GALDRAMENN  -  EIRÍKUR  Í  VOGSÓSUM


======================
VOGSÓSATAÐANEinu sinni sem oftar komu vermenn til séra Eiríks og gistu um nótt hjá honum. Þeir fengu hey handa hestum sínum, en þóktust ekki fá nóg svo þeir stálu töðu frá Eiríki í viðbót handa þeim.

Um morguninn eftir fóru þeir leiðar sinnar; varð þá á fyrir þeim skammt frá garði á Vogsósum; þar fóru hestarnir að drekka. Gátu vermennirnir ekki núið þeim úr sporunum og voru hestarnir þarna allan liðlangan daginn að drekka.

Um kvöldið sneru mennirnir heim aftur að Vogsósum og beiddu Eirík að lofa sér að vera. Hann gjörði það, en segir um leið: "Þykir ykkur ekki Vogsósataðan furðanlega þorstlát, piltar?"

Aðrir segja að einungis einn af vermönnunum hafi stolið töðunni og hafi hann einn orðið að snúa heim aftur að Vogsósum um kvöldið því hestarnir hans hafi verið að drekka allan daginn, en hinir hafi komizt áfram leiðar sinnar; hafi þá Eiríkur sagt við hann um leið og hann lofaði honum að vera um kvöldið:

"Megn er hún Vogsósataðan, enda skaltu aldrei leika þetta oftar, heillin."

Það er og sagt að aldrei stal sá maður töðu frá Eiríki framar.(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - september 2001