

Þá mælti jarl við þann mann er sumir nefna Finn en sumir segja að hann væri finnskur, sá var hinn mesti bogmaður: "Skjóttu mann þann hinn mikla í krapparúminu."

Finnur skaut og kom örin á boga Einars miðjan í því bili er Einar dró hið þriðja sinn bogann. Brast þá boginn í tvo hluti.

Þá mælti Ólafur konungur: "Hvað brast þar svo hátt?"

Einar svarar: "Noregur úr hendi þér konungur."

"Eigi mun svo mikill brestur orðinn," segir konungur, "tak boga minn og skjót af og kastaði boganum til hans.

Einar tók bogann og dró þegar fyrir odd örvarinnar og mælti: "Of veikur, of veikur allvalds bogi" og kastaði aftur boganum, tók þá skjöld sinn og sverð og barðist.


109. Frá Ólafi konungi

Ólafur konungur Tryggvason stóð í lyftingu á Orminum og skaut oftast um daginn, stundum bogaskoti en stundum gaflökum og jafnan tveim senn.

Hann sá fram á skipið og sá sína menn reiða sverðin og höggva títt og sá að illa bitu, mælti þá hátt: "Hvort reiðið þér svo slælega sverðin er eg sé að ekki bíta yður?"

Maður svarar: "Sverð vor eru slæ og brotin mjög."

Þá gekk konungur ofan í fyrirrúmið og lauk upp hásætiskistuna, tók þar úr mörg sverð hvöss og fékk mönnum. En er hann tók niður hinni hægri hendi þá sáu menn að blóð rann ofan undan brynstúkunni. Engi veit hvar hann var sár.


110. Uppganga á Orminn

Mest var vörnin á Orminum og mannskæðust af fyrirrúmsmönnum og stafnbúum. Þar var hvorttveggja mest valið mannfólkið og hæst borðin. En er lið féll fyrst um mitt skipið og þá er fátt stóð upp mannanna um sigluskeiðið þá réð Eiríkur jarl til uppgöngu og kom upp á Orminn með fimmtánda mann. Þá kom í móti honum Hyrningur mágur Ólafs konungs með sveit manna og varð þar hinn harðasti bardagi og lauk svo að jarl hrökk ofan aftur á Barðann en þeir menn er honum höfðu fylgt féllu sumir en sumir voru særðir.

Þess getur Þórður Kolbeinsson:

Þar var hjálmaðs herjar
Hropts við dreyrgar toptir
Orð fékk gott, er gerði
grams vör blám hjörvi,
höll bilar hárra fjalla,
Hyrningr, áðr það fyrnist.

Þá varð enn hin snarpasta orusta og féllu þá margir menn á Orminum. En er þynntist skipan á Orminum til varnarinnar þá réð Eiríkur jarl annað sinn til uppgöngu á Orminn. Varð þá enn hörð viðtaka. En er þetta sáu stafnbúar á Orminum þá gengu þeir aftur á skipið og snúast til varnar móti jarli og veita harða viðurtöku. En fyrir því að þá var svo mjög fallið lið á Orminum að víða voru auð borðin, tóku þá jarlsmenn víða upp að ganga. En allt það lið er þá stóð upp til varnar á Orminum sótti aftur á skipið þar til sem konungur var.

Svo segir Halldór ókristni að Eiríkur jarl eggjaði þá sína menn:

Hét á heiftar nýta
hugreifr, með Óleifi
aftr stökk þjóð um þóftur,
þengill sína drengi,
þá er hafvita höfðu
hallands um gram snjallan,
varð fyr Vinda myrði
vopneiðr, lokið skeiðum.


111. Hroðinn Ormurinn langi

Kolbjörn stallari gekk upp í lyfting til konungs. Þeir höfðu mjög líkan klæðabúnað og vopna. Var Kolbjörn og allra manna mestur og fríðastur. Var nú enn í fyrirrúminu hin snarpasta orusta. En fyrir þá sök að þá var svo mikið fólk komið upp á Orminn af liði jarls, sem vera mátti á skipinu, en skip hans lögðu að öllum megin utan að Orminum en lítið fjölmenni til varnar móti svo miklum her, nú þótt þeir menn væru bæði sterkir og fræknir þá féllu nú flestir á lítilli stundu.

En Ólafur konungur sjálfur og þeir Kolbjörn báðir hljópu þá fyrir borð og á sitt borð hvor. En jarlsmenn höfðu lagt utan að smáskútur og drápu þá er á kaf hljópu. Og þá er konungur sjálfur hafði á kaf hlaupið vildu þeir taka hann höndum og færa Eiríki jarli en Ólafur konungur brá yfir sig skildinum og steyptist í kaf. En Kolbjörn stallari skaut undir sig skildinum og hlífði sér svo við spjótum er lagt var af skipum þeim er undir lágu og féll hann svo á sjáinn að skjöldurinn varð undir honum og komst hann því eigi í kaf svo skjótt og varð hann handtekinn og dreginn upp í skútuna og hugðu þeir að þar væri konungurinn. Var hann þá leiddur fyrir jarl. En er þess varð jarl var að þar var Kolbjörn en eigi Ólafur konungur þá voru Kolbirni grið gefin.

En í þessi svipan hljópu allir fyrir borð af Orminum, þeir er þá voru á lífi Ólafs konungs menn, og segir Hallfreður svo að Þorkell nefja konungsbróðir hljóp síðast allra manna fyrir borð:

Ógræðir sá auða
armgrjóts Trönu fljóta,
hann rauð geir að gunni
glaðr, og báða Naðra,
áðr hjaldrþorinn héldi,
hugframr í böð ramri,
snotr af snæris vitni
sunds Þorketill undan.


112. Eyjasögn

Svo var fyrr ritið að Sigvaldi jarl kom til föruneytis við Ólaf konung í Vindlandi og hafði jarl tíu skip en það hið ellefta er á voru menn Ástríðar konungsdóttur, konu Sigvalda jarls.

En þá er Ólafur konungur hafði fyrir borð hlaupið þá æpti herinn allur siguróp og þá lustu þeir árum í sjá, jarl og hans menn, og reru til bardaga.

Þess getur Halldór ókristni:

Drógust vítt að vígi
Vinda skeiðr, og gindu
Þriðja hauðrs á þjóðir
þunn gölkn og járnmunnum.
Gnýr varð á sjá sverða.
Sleit örn gera beitu.
Dýr vó drengja stjóri.
Drótt kom mörg á flótta.

En sú Vindasnekkjan er menn Ástríðar voru á reri brott og aftur undir Vindland og var það þegar ræða margra manna að Ólafur konungur mundi steypt hafa af sér brynjunni í kafi og kafað út undan langskipunum, lagst síðan til Vindasnekkjunnar og hefðu menn Ástríðar flutt hann til lands. Og eru þar margar frásagnir um ferðir Ólafs konungs gervar síðan af sumum mönnum.

En á þessa leið segir Hallfreður:

Veit eg ei hitt, hvort Heita
hungrdeyfi skal eg leyfa
dynsæðinga dauðan
dýrbliks eða þó kvikvan,
alls sannlega segja,
sár mun gramr að hváru,
hætt er til hans að frétta,
hvorttveggja mér seggir.

En hvernug sem það hefir verið þá kom Ólafur konungur Tryggvason aldrei síðan til ríkis í Noregi.

En þó segir Hallfreður vandræðaskáld á þessa leið:

Samr var ár, um ævi,
oddbrags, hinn er það sagði,
að lofða gramr lifði,
læstyggs sonar Tryggva.
Vera kveðr öld úr éli
Ólaf kominn stála,
menn geta máli sönnu,
mjög er verr en svo, ferri.

Og enn þetta:

Mundut þess, er þegnar
þróttharðan gram sóttu,
fer eg með lýða líði
landherðar, sköp verða,
að mundjökuls mundi
margdýr koma stýrir,
geta þykjast þess gotnar
glíklegs, úr styr slíkum.

Enn segir auðar kenni
austr í málma gnaustan
seggr frá sárum tyggja
sumr eða brott um komnum.
Nú er sannfregið sunnan
siklings úr styr miklum,
kann eigi mart við manna,
morð, veifanar orði.


113. Frá Eiríki jarli Hákonarsyni

Eiríkur jarl Hákonarson eignaðist Orminn langa með sigrinum og hlutskipti mikið og stýrði jarl Orminum frá fundinum.

Svo segir Halldór:

Hjálmfaldinn bar hilmi
hrings að miklu þingi,
skeiðr glæstu þá þjóðir,
þangað Ormr hinn langi.
En suðr að gný Gunnar
glaðr tók jarl við Naðri.
Áðr varð egg að rjóða
ættgóðr Hemings bróðir.

Sveinn sonur Hákonar jarls hafði þá fest Hólmfríði dóttur Ólafs Svíakonungs. En er þeir skiptu Noregsveldi milli sín, Sveinn Danakonungur og Ólafur Svíakonungur og Eiríkur jarl, þá hafði Ólafur konungur fjögur fylki í Þrándheimi og Mæri hvoratveggju og Raumsdal og austur Ranríki frá Gautelfi til Svínasunds. Þetta ríki fékk Ólafur konungur í hendur Sveini jarli með þvílíkum formála sem fyrr höfðu haft skattkonungar eða jarlar af yfirkonungum. En Eiríkur jarl hafði fjögur fylki í Þrándheimi, Hálogaland og Naumudal, Fjörðu og Fjalir, Sogn og Hörðaland og Rogaland og norðan Agðir allt til Líðandisness.

Svo segir Þórður Kolbeinsson:

Veit eg, fyr Erling utan,
ár að hersar váru,
lofa eg fasta Tý, flestir,
farlands, vinir jarla.
En eft víg frá Veigu,
vel eg orð að styr, norðan
land eða lengra stundu
lagðist suðr til Agða.

Allvalds nutu aldir.
Una líkar vel slíku.
Skyldr lést hendi að halda
hann of Noregs mönnum.
En Sveinn konungr sunnan
sagðr er dauðr, en auðir,
fátt bilar flestra ýta
fár, hans býir váru.

Sveinn Danakonungur hafði þá enn Víkina svo sem hann hafði fyrr haft en hann veitti Eiríki jarli Raumaríki og Heiðmörk. Sveinn Hákonarson tók jarldóm af Ólafi hinum sænska.

Sveinn jarl var allra manna fríðastur er menn hafi séð. Eiríkur jarl og Sveinn jarl létu báðir skírast og tóku rétta trú en meðan þeir réðu fyrir Noregi létu þeir gera hvern sem vildi um kristnihaldið. En forn lög héldu þeir vel og alla landsiðu og voru menn vinsælir og stjórnsamir. Var Eiríkur jarl mjög fyrir þeim bræðrum um forráð öll.
Netútgáfan - september 1999