FRÁ  RÍKA   MÓRABóndi bjó með konu sinni á Grímsstöðum undir Dimmafjallgarði í Norðursýslu. Hann var fátækur mjög. Á bænum var tík er gaut mórauðum hvolpi. Bóndi ól hann upp og hafði fyrir smalahund. Hvolpinum var gefið stekkjarlamb og var það gimbur.

Móri varð svo fésæll að ekkert missti hann en fé það er honum var eignað tímgaðist vel svo tvö höfuð, sem menn segja, voru á kindum hans.

Gekk þetta til þess að Móri hafði eignast allt féð og búið var orðið hans eign og kölluðu menn hann því ríka Móra að nú var komin auðlegð í stað örbirgðar á heimilinu.

Svo mikið kvað að þessu dálæti á Móra að þegar mönnum var matur borinn eða annar greiði gerður eða nokkuð úti látið og hjónunum var þakkað fyrir mæltu þau að ekki skyldi þakka sér heldur honum ríka Móra.

Einhverju sinni var biskup á vísitasíuferð sinni og kom að Grímsstöðum. Var honum og mönnum hans gerð veisla og borinn matur í trogum, kútar voru í flösku stað og askar fyrir staup.

Að endaðri veislunni þakkar biskup þeim hjónum greiða en þau mæltu að vanda að ekki skyldi þakka sér heldur ríka Móra sem ætti allt búið.

Biskup spyr hvort það sé maður en þau segja að það sé rakki þeirra. Biskup kvað eigi mætti minna vera en hann fengi að sjá þann er veitt hefði og þakka eigi. Þau kváðu það velkomið.

Er þá gengið út á haug og liggur þar þá kvikindi eitt heyrnar- og sjónlaust, óræsti mikið, í einum flókabendli og afgamall.

Þá er biskup hefur litið á hundinn um stund mælti hann til sveins síns er Árni hét: "Sér þú þrælinn?"

Árni rak þá stígvélin í haus Móra svo heilinn lá úti. Síðan gerir biskup hjónum þeim harðar ávítur og skipar presti þeirra að setja þeim opinbera skrift og aflausn fyrir villu þeirra og forneskju.

En eftir það að Móri var dauður brá svo við að allt gekk af þeim hjónum og loks dóu þau af eymd og volæði.


(J. Þork. -- Eftir sögn séra Friðriks Eggerts 1852.)


Netútgáfan - júlí 1997