HVER  Á  HÉRNA  HÖNDUR?Þegar ég var hér um bil átta eða níu ára sat ég upp í rúmi hjá móður minni, hliðsmeð fyrir framan knén á henni, um vökuna. Valgerður Guðbrandsdóttir bræðrunga mín var að prjóna peysu sem hún átti, móti móður minni.

Þá seildist móður mín aftur fyrir sig eftir hnykli sem lá við bakið á henni við gaflhlaðið. Þar öðrumegin bitans var gat niður við loftsendann móti bæjardyrunum.

Þegar móðir mín atlaði að taka hnykilinn koma höndur í hönd henni.

Þá segir móður mín glaðlega: "Hver á hérna höndur?" því hún hélt fyrst það mundi vera Jakob Magnússon, siðferðisgóður en rælnisfullur uppvaxandi unglingur hér á bæ, og rétta hendurnar upp af glettum.

Gægist ég þá baka til við móður mína er hún hallaði sér til svo að ljósið skein á hendurnar; sáum við þær bæði, heldur litlar, feitar, þriflegar og hvítar.

Föður mínum datt í hug það mundi vera fáráðlingsstúlka hér á bæ sem kynnt var að því að rjáska sér því sem hún kunni, en mundi hafa leynst inn í bænum í þess háttar snatti, greip því ljósið og fór með það ofan. En er hann var að fara ofan stigann drógust höndurnar úr höndum móður minnar eins og þær færu átakalaust, jafnvel þó hún atlaði að halda.

Faðir minn lýsti innan um bæinn og fann ekkert; var hann þá læstur. Þau töluðu þá um hvað þetta mundi vera. Gátu þau þá þess til að gömul kerling sem var hér í næstu sókn og víst unni móður minni eins og flestir góðir gamlir menn gera þeim sem veita þeim einhvern góðvilja, og mundi það svipur hennar eður systur móður minnar; nundu dánar. En það var hverigt.(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - janúar 2000