Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is
Ágúst Atlason Ágúst Atlason | 22. október 2008

Truflanir á samböndum

Bilun varð í varaaflgjafa sem tengdur er við hluta netbúnaðar Snerpu í dag kl. 15:10

Þar sem verið var að vinna að undirbúningi á tengingu nýrrar 30kW varaaflstöðvar þegar bilunin varð höfðu þau varakerfi sem eiga að taka við, við svona bilun verið aftengd tímabundið og því varð hluti notenda var við truflunina sem af þessu hlaust.

Fór við þetta samband af öllum ADSL-notendum Snerpu og hluta fyrirtækjatenginga og einnig hluta af örbylgjunotendum.

Fyrstu tengingar voru komnar inn aftur kl. 15:16 og flestar fyrirtækjatengingar kl. 15:18 ADSL-tengingar og hluti örbylgjutenginga tók hinsvegar lengur að koma á aftur en síðustu tengingarnar voru orðnar virkar kl. 15:30

Rofið varði því í um 20 mínútur hjá þeim sem fyrir mestum áhrifum urðu. Önnur þjónusta, s.s. hýsingarþjónusta, varð ekki fyrir áhrifum af þessarri bilun.

Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa valdið notendum.

Eins og áður segir standa yfir breytingar á rafkerfi í vélasal Snerpu vegna tengingar á nýrri ljósavél og af þeim sökum þarf að aftengja varakerfi um stundarsakir og átti þetta m.a. þátt í því að samböndin fóru niður þar sem varabúnaður var óvirkur um stundarsakir.

Á tímabilinu kl. 17-19 í dag verða framkvæmdar frekari lagfæringar til að ljúka viðgerð og er því ekki loku fyrir það skotið að sambandstruflanir gætu orðið í 10-15 mínútur hjá hluta notenda á meðan.

Auk uppsetningar á varaaflstöðinni hefur nú verið tekin í notkun viðbótar kælibúnaður í vélasal með það að markmiði að bilanir í kælibúnaði valdi ekki skertri þjónustu og má geta þess að kæligetan í vélasal getur nú dregið út um 14 kW af varma auk þess sem hægt er að grípa til 3 kW viðbótarafls að auki ef nauðsyn krefur. Eftir þessar breytingar verður mun betra að veita óskerta þjónustu, jafnvel þó að um langvarandi rafmagnstruflanir væri að ræða. Einnig opnast tækifæri til enn frekari aukningar í hýsingargetu Snerpu frá því sem nú er.

Að lokum viljum við nota tækifærið til að benda á að ef ADSL-routerar ná ekki sambandi eftir rof, getur reynst nauðsynlegt að aftengja bæði straum og símasnúru frá honum í stutta stund, en oft dugir ekki að ýta á on/off takkann.

Til baka