BERGBÚINNEinu sinni bjuggu hjón nokkur innst í dal eða fram til heiða. Þau áttu eitt barn, lítið komið á fót, þegar saga þessi gerðist. Hjónin voru fátæk, en björguðust þó furðanlega við handafla sinn. Þau höfðu þann sið að loka aldrei bæ sínum, vetur né sumar, vor né haust. Fellilok var yfir uppgöngu og oki ofan á sem handgrip. Kýr voru undir loftinu.

Eitt kvöld sat húsfreyja þar ein og andspænis uppgöngu, er þá stóð opin. Þegar minnst varði, kemur mjög stórvaxinn maður upp stigann og sezt þegjandi á loftsnöfina. Höfðu hjón engan séð hans líka að stærð, og var hann þó alls eigi tröllslegur. Enginn yrti á hann, og hann sat þar alla kvöldvökuna án þess að mæla eitt orð. Stóð þeim geigur af honum. Um háttamálin leggur húsfreyja barnið út af sofandi. Svo tekur hún stóran tréask, smeygir sér með hann ofan, undir loftið, mjólkar hann fullan og setur þegjandi fyrir gestinn. Hann tekur askinn þegjandi, rennir út úr honum og hvarf þegjandi út.

Næsta kvöld kom hann, settist á sama stað og sat þar þegjandi, þangað til konan gaf honum fullan askinn af mjólk, Þriðja kvöldið kom hann og sat þar vökuna út, unz hann hafði lokið úr þriðja askinum. En þá rauf hann loksins þögnina með þessum orðum: "Þökk hafið þið, góðu hjón, fyrir mjólk ykkar. Í engu fæ ég að sönnu goldið góðvild ykkar. Þó spái ég því og mæli svo um, að þið munuð farsæl verða og aldrei sitja í skorti, En þiggið eitt heilræði af mér. Látið aldrei bæ ykkar standa opinn að staðaldri, sízt yfir myrkar nætur, því að margir eru hér til í grenndinni, sem þó eru verri en ég. Er það gott og gilt orðtak, þótt fornt sé, að margur leyfir sér um opnar dyr inn að ganga."

Að svo sögðu leit hann vingjarnlega til þeirra og hvarf út. Það var ætlun þeirra, að hann hefði verið bergbúi eða blendingur nokkur af betra tagi. Upp frá þessu læstu þau bæ sínum á hverri nóttu og kom þar síðan enginn óþekktur, óboðinn inn.(Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar)

Netútgáfan - nóvember 2000