PÚKARNIR  MEР POKANAÍ dal einum á Norðurlandi, sem nú er allur í eyði, er sagt, að fyrr á öldum hafi verið sjö byggð býli. Svo bar við einn aðfangadag jóla, að bóndi sá, er bjó á neðsta bænum í dalnum, stóð yfir sauðum sínum á móum nokkrum við dalsmynnið. Í rökkursbyrjun sá hann, að neðan með ánni komu sjö hálfvaxnir strákar, allir svartklæddir með prjónahúfur á höfðum, og allir héldu þeir á samanbrotnum pokum. Bar þá fljótt yfir, og hlupu þeir við fót með afkáralegum tilburðum.

Bónda varð undarlega við og starði á eftir þeim kumpánum, þangað til þeir hurfu fyrir leiti. Skildi hann síst í, hverjir þetta gætu verið, en datt loks í hug, að þetta mundu vera púkar, sem sendir hefðu verið sinn á hvern bæ í dalnum til þess að safna blótsyrðum manna yfir jólahelgina, sjálfum þeim og húsbónda þeirra til fæðu og fagnaðar.

Þegar bóndi kom heim um kvöldið, lagði hann ríkt á við heimafólk sitt að varast allt blót og ragn fram á þrettánda dag jóla og hét því góðum glaðningi að lokinni jólahelgi, ef það héldi vel og dyggilega boð hans. Fólkið hét öllu góðu um það og gætti sín grandgæfilega um jólin, svo að engum hraut blótsyrði af vörum.

En á þrettándadagsmorgun, þegar mjaltakona kom í fjósið, var þar allt á tjá og tundri, kýrnar lausar af básunum, bundnar saman í hölunum og svo trylltar, að hún ætlaði engu tauti við þær að koma. Í stimpingunum við kýrnar rann henni svo í skap, að hún sagði: "Hvaða bölvuð læti eru þetta?"

Þennan sama dag stóð bóndi enn yfir sauðum sínum á sama stað og áður, og undir kvöldið sá hann sömu sjö strákana koma fram dalinn. Sex þeirra voru feitir og bústnir að sjá og hlupu borubrattir með hlátrum og sköllum og með troðfulla poka á baki, en á eftir dróst sá sjöundi, skinhoraður og ólundarlegur, með tóman poka, nema hvað svolítið sparð virtist vera í öðru horninu. Gerðu félagar hans óspart gabb að honum og stríddu honum á allar lundir.

Um kvöldið sagði bóndi heimafólkinu frá því, er fyrir hann hafði borið, og lét skammta öllum góðan aukabita.(Þjóðsagnasafnið Gráskinna)

Netútgáfan - nóvember 2000