Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is

Fylgd

Komdu, litli ljúfur,
labbi, pabba stúfur,
látum draumsins dúfur
dvelja inni um sinn.
-- heiður er himinninn.
Blærinn faðmar bæinn,
býður út í daginn.
Komdu, kalli minn.

Göngum upp með ánni
inn hjá mosaflánni,
fram með gljúfragjánni
gegnum móans lyng,
-- heyrirðu hvað ég syng --
líkt og lambamóðir
leiti á fornar slóðir
innst í hlíðarhring.

Héðan sérðu hafið
hvítum ljóma vafið,
það á geymt og grafið
gull og perluskel,
ef þú veiðir vel.
En frammi á fjöllum háum
fjarri sævi bláum
sefur gamalt sel.

Glitrar grund og vangur,
glóir sund og drangur.
Litli ferðalangur
láttu vakna nú
þína tryggð og trú.
-- Lind í lautu streymir,
lyng á heiði dreymir,
-- þetta land átt þú.

Hér bjó afi og amma
eins og pabbi og mamma.
Eina ævi og skamma
eignast hver um sig.
-- stundum þröngan stig.
En þú átt að muna
alla tilveruna,
að þetta land á þig.

Ef að illar vættir
inn um myrkragættir
bjóða svikasættir
svo sem löngum ber
við í heimi hér,
þá er ei þörf að velja:
þú mátt aldrei selja
það úr hendi þér.

Göngum langar leiðir,
landið faðminn breiðir.
Allar götur greiðir
gamla landið mitt,
sýnir hjarta sitt.
Mundu, mömmu ljúfur,
mundu, pabba stúfur,
að þetta er landið þitt.

Guðmundur Böðvarsson