STRAUMFJARÐAR  -  HALLAEitt sinn sendi Straumfjarðar-Halla vinnumenn sína til sláttar upp á Mýrar að vatni því, sem Heyvatn er kallað; heitir þar Ljónsnes, og áttu þeir að slá það, og lét hún þá liggja þar við tjald.

Þar stendur steinn einn, og er hann kallaður Grásteinn; á þenna stein bauð Halla vinnumönnum sínum að leggja ljáina á hverju kvöldi, þegar þeir hefðu slegið þá úr orfunum, og mundu þeir þá finna þá á steininum dengda á hverjum morgni; en fyrir því tók hún þeim vara að líta aldrei í egg ljáanna.

Gerðu nú vinnumenn hennar eins og hún bauð þeim, og fór svo fram um hríð, að þeir fundu ljáina dengda á steininum á hverjum morgni, og þótti þeim þeir bíta eins og þeim væri drepið í vatn. Fór nú einn vinnumann Höllu að gruna, að eitthvað mundi Höllu hafa til gengið, þar sem hún bannaði þeim að líta í eggina á ljáunum, og vildi hann því vita, hvernig færi, ef hann brygði út af boði hennar, og lítur því í eggina á ljá sínum. Sér hann þá, að ljárinn er ekki annað en mannsrif, og á sama vetfangi fer eins með alla hina ljáina, að þeir verða að mannabeinum; og hljóta þeir því að hætta slættinum og fara heim, og mislíkaði Höllu það mjög.

Einu sinni sem oftar kom skip út í Hraunshöfn vestra, það er í grennd við þann stað, sem Búða-verslunarstaður nú stendur á. Halla vildi finna kaupmann og fá ýmsar heimilisnauðsynjar sínar hjá honum, því hún var jafnan vön að skipa vel til búsins. Fór hún því nú með marga hesta í lest kaupstaðarferð vestur í Hraunshöfn og lét auk þess reka tólf sauði gamla vestur til að selja kaupmönnum þá.

Fór hún sem leiðir liggja, fyrst upp undir fjöll og síðan út sveitir, sem þar verða fyrir; kom hún við í Hraundal hinum ytri; þar bjó þá Ólafur, fóstursonur hennar. Þegar Ólafur sér Höllu og lest hennar og hvað á var, segir hann: "Hart er í böggum, fóstra." Þá segir Halla: "Þegi þú, strákur, nógu mikið hef ég kennt þér."

Þaðan heldur Halla áfram ferð sinni, og segir ekki af ferð hennar, fyrr en hún kemur í kaupstaðinn og finnur kaupmann. Leggur hún inn allmikið af smjöri og tólg og sauði þá, sem hún hafði með sér. Tekur hún síðan út hjá kaupmanninum það, sem hún vildi og hún gat komið á lestina; býr hún nú upp á lestina og fer síðan á stað.

En þegar hún var komin á stað, verður kaupmanni litið á vöru þá, sem hann hafði fengið frá Höllu; var þá smjörið og tólgin orðin að grjóti og sauðirnir að músum. Hafði Halla gjört þá sjónhverfing, að grjótið sýndist smjör og tólg, en mýsnar sauðir.

Þegar kaupmaður varð var við þessa pretti, brá honum mjög í brún og safnaði þegar mönnum og veitti Höllu eftirför. En þegar Halla verður vör við eftirförina, slær yfir niðdimmri þoku, svo hvergi sá. Þó náðu leitarmennirnir Höllu og lest hennar við Haffjarðará, en hún villti þeim svo sjónir, að þeir sáu ekki annað en móa og kletta, þar sem hestar hennar voru. Urðu þeir að hverfa svo aftur, að þeir fundu hvorki Höllu né föruneyti hennar; en hún hélt tálmunarlaust áfram og komst með heilu og höldnu heim í Sraumfjörð.


Netútgáfan - apríl 1997