Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is

Álfareiðin

Stóð ég úti í tungsljósi, stóð ég út við skóg, -
stórir komu skarar, af álfum var þar nóg.
Blésu þeir á sönglúðra, og bar þá að mér fljótt, -
og bjöllurnar gullu á heiðskírri nótt.

Hleyptu þeir á fannhvítum hestum yfir grund, -
hornin jóa gullroðnu blika við lund, -
eins og þegar álftir af ísa grárri spöng
fljúga suður heiði með fjaðraþyt og söng.

Heilsaði hún mér drottningin og hló að mér um leið,
hló að mér og hleypti hestinum á skeið.
Var það út af ástinni ungu, sem ég ber?
Eða var það feigðin, sem kallaði að mér?

Jónas Hallgrímsson