HÚSAVÍKUR - JÓNJón hét maður og var kallaður Húsavíkur-Jón. Ekki er getið um ætt hans né uppruna né hvar hann átti heima. Jón þessi var hið mesta illmenni og orðhákur, svaðalegur og ráðríkur fram úr hófi, og hélst ekkert fyrir honum.

Þegar hann var orðinn gamall dó hann eins og lög gera ráð fyrir og jafnskjótt sem hann er kominn yfir um arkar hann af stað áleiðis til himnaríkis. Hann kom þangað að kvöldi dags og barði að dyrum. Sankti Pétur kom þegar til dyra. Heilsar Jón honum kompánlega og beiðist gistingar.

"Ég verð að gá að hvort nafn þitt er ritað hjá mér," mælti Pétur og dró fram afar stóra skræðu þar í bæjardyrunum. Var hún hálfslitin upp úr bandinu og auðséð að í henni var blaðað daglega.

"Í þessari bók eru nöfn flestra þeirra sem eiga að fá vist hjá mér." Pétur fór að blaða en ekki fann hann nafn Jóns þar.

"Nafn þitt er ef til vill í litlu bókinni," mælti Pétur og sótti aðra skræðu miklu minni. Hún var rykug og auðséð að sjaldan var blaðað í henni.

"Í þessari bók eru nöfn velgerðamanna mannkynsins, presta, biskupa og réttlátra leikmanna. Þú hlýtur að vera þar á meðal, góðurinn minn."

En ekki fann Pétur nafn Jóns þar hvernig sem hann leitaði.

"Einhvers staðar hlýt ég þó að vera," mælti Jón og fór að verða svipþungur.

"Ég veit ekki hvernig þetta fer," mælti Pétur og klóraði sér bak við eyrað, "nema ef svo væri að nafn þitt sé í litla kverinu."

Sótti þá Pétur lítið kver og fornfálegt, rykugt og svo myglað að blöðin loddu saman. Var auðséð að því hafði ekki verið flett í hundrað ár.

"Í þessu kveri eru aðeins nöfn postulanna, píslarvottanna, kristniboðanna og helgra manna en þú ert ef til vill einn af þeim."

"Það þykir mér vel líklegt," mælti Jón. En ekki fann Pétur nafn hans þar. Þá fór Jón að verða vondur og kvað það dónaskap mikinn að úthýsa sér, vegmóðum manni, en Pétur færðist undan með hægð og mælti að lokum:

"Ég kannast ekkert við þig, Jón minn, en ekki vænti ég þú getir sagt mér neitt um ætt þína eða æviatriði þín eða miðað við eitthvað sérstakt, þá gæti verið að ég kannaðist eitthvað við þig."

Jón svaraði stuttur í spuna: "Ég heiti Jón og er kallaður Húsavíkur-Jón."

"Nú, þá þekki ég þig," mælti Pétur.

"Þú átt að gista annars staðar en hér. Líttu á, þarna fyrir utan og neðan moldarbarðið, langt niðri í sortanum, er staður sem þér er ætlaður. Biddu þar um gistingu," og um leið smeygði Pétur sér inn fyrir dyrastafinn og skellti í lás.

Jón heldur nú sem leið liggur norður og niður fyrir moldarbarðið og kemur að lokum til helvítis. Kom hann þar um háttatíma og barði að dyrum. Svartur púki kom til dyra.

Heilsar Jón honum og spyr hvort húsbóndi sé heima. Púkinn kvað svo vera og fer inn aftur. Djöfsi kemur brátt út í eigin mynd, heilsar Jón honum með kossi og handabandi og beiðist gistingar, segir að sér hafi verið úthýst í himnaríki og vilji hann nú leita á náðir hans.

"Ég verð fyrst að gá að nafninu þínu í bókunum mínum," mælti kölski og þrífur geysiþykka skræðu undan torfu þar í bæjarsundinu.

"Hér eru nöfn minna sauða." Ekki stóð nafn Jóns þar.

"Þá er að gá í litlu bókina," mælti kölski og sótti inn minni bók, "hér eru rituð nöfn hinna ranglátu, svikara, þjófa, ræningja, hórkarla og hinna meiri guðleysingja."

Ekki fann hann heldur nafn hans þar.

"Hvernig í fjandanum stendur á þessu," mælti kölski og hringaði rófuna hugsandi, "nafn þitt hlýtur þá að vera í kverinu á meðal nafna helstu gæðinga minna."

Sótti hann þá inn lítið kver. Voru spjöldin orpin og virtist kverið hafa verið geymt á hlóðarsteini mánuðum saman.

"Í þessu kveri eru nöfn hinna argvítugustu bófa og illmenna, morðingja, meinsærismanna og trúvillinga. Verið gæti að þú værir þar einn á meðal."

"Ekki mundi ég roðna þó það kæmi upp úr kafinu en gistingu vil ég hafa," mælti Jón.

En ekki var nafn Jóns ritað þar.

"Fæ ég þá ekki að vera?" sagði Jón, og fór að síga í hann.

"Ég er hræddur um ekki," svaraði kölski og var hugsi.

"Það er þá skárri gestrisnin hérna megin," mælti Jón. "Sagt var mér þó í lifanda lífi að þú hýstir alla þá sem reknir væru út á gaddinn í himnaríki og veittir þeim húsnæði ókeypis, -- og værir þú ekki fjandinn sjálfur mundi ég vísa þér norður og niður. Það verður skárri skemmtunin að liggja úti í annarri eins tíð og núna."

"Vertu hægur, vinur minn," mælti kölski blíðlega. "Ættfærðu þig og segðu mér eitthvað um ævi þína, þá kannast ég ef til vill eitthvað við þig."

"Ég heiti Jón og er kallaður Húsavíkur-Jón," svaraði Jón, alveg fokvondur.

"Nú-ú," mælti kölski, "þá kannast ég við piltinn. Það var ekki von að þér væri veitt gisting í himnaríki, þér var ætluð vist hjá mér en ég hef heyrt þín að illu getið og er sannfærður um að ef þú kemst einu sinni inn í ríki mitt verð ég ekki framar konungur þar heldur þú. Ég vil vera húsbóndi á mínu heimili og þess vegna þorði ég ekki að rita nafn þitt í mínar bækur. Nú veistu hvernig stendur á öllu þessu."

"Einhverja úrlausn verður þú að veita mér," mælti Jón.

"Já, vinur," svaraði kölski, "það skal ég gera. Þarna lengra norður og niður, þar sem sortinn er þykkastur, er hola og þar skaltu búa um þig. Þar skaltu stofna nýtt helvíti og taka við þeim sem ég þori ekki að taka í vist hjá mér. Ég skal líka gefa þér einn lítinn eldköggul." -- "Það verður nú aldrei mikið bál úr honum," mælti Jón.

"Stikktu þá á þig þessari taðflögu," mælti kölski, "með minna byrjaði ég."

Jón þá köggulinn og flöguna og fór að ráðum kölska. Hann fann holuna sem til var vísað og stofnaði þar annað helvíti. Tekur hann þar enn í dag á móti þeim sem kölski þorir ekki að vista hjá sér og segja menn að Jón hafi þar nóg til að bíta og brenna.


Netútgáfan - maí 1997