UMMÆLI  Á  BREIÐABÓLSTAР Í  FLJÓTSHLÍÐHinn seinasti pápiski prestur á Breiðabólstað hét Þorleifur Eiríksson. Var hann skipherra fyrir skútu Skálholtsstaðar á dögum Ögmundar biskups.

Að vísu undirgekkst hann að taka Gizur biskup Einarsson fyrir formann sinn og réttan biskup. En eftir hrakninga Ögmunds biskups og þann hluta sem Gizur fóstri hans þótti hafa átt að því máli fór honum ekki að lítast á blikuna, og á Miðdalsprestastefnu 1542 skoraðist hann alveg undan að undirgangast annan kennimannsskap en hann hefði gjört í fyrstu; varð hann þá að sleppa staðnum.

Þótti það þá eins og endrarnær fádæmi að nokkur léti embætti og atvinnu í sölurnar fyrir trú sína og vakti bæði meðaumkvun og virðingu fyrir hinum aldurhnigna öldungi. Enda hafa umskiptin orðið snögg því eftirmaður hans var séra Jón Bjarnason einhver hinn öruggasti forgöngumaður hins nýja siðs og hinn harðfengasti mótstöðumaður Jóns biskups Arasonar sem kunnugt er.

Þá er mælt að séra Þorleifur hafi lagt það á Breiðabólstað að hann skyldi aldrei verða prestum að góðum þrifum þaðan í frá. Sumir segja hann hafi þó bætt því við að þessi ummæli skyldu missa kraft sinn þegar einhver af hans ætt fengi staðinn svo sá óréttur væri bættur sem honum hefði verið gjörður.

Tilnefnd eru tvö börn séra Þorleifs, Pétur og Emerantína er átti Erlend son Jóns Hallssonar skálds og Hólmfríðar Erlendsdóttur, og er mælt að Stórólfshvolsætt hin forna og Bauka-Jón sé af henni komin.

Til þessa bendir séra Jón Halldórsson frá Hítardal þar sem hann segir í prestatali Skálholtsstiftis: "Haldið hafa gamlir menn það að Breiðibólstaður hafi ei verið prestum þar svo heppinn sem hann er inntektamikill, síðan séra Þorleifur gaf sig frá honum," og til hins sama bendir séra Tómas Sæmundsson í riti sínu um úttektir þar sem hann segir að það hafi verið alþýðutrú að bölvun og formæling lægi á sumum hinum stærstu stöðum. Enda ganga ummæli séra Þorleifs í sögnum allt til þessara tíma.(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - júní 2001