SENDISVEINN  SKÁLHOLTSBISKUPSÞað var einu sinni bóndi á bæ fyrir austan; hann átti tólf börn; hið elsta var tólf ára gamall drengur. Drengurinn tók það fyrir að fara á næstu bæi til að fá sér að borða því faðir hans var fátækur.

Þegar hann einu sinni sem oftar ætlaði að fara heim kom að honum þoka svo hann villtist. Hann hugsar með sér að ganga nú ekki lengra og leggur sig fyrir í brekku nokkra. Þegar hann hefur legið þar litla stund kemur til hans drengur og spyr því hann liggi þar.

Hann segist hafa hætt að ganga svo hann villtist ekki í þokunni. Aðkomudrengur spyr hvort hann vilji ekki koma með sér heim í Skálholt, og gjörðist það í milli þeirra að þeir fara báðir þangað heim. Þar biðjast þeir húsa og fá að vera. Þeir eru látnir sofa saman um nóttina.

En um morguninn fara þeir að tala saman í rúmi sínu og segir þá bóndason að sig langi til að vera hér í dag og vinna fyrir því sem hann borði. Aðkomudrengur kveðst ekkert kæra sig um það, hann fái það betra á hinum bænum.

Biskupinn heyrir á þetta tal þeirra og þegar drengirnir eru komnir á fætur lætur hann kalla þá í stofu til sín og spyr bóndason hvort hann langi til að vera hérna í dag. Hann segir já. En við hinn drenginn segir hann að hann skuli fara í burtu, hann fái betra á hinum bænum. Bóndason verður þá kyrr, en hinn fer í burtu.

Að þremur dögum liðnum fer bóndason í burtu og lætur þá biskup gefa honum mat á þrjá hesta handa foreldrum hans og segir að hann megi koma aftur ef hann vilji. Drengur kemur svo aftur og verður nú smali hjá biskupi.

Nú líður og bíður þangað til hann verður fimmtán ára. Biskup var vanur að senda norður að Hólum, en sjaldan komu þeir menn aftur sem hann sendi.

Drengurinn heyrði á þetta tal um norðurferðina og beiddi biskup að lofa sér norður, en hann vildi ekki gjöra það því honum þótti vænt um bóndason. Af því verður bóndason samt svo angurvær að hann leggst í rúmið og liggur nú í rúminu í viku.

Þá kemur biskup til hans og kveðst muni lofa honum að fara, fyrst hann vilji það svo mikið, hann eigi þó mest í hættunni sjálfur. Nú fer bóndason að klæðast. Biskup biður hann sækja hafur; hann er skorinn og bóndason alinn á honum í viku.

Nú kallar biskup bóndason einn morgun til sín í stofu, gefur honum hressingu og segir honum að glíma við karl þann sem sé úti á hlaðinu, og ef hann geti ekki fellt hann fái hann ekki að fara norður. Nú taka þeir til glímunnar og þeytir karlinn honum þá út í loftið.

Nú fréttir biskup hvernig gengið hafi, en bóndasyni þykir mjög sárt. Þetta gengur í þrjá morgna svo að annan morguninn getur hann komið karli á annað kné og verður bóndason þá mjög glaður og segir biskupi. En hann segir að hann verði að fella karlinn hæglega. Þriðja morguninn getur hann fleygt eins karlinum eins og hann fleygði bóndasyni fyrsta daginn og verður hann nú mjög kátur og segir biskupi.

Biskup spyr hvernig honum lítist á þennan karl.

Bóndason segir: "Illa, hann er ljótur og leiður."

"En ef ég er það sjálfur?" segir biskup.

Þá skammaðist bóndason sín er hann komst að raun um að þetta hefði verið biskup sjálfur.

Nú kemur næsti morgunn og segir biskup að nú skuli hann fara af stað norður. Hann fer og biskup fylgir honum á leið, gefur honum flösku og segir að á henni skuli hann súpa ef honum liggi líf við, fær honum svartan hund og segir að hann skuli láta hann ráða ferðinni og hafa þar næturstað sem hann leggist niður og breyta nú ekki út af.

Þeir skilja nú, en bóndason heldur áfram. Þegar kvöld er komið leggst hundurinn undir stein og bóndason hjá honum og eru þar um nóttina. Næsta dag halda þeir áfram þangað til þeir koma að hæð nokkurri og var þá komin kafaldsmugga. Þá vildi hundurinn fara að sunnanverðu, en bóndason að norðanverðu við hæðina. Hann klappaði þá rakkanum og fór á móti vilja hans að norðanverðu.

Nú heldur hann áfram þangað til hann rekur sig á kofadyr í bylnum. Hann ber að dyrum, en enginn kemur til dyra. Svo ber hann aftur, en það fer á sömu leið. Síðan fer hann upp á kofann, ólmast þar og ætlar að brjóta hann niður. Þá lýkur karl upp hurðinni í hálfa gátt, spyr hver úti sé og hvað á gangi.

Bóndason segir til sín og biður að lofa sér að vera. Það vill karl ekki og ætlar að þrýsta aftur hurðinni. En bóndason ýtir á móti og þrengir sér inn um dyrnar og eltir karlinn inn í baðstofu. Þar sér hann í öðrum endanum kerlingu sem situr uppi í rúmi og er að lyppa og hefur öxi undir lærinu, í hinum endanum tvo drengi og stúlku. En þegar stúlkan sér hann fer hún að gráta.

Bóndason gengur lengi um gólf þangað til hann segir við karlinn sem situr í dyrunum: "Við erum óvanir því Skálholtsmenn að fá ekkert að éta."

Karlinn hleypur fram, kemur aftur með fulla skyrskál og réttir að honum. Hann borðar einn spón og fær honum síðan aftur.

Nú líður langur tími þangað til bóndason segir: "Við erum óvanir því Skálholtsmenn að hafa ekkert að gjöra." Þá fer karl fram; en á meðan losar bóndason um poka sinn og sýpur á flöskunni. Í því kemur karl með húðarskinn og biður hann að elta. Hann eltir, en þegar hann fer að teygja upp skinnið rífur hann það sundur í miðjunni, fleygir því í karlinn og segir:

"Við erum óvanir því Skálholtsmenn að elta þessa horbjóra."

Bóndason sýpur á flöskunni aftur. Karlinn kemur með annað skinn og biður bóndason að elta, og fer það allt á sömu leið. Bóndason sýpur ennþá á flösku sinni. Karl kemur með þriðja skinnið, biður hann að elta og fer það enn sem fyrri. Nú fer kerling fram og stúlkan með aska. Litlu síðar kemur karlinn með spaðskál og fær bóndasyni, en hann borðar einn spaðbita og einn spón af súpu og fær síðan karlinum aftur.

Nú fara allir að hátta. Hann gefur því auga hvar stúlkan háttar. Þegar hann heldur að allir séu háttaðir fer hann til hennar í rúmið. Hann fréttir um fólk þetta og segir hún honum að karlinn sé faðir sinn. Hann hafi stolist með sig úr sveit og hitt fyrir þessa kerlingu. Hún hafi komið honum til að drepa menn sem hér hafi komið. Hann hafi átt með henni þessa drengi sem séu hálfbræður sínir.

"Og fari svo," segir hún, "að þú hafir vald yfir þeim þá bið ég þig að drepa ekki drengi þessa."

Nú heyra þau að kerling vaknar og segir við karl sinn hvort nú sé ekki mál að vakna, en hann segir það sé of snemmt. "Þetta er nú," segir kerling, "sá tuttugasti af Skálholtsmönnum og líst mér harðlegast á hann af þeim öllum."

Þau sofna nú aftur, en bóndason og stúlkan fara nú á fætur og fram í eldhús og kveikja ljós. Stúlkan fær honum öxi. Þau laumast nú með ljósið til baðstofu og heggur hann af karli hausinn, en kerling hleypur ofan.

Nú vakna drengirnir og ráðast á bóndason. Stúlkan lést hjálpa hálfbræðrum sínum, en hjálpar þó bóndasyni. Hann kemur þeim undir og biðja þeir hann um líf. Hann gefur þeim það.

Nú fer fólk fram og finnur kerlingu rifna á hol í göngunum og hafði hundurinn drepið hana. Þau taka nú karl og kerlingu og brenna í eldi. Drengirnir sýna honum nú fénaðinn, og var hann sex hundruð fjár og þrír hestar, einn af þeim brúnn að lit sem stúlkan átti og hafði hann aldrei séð stærri hest. Bóndason biður drengina að vísa sér á rétta leið og ríður hann brúna hestinum. Hann ríður norður og gengur ferðin vel og kemur nú í kotið aftur og er þar í viku.

Síðan leggur hann á stað suður, fer með stúlkuna, en biður drengina fyrir búið. Þau koma í Skálholt og fagnar biskup þeim vel. Bóndason biður biskup að kenna henni kristin fræði, því hún var heiðin, og lofar hann því. Næsta vor áttust þau.

Bóndason heyrir það á biskupi að hann langar mikið til að eiga hinn brúna hest svo hann gefur honum hann. Biskupinn gefur honum í staðinn þrjár jarðir fyrir norðan og er ein stærst.

Nú flytur bóndason sig norður og tekur með sér tvær systur sínar, tekur drengina og alla fjármunina úr kotinu á leiðinni. Drengina lætur hann kristna og gefur þeim systur sínar og sína minni jörðina hvorum. Á jörðum þessum fara þessi þrenn hjón að búa, unnast vel til ellidaga og kann ég ekki þessa sögu lengri.(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)

Netútgáfan - október 1998