GALDRAMENN  -  EIRÍKUR  Í  VOGSÓSUM


======================
GALDRAKVERIÐEinu sinni reið séra Eiríkur til Strandarkirkju, en þegar hann var kominn langt af leið segir hann við piltinn sem með honum var: "Ég hefi gleymt kverinu mínu heima, sæktu það fyrir mig, drengur minn; það liggur undir brúninni á koddanum mínum, en mundu mig um það, ljúktu því ekki upp og flýttu þér."

Drengurinn fór og sókti kverið, en þegar hann kom út á sandinn lauk hann upp kverinu af forvitni.

Þusti þá að honum ógrynni af púkum úr öllum áttum og spurðu: "Hvað eigum við að gjöra? hvað eigum við að gjöra?"

"Fléttið þið reipi úr sandinum," segir pilturinn undireins og fór sinn veg.

Þegar hann fann prest fékk hann honum kverið. "Laukstu því nú ekki upp á leiðinni?" segir prestur.

"Það gjörði ég," segir pilturinn, "og komu þá til mín ótal púkar og spurðu mig hvað þeir ættu að gjöra, en ég sagði þeim að flétta reipi úr sandinum."

"Það var vel sagt," segir prestur, "og skal ég kenna þér eitthvað í staðinn," og það efndi hann.

Þegar þeir fóru heim aftur leit allur sandurinn út eins og reipafléttur.

Aðrir segja að Eiríkur prestur hafi verið á ferð til Krýsuvíkurkirkju og saknað kversins í Herdísarhrauni og að drengurinn lyki því upp við ósinn og skipaði púkunum að flétta sandinn hjá ósnum.(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - ágúst 2001