Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is

Ástarljóð

Ég sá hana fyrst á æskuárum,
ósnortin var hún þá.
Hún fyllti loftið af angan og ilmi,
æsandi losta og þrá.
Síðla á kvöldin við fórum í felur,
mér fannst þetta svolítið ljótt,
en alltaf var þetta meiri og meiri
munaður hverja nótt.

Ég ætlaði seinna að hætta við hana
ég hélt að það yrði létt.
En ég varð andvaka næstu nætur
því nú voru takmörk sett.
Endurminningin örvaði blóðið,
ástin mér villti sýn.
Innan skamms fór ég aftur til hennar
og eftir það varð hún mín.

Hún fylgir mér ennþá svo trygg og trú,
svo tággrönn og hnakkakerrt.
Aldrei hefur hún öðrum þjónað
né annarra varir snert.
Hvenær sem grípur mig hugarangur
hún huggar mig raunum í,
þá treð ég í hana tóbakshnoði
og tendra svo eld í því.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson