FÓÐRUР KÝR  FYRIR  HULDUFÓLKÁ Minnibrekku í Fljótum bjó kona ein; ekki er getið um nafn hennar. Eitt haust var það að hana dreymdi að til hennar kom huldukona og bað hana að fóðra fyrir sig kú í vetur. Lofaði Minnibrekkukonan þessu, því hún var vel birg af heyi. Það bað huldukonan hana fyrir að skipta sér ekkert af kálfburði né mjöltum kýrinnar.

Um morguninn er ókunnug kýr komin í fjósið og gefur konan henni á hverju máli. Nú sér konan að kýrin býst til burðar og skiptir hún sér ekkert af því, en vinnukona ein var þar hnýsin og fór hún út í fjós að vita hvað kúnni liði með burðinn. Þegar hún lýkur upp fjósdyrunum koma hildirnar á nasir henni og snýr hún aftur við svo búið.

Þegar konan kom næsta mál í fjósið sér hún að kýrin er borin og alheil orðin, einnig er kálfurinn horfinn. Er nú kýrin þarna um veturinn á fóðri. Heyrði konan oft að verið var að mjólka kúna, en engan sá hún. Á sumardagsmorguninn fyrsta var kýrin horfin, en í básnum lá kostulegur kvenbúningur og hirti konan hann og átti síðan.(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - febrúar 2000