EIN  GÓР BÆNEg særi þig, þú óhreinn andi, burt frá mér og mínu, hvort heldur það er kona eður kallmaður, skyldur eður vandalaus.

Eg særi þig frá mér og öllum þeim eg vil gott gjöra og eg vil þessa bæn yfir lesa eður eg hana yfirleggja.

Í þriðja máta særi eg þig frá öllum þeim skepnum sem eg þessa bæn yfirlegg.

Þessa særing les eg yfir þér í nafni þess krossfesta Jesú Kristí í trausti þeirrar elsku og kærleika sem hann hefur á sínum börnum.

Eg særi þig fyrir alla guðdómsins þrenningu og fyrir allar jurtir sem á jörðunni vaxa og verið hafa.

Eg særi þig, óhreinn andi, frá mér og öllum mínum kindum sem og frá þeim manna skepnum er eg vil gott fyrir biðja.

Eg særi þig í nafni guðs sonar sem særður var á krossinum fyrir allar veraldarinnar syndir.

Eg særi þig, þú óhreinn andi, við öll þau sár sem allir heilagir menn hafa særðir verið, frá mér og öllum þeim sem þessa bæn á sér bera svo sem allir menn hafa forðum særðir verið frá upphafi heimsins allt til þessa tíma.

Eg særi þig, þú óhreinn andi, frá mér. Og svo sem lífið fl... fyrir dauðanum, hrekki þig svo kraftur þessara orða og mín trú, og sem vindur hrekur strá fyrir sér sem hraðast flýðu, frjóstu og brenndu; ami þér allar kindur þær sem eru og skapast kunna héðan í frá á himni og jörðu.

Hrekki þig allt og hrífi
haldinn í versta kífi,
verði þér aldrei rótt
hvorki dag né nótt
hátt né lágt
í hverri átt,
fyr en þú þangað aftur fer
hvaðan þú varst sendur mér.

Allt til þess þú ert þangað aftur kominn skal eg þig grimmt pína og pressa, öll guðs kristni og allra guðsbarna bænir.

Eg særi þig til allra verstu harma og hryggðar að þú viður þennan minn bænalestur og blóð burt víkir að augabragði, en ef þú ferð ei í burtu eftir krafti guðs guðdómlegu þrenningar þá skaltu drafna allur og dragast niður í verstu staði svo þú skammist þín af mönnum klemmdur.

Ami þér og ýfi þig allar guðs skepnur. Vertu aldrei óbrennandi á ævi þinni eður óýfður af orðum mínum.

Haldinn og kvalinn hörðum pínum hljóttu skömm af þessum línum. Eg særi þig, óhreinn andi, frá mér og mínum og öllum þeim skepnum sem eg les þessa bæn yfir.

Vertu mér og mínum svo fjarlægur sem austrið er vestrinu. Eg særi þig, óhreinn andi, fyrir guðs orða kraft svo sem hann útkastaði þér úr himnaríki.

Hafðu nú hvergi frið
héðan af, eg bið,
gefi mér Jesús guðsson lið
svo gæfunnar öðlist hæsta mið. Amen.

In nomine patris et filii et spiritus sancti. Amen.

Þessi vísa var skrifuð undir bænina:

"Minni ræðu flúði frá
fjandinn ótta bundinn,
þinni mæðu ending á
aldrei verði fundin."(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - júní 2001