VILLTUR  Í  FJÁRHÚSIEinu sinni var maður nokkur, sem átti heima að Tóvegg í Kelduhverfi, að gefa sauðfé sínu seint um kvöld. Þótt dagsett væri, var ekki mjög dimmt, því að veður var heiðskírt. Húshurðin var aftur. Hann gaf í garðann og jafnaði fyrir féð, eins og vant var, og ætlaði svo út. Greip hann varreku eða skákareku, er stóð við garðann, en hana hafði hann haft til þess að bera snjó á henni inn í garðann handa fénu.

Þegar hann ætlaði út, fann hann engar dyr á húsinu, sem þó áttu að vera beint á móti garðahöfði. Gekk svo stundarkorn, að hann þreifaði fyrir sér, en fann ekkert nema sléttan vegginn.

Leiddist honum þóf þetta og mælti hátt við sjálfan sig: "Hvað er þetta? Því get ég ekki fundið neinar dyr á húsinu?"

En er hann hafði þetta mælt, sá hann opnast dyr á húsinu í allt öðrum stað en þær annars voru, þegar miðað var við garðahöfuðið. Hann vissi líka, að þær réttu dyr höfðu ekki getað opnast sjálfkrafa.

Reiddist hann sjálfum sér fyrir ofsjón þessa, henti rekunni fram í þessar dyr, og um leið hurfu þær sjónum hans. Að því búnu sneri hann sér við, gekk rakleitt að þeim réttu dyrum og fann þær á sínum stað. Fór hann við það heim.

Morguninn eftir, þegar hann kom í húsið, ætlaði hann að taka rekuna, en þá var hún horfin, og fann hann hana hvergi, hvernig sem hann leitaði. Leið svo af veturinn. Vorið eftir var húsið rifið, enda var það ævagamalt orðið og farið að viðum.

Þegar verið var að rífa niður annan hliðarvegg hússins, var komið ofan á mannsbeinagrind, og lá rekan horfna hjá beinum þessum. Maðurinn, sem fyrir villunni varð um veturinn, sá, að þetta var einmitt á sama stað, sem dyrnar höfðu opnast fyrir honum. Beinin voru upp tekin og jörðuð í kirkjugarði, og bar aldrei á neinu upp frá því á þessum stað.

- Veit enginn, hvernig á beinum þessum stóð.(Þjóðsagnasafnið Gríma)

Netútgáfan - nóvember 2000