GALDRAMENN  -  EIRÍKUR  Í  VOGSÓSUM


======================
REYKJANES  -  GUNNAKona hét Guðrún, nú almennt nefnd Gunna. Hún var ill í skapi og óvinsæl svo enginn vildi hafa hana nærri sér. Því bjó hún í einhýsi á Reykjanesi þar sem heitir í Grænutóft.

Bóndi í Höfnum hafði léð henni pott einn vetur og fór um vorið að sækja hann. Gunna skammyrti bónda, en sleppti ekki pottinum og fór bóndi heim svo búinn. Hann þurfti þó á pottinum að halda því enginn gat léð honum pott og fór hann þá aftur til Gunnu, en áður en hann fór bað hann menn að vitja sín ef hann yrði lengi. Því var lofað.

Bóndi kom ekki heim um kvöldið og var hans leitað um morguninn eftir og fundu hann ekki. Þeir komu að Grænutóft og lá Gunna í bæli sínu og var dauð, helblá og uppblásin. Þeir vöfðu hana í rekkjuvoðum og létu hana liggja og fóru aftur.

Á heimleiðinni fundu þeir bónda skammt frá veginum drepinn og sundurrifinn. Þar var hjá honum potturinn molbrotinn. Þeir fluttu lík bónda heim og var hann jarðaður.

Kista var smíðuð um Gunnu og var hún flutt í henni frá Grænutóft til Kirkjuvogs, en á leiðinni þóttust sumir sjá hana dansa fyri líkfylgdinni.

Nú var kistan grafin, en Gunna gekk um allt eins og grár köttur og var engu óhætt fyrir henni.

Þá var sent til Eireks prests á Vogsósum og fekk hann sendimanni trefil og bað hann færa Gunnu og segja henni að þvætta hann.

Sendimaður fer og færir Gunnu trefilinn og segir um leið og hann fleygði honum í hana: "Þetta áttu að þvætta."

"Hvur segir það?" segir Gunna.

"Eirekur á Vogsósum," segir maðurinn.

Henni brá við og sagði: "Ekki var von á verra."

Hún fór strax af stað og að hvernum á Reykjanesi og kastaði enda trefilsins í hann, og varð hann fastur í hvernum, en hinum gat hún ekki sleppt og gengur síðan kringum hverinn og er nú búin að ganga sig upp að knjám, segja menn.

Nú á dögum er hverinn kallaður Gunna.(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - ágúst 2001