BENEDIKT  BECH  DRUKKNARÞegar Benidikt Bekk var sýslumaður í Skagafirði var prestur sá á Grímstungu er Grímólfur hét. Hann hafði þann sið um sumarið að hann svaf frammi í skála og lét smaladreng sofa hjá sér til þess að hann gæti vakið hann í tækan tíma til að smala.

En sunnudagsmorgun einn um sumarið var það að prestur vakti dreng snemma og biður hann að klæða sig fljótt og mælti: "Hlauptu fyrir mig til næsta bæjar áður en þú fer að smala og skilaðu frá mér að ég biðji að orðsending komist fljótlega um sóknina um að ég sé krankur og geti því ekki messað í dag."

Síðan hljóp hann út, en drengur klæddi sig. En er hann kom út sá hann að prestur var hálfboginn eitthvað að starfa út í kirkjugarði. Hljóp þá drengur leið sína og lá hún þeim megin kirkjunnar sem prestur var ekki. En þegar kirkjan bar af þókti dreng gaman að vita hvað prestur væri að gjöra og fór í kirkjuskjólið.

Heyrði hann þá að prestur var að tala við einhvern og heyrir að prestur segi: "Hvað ertú fljótur?"

Var þá svarað: "Eins og hestur á skeiði."

"Vertu kyr," segir prestur.

Síðan kallaði prestur á annan og spyr hvað hann sé fljótur. "Eins og fugl á flugi," sagði sá.

"Vertu kjur," segir prestur.

Skildi þá drengur að prestur væri að vekja upp draug.

Kallaði þá prestur á þann þriðja og spyr hvað hann sé fljótur.

"Eins og hugur manns," anzaði sá.

"Komdú upp," segir prestur.

Síðan þegar hann var búinn að kalla draugsa upp og gera honum til góða og sér undirgefinn heyrir drengur að draugur spyr: "Hvað á ég að gera?"

Sagði þá prestur: "Þú skalt fara norður í Skagafjörð því Benidikt sýslumaður verður ferjaður í dag yfir Héraðsvötnin; skaltu þá vera þar til taks og drekkja honum."

Beið þá drengur ekki lengur og hljóp þá hvað af tók að afljúka erindi sínu, en Benidikt drukknaði í Héraðsvötnunum um daginn.(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - maí 2001