SAGAN  AF  HLINI  KÓNGSSYNIÞað var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu. Hann hét Hringur, en ekki er þess getið, hvað drottning hans hét; þau áttu einn son, sem Hlini er nefndur. Snemma var hann efnilegur og þótti hinn mesti kappi. Sagan segir, að karl og kerling voru í garðshorni; þau áttu eina dóttur, er Signý hét.

Eitt sinn fór kóngsson á dýraveiðar með hirðmönnum föður síns. Þegar þeir höfðu veitt nokkur dýr og fugla og ætluðu heim aftur, sló yfir svo dimmri þoku, að þeir misstu sjónar á kóngssyni. Leituðu þeir hans þá lengi, en fundu ekki og sneru við það heimleiðis. Þegar þeir komu til kóngshallar, sögðu þeir, að þeir hefðu misst Hlini frá sér og hvergi getað fundið hann.

Kóngur varð mjög hryggur við þessa fregn og sendi margt manna daginn eftir að leita að syni sínum. Þeir leituðu allan dag til kvölds, en fundu ekki, og fór svo í þrjá daga samfleytt, sem leitað var, að Hlini fannst ekki.

Við þetta varð kóngur svo harmfullur, að hann lagðist í rekkju sem veikur maður. Hann lét og lýsa því yfir, að hver, sem fyndi son sinn og kæmi með hann heim aftur, skyldi eignast hálft ríki sitt.

Signý karlsdóttir fréttir hvarf kóngssonar og hverjum launun faðir hans hafi heitið, ef Hlini fyndist; fer hún því til foreldra sinna og biður þá um nesti og nýja skó og heldur síðan á stað að leita kóngssonar.

En það er af ferðum Signýjar að segja, að þegar hún hefur gengið meiri hluta dagsins, kemur hún að áliðnu að helli einum; hún gengur inn í hann og sér þar tvær rekkjur; var silfurofin ábreiða yfir annarri, en gullofin yfir hinni. Litast hún þar betur um og sér, að kóngsson liggur í þeirri rekkjunni, sem gullofna ábreiðan var yfir; vill hún vekja hann, en getur ekki. Hún tekur þá eftir því, að einhverjar rúnir voru ritaðar á rekkjuna, sem hún skilur ekki.

Eftir það gengur hún fram að hellisdyrum og felur sig þar á hurðarbaki. En þegar hún er komin í þetta fylgsni, heyrir hún litlu síðar úti dunur miklar og sér, að tvær skessur stórskornar mjög koma inn í hellinn.

Segir þá önnur þeirra, þegar þær eru inn komnar: "Fussum fei; mannaþefur í helli okkar."

En hin segir, að það sé af honum Hlini kóngssyni.

Síðan ganga þær inn ad rekkju þeirri, sem kóngsson svaf í, og segja svo:

"Syngi, syngi svanir mínir,
svo hann Hlini vakni."

Síðan syngja svanirnir, og Hlini vaknar. Yngri skessan spyr hann þá að, hvort hann vilji ekki borða. En hann neitar því. Þá spyr hún hann, hvort hann vilji ekki eiga sig. Hann neitar því þverlega. Þá kallar hún upp og segir:

"Syngi, syngi svanir mínir,
svo hann Hlini sofni."

Svanirnir sungu, og hann sofnar. Eftir það fara þær að sofa í rekkju þeirri, sem silfurofna ábreiðan var yfir.

Um morguninn þegar þær vakna, vekja þær Hlini og bjóða honum að borða; en hann vildi ekki; því næst spyr hin yngri hann, hvort hann vilji ekki eiga sig; en hann neitar því sem áður. Þá svæfa þær hann á sama hátt og fyrri og fara síðan burtu úr hellinum.

Þegar þær eru farnar fyrir lítilli stundu, fer Signý úr fylgsni sínu og vekur kóngsson, eins og skessurnar höfðu að farið; síðan heilsar hún honum, en hann tekur kveðju hennar vingjarnlega og spyr hana frétta. Hún segir honum allt af létta um harm þann; sem faðir hans beri eftir hann. Síðan spyr hún hann um hagi hans. En hann segir, að þegar hann hafi orðið viðskila við hirðmenn föður síns, hafi hann hitt tvær skessur og hafi þær farið með sig þangað; önnur þeirra hafi ætlað að neyða sig til að eiga sig, eins og hún hafi heyrt, en hann hafi ávallt aftekið það.

"Nú skaltu," segir Signý, "þegar skessan spyr þig í kvöld, hvort þú viljir ekki eiga sig, játast henni með því móti, að hún segi þér, hvað ritað sé á rekkjurnar og hvað þær séu að gera á daginn."

Þetta þykir kóngssyni óskaráð. Eftir það tók hann tafl og bauð henni að tefla við sig, og tefldu þau til kvölds.

En þegar rökkva tók, svæfði hún hann og fór í fylgsni sitt. Litlu síðar heyrir hún, að skessurnar koma og ösla inn í hellinn með fuglakippu. Kveikja þær upp eld, og fer hin eldri að matreiða, en sú yngri fer yfir að rekkjunni og vekur Hlini og spyr hann; hvort hann vilji borða. Hann þiggur það. Þegar hann er búinn að því, spyr hún hann, hvort hann vilji ekki eiga sig. Hann segist vilja það, ef hún segi sér, hvað rúnirnar þýði, sem séu á rekkjunum. Hún segir, að á þeim standi:

Renni, renni rekkja mín,
hvert sem maður vill.

Hann lætur vel yfir því, en segir, að hún verði að vinna meira til og segja sér, hvað þær hafist að úti á skóginum á daginn. Hún segir, að þær séu að veiða dýr og fugla; en þegar þeim verði á milli með það, setjist þær undir eik eina og hendi á milli sín fjöregginu sínu. Hann spyr, hvort nokkuð sé vandfarið með það. Skessan segir, að það megi ekki brotna, því þá séu þær báðar dauðar. Kóngsson segir, að nú hafi hún gert vel að segja sér frá þessu, en hann vilji nú hvílast til morguns; hún biður hann ráða því og svæfir hann síðan.

Um morguninn vekur hún hann til að borða, og þiggur hann það. Þá spyr skessan hann, hvort hann vilji ekki koma með þeim út á skóg í dag; en hann segist heldur vilja vera heima. Síðan kveður skessan hann og svæfir, og fara þær að því búnu báðar burtu.

En þegar þær voru farnar fyrir góðum tíma, fer Signý og vekur kóngsson, biður hann að fara á fætur, "og skulum við," segir hún, "fara út á skóg, þangað sem skessurnar eru. Þú skalt hafa spjót þitt með þér, og þegar þær fara að kasta fjöregginu á milli sín, skaltu skjóta spjótinu í eggið; en líf þitt liggur við, ef þú hittir ekki."

Kóngssyni þótti þetta óskaráð, og stíga þau síðan bæði upp í rekkjuna og mæla fyrir munni sér: "Renni, renni rekkja mín út á skóg." Fer þá rekkjan á stað með þau bæði og nemur ekki staðar fyrr en úti á skógi við eik eina. Þar heyra þau hlátur mikinn. Signý segir þá við kóngsson, að hann skuli fara upp í eikina, og gjörir hann svo. Sér hann þá báðar skessurnar undir eikinni, og heldur önnur þeirra á gulleggi og snarar því að hinni. Í sama vetfangi skaut kóngsson spjótinu, og kom það í eggið á fluginu, svo það brotnaði. Við það brá skessunum svo, að þær ultu út af með froðufalli.

Fer þá kóngsson ofan úr eikinni og þau Signý heim í hellinn í rekkjunni á sama hátt og áður. Tóku þau nú allt, sem fémætt var í hellinum, og fylltu með því rekkjurnar báðar. Síðan stigu þau sitt í hvora og þuldu rekkjurúnirnar. En þær runnu heim í garðshorn með þau og allar gersemarnar. Karl og kerling fögnuðu þeim vel og báðu þau þar að vera; þau þáðu það og voru þar um nóttina.

Snemma morguns daginn eftir fór Signý heim í kóngsríki, gengur fyrir kóng og kveður hann. Kóngur spyr, hver hún sé. Hún segist vera karlsdóttir úr garðshorni og spyr, hverju hann vilji launa sér, ef hún geti fært honum son hans heilan á hófi. Kóngur segir, að það bíði engra svara, hún muni varla finna hann, þar sem engum af sínum mönnum hafi tekist það.

Signý spyr, hvort hann vilji ekki leyfa sér að taka sömu laun fyrir það og hann hafi heitið öðrum, ef hún geti fundið son hans. Hann segir, að svo skuli vera. Signý fer þá aftur heim í garðshorn og biður kóngsson að fylgja sér heim í kóngshöll, og það gerir hann. Leiðir hún hann svo inn í höllina og fyrir kóng. Kóngur fagnar vel syni sínum og biður hann að setjast sér til hægri handar og segja, hvað á dagana hafi drifið, frá því hann villtist frá mönnum sínum. Kóngsson sest þá í hásæti hjá föður sínum og býður Signýju að sitja á aðra hlið sér og segir svo frá sögunni, eins og hún hafði gengið, og að þessi kvenmaður sé lífgjafi sinn, sem hafi leyst sig úr trölla höndum.

Síðan stendur Hlini upp, gengur fyrir föður sinn og biður hann að leyfa sér að taka þessa stúlku sér fyrir konu. Kóngur leyfir það gjarnan og lætur þegar stofna til veislu og býður til hennar öllum höfðingjum ríkis síns. Stóð brúðkaupið í viku, og að því enduðu fór hver heim til sín, og lofuðu allir örlæti kóngs, er hafði leyst þá út með góðum gjöfum. En kóngsson og Signý unnust vel og lengi. Þar með endast þessi saga.Netútgáfan - febrúar 1998