SAGAN  AF  FERTRAM  OG  ÍSÓL  BJÖRTUFormáli. Hvorki bar til titla né tíðinda, frétta né frásagna, nema logið væri og stolið væri; vildi ég ei minni sögu svo færi; þó mundi ég ei spara, ef á lægi, því lygin kom ekki fyrr en sjö árum seinna en þetta var.

Svo er sagt, að kóngur réð fyrir landi nokkru, en ekki er getið um nafn hans eða í hverju landi hann var. Hann var kvongaður og átti eina dóttur, sem Ísól hét; var hún fríð sýnum. Hertogi einn var þar í ríkinu; hann átti einn son, er Fertram hét; hann ólst upp með hirðinni og var oft hjá kóngsdóttur að leikum, meðan þau voru ung, og höfðu mikið yndi hvort af öðru. En þegar þau eltust, trúlofuðust þau með leyfi foreldra sinna.

En nú varð sá atburður, sem öllum þótti mikið mein að, að drottning tók sótt og andaðist. Kóngur sá eftir henni mikið og sat lengi á haugi hennar. Loks gengu ráðherrarnir til hans og sögðu, að þetta tjáði ekki fyrir hann og yrði hann að gæta ríkisstjórnar, annars færi allt aflaga í ríkinu; buðu þeir honum að fara og leita honum konu þar, sem hann tiltæki.

Gátu þeir loks unnið hann með fortölum sínum, svo hann bað þá fara af stað og búa skip til ferðarinnar og hafa svo marga menn sem þeim líkaði, og gjörðu þeir það eins fljótt og þeir gátu; lögðu þeir síðan af stað, og gaf vel byr fyrsta daginn; svo hrepptu þeir þokur miklar og villtust víða um sumarið, þangað til þeir sáu sorta fyrir stafni; þeir héldu þar að og gengu af skipi á land upp.

Þeir fóru víða um það og sáu, að það var eyland nokkurt. Loks sáu þeir fagran skála; þar var maður í dyrum og klauf skíði. Konur tvær sátu þar á stólum; önnur þeirra var öldruð, en hin ungleg. Hin eldri var að greiða sér með gullkambi, og var hárið samlitt kambinum. Hún greiddi hárið frá augunum, þegar hún heyrði til þeirra. Þeir heilsa þeim og kveðja þau vel og spyrja, hvernig á því standi, að þau voru þar svo fá.

Eldri konan gegndi þeim blíðlega og spurði, hvað þeir væru að fara. Þeir sögðu frá öllu eins og var.

"Það er þá líkt á komið með okkur," mælti konan, "því ég hef nýlega misst kóng minn; það komu víkingar í landið og drápu hann; en ég flúði hingað með dóttur minni og þræl þessum, sem þér sjáið hér."

Þeir báðu hana að fara með sér og verða drottning kóngsins síns; hún sagði sér þætti mikið fyrir því, "þar eð hann er ekki nema einn smákóngur, en sá, sem ég átti fyrri, var kóngur yfir tuttugu kóngum kórónuðum, og þykir mér niðrun fyrir mig að eiga hann."

Þeir báðu hana því betur að fara með sér.

Loks lét hún til leiðast að fara með þeim, en gaf þrælnum skálann með öllu því, sem í honum var. Héldu kóngsmenn síðan af stað með hana og dóttur hennar; gaf þeim vel byr og voru fáa daga á leiðinni.

Þegar kóngur sá ferð þeirra, lét hann aka sér í gullvagni til strandar, og var drottning sett í vagninn hjá honum, og fékk hann þegar ástarhug á henni, og var þá ekið heim aftur til borgarinnar og stofnað til ágætrar veislu og boðið öllu stórmenni í nærliggjandi löndum og ríkjum; var þar vel drukkið og gjafir mönnum gefnar; þeir fóru þaðan fullríkir, sem þangað komu fátækir.

Nú fóru allir heim aftur, en drottning tók við ráðum þeim, sem henni bar. Dóttir hennar hét Ísól eins og kóngsdóttir, en mönnum þótti hún ekki eins fríð eins og hin og aðgreindu þær með því, að þeir kölluðu hana Ísól blökku, en kóngsdóttur Ísól björtu. Hún var í kastala einum og hafði þernur; en eigi eru hér nafngreindar nema tvær þeirra, Eyja og Meyja; þær gengu næst kóngsdóttur og fylgdu henni jafnan, þegar hún fór út að skemmta sér á lystigöngu um einn aldingarð.

Einu sinni skömmu eftir þurfti kóngur að fara að friða land sitt og fór með mörg skip, svo að fátt manna var eftir heima.

Þegar hann var farinn af stað, kom drottning á fund kóngsdóttur og spurði hana, hvort hún vildi ekki ganga út á skóg að skemmta sér.

Hún játti því og fór af stað og þernur hennar tvær með henni, Eyja og Meyja; Ísól blakka fór með þeim. Þær gengu víða um skóginn, þangað til þær komu að gryfju einni; þær námu staðar á bakkanum; en þegar minnst varði, hrundu þær mæðgur hinum niður í gryfjuna öllum þremur, og var hún býsna djúp.

Þá mælti drottning til kóngsdóttur, að nú skyldi hún eiga hann Fertram. Gengu þær mæðgur síðan heim aftur til borgarinnar, og lét drottning dóttur sína fara í klæði hinnar og setjast í kastalann, svo allir héldu það væri kóngsdóttir sjálf, en fáir töluðu um, þó hin sæist ekki, því fáum þótti hún bæta fyrir mönnum.

Leið nú svo, að engin tíðindi urðu, þangað til kóngur kom heim úr leiðangri; fór þá drottning að tala um, að best mundi vera að fresta eigi lengur giftingu Fertrams og Ísólar kóngsdóttur.

Kóngur tekur því vel og lætur þegar stofna til ágætrar veislu, og var þangað boðið mörgu stórmenni. En þann sama morgun, sem veislan átti að vera, kom dóttir drottningar til móður sinnar og sagði, að nú væri komið í óefni fyrir sér, því nú væri komið að þeirri stund, að hún skyldi ala barn það, er hún gengi með og hinn gamli þræll þeirra, Kolur, ætti.

"Ég kann gott ráð við því," sagði drottning, "hérna í koti skammt frá er stelpa, sem Næfrakolla heitir; farðu, og biddu hana að setjast á brúðarbekkinn fyrir þig."

"Ætli hún sé ekki kjöftug?" segir Ísól.

Drottning kvaðst skyldi sjá um það, að hún talaði ekki meira en hún vildi. Fór hún síðan af stað og í kotið og fann þar Næfrakollu og bað hana fara fyrir sig og sitja brúðkaupið. því hún gæti það ekki sjálf. Næfrakolla hét því og fór heim til borgarinnar og fann drottningu.

Fór hún þá að færa hana í brúðarskrautið; en þegar hún fór að draga á hana reiðermarnar, mælti Næfrakolla:

"Vel sóma ermar
eiganda armi."

Drottning sagði, að það vissu allir, að hún hefði saumað þær sjálf. Því næst voru henni fengnir hanskar; þá sagði hún:

"Þekkta eg fingur,
þá forðum gjörðu."

Sagði drottning enn sem fyrri og að hún þyrfti ekki að vera að klifa á því sama. Síðan var riðið út á skóg að skemmta sér. En þegar fólkið kom að læk nokkrum, mælti Næfrakolla:

"Nú er eg komin að þeirri lind,
sem þau Fertram og Ísól bjarta
bundu sína trú,
og vel mun hann halda hana nú."

Riðu menn þá lengra, þangað til komið var að gryfjunni; þá mælti Næfrakolla aftur:

"Hér liggja Eyja og Meyja;
báðar mínar skemmumeyjar;
gekk eg upp á gullskærum móður minnar."

Nú sneri það heim aftur; hestur brúðarinnar hljóp þá á undan, hún mælti þá:

"Skaktu þig, skaktu þig, Skurbeinn,
einn muntu sofa í nótt,
og svo mun ungi kóngurinn verða."

Síðan héldu menn til borgar. Ísól var þá komin heim; höfðu þær klæðaskipti, Næfrakolla og hún, og vissi enginn af því nema drottning sjálf.

Hún spurði dóttur sína, hvað hún hefði gert af barninu.

"Ég át það, móðir mín," mælti hún.

"Það var rétt, dóttir mín," mælti drottning.

En er kvöld var komið, fóru menn að hátta; brúðguminn var háttaður, og brúðurin ætlaði að fara að afklæða sig. Brúðguminn spurði hana þá, hvað hún hefði sagt, þegar ermarnar hefðu verið dregnar á hana.

"Ég held ég hafi ekki sagt mikið, og man ég ekki eftir því," segir Ísól; "en ég get spurt drottninguna, hvað það hafi verið."

Nú fór hún og spurði, hvað stelpuskömmin hefði sagt, þegar ermarnar voru dregnar á hana, þegar hún reið út.

Drottning sagði henni, að hún hefði sagt:

"Vel sóma ermar
eiganda armi."

Fór hún þá inn með þetta og sagði brúðgumanum.

Hún fór smásaman að reyta af sér fötin. Hann spurði hana enn, hvað hún hefði sagt, þegar hún tók við hönskunum.

"Það man ég ekki, það hefur fráleitt verið svo merkilegt," segir hún.

"Þú verður samt að segja mér það," mælti hann, "annars færðu ekki að fara upp í."

Hún fór þá og spurði móður sína, hvað það hefði verið, sem stelpan hefði sagt, þegar hún tók við hönskunum.

Hún sagði henni það:

"Þekkta eg fingur,
þá forðum gjörðu."

Nú fór hún með þetta til hans og sagði honum það. Þá fór hún úr meiru; hann spurði hana þá í þriðja sinn, hvað hún hefði sagt, þegar hún kom að lindinni og gryfjunni, og í þriðja lagi, þegar hestur hennar hljóp á undan heim.

"Það man ég ekki," sagði hún; "ég held það hafi ekki verið mikið."

"Þú verður samt að segja mér það," mælti hann.

Hún hljóp enn til móður sinnar og spurði hana að því.

Hún sagði henni það; þegar hún kom að lindinni, sagði hún:

"Nú er eg komin að þeirri lind,
sem þau Fertram og Ísól bjarta
bundu sína trú,
og vel mun hann halda hana nú."

Þegar hún kom að gryfjunni, sagði hún:

"Hér liggja Eyja og Meyja,
báðar mínar skemmumeyjar;
gekk eg upp á gullskærum móður minnar."

Þriðja var, þegar hesturinn hljóp á undan, þá sagði hún:

"Skaktu þig, skaktu þig, Skurbeinn,
einn muntu sofa í nótt,
og svo mun ungi kóngurinn verða:"

Nú fór hún með þetta og sagði honum það allt og ætlaði upp í.

Hann tók þá sverð upp hjá stokknum og lagði hana í gegn og sagði, að það skyldi verða, að hann svæfi einn þá nótt.

Í því kom drottning og sá, hvað um var að vera; varð hún þá að flagði, en hann lagði hana jafnskjótt með sverðinu, og fékk hún af því bana.

Var þá sent eftir Næfrakollu, og varð hún að segja hið sanna frá öllu þessu. Gladdist kóngur þá mjög, er hann var frelsaður frá flagði þessu. Veislan var þá aukin að nýju:

Þar var á borðum:
pipraðir páfuglar,
saltaðir sjófiskar,
mimjam og timjam
og multum salve.
Þar var drukkið:
primet og klaret
og vínið garganus,
gullkistur um gólf dregnar
og gjafir mönnum gefnar;
þeir fóru þaðan fullríkir,
sem þangað komu fátækir.
Svo varð Fertram kóngur, þegar hann dó;
þau áttu börn og burur,
grófu rætur og murur;
og svo kann eg ekki þessa sögu lengri.Netútgáfan - febrúar 1998