SAGAN  AF  JÓNÍDES  KONUNGSSYNI  OG  HILDI  KONUNGSDÓTTUREinu sinni var konungur og drottning í ríki sínu og áttu sér eina dóttur er Hildur hét; hún var nýfædd er þessi saga gjörðist.

Konungur reið oft á dýraveiðar og skemmti sér. Það var einhverju sinni er hann var staddur úti á skógi að hann sá dreka mikinn á flugi sem hafði barn í klónum. Konungur skaut til dreka þessa og varð svo heppinn að hæfa hann í hjartað svo að drekinn datt dauður niður, en barninu gat konungur náð lifandi; var það sveinn harla fríður sýnum og hér um bil ársgamall. Konungur hafði sveininn heim með sér og kallaði Jónídes; lét hann fóstra hann með Hildi dóttir sinni og gjörði vel til hans í allan máta. Þau uxu nú upp saman og var mjög vel hvorju til annars er þau eltust.

Amma Hildar var mjög fjölkunnug og kenndi hún Hildi margt í þeim fræðum; var Hildur svo auðnæm á þetta að hún gat þegar í æsku mörgum brögðum beitt. Amma hennar tók eftir því að þeim Hildi og Jónídes var vel saman, en ekki vildi hún fyrir nokkurn mun að hann fengi hennar og því ásetti hún sér að drepa hann á eitri; kemur hún því einhverju sinni inn til þeirra og ber mat fram fyrir þau og bað þau snæða, en Hildur sá að maturinn var eitraður, og varaði Jónídes við að smakka á honum.

Aðra tilraun gjörði hún þá að hún vildi myrða þau í sænginni, en Hildur hafði séð við því og lagt trédrumba í sængurnar; hjó kerling þar til, en saxið varð fast í drumbinum og hendur hennar fastar við saxið og sat hún svo til þess er morgnaði.

Hildur sá nú að þeim mundi ekki lengur verða vært í borg föður síns sökum ríkis ömmu sinnar og gengu þau þá út úr borginni og að læk einum er rann þar skammt frá. Brá hún þeim þá báðum í silungalíki og stukku þau í lækinn.

Amma hennar fékk njósn af þessu, kom þar og reyndi með öllu móti að ná silungunum, en fékk ekki að gert. Nóttina eftir tóku þau aftur mynd sína; segir þá Hildur að ekki muni þeim þetta tjá því nú sitji amma sín við að búa til net til að veiða þau í, og skuli þau nú ganga á skóginn.

Amma hennar fékk njósn af þessu og sendir tvo þræla á skóginn og skipar þeim að drepa allt sem þeir sjái þar lifandi. Þeir fara út á skóginn og sjá engin dýr fyrr en undir kvöld er þeir sáu tvo hunda svo fríða að þeir aldrei þóttust hafa séð þvílíka. Þeir létu vinalega að þrælunum, en ekki fengu þeir náð þeim, fóru síðan heim og sögðu frá ferðum sínum. Kerling sagði að þar hefðu þau Hildur verið og hefði þeim farið ómannlega og lét drepa þá báða.

Hildur sá nú að þetta mundi ekki heldur tjá þeim; tók hún þá upp grænt klæði, skipaði hönum að stíga á með sér og hóf sig upp í loftið; liðu þau svo áfram lengi dags uns hún aftur lét síga til jarðar; komu þau þá niður á völlu fríða og var þar landslag hið fallegasta.

"Þetta er nú ættjörð þín," segir Hildur, "og ert þú son konungs þess er hér ríkti, en nú er látinn fyrir nokkrum árum. Þegar þú varst á fyrsta ári gekk móður þín með þig út í aldingarð nokkurn; kom þá að henni drekinn og hremmdi þig úr faðmi hennar; olli það föður þínum mikillar sorgar, því hann átti ekki annað barn, og dró hann að lokunum til dauða. Ríkið er nú forstöðulaust því móðir þín er lögst í rúmið af gremju og harmi. Skaltu nú ganga til borgarinnar og segja móður þinni sögu þína; mun hún þá kannast við þig og fá þér ríkisstjórnina í hendur. Sjálf ætla ég fyrst um sinn að vista mig hér í kotbæ einum, en bið þig þess að gleyma mér eigi."

Jónídes sagði að slíkt mundi ekki fyrir koma því hann elskaði hana eins og sjálfan sig; um það sagðist hún þó hræddust vera. Smurði hún hann síðan úr smyrslakrukku nokkurri og kvaddi hann grátandi.

Jónides heldur nú til borgarinnar, en þegar hann er kominn miðs vegar kemur til hans tík og sleikir öll smyrslin utan af honum; gleymdi hann þá jafnskjótt Hildi og minntist hennar ekki framar. Þegar hann kemur til borgarinnar biður hann um að ná fundi drottningar og fær það. Segir hann henni þá upp alla sögu, að hann sé sonur hennar. Kannaðist hún fljótt við sögu hans og sagðist nú þekkja hann af föður hans sælum. Varð hann nú konungur í ríkinu og þótti vel fara.

Skömmu eftir að hann var orðinn konungur kom fríð stúlka til borgarinnar; enginn vissi hvaðan hún kom, en enginn þóttist hafa séð aðra fegurri. Konungur leit til hennar ástaraugum og gerði brúðlaup til hennar, en ekki þótti hún væn eftir fríðleika.

Einhverju sinni bar svo til að einn af þrælum svínahirðis konungsins villtist á skógum úti og kom að kotbæ einum; þar voru fyrir karl og kerling og Hildur sem þau nú kölluðu dóttur sína. Þrællinn baðst gistingar í kotinu og fékk hana. En er fólkið fór að hátta sagði karl að ekkert rúm væri handa hönum nema að hann svæfi hjá Hildi dóttur sinni; sagði þrællinn að sér mundi ekki þykja mikið að því því hann þóttist aldrei hafa séð fegurri meyju.

Fór hann síðan og háttaði í rúmi Hildar, en hún þóttist þá ætla fram, og sagðist eiga ófalinn eldinn. Þrællinn sagðist skyldi gjöra það fyrir hana, en bað að hún háttaði á meðan.

Fór hann síðan fram og fór að fela eldinn, en hendur hans urðu þá fastar við hlóðarsteinana og var hann að stimpast við þá til morguns; en þá losnaði hann og fór á burt.

Þegar þrællinn kom heim spurði svínahirðirinn hann hvar hann hefði verið um nóttina; sagði þrællinn það og þar með að hann hefði sofið hjá dóttur karls.

Vaknaði þá löngun svínahirðisins að koma og vera þar nætursakir; gerir sig síðan út og kemur þar að kvöldi og beiðist gistingar. Karl leyfði það og bað hann inn ganga. Svínahirðinum leist vel á karlsdóttur og hlakkaði til næturinnar.

Þegar farið var að hátta sagði karl að honum yrði hvergi boðið að hvíla sig nema ef hann vildi sofa hjá dóttur þeirra. Svínahirðirinn hélt að það mundi nú mega verra vera og háttaði, en er Hildur ætlar að fara að hátta segir hún:

"Nei, þá átti ég ólokað bænum," og ætlar fram, en svínahirðirinn segir:

"Nei, það skal ekki vera að þú farir, ég skal fara og loka bænum."

Hleypur hann síðan fram og hleypir í lokunni, en verður fastur við hana og fær ekki losað sig fyrr en með morgni og heldur þá sneyptur á stað.

Nokkru eftir þetta vildi svo til að konungur var á veiðum; kom þá yfir hann þoka mikil svo hann villtist frá mönnum sínum og varð einsamall; fór hann þá lengi villtur þangað til hann kemur að koti einu og ber þar að dyrum. Karl kemur út og býður honum inn; þekkir hann konung og biður hann forláta þó lítilfjörleg séu húsakynni.

Hann gerir konungi gott eftir efnum og er karl fór að hátta segir hann konungi að hann geti ekki boðið honum að hvíla sig nema ef hann vilji sofa hjá dóttur sinni; konungur kvaðst mundi láta sér það vel líka því honum leist vel á stúlkuna, og háttaði í rúmi hennar.

En er Hildur ætlaði að fara að hátta segir hún: "Æ, þá átti ég eftir að láta inn kálfana."

"Ég skal hlaupa ofan," segir konungur, "og stinga þeim inn," og hleypur út.

Fór hann síðan að eltast við kálfana, en þeir eru mjög óþekkir. Loksins nær hann í halann á einum og verður líka jafnskjótt fastur við hann og hékk aftan við kálfinn til morguns að Hildur kom út.

Hlær hún þá upp yfir sig og segir: "Tarna er ekki konunglegt, að hanga aftan í tarfkálfinum."

Konungur bað hana auðmjúkur að leysa sig og gjörði hún það. Spurði hún þá konung hvort hann þekkti sig eigi, og neitaði hann því. Hún spurði hann þá aftur hvort hann ekki myndi eftir Hildi konungsdóttur sem hefði flutt hann í ríki sitt; hann kvaðst ekki heldur muna hana. Sótti þá Hildur krukkuna með smyrslunum í og smurði hann og mundi hann þá jafnsnart eftir Hildi, þekkti hana og faðmaði hana að sér.

Hildur segir honum þá að drottning sú er hann nú eigi sé amma sín gamla, hafi hún brugðið sér í meyjarlíki og ætlað að drepa hann, en til þessa kvaðst Hildur hafa getað hindrað tilraunir hennar, en bað hann að lengja nú ekki líf hennar eftir að hann væri heim kominn.

Kveðjast þau nú með miklum kærleikum og heldur Jónídes konungur heim í ríki sitt, og jafnsnart og hann er heim kominn lætur hann grípa drottningu sína, draga belg á höfuð henni og drekkja. Þar á eftir sendir hann frítt föruneyti eftir Hildi og drekkur brúðlaup til hennar. Lifðu þau síðan lengi, áttu börn og buru og önduðust Í góðri elli.(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)

Netútgáfan - desember 1998