SÖGUBROT  AF  ÁRNA  Á  HLAÐHAMRIFyrir löngu síðan er þess getið, að maður nokkur bjó á Hlaðhamri við Hrútafjörð vestanverðan. Hann hét Árni. Ekki er nefnd kona hans né hvers son hann var. Gildur bóndi þótti hann í þeirri sveit, stórlyndur og heiftrækinn og kunni lítt skap að stilla, ef honum var á móti gjört. Hann átti dóttur eina barna, er Guðrún hét. Þótti hún snemma sköruleg. Harðgerð var hún sem faðir hennar. Ekki var allra að ná hylli hennar, en trygg var hún og vinföst, þar sem hún tók því. Á bæ einum þar skammt frá bjó kona ein eða ekkja; ekki er getið um nafn hennar. Son átti hún, er Jón hét; var hann snemma gjörvulegur; blíður var hann og hógvær við hvern mann, hvort sem hann átti að sér mikið eða lítið, og spakmenni hið mesta. Þau Guðrún á Hlaðhamri áttu oft barnleika saman, og féll vel á með þeim.

Þegar Jón var sextán vetra, fór hann til vistar að Hlaðhamri til Árna bónda. Þá var Guðrún bóndadóttir tólf vetra; geðjaðist hann þar hverjum manni vel, og unnu allir honum hugástum. Þegar Jón hafði verið tvö ár á Hlaðhamri, kom hann að máli við bónda og bað dóttur hans. En Árni þverneitaði og bað hann að nefna slíkt aldrei framar. Það þóttust menn vita, að þeim Guðrúnu félli þetta allþungt, því jafnan var ástúðugt milli þeirra, en létu þó lítið á bera. Liðu nú enn fram tímar, og var hann kyrr á Hlaðhamri.

Þegar Jón var tvítugur, bar svo til um haustið, að Árna var vant margs fjár af fjalli, og svo vantaði fleiri bændur venju fremur af fé sínu. Bjóst þá Jón á fjöll upp að leita fjárins; var hann viku í burtu og kom heim aftur með fjölda fjár. Var nú allt kyrrt og tíðindalaust til annars hausts.

Bar þá eins við og fyrra haustið, að margt fé vantaði. Fór Jón þá enn af stað og var hálfan mánuð í burtu. Kom hann heim seint á degi og gekk til rúms síns; hafði hann komið með flest fé það, er vantað hafði. Guðrún bóndadóttir átti eina kind, og var það sauður svartflekkóttur.

En er Jón hafði tekið til matar, segir hann við bóndadóttur: "Guðrún, ætlar þú ekki að koma upp á kvíarnar og sjá hann Flekk þinn?"

Hún kvað já við og fór þegar fram og greip stóran fataböggul undir hönd sína, og gaf enginn gaum að því. En er Jón hafði matast, gekk hann út, og vissu menn ekki um þau Guðrúnu framar. Lét nú Árni bóndi spyrja eftir þeim á næstu bæjum og svo um allar næstu sveitir, og kom fyrir ekki. Einskis var saknað frá Hlaðhamri nema kinda þeirra allra, er Jón átti, Flekks Guðrúnar og fatnaðar þeirra. Um sömu mundir hvarf og kýr eða kvíga frá móður Jóns; talaði hún fátt um það og lét lítið leita.

Árni bóndi þóttist nú vita, að Jón hefði strokið með dóttur sína, og varð hann ákaflega reiður, og lét hann leita, hvar sem hann kunni; það kom fyrir ekki, enda gekk nú vetur í garð, og varð ekki að hafst. Lagði nú bóndi fé til höfuðs Jóni; lofaði hann hverjum þeim tuttugu hundraða jörð, sem gæti fært sér Jón dauðan eða lifandi, og Guðrúnu dóttur sinni til konu, ef hann vildi. Sumarið eftir fékk Árni marga menn að leita um fjöll og óbyggðir, hvar sem mönnum gat til hugar komið, en allt varð það árangurslaust, enda var það þá, sem oft kann verða, að sitt vill hver. ViIdu allir hinir betri menn helst ekki finna Jón og því síður segja til hans, þó þeir fyndu hann, en hinir lakari menn og fégjarnari vildu vinna til fjárins. Leið nú svo þetta sumar og veturinn eftir, að ekkert spurðist til Jóns.

Annað sumar fékk Árni enn menn til leitar, og skyldu þeir nú fara lengra en áður. Og er þeir voru sem lengst komnir, þóttust sumir finna reykjarlykt, en aðrir börðu það niður; og varð því ekki af, að lengra væri farið. En þegar heim kom, fékk Árni pata af þessu. Og þó hinir flestu og bestu leitarmenn segðu þetta tilhæfulaust, þá vildi hann ekki trúa því og bjóst síðan sjálfur að heiman með mönnum þeim, er þóttust hafa fundið reykjarlyktina.

Og er þeir komu á þær sömu stöðvar og höfðu litast um, sáu þeir, að reykjargufu lagði út úr hól einum litlum. Þar sáu þeir og hrísköst mikinn. Þeir gengu upp á hólinn og sáu þar glugga opinn; var þar Jón undir í rúmi og lá aftur á bak og las í bók, en með annarri hendi vaggaði hann barni, er lá í vöggu fyrir framan rúmið. Árni fór nú ofan af hólnum og fann dyr litlar á einhverjum stað. Þar gekk hann inn, og sá hann þá Guðrúnu dóttur sína í kofa einum litlum; hafði hún þar pott lítinn á hlóðum og eldaði eitthvað. Árni gekk nú lengra inn og kom í kofa þann, er Jón lá í og barnið í vöggunni. Hljóp hann þá að Jóni og stakk hann með hnífi átján stingi og skildi síðan við hann, og var hann þó ekki með öllu dauður. Lét hann þar eftir hnífinn. Ekki urðu þeir varir við neina lifandi skepnu, nema eina kú sáu þeir þar; hún var nýborin. Ekki er þess getið, að þeir hefðust þar fleira að, og fóru nú burt og heim til sín.

Að viku liðinni komu þeir aftur til hólsins. Sat þá Guðrún fyrir framan Jón og hélt á barni og lét það sjúga brjóst sín. Potturinn stóð á hlóðum sem áður og eldurinn fyrir löngu dauður. Aldrei hafði kýrin mjólkuð verið, og hafði runnið mjólk mikil úr spenum hennar, og var hún að bana komin úr hungri. Árni tók nú dóttur sína og barnið; það var meybarn; flutti hann þær mæðgur heim að Hlaðhamri. Guðrún hafði áður sofið á lofti litlu uppi í baðstofu, og var þar nú kvenmaður annar. Þangað gekk Guðrún, rak þá burtu, sem fyrir var, háttaði þegar og fór ekki á fætur aftur, meðan faðir hennar var þar; talaði ekki heldur orð við nokkurn mann.

Nú frétti móðir Jóns, hvar komið er; fær hún þá menn til að sækja lík Jóns og það, sem fémætt var í híbýlum þeirra; og var það mjög lítið og ekki annað en það, sem hún hafði fengið honum; höfðu þau mest lifað á veiðum. En hólinn hafði Jón grafið innan haustin, sem hann var í fjárleitunum. Líki Jóns var nú veittur gröftur og búið um sem vani var til.

Eftir þetta lét móðir Jóns búa mál á hendur Árna og sótti hann um morð sonar síns. Var það mál prófað og sagt til dóms; varð málið mjög ófrægt, og var Árni settur í hald og dæmdur til að höggvast. Þessi dómur þótti Guðrúnu dóttur hans of linur. Reis hún nú úr rekkju og byrjaði mál að nýju. Krafði hún hegningar yfir föður sínum fyrir meðferð á sér og banaráð og níðslega meðferð á sér og dóttur sinni árs gamalli, þar sem hann hefði skilið sig eina eftir á fjöllum uppi með barnið hjá líki bónda síns, svívirðilega myrtu. Skýrði hún nú sem greinilegast frá öllum atburðum við morðið og kom svo orðum sínum, að allt varð sem hryllilegast og föður hennar til enn meira sakfellis. Þar eftir afhenti hún dómendum hníf þann alblóðugan, sem Árni skildist við í síðasta stingnum á Jóni, og krafði harðlega, að faðir sinn væri líflátinn með sama hætti og hann hefði myrt Jón og síðan skyldi brenna kroppinn til ösku; og kvað hún sárara hafa brunnið hjarta sitt, er hún sat yfir Jóni dauðum. En svo mikill kraftur og alvara fylgdi orðum hennar, að dómendur hertu nú dóminn og dæmdu beint eftir kröfu hennar. Var síðan dóminum fullnægja gjörð. Eftir það tók Guðrún við búi á Hlaðhamri og bjó þar lengi; var hún aldrei síðan við karlmann kennd. Dóttir hennar hét Guðrún, og giftist hún síðar og bjó á Hlaðhamri eftir móður sína. Og er ekki frekara af þeim sagt.Netútgáfan - desember 1997