LÁTRA  -  BJÖRGLátra-Björg var kona mjög stórvaxin og ekki fríð sýnum. Hún var skapstygg og einræn; fór hún stundum með kveðlinga og hugðu menn hún væri ákvæðin og stóð af henni stuggur. Flakkaði hún stundum um sveitir og bað sér beiningar því hún var kona snauð, en ekki vildi hún ganga í vist eða vera öðrum háð. Þá var valdsmaður Jón Benediktsson í Rauðaskriðum. Hugði hann að vandlæta um háttu Látra-Bjargar; þá kvað hún:

Táli pretta illu ann,
aldrei dóma grundar;
máli réttu hallar hann,
hvergi sóma stundar.

Þessi vísuorð vóru flutt valdsmanni og varð hann reiður við og stefndi hann Látra-Björgu um kveðling þennan; en þegar málsrekstur fór fram bar hún af sér ámælið og kvað aðra hafa rangfært fyrir sér vísuorðin af illvilja og haft sig fyrir rógi. Hefði hún einmitt kveðið hana um valdsmanninn öfugt við það sem hún væri flutt eftir sér og mátti hún ekki varast að vísan væri lesin aftur á bak. Væri hún rétt höfð svona:

Stundar sóma, hvergi hann
hallar réttu máli,
grundar dóma, aldrei ann
illu pretta táli.

Og mátti valdsmaður láta svo búið standa.

Einu sinni var það að Látra-Björg skyldi eið vinna sem henni var fyrir hvern mun óljúft; þá kvað hún:

Beiði eg þann sem drýgir dáð
og deyð á hörðum krossi leið
að sneyða þann frá nægð og náð
er neyðir mig um sjöttareið.

Og eftir það var hún ekki neydd um eiðinn því valdsmanni stóð geigur af ákvæðaorðum hennar og þókti hann þó fylgja sér fast að málum við menn eins og sagan segir líka að hann hafi hitt sjálfan sig fyrir, því þegar hann eitt sinn dæmdi hart einhvern vesælan fyrir litlar sakir þá kvað hinn aumi (segja sumir að það væri Látra-Björg):

Dómari Jón, þú dæmir mig,
dómurinn þinn er skæður;
dómarinn sá mun dæma þig
sem dómunum öllum ræður.

Tók þá Jón hina löngu og ströngu sótt sem leiddi hann til bana og gaf þó jörðina Kotamýrar fátækum í Reykjadal að hann fengi að leysast héðan.


Látra-Björg og duggan

Það er mælt að Látra-Björg hafi verið kraftaskáld og er það haft til marks að eitt sinn er sigling hafði lengi dregizt kvað hún þetta:

Vaxi mugga og vindurinn,
vil ég brugga ljóða slag,
sigli dugga ein hér inn
oss að hugga nú í dag.

Er mælt það hafi gengið eftir er óskað var eftir í vísunni.(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - júní 2001