HEIMSKU  MENNIRNIREinn tíma bjuggu hjón nokkur auðug á bæ einum. Þau áttu sér þrjár dætur. Þau áttu og einn grip í eigu sinni, þann er þeim þótti vænst um. Það var gullhringur einn harla góður.

Nú kom sú tíð, að hjónin önduðust, og tóku þær systur arf allan eftir þau, svo sem lög stóðu til. En fyrir því, að þær vildu allar eiga hringinn, kvað skiptaráðandinn svo á, að hringurinn skyldi geymast fyrst um sinn óskiptur. Skyldi sú systranna fá hringinn, er hlyti lakasta giftingu, en á meðan þær væru eigi allar giftar, skyldi yfirvaldið varðveita hann.

Nú liðu tímar fram til hinna næstu páska eftir það, að hin síðasta systirin giftist. Þá kemur hin fyrsta systirin að máli við mann sinn og mælti: "Þú skalt nú fara til kirkju á páskadaginn. Skaltu syngja, öskra og ólmast sem mest þú getur, jafnskjótt og þú kemur inn fyrir kirkjudyr, og láta sem verst og ærilegast þú getur."

Hin önnur systirin var eitthvað að fikra á fingrum sér, líkt og hún væri að vefa. Bóndi hennar sá þetta og mælti: "Hvað ertu að gera, heillin mín?"

"Ég er að búa til hýjalín," segir hún, "sem þú átt að vera í á páskadaginn. Það er svo fínt, að maður hvorki sér það né finnur til þess, og í því áttu að skarta, þegar maðurinn hennar systur minnar fer að syngja."

- Þriðja systirin segir við bónda sinn: "Nú ertu dauður. Ég bæði sé það og finn. Ég læt smíða handa þér kistu, leggja þig síðan í hana og flytja til kirkju á páskadaginn. Þú mátt trúa mér til þessa, því að það er satt, sem ég segi þér." Eftir það lét hún smíða kistuna, lagði svo mann sinn í hana og lét síðan flytja hann í kirkjuna á páskadaginn.

Nú kemur sá tími, að hafin er upp messa. Kemur þá maður fyrstu systurinnar æðandi inn í kirkjuna, syngjandi og beljandi eins og hann væri genginn af vitinu, svo að allt fólk undraðist. Því næst kemur hinn í hýjalíninu, allsnakinn.

Verða menn nú hissa og hlæja dátt að þessum fíflalátum, og truflast nú öll guðsþjónustugjörðin. Þá gefur sá hljóð af sér, sem í kistunni var, og mælti: "Nú skyldi ég hlæja, ef ég væri ekki dauður." Þennan mann áleit yfirvaldið heimskastan þeirra þriggja og dæmdi því konu hans hringinn. Lýkur svo þessari sögu.(Þjóðsagnasafnið Gráskinna)

Netútgáfan - desember 2000