LEIRULÆKJAR  -  FÚSIÁ öndverðum dögum þeirra Fúsa og Sigurðar Gíslasonar Dalaskálds lá draugur einn á Hellisfitjum og hafði aðsetur sitt í Surtshelli; var draugur þessi hin rammasta óvættur og lagðist á ferðamenn; meiddi hann suma og drap suma, og þótti mönnum ekki fært að fara frá Kalmanstungu norður yfir heiði fyrir óvættinni á Hellisfitjum. Sáu menn, að ekki mætti svo búið standa, en fáir treystust þó til að setja niður jafnmegnan draug og þessi var.

Var þá leitað til þeirra Fúsa og Sigurðar, því menn vissu, að þeir voru bæði fjölkunnugir og kraftaskáld hin mestu, og voru þeir ófúsir á það og létu þó loksins til leiðast með því móti, að báðir færu og hjálpuðust til. Lögðu þeir nú snemma morguns frá Kalmanstungu einn góðan veðurdag; var það öndvert sumar. Þeir komu snemma dags norður að Surtshelli. Urðu þeir ekki draugsins varir, þegar þeir komu, því hann var niðri í hellinum; heyrðu þeir þungar drunur niðri í hellinum, og þótti þeim ekki mjög fýsilegt að heimsækja hellisbúann.

Þá segir Sigurður við Fúsa: "Nú verðum við að skipta með okkur verkum; verður annar okkar að fara ofan og fást við drauginn, en hinn að gæta dyranna, svo draugurinn komist ekki út; og kjóstu nú hvorn kostinn, sem þú heldur vilt."

Kaus Fúsi að gæta dyra. Sigurður tók úr barmi sér bók eina og lagði í hellisdyrnar, gekk þrisvar sinnum rangsælis kringum bókina, signdi sig síðan öfugt og steig niður í hellismyrkrið. Segir ekki frá því, hvað gerðist í hellinum milli þeirra draugsins og Sigurðar og hversu Sigurður gat komið draugnum niður, en aldrei hefur síðan orðið vart við hann; en það er haft eftir Sigurði, að aldrei hafi hann komist í meiri kröggur en í hellinum.

Þegar hann kom upp úr hellinum, var komið að sólsetri og Sigurður móður og þrekaður mjög. Þegar hann kom upp, var Fúsi allur á burt og bókin Sigurðar. Hafði Fúsi stolið henni, meðan Sigurður var niðri í hellinum og hlaupið síðan burt sem fætur toguðu. Brá Sigurði mjög í brún, og undi hann bókarmissinum illa, en gat þó ekki við gert, því Fúsa gat hann hvergi fundið, og bókinni náði hann aldrei síðan. Urðu þeir upp frá því fjandmenn alla ævi og áttu mörg brögð saman.

Einu sinni fór Sigurður skreiðarferð á skipi innan úr Dölum út undir Jökul. Sigurður fór samt, og segir ekki frá ferðum hans, fyrr en hann var kominn á heimleið; var þá byr góður, og skipið skreið undir segli, og sat Sigurður við stýri fyrir aftan stakk. Sáu menn þá stórfisk koma upp skammt frá skipinu, og synti hann óðfluga að skutnum, svo ekki var undanfæri, og að Sigurði og kippti honum útbyrðis, en gleypti hann þó ekki. Sigurður synti lengi á eftir skipinu, og leituðu hásetar hans á allar lundir við að ná honum, en gátu ekki, og að lokunum sáu þeir hann sökkva.

Sama dag reri Leirulækjar-Fúsi við þriðja mann á báti fyrir Mýrar. Þegar þeir voru í sátri, vissu þeir ekki fyrri til en Fúsa var allt í einu kippt út af bitanum. Náði Fúsi handtökum og svamlaði lengi og gekk þó mjög erfitt að halda sér á floti, þangað til hann gat náð í borðstokkinn; vildu menn hans þá draga hann inn, en gátu með engu móti, svo þungt fannst þeim toga neðan í. Fúsi bað þá losa aðra hönd sína, og gerðu þeir það. Fúsi fer inn í barm sinn, tekur þaðan bókina, sem hann forðum hafði stolið frá Sigurði, kastar henni í sjóinn og segir:

"Taktu nú við, bölvaður; þú hefur lengi sótt eftir henni."

Losnaði þá Fúsi, og drógu hásetar hann inn, og gekk það þá greitt. Þá mælti hann: "Fast var tekið í að ofan, en fastara þó að neðan. Nú er Siggi dauður, en sá er munur okkar, að Fúsi flaut, en Siggi sökk." Þá kvað Fúsi vísu þessa:

"Sigurður dauður datt í sjó,
dysjaður verður aldrei;
í illu skapi út af dó
og í ramma galdri."

Nóttina eftir dreymdi konu Sigurðar, að komið væri upp á gluggann yfir rúmi hennar og kveðin þessi vísa:

"Gakktu fram á Gýgjarstein,
gerðu svo, mín kvinna;
liggja þar mín látin bein,
ljóst muntu þau finna."

Næstu nótt á eftir dreymdi hana enn, að komið var á gluggann og kveðið :

"Gakktu fram á Gýgjarstein,
gjótan er þar furðu mjó;
bar mig þangað báran ein,
bjargaðu mér undan sjó."

Þóttist hún í hvort tveggja sinnið þekkja róm manns síns. Enn dreymdi hana hina þriðju nótt, að komið var á gluggann og kveðið með sömu rödd:

"Eg veit, hver á mig ratar
og aldrei gleymir mér,
sá, sem ei sínum glatar,
son guðs, því allir vér,
lifandi og liðnir bæði,
lífgumst, þá jarðarsæði
herrans röddu heyrir."

Einhverju sinni fór Fúsi með fleirum Mýramönnum suður í kaupstað; var þá kaupstaður í Hólminum (Effersey) og ekki í Reykjavík, fyrr en löngu eftir. Hafði Fúsi ýmislega sveitavöru; þar á meðal var kæfubelgur einn stór. Vildi nú svo til, að Fúsi missti kæfubelginn, og fann hann hann ekki. Komust menn þá að því, að austanmaður einn hafði stolið honum, og vissi Fúsi, hver stolið hafði, en gaf sig ekki að og fór heim við svo búið.

En þegar leið að jólum um veturinn, fréttist til manns með kæfubelg á bakinu, og spurði sá einatt að Leirulæk. Eitt kvöld kom hann loks þangað, ber að dyrum og gerir boð eftir Fúsa. Fer Fúsi til dyra og spyr komumann tíðinda og hvernig standi á ferð hans. Maðurinn kvaðst vera að austan, en koma að sunnan, og ekki geta annað en dregist sífellt með kæfubelg þann, sem hann hefði á baki, og segist hann hafa borið belginn bæ frá bæ, dag eftir dag, og vilji enginn kaupa af sér kæfuna, en sjálfur geti hann ekkert étið úr belgnum.

Ætlar maðurinn að leysa ofan af sér belginn, en getur með engu móti náð honum af sér, því hann var orðinn fastur við hann. Fúsi glottir að og spyr, því hann taki ekki af sér belginn. Komumaður kvaðst ekki geta náð belgnum af sér, því hann sé orðinn fastur við hörund sitt. Ætlar hann nú inn fyrir bæjardyrnar, en kemst ekki. Fúsi spyr, hverju það gegni. Maðurinn kveðst ekki vita það, því aldrei hafi borið svo við fyrri, þó hann hafi haft mikið fyrir belgnum. Fúsi segir honum þá, að honum muni hollast að segja sér sannleikann, hvernig á belgnum standi.

Neyddist þá komumaður til að segja satt frá, og kvaðst hann hafa stolið belgnum frá Mýramönnum um haustið suður á Hólminum og kvaðst hvergi hafa getað haft eirð, fyrr en hann kæmist með belginn að Leirulæk. Fúsi tók nú af honum belginn og réð honum að stela ekki oftar frá ókunnu fólki, og er sagt, að maðurinn hafi gætt þess heilræðis upp frá því.

Fúsi hafði mikil mök við huldar vættir, álfa og púka og kölska sjálfan. Einu sinni sem oftar vildi hann finna hann og leggur því af stað árla einn morgun frá Leirulæk og gengur út í flóa, þangað til hann kemur að runna einum. Í miðjum runnanum var djúpur og dimmur pyttur; við hann settist Fúsi og sat þar allan daginn. En þegar kvöld var komið, sér hann, hvar hausinn á kölska gægðist upp úr pyttinum.

Þá segir Fúsi: "Þarna kemur hann, glókollurinn."

Kvaðst Fúsi hafa haft mikið fyrir því að ná honum, en þó engu ómaki betur varið, því margt hafi hann sagt sér og mikið lið veitt sér og mörg holl ráð gefið sér.Netútgáfan - janúar 1998