BAKKASTAÐURÞað er mælt að Brú á Jökuldal hafi staðið í miðri sveit í fyrndinni áður en byggðin lagðist í eyði á Brúardölum. Hóll átti að hafa verið innsti bærinn, næst jöklum, þó eru ekki fleiri bæir nefndir en tvennir Hringbotnar og Fossnes.

Öll þessi byggð átti kirkjusókn að Bakkastað. Sá bær var fram og yfir frá Brú fyrir handan ána. Þar sjást bæjarrústir ennþá og vottar fyrir kirkjugarði.

Það bar við eina jólanótt á Bakkastað að presturinn og allt fólkið sem kirkjuna sótti tók til að dansa í kirkjugarðinum, hélst í hendur með söng og hávaða miklum og ýmsum illum látum, allt í kringum kirkjuna.

Móðir prestsins var inni í bænum og vissi ekki hvað fram fór úti. En þegar hún heyrði hvað um var að vera fór hún út og bað son sinn fyrir alla muni að hætta þessum leik. Hann gaf því engan gaum.

Í annað sinn fór hún út og bað hann með mörgum orðum að gá að sér og minnti hann á tímann sem yfir stóð. Hann sinnti því ekki heldur.

Í þriðja sinn fór hún út. Sá hún þá hvar maður stóð. Hann hélt í hringinn í kirkjuhurðinni og var að raula þetta fyrir munni sér með dimmri röddu:

"Held ég mér í hurðarhring,
hver sem það vill lasta.
Hér hafa kappar kveðið í kring,
kemur til kasta,
kemur til minna kasta."

Þegar hér var komið sögunni var komið að miðri nótt. Móðir prestsins varð hrædd við sýn þessa og sá að sonur hennar var ær orðinn og fólkið allt.

Tók hún þá reiðhest prestsins út úr húsi, lagði upp á Fljótdalsheiði og kom að Valþjófsstað fyrir dag og bað prestinn bregðast skjótt við, koma með sér og reyna að hjálpa fólkinu.

Prestur brást við í skyndi og fór með henni og komu þau í dögun að Bakkastað. Sáu þau þá að utarlega í kirkjugarðinum hafði jörðin sprungið sundur og fólkið sokkið þar niður. En presturinn og meðhjálparinn voru hálfir komnir í jörð niður þegar þau komu og varð þeim bjargað.

Lengi heyrðist ómurinn af gleðilátum fólksins niðri í jörðinni. Eftir þetta lagðist Bakkastaður í eyði. En það segja kunnugir menn að kirkjugarðurinn sjáist ennþá og í honum utarlega sé pyttur einn, furðu djúpur.


Netútgáfan - maí 1997