REIMLEIKAR  Á  NÚPIÁ langaföstu veturinn 1844 skeði sá tilburður á Núpi í Axarfirði þegar kvölda tók, þá var farið að kasta því sem lauslegt var í kringum fólkið, hvert heldur voru bækur eða leppar eða það sem kvenfólkið hafði á prjónum, sem ekki var annað en plögg á hendur og fætur. Þessi hendingaleikur fór síðan smásaman í vöxt þar til einu sinni að bóndinn þar sem var álitinn kallmenni fór eitt kvöld á fund nágranna síns og dvaldi hjá honum þar til í vökulok að hann fór heimleiðis aftur því honum var ekki gjarnt til að vera langdvölum frá konu og börnum. Annað fólk var ekki á bænum utan systir konunnar, mesta ráðvendnisstúlka, og vinnumaður, heldur ódugnaðarmaður, en frómur og hrekkjalaus.

Bóndinn kom heim um kvöldið þegar kominn var háttatími. Þá stóðu systur báðar á pallstokknum með sinn vöndinn hver í hendinni og hrópandi um hjálp til guðs síns. Bóndinn, sem þaggað hafði niður þenna kvitt sem ekki hafði borið á nema þegar hann var ekki viðstaddur, spyr nú hvað um sé að vera. Þær svara honum að djöfullinn sé kominn í bæinn. Hann biður þær að tala gætilega og svo er farið að hátta og ber þessa nóttina ekki á neinu.

Kvöldið eftir þegar rökkva fór var svo að kalla allt á lofti sem lauslegt var og gat bóndi nú ekki borið á móti að eitthvað væri undarlegt í þessu. Þegar hann var háttaður um kvöldið og búinn að breiða upp yfir sig, þá kom tréskór sem var á loftinu rétt á móti ljósinu og hitti augabrúnina á bónda og sprengdi hana sundur.

Eftir það var tilburðalítið þá nótt, en um sólsetur daginn eftir mátti sækja bónda út í hús því hann var að þjóna skepnum sínum. Þá kastaði tólfunum og var brothljóð í hverjum rafti.

Hann kemur síðan inn og var ekkert hnugginn, heyrir eitthvað þrusk í baðstofudyrum og segir: "Hvert þú ert heldur djöfull eða maður þá komdu og reyndu við mig."

En á augabragði er brothljóð í rúmgafli sem var rétt við baðstofudyrnar og þar sviptist í sundur þumlungsþykkt borð án þess að heyrðist nokkurt högg eða mönnum væri sjónarlegt að brúkað hefði verið nokkuð verkfæri; borðið fór í þrjá parta og var ég sjónarvottur að því hvað borðið var þykkt og lítið farið að feyskjast.

Bónda hugsaðist þá að fá menn sér til skemmtunar um nóttina og urðu til þess tveir af nágrönnum hans sem báru sig mikið hreystilega og vildu, þegar farið var að hátta, láta slökkva ljósið, sem bónda og heimafólkinu var heldur móti skapi.

Undireins og búið var að slökkva ljósið gekk svo mikill moldaraustur í baðstofunni að fólkinu lá við köfnun. Þá buðust aðkomumenn til að kveikja, en þegar til þeirra heyrðist framan göngin með ljósið hætti moldbylur þessi. Ljósið var svo látið lifa það eftir var nætur og bar ekki á neinu.

Eftir þessa hviðu fór konan með börnin burtu og ekki var eftir nema bóndi og vinnumaður til að þjóna gripunum. Ég sem rita söguna var fenginn til að vera næstu nótt hjá þeim. Ég gjörði það að sönnu með hálfum huga, en með því ég var ungur og ekki áræðislaus bjó ég mig út með byssu og skotfæri og um kvöldið bað ég þá að sýna mér áverka þann sem orðið hafði á öllum hlutum - en hverki menn né skepnur fengu nokkur meiðsli utan það sem áður er getið um augabrún bónda. -

Ég sá síðan marga hluti brotna og með mörgu móti skemmda, en furðaði mig mest á því að kvöldskór vinnumannsins voru allir sundurskornir og neðan á botninn á öðrum þeirra var rispað Á; maðurinn hét Árni, það var svo laglega gjört að hver maður sem þekkti skrift hans gat gengið úr skugga um að það var ekki eftir hann.

Um nóttina bar ekki á neinu. Ég var þar svo, en ekki nema á daginn, í hálfan mánuð til að umbreyta í baðstofunni og gjöra nú allt sterkara og hlaða upp í moldarskot það sem ausið var úr yfir fólkið.

Þegar búið var að gjöra við í baðstofunni, einnig að setja ný rúmstæði, flutti fólkið sig heim aftur og konan líka sem komin var að falli og allir voru hræddir um að kynni að hafa illt af þessu. Svo bar ekki neitt á neinu í hálfan mánuð, en upp frá því fór hundur sem á bænum var að gelta, mikið alvarlegur, helst á kvöldum, og menn vissu ekki að hverju. Nú var komið fram yfir sumarmál og nóttin stutt, en dagurinn langur. Þá tók til um hádegisbil grjótkast, torfkast og yfirhöfuð að tala var allt á ferð og flugi. Steinn kom á baðstofugluggann upp yfir rúminu hjónanna; hann braut eftir vonum gluggann og part af gluggakistunni og kom inn á loftið; svo kom annar á eftir og þriðji sem álitið var að vægi tíu fjórðunga; hann huldi gluggann, en gekk ekki inn um hann. Þá sendi bóndinn eftir mönnum á næstu bæi til að sjá hvað á gengi og ráða sér ráð.

Alltaf fór þessi ógangur versnandi og vaxandi um daginn. Allur nýr fatnaður sem komist hafði upp um veturinn var saxaður í sundur eða tugginn svo ómögulegt var að fá gómblett heilan á milli.

Eitt sinn þegar konan var að búa upp í rúmi sínu, hún hafði fjöl fyrir framan rúmfötin eins og siður er víða til, en þegar hún ætlaði að taka rúmfjölina og láta hana á sinn stað, þá var haldið í hana á móti henni svo fast að hún náði henni engan veginn; Þá tekur hún það ráð að hún þreifar eða sveiflar hendinni eftir fjölinni til hins endans og þá losnar fjölin. Þetta var í ljósbirtunni og allt á stjái á loftinu.

Nú var hjónunum ráðlagt að flytja burt og svo farið að taka til og byrjað í baðstofunni. Þá segir konan: "Mér þykir vænt um að glasið mitt er óbrotið," og flytur það fram í skemmu og lætur það á botninn á opnum stokk sem stóð fram við þilið undir glugganum sem enn var óbrotinn.

En þegar lítil stund var liðin kom glasið inn um baðstofugluggann ofan í steinana; gat þá konuskepnan ekki lengur fagnað yfir að það væri óbrotið. Nú var farið að gæta hvernig því hefði orðið náð úr skemmunni sem var læst og lykillinn vandlega geymdur hjá bóndanum. Sáu menn þá að ein rúðan úr glugganum var brotin, en stokkurinn sem glasið var í stóð svo nærri að maður hefði getað smeygt handlegg inn um gluggann og náð því.

Daginn eftir var allt flutt í burt nema kindurnar. Þegar farið var að leysa kýrnar sem voru undir palli í baðstofunni virtist þeim sem eitthvað ríslaði uppi á loftinu. Þeir tóku síðan höndum saman og ætluðu að finna þetta sem glettast var við þá, en allt í einu ætlar kýrin að verða óhemjandi niðri og vildu þeir þá ekki bíða lengur og hélt bóndi síðan af stað illa ánægður með að geta ekki komist fyrir orðsökina hvar fyrir hann hefði orðið fyrir þessu; hann vissi ekki til að nökkrum manni væri í kala við sig og eirði því mjög illa.

Um vorið áður en þetta skeði voru hjónin bæði á stekk með börnunum. Stekkurinn stendur nærri djúpri tjörn. Börnin tóku til að henda steinum í tjörnina. Segir þá faðir þeirra þeim að hætta því og segir þeim að þau kunni að detta í hana og gjörir sig myndugan. Móðir þeirra segir þá það sé óþarfi fyrir hann að banna börnunum þetta, þau gjöri það að gamni sínu.

Nokkru eftir þetta dreymir konuna að henni þykir koma til sín stórvaxin kona og tala til sín heldur stuttaralega á þessa leið: "Illa fórst þér að mæla upp í börnunum þínum að skemma veiðina í tjörninni með því að kasta grjóti í hana, því það var veiðivatn mitt, á hverju ég lifði með mína fjölskyldu, og mun ég launa þér það þó seinna verði."

Einu sinni sáu börnin um hábjartan dag fullorðinn kvenmann og unglingsstúlku sem stefndu til fjalls og héldu menn spurnum fyrir hvert nokkur hefði verið á ferð, en það var ekki. - Bóndinn hafði í seli á Núpi næsta ár, fekk svo jarðaskipti og hefir ekki á neinu borið síðan.(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - nóvember 2000