DRAUGSSONUR  VERÐUR  PRESTURÞað var einu sinni ríkur bóndi á kirkjustað og hélt margt vinnufólk meðal hvurra var einn vinnumaður sem hafði hug á einni vinnukonunni og vildi fá hana, en hún vildi hann ekki. Þá leitaði hann upp á annan máta við hana að fá að sofa hjá henni, en hún neitaði því þverlega. Þá lofaði hann að hann skyldi komast yfir hana dauður fyrst hann fengi það ekki lifandi.

Að nokkrum tíma liðnum leggst vinnumaður veikur og deyði úr henni. Er hann so jarðaður og gerð veisla eftir hann.

Liðu so nokkrir tímar fram. Eina nótt gat bóndinn ekki sofið. Klæddi hann sig þá og fór á fætur og út og varð hönum reikað út í kirkjugarð og sá þá að opin var gröfin vinnumannsins síns. Hann tekur af sér sokkaband og hengir það ofan í gröfina og er hann þar so fram undir dag.

Þá kemur draugsi og vill ryðjast ofan í gröfina, en bóndi varnar og segist ekki hleypa hönum ofan í hana fyr en hann segi til hvurs hann hafi gengið aftur. Draugsi má gera það nauðugur og segir að hann hafi viljað komast yfir hana í lífinu, en hún hefði aldrei viljað og hefði hann þá hótað að ganga aftur og komast þá yfir hana.

Bóndi spyr hvort hann sé búinn að því. Draugsi játar því. Bóndi spyr hvort nokkuð hljótist af því þó hann kæmist yfir hana. Draugsi segir hún mun eiga sveinbarn og verði hann mjög efnilegur og gáfaður og verði því kennt í skóla og í fyrsta sinn þegar hann messi muni margt fólk verða við kirkju til að heyra til nýja prestsins og ef enginn yrði so hugaður að reka hann í gegn milli pistils og guðspjalls þá sykki kirkjan með öllu fólkinu.

Eftir nokkurn tíma sér fólk að vinnukona bónda fer að gildna og liggja illa á henni. Bóndi kallar hana á eintal og spyr af hvurju liggi sona illa á henni. Hún segir það af því að hún sé þunguð og viti hvur eigi hann, en vinnumaðurinn hans hafi viljað komast yfir sig, en hún hafi ekki viljað, og hafi hann þá lofað að komast yfir sig dauður fyrst hann gæti það ekki lifandi. Bóndi segir að hún skuli ekkert gefa um það, hann sjái þar fyrir.

Líður so þar til að hún fæðir sveinbarn og elst það upp hjá bónda og var drengur mjög skarpur og því kennt í skóla og síðan vígður prestur og á so að messa á kirkjustaðnum hjá bónda og kom fjöldi fólks til kirkju, og er so farið að messa, og fer heimabóndinn í kirkjuna með öðrum fleirum, og þegar prestur snýr sér fram og ætlar að fara að tóna guðspjallið, bóndi stendur þá upp og leggur prestinn í gegn og er hann þá gripinn, en bóndi segir þeim sé nær að hirða prestinn en grípa sig, og fara þá sumir að styrma yfir hönum og finna þeir ekki annað innan í messuskrúðanum en eina blóðlifur og vinstra herðarblað.

Sagði bóndi þá upp alla sögu og hann hefði fundið að kirkjan var farin að síga. Bar ekki framar á draugsa. Endar so þessi saga.(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - október 2000