SKINÞÚFAÞegar Svartidauði geisaði um Skagafjörð árið 1403, fóru englar dauðans um landið á daginn í líki blárrar þokumóðu, en um nætur höfðu þeir að nokkru mannlega mynd. Í Vallhólmi var þá bær einn, er nefndist Fornu-Vellir. Ekki er getið um nafn þess, er þar bjó.

Eina nótt, síðla sumars, vaknaði bóndi við, að skepnur bitu gras uppi á húsunum. Hann reis úr rekkju og fór upp á húsin að reka fénaðinn burt. Myrkur mikið var á, svo bóndi sá ógerla frá sér. Þó varð hann þess var, að tveir af englum dauðans stóðu við túngarðshliðið. Vita þóttist hann, að þeir mundu ætla heim á bæinn og væru þeir að þinga um það. Þá heyrir hann, að annar engillinn segir: "Hér skal heim og hér skal heim."

Þá segir hinn: "Eigi skal hér heim, eigi skal hér heim."

Þá segir hinn fyrri: "Hér skal heim og hér skal heim."

Þá segir sá seinni: "Eigi skal hér heim, eigi skal hér heim, því að hér skín sankti Máríu ljós í þúfu og hverfum á braut hið bráðasta."

Eftir það hurfu englarnir, en Svartidauði kom þar aldrei. Bóndi færði hinni heilögu Maríu lof og þakkargjörð fyrir hennar dásemdarverk. Þessi bær heitir síðan Skinþúfa.

Eigandi jarðarinnar breytti nafni hennar árið 1908 og nefnir hana síðan Vallanes. Skinþúfunafnið var þá orðið afbakað í Skinnþúfa, en hann þekkti ekki sögnina um uppruna þess.(Þjóðsagnasafnið Rauðskinna)

Netútgáfan - nóvember 2000