NADDIMeðan þeir niðjar Bjarnar skafins voru uppi, lagðist af þjóðleið sú, er liggur milli Njarðvíkur og Borgarfjarðar yfir Njarðvíkurskriður, er svo eru nefndar; var það fyrir þá sök, að óvættur ein í mannslíki að ofan, en dýrslíki að neðan, lagðist fyrir menn á veginum og veitti mörgum bana, þegar fór að dimma nótt, svo ófært var um veginn að fara. Óvættur þessi hélt sig í gili því, sem liggur Njarðvíkur-megin við skriðurnar og kallað er síðan Naddagil, því á kvöldin um haust og vetur heyrðist eins og eitthvað væri að nadda og glamra á grjótinu heim að Njarðvík; fyrir þetta kölluðu menn óvætt þessa Nadda.

Það var eitthvert sinn um haust síðla, að Jón Bjarnarson kom seint um kvöld að Snotrunesi í Borgarfirði og ætlaði í Njarðvík. En af því komið var að dagsetri, bað fólkið hann að gefa sig ekki í þá ófæru að leggja svo seint í skriðurnar. En hann skeytti því alls ekki, kvað sig ekki mundi saka og ekkert mein að verða og hélt svo sína leið. En sem hann kom heim undir gilið, mætti hann óvættinni og réðst á hana. Varð þeirra aðgangur bæði harður og langur. Barst leikur þessi allt á jaðar þann, sem heitir Krossjaðar; þar sagði Jón, að óvættur þessi hefði slitið sig af sér og dragnað í sjóinn. Var þar síðan sett upp krossmark það, sem þar er enn, með þeirri áskrift á latínu, "að vegfarendur skyldu framfallandi lesa þar faðirvor," og hélst sá siður lengi fram eftir öldum.

Jón komst í Njarðvík þjakaður mjög, víða blár og marinn, lá rúmfastur í mánuð og komst svo á fætur. Hann hélt, að óvættur þessi hefði komið úr sjó, af því hann leitaði síðast til sjávar; en aldrei bar á honum eftir viðureign þeirra.


Netútgáfan - mars 1997