UM  ÞORGEIRSBOLAHér um bil á miðri 18. öld var sá maður uppi í Fnjóskadal, sem Þorgeir hét; hann var fæddur á Skógum á Þelamörk og var ógiftur og vinnumaður á ýmsum bæjum þar í dalnum, tryggur og blíður við vini sína, en harður og hefnigjarn við þá, sem gjörðu móti skapi hans, og það höfðu menn fyrir satt, að hann mundi vera býsna göldróttur.

Þess er getið, að eitt sinn bað hann sér konu þar í dalnum eður í næstu sveit, en konan vísaði honum frá; varð honum skapþungt af þessu og heitaðist við hana.

Eftir þetta er mælt hann hefi fengið sér flegið kálfshöfuð, sumir segja nautsklauf, og komið þar í hundslöpp; en hvort sem var, kvað hann þar yfir galdra og magnaði það svo með fjandans krafti, að af því átti að verða draugur sá í nautslíki, sem síðan var kallaður Þorgeirsboli. Er svo mælt, að hann hafi átt að senda þenna ófagnaðar-gest konu þeirri, er honum synjaði ráðahagsins við sig, og hafi boli átt að eiga við hana, þar til hún hafi dáið af viðureign hans. Sumir segja, að það hafi komið niður á systur hennar, og vitum við eigi, hvort sannara er.

Eftir þetta þorðu menn ekki að mæla í miðjum hlíðum við Þorgeir, því ef ekki var gjört að vild hans, var honum ekki ótamt að grípa til heitinga. Nokkru síðar giftist hann og bjó á Végeirsstöðum í Fnjóskadal tuttugu og sjö ár og átti þar nokkur börn; þaðan flutti hann búferlum að Leifshúsum á Svalbarðsströnd, og er þá mælt, að mönnum hafi þótt vaxa reimleiki í héraðinu, því boli fylgdi jafnan Þorgeiri og börnum hans.

Menn þóttust sjá hann og verða varir hans bæði vakandi og sofandi; sumir þeir, er ekki sáu hann, heyrðu hann oft baula með dimmri rödd, og virtist það þá oftast vera eins að heyra og niður í jörð undir fótum þeirra. Oftast þóttust menn sjá hann í nautslíki og svo útlítandi sem fleginn væri bæði hausinn og svo allur skrokkurinn og lefði húðin öll aftan við hann og sýndist holdrosan jafnan snúa út, og dróst svo þessi dræsa á eftir honum þar, sem hann fór. Stundum þótti mönnum hann vera í ær- eður kýrlíki með ýmsum litum; var hann þá oft að bera kálfi eður lambi og komst mjög við í hríðunum og emjaði sárt, en færu menn að forvitnast um þetta, var allt á sama augnabliki horfið. Stundum sýndist hann sem hundur eða köttur o. s. frv.

Það er sagt, að flysjungur nokkur hafi átt að hafa í flimtingi við Þorgeir eitt sinn, að sveit sín væri nautlaus, og spurt, hvort ekki fengist naut hjá honum; þetta hafi Þorgeiri gramist og sagt hann skyldi ekki oftar biðja sig um naut, en eftir það hafi maður sá átt að deyja voveiflega, og héldu sumir, að Þorgeirsboli mundi hafa séð ráð fyrir honum.

Það er haft eftir Þorgeiri á efri árum hans, að hann þyrfti að nýja bola sinn upp aftur, því hann væri í standi til að verða manns bani, og það þóttust menn fyrir víst vita, að hann hefði svo gjört, því það virtist umgangur hans vaxa um tíma í sveitinni, svo fénaði og gripum var ekki með öllu óhætt fyrir beinbroti eður ónáttúrlegum flogum, ef það varð á vegi þar, sem hann fór sem fylgja undan Þorgeiri eða afkomendum hans og tengdamönnum; þó var sagt, að umgangur þessi hefði dofnað að nokkrum tíma liðnum. Eftir þetta þóttust menn verða þess varir, að Þorgeir væri að tala við bola sinn á næturnar og spyrja hann að, hvort hann væri í nýja eða gamla belgnum sínum núna, en ekki heyrðu menn honum væri neinu svarað.

Til sanninda um það, hvað fast boli fylgdi Þorgeiri og hans fólki, er það sagt, að eitt sinn hafi gamall maður gengið út úr bæ sínum um næturtíma, hafi hann þá þótst sjá Þorgeirsbola í hlaðvarpanum og þar með Húsavíkur-Lalla og Eyjafjarðar-Skottu; réðust þau bæði í senn á bola, og urðu miklar sviptingar; honum sýndist bola veita heldur miður, því húðin flæktist aftan við hann og um fætur honum, en skrokkurinn sýndist sem nýfleginn og allur blóðrisa. Karlinn horfði á þennan leik stundarkorn, en vísaði þeim síðan öllum til neðstu byggða. En rétt að þessu búnu kom ættingi Þorgeirs.

Það er líka haft eftir einni kerlingu, að hún þóttist sjá bola hlaupa heim að bæ þeim, sem hún var á, með uppsperrtan halann á undan ættmönnum Þorgeirs. Önnur kerling þóttist sjá svipi nokkurra sjódauðra manna, sem voru nýdrukknaðir, flakka þar um sjóarbakkana og teyma Þorgeirsbola milli sín, og taldi hún þetta bæði manna og óveðra fylgjur.

Svo bar við á bæ nokkrum í Fnjóskadal, að drengur átta vetra ætlaði út úr bænum seint um kvöld, en þegar hann kom í bæjardyrnar, sýndist honum grár hestur standa á hlaðinu; honum sýndist hann hryggbrotinn, svo kviðurinn náði ofan að jörð, og skorin af honum bæði eyrun og svo sterturinn og væri hann svo blóðugur bæði aftan og framan. Drengurinn varð hræddur og hljóp inn og sagði frá og sagðist ekki vita, hvaða skelmir hefði farið svona með skepnuna, og beiddi fólkið að fara út og sjá. Það brá við og fór út, en sá ekkert; var svo leitað kringum bæinn og um túnið, og sást ekkert, en í sama vetfangi kom dóttir Þorgeirs og beiddi gistingar, og þóttust menn þá vita, að þetta hefði verið Þorgeirsboli.

Á bæ í Höfðahverfi átti fulltíða maður að sækja kýr seint um kvöld að áliðnu sumri, en þegar hann rak kýrnar yfir túnið heim að bænum, sýndist honum koma gráskjöldóttur nautkálfur hlaupandi og í sömu svipan ríða annarri kúnni. Hann sá kúna fara saman í hnipur og heyrði hana reka upp ógnarlegt og ámáttlegt öskur, en um nóttina lét kýr þessi kálffangi sínu með miklum býsnum. Snemma um morguninn kom að þessum bæ mágur Þorgeirs og fór sömu götuna og hinn maðurinn rak kýrnar kvöldinu áður, og eignuðu menn þetta Þorgeirsbola.

Frá uppruna bola segja sumir menn nokkuð öðruvísi:

Þorgeir hét maður, sem margir kölluðu Galdra-Geira; bróðir hans hét Stefán, kallaður Kvæða-Stefán, því sagt er, að hann kvæði og syngi viðbrigða vel; þeir voru Jónssynir. Hinn þriðji maður er enn nefndur, sem Andrés hét; hann var móðurbróðir þeirra bræðra; voru þeir allir úr Fnjóskadal og reru haustvertíð í Hrísey á Eyjafirði. Þessir menn er sagt, að hafi starfað allir að því að búa bola út.

Sagt er, að Þorgeir fengi sér kálf nýborinn hjá konu þar á eynni, skar hann síðan, þar sem honum þótti hentast, fló hann aftur á malir, sumir segja aftur af mölum, svo hann drægi skinnið allt á rófunni, og magnaði hann með fjölkynngi. Þó þótti þeim frændum þetta ekki nóg að gjört, heldur létu þeir í benina af átta hlutum, af lofti og af fugli, af manni og af hundi, af ketti og af mús og enn af sjókvikindum tveimur, svo níu voru náttúrur bola með nautseðlinu. Gat hann því jafnt farið loft sem lög og láð og komið fyrir sjónir í öllum þeim myndum sem í honum voru náttúrur og eftir því sem honum þóknaðist. Þó boli væri svo útbúinn sem nú var sagt, þótti Þorgeiri ekki ugglaust, að hann kynni að verða yfirstiginn; fékk hann sér því sigurkufl af barni og steypti yfir hann.

Konu þá, er Þorgeir vildi eiga, nefna sumir menn Guðrúnu. Er ein saga af bola á þessa leið: Einu sinni var Guðrún stödd við kirkju; kvaldi þá boli hana svo í kirkjunni, að hún hafði engan frið og fékk svo hörð flog, að henni lá við meiðslum. Gekk þá maður út úr kirkjunni og sá, hvar boli lá á húshlið; önnur hlið hússins sneri að kirkjunni, en á hliðinni, sem frá sneri, lá boli og hafði granirnar upp á húsmæninum, svo maðurinn sá í opnar nasir hans. Sýndist honum leggja gráan streng úr nösunum og út að kirkjunni. En þegar maðurinn kom svo langt, að hann sæi á hina hlið hússins, var skrokkurinn á bola að hverfa burtu af húsinu.

Sagnir eru um það nyrðra, að þau Húsavíkur-Lalli og Eyjafjarðar-Skotta, heldur en Hleiðrargarðs-Skotta, hafi slegið sér saman við Þorgeirsbola og ekið fram endilanga Fnjóská; en það var húðin af bola, sem þau Lalli og Skotta sátu á, en boli dró allan drösulinn á halanum."Netútgáfan - nóvember 1997