ÁLFKONURNAR  Í  KÁLBORGMaður er nefndur Þórsteinn. Hann átti heima í Bárðardal, á Kálfborgará eða máske Jarlsstöðum; það er fyrir austan fljótið. Hann var hér um átján ára gamall þegar þetta ævintýri gjörðist.

Það var vani og verk Þórsteins að sitja fé á sumrum og standa hjá á vetrum upp á Fljótsheiðinni. Þar á heiðinni er klettur eða klöpp sem kölluð er Kálborg; þar nálægt rennur lítil á sem kölluð er Kálborgará og við hana er bærinn kenndur að Kálborgará. Áin rennur í dalverpi sem við hana er kenndur og kallaður Kálborgarárdalur. Þórsteinn var raddmaður og hafði hann oft það sér til skemmtunar er hann sat að fé að kveða og syngja.

Eitthvert skipti var það um vetur að Þórsteinn stóð yfir fé að vanda sínum; þá gerði á hann mikla hríð svo ekki var vært kyrru fyrir að halda. Rak hann þá féð á stað og vildi heim, en fór villur og fann eigi fyr en hann kom að klöppinni Kálborg. Þá þekkti hann sig og tók sér stefnu þaðan og ætlaði heim, en það kom fyrir ekki því að stundu liðinni kom hann að borginni aftur. Hvíldi hann sig þá þar um stund; síðan hélt hann enn á stað og ætlaði að leita heim, en kom að hinni sömu klöpp ennþá.

Sá hann þá að ekki var annað sýnna en að berast þar fyrir til þess hríðina birti eða bíða þar dauða síns ella. En er hann hafði setið þar um stund opnaðist klöppin og kom þar út kona öldruð. Hún heilsaði Þórsteini og bauð honum inn að ganga og leiddi hann því næst inn. Var þar fyrir önnur kona ung og fríð og þrjú börn og ekki kemur fleira fólk við söguna en þær tvær. Buðu þær Þorsteini þar að vera og vóru blíðar við hann, einkum hin yngri.

Í húsinu var öllu laglega niður skipað og svo var bjart í því sem sól skini, en birtan stóð af hjóli eða hnött einum sem í húsinu var. Rekkjur vóru tvær og vóru þær rauðar að lit. Bók eina sá hann þar og var hún með gullnu eða þó fremur eldlegu letri og las Þórsteinn margt í henni meðan hann dvaldi hjá fyrnefndum konum. En hjá þeim var hann í hálfan eða máske heilan mánuð og þókti þeim gaman að láta hann kveða fyrir sig, og var það ásetningur þeirra mægðna að Þórsteinn settist að hjá þeim og giftist hinni yngri konunni og bað og bauð móðir hennar hann þess og sókti það með miklu kappi.

En þó að honum þækti þar allgott að vera og félli stúlkan vel í geð var hann með öllu móti ófáanlegur til að setjast að hjá þeim. En þegar sú gamla konan sá að ekki var til neins framar um það að tefla vildi hún gefa honum vín í staupi og var það rautt á lit, svo sem aðra skilnaðarskál, en Þorsteinn þáði það ekki.

Reiddist hún þá úr hófi og heitaðist mjög við hann og lagði á hann margt illt, fyrst að hann skyldi aldrei geta haft einlæga ást á konu og er mælt það hafi ræst. Annað lagði hún á hann að skyldi aldrei geta komið tungunni fram fyrir tannirnar eða sungið né kveðið framar, enda gat hann það ekki meðan hann lifði. Einnin lagði hún á hann að skyldi verða þjófur. Líka sló hún hann eða særði á brjóstinu.

En jafnótt og hin gamla kella lagði á hann greip sú yngri málinu fyrir og bætti um allt svo sem hún kunni og græddi hann á brjóstinu; þó gat hún ei gert hann jafngóðan svo alla ævi hans var brjóstið kalt og dofið, því hún sagði að móðir sín væri svo andheit að hún gæti ekki tekið álögurnar af að öllu þó hún gjarnan vildi, því henni var orðinn hann mjög kær.

Síðan fylgdi sú hin yngri honum út og minntist við hann, og mæltu til vináttu með sér og það lagði hún ríkt á við hann að segja ekki frá þessum atburði fyr en tuttugu og átta ár væri liðin. Fór nú Þórsteinn heim til sín, en engum sagði hann hvar hann hefði dvalið þennan tíma.

En að tuttugu og átta árum liðnum orkti Þórsteinn kvæði í hverju hann sagði frá öllum þessum atburði glögglegar, en það kvæði mun nú vera undir lok liðið. Í kvæðinu er þetta:

Bók þar var með blöðum ný
björt sem elda funi;
las eg margt af letri því
þó lítið eftir muni.

Og þetta í niðurlagi:

Síðan hef ég þá silkihrund
séð skjaldnar en vildi;
hennar vegleg ævistund
er í besta gildi.

Kona sem er fjórða frá Þórsteini var fyrir fáum árum á Brenniási; sá bær er austur frá Kálborg. En á þeim tíma vildi svo til að stúlka þar af næsta bæ var að taka fjallagrös á Kálborgarárdal.

Var þá eitthvert sinn að hana dreymir að kvenmaður kemur að henni og fer að tala við hana. Þykist hin sem hét Kristín þá spyrja hana hvar hún eigi heima, en hún segist eiga heima í Kálborg og vera þar við grasatekju á dalnum, og svo fór hún að segja Kristínu hvað sér félli illa að sjá til smalans sem hún nefndi - hann var á sama bæ og Kristín - þegar hann væri að fara þar um dalinn, hvað hann bæði riði gapalega og færi illa með hesta og sauðfé. Hún sagði sér þækti svo illt að sjá þegar illa væri farið með skepnurnar. -

Svo sagði hún Kristínu líka að hún vildi einhvern tíma geta gjört stúlkunni fyrnefndu á Brenniási eitthvað gott því það væri frændstúlka sín, og því vildi hún, ef gæti, gjöra henni eitthvað til þægðar. Ekki er getið fleiri orða þeirra.


Kvæði Þórsteins:

Lengi var mér létt til máls,
lin var hryggðar íma,
nauða frí og nálega frjáls
nítján ára tíma.

Snemma á vetri svo til bar
seint á nætur stundu
sauða geymdi, sel því var
sett á foldar grundu.

Systur tvær með sæmda plag
sá ég prýddar standa
bláklæddar með besta lag,
búið var til vanda.

Á höfðum fagra falda bar
frúnnar ægisljóma;
augu þeirra og andlit var
allt í einum blóma.

Framan á brjóstum furðu frítt
falda var á lindum,
leiftraði eins og ljósið blítt,
líkast dýramyndum.

Mjög væn belti um mjaðmir frúr
mátti fögur líta,
eins og gullið ofni úr
er meistarar nýta.

Frá þeim gjörði ganga greitt,
grimm varð hræðsla að meini,
en ég rataði ekki neitt
utan að sama steini.

Heyrði eg orð af auðargná,
- upp svo vífin standa -:
"Sannlega skal sveinninn fá
siðina með oss vanda."

Að mér gengu fögur fljóð,
fljótt þann þáði greiða,
eftir það með engan móð
inn í salinn leiða.

Ljós á kerti logaði ei þar,
líkt var fofnisbóli,
húsið fríða birtu bar
best af einu hjóli.

Rauðlitaðar rekkjur tvær
refla var hjá skorðum,
út kann skýra eg um þær
ei með fáum orðum.

Borð þar stóð og bygging ný
búið hagleiks vanda,
en ég sá þó undir því
engan stólpa standa.

Settur ég á sæmdastól,
- samt réð hræðslan krenkja -
vín á staupi veiga sól
vill með brögðum skenkja.

Vildi ég ekki vífsins gjöf,
vék að yngra kvendi,
en hún fyrir utan töf
að sér tók með hendi.

Auðþöll höfuð undir mér
eina skikkju lagði
og faðmaði upp að sér,
en þó lítið sagði.

Reiddist hin og ræddi þá,
- rauna var það efni -
aldrei skyldi eg yndi fá
né ást á hringagefni.

Illa vífið aðra grein
yfir mér nam heita:
"Flestir skulu í máli mein
manni þessum veita."

Reiddist hin og ræddi þá
reflaskorðin fríða:
"Ég mun gjöra mest sem má
móti þessu stríða.

En þó hljóti auðnu brest
af illri ræðu þinni
þess skal gjalda þjóðin flest
þungt á ævi sinni.

Yfirvinna enginn skal
en þótt vilji granda;
merki fylgi mætum hal
af mínum spádómsanda."

Bók þar var með blöðum ný
björt sem væri funi;
las ég margt af letri því
þó lítið eftir muni.

Einn glerstólpa eftir á
auðs bar þöllin hvíta,
meybörn fjögur mæt að sjá
mátti ég þar líta.

Frá því yngsta og til mín
einn nam geisli skína;
út það lagði auðarlín
upp á spásögn sína.

Í sama stólpa sá ég þar
sextán dýr með sóma;
eitt af hinum öllum bar
í æru, sæmd og ljóma.

Það hið þriðja sem ég sá
síst má þjóðum greina;
línþöll sagði í ljósri spá
að lengi skyldi leyna.

Tungu festi tennur við
trú í snilldar verki,
á hægra brjóst' með sama sið
sjást þau bæði merki.

Svo hef ég þagað sem fór skár,
séð athafnir manna,
tuttugu og átta ár
orðin munað svanna.

Vel að þekkja vini hér
vandi þykir mönnum;
einn er guð sem alla sér
innstu að hjartans rönnum.

Leiddi mig það listafljóð
loks á veg til manna;
angri vafin eftir stóð
ágæt hringananna.

Síðan hef ég seimahrund
séð sjaldnar en vildi,
hennar vegleg ævistund
er í besta gildi.

Kvæði það sem hér er skrifað er tekið upp úr konu í Aðalreykjadal sem kvæðið nam af móður sinni. Líka kann önnur kona kvæðið þar í dalnum; og faðir hennar, Þorgrímur nokkur eða máske faðir hans, sá Þorstein sem kvæðið kvað og kvað það satt vera sem skýri frá í kvæðinu um það sem huldukonan lagði á hann að tungan var föst við góminn nema broddurinn, en þó heyrðist það ekkert á máli hans, og hægra brjóstið var á stærð við stórt konubrjóst og kalt alla ævi.

En þegar þetta skeði var Þórsteinn á Jarlsstöðum í Bárðardal og var á beitarhúsum þar upp á heiðinni, á Jarlsstaðaseli sem er nokkurn spöl fram frá Kálborg sem flestir segja að hafi verið steinn sá sem kvæðið getur um að konurnar vóru í.

Eitt atvik skal hér sagt sem sönnunardæmi upp á það að menn hafi verið Þórsteini óvinveittir, sér sjálfum þó til skaða rétt eins og kvæðið skýrir frá álögunum:

Þegar Þórsteinn bjó í Svartárkoti í Bárðardal þá hafði hann kú að láni um veturinn. En er hann hafði haft kúna um tíma sendi eigandinn eftir henni þvert móti loforði sínu, hvað Þorsteini kom mjög illa vegna bjargarskorts.

Sendimenn komu snemma morguns á bæinn og heimtuðu kúna svo frekt að bóndi mátti til að sleppa henni og fékk ekki tíma til að láta mjólka hana í síðasta sinni hyski sínu til hressingar. Svo fóru þeir með kúna á stað í besta veðri, en þegar þeir vóru komnir skammt á leið vildi kussa ekki ganga og svo fór að lokum að þeir máttu skera hana, og þókti sem slíkt væri ekki einleikið.(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - júní 2000