SÆMUNDUR  FRÓÐISá skóli var í fyrndinni til út í heimi, sem hét Svartiskóli. Þar lærðu menn galdur og ýmsan fornan fróðleik. Svo var til háttað í skóla þessum, að hann var í jarðhúsi rammgjörvu mjög; á því var enginn gluggi, og var þar því alltaf niðamyrkur inni. Enginn var þar kennari, og námu menn allt af bókum, sem voru skrifaðar með eldrauðu letri, sem lesa mátti í myrkrinu. Aldrei máttu þeir, sem þar lærðu, koma undir bert loft eða sjá dagsljósið, á meðan þeir voru þar, en það voru þrír eða sjö vetur, sem þeir urðu að vera í skólanum til að verða fullnuma. Hönd ein grá og loðin kom á hverjum degi inn um vegginn og rétti skólapitunum mat. En það áskildi sá sér, sem skólann hélt, að hann skyldi eiga þann, sem síðastur gekk út af þeim, sem burtu fóru úr skólanum á ári hverju. En af því að allir vissu, að Köski hélt skólann, vildi hver, sem gat, forða sér frá því að ganga seinastur út úr honum.

Einu sinni voru þrír Íslendingar í Svartaskóla: Sæmundur fróði, Kálfur Árnason og Hálfdán Eldjárnsson eða Einarsson, sem seinna varð prestur að Felli í Sléttuhlíð. Þeir áttu allir að fara burtu í einu, og bauðst þá Sæmundur til að ganga seinastur út. Urðu hinir því fegnir. Sæmundur varpaði þá yfir sig kápu stórri og hafði ermarnar lausar og engan hnapp hnepptan. En rið var upp að ganga úr skólahúsinu. Þegar nú Sæmundur kemur á riðið, þrífur Kölsi í kápu hans og segir: "Þig á ég." Varpaði þá Sæmundur af sér kápunni og hljóp út. Hélt Kölski kápunni einni eftir. En járnhurðin rumdi á hjörum og skall svo fast aftur á hæla Sæmundi, að hælbeinin særðust. Þá sagði hann: "Skall þar hurð nærri hælum," og er það síðan orðið að máltæki. Þannig komst Sæmundur fróði burt úr Svartaskóla með félögum sínum.

Aðrir segja, að þegar Sæmundur fróði gekk upp riðið og kom út í dyrnar á Svartaskóla, þá skein sólin móti honum, og bar skugga hans á vegginn. Þegar nú kölski ætlaði að taka Sæmund, þá sagði hann: "Ég er ekki seinastur. Sérðu ekki þann, sem á eftir mér er?" Kölski þreif þá til skuggans, sem hann hélt mann vera; en Sæmundur slapp út, og skall hurðin á hæla honum. En upp frá þeirri stundu var Sæmundur jafnan skuggalaus, því kölski sleppti aldrei skugga hans aftur.

Það er sagt um Sæmund fróða, er þangað (í Svartaskóla) gekk með stallbræðrum sínum, að hann hafi orðið þar eftir og annar með honum, er Christophor hét. En er þeir voru vel lærðir, fóru þeir út, og átti þá Sæmundur að ganga á eftir, og segja menn, að hann hafi lagt yfirhöfn fulla af fötum á bak sér. En þegar þeir gengu út, var gripið í Sæmund; lét hann þá lausa yfirhöfnina og komst svo út, en þá var morgunn. Sæmundur tók þá skó þeirra félaga og fyllti með vatni, og báru þeir þá svo yfir höfði sér allan daginn fyrir eftirför. Þá hélt skólalýður, að þeir hefðu í vatni drukknað. Annan dag fylltu þeir skó sína sína með sjó og fóru svo sem fyrr. Hélt þá skólalýður, að vatnið hefði fleytt þeim fram í sjó. Þriðja daginn lét Sæmundur fylla skó þeirra með mold og grasi yfir og báru þá þannig á höfði sér. Þá kvað skólalýður þá vera á land rekna og jarðaða. Var þá útséð um alla eftirför, þegar þessir þrír dagar voru liðnir. Eigi mundu allir hafa svo af komist, þó Sæmundur úr þrautum kæmist.

Þegar þeir Sæmundur, Kálfur og Hálfdán komu úr Svartaskóla, var Oddinn laus, og báðu þeir þá allir kónginn að veita sér hann. Kóngurinn vissi dável, við hverja hann átti, og segir, að sá þeirra skuli hafa Oddann, sem fljótastur verði að komast þangað. Fer þá Sæmundur undir eins og kallar á kölska og segir "Syntu nú með mig til Íslands, og ef þú kemur mér þar á land án þess að væta kjóllafið mitt í sjónum, þá máttu eiga mig." Kölski gekk að þessu, brá sér í selslíki og fór með Sæmund á bakinu. En á leiðinni var Sæmundur alltaf að lesa í Saltaranum. Voru þeir eftir lítinn tíma komnir undir land á Íslandi. Þá slær Sæmundur Saltaranum í hausinn á selnum, svo hann sökk, en Sæmundur fór í kaf og synti til lands. Með þessi varð kölski af kaupinu; en Sæmundur fékk Oddann.

Sæmundur hinn fróðu sagði, að óskastund væri á hverjum degi, en ekki nema eina sekúndu (augnabragð), og tækist mönnum því varla að hitta á hana. Aðrir segja, að aldrei sé óskastund nema á laugardögum einungis.

Einu sinni var Sæmundur í baðstofu, þar sem vinnukonur hans sátu. Þá segir hann: "Hana nú, stúlkur, nú er óskastundin, óskið þið nú hvers, sem þið viljið." Þá gellur ein þeirra við og segir:

"Eina vildi eg eiga mér
óskina svo góða,
að eg ætti synina sjö
með Sæmundi hinum fróða."

"Og dæir, þegar þú færð hinn seinasta," segir Sæmundur, því hann reiddist stúlkunni fyrir óskina. Þessi stúlka hét Guðrún, og varð hún seinna kona Sæmundar prests. Áttu þau saman sjö sonu, eins og hún hafði óskað, en að hinum seinasta dó hún að barnsförum.

Sæmundur geymdi jafnan klæði þau, sem Guðrún hafði átt, á meðan hún var vinnukona, og sýndi henni þau iðulega til þess að lægja í henni rostann, því hún var drambsöm mjög af vegi þeim, sem hún var komin í. Það er eitt sagt til merkis um drambsemi hennar, að einu sinni kom til hennar fátækur maður og bað hana að gefa sér að drekka. Þá segir hún:

"Gakktu í ána, góðurinn minn,
það gjörir biskups-hesturinn."

Það hafði Sæmundur prestur heyrt í fornum spám, að sér væri sálufélag ætlað með fjósamanni á Hólum; gjörði þar fyrir ferð sína til Hóla norður, leyndist í fjósið, þá nautamaður var að taka hey, gekk bás frá bás og skar helsi af hverju nauti; gengu þau svo laus úr básunum. Svo kom nautamaður fram og sá, hvað um var, bað guð hjálpa sér og mælti eigi stærri orð, bætti svo niður nautunum og gekk frá. Aftur gekk Sæmundur í básana, skar öll bönd sundur og sleppti öllu lausu. Nautamaður kom að og sá enn nú, hvað um var að vera, bað guð því meir sér til hjálpar sem meira á gengi; þá gaf Sæmundur sig í ljós og gladdist af sálufélaginu.

Einn laugardag skipaði Sæmundur kölska að moka fjós í Odda, en við það er sagt, að andinn hafi reiðst. Árdegis á sunnudaginn vildi Sæmundur til tíða ganga, var þá allur fjósahaugurinn kominn heim á kirkjustéttina, - fjósið er frá kirkjunni, nú sem stendur, hálft skeið. - Sæmundur prestur kallaði á andann og skipaði honum í reiði að sleikja burt alla heimfærða myki. Þótti presti hann seinn í verkinu og steytti við honum hendi sinni, rak kölski þá niður hnefa sinn á einn steininn, og sjást enn merki til á þeim steini, sem nú er fyrir stafstein í austurbæjardyrum í Odda og nafnkennt er hnúfafar skolla. En svo lauk, að skolli lét hauginn hverfa, og að síðustu laust hann tungu sinni í steininn, og er enn með sama móti augsýnilegt í stéttarsteininum fyrir austurbæjardyrunum í Odda þess merki, fimm fingra djúpt.

Einu sinn átti Sæmundur fróði mikið af þurri töðu undir, en rigningarlega leit út. Hann biður því allt heimafólk sitt að reyna að ná heyinu saman undan rigningunni. Kerling ein var hjá honum í Odda, mjög gömul, er Þórhildur hét; prestur gengur til hennar og biður hana að reyna að haltra út á túnið og raka þar dreifar. Hún segist skuli reyna það, tekur hrífu og bindur á hrífuskaftsendann hettu þá, sem hún var vön að hafa á höfðinu, og skjöktir svo út á túnið. Áður en hún fór, segir hún við Sæmund prest, að hann skuli vera í garðinum og taka á móti heyinu, því vinnumennirnir verði ekki svo lengi að binda og bera heim. Prestur segist skuli fylgja ráðum hennar í því, enda muni þá best fara. Þegar kerlingin kemur út á túnið, rekur hún hrífuendann undir hverja sátu, sem sætt var, og segir: "Upp í garð til Sæmundar." Það varð að áhrínsorðum, því hver baggi, sem kerling renndi hrífuskaftinu undir með þessum ummælum, hvarf jafnóðum heim í garð. Sæmundur segir þá við kölska og ára hans, að nú sé þörf að duga að hlaða úr. Að skömmum tíma liðnum var allt heyið komið í garð undan rigningunni. Á eftir sagði Sæmundur við kerlingu: "Eitthvað kannt þú, Þórhildur mín." Hún segir: "Það er nú lítið orðið og mestallt gleymt, sem ég kunni í ungdæmi mínu."

Sæmundur fróði átti pípu eina, sem hafði þá náttúru, að þegar í hana var blásið, þá komu einn eða fleiri púkar til þess, sem í hana blés, og spurðu, hvað þeir ættu að gjöra. Einu sinni hafði Sæmundur skilið pípuna eftir í rúminu sínu, undir höfðalaginu, þar sem hann var ætíð vanur að hafa hana á næturnar. Um kvöldið sagði hann þjónustustúlkunni að búa um sig, eins og vant væri, en tók henni vara fyrir því, að ef hún fyndi nokkuð óvanalegt í rúminu, þá mætti hún ekki snerta það, heldur láta það vera kyrrt á sínum stað. Stúlkan fór nú að búa um og varð heldur en ekki forvitin, þegar hún sá pípuna. Hún tók hana óðar, skoðaði hana í krók og kring, og seinast blés hún í hana. Kom þá undir eins til hennar púki einn og spurði: "Hvað á ég að gjöra?" Stúlkunni varð bilt við, en lét þó ekki á því bera. Svo stóð á, að um daginn hafði verið slátrað tíu sauðum hjá Sæmundi, og lágu allar gærunar úti. Stúlkan segir þá púkanum, að hann eigi að telja öll hárin á gærunum, og ef hann verði fljótari að því en hún að búa um rúmið, þá megi hann eiga sig. Púkinn fór og kepptist við að telja, og stúlkan hraðaði sér að búa um. Þegar hún var búin, átti púkinn eftir að telja á einum skæklinum, og var hann þá af kaupinu. Sæmundur spurði síðan stúlkuna, hvort hún hefði fundið nokkuð í rúminu. Hún sagði frá öllu eins og var, og líkaði Sæmundi vel ráðkænska hennar.

Einu sinni hélt Sæmundur fróði fjósamann, sem honum þótti vera um of blótsamur, og fann hann oft að því við hann. Sagði hann fjósamanni, að kölski hefði blótsyrði og illan munnsöfnuð mannanna handa sér og púkum sínum til viðurværis. "Þá skyldi ég aldrei tala neitt ljótt," segir fjósamaður, "ef ég vissi, að kölski missti við það viðurværi sitt." "Ég skal nú bráðum vita, hvort þér er það alvara eða ekki," segir Sæmundur. Lætur hann þá púka einn í fjósið. Fjósamanni var illa við þenna gest, því púkinn gjörði honum allt til meins og skapraunar, og átti þá fjósamaður bágt með að stilla sig um blótsyrði. Þó leið svo nokkur tími, að honum tókst það vel, og sá hann þá, að púkinn horaðist með hverju dægri. Þótti fjósamanni harla vænt um, þegar hann sá það, og blótaði nú aldrei. Einn morgun, þegar hann kom út í fjósið, sér hann, að allt er brotið og bramlað og kýrnar allar bundnar saman á hölunum, en þær voru margar. Snýst þá fjósamaður að púkanum, sem lá í vesöld og volæði á básnum sínum, og hellir yfir hann bræði sinni með óttalegum illyrðum og hroðalegu blóti. En sér til angurs og skapraunar sá hann nú, að púkinn lifnaði við og varð allt í einu svo feitur og pattaralegur, að við sjálft lá, að hann mundi hlaupa í spik. Stillti hann sig þá, fjósamaðurinn, og hætti að blóta. Sá hann nú, að Sæmundur prestur hafði satt að mæla, og hætti að blóta og hefur aldrei talað ljótt orð síðan. Enda er sá púkinn fyrir löngu úr sögunni, sem átti að lifa á vondum munnsöfnuði hans.

Svo bar til einn vetur, að maður kom til fjósakonu Sæmundar fróða og bauð henni að sækja allt vatn fyrir hana um veturinn, bera út mykjuna og fleira þess konar, ef hún vildi gefa sér það í staðinn, sem hún bæri undir svuntu sinni. Fjósakonu þótti þetta boð gott, því hún hugsaði ekki eftir því, að hún var þunguð, og mundi ekki til, að hún hefði neitt fémætt undir svuntunni. Hún gekk því að kaupunum. En þegar út á leið veturinn, smálukust upp augun á griðkunni, og þóttist hún þá sjá, hvar hún var að komin. Varð hún þá þögul og fáskiptin og eins og utan við sig. Sæmundur tók eftir því, tók hana tali og gekk á hana um orsökina til fálætis þess, sem á hana væri komið. Í fyrstunni vildi hún ekki segja honum það, en að síðastu komst hún ekki undan og sagði frá öllu greinilega og rétt um kaup sitt við manninn. Sæmundur lét hana þá fyrst vita, að sér hefði raunar ekki verið dulið ráðlag hennar, enda þó hann hefði ekki skipt sér af því fyrri. "Vertu ókvíðin," segir Sæmundur, "ég skal kenna þér ráð til þess að láta kölska verða af kaupinu. Þú skalt á morgun biðja hann að sækja vatnið í hripum og ganga hjá sáluhliði, annars sé hann af kaupinu." Fjósakona gjörir nú allt eins og Sæmundur hafði lagt fyrir hana. Kölski fer nú með hripin og rambar eftir vatninu. En þegar hann kemur að sáluhliði, hringir Sæmundur klukkunum, og fór þá allt vatnið niður úr hripunum. Kölski reyndi til þrisvar sinnum, en það fór alltaf á sömu leið. Snaraði hann þá frá sér hripunum í bræði og hvarf burtu. Fjósakonan ól síðan barn sitt, og vitjaði kölski þess aldrei. Þar á móti hugsaði hann Sæmundi presti gott til glóðarinnar, því hann þóttist eiga honum fyrir grátt að gjalda.

Einu sinni var vinnukona í Odda hjá Sæmundi fróða, og óf hún oftast allt, sem þar var ofið. Einu sinni, sem hún var að vefa, kemur til hennar maður og fer að tala við hana og spyrja hana, hvort það sé ekki heldur slæm vist í Odda. Hún segir, að þar sé ekki svo slæm vist, nema einstöku sinnum sé heldur þröngt um mat, vegna þess að svo mikið gangi í gesti og gangandi. "Ertu þá ekki svöng stundum?" segir maðurinn. "Ekki er það með jafnaði," segir hún. "Heldurðu þú gætir þá ekki þegið, að kaka með smjöri ofan á væri komin á hverju kvöldi að rúminu þínu?" Hún sagðist mundi þiggja það. Hann kvaðst þá skyldi sjá um, að kaka og smjör við skyldi vera hjá rúminu hennar á hverju kvöldi; en hún yrði að heita sér því aftur á móti að biðja aldrei fyrir honum Sæmundi; en ef hún gerði það, þá fengi hún ekki kökuna og smjörið. Það segist vefjarkonan halda, að hún muni geta látið ógjört. Lengi um veturinn eftir þetta bað hún aldrei fyrir Sæmundi presti, þó hann hnerraði og hitt fólkið bæði fyrir honum; enda var kaka og smjör á hverju kvöldi við rúmið hennar. Einu sinni, er hún var að vefa, kemur Sæmundur til hennar og fer að tala við hana. Þegar þau höfðu talast við um stund, setur að presti fjarskalega mikinn hnerra; en hún þegir og lætur sem hún heyri það ekki. Eftir nokkurn tíma fer hann að hnerra enn meir. Þá segir stúlkan: "Ærstu ekki, séra Sæmundur; guð hjálpi þér." Þá segir séra Sæmundur og hættir alveg að hnerra: "Ekki held ég þú fáir köku og smjör í kvöld." Þetta var orð og að sönnu, því þaðan í frá fékk vefjarkonan aldrei köku og smjör frá kölska.

Sæmundur andaðist 1133, en með hverjum atburðum höfum vér eigi heyrt; þó segja menn, að hann þrídagaður hafi úr líkrekkjunni risið og þá kveðið þá drápu, er hans Ljóða-Eddu er vön að fylgja og kallast Sólarljóð. Hann er grafinn í Sancti Nicholai kirkju að Odda á Rangárvöllum, norðvestur frá kyrkjudyrum utarlega. Steinn er yfir leiðinu af óhöggnu grjóti, nú mjög jarðsiginn; á honum hefur lengi sú trú verið (þó nú fyrnist), að veikir menn hafi á honum vakað á náttarþeli og svo burtu gengið horfnir krankleika síns, einkum þeir, sem heimakomu hafa haft. Sæmundur átti sjö börn, hverra allra nafnkenndastur er Loftur, hann var prestur að vígslum og bjó í Næfraholti, hver bær þá var í miðri sveit og stendur við rætur fjallsins Heklu. Í þá daga er sagt, að verið hafi 300 hurðir á járnum í Næfraholti.


Netútgáfan - janúar 1997