HEYVINNANEinu sinni var bóndi á bæ; hann var auðugur að fé og starfsmaður mikill. Hann átti dóttur eina barna; hún var gjafvaxta orðin, er þessi saga gjörðist. Efnileg var hún og vel að sér og starfskona svo mikil, að menn undruðust, hvað miklu hún gat afkastað. Það vissu menn, að hún hafði eitt sinn heitið því að eiga engan mann nema þann, sem hún hefði ekki við að raka eftir í túni.

Einu sinni kemur förukarl til bónda í byrjun túnasláttar og falar kaupavinnu. Bónda líst ekki vel á manninn, en lætur þó til leiðast að taka hann einn eða tvo daga fyrst og reyna hann. Fara menn nú að hátta um kvöldið, því liðið var á dag, þegar maðurinn kom, og er förumaðurinn látinn sofa hjá lúkugati.

Sofa menn nú af um nóttina, og um morguninn fara allir á fætur til sláttar. Nú líður fram að dagmálum, og vaknar ekki förumaður. Búrdyr voru undir loftinu nálægt rúmi því, sem hann svaf í. Þegar búið er að mjalta, skellir húsfreyja búrhurðinni svo fast, að förumaður rumskar. Fer hann fram af þessu að klæða sig, en er þó mjög lengi að því, og um hádegi kemur hann út og signir sig, dregur orf með læri, allóliðlegt, og spyr bónda, hvar hann eigi að bera niður.

Honum er vísað í völl í túninu, sem Vítisvöllur var kallaður; er nú ekki laust við, að sláttumenn hendi spaug að kaupamanni. Fer hann nú að slá. Menn taka eftir því, að fljótt stækkar bletturinn, svo alla undrar, því jörð þótti ætíð óþjál í Vítisvelli.

Um miðmundabil fer bóndadóttir að raka hjá kaupamanni, og gengur seint á ljána. Hún fer nú úr utanyfirfötum og keppist við sem hún orkar, en hefur ekki við að heldur.

Um nónbil hleypur hún heim, sækir fulla grautarfötu og ber til kaupamanns og kastar átta spónum í slægjuna hjá fötunni.

Þá mælti kaupamaður: "Á einn að sleikja?"

Bóndadóttir svarar: "Svei þér nú; þetta varstu meiri mér."

Var svo sagt, að kaupamaður hefði átta púka sér til hjálpar við sláttinn, en bóndadóttir sjö og að hún hafi aldrei séð þann áttunda.

Er svo mælt, að síðan færi kaupamaður úr lörfum sínum og hafi hann innan undir verið skrautbúinn maður og hinn ásjálegasti. Bar hann bónorð sitt upp við bóndadóttur og fékk hennar, og bjuggu þau síðan á bæ þessum eftir föður hennar, og endar svo þessi saga.Netútgáfan - janúar 1998