DRAUGS-HÚFANÁ  kirkjustað nokkrum var meðal annars fólks unglingspiltur og stúlka. Drengurinn hafði það til siðs að hræða stúlkuna, en hún var orðin þessu svo vön, að hún hræddist ekkert, því að þó hún sæi eitthvað, hélt hún, að það væri drengurinn að hræða sig.

Einu sinni bar svo við, að þveginn var þvottur og þar á meðal margar hvítar nátthúfur, sem þá voru tíðkaðar. Um kvöldið var stúlkan beðin að sækja þvottinn út á kirkjugarðinn. Hún hleypur út og fer að tína saman þvottinn.

Þegar hún er því nær búin, sér hún, hvar hvít vofa situr á einu leiði í garðinum. Hún hugsar með sér, að nú ætli strákurinn að hræða sig. Hleypur hún þá til og hrifsar af vofunni húfuna, því hún hélt, að drengurinn hefði tekið eina nátthúfuna, og segir: "Þér skal nú ekki takast að hræða mig í þetta sinn."

Fór hún svo inn með þvottinn; var þá drengurinn inni. Nú var farið að skipta þvottinum; var þá ein húfa umfram og var moldug innan. Þá varð stúlkan hrædd.

Morguninn eftir sat vofan á leiðinu, og vissu menn ekki, hvað til skyldi gjöra, því enginn þorði að færa vofunni húfuna, svo sent var um sveitina eftir ráðleggingu.

Þar var gamall maður í sveitinni, er lagði það til, að ekki gæti hjá því farið, að eitthvað illt hlytist af þessu, nema ef stúlkan sjálf færði vofunni húfuna og setti hana þegjandi upp á vofuna, og skyldi margt fólk horfa á.

Var þess þrengt að stúlkunni að fara með húfuna og setja upp á vofuna, svo að hún fór með hálfum hug og setti húfuna upp á vofuna og sagði, um leið og hún var búin: "Ertu nú ánægður?" En draugurinn brá við, sló hana og sagði: "Já. Ert þú ánæð?" Og þar með steyptist hann niður í leiðið.

Stúlkan féll við höggið, svo menn hlupu til og tóku hana, og var hún þá dauð. Drengnum var refsað fyrir það að vera að hræða hana, því það var álitið, að öll ógæfan hefði hlotist af honum, og lagði hann niður að hræða menn, og lýkur hér þessari sögu.


Netútgáfan - apríl 1997