SAGAN  AF  BRAUÐÞEKKJARA,  VATNSÞEKKJARA  OG  MANNÞEKKJARAEinu sinni var kóngur, sem réð fyrir ríki sínu. Hann átti þrjá syni. Þótti honum þeir vera latir að læra, og þegar þeir voru orðnir fulltíða menn, skipaði hann þeim að fara út í lönd og koma ekki aftur heim fyrr en þeir hefðu lært til fullnustu einhverja þarflega fræðigrein.

Kóngssynir lögðu af stað sinn í hverja áttina, og fóru engar sögur af þeim í þrjú ár. Komu þeir þá aftur heim til föður síns. Tók hann þeim vel og spurði þá, hvað þeir hefðu lært.

"Ég hef lært að þekkja eðli brauðsins," sagði elzti sonurinn.

"Ég hef lært að þekkja eðli vatnsins," sagði miðsonurinn.

"Ég hef lært að þekkja eðli mannsins," sagði yngsti sonurinn.

"Að vísu eru þetta þarflegar fræðigreinar," sagði kóngur, "en til þess að ég viti, hvort þið segið satt og kunnið að hagnýta ykkur þekkinguna, þá skuluð þið fara aftur út í lönd og vinna ykkur eitthvað til frægðar og frama með henni."

Þeir bræður lögðu nú af stað í annað sinn og urðu samferða. Komu þeir í kóngsríki nokkurt og var vel tekið af kóngi. Bauð hann þeim hirðvist með sér, og þágu þeir boðið með þökkum. - Fyrsta daginn, sem bræðurnir sátu undir borðum með kóngi, drottningu og hirðinni, bragðaði elzti bróðirinn ekki á brauðinu og miðbróðirinn ekki á vatninu, en yngsti bróðirinn skeytti engu öðru en að horfa á drottninguna. Þetta þótti kóngi undarlegt, en hafði þó ekki orð á því að sinni. Um kvöldið lét hann búa þeim bræðrum sængur í sérstöku herbergi og lét mann standa á hleri til þess að heyra, hvað þeir töluðu hver við annan. Þá spurðu yngri bræðurnir þann elzta, hvers vegna hann hefði ekki bragðað brauðið.

"Það var af því, að kornið, sem það var bakað úr, var vaxið upp af dauðra manna beinum," svaraði hann. "En hvers vegna bragðaðir þú ekki á vatninu?" spurði hann miðbróðurinn.

"Af því að það er úldinn blámannsskrokkur í botninum á brunninum, sem það er tekið úr," svaraði hann.

"En hvernig stóð á því," spurðu eldri bræðurnir þann yngsta, "að þú starðir stöðugt á drottninguna í dag?"

"Það var vegna þess, að hún er eigi sú, sem hún læzt vera," svaraði hann, "því að hún er flagð undir fögru skinni."

Þá hættu þeir bræður talinu og tóku á sig náðir, en maðurinn, sem stóð á hleri, bar kóngi orð þeirra.

Morguninn eftir sagði kóngur við þá bræður, að þeir yrðu að sanna orð þau, er þeir hefðu talað sín á milli kvöldið áður.

"Þér skuluð láta grafa í akur yðar og grennslast eftir, hvort ég hef ekki satt að mæla," mælti elzti bróðirinn.

"Þér skuluð láta rannsaka brunn yðar og vita, hvort ekki er blámannsskrokkur í honum," mælti miðbróðirinn.

Kóngur lét þá menn sína grafa í akurinn, og kom það á daginn, að þar var gamall grafreitur, fullur af mannabeinum. Sömuleiðis lét hann ausa brunninn, en á botninum fannst blámannslík.

"Þó að þið hafið sagt satt," mælti kóngur við eldri bræðurna, "þá mun þér ganga illa að sanna ummæli þín um drottningu mína," sagði hann við þann yngsta.

"Þess mun ég þó freista," svaraði hann, "en þá verðið þér að koma með mér út í rjóður, sem er hér í skóginum. Mun ég sanna ummæli mín þar."

Gengu þeir síðan út og komu í rjóður eitt lítið. Benti kóngssonur á hvítan böggul, er þar var í runni, og bað kóng að leysa hann í sundur. Kóngur gerði svo og fann þar lík fyrri drottningar sinnar alblóðugt. Brá honum mjög við og hrópaði upp: "Hver hefur unnið ódæðisverk þetta?"

"Það gerði flagð það, sem nú gengur yður í drottningar stað," svaraði kóngssonur, "því að hún er hin mesta norn og ekki sú, sem hún sýnist."

Skipaði hann þá að bera líkið til hallar og leggja það niður við fætur drottningar. Var svo gert. Brá henni þá svo illa við, að hún þrútnaði öll upp og bólgnaði. Hvarf fríðleikur hennar alveg, en eftir sat ljót og illileg kerling. Var hún þegar tekin og brennd á báli eftir boði kóngs.

Kóngi varð svo mikið um þessa atburði, að hann mátti eigi sinna ríkisstjórn vegna harms og trega. Gaf hann ríkið í hendur yngsta bróðurnum, með samþykki þegna sinna.

Eldri bræðurnir fóru heim í ríki föður síns og sögðu frá því, sem gerzt hafði í ferð þeirra. Tók faðir þeirra þeim forkunnarvel, og af því að hann var þá orðinn maður gamall, gaf hann ríki sitt í hendur elzta syni sínum. Þeim næstelzta var leitað kvonfangs hjá nágrannakónginum, og var því bónorði vel tekið. Nokkru síðar erfði hann ríki tengdaföður síns. Þóttu þeir bræður hinir merkustu stjórnendur, og lýkur hér sögu þeirra.(Þjóðsagnasafnið Gríma)

Netútgáfan - janúar 2000