BJARNA  -  DÍSAMaður hét Bjarni. Hann var Þorsteinsson. Hann var á dögum seint á 18. öld og fram yfir 1840. Systur átti hann, er Þórdís hét. Hún var um tvítugt, þegar þessi saga gerðist.

Þórdís var þokkaleg sýnum, en þótti fremur svarri í geði. Hún hélt sér mikið til í klæðaburði og apaði það, sem hún gat, eftir dönsku kvenfólki, enda var hún til vistar í Eskifjarðarkaupstað seinasta árið, sem hún lifði.

Svo bar til, að Bjarni Þorsteinsson ferðaðist ofan á Eskifjörð. og slóst þá Þórdís í ferð með bróður sínum og ætlaði með honum til Seyðisfjarðar, og átti Bjarni þar þá heima.

Er ekki sagt af ferðum þeirra, fyrr en þau tóku sér gisting á Þrándarstöðum í Eiðaþinghá. Þetta var fyrri part þorra. Þar voru þau eina nótt. En næsta morgun, þegar þau vildu ofan yfir Fjarðarheiði, var veður þykkt og snæfall með talsverðu frosti. Innti þá Bjarni til við systur sína, að hún skyldi vera eftir, því veður var ótryggilegt, en hún klædd til stáss en ekki skjóls.

Hún var í einföldum léreftiskjól og léreftsskyrtu ermalausri fyrir framan olboga. Það kallaði hún serk og vildi ei sjá öðruvísi snið á skyrtu. Klút hafði hún á höfði, rauðan og brúnan, og illa klædd til handa og fóta.

Ekki tók Dísa því vel að sitja eftir. Kvaðst hún fara skyldu með honum, hvort hann vildi eða ekki. Sló þegar í deilu með þeim, og héldu svo af stað bæði í illu skapi og lögðu upp á heiðina, þrátt fyrir það þó veðrið versnaði meir og meir.

Nú kom þar, að Bjarni vissi ekkert, hvað hann fór, en Dísa mæddist bæði af kulda og þreytu, en alltaf gat hún nokkuð jagast, uns hana þraut með öllu gang; tók þá Bjarni til að grafa þau í fönn, en þegar hann var að ljúka við það, sýndist honum rifa til í mel skammt í burt; sagði þá Dísu, að hann vildi koma þar og vita, ef hann þekkti melinn. Hún bað hann fara ei frá sér, en það tjáði ei.

Fór svo Bjarni, en þá skellti saman veðrið; fann hann svo hvorki melinn né Dísu aftur; hélt hann samt eitthvað í ráðleysi, uns hann skreiddist í vökulok um kvöldið að Firði í Seyðisfirði, næstum örmagna, mállaus og mikið skemmdur á andliti. Hafði hann villst út eftir fjallinu og hrapað fyrir klungur og kletta, misst af sér höfuðfatið og allt úr góðu lagi.

Þá bjó í Firði bóndi sá, er hét Þorvaldur Ögmundsson. Hann var mikill fyrir sér, rammur að afli og hinn hugrakkasti. Sögðu þeir, sem þekktu hann, að hann kynni ekki að hræðast. Hann var hreinlyndur og jafnlyndur, eldsnar og hinn mesti greiðamaður.

Hann tók vel móti Bjarna og lét hjúkra honum sem mest mátti. En ekki var það fyrri en kvöldið eftir, að Bjarni varð fær að segja ferðasögu sína; svo var af honum dregið. Bað hann þá Þorvald styrkja sig til að leita systur sinnar; en veðrið hélst enn hið sama. Það var útnorðan, mjög hvasst og dimmt, en frost svo mikið, að varla var fært hraustum karlmönnum heima húsa á milli. Þar var Bjarni svo aðra nótt, en á fimmta dægri, eftir að hann skildi við Dísu, rofaði lítið eitt til.

Bjuggust þeir þá til ferða, Þorvaldur, Bjarni og vinnumaður að nafni Jón Bjarnason, duglegur maður og drengur góður; héldu svo upp til heiðar og þó nokkuð frá alfaravegi, því að það var geta Bjarna, að þar mundi Dísu helst að leita.

Þegar þeir voru komnir norður fyrir Stafdalsfell, heyrðu þeir öskur svo mikið, að undir drundi í öllum fjöllum nálægt. Skaut þeim Jóni og Bjarna þá heldur en ekki skelk í bringu, en Þorvaldur vissi ekki, hvað var að hræðast. Hélt hann þá í þá áttina, er hljóðið heyrðist frá, uns hann var í Stafdal austarlega. Voru þá félagar hans farnir að draga sig á eftir. Frýjaði þá Þorvaldur Jóni hugar að fylgja sér betur.

Þá var dagur þrotinn, en veður var nokkuð bjart og frostbitra fram úr keyrandi; tunglskin var á, en skýjarek, svo tíðum dró fyrir það. Þá sá Þorvaldur eitthvað í skafli, sem hann átti þar ei von, og var hann þar þó vel kunnugur. Var það hér um bil teigshæð frá þeim.

Þá mælti hann til þeirra: "Þar mun nú Þórdís vera," og var það sem hann sagði.

Gekk hann svo til hennar. Var hún þá ei liggjandi, sem hann mundi vænta dauðrar manneskju, heldur er hún því líkast sem menn eru á setum sínum; léreftskjóllinn var í göndli um mittið á henni gaddfrosinn og hún ber fyrir neðan og berhöfðuð, snjóhúsið burt fokið, svo aðeins sást botninn.

Talaði þá Þorvaldur til félaga sinna, að þeir skyldu ganga nær og hjálpa sér að búa um líkið á húð, er hann hafði með sér til akfæra. Dröttuðu þeir þá til hans. Sagði hann þá Bjarna að skera frostgarðinn utan af henni, því hann vildi færa hana í buxur, sem hann hafði með sér, svo hún væri ekki nakin í flutningnum. Því hlýddi Bjarni, þó hræddur væri.

Síðan tók Þorvaldur hana upp í fang sér og ætlaði að færa hana í buxurnar, en í því rak hún upp svo mikið orghljóð, að fram úr keyrði; hefur Þorvaldur svo sagt, að það hafi sér þótt óskiljanlega sterkt og mikið.

Hrukku þá félagar hans frá dauðhræddir, en Þorvaldi brá svo við, að hann skaut Dísu hart niður og mælti heldur fljótlega: "Ónýtt er þér, Dísa, að sýna mér þessa hnykki, því þá hræðist ég alls ekki, og haldirðu þeim áfram, skaltu vita, að ég skal tæta þig taug frá taug og kasta svo hræi þínu fyrir varga; en þar á móti verðir þú oss venjulega dæl í flutningi og okkur hankast ekkert með þig ofan, skal ég gera kistu um þig og koma þér í kristinna manna reit, þó mér ímyndist, að þú sért þess ei verðug."

Eftir það tók hann hana, klæddi og bjó um á húðinni, kallaði félaga sína og hélt heimleiðis.

Aðrar sögur segja, að Þorvaldur hafi brotið Dísu á bak aftur, til þess að hún væri kyrr, og hætti hún þá að orga. Margar eru fleiri ljótar sagnir um viðureign þeirra. Þorvaldur var maður vandaður, en með hjátrú eins og margir á 18. öld, og mun það réttast, sem hann sagði frá sjálfur.

Sögur segja, að þau Bjarni hafi haft brennivínskút. Mun Dísa hafa verið drukkin og lifað, en Þorvaldur gert út af við hana í hjátrúaræði.

Það hafði Þorvaldur aðgætt, að frá bæli Dísu lágu för hennar með þeim hætti, að hún hafði fetað, svo hvert far var í öðru, hér um bil fjóra faðma burt og stokkið svo öfug í einu hlaupi jafnfætis aftur í bælið að þessu búnu tvívegis. Hafði svo sagt Hermann í Firði í Mjóafirði, sem kallaður var margfróður, að þetta væri vani þeirra, er aftur gengi, og næði þeir að gera þetta þrisvar, þá væri fullkominn afturgangur, en Dísu vantaði þriðja sporið.

Nú héldu þeir ofan af heiðinni; dreif þá yfir veður svo dimmt, að ekki var ratandi; komust þó klaklaust að Fjarðarseli; er þá stutt bæjarleið út að Firði út með fjallsbrekkum, og treysti Þorvaldur sér ekki vel að rata upp fjörð; bað því sér og föruneyti sínu gistingar. En bóndi þverneitaði; kvaðst hafa orðið var við ónotafylgju þeirra.

Tók Þorvaldur þá til sinna ráða, setti líkið inn í kofa gegnt baðstofudyrum og gekk svo með félögum sínum til baðstofu, en bóndi settist með syni sínum á pallstokk. Hétu þeir hvorir tveggja Björn; tóku þeir sér broddstafi í hönd og lögðu jafnt og títt fram í dyrnar. Því héldu þeir af nóttina. Ekki varð Þorvaldi svefnsamt, fór ekki af fötum og gekk einatt út að líta til veðurs. Eitt sinn um nóttina, þegar hann vildi hverfa í bæinn, varð Dísa fyrir honum í dyrum, eins og hún vildi aftra honum inngöngu. En hann veik henni hjá sér og skundaði til baðstofu.

Með degi rofaði veðrið, svo þeir komust heim að Firði. Jafnan þótti skráveifur í kofa þeim, er Dísa var í um nóttina. Nú tók Þorvaldur til kistusmíðis, eins og hann hét, og lét flytja Dísu að Dvergasteini. Þar var þá prestur Þorsteinn skáld Jónsson (d. 1800). Hann veitti Dísu greftrun að kristnum sið. En svo brá við, að næsta morgun eftir var í fótaenda á leiði Dísu hola undarlega djúp; var hún fyllt, en eins var hún opin annan morgun. Enn var hún fyllt, en jafnopin var hún þriðja morguninn sem fyrr. Gekk þá prestur sjálfur til og byrgði fyrir holuna. Segja menn, að upp frá því hafi hún ekki opnast.

Nú er að segja frá Bjarna, að ætíð, þá er hann ætlaði að sofna, kom Dísa og vildi taka um kverkar honum og fór ekki dult með, því jafnt sáu hana óskyggnir sem skyggnir. Það sögðu menn og, að hún hefði oft sótt að honum, þó að ljós væri hjá honum. Fór hann þá til séra Þorsteins, sem áður er getið, og fékk hjá honum einhverjar varnir, svo aldrei vann Dísa á honum sjálfum.

Þrettán börn átti Bjarni, og dóu þau öll ung og bráðlega. Hafa menn haft það fyrir satt, að Dísa hafi flýtt fyrir dauða þeirra allra. Fylgdi hún Bjarna til dauðadags og gerði þá oft mikið vart við sig, drap skepnur manna, og stundum réðst hún á menn til átaka, og eru margar smásögur af brellum hennar, sem of langt yrði hér upp að telja.

Og lýkur svo hér að segja frá Bjarna-Dísu, og er sagan hér skrifuð eftir því, sem Þorvaldur sagði hana sjálfur.Netútgáfan - nóvember 1997