SAGAN   AF   KERLINGUNNI   FJÓRDREPNUEinu sinni voru hjón sem áttu þrjá syni. Hét einn þeirra Loftur, annar Björn, en um nafn hins þriðja er ekki getið. Þegar þessi saga gerðist var faðir þeirra bræðra dáinn en Loftur hafði kvænst og tekið við öllum búsforráðum, því bræður hans voru lausamenn en viðloða hjá honum og græddu fé. Móðir þeirra var og komin í hornið til Lofts.

Ekki var húsfreyju Lofts grunlaust um að tengdamóðir sín mundi ófrægja sig og spilla fyrir sér við mann sinn enda sat Loftur löngum á eintali við móður sína, framan á rúminu hjá henni. Einn dag þegar þeir bræður voru rónir til fiskjar, því þeir voru sjómenn og aflamenn miklir, hugðist konan að reyna trúskap tengdamóður sinnar og segir henni að maður sé kominn sem hafi flesk að selja en sig langi til að kaupa dálítið af því.

Kerling segir að hún skuli gera það. Hún viti hvort sem sé að hann Loftur beri hana ekki ofurráða um neitt. Konan segist vita það með vísu en maðurinn heimti það fyrir fleskið sem hún megi ekki veita honum þar sem hún sé gift kona.

"Ó, vertu ekki að því arna, heillin mín," segir kerling, "annað eins brallaði ég í gamla daga og varð ekki óglatt af."

Konan lést þá fara að hennar dæmum og kaupir fleskið en fyrir allt annað en það sem hún hafði á orði við kerlingu.

Nú líður og bíður þangað til bræður koma að og heim um kvöldið og fór Loftur á tal við móður sína og situr framan á hjá henni. Húsfreyja fann það að kerlingu var annt um að fá tóm til að tala við Loft, fór hún því ofan en kom jafnan fyrr aftur en kerling kæmi því upp er niðri fyrir var. Kerlingu féll þetta illa og lét son sinn skilja á sér dylgjur með því að raula þetta fyrir munni sér:

Eitt orð býr í barka mér
og annað fyrir neðan,
þriðja býr í lungum mér
og það dregur sleðann.

Og enn þetta:

Ef sumir vissu um suma
það sem sumir gera við suma
þegar sumir eru frá,
þá væru ekki sumir við suma
eins og sumir eru við suma
þegar sumir eru hjá.

En meira gat kerling ekki komist í leik með að segja syni sínum um kvöldið. Morguninn eftir róa þeir bræður eins og þeir voru vanir. Um daginn kemur húsfreyja að máli við kerlingu og segir að sig langi ósköp til að leika sér.

Kerling segir: "Gerðu það, góðin mín. En hvaða leikur er það sem þig langar mest í?"

Húsfreyja segir að það sé að róla sér.

Kerling segir að við þann leik hafi hún best skemmt sér á fyrri dögum og skuli hún gera það sér til ánægju fyrst hún hafi gaman af því.

Húsfreyja spyr hana hvort hún mundi nú ekki treysta sér til að komast ofan með sinni hjálp og sjá hvernig hún fari að róla sér fyrst henni hafi þótt svo mikið gaman í þessum leik til forna.

Kerling heldur það og staulast ofan og fram í skála sem var í bænum, með tilstyrk tengdadóttur sinnar.

Nú fer húsfreyja að róla sér um stund og þykir kerlingu hið mesta gaman að horfa á. Síðan fer konan úr rólunni og spyr nú tengdamóður sína hvort hún mundi ekki hafa gaman af að setjast í róluna en hún skuli bæði styðja hana að rólunni og róla henni.

Kerlingin aftekur það ekki að sér kynni að þykja gaman að því. Fer hún svo með tilhjálp tengdadóttur sinnar upp í róluna og styður hún við hana um stund. En þegar minnst vonum varir hrindir húsfreyja rólunni af stað og sleppir kerlingu svo hún kastast langt til úr rólunni og lendir með höfuðið á stórum steini við skálaþröskuldinn og hálsbrotnar þar.

Húsfreyja tekur hana þaðan steindauða, ber hana inn í rúm og breiðir kirfilega ofan á hana og lætur svo allt vera kyrrt þangað til þeir bræður koma heim um kvöldið. Þá spyr Loftur hvað að móður sinni sé, hún hafi ekki tekið undir við sig þegar hann heilsaði henni. Húsfreyja segir að hún muni þá hafa sofnað því henni hafi orðið flökurt í dag. Síðan ber ekki neitt á neinu.

Morguninn eftir róa þeir bræður en húsfreyja tekur lík tengdamóður sinnar, skautar því og hressir upp á kerlingu eins og hún var vön, fer með hana út í skemmu sem Loftur átti og lýkur þar upp stórri kistu sem hann geymdi í tóbak og brennivín. Þar lætur hún kerlingu krjúpa fyrir framan kistuna, hafa höfuðið undir kistulokinu og halda með annarri hendi á tóbaksruttu, sem hún rakti upp, en á hníf í annarri hendinni eins og hún ætli að skera af tóbakinu og stela því. Hún lætur svo skemmuna standa í hálfa gátt þegar Loftur kemur heim um kvöldið í hálfrökkrinu.

Honum verður heldur felmt við að koma að skemmunni opinni því hann hafði sjálfur mesta umgöngu um hana. Hann fer þó inn og verður ekki betra við þegar hann sér að maurakistan er opin og kvenmaður krýpur við hana og er að stela tóbaki. Hann ræður sér því ekki fyrir bræði, grípur stóra sveðju sem hann átti í skemmunni og rekur þennan vogest í gegn.

Kerling dettur út af við lagið og þekkir hann þar móður sína. Lofti varð ósköp illt við eins og nærri má geta, að hann hafi orðið banamaður móður sinnar en ræður það samt af að segja konu sinni óhapp sitt.

Húsfreyja lét illa yfir verkinu en sagðist þó mundu leitast við að dylja það og kemur líkinu, svo hinir bræðurnir vissu ekki af, inn í rúm kerlingar.

Daginn eftir, meðan þeir bræður eru á sjó, tekur húsfreyja kerlinguna og fer með hana ofan í stóran hjall sem Björn átti einn fyrir sig og geymdi í bæði skreið og hákarl. Þar hressir húsfreyja upp á kerlingu og skautar henni og lætur hana standa á hnjánum og halda með annarri hendinni um hákarlslykkjur en á hníf í hinni.

Um kvöldið þegar þeir bræður komu að og eru búnir að gera að hjá sér fer Björn með eitthvað inn í hjall. Sér hann þá hvar kona með skaut er að stela hákarli úr hjallinum. Hann grípur þar sleddu stóra og rekur hana í gegn en þekkir að þetta er móðir sín í því hún rýkur út af.

Honum varð fjarska illt við að hafa drepið móður sína, finnur þó mágkonu sína og biður hana í öllum bænum að leyna með sér þessu ódæði sem sig hafi hent. Húsfreyja lætur illa yfir þessu en segist þó muni dylja það sem sér sé auðið.

Daginn eftir róa þeir bræður enn á sjó en húsfreyja tekur lík kerlingar og fer með það til næsta bæjar. Svo stóð á að þar bjó sýslumaður. Mikil vinátta hafði verið með þeim sýslumanni og foreldrum þeirra bræðra og eins leit út fyrir að mundi verða með sýslumanni og Lofti bónda.

Sýslumaður átti hrút sem honum þótti undur vænt um og lét tjóðra hann þar sem best var í túninu og vitjaði hans oft á dag að gamni sínu. Nú bar svo vel í veiði að húsfreyja Lofts kemur líki kerlingar þangað sem hrúturinn er tjóðraður án þess nokkur yrði þess var, skautar kerlingu þar og hreyfir upp á henni. Síðan tekur hún hrútinn og drepur hann og lætur kerlingu grúfa yfir honum eins og hún sé að gera hann til, fer síðan sjálf burtu svo að enginn sér til ferða hennar.

Þegar sýslumaður kemur á fætur um morguninn verður honum það fyrst fyrir að vitja um hrússa sinn. Sér hann þá hvar kerling situr og sýnist honum hún vera að gera hrússa til. Hann reiðist þessum tiltektum kerlingar, dregur sverð sem hann bar við hlið, sem þá var siður, og rekur kerlinguna í gegn. En þegar kerling valt út af þekkir hann að þar er vinkona hans gamla.

Honum féll þetta frámunalega illa að sig skyldi hafa hent sú hrösun að reiðast svo að hann hefði orðið mannsbani fyrir jafnlitla sök og það þessarar konu. Hann sendi því eftir tengdadóttur hennar, því þeir bræður voru á sjó, sagði henni upp alla sögu og bað hana í öllum bænum að hafa einhver ráð að koma kerlingunni í jörðina svo að sér yrði ekki kennt um kvenvíg og bauð henni stórmikið fé til þess.

Konan hét þessu og fór heim með kerlingu svo ekki varð vart við og fékk mikla peninga hjá sýslumanni fyrir að losa hann úr þessum vandræðum. Eftir það var kerling grafin og gerð útför hennar vegleg en þau Loftur og kona hans komust eftir þetta í mestu kærleika við sýslumann og unnust sjálf hugástum.


(J.Þork. -- Handrit Jóns Árnasonar eftir Margréti Jónsdóttur frá Undirfelli.)


Netútgáfan - júní 1997